Færsluflokkur: Dægurmál

Sorgleg grein sem vekur mann til umhugsunar

Þegar ég las þessa grein eftir Ingibjörgu S. Benediktsdóttur í morgun setti mig hljóða.  Ef þetta er staðreynd þá er mikið að í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi.  Sem betur fer hef ég aldrei orðið að horfa upp á slíkar hörmungar í minni fjölskyldu svo erfitt er að dæma en á hinn bóginn get ég heldur ekki rengt frásögn Ingibjargar. 

Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar og hvet ég alla til að lesa greinina.     


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var engin beinagrind gerð?

Þetta hljómar mjög undarlega og dettur mér helst í hug auglýsingabrella. Auðvitað getur komið upp ágreiningur en að hætta samstarfi á síðustu stundu finnst mér dálítið skondið.  The Show must go on! 

 Ég hef lítið sem ekkert vit á gjörningum hvað þá kynlífsráðgjöf en sem leikmanni kemur mér þetta dálítið spánskt fyrir sjónir. Töluðu þessar konur ekkert saman áður en þær ákváðu að troða upp á Listahátíð?  Var engin beinagrind gerð að uppákomunni?  Eða hrundi hún við fyrstu kynni?

Ánægjulegt samt að heyra að listamaðurinn og kynlífsráðgjafinn gátu troðið upp hver fyrir sig fyrir fullu húsi. 

 

 


mbl.is Atriði Dr. Ruth og Marinu féll um sjálft sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst rigningin góð, trallallallalla ó já!

Kærkomnir dropar, dropp, dropp heyrðist hér fyrir utan á laugardag og í kjölfarið fór að rigna hressilega.  Ég hugsaði:  Umm gott fyrir gróðurinn, en innst inni var ég að hugsa um heimilið innan dyra sem setið hefur á hakanum undanfarnar vikur vegna blíðviðris.

Þegar sólin skín er ég alla daga útivið og dunda hér í garðinum frá morgni til kvölds. Á meðan þvottur hrúgast upp í þvottahúsinu, fataherbergið lítur út eins og táningar búi í húsinu, blöð og bækur út um allt og ísskápurinn tómur vegna þess að ég nenni ekki að eyða tíma mínum á markaðinum, þá dundar mín sér úti við skipulagningu og viðhald.  Næ að henda í uppþvottavélina á kvöldin, en það er nú bara svona sýndarmennska skal ég segja ykkur, geri það af algjörri neyð svo ég eigi hreinan bolla fyrir morgunsopann.

Í gær fór ég hamförum í þvottahúsinu, er næstum búin að þvo allan bunkann.  Dró minn elskulega með mér í svona ,,Greipt og Gripið"  þar sem þú kaupir allt í stórum pakkningum.  Minn spurði mig þegar við komum að kassanum:  Ertu að opna búð elskan? Það hnussaði aðeins í minni og sagði að hann ætti bara að þakka fyrir þessi innkaup, nú væri hann laus allra mála þangað til í desember. 

Og hann rignir enn svo ég get haldið áfram með góðri samvisku að dunda hér innan um húsmunina þangað til hann styttir upp sem ég vona að verði á morgun vegna þess að mér leiðast nefnilega svo asskoti mikið húsverk!

Annað líka, þú getur staðið upp fyrir haus í tiltekt en það sér engin mun nema þú sjálf!  Smá pirrandi stundum!                


Kríuvargurinn mættur á svæðið

Jæja fyrst Krían er komin þá hlýtur sumarið að vera rétt handan við hornið.  Hér sjáum við nú ekki þennan gargandi fugl en í kvöld stóðum við nokkur saman á svölum Sænska Sendiráðsins hér í Prag og ræddum um fálkann sem jafnan svífur þar tignalega yfir þegar kvölda tekur. 

Ég og Norski sendiherrann vorum að furða okkur á því hvað hefði orðið um kauða, mér datt helst í hug að hann hefði yfirgefið borgina vegna fjölda túrhesta undanfarna daga.  Umræðan snérist síðan um fiðrildi og önnur náttúruundur veraldar.

Allt í einu birtist sá gamli yfir okkur og hnitaði nokkra hringi fyrir ofan okkur eins og hann vildi segja:  Hér er ég gömlu vinir, ég hef ekki yfirgefið ykkur. 

Við Peter gengum síðan saman til borðs fegin því að fálkinn okkar hafði ekki yfirgefið borgina þrátt fyrir allt.


mbl.is Krían komin á Nesið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæðradagsblómið

Þú varst líknin, móðir mín,

og mildin þín

studdi mig fyrsta fetið.

Í dag er mæðradagurinn og mér finnst þessi fallegu orð eiga vel við í tilefni dagsins. 

Margar voru þær mæðurnar hér áður fyrr sem börðust fyrir sjálfstæði og ólu önn fyrir börnum sínum einar og óstuddar.  Ein af þeim konum var Katrín Pálsdóttir móðuramma míns elskulega.  Hún ól önn fyrir stórum barnahóp með því að skúra fyrir þá háttsettu menn Alþingis eftir að hún flutti á mölina þá nýorðin ekkja. 

 Katrín var ein af þeim konum sem stofnuðu Mæðrafélag Íslands.  Mikil kjarnorkukona.

Mæðradagurinn hefur alla tíð verið dálítið ofarlega í minningunni.  Sólbjartur og fallegur þar sem maður skottaðist á milli húsa í hvítum sportsokkum og seldi Mæðradagsblómið.

 Brosandi var tekið á móti manni alls staðar þar sem barið var að dyrum og allir keyptu blómið, alveg sama hvað lítil peningaráð voru á heimilinu.  Tíndir voru smáaurar úr gamalli, snjáðri  buddu og aldrei man ég eftir því að nokkur maður skellti á nefnið á manni.  Ef einhver hafði verið á undan að selja þá var annað hvort blómið hengt í stórrisan fyrir hurðinni eða brosandi andlit sagði : Nei takk góða mín, ég er búin að kaupa.

Ojá svona var það hér í denn.   Mother's Day Vase 

      


Hún kom dansandi inn í heiminn.

Okkur var færður lítill sólageisli fyrir 31 ári eða nánar tiltekið 9. maí 1977 klukkan 8:30.  Þessi litli geisli lét engan bíða eftir sér og skaust út í tilveruna á tilsettum tíma okkur foreldrunum til mikillar hamingju og gleði. 

Það má eiginlega segja að hún hafi komið dansandi inn í heiminn og allar götur síðan hefur ekki verið nein lognmolla í kring um þá stelpu.  Nú er ég að tala um afmælisbarn dagsins, dóttur okkar Soffíu Rut sem heldur upp á daginn í dag heima með sinni litlu fjölskyldu og vinum.

Elsku Soffa mín knús og kossar til þín héðan frá okkur pabba í tilefni dagsins. Vildum gjarna vera þarna með þér í dag en sendi þér í staðin margar hlýjar hugsanir. 

 Þakka þér fyrir að vera til elskan.  Heimurinn væri ansi litlaus án þín.  Ég knúsa þig hér í huganum.  Elskum þig sæta stelpa. Happy Birthday  Kisses


Auður Vésteinsdóttir, velkomin í Listasetrið Leifsbúð

Nú er aftur að færast líf í Listasetrið okkar og fyrsti gestur okkar mættur á svæðið.  Auður Vésteinsdóttir myndlistamaður mun dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verkum sínum. Við bjóðum hana og hennar eiginmann Svein Baldursson velkomin og vonum að þau njóti dvalarinnar hér.  

Það var vinalegt að horfa yfir að Leifsbúð í gærkvöldi, uppljómaða, vitandi af svo góðu fólki þarna að vinnu.  Erró minn var fljótur að koma sér í kynni við nýja ábúendur og í morgun skellti hann sér í morgungöngu með þeim hjónum í góða veðrinu. 

       Læt hér fylgja vefsíðuna okkar: www.leifsbud.cz Painter 


Kveð ykkur öll með söknuði

Síðasti dagur minn hér í Hamingjulandinu að þessu sinni g á morgun flýg ég heim.  Þessi tími er búinn að vera hreint út sagt frábær og ég hef notið hverrar mínútu með fjölskyldunni og vinum.  Mikið er ég rík og mikið má ég þakka fyrir. OK, ekki hella sér út í dramatíkina núna þetta er búið að vera svo frábær tími.

Í dag fórum við til Egils bróður í Brunch.  Eins og alltaf frábært að heimsækja þau þar sem hljóðfærin eru í hverju horni og börnin gera mann hálf vitlausan með glamri á píanó og önnur tiltæk slagverk.  Lútsterkt kaffi bætir upp hausverkinn svo og þeirra elskulega nærvera.

Eftir kossa og knús röltum við Soffa mín með Þóri Inga niður á Skúlagötu. Á Hlemmi varfólk að safnast saman í kröfugönguna og ég svona hálft í hvoru bjóst við að heyra Maístjörnuna en þess í stað bárust jazzaðir tónar um svæðið svo mín fór bara að dilla sér þar sem hún gekk með kerruna á undan sér.  Hummm... eitthvað hefur nú fylkingatónlistasmekkurinn breyst með árunum.

Við sátum síðan hjá mömmu og drukkum MEIRA KAFFI og spjölluðum við þá gömlu og ég lofaði að hún fengi að koma til okkar með haustinu.  Hún var strax farin að pakka niður í huganum þegar við kvöddum. Elsku mamma mín.

Amman bauð síðan litlu fjölskyldunni í kvöldmat í Grillið á Sögu.  Frábær matur, þjónusta og ekki spillti útsýnið yfir borgina okkar í kvöldsólinni. 

 Að sjálfsögðu var Þórir Ingi stjarna kvöldsins og það fyrsta sem hann gerði þegar þjónninn kom að borðinu með matseðlana var að skipa honum að setjast niður.  Sesssdu!!  var sagt hátt skírt og greinilega og aumingja þjónninn vissi ekki hvort hann æt´ð hlýða skipuninni, þessi litli gutti var jú gestur og gestir hafa alltaf rétt fyrir sér.

Frábært kvöld sem endaði með því að Daddi bróðir og Bökka komu aðeins við í Garðabænum svo við gætum aðeins knúsað hvort annað áður en ég héldi í faðm litlu útrásarfjölskyldunnar í Prag.

Mikið var gaman að koma heim.  Ég elska ykkur öll með tölu.

 


1. maí fyrir þrjátíu árum.

1. maí fyrir nákvæmlega þrjátíu árum stóð lítill þriggja ára gutti  fyrir utan veitingastað foreldra sinna við Hlemm og vakti mikla athygli vegfarenda þar sem hann stóð klæddur í hvíta kokkasvuntu sem bundin var undir handakrikana og náði alla leið niður að strigaskónum.  Í hendinni bar hann stóra sleif sem hann hélt uppi sem veldissprota. Birtist mynd af þessum litla ljóshærða baráttumanni í einhverju dagblaðanna daginn eftir þar sem hann stóð þetta líka vígalegur tilbúinn í slaginn.

Fólk var að safnast saman með kröfuspjöldin og verkalýðsfána því nú átti að halda fylktu liði niður Laugaveginn. Þar sem litli guttinn stóð í sinni sértöku múnderingu og fylgdist með þegar fólk fólk fór að raða sér upp eftir öllum kúnstarinnar reglum tók hann allt í einu eftir því að nú hafði bæst í hópinn Lúðrasveit sem hann kallaði alltaf hornablástur.  Sá stutti kætist allur og þar sem hann hafði nýlega farið í skrúðgöngu með foreldrum sínum á sumardaginn fyrsta og mundi vel eftir fánum og blöðrum sem fylgdu svona skrúðgöngum., hélt hann auðvitað að nú ætti að endurtaka leikinn.

Hann segir við föður sinn sem stendur þarna með honum:  Pabbi koma í skrúðgöngu.

 Marching Band Nei, við förum ekki í þessa skrúðgöngu.

En pabbi það er hornablástur, ég vil fara í skrúðgöngu.

Nei, við förum ekki í svona skrúðgöngu, þetta eru bara kommúnistar.

Sama hvernig sá stutti suðaði, pabba var ekki haggað.  Sjálfsagt hafa fallið nokkur tár enda hvernig átti lítill þriggja og hálfs árs gutti að skilja að pabbi vildi ekki fara með honum í skrúðgöngu.   Hann varð að láta sér nægja að fylgjast með þegar fylkingin hélt af stað niður Laugaveginn með gjallandi hornablæstri.

Orðið kommúnisti bættist við orðaforða barnsins og var það versta sem hann gat sagt ef honum mislíkaði og þar sem bannað var að blóta á heimilinu var þetta orð notað í staðin.

Svona var nú uppeldið á þeim bænum.  Ekki þori ég að segja til um hvar hann stendur nú í pólitíkinni en ég hallast að því að hann sé hægrisinnaður í dag. 


mbl.is Kröfuganga frá Hlemmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að vera Íslendingur hér í dag.

Þegar við fluttum hingað fyrir átján árum og opnuðum fyrsta einkarekna veitingahúsið í Tékklandi fundum við vel fyrir því hversu velviljaðir Tékkar voru í garð okkar Íslendinga.  Þeir hræddust ekki þessa litlu þjóð úr norðri sem engan hafði herinn og orðið útrás þekktist varla í íslensku máli.

Öðru máli gegndi um stórabróður í vestri þar voru þeir ekki öruggir með sig.  Enda kom það í ljós 1993 þegar landið skiptist í Slóvakíu og Tékkland þá fengu útlendingar aðeins að finna fyrir því að þeir voru hér gestir og höfðu komið hingað með sitt ,,know how"  en nú gætu Tékkar tekið sjálfir við.

Margir hrökkluðust úr góðu starfi og sneru aftur til síns heima.  Tékkar tóku við yfirmannastöðum í stóru fyrirtækjunum en uppgötvuðu fljótlega að þeir voru alls ekki tilbúnir til að takast á við mörg af þeim verkefnum sem útlendingar höfðu leyst af hendi eftir ,,flauelisbyltinguna".

Hér var mikil ringulreið á markaðinum og við fengum svo sem líka að finna fyrir því að við vorum bara hér til að kenna en síðan gætum við farið heim og lokað á eftir okkur.  Við héldum okkar ásetningi og börðumst eins vel og við frekar gátum við að halda okkar fyrirtæki og láta engan hrekja okkur í burtu. 

 Árið 1994 viðurkendu Tékkar að hafa verið of fljótir á sér og tóku útlendinga í sátt, ja alla vega að hluta til.  Enn var samt hart barist á sumum vígstöðvum.

Greinin sem birtist í Prague Post 16. apríl þar sem m.a. er viðtal við minn eiginmann, hefur vakið mikla athygli, þá sérstaklega hjá útlendingum sem búa hér.  Litla landið okkar er komið á kortið svo um mundar og við erum ekki lengur þessi fátæka þjóð sem engum ögraði. 

Það er gaman að vera Íslendingur hér í dag.  Við erum mjög stolt af þessum íslensku fyrirtækjum sem hér hafa fjárfest og megi þeim vegna vel hér í framtíðinni.      

 


mbl.is Fjallað um útrásina í Tékklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband