Færsluflokkur: Dægurmál
18.4.2008 | 07:33
Æ, nú bætist þetta við vorverkin í borginni.
Nýbúið að gefa út þá yfirlýsingu að allt ætti að vera orðið spik og spa fyrir 17. júní. Yfirlýsing sem mér fannst nú dálítið hlægileg. Er það ekki sómi hverrar borgarstjórnar hvar sem er í heiminum að sjá um að borgin okkar sé hrein og snyrtileg. Þarf að auglýsa það í öllum fjölmiðlum. Er ekki líka sjálfsagður hlutur að borgarbúar gangi sómasamlega um sína borg og beri virðingu fyrir mannvirkjum og öllu umhverfi sínu.
Hvað er svona merkilegt við það að götuhreinsun fari fram, eða veggjakrot hreinsað af húsum, þarf að mynda það í bak og fyrir og útlista það í fréttamiðlum og væla yfir því hvað kemur undan sjónum. Veit ekki betur en allir verði að taka til hendinni við vorverkin hvar sem er í veröldinni.
Ætli borgarstjórinn ykkar verði bara ekki að selja annan lystigarð núna til að ná upp í hreinsunarkostnað. Það er nú líka eitt axarskaftið í viðbót.
Nú ætla ég að láta taka mynd af mér þar sem ég og minn elskulegi erum á kafi í vorverkunum og við bíðum ekkert eftir sóparanum frá borginni, við hreinsum okkar götu sjálf.
Krotað á strætó í skjóli nætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2008 | 09:24
Gráa peysan sem olli svefnleysi hálfa nóttina.
Að vakna eftir tveggja tíma svefn og liggja andvaka er óþolandi. Allskonar hugleiðingar fljúga um í kollinum, tæta og hræra upp gamlar minningar og rugla mann svo í ríminu að maður veit ekki sitt rjúkandi ráð, heldur á tímabili að maður sé að missa þessi litlu vitglóru sem manni var gefin.
Eftir að vera búin að fara tvisvar framúr, tvisvar létta á blöðrunni, tvisvar kveikja á tölvunni, tvisvar reyna að slaka á, tvisvar fara með bænirnar þá bara gafst ég upp og tók svefnpillu. Guði sé lof fyrir Boots, þar er hægt að kaupa svefnlyf án resepts sem heitir Nytol og hefur enga aukaverkanir.
Hvað haldið þið að hafi verið mest að angra mig um fimmleitið í morgun, grá peysa sem ég hafði keypt í fyrra og alveg gráupplögð að klæðast núna að vori!
Hugsun: Hvar er gráa peysan mín?
Ætli ég hafi skilið hana einhvers staðar eftir? Í Vín, á Íslandi, í landi Þjóðverja?
Hvenær var ég í henni seinast?
Sá hana ekki síðast þegar ég var að róta í fataherberginu, átti að hanga á herðatré, ætli ég hafi troðið henni með hinum görmunum? Nei hengi hana alltaf upp!
Hvar er hún, hvað í ósköpunum hef ég gert við hana?
Jésús María og Josep, af hverju fór ég bara ekki inn í fataherbergi og leitaði að peysudruslunni svo ég gæti farið að sofa í hausinn á mér?
Af því þá yrði ég að kveikja ljós og það mundi raska svefni míns elskulega, svona er ég nú tillitsöm eiginkona. Aumingja kallinn búinn að vinna svo mikið og nauðsynlegt fyrir hann að fá sinn nætursvefn. Fáráðlegt að fara að raska ró hans fyrir eina gráa peysu.
Þess vegna var ég andvaka.
Helvítis peysan (afsakið orðbragðið) hékk auðvitað á sínum stað þegar ég vaknaði í morgun.
Þetta er auðvitað bilun á háu stigi!!!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.4.2008 | 17:35
Það er bara þetta sem vefst fyrir mér
Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti vegna kostnaðar forsætisráðherra og hans fylgdarliði með einkaþotum til annarra landa og hér eru komin svör til almennings frá ráðuneytinu og þetta virðast nú ekki vera svo ýkja háar upphæðir sem um munar.
Öll vitum við að tími kostar peninga og þessir heiðursmenn eru jú að vinna fyrir okkur alla daga svo í þessum tilvikum er ríkið að spara bara heil ósköp fyrir þjóðina, ja eða þannig, verðum við ekki að trúa því?! Við vitum jú að ráðamenn dvelja einungis á fimm stjörnu hótelum og nóttin þar er ekki gefin. Bílakostnaður ef ekki er um opinbera heimsókn að ræða og prívat móttökur kosta jú sitt. Sem sagt safnast þegar saman kemur.
Að fljúga svona beint án millilendinga er kostur, ráðamenn geta hvílst á leiðinni og komið eiturhressir á fundi. Reyndar veit ég að þeir vinna viðstöðulaust á meðan þeir eru í loftinu. Það þarf að fara yfir ræður og önnur nauðsynleg gögn svo þeir sitja þarna kófsveittir á kaf í vinnu. Já eða þannig!!!
Ég hef heyrt að þetta sé þrælavinna, aldrei stund á milli stríða svo eigum við bara ekki að leyfa þeim að ferðast eins og þeim finnst þægilegast, málið er að við, almenningur höfum akkúrat ekkert með þetta að segja, þeim er svo nákvæmlega sama hvað við röflum og ósköpumst, það bítur ekki á þau.
En þetta er það sem vefst fyrir mér:
OPINBERIR FUNDIR ERU ÁKVEÐNIR MEÐ LÖNGUM FYRIRVARA! ÞAÐ ER VEL HÆGT AÐ PANTA FLUG Í TÍMA! NATO FUNDIR ERU EKKI HALDNIR BARA SÍ SVONA UPP ÚT ÞURRU, ÞETTA ER AÐ MINNSTA KOSTI GERT MEÐ ÁRS FYRIRVARA.
Svo af hverju var ekki búið að panta flug fyrir þetta heiðursfólk löngu fyrr og fá þ.a.l. betra verð?
Annað: HVAÐ ER Í GANGI? AF HVERJU ÞIGGUR RÁÐUNEYTIÐ EKKI ÞESSA GREIÐSLU FRÁ FRÉTTASTOFU MBL. HALDA ÞEIR AÐ VIÐ SÉUM AMERÍKA MEÐ MEIRU? ,,FIRST LADY" OG ALLES? ÞJÓÐIN Á EKKI AÐ BORGA FYRIR FRÉTTAMENN!!!!!
Jæja þetta var nú það sem ég var að velta fyrir mér hér í ljósaskiptunum.
Fakta: Nú er komin hefð á að ríkisstjórnin ferðist með einkaþotum og því verður ekki breitt héðan af, alveg klárt mál.
Þotuleigan var 4,2 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.4.2008 | 20:30
Er komin með súrefnisofnæmi
Nú er dagur kominn að kvöldi og allir búnir að ljúga beint upp í opið geðið á öllum og láta eins og bavíanar út um borg og bæ. Raks á þessa setningu hér áðan:
ÞEGAR BYRJAÐ ER AÐ LJÚGA ER VANDI AÐ FARA AÐ SEGJA SATT Á EFTIR.
Pælið aðeins í þessu.
Sá eini sem lét mig hlaupa í dag var Erró. Ég get svarið fyrir það að hundurinn vissi alveg hvaða dagur var. Hann plataði mig mörgum sinnum til að opna fyrir sér en vildi svo ekkert fara út. Bölvaður hrekkjalómurinn. Held meira að segja að hann hafi haft gaman að þessu alla vega var svipurinn þannig, brosandi út að eyrum. Sko minn hundur brosir, alveg satt.
Undanfarna tvo daga hef ég verið hér með rassinn upp í loft, þ.e.a.s. á fjórum fótum að þrífa hér í garðinum og sést andskotann ekki högg á vatni. Þegar ég drattaðist inn eftir sjö tíma þrælkunarvinnu var ég búin að fá svo mikið súrefni í reykingalungun að mér var óglatt.
Búin að finna það út að ég hef ofnæmi fyrir súrefni ef það er í of miklu mæli!
Ekki nóg með að það heldur gat ég varla talað og þá er nú eitthvað mikið að skal ég segja ykkur en ég hresstist öll eftir kvöldmat og meir að segja skellti Erró, 46 kg flykkinu, í baðkarið og gaf honum bubble bath með tilheyrandi nuddi. Já ég veit það, hundurinn er ofdekraður.
Svo fer maður bara að skella sér til kojs áður en ég dett hér með hausinn ofan á lyklaborðið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2008 | 11:41
Hody, hody, doprovody! - Hátíð, hátíð, vinir mínir!
Skírdagur er ekki haldinn hér hátíðlegur. Hér áður fyrr notuðu Tékkneskar húsmæður daginn til að undirbúa páskana með því að baka páskabrauð sem svipar aðeins til okkar gamla rúsínubrauðs. Brauðið var bakað í svotilgerðu kanínuformi og síðan skreytt með möndluflögum. Snurfusa heimilið svo allt sé tandurhreint á sjálfan páskadaginn.
Gamlar konur sátu með barnabörnunum og fléttuðu reyrstafi sem síðan voru skreyttir með alla vega litum borðum. Segi seinna frá því til hvers þeir eru notaðir.
Aðrir sátu heima og máluðu egg með fjölskyldu og vinum. Þessi egg eru augnayndi og hér á þessu heimili er til stór karfa með þessum eggjum sem varðveitt eru frá ári til árs og skreyta hér greinar í stofunni.
Nútímakonan þeysist í stórmarkaðinn og fyllir körfuna af allskonar góðgæti handa krökkunum á páskadag, brauðið góða er keypt tilbúið, sveittir og geðyllir eiginmenn drattast með ólund á eftir húsmóðurinni sem auðvitað er með vælandi krakkagrislingana í eftirdragi. Enginn brosir, allir búnir að taka fýlupillu með morgunmatnum.
Ömmurnar sitja heima og núa höndum saman vegna þess að nú er reyrstafurinn keyptur úti á næsta götuhorni svo það er ekkert fyrir þær að gera nema láta sér leiðast.
Enginn nennir að mála egg nema þeir sem hafa það að atvinnu og stórgræða á túrhestum og öðrum sem álpast til að fjárfesta í þessum gersemum.
Svona er nú það og ég ætla að fara að dæmi nútímakonunnar og fá mér andlitsbað hjá dúllunni minni henni Marketu.
Á morgun kemur síðan framhald af páskasögunni héðan frá Stjörnusteini.
19.3.2008 | 12:26
Eru þetta spælegg í páskagardínunum mínum?
Hér skipta veðurguðirnir um skoðun á fimm mínútna fresti. Vita ekkert vort þeir eiga að láta himininn gráta eða brosa niður til okkar. Ég er hálf fúl út í almanakið, páskarnir eru allt of snemma í ár.
Mínir páskar eiga að vera sólríkir dagar, sitja undir blómgandi kirsuberjatrjám í léttum sumarkjól með hádegisverðinn framreiddan á veröndinni sem skreytt er með páskaliljum og túlípönum sem boða okkur komu sumarsins. Öll tré skreytt með gulum og grænum eggjum sem flökta í vorgolunni eins og fiðrildi.
Ég lít hér út um gluggann og snjónum kyngir niður í svona jólaflyksum. Sem betur fer festist hann ekki neitt að ráði þar sem hitastigið er rétt yfir frostmarkið! Við sem fyrir viku kepptumst við að þrífa hér utanhúss jafnvel alveg út að þjóðveg til þess að hafa sem þokkalegast hér um páskana. Sú fyrirhöfn gaf ekkert af sér nema sára bakverki hjá okkur hjónum.
Þegar minn elskulegi snaraðist inn úr dyrunum seint í gærkvöldi varð honum á orði: Hvaða hvíta stöff er þetta sem þú ert búin að þekja alla lóðina með? Ég sat bara með kökkinn í hálsinum því ég hafði búist við einhverju á þessa leið: Nei, elskan ertu búin að páskaskreyta, og baka líka!!!!
Þrátt fyrir að hér væri ekki mjög páskalegt úti ákvað ég þó að setja dálítinn páskasvip á heimilið. Keypti nýjar eldhúsgardínur, voða páskalegar.
Athugasemd frá mínum elskulega: Heyrðu það eru spælegg í gardínunum.
Ég frussaði út úr mér: Nei, þetta eru svona gulir hringir, minnir ekkert á spælegg! (er enn að pæla í hvort hann hafi rétt fyrir sér, góni á þær í hver sinn sem ég kem inn í eldhús)
Minnir mig á þegar ég keypti nýjar gardínur eina páskana fyrir gluggann í holið í Traðarlandinu og pabbi kom í heimsókn og varð starsýnt á gardínurnar sem ég var rosalega hrifin af og sagði á milli hlátursroka:
Nei bara Séra Ólafur Skúlason kominn fyrir glugga á heimilinu!!! Gardínurnar minntu hann víst á möttul Ólafs.
En sem sagt hér er kominn pínu ponsi páskafílingur innanhúss og nú bara þarf ég að leggjast á bæn um gott veður. Held samt að himnafaðirinn fari nú ekki að ómaka sig yfir svo lítilsverðri bón svo ég ætla bara að fara núna og skvera mig í betri fötin og koma mér á tónleika. Það hjálpar alltaf sálartetrinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.3.2008 | 11:36
Ellin kemur með sín gráu hár og ég ætla að dansa á elliheimilinu hvar sem það nú verður í heiminum.
Aldur er mjög afstæður og það minnir mig á það að vinur okkar er sextugur á þessum vordegi. Til hamingju með það Jóhann Guðmundsson! Sextugur og sexý!
Alveg er mér sama hvort ég er fimmtug, fimmtíu og fimm eða alveg að nálgast sextugt. Ég er bara hæstánægð með minn aldur svo framalega sem ég þarf ekki að berjast við einhvern krankleika.
Þegar ég varð fimmtug fór ég fyrst að hafa verulegar áhyggjur af hrukkum og öðrum fellingum sem fóru rosalega í taugarnar á mér. Var að velta því fyrir mér daginn út og inn hvað ég gæti gert í málinu. Fara í lyftingu og hamast í leikfimi eða bara eitthvað sem gæti bætt þessi sýnilegu merki á mínum sérdeilis flotta skrokki. Talaði við hinar og þessar frúr sem höfðu farið í alls konar lyftingar með misjafnlega góðum árangri.
Í dag nenni ég ekki einu sinni að pæla í þessu það er annað sem ég hef miklu meiri áhyggjur af. Það er nefnilega hvar ætla ég að hola sjálfri mér og mínum elskulega niður þegar tími verður kominn til að setjast í helgan stein og hafa það huggulegt í ellinni.
Komum við til með að sætta okkur við að búa á heimili aldraða þar sem matur kemur úr lélegum mötuneytum? Enginn Kínamatur, Pizzur eða annað sem við erum vön að borða. Bannað að fá sér rauðvín með matnum, þrátt fyrir það að það sé holt fyrir æðarnar, og dansa ræl og vals þegar slíkt er boðið uppá. Humm ég held ekki.
Móðir mín sem býr í sinni eigin íbúð í húsi fyrir aldraða eða 50 ára og eldri er bara þokkalega ánægð en kvartar stunum yfir því að þetta sé nú óttalegt elliheimili. Hún fer endrum og eins með eldra fólkinu á samkomur út í næsta hús og kvartar þá mikið yfir því að það sé aldrei spilaður Jazz eða önnur musik frá stríðsárunum. Þetta var hennar musik. Af hverju er verið að troða upp á þetta fólk gömludansamusikk við harmónikkuundirleik? Mér finnst þetta niðurdrepandi og held ekki að við komum til með að samþykkja þegar kemur að okkar kynslóð. Við komum til með að vilja heyra Bítlana og Stones og alla hina kallana. Við viljum twist og djæv og rokk, ekki satt? Eða hvað, verður okkur nákvæmlega sama? Verðum við alveg í sama farinu og margt af þessu eldra fólki er í dag. Dofið, hlutlaust og lætur allt bara gott heita? Guð minn góður ég vona ekki.
Þetta er það sem veldur mér alveg óstjórnlega miklum áhyggjum í dag eða þannig og ég hef rætt þetta við mína jafnaldra og spurt spurninga sem við öll, sem erum á svipuðum aldri, erum sammála um.
Ég veit nákvæmlega hvar ég vildi helst vera og hvernig aðstöðu ég vildi hafa en það kostar óheyrilega mikla peninga svo eins gott að fara að leggja eitthvað fyrir og hætta að spreða þessum litlu krónum sem gætu annar farið upp í kostnað á því lúxusheimili sem ég kysi að eyða ellinni. Ég ætla alla vega að verða skemmtilegt gamalmenni hvar sem ég verð. Lofa því!
Íslendingar eldast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.3.2008 | 15:07
Þetta verður hrikalega langur föstudagur
Man ekki betur en þetta hafi alla tíð verið svona á okkar landi. Ef útivistaveður var ekki skaplegt varð maður bara að hanga inni allan daginn og bíða...... Passían í útvarpinu og allir með helgislepjusvip á andlitinu.
Okkur krökkunum var bannað að spila á spil og stranglega bannað að hlusta á ,,okkar" tónlist en viti menn, við máttum fara á skíði ef veður og færð leifði. Það þótti nefninlega alveg sjálfsagt að skemmta sér á skíðum og þar mátti hlægja og skrækja af hjartans list. En um leið og maður var kominn inn í hús var byrjað að sussa á mann og maður minntur á hvaða dagur væri.
Var þá bara þessi hátíðleiki innanhúss? Ojú ætli það bara ekki. Við, á mínu bernskuheimili vorum ekkert kristnari en hver önnur fjölskylda en einhverra hluta vegna var þessi siður í hávegum hafður og það var alltaf fiskur í matinn, það bara tilheyrði. Ojæja, við vorum þó ekki látin fasta.
Bingó bannað á ákveðnum tímum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2008 | 17:08
Seyðfirðingurinn síungi er sextugur í dag og tekur væntanlega á móti bikar Þorparanna
Nú er ekki seinna vænna en en skvera sig í betri buxurnar og mæta í sextugsafmæli ársins! Gísli vinur minn og bloggari Blöndal er sextugur í dag og ef það hefur farið fram hjá ykkur þá er hátíð á Organ núna klukkan fimm. Ef ég þekki minn sæta strák er hann núna mættur á svæðið og búinn að stilla upp trommusettinu með stórhljómsveitum landsins. Hann lofaði gestum að hann myndi berja kjuðunum í húðirnar í kvöld.
Væntanlega verður honum afhentur bikar Þorparanna, með mikilli viðhöfn að hætti þeirra ágætu vina okkar sem kalla sig þessu skemmtilega nafni en þeir voru allir saman í JC fyrir ,,miljón" árum eða svo. Bikar þessi er afhentur á stórafmælum og hefur gengið mann frá manni síðan fyrsti Þorparinn hélt upp á sitt fertugsafmæli og er sagan skráð á þennan merkisgrip. Skemmtileg hugmynd hjá strákunum á þeim tíma.
Asskoti að missa af þessu öllu en ég skála hér með fyrir þér Gísli minn og njóttu kvöldsins í faðmi fjölskyldu og vina. Knús og kossar á þig héðan frá Stjörnusteini.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2008 | 11:12
Með komu Góu vorar innra með mér.
Í tilefni konudagsins og vorkomunnar.
Má ég hugsa um þig, spurði hann.
Já, sagði hún.
Alltaf? spurði hann.
Ekki í dimmu, sagði hún, en þegar sólin skín. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Heimsljós. Fegurð himinsins.
Lítil fluga suðaði við eyra mér og vakti mig snemma í morgun. Vorið er komið hugsaði ég eða var mig að dreyma? Létt klapp á öxlina, minn elskulegi að kveðja áður en hann hélt til borgarinnar. Heyrði í svefnrofunum að hann væri búinn að laga kaffi og það væri tilbúið úti á veröndinni og hundurinn væri strokinn eina ferðina enn og hvort ekki væri í lagi að láta hann eiga sig þar til hann kæmi sér sjálfur til föðurhúsanna. Ég klappaði mínum til baka á handlegginn og umlaði eitthvað í þá áttina að það væri í lagi.
Um leið og útihurðinni var lokað glaðvaknaði ég og hristi svefndrungann úr kollinum. Hvað sagði maðurinn, kaffi á veröndinni? Ég skellti mér í slopp, niður stigann og viti menn vorið var komið, eða alla vega leit allt þannig út.
Spörfuglarnir sungu frygðarsöngva í trjánum, morgunsólin vermdi andlit mitt og kaffið kraumaði á vélinni í útieldhúsinu okkar. Mig hafði sem sagt ekki verið að dreyma. Fyrsti dagur í Góu, Konudagurinn og vorboðinn ljúfi farinn að syngja.
Nú sit ég hér og nýt þess að drekka fyrsta morgunsopann minn hér úti. Hundspottið er kominn heim og liggur hér við fætur mér örþreyttur eftir langa morgungöngu og ekkert því til fyrirstöðu að byrja á vorverkunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)