Færsluflokkur: Menning og listir
29.11.2009 | 09:18
Spádómskertið tendrað í dag.
Fyrsti sunnudagur í aðventu
Það er orðið jólalegt hér að Stjörnusteini og jólastemmning sem aldrei fyrr. Allt sem ég missti af í fyrra verður tekið tvöfalt inn núna.
Ég hef það á tilfinningunni að þessi aðventa verði okkur skemmtileg og hátíðleg með ógrynni af allra handa uppákomum heima sem heiman.
Njótið kæru vinir mínir og ekkert stress. Ég ætla alla vega ekki að halda jólin í skápum eða geymslunni svo allt þrifnaðaræði verður látið bíða fram á vorið.
Njóta bara og njóta hverrar mínútu.
27.11.2009 | 10:13
Jólamarkaðurinn hér í Prag
Hér gefur að líta mynd frá jólamarkaðinum í Prag, Tékklandi. Jólatréð sem glitrar þarna spilar jólalög og hringir klukkum á heila tímanum.
Ég las frétt frá Þýskalandi um daginn þar sem greint var frá að kona hefði orðið undir jólatré í stórmarkaði í Þýskalandi. Fyrir um þremur árum gerðist það hér að þrír urðu undir samskonar tré og sést hér á myndinni. Einn lét lífið og hinir tveir slösuðust verulega. Ástæðan fyrir því að tréð féll var að þeir höfðu ekki strengt það nógu vel á milli húsa. Líka það að þeir gerðu ekki ráð fyrir vindhviðum á þessum árstíma. Það blaktir venjulega aldrei hár á höfði hér vetrarmánuðina.
Best að taka engan séns hér. Standa bara álengdar og horfa í andagt.
Á sunnudaginn verður jólamarkaðurinn opnaður með tilheyrandi hátíðahaldi. Annars finnst mér Kristkind - markt í Nürnberg sá allra besti sem ég hef séð hér á meginlandinu. Að vera viðstödd opnunina þar er stórkostlegt.
Þetta var bara svona hugleiðsla um jólamarkaðinn.
Farin að skrifa jólakveðjur til vina og vandamanna.
Helstu jólamarkaðir í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.11.2009 | 10:24
Fundum síðasta kalkúninn í Prag og þökkum fyrir það!
Nú er það Þakkagjörðadagurinn. Mér finnst það svo sem allt í lagi að þakka fyrir mig og mína almennilega einu sinni á ári.
Annars er ég sí og æ að þakka almættinu en gott að fá tækifæri til að bjóða fjölskyldunni í stórveislu og þakka þeim prívat og persónulega fyrir að vera til og hafa gert svo lítið að velja mig sem foreldri. Hugsið ykkur bara eins og þau höfðu úr mörgum góðum að velja................
Í gær fengum við upphringingu frá frumburðinum og hann fór svona í kring um hlutina eins og honum einum er lagið og spurði hvort ekki ætti að halda upp á Thanksgiving. Þessir krakkar eru orðin allt of eitthvað úttlensk. Halló-vín, Thanksgiving, Dagur hinna látnu og ég veit ekki hvað og hvað.
Auðvitað var rokið upp til handa og fóta til þess að finna síðasta Móikanann ég meina síðasta Kalkúninn í Prag. Dísús þeir vaxa sko ekki á trjánum daginn fyrir þakkagjörðahátíðina. En í morgun tókst okkur að krækja í þann síðasta og hann skal nú steikjast og snúa á sunnudaginn. Nenni ekki þessu í dag enda fuglinn gaddfreðinn.
Þá verð ég líka búin að hengja upp allar mínar þúsundir ljósasería úti og inni svo hér verður haldið vegleg veisla og þakkað til hægri og vinstri.
En ekki fyrr en á sunnudag, þíðir ekkert að koma hingað í dag.
15.11.2009 | 18:18
CARITAS ÍSLAND 2009
Var að koma af frábærum tónleikum sem haldnir voru í Kristskirkjunni. Þar komu fram fremstu listamenn þjóðarinnar!
Tónleikarnir voru haldnir í þágu Mæðrastyrksnefndar og gaman að sjá hversu vel þessum tónleikum er ávallt tekið því sneisafullt var út úr dyrum enda verkefnavalið í sérflokki.
Okkur gafst tækifæri á að heilsa upp á nokkra af listamönnunum og þakka fyrir okkur en misstum af Diddú okkar og Einari Jóhanness og vil ég hér með þakka þeim sérstaklega fyrir frábæra skemmtun. Gaman að geta þess að meir en helmingur þeirra sem komu fram hafa heimsótt okkur að Stjörnusteini og margir dvalið hjá okkur í Leifsbúðinni.
Þökkum ykkur öllum fyrir frábæra tónleika sem hlýjaði okkur um hjartarætur.
Nú skal haldið áfram að njóta lista og menningar þar sem við erum að fara að hitta góða vini og listamenn og snæða með þeim saltkjötsbolur í káli. Sérpantað af okkur.
31.10.2009 | 01:26
HAPPY ´,,HALLÓ-VÍN" ! - Nornarkveðja frá USA.
Er þetta ekki alveg frábært. Hér sit ég á móti frumburðinum og hamast við að berjast gegn svínaflensu en hann alveg svona ,,kúl" glamrandi á sína tölvu og við erum í henni stóru Ameríku.
Þvílíkur bömmer, ég hafði það af að áskotnast SVÍNA- flensuófétið þessa daga sem ég var heima um daginn.
Ok, ég lifi það af en samt, þetta er ekkert að grínast með. Ógisslega pirrandi!
Á morgun ætla ég að vera hrikalega ,,kúl" amma með nornarhatt og alles! Galdra til hægri og vinstri og búin að reyna í allan dag að koma því inn í lítinn þriggja ára koll að amma hans sé NORN! Búin að lita mig í litabókina en veit ekki hvort þetta hefur sýjast inn í þriggja ára lítinn koll.
Amma er jú bara amma, pínu rugluð á köflum eins og gengur og gerist.
Sú stutta,aðeins tveggja ára tekur þessari ömmu bara eins og hún kemur fyrir, kexruglaðri.
Segi ykkur famhaldið á morgun.
HAPPY HALLÓ - VÍN!!!!!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.10.2009 | 09:53
Úr grámóðu gærdagsins inn í magnaðan mánudag.
Hugur minn leitar uppi minningar. Ég heyri hneggjandi hlátur Flosa einhvers staðar langt í fjarska. Hann hefur yfirgefið sviðið, einn af okkar ástsælustu leikurum, og farinn úr húsi eins og oft var sagt. Ég kveiki á kerti til handa Lilju og fjölskyldu.
Dagurinn í gær byrjaði einhvern vegin svona en lífið og tilveran heldur áfram þó góðir og gamlir vinir hverfi á braut.
Á meðan litli snúður ömmu sinnar fór í leikhúsið að sjá Kasp,Jesp og Jónatan og hræðast ljónið og annað illfylgi á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu fóru Amman og Afinn með langömmuna á skemmtilega hátíðarsýningu þeirra hjóna Þórðar Hall listmálara og Þorbjargar veflistakonu sem var að ljúka í gær í Norrænahúsinu. Frábær samsýning í tilefni stórafmælis þeirra beggja á árinu.
Innilega til hamingju með þetta framtak kæru vinir.
Þessi menningarlegi dagur endaði síðan með því að horft var á ,,Vangavagtina" eins og þátturinn er kallaður á þessu heimili af yngsta meðlimnum.
Ég horfði síðan á seinni hluta viðtalsins við Steindór minn og Grétu.
Takk fyrir það kæru hjón og sendi ykkur stórt knús.
Dagur menningar og listar leið hratt inn í svarta vetrarnóttina.
Og þá er það magnaður mánudagur!
Nú skal tekið til óspilltra mála að undirbúa ýmis verk sem koma til með að hellast yfir okkur eftir för okkar til hennar stóru Ameríku en sú ferð hefst á morgun.
30.9.2009 | 18:53
Íslendingurinn Vovka Stefán Ashkenazy og Tékkinn Milan Rericha héldu tónleika hér í Prag.
Á kyrrlátu haustkvöldi hlustuðum við á tvo færa listamenn flytja verk eftir Debussy, Rachmaninov, Horovitz, Denisov og Rossini af einstakri snilld.
Þarna spiluðu tveir snillingar þeir Vovka Stefán Ashkenazy á Grand piano og Milan Rericha á klarinet.
Konsertsalurinn var þéttsetinn og fólk lét ánægju sína í ljós með löngu lófaklappi og húrrahrópum.
Tékkar eru snillingar í að klappa litamenn upp og hætta ekki fyrr en þeir eru búnir að fá í það minnsta þrjú aukaverk og allir lófar áheyrenda orðnir helaumir og jafnvel blóðrisa. Sko þetta er ekkert grín skal ég segja ykkur að lenda í þannig uppklappi hvorki fyrir listamennina eða gesti.
Í þetta skipti tókum við eftir því að listamennirnir voru ekki með neitt aukanúmer upp í erminni en vegna fagnaðarláta spiluðu þeir aftur hluta úr verki Denisov og ætluðu að láta þar við sitja. En fagnaðarlátum linnti ekki svo við Þórir tókum á það ráð þar sem við sátum á fremsta bekk að standa upp þeim til heiðurs og þar með björguðum við þeim frá því að sita uppi með endalaus aukanúmer langt fram eftir kvöldi.
Ég veit að þeir voru okkur mikið þakklátir fyrir þetta framtak okkar, hehehe
Eftir tónleikana hittum þessa frábæru listamenn baksviðs. Íslenski/Rússinn okkar eins og hann var kynntur í leikskránni, fagnaði okkur vel og við erum alveg á því að reyna að koma snillingnum honum Milan heim til þess að leyfa Íslendingum að njóta hans framúrskarandi leikni með klarinettinn.
Þökkum kærlega fyrir ánægjulegt kvöld og frábæra tónleika!
Það er að koma hauststemmning hér í Prag. Leikhúsin, Operan og Rudolfinum farin að bera á borð það allra besta sem þeir hafa fram að færa. Byrjar alla vega vel!
26.9.2009 | 23:08
Á söguslóðum Romeo og Juliet
Ef eitthvað er Paris þá er það þetta umhverfi ekki satt?
Eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir þá erum við komin heim eftir 4000 km keyrslu á tveimur vikum og fjögurra landa sýn. Frábær ferð með tilheyrandi stoppum hingað og þangað jafnt á merkilegum sem ómerkilegum stöðum.
Held nú að heimsókn okkar á vinnustofu Erró í París standi ofar öllu. Meistarinn tók feikna vel á móti okkur þó mikið hefði gengið á á svæðinu rétt áður en við renndum í hlað þar sem hnullungs steinflís hafði hlunkast niður í gegn um glerglugga í loftinu og splundrast yfir vinnuborð og verkin hans en sem betur fer urðu engar skemmdir að ráði.
Við ætlum að reyna að mæta á sýninguna hans í Vínarborg í næsta mánuði.
Við heimsóttum líka annan landa okkar, Ármann Örn Ármannsson en hann býr í Provence með sinni yndislegu frönsku konu. Það er ekki auðvelt fyrir lofthrædda að sækja þau hjón heim þar sem þau búa hátt upp í fjöllum í litlum bæ, Essparron de Verdon. Ég hafði það samt af að hanga í bílnum upp brekkurnar og sá mest lítið af þessari fallegu sveit en mér var sagt að útsýnið hefði verið heillandi. Það hreyfir voða lítið við mér skal ég segja ykkur.
Ætlunin var að koma þarna aðeins við í hádeginu en við ílengdumst þar til daginn eftir þar sem gestrisni þeirra hjóna var ómæld. Natalie er líka alveg frábær kokkur og fengum við ekta franskan sveitamat sem sæmt hefði á hvaða höfðingjaborði sem væri.
Ármann, Þórir og Natalie þetta var bara Lunch!
Daginn eftir vorum við mætt í hádegismat hjá Breskum vinum okkar sem eiga hús þarna ekki langt frá og þar dvöldum við í tvo daga við leiki og spil.
Fyrir kvöldverðinn fengum við einkakonsert. Ármann Örn sem betur þekktur sem Ármann í Ármannsfelli situr við grand piano.
Við héldum síðan niður á frönsku rivieruna og spókuðum okkur á St. Tropez en misstum rétt aðeins af teboði heima hjá Bridget Bardot en kella býr þar með öllum hundunum sínum og nokkrum selum að mér skilst. Veit ekki hvort við rákumst á rétta húsið en við sáum alla vega stóra ruslatunnu fyrir framan eina af glæsivillunum merkta bak og fyrir með stórum B B. Næstum viss um að þar fyrir innan bjó frúin umvafin öllum sínum gæludýrum.
Því miður náðist þetta ekki á mynd en hér er ein frá St. Trobez
Við hjónakornin höfum verið að skoða okkur um á hinum ýmsu stöðum hér undanfarin ár og heimsótt marga fallega staði en engin hefur heillað okkur eins og St. Trobez þar gætum við alveg hugsað okkur að dvelja í ellinni. Alveg perfect place for us!
Eins var það þegar við komum til Monaco, furstafamilían var nýfarin á fasanaveiðar svo við rétt misstum af því að taka einn tangó í forsalnum í höll Grace Kelly. Ojæja skítt með það, bara næst.
Við gengum um listisnekkjuhöfnina í von um að rekast á 101 skútuna en hún hefur sjálfsagt verið á siglingu einhvers staðar við Kanarí eða Bahama, nú eða bara í slipp. Það verður víst að fara yfir þessi tæki öðru hvoru og fylgjast með að þetta drasl ryðgi ekki.
Ekki rákumst við á landa okkar þarna og er það mjög sjaldgæft að geta gengið þarna um rivieruna án þess að heyra móðurmálið.
Þórir fékk ekki tíma til að skella sér inn í Casinoið fræga í þetta sinn og taka eina Bertu eða hvað þetta heitir nú en ég lofaði að hann fengi að gera það næst. Annars var hann ekkert heppin síðast þegar við vorum þarna á ferð svo ekki eftir miklu að sækjast.
Next time my darling. Glæsilegt Casino ekki satt?
Verð að segja ykkur frá því að á leiðinni þarna um rivieruna gistum við á mjög merkilegu hóteli í bæ sem heitir Haut de Cagnes. Elsti hlutinn er frá þrettándu öld og hótelið sem við gistum á er upphaflega frá þeim tíma en endurbyggt á fimmtándu öld. Sagt er að fyrirmyndin af Romeo og Juliet sé fengin frá þessum kastala, sel það nú ekki dýrara en ég keypti það. En rómó var það með endalausum ranghölum og skúmaskotum. Mæli með þessu ef einhver er þarna á ferð.
Romeo, oh..Romeo hvar ertu Romeo...? Horft niður af svölum Júlíu og bak við svörtu hurðina var okkar herbergi í kastalanum. NB við sváfum eins og englar hvort sem það var vegna þreytu eða öðrum orsökum skal ekki greinast hér á þessum blöðum en þetta var mustiskur kastali segir maður ekki á íslensku dulúðlegur heheheh.......
Takið eftir hvað myndin er spuky. Allar hinar myndirnar eru í pörfekt fókus en þessi og allar myndir sem við tókum upp í kastalanaum eru svona skýjamyndaðar. OK nornin ég hef e.t.v. verið eitthvað að pirra drottnara kastalans. Úhhhh..ahhhhh.......
Við keyrðum síðan upp Ítalíu og dvöldum eina nótt við Lago de Garda og brendum síðan til Þýskalands þar sem við tókum þátt í uppskeruhátíð í Nürnberg. Sungum okkur hás með ítölskum farandsöngvara og fl. skemmtilegu fólki.
Home sweet home! Vá hvað það var gott að koma heim!
Nú verður lífið tekið með ró þar til við höldum í næstu reisu eftir þrjár vikur eða svo.
Eða hvað? Mér sýnist dagskráin vera ansi bókuð næstu daga.
Farin í rúmið að gæla við koddann.
Þið sem hafið nennt að lesa þetta takk fyrir það. Gott að eiga góða vini í fjarlægð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.9.2009 | 11:35
Til hamingju með nýja starfið.
Ég verð nú að viðurkenna það að fréttin um nýja embættið hans Davíðs kom mér virkilega á óvart. Ég bjóst ekki einu sinni við því að það hvarflaði að honum að hugleiða þetta gylliboð hvað þá að taka því.
En svona er maður jú vitlaus. Hann hlýtur að sjá eitthvað bitastætt í þessu verkefni sem við hin sjáum ekki.
Ég hefði nú frekar búist við því að hann kæmi hingað í kotið hjá mér þ.e. Listasetrið okkar og léti renna úr pennanum sínum og njóta þess bara að vera frjáls og óháður heldur en koma sér fyrir í Moggahöllinni innan um ómanneskjulegt gler og stál. Hér eru þó allir innviðir úr óskviknu aldargömlu timbri og ekki langt að sækja innblástur í nátturuna og klettana hér í sveitinni.
En segir maður ekki bara til hamingju og gangi þér allt í haginn í nýju starfi Davíð.
Dálítið skondið allt þetta drama sem er í gangi þarna heima núna.
Og eins og skáldið sagði: Það á að minnsta kosti að leyfa hvurjum og einum að lifa eins og hann sjálfur vill meðan hann aftrar ekki öðrum frá því að lifa eins og þeir vilja.
Og nú er ég alveg hætt að vera hissa!!!!
Fortíðin til framdráttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það var hálf haustlegt hér í gær og blés kröftuglega þar sem við stóðum í einum af glæsilegasta hallargarði hundrað turna borgarinnar.
Gestir stóðu í litlum hópum hér og þar um garðinn og spjölluðu.
Svo birtist hún eins og engill, hvítklædd með hvítan blómvönd. Andlitið geislaði af hamingju og hún næstum sveif niður tröppurnar í fylgd föður síns. Ég þekki hana næstum ekki neitt en samt táraðist ég. Hvað er þetta með það að grenja alltaf við brúðkaup?
Við vorum viðstödd borgaralegt brúðkaup í gær þar sem gefin voru saman Íslendingurinn Leifur Alexander og fallega tékkneska Marketa eða Marky eins og hún er kölluð.
Falleg látlaus athöfn sem fór fram á þremur tungumálum, tékknesku, íslensku og ensku svo það færi ekki fram hjá neinum hvað um var að ræða þarna.
Það getur verið algjör þolraun að lenda í tékkneskum brúðkaupum þar sem haldið er í ævafornar hefðir. Sem betur fer var farið milliveginn í gær svo þetta varð ágætis blanda af ísl./tékk. brúðkaupi.
Venja er að fjölskylda brúðarinnar kemur saman heima hjá foreldrum hennar eldsnemma um morguninn og hjálpast við að klæða hana og skreyta bíla gestanna á milli þess sem sópað er í sig skinku, súrum gúrkum, sveppum og stundum köldum snitzel og rennt niður með bjór og Becerovka sem er snaps.
Athöfnin fer síðan venjulega fram um hádegi hvort sem það er borgaralegt eða kirkjubrúðkaup. Við vorum einu sinni boðin þar sem hjónin voru gefin saman hér í ráðhúsinu og sú athöfn minnti mig helst á hersýningu á tímum Stalins.
Eftir athöfnina fara veislugestir í halarófu á skreyttum bílum þangað sem veisla er haldin. Allir þenja bílflauturnar eins og frekast er kostur. Það er ein hefðin og ef þú lesandi góður ert einhvern tíma staddur í hundrað turna borginni á föstudegi um hádegisbil láttu þá ekki koma þér á óvart óþolandi bílflautuvæl sem ómar hér um öngstræti borgarinnar. Þetta gengur yfir sem betur fer.
Það fyrsta sem gerist þegar komið er að veislusalnum er það að brúðurin brýtur disk fyrir framan brúðgumann og saman tína þau upp brotin og sópa vel og vandlega ekkert brot má verða eftir því það stýrir ólukku. Þannig að þarna skríða brúðhjónin um allt gólf tínandi upp glerbrot og sópandi flísar. Þegar þau standa upp er brúðarkjóllinn orðinn ansi sjabbí og brúðguminn með hné í buxunum.
Það er mikið nastravíað (skálað) í svona veislum og venja að byrjað sé á kampavíni og léttum málsverði sem samanstendur af kjúklingalifrasúpu, nautakjöti (Pot roast) með knellik (soðkökum) og þungri sósu. Brúðarterta og kaffi. Þessu er skolað niður með góðu magni af víni, öllum sortum.
Ræður eru ekki margar (sem betur fer) Brúðhjónin fá fyrst allra súpuna og þjónninn kemur með stóran dúk og bindur hann utan um nýgiftu hjónin svo þau eru nú komin með einn ,,smekk" og mata hvort annað á súpunni. Eitthvað hefur það líka með það að gera að það má ekki sulla einum dropa niður þá er víst voðinn vís. Eftir þessa þolraun taka allir til matar síns.
Eftir kökuátið tekur maður eftir því að brúðurin er horfin. Þá er sem sagt búið að stela brúðinni og koma henni fyrir einhvers staðar á nærliggjandi pöbb þar sem hún djammar með vinkonum sínum. Brúðguminn fer síðan með sínum vinum að leita hennar og finnur alltaf á endanum og þar setjast þau að sumbli. Á meðan þessu fer fram sitja veislugestir áfram og blaðra við vini og vandamenn. Þeir sem ekki þekkja neinn eins og komið hefur fyrir okkur hjónin þá lætur maður sér leiðast út í horni. Þetta getur tekið allt upp í þrjár klukkustundir. Þetta er eins og það sé verið að hegna manni fyrir að mæta í viðkomandi gilli.
Loksins þegar þau nýgiftu láta sjá sig aftur eru þau orðin vel kippó og kát. Þá er tekið við að borða aftur! Nú er svíni sem búið var að slátra fyrr um morguninn og hefur snúist á teini allan daginn, sporðrennt með tilheyrandi súrmeti og dóteríi.
Þegar þarna er komið er maður orðinn svo stútfullur af mat að ekki er möguleiki að koma sér út á dansgólfið þar sem nú hefur verið skverað upp balli í tilefni dagsins.
Þá er aðeins ein hefð eftir og það er það að brúðurin sér færi á því að nú geti hún halað inn smá pening í sínu eigin brúðkaupi svo hún skellir sér úr skónum og haltrar á milli gesta sem sitja afvelta eftir allan matinn eða ofurölvi og nú rekur hún skóinn með táfýlunni næstum upp í nef gestanna og biður þá góðfúslega um ölmusu. Allir rétta eitthvað fram, það bara tilheyrir. Eftir þessa uppákomu geta gestir loks haskað sér heim á leið en um leið og þú lætur þig hverfa er þér rétt karfa full af smákökum og vín í flösku svo maður hafi nú eitthvað að maula á heimleiðinni.
Brúðkaupið í gær var sem betur fer ekki svona hefðbundið. Það voru brotnir diskar og þau mötuðu hvort annað af súpunni og allir síðan átu á sig gat en aðrar tékkneskar uppákomur voru látnar eiga sig.
Það datt aðeins andlitið af Tékkunum þegar Íslendingarnir fóru að slá í glös og hjónin stigu upp á stólana til að kyssast en þeir lærðu fljótlega þennan ,,sið" okkar (sem ég hef ekki hugmynd hvaðan kemur) og fannst bara gaman að þessu.
Þá vitið þið hvað við vorum að bardúsa í gærdag og langt fram eftir kvöldi.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)