Færsluflokkur: Dægurmál

Mig vantar einhvern til að sparka duglega í rassinn á mér

Ég hefði betur pantað tíma á heilsuhæli áður en ég fór að heimsækja ykkur þarna uppi á Íslandi og farið beinustu leið af flugvellinum þegar ég kom heim og á hælið.

Dagur eitt (í gær) átti að vera á morgunverðarfundi og síðan í Lunch, nennti ekki að vakna um morguninn og nennti síðan ekki á fætur fyrr en upp úr hádegi.  Hringdi þó og afboðaði komu mína með lélegri afsökun.  Segi ekki einu sinni hver hún var! Blush

  Dagur tvö og ég er hálfnuð að taka upp úr töskunum, búin að fara tíu ferðir upp og niður stigann í þeim tilgangi að klára dæmið en finn mér alltaf eitthvað annað að dunda við.  Skoða myndir sem teknar voru í ferðinni, klappa hundinum í stað þess að baða greyið, hann er grútskítugur núna, fara yfir blöð og bæklinga, setjast við tölvuna, opna og loka pósthólfinu af því ég nenni ekki að svara öllum þessum pósti.

Fer út og horfi yfir landareignina, anda djúpt, kominn tími fyrir vorhreingerningu úti, nenni ekki einu sinni að fara með ruslið eða athuga póstkassann.  Sit með kaffibollann og glápi út í loftið og velti fyrir mér á hverju ég eigi nú að byrja.  Húsið er á hvolfi, föt, skór, töskur, blöð, drasl allstaðar og hússtýran mín í fríi!!!! Devil  Enginn matur í ísskápnum en það er svo sem allt í lagi við erum á detox hér, eða það er það sem ég segi sjálfri mér því ég nenni ekki út að versla inn í matinn.

Og allt er þetta ykkur þarna heima að kenna.  Maður er gjörsamlega búinn á sál og líkama eftir þessa þrekraun að sækja ykkur heim.  Hálfur mánuður sem fer í það að éta sig til óbóta, ég tala nú ekki um að skemmta fólki frá morgni til kvölds. 

  Svefnvana vaknaði maður,( af því að það hafði verið svo gaman kvöldið áður) og var mættur í morgunkaffi, dreif sig síðan í hádegismat sem stóð til kl.2 eða 3, eftirmiðdagskaffi,( sem venjulega var hjá aldraði móður minni af því ég er svo góð dóttir), kokteill hér eða þar og síðan var skverað sig upp til að mæta með bólgna fætur og þrútið andlit í kvöldverð sem stóð langt fram á morgun.  En svona án gríns þetta var rosalega skemmtileg ferð en þið öll sem stóðuð fyrir þessum uppákomum skuluð fá þetta allt í hausinn næst þegar þið komið að heimsækja okkur.  Þá hef ég stjórn á hlutunum og það verður sko ekki nein elsku mamma. Tounge

OK þetta var bara eins og fínasta vítamínsprauta svo nú get ég haldið áfram að hlaupa hér á milli hæða og sjá hverju ég kem í verk fyrir kvöldið áður en minn elskulegi birtist í dyrunum.  Læt hann kaupa eitthvað í kvöldmatinn á leiðinni heim.  Hætt í detoxinu Cool  


Eitthvað hljóta þessar endalausu vegaframkvæmdir að kosta.

Þetta er nú ekki nýtt af nálinni og nákvæmlega þessa hugmynd viðraði ég við samferðamenn mína  þegar við vorum að keyra til Keflavíkur í fyrradag. Svörin sem ég fékk voru eitthvað á þá leið að kostnaður væri of mikill og fjöldi ferðamanna ekki nægur til að lestarkerfi borgaði sig.

  Eins og þetta lítur út í dag er vegurinn stórhættulegur og þrisvar urðum við að fara út af aðalbrautinni vegna vegaskemmda, að ég held eða framkvæmdir liggja niðri tímabundið vegna þess að verktakinn fór á hausinn. Eitthvað í þá áttina voru svörin við heimskulegri spurningu minni. Eitthvað hljóta þessar endalausu vegagerðir að kosta.  Jarðýta stóð utan vegar ein og yfirgefin og við fengum þær upplýsingar að tækið væri svo gamalt og úr sér gengið að það borgaði sig ekki að selja það og allt of kostnaðarsamt að fjarlægja gripinn.  Ýtan er víst búin að vera þarna í langan tíma og verður örugglega á sama stað þegar ég kem heim næst.     


mbl.is Vilja láta skoða möguleika á lestarsamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að deyja ekki ráðalaus

Svona eiga bændur að vera. Ekkert vesen.  Vona bara fyrir þeirra hönd að það frysti vel í nótt.  Verður gaman að sjá hvaða hugmynd kemur í kjölfarið þegar vorar.    
mbl.is Reykingahús úr snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var búin að gleyma hversu beljandinn getur orðið rosalegur.

Veðrið sem gekk yfir landið um síðustu helgi aftraði för okkar til Akureyrar á föstudaginn þar sem flug lá niðri.  Í stað þess að mæta á frumsýningu á Flónni hjá LA sem við vorum búin að hlakka mikið til að sjá hættum við okkur út í brjálað veður um kvöldið og mættum holdvot og veðurbarin á frumsýningu Íslensku Óperunnar á föstudagskvöldið. 

Klukkan átta á laugardagsmorgun vorum við, litla fjölskyldan að sunnan mætt á Reykjavíkurflugvelli í annað sinn og náðum að komast norður með fyrstu vél. Litla Elma Lind lét okkur svo sannarlega hafa fyrir sér enda stóð mikið til þar sem skíra átti prinsessuna þennan sama dag. 

Athöfnin fór fram í Laufási og séra Jón Helgi bróðir séra Péturs heitins skírði barnið í Guðs nafni.  Hátíðleg stund í litlu kirkjunni að Laufási og enginn vafi á að vinur okkar, séra Pétur var með okkur þarna og vel viðeigandi þegar sungið var í lokin sálmurinn hans, Í bljúgri bæn.

Eftir athöfnina var öllum kirkjugestum boðið í kvöldmat að gömlum og góðum sveitasið. 

Egill minn og Bríet og þið öll hin á Grenivík og Laufási takk fyrir skemmtilegar samverustundir.    


Já sumir eru vitgrannir aðrir einfaldlega heimskir

Já fólk er misjafnlega vel upplýst.  Sat með fyrrverandi kennslukonu frá henni stóru Ameríku um daginn og hún fór að spyrja mig um landið okkar og þjóð.  Vissi greinilega mjög lítið, taldi það væri hulið ís og hrauni og þ.a.l. að það væri næstum óbyggilegt.

Spurningar á við:  Er hægt að fljúga þangað?  Hvernig komist þið að milli staða?  Notið þið hestvagna?  Eru moldargólf í húsunum ykkar?  Og í framhaldi þessarar spurningar: Eru nokkur Mall?  (típískur Ameríkani)  Fleiri spurningar allar jafn fáráðlegar fylgdu í kjölfarið.  Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að taka þessu.  Var konan að grínast eða var hún bara svona illa upplýst?

Vinkona mín önnur sem sat þarna með okkur og hefur heimsótt landið okkar hló í hálfkæring og reyndi eftir megni að gefa svör.  Ég get svarið það, þarna sat ég, heimskonan á móti henni  (ekki í úlpu og ekki í Channel dragt) og gapti eins og hálfviti á þetta furðuverk sem á móti mér sat og var algjörlega kjaftstopp (það skeður ekki oft) þar til ég eiginlega sprakk í loft upp og næstum hvæsti á kennarann: 

Heyrðu vinkona, nú skal ég segja þér eitt.  Við búum í torfbæjum, með ekkert rafmagn.  Við notum langelda til að halda á okkur hita og við lepjum dauðan úr skel.  (man nú ekki hvernig ég bögglaði þessu síðasta út úr mér á enskunni)  Hesturinn flytur okkur á milli staða og við erum með sleða og hunda á veturna.  Sumir búa í snjóhúsum með lyftu. Þegar við fluttum hingað fyrir sautján árum kynntumst við fyrst menningarþjóðfélagi.  Happy ?!!!!!!!!

Eftir þessa ræðu stóð ég upp og færði mig yfir á hinn enda borðsins og hélt mér þar í hæfilegri fjarlægð frá þessari kerlingu það sem eftir var borðhaldsins. Ég er ekki enn búin að ná mér eftir þessa furðulegu uppákomu. 

NB. Þessi saga er dagsönn! 

 

 

 


mbl.is Breskir unglingar halda að Churchill sé sögupersóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuheiti manna og dýra

Ég þoli ekki nafnið mitt.  Þessu var klínt á mig þriggja mánaða gamalli og það eina sem ég gat gert til að mótmæla var að grenja hástöfum og af einskæru tillitsemi við mína nánustu hef ég ekki viljað gera stórt mál vegna þessa klúðurs sem gerðist fyrir miðja síðustu öld.  

Dýranöfn geta líka verið afskaplega villandi.  Þegar við bjuggum í Fossvoginum fyrir allmörgum árum flutti fólk í götuna fyrir ofan okkur og mér vitandi áttu þau tvo unglingsstráka og eina litla dömu. Á hverju kvöldi heyrði ég í frúnni þar sem hún stóð úti á svölum og kallaði hástöfum ,, Ragnar Magnús komdu að borða!" 

 Eftir nokkra mánuði hittumst við, ég og þessi tiltekna frú svo ég fer að spyrja hana hvað börnin séu gömul og hvað þau heiti.  Fékk ég að vita að drengirnir hétu Jón og Páll, man það nú ekki svo glöggt núna en dóttirin héti Þórhildur.

 ,, Aha og eigið þið svo þriðja strákinn?" 

 ,,Ha nei bara þessi þrjú" 

Ég hugsaði, ekki er hún að góla á kallinn sinn á hverju kvöldi svo ég spurði:

,,Nú en hver er Ragnar Magnús?"

,, Æ það er kötturinn okkar"

Eftir að ég heyrði um þetta furðuheiti kattarfjandans þá hætti ég að furða mig á öllum afbrigðilegum nöfnum hvort sem það voru dýra eða mannanöfn.

       


mbl.is Piu og Sven hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóndadagur með öllu tilheyrandi

Til hamingju með daginn húsbændur, stórbændur, kotbændur og fjárbændur!  Ekki byrjaði hann vel þarna hjá ykkur í stórbyl og allt pikkfast og blómabændur sem treysta á þennan dag sem uppgrip allra tíma. En ekki er öll von úti enn dagurinn svo sem rétt að byrja og húsmæður geta vonandi skutlast eftir einum túlípanavendi í vasa handa ykkur karlar mínir.

Minn elskulegi var svo rosalega hræddur um að ég myndi gleyma deginum svo hann mætti í gær með sinn blómvönd í fanginu brosandi út fyrir eyru, in case. WinkVar að hugsa um að pirrrrrast en hætti við. OK þá þarf ég ekki að endasendast fyrir einn túlípanavönd á morgun.

Datt svona líka í hug að malla eitthvað hér heima en hætti við.  Í fyrsta langi til hvers að vera að skíta út mitt fína eldhús.  Öðru lagi þar sem ég stæði yfir pottunum og hrærði kæmi fljótlega yfirsmakkarinn yfir öxlina með góðar og gildar leiðbeiningar og þá myndi bara sleifin hendast upp í loft og dagurinn ónýtur, ég í fýlu og minn á kafi í eldamennskunni.

Nei ég ákvað að taka minn með mér út á meðal fólks og láta einhverja kokkdrusluna sjá um eldamennskuna.  Sem sagt auðveld lausn, minn elskulegi kaupir sjálfur blómin og eitthvað veitingahús stórgræðir á okkur hjónum í kvöld.Grin Whistling

 


Sendu foreldrar börnin til að mótmæla?

Virðist vera.  Hvar eru kjósendur?  Þvílíkur skrípaleikur!
mbl.is Hávær mótmæli í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit aðeins um einn með vissu sem er í algjöru rusli núna

Ætla ekki að blanda mér mikið í þessa hringavitleysu þarna á eyrinni enda hef ég ekki kosningarétt og stjórnmál alls ekki ekki minn tebolli.  Það sem hefur vakið athygli mína er að hörðustu íhaldsmenn eru ekki par hrifnir af þessum sandkassaleik.  Ekki ætla ég heldur að dæma þessa ágætu menn sem verma ætla borgarstjórastólinn til skiptis, örugglega góðir menn og frambærilegir svona ef vel er gáð.

"Duglaus stjórn er mikil blessun fyrir þjóðina" stendur einhvers staðar.  Ef til vill, hver veit?Wink

En það veit ég að einn góður vinur minn er núna í algjöru rusli eftir Borgarstjóraskiptin og það er listamaðurinn og skúlptúristinn Helgi Gíslason sem setið hefur sveittur í mörg ár að gera "Hausa" í brons af flestum ef ekki öllum Borgarstjórum Reykjavíkurborgar. 

 Og nú bætist enn einn við í hópinn og jafnvel aðrir tveir á þessu kjörtímabili.  Heilir sjö "Hausar" á átta árum.  Ekki furða að aumingja Helgi minn sjái ekki fram úr þessum verkefnum. Hvar á svo að koma þessum "Hausum" fyrir, allir í röð, merktir bak og fyrir með nafni og dagsetningum á stalli í Ráðhúsinu. Ætli verði ekki að byggja við húsið í framtíðinni ef þessu heldur svona áfram. 

Helgi minn ekki láta deigan síga þetta hlýtur að taka enda einn góðan veðurdag og ef ekki þá tekur þú bara alla hersinguna með þér hingað í sveitina, ég meina fyrrverandi borgarstjóra og þeir geta setið fyrir hér í Leifsbúð næstu árin.  Ekki málið. Tounge


Fer skammdegið svona illa í ykkur?

Ég er nú viss um að Fischer karlinn hefur verið búinn að gera einhverskonar ráðstafanir varðandi útför og greftrun eins sérvitur og hann var.  Nú svífur hann yfir ykkur og hlær hásum hrossahlátri yfir allri vitleysunni og hversu auðvelt var að hafa ykkur í vasanum. Grin

 Nei í alvöru tala.  Leggja hann til hinstu hvílu við hlíð Jónasar eru menn ekki með fullu viti þarna.  Fer skammdegið svona illa í ykkur eða hvað?  Á síðan að reisa aðra súlu með logandi kyndli.  Ég er ekkert að gera lítið úr Fischer.  Merkur maður sem á allt gott skilið, en jarðsetja hann á Þingvöllum!  Hvað með okkur öll hin? Halo


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband