Færsluflokkur: Vefurinn

Er að pæla í því að banna pólitískar umræður á heimilinu, þær geta verið mannskemmandi.

Einhver bið verður víst á vorkomunni hér í Prag. Mér datt í hug að ef ég færi nú að blogga aðeins um vorið og kvarta þá ýtti það e.t.v. undir komu hlýrra vinda að sunnan.

Eins og Lóan er vorboði Íslendinga þá miða ég vorkumu hér við komu Svalanna að sunnan en það bólar ekkert á þeim eins og er. Hér er enn grátt yfir að líta og hitastigið rétt um sjö gráður.  Æ mig er farið að langa svo til að sjá framan í gula fíflið þó ekki væri nema part úr degi.

Nú kætast margir landar mínir yfir þessari færslu þar sem ég þvæli um uppáhaldsumræðuefni margra, veðrið.

Í gær fengum við góða gesti hingað að Stjörnusteini, vini okkar sendiherrahjónin frá Vín.  Eins og alltaf var sest og rabbað um dægurmálin hér og heima og það sem helst er í brennidepli þessa dagana. Stjörnmál, heimskreppu, útrásarvíkingana, kosningar og framboðslista á ég að telja upp fleira ,,skemmtilegt" áður en ég æli.  Sick  Svona umræður til lengdar geta verið mannskemmandi!

Næst þegar gesti ber að garði ætla ég að banna svona umræður eða eins og gerðist hér um jólin heima hjá okkur í einu boðinu.   Það voru gefnar fimmtán mínútur til að ræða heimsmálin og síðan átti fólk að taka upp léttara hjal. Það voru allir virkilega sátti við það fyrirkomulag.

Við vorum fjarri góðu gamni um síðustu helgi en þá héldu Íslendingar síðbúið Þorrablót í Vínarborg.  Þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem við höfum ekki mætt á þessa skemmtun en gaman var að heyra að hún fór bara vel fram þrátt fyrir fjarveru okkar hjóna.  Við stóðum nefnilega í þeirri trú að við værum ómissandi en svo virðist bara ekki vera og við verðum bara að bíta í það súra epli og sætta okkur við það.  Crying  O jæja það voru víst einhverjir sem söknuðu okkar oggo pínu pons. Wink 

Annars leggst helgin bara vel í okkur og gæti jafnvel alveg hugsast að við fengjum smá sólarglennu þegar líða fer á daginn. 

Njótið helgarinnar við leiki og störf hvar sem þið eruð í heiminum. Smile

 

 


Fyrsta áfanga lokið og allt gengur vel.

Ég er komin heim!  Kvaddi mitt góða aðhlynningarfólk á spítalanum rétt fyrir hádegi og mér fylgdu góðar bataóskir og fyrirbænir á mörgum tungumálum alla leið að útidyrum. 

 Auðvitað var ég líka leyst út með bland í poka þ.e.a.s. góðan pilluforða fyrir næstu viku en þá fer ég í eftirskoðun eins og lög gera ráð fyrir.

Mikið var gott að koma heim. Húsið fullt af kærleik og blómum frá mínum elskulega.  Ég held að hann ætli að hafa mig í bómull næstu daga. Whistling  Hann snýst hér eins og Snúður um Snældu og ég nýt þess í botn að láta stjana við mig.  Búin að lofa að fara hægt af stað.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir góðar kveðjur og hlýjar hugsanir sem komust vel til skila.  Við höfum svo sannarlega fundið fyrir styrk ykkar og trú. Heart

 


Ég bara rugletta.

Svei mér þá ég held að vorið sé alveg að koma.  Þegar ég horfi hér út um gluggann á svítunni minni þá blasir við mér skógi vaxin hlíð og ég get næstum heyrt brumið sprengja sér leið út í milt vorloftið eða er ég bara á lyfjum.  Joyful 

Jú auðvitað er ég á lyfjum en ég er samt alveg viss, vorið er hér handan við hornið það vantar aðeins herslumuninn. 

 Var að pæla í því áðan hvernig ég færi að þegar ég kem heim og komast ekki í vorverkin.  Ætli Þórir verði ekki að binda mig niður og setja mig í spennitreyju.  Aumingja hann,  það verður ekki auðvelt að díla við mig næstu vikurnar.  En eins og þið heyrið er ég farin að undirbúa mig fyrir alla mögulega og ómögulega hluti svo ég geti tekið á þessu með skynsemi.  Ég væri nefnilega alveg tilbúin að ana út í einhverja vitleysu svo eins gott að hafa minn elskulega með fulle femm við hliðina á svona vitleysing.

Jæja díla við það þegar að því kemur.  Annars er ég bara góð og búin að hafa það þokkalegt í dag alla vega eftir að ég fann út hvaða verkjalyf virka best á minn eðalskrokk. 

Kem e.t.v. inn aftur með kvöldinu.  Þetta var bara svona smá færsla út í bláinn eða eins og Þórir Ingi sagði við mig í símann um daginn þegar ég skildi ekki orð af því sem hann var að bulla :  Amma ég bara rugletta.

Ég er ekki að rugletta með vorið, ég sé það koma hér fyrir utan. Cool


Kærar þakkir Professor Pafko!

Bara til að láta ykkur vita að aðgerðin gekk vel og Professor Pafko mjög ánægður með Íslensku kerlinguna sem plummar sig ágætlega eftir að verða ,,lunganu léttari"  (vona að þið getið tekið þessum gálgahúmor mínum)Tounge  Ég hangi nú enn hér inn á gjörgæslu, var að vona að ég fengi að fara inn á ,,svítuna" mína í dag en þeir nenna örugglega ekki að vesenast í því svona á laugardegi svo ég verð víst að vera hér í ,,almenningnum" fram yfir helgi. Halo

Mér líður miklu betur núna eftir að ég veit að búið er að fjarlægja litla ljóta græna karlinn sem var nú ekkert svo lítill, tók yfir hálft vinstra lungað.  Svo er bara að berjast áfram. 

 Takk fyrir allar góðu kveðjurnar og hlýjar hugsanir.  Það voru margir hér sem lögðust á eitt svo þetta færi allt vel,  bæði þessa heims og annars.  Alla vega sagði minn elskulegi að það hefði ekki verið hægt að þverfóta hér á göngunum fyrir ættingjum og vinum.  Ég fann líka vel að við vorum ekki ein hér.  Við vorum bæði mjög yfirveguð yfir þessu öllu.

Nú ætla ég að fara að lesa Moggann og sjá hvort ég hef misst af einhverju þessa daga. 

Kem inn aftur í kvöld og e.t.v. með smá sögu héðan frá gjörgæslunni í Motol.

   


Þar sem forsjónin ræður færð þú engu um breytt.

Þá er þessi dagur að kvöldi kominn.  Allt líður þetta án þess að þú þurfir að hafa nokkurn skapaðan hlut  fyrir því.  Þannig er það bara í henni veslu. 

Það er nú soleiðis að þar sem forsjónin hefur einu sinni sett mann niður, þar verður maður að standa í stykkjunum, hver eftir sínu litla pundi.   Þessa setningu rakst ég á þegar ég var að glugga í Sölku Völku og fannst hún einhvern vegin eiga ansi vel við mig og allt sem hefur gengið á hér undanfarnar vikur.

Í fyrramálið fer ég eldsnemma upp á spítala, eða við verðum að leggja af stað héðan klukkan 6:30 (sem sagt hánótt hjá mér) en það tekur um klukkustund að keyra héðan frá okkur og í hinn enda borgarinnar.  Dagurinn fer sjálfsagt í undirbúning fyrir skurðaðgerðina sem fer væntanlega fram á fimmtudags morgun. 

Ég kem til með að hitta Professor Pafko í fyrsta skipti á morgun en hann kemur til með að framkvæma aðgerðina.  Hann er einn færasti skurðlæknirinn hér á landi og skar Havel forseta upp á sínum tíma.  Dr. Musil sem er lungnasérfræðingur og hefur fylgst með mér undanfarnar vikur kemur til með að vera í tíminu sem ætla að grafa eftir litla græna karlinum og losa mig við þann óþverra. 

Mér fannst ég nú vera að pakka fyrir helgarferð áðan þegar ég lét ofan í tösku, handklæði, sápu, klósettpappír og fleira sem er nauðsynlegt fyrir konu að hafa með sér að ógleymdum fínu náttfötunum.  Ekki það að það sé ekki sápa eða WC pappír til boða á sjúkrahúsinu en mér var ráðlagt að taka minn pappír, hitt sem í boði væri kæmi til með að rispa jafnvel minn dúnmjúka bossa.  

Það er búið að lofa mér einkastofu sem ég vona að ég fái.  Það væri ekki nema að inn kæmi sjúklingur í lungnafluttning þá verð ég að láta stofuna eftir sem er auðvitað ekkert nema sjálfsagt.

Ég veit ekki hvort  ég verð tölvutengd næstu daga eða vikur svo ég vil nota tækifærið núna og þakka ykkur öllum sem stutt hafa mig undanfarnar vikur. Allar hlýju kveðjurnar og góðar hugsanir.  Þetta hefur verið mér ómetanlegur stuðningur. 

Stórt kærleiksnús á ykkur öll og blessun Guðs fylgi ykkur öllum.  


Búið að taka af mér ráðin og fata mig upp fyrir miðvikudaginn.

Ég er ein af þessum pjöttuðu konum sem sef ekki nema í silki og helst með svona smá blúnduverk hingað og þangað.  Náttföt eru ekki í myndinni já nema þá stuttar buxur og ermalausir toppar það gengur.  Mér finnst bómullarnáttföt þvílíkt ósexý svo ég hef nú ekki átt slíkan fatnað síðan ég var krakki og hafði ekki ætlað mér að fjárfesta hvað þá að klæðast slíku dóti.

 En í dag voru tekin af mér ráðin.

Það er nú búinn að vera smá undirbúningur fyrir þessa bæjarferð í dag, ja alveg síðan dóttir okkar kom til að stjórna heimilinu. 

Hún tilkynnti mér fljótlega eftir að hún kom að ég gæti ekki verið í mínum silki náttfötum á spítalanum það væri algjört must að kaupa ekta bómullarnáttföt og við færum í þann leiðangur á mánudaginn, sem sagt í dag. 

Ég fékk svona vægt áfall bara við tilhugsunina að fara að klæðast einhverjum rósóttum náttfötum frá M & S eða álíka magasíni.  Reyndi alveg eins og ég gat að mótmæla og reyna að koma henni í skilning um að mér myndi ekki festast blundur á brá í einhverju sem héti bómull.  Hvort hún vildi verða þess valdandi að móðir hennar yrði dópuð öll kvöld með svefnlyfjum þarna á spítalanum.  Svo yrði mér svo heitt í svoleiðis múnderingu og gæti fengið útbrot og því fylgdi kláði. 

Alveg sama hvað ég reyndi að streitast á móti bómull skildi það vera.  Svo miklu þægilegra ég ætti eftir að þakka henni eftir á og blablablabla....  Ég gafst auðvitað upp og í dag var FARIÐ MEÐ MIG til að kaupa náttföt eftir að hún hafði samþykkt að ég fengi að velja verslunina.  Ég færi ekki inn í eitthvað magasín hér, ekki að ræða það!  Svo það var keyrt niður á Prarizka og þar voru keypt tvenn BÓMULLARNÁTTFÖT!!!  en elskurnar mínar ég fann sko náttföt  sem voru með fyrirkomulagi eins og það heitir á Jennísku.  Pínu silki hér og smá dúllerí þar, bara ansi ,,lekker"  fyrir bómullardress. Þannig að ég tapaði ekki alveg baráttunni við mitt sjálfstæði. 

Á eftir fórum við saman mæðgurnar í hádegismat og síðan var keyrt heim þar sem úthaldið er nú ekki meir en þetta.

Já gleymdi að segja ykkur að það átti líka að rífa af mér inniskóna. 

 - Sko mamma þú ferð ekki með þessa skó.

- Nú hvers vegna ekki?

- Vegna þess að þeir eru með hæl. 

- Hæl?  Þetta kallar maður nú ekki hæla elskan, bara svona smá lyftingur

-Alveg sama þú kaupir flatbotna.

Þá fékk ég allt í einu stuðning frá mínum elskulega.  -Já en mamma þín hefur aldrei getað gengið á flatbotnuðu.

Ég hefði getað knúsað hann í tætlur enda var ekki oftar minnst á skókaup svo ég fer með mína góðu inniskó.

Nú er kominn svefntími á þá gömlu og býð ég ykkur öllum góðrar nætur og Guð geymi ykkur öll.


Litla hryllingsstofan

Á meðan ég bíð eftir því að Soffía min komi hingað til mín, en hún er væntanleg frá Köben núna klukkan hálf niu, þá ætla ég að nota tímann til að setja hér inn nokkrar línur.

Get varla beðið eftir að fá að knúsa stelpuna mína sem ætlar að vera hér hjá okkur í nokkra daga mömmu sinni til skemmtunar.

Ég hef sagt það hér áður að ég hefði verið alveg hræðilega á móti allri læknaþjónustu hér alveg frá því að ég varð nauðbeygð að fara til tannlæknis árið 1991.  Síðan við fluttum hingað höfum við sem betur fer verið fílhraust og lítið sem ekkert orðið að nota þessa þjónustu. En svo þið skiljið aðeins betur hvað ég er að fara þá ætla ég að skella hér inn tannlæknasögunni frá sumrinu 1991.

Ég vaknaði um morgun og fann að ég var komin með bullandi tannrótarbólgu.  Ég var búin að hafa vandamál með tennurnar mínar í nokkur ár og tannrótarbólga ásamt tannlosi var ansi leiðinlegur kvilli.

Jæja hugsaði ég nú verð ég víst að biðja einhvern að leita fyrir mig að tannlækni því ekki get ég verið svona lengi. Ég kom mér niður á skrifstofu og spurði bókarann okkar hvort hann vissi um einhvern góðan tannlækni sem gæti tekið mig inn í einum grænum.   Árið 1991 var ekki búið að opna nein einkaklinik og þeir útlendingar sem hér bjuggu leituðu yfirleitt á heimaslóðir eftir aðstoð ja nema í neyð og þetta var algjört neyðarúrræði hjá mér.

Eftir nokkur símtöl sem hvert um sig tóku um hálftíma, Tékkar verða alltaf að ræða málin rosalega mikið og allir vita best, fann Mr. Pikous loksins tannlækni sem gat tekið mig strax.

Þegar ég kom á stofuna fékk ég fyrsta sjokkið.  Hvert sæti í biðstofunni var skipað.  Fólkið hálf húkti á stólunum og sumir jafnvel dottuðu.  Einn gluggi var í enda herbergisins en það sást ekkert út fyrir stórum lufsulegum pottaplöntum, þið vitið þessar gúmmíplöntur sem ég skil ekki hvernig fólk getur haft nálægt sér.  Ég fæ alltaf hroll þegar ég sé svona plöntur á læknastofum.  Sem betur fer er þetta alveg að verða liðin tíð.

Mr. Pikous (bókarinn okkar) gekk beint að dyrunum og bankaði.  Eftir dálitla stund var opnað og viti menn okkur hleypt inn á undan öllum hinum.  Þarna var örugglega búið að múta fyrir fram þó ég gerði mér nú ekki grein fyrir því á þeirri stundu.

Þá kom annað sjokkið.  Við mér blasti tannlæknastóll á miðju gólfi örugglega frá 18. öld.  Brúnt leðrið var næstum flagnað af, stálskemill fyrir fæturna og höfuðpúðar þið vitið eins og eyrnaskjól.  Þarna átti ég að leggjast og vegna þess að ég er svo asskoti samvinnuþýð eða ég var hreinlega ekki alveg með sjálfri mér settist ég í þennan antik stól og opnaði munninn. Ég man að mér fannst ég vera í pintingarstól þar sem eyrnaskjólin þrýstu svo fast að höfðinu að mig sundlaði.

Um leið og tannlæknirinn sem var sjálfsagt svona milli fimmtugs og sextugs beigði sig yfir mig var ég næstum köfnuð úr svitafýlu og brennivínslykt.  Ég opnaði samt munninn, alltaf jafn samvinnuþýð og hann skoðaði eitthvað upp í mig.  Hann rétti síðan úr sér og sagði eitthvað á tékknesku við Mr. Pikous sem stóð þarna til hliðar eins og öryggisvörður.  Mr. Pikous túlkaði síðan.  Það yrði að rífa allar tennurnar úr mér, hverja og einu einustu. Ekki seinna en núna!!! 

Það var eins og ég vaknaði úr dvala ég hentist upp úr pintingartækinu og skipaði fyllibyttunni að skrifa upp á penesillin og nóg af því og með það rauk ég á dyr án þess svo mikið sem borga krónu enda hann örugglega búin að fá allt of mikið fyrir sinn snúð.

  Eftir þessa lífsreynslu hjá tannlækni fór ég reglulega heim þar til ég fann Dr. Kuvik en það var nokkuð mörgum árum seinna sem mér var bent á hann af Austurrískum vini okkar hjóna. Það er honum að þakka að ég get enn brosað án þess að vera hrædd um að missa allt út úr mér.

Þá er þessari sögustund lokið að sinni.  Eigið gott kvöld kæru vinir. 

Soffa mín er alveg að lenda og þá verður hún komin í fangið á mér eftir klukkustund eða svo.

 


Öðruvísi mér áður brá

Hvað ef hér væri ekki nettenging aðeins sími sem væri hleraður og faxtæki sem virkaði eftir dúk og disk? Væri bara ekki lífið auðveldara?  Alla vega væri umræðan á heimilinu ekkert í líkingu við  það sem hún er í dag.

  Ætli það séu nema þrjú ár síðan við fengum almennilega nettengingu.  Áður komu íslenskar fréttir í stakato útfærslu sem engin nennti að fylgjast með. Okkar fréttasöð var CNN og Sky og við vorum sátt við það. Fréttir að heiman bárust með vor og haustskipunum ef svo má segja.  Einstaka sinnum var síminn notaður en þá sérstaklega til að fylgjast með ættingjum heima. Og okkur fannst við ekkert vera utanveltu, fannst jafnvel þegar við komum heim að fólkið talaði um það sama og síðast þegar við litum við.  Sem sagt allt í ró og spekt og himnalægi.

Í dag glymja hér þrjár íslenskar útvarpstöðvar í takt við hvor aðra þ.e. Rás eitt og tvö og Bylgjan allan liðlangan daginn.  Tvær heimilistölvur eru rauðglóandi svo liggur við að þær brenni yfir einn daginn.  Síminn hringir í tíma og ótíma. - Ertu að horfa á sjónvarpið?  -Hvað finnst þér? Vááááá.......   

Umræðuefnið á heimilinu, ja hvað haldið þið?   Ekki það að ég taki ekki líka þátt í þessu, o svei því, jú ég geri það af fullum krafti, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður.  Núna t.d. bíð ég í ofvæni eftir nýjustu fréttum að heiman.  Horfi á klukkuna og bíð eftir ellefu fréttum.  Andsk......... verð að fara að hætta þessu ég hvort eð er breyti engu um ástandið.

Sko vissi ég ekki, ýtti ,,alveg óvart"  á plús takkann.  Ekkert fréttnæmt, bíða til klukkan tólf!

Vildi óska þess að það væri komið vor.  Ég er ekki janúar-febrúar manneskja.  Vildi helst leggjast í hýði eins og björninn.

 En nú er bara að þreyja Þorrann og líta á björtu hliðarnar.

 

 


Lítil fátæk þjóð sem allir vilja heimsækja.

Síðan gáfu þeir honum að éta af því þeir sögðu að Íslendingar þyrftu alltaf að lifa á bónbjörgum frá útlendum þjóðum annars dræpust þeir skrifaði skáldið. 

Um daginn var ég spurð hvort ég ætlaði ekki að fara aftur með hóp héðan til Íslands. Við þyrftum örugglega á öllu að halda núna þar sem landið væri farið á hausinn.  Þetta kom svona eins og köld gusa framan í mig.   Ja það er nú ekki farið á hausinn sagði ég og innra með mér sauð reiðin.

- já en er ekki rosalega gott fyrir ykkur að fá útlendinga núna með gjaldeyri og lappa aðeins upp á aumingjaskapinn.  (tek fram þetta var ekki svona orðrétt en næstum því)

´-jú sjálfsagt er það það svaraði ég en ég hef nú ekkert pælt í því að vera með skipulagðar verslunarferðir heim.  En ef þú hefur áhuga á landinu sem slíku og ferðast um þá gæti ég hugsanlega aðstoðað þig með ferðaplan en ekki það að ég sé að fara með hópa heim núna á næstunni. 

Ef til vill snýst mér hugur.  Ef til vill ætti ég að fara að skipuleggja ferðir heim. Ef til vill getur það hjálpað upp á efnahagslífið.  Alla vega sýnist mér vera mikill áhugi hjá þessum útlendingum sem búa hér í Tékklandi. Hvort það er til þess að kynnast okkar fallega landi eða til að geta sagt að það hafi séð þessa guðsvoluðu þjóð veit ég ekki.

Vitna hér í skáldið okkar aftur:

Við Íslendingar erum lítil og fátæk þjóð, og allir útlendingar halda að við séum skrælíngjar og þess vegna hef ég alltaf sagt: Ef við getum einhverja ögn af einhverju tagi, alveg sama hvað lítið það er, þá eigum við að gera það í augsýn als heimsins.


mbl.is Ísland eitt það heitasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundinn fjársjóður - Minning.

Fyrir nokkrum árum flutti móðir mín í þjónustuíbúð eftir að hafa búið í nær fimmtíu ár á sama stað.  Það kom í hlut eldri bróður míns að losa háaloftið þar sem faðir okkar, þá látinn fyrir tíu árum, hafði eitt mörgum stundum án þess að nokkur vissi í raun hvað hann hafðist við. Þetta var svona hans prívat vistavera frá skarkala heimsins.

Þarna uppi kenndi margra grasa og þar á meðal gömul sendibréf skrifuð af föðurafa okkar og ömmu svo og systur pabba.  Þessi bréf eru skrifuð á árunum 1925 - ´30. 

 Nú hefur Kjartan bróðir minn tekið sig til og endurritað nokkur af þessum bréfum og fékk ég þau send á mailinu um daginn. Ég verð að segja ykkur að þetta kom virkilega við viðkvæma strengi. Ég kynntist aldrei þessum afa mínum því hann dó þegar faðir minn var 12 ára. Eitthvað sat í mér frá bernsku að afi minn hefði dáið úr krabba en eitt bréfið sem skrifað er af bróður hans lýsir veikindunum eins og heilablóðfalli.  Við fáum víst aldrei úr því skorið.

Föðurfólk mitt hefur verið mjög vel skrifandi og stílfæring er svo lifandi að maður sér hlutina ljóslifandi fyrir sér.  Jafnvel 17 ára systir pabba míns sem þá lá á Franska spítalanum (1925) skrifar mjög greindarlega og þar kemur svo vel í ljós að hún hugsaði meir um fjölskylduna heldur en sín veikindi.  Hún talar um að hún hafi keypt pund af garni í peysu og sokka handa systkinum sínum en það komi ekki fyrr en með haustinu. Eina sem hún kvartar yfir er heimþrá og vondur matur á spítalanum en allir séu svo góðir við sig.  Þessi frænka mín dó ári seinna úr berklum þá aðeins sautján ára. 

Skemmtilegasta bréfið fannst mér það sem afi minn skrifar 1930 til ömmu minnar þar sem hún dvelur í Reykjavík hjá Dísu dóttur sinni sem þá var komin með berkla.

Þá er hann einn í Vík með föður minn átta ára og talar um að strákurinn borði vel.  Fái grjónagraut í middag og kvöldmat.  Einnig fái hann annað gott með og fullt af nýmjólk.  Hann sé farinn að vinna (sem sagt faðir minn) við að tálga hökk af girðingastaurum og fái 5 aura á stykkið.  Hann kvarti ekki um fótkulda enda hafi afi þæft sokkana hans vel áður en verkið hófst.  Finnst ykkur þetta ekki yndislegt?

Á öðrum stað talar afi minn um að enginn þurfi að svelta á heimilinu um jólin því nóg sé til af mat. Full tunna af kjöti, 9 rúllupylsur, 7 reykt læri, vel full tunna af Fýl og tunnu af blóðmör.   Fyrir utan fisk og mjólkina sem sjálfsagt kom þá frá Suður Vik.  Alsnægtaheimili sum sé.

Þegar þessi bréf eru skrifuð eru flest þeirra börn, afa og ömmu flutt til Reykjavíkur.  Pabbi var orðinn einn eftir heima þegar faðir hans dó 1933 að ég held.  Eftir það flutti amma á mölina með pabba.  Tvær systur pabba dóu ungar önnur úr barnaveiki (held ég) hin út berklum. Sjö komust til manns.

Systkinum föður míns sem öll eru látin varð ekki margra barna auðið. Við vorum 9 frændsystkinin og erum nú aðeins fimm eftirlifandi.  Systur pabba sem voru þrjár eignuðust aldrei börn en tóku okkur frændsystkinin að sér eins og þeirra eigin. 

Þetta var stórhuga fólk, stolt með afbrigðum en með hjartað á réttum stað.

Takk fyrir Daddi minn að hreinrita þennan ómetanlega fjársjóð. 

Blessuð sé minning afa míns og ömmu Kjartans Finnbogasonar og Ingibjargar Jóhannsdóttur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband