Færsluflokkur: Bækur

Nú fer að renna úr penna Þráins

Vinur okkar,rithöfundurinn, myndlistamaðurinn og háðfuglinn Þráinn Bertelsson er kominn í íbúðina okkar og sestur við skriftir. Þrátt fyrir einlæga ósk okkar um að hann dveldi frekar í Listasetrinu þessar vikur var það ekki til umræðu.  Vildi frekar vera innan um ,,alþýðufólk" enda vanari borgarþys en lognmollu sveitarinnar. 

Vertu velkominn gamli vin.  Nú lyftist brúnin á mínum elskulega.  Hann er búinn að sakna líkamsræktar- og Shusi félagans þessi líka ósköp. 


Þrjú spælegg á disk og deginum reddað

Á náttborðinu mínu ofarlega í staflanum liggur opin bók á hvolfi.  Á bókarkápunni er mynd af renglulegum unglingi í flauelisjakka með kolsvört sólgleraugu  og hendur í vösum heimspekingslegur á svip.  Þetta er minnisbók Sigurðar Pálssonar sem ég hef verið að glugga í svona af og til undanfarna daga. 

Ég var aldrei sérlega hrifin af skáldinu Sigurði hér áður fyrr, ljóðin hans höfðuðu ekki beint til mín eða ef til vill kafaði ég ekki nógu djúpt til þess að skilja og satt best að segja langaði mig ekkert sérstaklega til að lesa þessa bók en verð að viðurkenna að ég hef haft mjög gaman af opna bókina öðru hverju. 

 Minningabrot frá þessum árum ´67 - ´72 sem maður var eiginlega búin að setja ofaní skúffu gleymskunnar.  Byltingaárin, Bítlaárin, unglingsárin.  Þessi brjálaði skemmtilegi tími allt þetta rifjast upp við lestur bókarinnar. Ef einhver hefur gleymt Janis Joplin, Jimi Hendrix eða Otis Redding endilega flettið bókinni og þetta rifjast allt upp aftur og meira til.      


Thriller Þráins Bertelssonar

Snilldarvel skrifaður ,,Thriller" Þráins Bertelssonar, Englar dauðans héldu mér negldri niður í stólinn langt fram eftir nóttu.  Djúpur undirtónn úr heimi fíknar kemur vel fram svo og sem betur fer lúmsk kímni Þráins sem öðru hverju lyftir lesendanum upp úr sollinum. 

Hlakka til að fylgjast með Víkingi Gunnarssyni á komandi árum.  Innilega til hamingju Þráinn minn.


Þegar vindur gnauðaði úti og kuldinn herjaði á merg og bein..

..sat ég inni við arineld og las Harðskafa, dálítið kuldalegt heiti á bók og átti vel við aðstæður hér úti fyrir.  Bókin var svo sem ekki slæm og ekki góð.  Arnaldur hefur oft sent frá sér betri bækur, verð ég nú að segja.  Dálítið fannst mér hún langdregin á köflum svo og að ég gat mér fljótlega til um endinn og fannst mér það miður. Sakamálasögur eiga að koma manni að óvörum annars er ekkert fútt í þeim. 

Nú er ég að byrja á bókinni hans Þráins, Englar dauðans.  Finnst hún lofa góðu en segi ekkert fyrr en ég hef lokið við bókina. 


Bíbí og konfekt við arineld

Síðastliðna nótt kláraði ég bókina hennar Vigdísar Grímsdóttur um æviferil Bíbíar Ólafsdóttur. Það tók dálítið á að lesa um viðburðaríka ævi þessarar konu og Vigdís kemur frásögn hennar til skila á einlægan og áhrifaríkan hátt.

Ekki veit ég hvort það voru áhrif við lestur bókarinnar eða bara hrein græðgi sem gerði það að verkum að ég úðaði í mig konfekti á meðan ég gleypti í mig síðu eftir síðu. Ég er ekki mikið fyrir sælgæti en ég bara gat ekki hætt að stinga upp í mig mola eftir mola.  Ef til vill var ég að bæla frá mér óæskilegum hugsunum sem leituð á mig öðru hvoru eða einhver var þarna úti sem langaði svo mikið í súkkulaði.  Hef ekki hugmynd en þetta var óneitanlega dálítið einkennileg hegðun af minni hálfu.

Vigdís hafðu þökk fyrir að koma þessu á blað, hefur örugglega ekki verið átakalaust.    

    


Þráinn Bertelsson með nýja bók

Í dag kom út ný bók eftir vin okkar Þráinn Bertelsson og ég og minn elskulegi óskum honum innilega til hamingju.  Hér ríkir mikil eftirvænting að fá að líta þetta verk augum og verður örugglega slegist um hver fær fyrstur að lesa.

 Ég hef haft það á tilfinningunni að þessi bók eigi eftir að slá í gegn, veit ekki af hverju en stundum fæ ég mjög sterk hugboð sem yfirleitt sannreynast.  Þráinn minn til hamingju með ,,skrudduna" þína eins og þú orðaðir það sjálfu hér áðan í póstinum. Held að þetta sé aðeins meira en einhver skrudda heillakallinn. 


Af hverju gera ekki allir bara hreint fyrir sínum dyrum í orðsins fyllstu? Nú eða beita sektum?

Í blaði allra landsmanna í dag er enn verið að tala um sóðaskap og illa umgengni í borginni okkar.  Borgaryfirvöldum og Lögreglu er kennt um allan ósómann. Jú veitingamenn fá líka að heyra það svo og hinn almenni borgari.  Við hér í stórborginni rekum 100 manna útiveitingastað og eigum í engum vandræðum með að halda öllu í horfinu.  Starfsmenn okkar eru skyldugir til að hreinsa gangstétt og götuna sem tilheyrir okkar umdæmi um leið og fyrsti maður mætir á svæðið. Þetta á við allt árið umkring ekki einungis um háannatímann.

 Allt í kring um okkur eru pöbbar og búllur sem opnar eru langt fram á nótt.  Auðvitað geta veitingamenn ekki fylgst með öllum sem fara út með glös en hér eru ruslafötur á hverju horni og snemma á morgnanna koma hér götusóparar og vinna við að þrífa allan daginn.

Sem gestur í mínu heimalandi sá ég hversu hræðileg umgengnin er í borginni okkar.  En halló!  Eftir reykingabannið settu nokkur veitingahús út borð og stóla og á þeim var öskubakki, bara svona venjulegur með engu loki.  Virkar auðvitað rosalega vel heima í norðangarranum!  Hvað eru veitingamenn að hugsa?  Ég sem reykingamanneskja fór á nokkra vel þekkta matstaði í borginni og tveir af þeim voru ekki með nein ílát fyrir stubbana.  Á einum slíkum stað fór fólk í skjól fyrir hornið á staðnum og var búið að gera einhverskonar plastþil til varnar vindum og regni.  Engin ílát fyrir stubba, nei þarna var rennusteinninn sem virtist hafa verið skóflað frá hellunum yfirfullur af stubbum. Hreint úr sagt ógeðslegt.  Þarna kenni ég um hugsunarleysi eigenda veitingarstaðarins. Hvernig væri að setja reglur um þetta og sekta síðan bara viðkomandi ef ekki er farið eftir þeim.

Í London getur þú átt það á hættu að verða sektuð út á götu af lögreglu, ef það sést til þín henda rusli á gangstétt eða götu.  Er þetta ekki eina ráðið þarna heima.  Sektið bara næturhrafnanna fyrir utan barina svo og líka um miðjan daginn, þá held ég að fólk fyrst fari að hugsa. Hver vill missa 1.000.- krónur í ríkiskassann þegar farið er út í búð eða að skemmta sér? 

      


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband