Færsluflokkur: Menning og listir

Skáldin okkar góðu þeir Þórbergur, Gunnar og Halldór.

Allt annað líf enda búin að vera með Skáldalífið hans Halldórs Guðmundssonar í eyrunum síðustu tvo dagana á meðan ég dingla hér út við grindverkið. 

Þökk sé Walkman og framförum alheimsins. 

Það er ekki laust við að mig langi til að taka bækurnar þeirra kumpána, Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar til yfirlestrar enn einu sinni.  Viss um að ég mundi leggja allt annan skilning í þær núna en fyrir 30 árum eða svo.

Hallgerður Péturs bloggvinkona mín benti mér á bloggið hans Illuga Jökulssonar hér fyrir tveimur dögum að ég held, þar sem Illugi fer á kostum með að skilgreina Bjart í Sumarhúsum.  Ekki vil ég nú segja að ég hafi verið allskostar sammála Illuga en greinin, sem er snilldarvel skrifuð, kom mér til að hugsa um hvort ekki væri tími til kominn að taka Sjálfstætt Fólk ofan úr hillu einu sinni enn. Ef til vill finn ég nýjan Bjart eftir lesturinn.

En allt um það í dag er merkisdagur því hún Soffa okkar og hennar Steini eiga sex ára brúðkaupsafmæli.  Að hugsa sér að það séu sex ár síðan Séra Ragnheiður pússaði þau saman hér í garðinum okkar.

Innilega til hamingju með daginn krakkar mínir.  

  

 


Endurbyggjum Valhöll á Þingvöllum.

Eigum við svo ekki að hittast einhvern dagin á Þingvöllum og fá okkur snarl saman á Valhöll? 

Þetta sagði einn góður vinur okkar þegar við hittumst heima í sumar og við tókum vel undir þessa tillögu. Okkur hafði líka dottið í hug að taka gamla settið þ.e. móður mína og tengdaföður í Þingvallasilung að Valhöll einn daginn á meðan við værum á landinu.

Það var alltaf svo hátíðlegt að heimsækja þjóðgarðinn.  Alveg sama í hvernig veðri þú komst það ríkti alltaf einhver dulmögnuð stemmning á svæðinu.

Nokkrum dögum eftir að við komum heim brann Valhöll.

30. júlí keyrðum við hjónin austur á Þingvöll og svona var umhorfs þá.

Sumar 2009 á Íslandi 075

Þarna stóð Valhöll eitt sinn.  Þegar myndin er tekin er verið að tyrfa yfir reitinn.

Ég og sjálfsagt fleiri eigum góðar og ljúfar minningar frá þessum stað alveg síðan við vorum börn. 

Nú er búið að skipa í nýja Þingvallanefnd sem á að sjá um þjóðgarðinn og alla framkvæmd á svæðinu. 

 Ég vona af heilhug að sú nefnd sjái til þess að endurbyggt verði þarna fallegt hótel sem gæti jafnvel þjónað sem lítið snoturt ráðstefnuhótel.  Listamenn þjóðarinnar gætu fengið að sýna verk sýn, jafnvel hver og einn fengið eitt herbergi til þess að skreyta með list sinni.

Garðskáli með Flóru Íslands væri líka augnayndi þar sem hægt væri að sitja með góðan kaffisopa.

Að við almenningur gætum aftur heimsótt Valhöll og gert okkur glaðan dag eins og fyrr. 

Þjóðgarðurinn er fyrir almenning og þar á okkur að líða vel. 

 Það nægir ekki að hafa vegasjoppu og upplýsingaborð!

Ég bíð þess að geta aftur komið að Valhöll í nýrri og betri mynd og fengið mér silung úr Þingvallavatni.    

  


Það skelfur og titrar en bara innra með mér.

Sko konan í viðtalinu í tímaritinu Vikunni talaði með fyrirvara eða þ.e.a.s. skjálftinn getur komið á hverri stundu eða jafnvel eftir nokkra daga svo ég hangi hér enn í dyraopinu og þori ekki að hreyfa legg né lið. var næstum búin að skrifa li. fannst það bara eitthvað svo dónó.

Jenný er búin að kommentera hér að allir sem hafa tjáð sig hér á síðunni að ofan séu  afskaplega auðtrúa á Gróusögur og hindurvitni. Hehehehe...er eitthvað svo rosalega sammála henni eru allir á þessu landi ekki alveg í lagi? 

En................

Ég þori ekki úr hurðagættinni enda búin að upplifa þvílík undur og stórmerki þessar tvær vikur sem við erum búin að dvelja hér. 

Á þessu landi upplifir maður bara undur og stórmerki sem hvergi annars staðar finnast á jarðríki.  Á hverjum degi verður þú fimm sinnum kjaftstopp og fimm sinnum færðu hláturskast og fimm sinnum heldur þú að það sért þú sem ert hálfvitinn en ekki landinn. 

Úllallala ansi var að vita það!

 

 

 

 

 


Strákaskammirnar hans Einars Jóhannessonar klarinettó, Jónas Ingimundarson píanóleikari og Rannveig Fríða Bragadóttir Óperusöngkona á einu bretti!

Við erum komin heim og satt best að segja fór ég meir á viljanum heldur en getunni til Vínar en gaman var það og ég hefði ekki viljað missa af því að hitta strákaskammirnar í blásarakvintett Reykjavíkur eins og Einar klarinettó kallar þá,  hvað þá að missa af því að hitta Jónas Ingimundar, píanóleikara og Rannveigu Bragadóttur messóprimadonnu en Jónas spilaði með strákaskömmunum á tónleikunum en Rannveig kom og borðaði með okkur fámennum en góðum hóp eftir tónleikana í boði sendiherrahjónanna á Sole.

Mér gafst tækifæri á að skamma hana fyrir að vera ekki búin að koma og heimsækja mig eftir öll þessi ár en hún lofaði að bæta út því fljótlega.  Algjör dúlla hún Rannveig mín, hefur ekkert breyst síðan hún var fimmtán svei mér þá! 

Eins og alltaf var tekið á móti okkur eins og höfðingjum af sendiherrahjónunum okkar og stofutónleikarnir sem strengjakvintettinn hélt á miðvikudagskvöldið með undirleik Jónasar Ingimundar var frábær og gestir klöppuðu þeim lof í lófa vel og lengi.

Ég gekk aðeins fram af mér daginn eftir með því að rápa um borgina þannig að ég gat ekki mætt á tónleikana á fimmtudagskvöldið en hitti strákaskammirnar fimm, Jónas og frú Ágústu, Rannveigu Fríðu Bragadaóttur að ótöldum sendiherrahjónunum á Sole seinna um kvöldið.  Sole er þekktur staður þar sem frægir tónlistamenn sækja að staðaldri.  Við komum þarna í fyrsta sinn með Kolbeini Ketilssyni Óperusöngvara sem þá var að læra í Vín, svo það eru liðin ár og dagar síðan við komum þarna í fyrsta skipti og satt best að segja, fyrir ykkur sem þekkið staðinn, hefur ekkert  breyst,  sömu þjónarnir taka á móti þér á ítölsku og maturinn er enn frábær. 

Við Þórir enduðum síðan ferðina með því að fara með Jónasi Ingimundar og Ágústu konu hans á Nas-markt í gær og fengum okkur saman hádegismat áður en við lögðum af stað heim á leið.  Frábært að setjast niður með þeim hjónum og tala um lífsins gagn og nauðsynjar og þar sem við Jónas eigum margt sameiginlegt var þetta mér mómetanlegt. 

Ég hlaka til að geta tekið á móti þeim hér í sveitinni á næsta ári og þá verð ég búin að fjárfesta í flygli eins og ég lofaði, ekki málið. 

Takk fyrir frábæra tónlistadaga kæru vinir mínir.

   


Endurfundir - Við og strákarnir í Blásarakvintett Reykjavíkur - Hittingur í Vínarborg

Bara svo þið vitið það þá erum við að fara í tveggja til þriggja daga frí frá tölvu, sláttuvél og öðru heimilisstússi.  Það verður gott að skipta um umhverfi og ekki verra að hitta skemmtilega landa okkar sem búa í borginni við ,,bláu ána",  Jamm Vienna here we come again!

Hef aldrei skilið þetta með ,,Dóná svo blá, svo blá"...........  Fyrir mér er hún svört en ekki blá, aðeins einu sinni man ég eftir að hafa séð bláan bjarma á yfirborðinu  í ljósaskiptunum og þá langt inn í Dónárdal.  En það skiptir ekki svo miklu máli hún er tignaleg eins og hún er.

Það verða nú fleiri sem við ætlum að knúsa þarna í Vínarborg, því þarna eiga eftir að verða miklir og skemmtilegir endurfundir þar sem Blásarakvintett Reykjavíkur mætir á svæðið.  Við komum til með að hitta strákana annað kvöld á heimili sendiherrahjónanna þeirra Sveins Björnssonar og Sigríðar og síðan verðum við viðstödd tónleika á fimmtudagskvöldið einhvers staðar í tónlistarborginni fögru.

Ég hlakka mikið til þess að knúsa strákana það er næstum ár síðan þeir spiluðu hér í garðinum okkar að Stjörnusteini.Blásarakvintett Reykjavíkur

Sem sagt engar áhyggjur þó þið heyrið ekkert frá mér í nokkra daga ég verð á full swing að skemmta mér og öðrum á bökkum Dónár.


Ekkert lát á hjónabandsælunni jafnvel eftir 35 ár í blíðu og stríðu.

Ég rakst á þetta í morgun þegar ég var að blaða í Perlunum hans Laxness og datt í hug að setja þetta hér inn með færsu dagsins:

Það er ekki annað en uppspuni að konan kasti sér andvarpandi um háls elskhuganum þegar hann stynur upp bónorðinu og svari:  Ég er þín að eilífu!  Slíkt ber ekki við nema í illa ortum ljóðum og fimmtíu aura lygasögum skrifuðum fyrir vinnukonur og borgara.

Þegar karlmaður hefur upp bónorð sitt svarar konan alltaf þessu sama:  Hvað býðurðu mér? Hvað borgarðu mér? Fæ ég borðstofumubblur, stássstofumubblur og píanó?  Gefurðu mér steiktan kjúkling? Gefurðu mér strútsfjöður? Gefurðu mér bíl?

Þetta á við færslu dagsins þar sem við hér að Stjörnusteini héldum upp á 35 ára hjúskaparafmæli okkar í gær og ekki nóg með það heldur héldum við upp á 40 ára hjúskaparafmæli Helga bróður Þóris og Jónu konu hans hér hátíðlegt þann 14. júní en þau komu hingað á fimmtudaginn til að halda með okkar hátíð þessa helgi. Afmælið haldið hátíðlegt  Hér erum við í fyrsta í afmæli.  Glæsileg hjón og ekkert mjög þreytuleg þrátt fyrir að vera búin að hanga saman í 75 ár samanlagt!

Þetta er ástæðan fyrir því  að ég hef ekki verið dugleg að blogga undan farið, hef bara haft alveg brjálað að gera í partýstandi alla daga og verður ekkert lát á fyrr en á fimmtudaginn en þá fljúga vinir okkar heim.

  Martial Nardeau hélt stofutónleika fyrir okkur í gærkvöldi.  Ekki allir sem fá svona stórkostlegan glaðning á afmælisdaginn sinn.

Í dag ætlum við að taka það rólega enda dumbungur í lofti og ekkert spes veður.  Gestir okkar keyrðu sig í Mallið en við gömlu erum heima og tökum lífinu með ró. 

Svo bíðum við bara eftir næsta ,,Happy hour" eins og venjulega. 

Eins gott að halda sig við efnið!

 

 


Flautuhjónin eru að lenda núna hér í Prag.

Nú fer að færast líf aftur í Listasetrið þar sem von er á Guðrúnu Birgisdóttur og Martial Nardeau hingað hvað úr hverju.  Þá megum við búast við því að heyra ljúfa flaututóna hljóma frá Leifsbúð bara svona með morgunkaffinu.

  Hugsið ykkur hvað við erum heppin, við þurfum ekki einu sinni að sækja konserta þeir bara koma hingað til okkar frábæru listamennirnir á færibandi ár eftir ár.

Hjartanlega velkomin kæru flautuhjón hingað í sveitina okkar.  Vonandi eigið þið eftir að njóta dvalarinnar hér næstu vikukurnar og fá innblástur héðan úr okkar fallega umhverfi.

   


Og heitasta ósk mín var sú.......ú

Þegar ég var yngri og nú er ég að tala um töluvert yngri þá hafði ég eins og flestir jafnaldrar mínir miklar áhyggjur af útlitinu og ég bað alla góða vætti, hátt og í hljóði að redda mér um hátt og greindarlegt enni. 

 Ég var fædd með þetta svokallaða ,,Heiðarenni" úr föðurfjölskyldunni og mér fannst ég hafa verið illa svikin þar sem systkini mín voru öll með hátt og greindarlegt enni úr móðurættinni.

Í þá daga þótti heldur ekki flott að greiða aftur frá andlitinu heldur var maður að halda lookinu með því að vera með skipt í miðju og hárið svona sleikt niður með andlitinu.  Þessi hárgreiðsla gerði það að verkum að andlitið á mér varð ennislaust.  Það var ekki fyrr en árið 1969 sem ég fór að greiða aftur frá enninu og þvílíkur munur ég leit allt í einu ekki út eins og ennislaus vanskapningur.

Nú loksins er að rætast þessi heitasta ósk mín ég er að fá þetta líka fína greindarlega enni svona líka hátt og velformað.  Segið svo að maður hafi ekki góða vætti til að þóknast manni. Mínir bara voru heldur treggáfaðir og tóku seint við sér.  En það er alveg bannað að vera vanþakklátur svo ég segi bara betra seint en aldrei.

Nú erum við tvö að fara úr hárum ég og Erró minn svo það er erfitt að sjá hvort okkar skilur meira eftir sig á gólfunum hann eða hún ég. 

Á morgun þarf ég að mæta í veislu og ég er búin að velta fyrir mér nýrri hárgreiðslu í allan dag.  Held ég verði með svona ,,Bryndísar Schram sleikt aftur" greiðslu. Ef þú lest þetta Bryndís mín þá vil ég að þú vitir að mér finnst þú alltaf svo flott með þá greiðslu.

Svo bara verið til friðs greyin mín. 

 

 

 

 

 


Hraunmolarnir okkar voru festir á þröskuldsbút.

Mikið hefði verið gaman að standa í sporum forseta Alþingis og taka í hlýja hönd friðarleiðtogans frá Tíbet. 

Hraunmolinn sem Dalai Lama var færður vakti athygli mína enda minnti mig óneitanlega á grip sem við hjónin hönnuðum fyrir all mörgum árum hér í Tékklandi. 

Þannig var að árið 1994 að ég held, ákvað ég að taka þátt í alþjóðlegum jólabazar hjá International Womens Club. Þar sem ég var ein frá Íslandi og varð að koma með eitthvað þjóðlegt á söluborðið ákvað ég þegar ég fór heim um sumarið að fylla nokkra poka með hraunmolum og flytja með mér út. 

Þá er það sem sé upplýst hér að ég stal hrauni og flutti með mér úr landi. Blush Police

Þegar heim kom var hafist handa við að hanna mynjagrip frá Íslandi.  Minn elskulegi kom með þá hugmynd að festa hraunmola á viðarkubb og þar sem við vildum halda verðinu í hófi keyptum við nokkra þröskulda, söguðum í búta og lökkuðum svarta.  Hraunmolanum var síðan komið fyrir með skrúfu minnir mig frekar en nagla ofan á bútnum og til að gera þetta seljanlegra létum við útbúa skildi sem á stóð GREETING FROM ICELAND  sem var síðan komið snyrtilega fyrir á hlið þröskuldsins.

Þetta auðvitað rann út á jólabazarnum ásamt íslensku síldinni sem ég nota bene stal ekki og ég safnaði vel í sjóð sem rann til fátækra barna.  

Nú er sem sagt einhver listamaður búinn að stela hugmyndinni okkar og farinn að stórgræða, shit svona missir maður hvert tækifærið á eftir öðru út úr höndunum bara fyrir eintóman klaufaskap. DevilGrin

Man hvað mér fannst hugmyndin frábær á sínum tíma en var auðvitað búin að steingleyma henni þar til ég sá þetta ferlíki sem blessaður maðurinn fékk í dag afhent með viðhöfn.

Verð að segja það að mér fannst okkar útgáfa fallegri, eitthvað svona nettari. 

Hvernig ætli það sé núna með hraunið fylgir vottorð eins og með kjötinu? Wink

Nei segi bara svona og svo var ég að velta öðru fyrir mér líka ætli hann verði látinn borga yfirvikt?  Halo  


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gradualekórinn hans Jóns Stefánssonar kom hingað í dag.

Það er ekki á hverjum degi sem við fáum einkakonsert hér að Stjörnusteini en þó kemur það fyrir.

  Klukkan hálf fimm í dag keyrði Grétar Hansson rútuna sína í hlað

Ef þið smellið á myndina þá sjáið þið að rútan er merkt Reykjavík Iceland

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 074 og út skondruðust flottu stelpurnar hans Jóns Stefánssonar úr Gradualekórnum.  Hver annarri glæsilegri!

Kórinn er hér í Prag í nokkra daga og hélt tónleika í miðborginni í gærkvöldi og einnig söng hann við messu í gærmorgun en það voru víst viðstaddir athöfnina um 500 manns.  Var þeim rosalega vel tekið og fengu meir að segja klapp í messunni sem er víst ekki algengt að gerist hér við slíkar athafnir.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 053  Þar sem ég gat ekki sótt tónleikana í gærkvöldi fékk ég einkakonsert hér í dag.  Þær tóku lagið fyrir mig út í Listasetrinu og að sjálfsögðu undir stjórn síns meistara.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 057Ég þarf ekki að taka það fram hér að kórinn er alveg sérlega flottur með frábærar raddir enda held ég að ég fari rétt með að það séu 22 stelpur af þessum 30 sem eru í söngnámi hjá einkakennurum.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 066 Áður en haldið var til Prag var að sjálfsögðu tekin ein hópmynd en því miður sjást ekki allar skvísurnar á myndinni.  Hundspottið sem þið sjáið í var að trufla myndatökuna svo ljósmyndarinn fór aðeins út fyrir rammann.

Takk elsku Jón minn fyrir að koma með stelpurnar þínar hingað í heimsókn og gangi ykkur vel á alþjóðamótinu í Olomoc. 

Takk stelpur fyrir frábæran söng og skemmtilegan eftirmiðdag hér í garðinum. Þið eruð landi okkar og þjóð til sóma!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband