Færsluflokkur: Dægurmál
3.9.2008 | 10:55
Já þeir kunna ,,trikkin
Við höfum alltaf sagt hér að ef eigendur verslana, veitingahúsa eða banka þekkja 20 aðferðir sem þeir nota þá kunna þeir 21 eða fleiri.
Eitt sinn var ég stödd á Íslandi. Ég brá mér inn í Hagkaup til að versla smotterí í poka. Þar sem ég var nýkomin til landsins var ég bæði með tékkneska og íslenska peninga í veskinu. Tékkneski þúsundkallinn lítur nær nákvæmlega eins út og sá íslenski, sami litur, sama stærð svo það er mjög auðvelt að rugla þessum seðlum saman.
Í hugsunarleysi rétti ég konunni við kassann þrjá þúsundkrónu seðla og hún tók við þeim án þess að gera neina athugasemd. Ég varð ekki vör við misskilninginn fyrr en ég kom upp á hótel og fór að taka til í veskinu. Vissi að þar ættu að vera þrír 1000 korun tékkapeningar en fann ekki nema tvo. Vissi um leið að þarna hefði átt sér stað ruglingur.
Ég fór nú ekkert að garfa í þessu enda var tapið mitt en ekki Hagkaups þar sem 1000.- tékkapeningar voru þá 3.000.- ísl. kr.
Svona var nú það.
Starfsfólk verslana og banka beitt blekkingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.9.2008 | 10:32
Vinsælt myndefni fyrir ferðamenn!
Í fyrra var ég stödd heima upp á Hamingjulandinu og þar sem ég stóð út á svölum hjá systur minni til að fá mér frískt loft eða þið vitið... en hún býr í Þingholtunum í einu af þessum gömlu húsum sem búið er að gera upp og er eigendum til sóma, tók ég eftir því að nokkur hús, þá sérstaklega eitt var að hruni komið og gat ég ekki betur séð en fólk byggi þarna innan veggja.
Þar sem ég stóð þarna í kvöldsólinni komu hjón gangandi eftir götunni. Ég heyrði á tal þeirra og voru þarna ferðamenn á kvöldgöngu. Þau stöldruðu við af og til og horfðu á byggingarnar og bentu á sum húsin með aðdáun. Allt í einu stoppar maðurinn og fer að stilla myndavél sem hann bar um hálsinn. Hann stóð þarna lengi vel og myndaði þetta hreysi í bak og fyrir. Ég hugsaði, hvað manninum kæmi til með að velja þetta hús þar sem útskornir gluggarammar voru morknir af elli, bárujárnið ryðgað og gular gardínur hengu fyrir gluggum eins og lufsur en í gluggakistum mátti líta á mjólkurhyrnur innan um skrælnuð pottablóm.
Ég spurði systur mína hvernig stæði á því að sum af þessum gömlu húsum væru í svona slæmu ásigkomulagi og svarið var: Æ ég held að þessi hús séu leigð út og eigendunum er alveg skítsama hvort þau grotna niður eður ei.
Ég varð aftur vitni að því að hópur útlendinga notuðu þetta hús sem fyrirmynd gamalla húsa í borginni okkar. Sorglegt! Veit ekki alveg hvað fólki gengur til. Mér hefur aldrei dottið í hug að mynda öngstræti stórborga til að sýna öðrum sorann.
Vonandi taka nú eigendur gamalla húsa sig saman í andlitinu og sýna sóma sinn í því að ganga betur um eignir sínar í henni Reykjavík svo og öðrum stöðum á landinu.
Draugahús fær andlitslyftingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.8.2008 | 10:36
Hvað á ég að bíða lengi eftir þér!
Jæja já þið haldið það. Hér áður fyrr var maður nú ekki lengi að skvera sig til, tók svona innan við hálftíma, sturta, mace up, hárgreiðsla og alles. Ætli fataskápurinn hafi ekki tekið flestar mínúturnar. Nú ef krakkarnir voru að væla í manni þá var bara maskaranum skellt ofan í tösku og punkturinn settur yfir Iið í bílnum á leiðinni. Hugsið ykkur að masara á sér augnhárin á holóttum götum Reykjavíkur, jafnvel tók ég stundum naglalakkið og fór síðustu umferðina yfir neglurnar í bílnum.
Já þetta var þegar sjónin var í góðu lagi og stækkunarspegill óþarfur krakkar mínir.
Síðan eru liðin ár og öld og nú þarf ég miklu lengri tíma til að sparsla upp í allar misfellur. Stækkunarspegillinn er ómissandi og ekki séns að ég geti maskarað á mér augnhárin í bílnum lengur. Naglalakkið er stundum tekið með en þá verður það að vera litlaust!
Fataskápurinn er líka vandamál enda aðeins meira úrval í honum í dag en í den.
Minn elskulegi sagði oft: Hvað á ég að bíða lengi eftir þér. Núna bara bíður hann rólegur þar til ég geng eins og marmarasleginn túskildingur niður stigann og þá er það ég sem segi: Hvað á ég að bíða eftir þér í allan dag elskan.
Annars held ég að allar þessar snyrtivörur, krem, hyljarar ogskyggnidót sem ég á hér í baðskápnum og skúffum komi að litlu gagni og þó e.t.v. pínu pons.
Af hverju ekki bara að nota gamla góða Nivea, amma mín notaði það eingöngu og hún leit út eins og básúnuengill alla tíð.
Ég tala nú ekki um allan þá aura sem fara í þetta dót.
Farin út ómáluð með stór svört sólgleraugu, jú pínu varalit enda á leiðinni á snyrtistofuna til að láta lappa upp á fésið og þar með að létta budduna ansi mikið.
Það sem maður getur látið blekkjast, alveg ótrúlegt. En erum við ekki flestar svona, jú það held ég.
Tímafrekt að hafa sig til: 3.276 stundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.7.2008 | 22:31
Hvers vegna kom ekki þessi yfirlýsing fyrr frá útlendingastofnun?
Útlendingastofnun kemur með greinagóða lýsingu en hvers vegna ekki fyrr!? Næstum þremur dögum of seint? Nú eru allir kjaftstopp, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Síðan kemur þetta klassíska og trúgjarnir segja: Nú var þetta svona og málið dautt.
Sátum hér í kvöld með vinum okkar og fl. fólki. Ég konsúlínan tilkynnti að ég hefði skrifað undir listann sem gekk í morgun um að bjarga Paul Ramses frá gálganum.
Fékk ræðu frá mínum elskulega um það að ég ætti ekki að skipta mér að svona málum.
Eldur varð laus! Ræði það ekki á opinberum vetvangi en ég fékk stuðning frá Halldóri ritmeistara þar sem hann hafði líka skrifað undir samskonar lista. Hjúkket hvað ég var fegin að fá stuðning frá ekki ómerkari persónu.
Umræður urðu fjörugar. Ég og Halldór stóðum föst við okkar skoðanir. Flestir ráðamenn þjóðarinnar voru komnir niður fyrir okkar sjónlínu. Síðan var málið tekið út af dagsskrá.
Nú sit ég hér og veit ekkert í minn haus vegna þess að þessi blessuð útlendingastofnun sá sér ekki fært að senda greinagóða skilgreiningu fyrr en í eftirmiðdaginn! Og við almúginn erum bara búin að básúna út okkar sjónarmið og mæta á mótmælafund til einskis vegna þess að auðvitað hefur þessi stofnun það vald að berja niður óbreittan almúgann og segja að rétt sé rangt.
Var verið að funda í allan dag með yfirmönnum þjóðarinnar? Nei ég held ekki, það eru allir komnir í sumarfrí.
. Málið auðheyranlega dautt.
En við öll höfum rétt á þvi að hafa í frammi okkar skoðanir og málfrelsi er sem betur fer enn viðurkennt í okkar einkennilega þjóðfélagi.
Sorgleg endalok eða....
Útlendingastofnun: Ramses var ekki handtekinn á heimili sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.7.2008 | 08:40
Þannig komst ég að því að ég væri með gróðurofnæmi
Við vorum gestkomandi í innsveitum Frakklands, ég held að þetta hafi verið árið 1997 eða ´98. Ég sat með frænku Þóris, Limmu, og við dunduðum okkur við að setja villt blóm í vasa sem hún hafði tínt á landareigninni sem var gríðar stór mitt inn í skógarrjóðri og ekki hús í mílna fjarlægð nema gamalt nunnuklaustur sem enn var starfrækt.
Þetta var ævintýraheimur, íbúðarhúsið var hlaðið úr grágrýti og byggt í kring um 1700. Hefur örugglega verið í eign hefðarfólks í þá daga. Nú var búið að endurbyggja það að hluta og notað sem sumarhús af eiganda og fjölskyldu.
Þórir og Nikki voru að undirbúa kvöldmatinn og nú skildi gæða sér á ekta franskri nautasteik og drekka eðalvín með. Við settumst til borðs undir stóru tré á veröndinni sem var búið að dúka fallega upp og á miðju borðinu var litskrúðugi blómvöndurinn sem við höfðum nostrað við með óteljandi villtum blómum.
Ég komst aldrei til að smakka steikina eða bragða á víninu. Ég hafði fundið fyrir einhverjum ónotum allan daginn, mér var þungt um andardrátt og þetta ágerðist með kvöldinu. Ég hélt ég væri að fá einhverja flensu og bað þau að afsaka mig og skreið upp í rúm. Alla nóttina dreymdi mig að ég væri að anda í gegn um rör! Þórir sagði mér seinna að hann hefði aldrei heyrt annað eins, það sauð ofaní mér eins og físibelg.
Mér leið skár daginn eftir og við héldum áleiðis heim til Prag. Eftir því sem norðar dró fór að bera minna á þessum andþrengslum og ég auðvitað farin að kenna reykingum um þessi ósköp. Ég ákvað samt að fara til læknis þar sem einkennin voru enn til staðar og þá var ég greind með gróðurofnæmi.
Í dag lifi ég með þessu og bý í sveit! Ég verð að viðurkenna að þetta sumar er búið að vera ansi erfitt. Verst er það að geta ekki sofið.
Annars bara góð og ætla núna út í garð að klippa rósirnar mínar enda ekki með ofnæmi fyrir þeim.
Smellið á nýju myndina þarna voru rósirnar mínar rétt að byrja að blómstra í byrjun júní
Aldrei fleiri frjókorn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.6.2008 | 19:34
Á morgun verður fjör hér að Stjörnusteini
Ég sit hér úti og horfi til himins. Bleikir skýjahnoðrar bærast ljúflega með vindinum en þess á milli sést í vatnsbláan himininn. Sólin er að setjast í vestri og ber við sjóndeildarhringinn eins og logandi eldhnöttur. Ótrúlega falleg sýn á þessu milda sumarkvöldi.
Það er Jónsmessan á morgun og þá glaðnar hér aldeilis yfir Stjörnusteini þar sem systir mín og mágur koma með tvö yngstu börnin sín. Ég segi tvö yngstu. Anna Sigga mín á nú bara þau tvö en mágur minn á eldri börn frá fyrra hjónabandi sem teljast auðvitað líka til fjölskyldunnar.
Hér er búið að ræsta út í dag, viðra rúmföt og setja hreint á rúmin. Sundlaugin var gerð klár og nú hossast minn elskulegi á traktornum til að setja punktinn yfir I-ið og slær flatirnar eins og honum sé borgað fyrir það. Það mætti halda að kóngurinn í Krít væri væntanlegur, þvílíkur er hamagangurinn hér á bæ. En þau eru jú auðvitað spes hún Anna mín og hann Rikki og ekki verður leiðinlegt að fá að dúlla aðeins við litlu frændsystkinin næstu tvær vikurnar.
Ég færi ykkur öllum hlýjar kveðjur okkar inn í bjarta sumarnóttina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.6.2008 | 15:45
Hahahaha.....
Málið leyst! Fótsporin reyndust vera eftir HROSS!!
Ja hérna ekkert fútt í þessu lengur!
Allar Karenar geta nú aftur látið sjá sig utandyra og þurfa ekkert að óttast lengur.
Heimavarnaliðið getur farið heim að grilla.
Það ætla ég alla vega að fara að gera núna enda von á góðum gestum í kvöldmat.
Hálendisbjörn trúlega hross | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2008 | 18:51
Allt að verða hið dularfyllsta mál.
Elskurnar mínar ekki skjóta bangsa en ef þið komist ekki hjá því þá bið ég ykkur að setja ekki fleiri hryllingsmyndir í fjölmiðla landsins. Þetta berst svo fljótt yfir hafið og við hér fengum slatta af skömmum frá Tékkum sem fannst við haga okkur ansi bjánalega í viðureigninni við síðasta gest okkar frá Grænlandi. Hum ég sægi þá nú mæta skógarbirni hér, ætli þeir hefðu ekki gripið til byssu ég er nú ansi hrædd um það.
Nú getum við átt von á fleiri Bangsimonum í heimsókn á næstunni, ja alla vega ef mark er takandi á draumi Sævars bónda á Hrauni í Skagafirði þar sem hann sá í draumi þrjá bangsa á göngu. Þetta er að verða allt hið dularfyllsta mál. Síðan kemur frétt um að báðar stúlkurnar sem fyrstar urðu varar við Bangsimonana heita báðar því fallega nafni Karen. Svo nú bíðum við spennt hvaða Karen kemur til með að sjá þann þriðja á vappi.
En svona án gríns, ekki drepa Bangsimon nema í neyð.
Reynt að ná birninum lifandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.6.2008 | 07:35
Þessi fallegi dagur, þessi fallegi dagur!
Elsku kallinn okkar. Var að hlusta á lagið þitt og fannst það eiga svo vel við á þessum fallega degi. Okkar innilegustu hamingjuóskir til ykkar Hrafnhildar! Vonandi kíkið þið í kaffi fljótlega. Borgin skartar sínu fegursta hér núna og við flöggum fána í tilefni dagsins.
Njótið þess að vera til! Bestu kveðjur og knús frá okkur hér að Stjörnusteini og öðru frændfólki hér í Prag.
Bubbi Morthens á afmæli í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.6.2008 | 10:06
Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði
Margir spyrja núna sjálfsagt hver verða eftirköstin? Hvaða sálræn áhrif hafa þessar endalausu hræringar á fólkið sem býr á þessu svæði? Landlæknir Sigurður Guðmundsson bendir á í viðtali við Mbl. í morgun að nú verði að fara að huga að þessum málum ekki bara núna heldur næstu vikur og mánuði.
Það eru svo ótal margir sem geta staðið uppréttir á meðan ósköpin ganga yfir og engin skilur hvaðan sá styrkur kemur. En gleymum ekki að líkaminn okkar er eins og vél og vélina þarf að smyrja reglulega. Ef það gleymist hættir vélin að ganga eðlilega.
Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði, gleymum ekki að hringja, spyrjast fyrir og aðstoða eins vel og við getum. Lítið hvatningaorð getur gert kraftaverk.
Snarpir kippir í nótt og morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |