Færsluflokkur: Menning og listir
31.5.2009 | 10:00
Eru þið alveg að missa það þarna uppi á ísaköldu landi!
Vá bara það að detta niður á hugmyndina er eitt og sér túskildings virði en það að framkvæma þennan gjörning hlýtur að hafa kostað blood, sweat and tears. Hugsið ykkur úthaldið hjá listamanninum. Að standa í þessu í öllum veðrum (geri sterklega ráð fyrir að þetta hafi verið framið á Íslandi) berjast á móti storminum í grenjandi rigningu bara til þess eins að bera grjót í haug, já og gangsstéttahellur eða eru þetta ekki hellur þarna efst?
Mér finnst hann alveg hafa átt skilið að fá annan túskilding fyrir það að hálf drepa sig á þessum burði en að kaupa ljósmynd af fyrirbærinu fyrir 10 millur, Já sæll, er ekki alveg allt í lagi þarna heima!!!!
Láttu nú ekki svona Ía mín segja sumir núna, þetta er list!
Sér er nú hver helvítis listin urra ég bara á móti!
Alveg skítsama hvað ykkur finnst, þið megið kalla þetta list ég hef bara ekki geð í mér að meðtaka þetta núna.
Á meðan leikskólagjöld hækka, bensín, olía, sígó og bjór sko ég meina allt þetta allra nauðsynlegasta sem almenningur þarf á að halda til að geta lifað þarna uppi á klakanum þá er verið að kaupa ljósmynd af gjörning!
Ástæðan jú okkur vantaði svona í safnið! Áttum enga svona mynd fyrir!
Segið mér hver hefur gaman af því að skoða svona myndir og hvar í ósköpunum á hún svo að hanga? Spyrjið eftir henni aftur eftir u.þ.b. hálft ár, þá verður svarið: ,,Ha jú ég man eftir henni ætli henni hafi ekki verið komið fyrir hér niðri í geymslu".
Og þar kemur hún til með að liggja um ókomin ár!
Hér urra ég á eftir efninu! Djöf..... það sem veröldin er klikkuð á köflum!
Dýrasta verkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
17.5.2009 | 19:50
Að njóta þess að vera til
Já ég líka ef ég hefði kosið! Til hamingju Jóhanna. Frábært að þú skildir bjarga þjóðinni fyrir horn og lenda í öðru sæti annars værum við bara í djúpum skít eða þannig. Ja ekki lýgur útvarpsstjóri vor.
Til lykke med dagen Norge! 17. mai og líka með strákspottið hann Rybak.
Ég á vin sem heitir Rybak en hann er einn af fremstu glerlistamönnum Tékklands Gæti verið að þeir tveir væru skildir, annars þori ég að éta skóna mína upp á það að minn Rybak mundi aldrei viðurkenna að hann væri ættaður frá Hvíta Rússlandi. Þannig er nú það.
Dagurinn hér var bara einn af þessum sólardögum eins og þið upplifðuð heima á Íslandi í dag. Hitinn yfir 25° (var ekki líka hitabylgja heima, held það barasta) og ég ákvað í morgun að nú færi ég út í garð og reyndi aðeins að hreinsa til, alla vega í einu beði eða svo. Þrátt fyrir brunaverki í öllum skrokknum og velgju þá ákvað ég að ég skildi sjá til hvað ég gæti gert.
Ég fékk líka þessa fínu uppörvun frá lækninum mínum í síðustu viku. Hún sagði að ég væri ein af hennar uppáhalds sjúklingum. Ég væri svo jákvæð og eins og hún orðaði það: Að hafa sjúkling eins og þig er það sem gefur mér kraft og lífinu gildi og ég finn að starf mitt er einhvers virði. Alla vega orðaði hún þetta einhvern vegin svona. Og þetta gaf mér ekki minni styrk og áframhaldandi vilja til að berjast áfram.
Þess vegna fór ég út í morgun og vopnaðist hrífu, skóflu, röku, hjólbörum og setti upp þessa líka fínu garðhanska með bláum blómum á handarbakinu. Verð alltaf að vera pínu dúlluleg þó ég sé bara að grafa í illgresinu með rassinn upp í loft. Það er bara part av programmet.
Það var nú ekki bara ég sem fór í garðverkin í dag heldur líka minn elskulegi sem fór eins og stormsveipurá traktor og orfi um alla landareignina.
Ég verð að viðurkenna að það var yndisleg tilfinning að standa undir sturtunni eftir sex tíma vinnu í garðinum vitandi það að maður hafði getað gert eitthvert gagn.
Eftir sturtuna hófst þessi venjulega meðferð. Mouse í hárið til að gera það meira fluffy ( er alltaf á nálum að það fari að hrynja af mér) andlitskrem, augnkrem þið vitið maður er auðvitað eins og harmonikka í framan. Boddy lotion, fótakrem og grejer. Svo fór ég í sumarskápinn og dró fram, held ég, fimmtán ára gamlan síðan kjól sem ég skellti yfir mig og vá hvað mér leið vel. Smá brunaverkir en iss, hva, maður lifir það nú af.
Síðan fór ég út og blandaði mér einn af mínum uppáhalds sumardrykkjum. Martini Rosso, agúrka, appelsína og sprite. Og með þetta fór ég síðan og gekk um landareignina eins og drottning í ríki mínu og horfði hreykin á frábært dagsverk okkar hjóna.
NB. Minn elskulegi kom síðan hálftíma seinna, hreinn og strokinn og við sátum saman í kvöldsólinni og nutum þess að vera til.
Ég hefði kosið Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.5.2009 | 17:40
Maður kemst í hátíðarskap við að lesa svona fréttir sem ylja.
Þegar maður heyrir af rjómablíðu og að hitastigið fari upp yfir 15 gráðurnar þá er ekki alveg laust við það að maður gæti vel hugsað sér að skreppa heim. Setjast á kaffihús í miðbænum, að sjálfsögðu sólarmegin, rölta síðan niður að tjörn og jafnvel að skreppa í heimsókn í Grjótaþorpið.
Ekki skemmir heldur að nú stendur yfir Listahátíð og Fjölmenningarhátíð hvað sem það merkir nú, sjálfsagt fjölskrúðug menning í hátíðarskapi. Sem sagt gaman að þessu og hitinn sló met eða var það ekki. Gula fíflið skein á réttláta sem rangláta og það blakti ekki hár á höfði í hitabylgjunni sem fór yfir landið. Æ eitthvað svo krúttlegt.
Er komin hálfa leiðina heim bara við að lesa svona góðar og fréttir sem ylja.
Svo á morgun heyrir maður af frábæru grillveislunum út um allan bæ og síðan hvað við hefðum átt það svoooooooo skilið að vinna Eurovision hehehhe....... bara klúður hjá dómnefndinni, örugglega vitlaust talið eða þannig! Enginn nær þessu alveg, allir eitthvað svo voða hissa.
Við sem vorum algjörlega best í keppninni. Ég meina það við vorum BEST!!!!
Og svo bara þið vitið það þá verður EKKI horft hér á Eurovision í kvöld.
Stemmning í blíðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.5.2009 | 23:05
Fór líka í þennan bláa flotta í kvöld
Já gott mál að hún komst í kjólinn og þetta líka flottan blápívóttan og glæsilegan. Veit ekki alveg hvort hann á að tákna hafið okkar bláa eða jöklana en kemur flott út, smart og glæsó!
Talandi um kjóla þá átti mín í stórvandræðum í dag þar sem hún fór að huga að einhverju til að klæðast í fyrir kvöldið. Ekki neitt of formlegt heldur bara svona kasjual smart. Þegar konur hafa misst fimmtán kíló er ekki miklar líkur á því að fötin frá því í fyrra passi lengur. Kona er samt búin að bæta á sig einum fjórum á einum mánuði og geri aðrir betur.
Hafið þið lent í því að máta og máta í heilan klukkutíma og vera nærri á grátnum þar sem ekkert fannst viðeigandi eða passandi skápnum fyrir næsta boð. Aldrei nokkurn tíma hef ég bölvað því að hafa misst kílóin fyrr en núna þessar síðustu vikur þar sem allt hangir niðrum mig í orðsins fyllstu.
Og fíflið ég fattaði ekki fyrr en nú að nú er must að fjárfesta í nýjum dressum.
Ég bjargaði mér fyrir horn í kvöld þar sem ég fann 25 ára gamlan kjól, þennan litla svarta (minn er reyndar dökkblár) og skellti yfir mig marglitu silkisjali svo það sást ekki hvað hann var víður um rassinn og trosnaður á saumum og mætti í þessari múnderingu hjá vinum mínum í norska í kvöldmat.
Við áttum saman skemmtilegt kvöld þrátt fyrir að ég var svona í hálfgerðum Öskubuskufíling.
Farin í verslunarleiðangur. Vantar tilfinnanlega svona sparidress með viðhengi og sollis, Jenný kallar það fyrirkomulag.
Jóhanna Guðrún söng í keppniskjólnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.4.2009 | 11:29
Já svo er nú það, ansans vesen.
Jæja þá er búið að skemmaleggja það fyrir mér ja alla vega þetta árið. Mig sem langaði svoooooo mikið til Mexíkó og var farin að plana ferð í huganum. Ætlaði að droppa við hjá vinum mínum í LA og Las Vegas en nú er maður bara stökk hér í Mið-Evrópu. Þvílíkur bömmer!
Svo er þjóðin búin að kjósa yfir sig það sem hún taldi vera réttast og ég fékk ekki tækifæri á að fagna því í gær eins og ég hafði planað þar sem ég átti ógeðslega vondan dag einn af þessum lousy dögum númer þrjú bara einn verri en síðast. Ég bjóst nú alveg við smá timburmönnum eftir síðasta kocktailpartýið en ekki svona hrikalegum. Dísussssss, það var eins og það væri verið að brenna í mér innyflin öðru hvoru allan gærdaginn. Verð bara að segja það, mikið helvíti var þetta vont.
Er fín í dag eða þannig, er auðvitað helaum eftir átökin en samt ekkert sem þarf að gera veður út af. Var að koma úr nuddpottinum og ætla á eftir út í göngutúr og láta sunnanvindinn lemja aðeins á mér já ér eru hvassir sunnanvindar í dag.
Hér sjáið þið kátu krakkana mína sem erfa eiga landið.
Tek undir orð skáldsins:
Oft finst mér eins og blessuð börnin hafi margföld not af tilverunni borið saman við okkur þá fullorðnu.
Ótti við svínaflensu vex | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vitið þið hvað Ayurvedic Massage er? Nei ekki það, ekki ég heldur fyrr en í gær þegar ég uppgötvaði þetta frábæra Indverska heilunarnudd. Það var ekki amalegt að byrja sumarið á því að kynnast þessari meðferð.
Ég hafði verið að hugsa um að reyna eitthvað nýtt tll þess að koma orkuflæðinu í stand og reyna að koma mér út úr þessu aðgerðaleysi og aumingjaskap og hafði hugsað mér að reyna Reiki sem ég hafði heyrt um að væri gott fyrir sál og líkama. Þess í stað var mér bent á Indverska meðferð þar sem notaðar eru þrennskonar olíur og þú liggur þarna eins og Skata í einn og hálfa klukkustund og lætur mjúkar hendur gæla við líkamann sem endar á sandmeðferð sem einnig er líka mjög þægileg.
Þessi meðferð á að hjálpa líkamanum að endurnýja sig sjálfur en auðvitað með þinni hjálp, sem fellst í því að hugleiða og vera meðtækilegur og skemmir ekki að hafa trúna meðferðis.
Ég veit ekki hvað gerðist en ég fékk það á tilfinninguna að ég lægi í mjúkum grænum mosa og yfir mér hvolfdist iðjagrænt laufþak. Tónlistin sem var framandi og kom úr litlum Ipod varð allt í einu lifandi og ég sá konu í hvítum kufli sem stóð ekki langt frá mér og söng þessa framandi söngva. Seinna tók við á Ipodinum karlaraddir en þá fannst mér þær berast all langt frá úr einhverskonar húsagarði með gosbrunni í miðju og þar gengu þessi munkar um í rólegheitum og hummuðu fyrir mig.
Alveg sama þið þurfið ekkiert að trúa mér en þetta var ótrúleg reynsla fyrir mig.
Í framhaldi varð ég svo heilluð af þessari meðferð að yfir teinu sem Camilla nuddarinn eða eigum við ekki heldur að kalla hana heilara drakk með mér, tek það fram að ég er ekki te fan, en þarna fannst mér það allt í einu gott, þá pantaði ég Jóga tíma í næstu viku og nudd á eftir. Aldrei komið nálægt Jóga en það var bara eitthvað sem sagði mér að þetta ætti eftir að hjálpa mér heilmikið og trúin flytur fjöll það vitum við.
Það var ekki amalegt að byrja sumarið svona vel.
SENDUM YKKUR ÖLLUM HLÝJAR SUMARKVEÐJUR HEIM Í YKKAR HÚS SEM BERAST VONANDI MEÐ SUNNANVINDUM HÉÐAN FRÁ STJÖRNUSTEINI.
15.4.2009 | 20:17
Ég er að pæla í því svo mikið..............
Það er svo margt sem ég er að velta núna fyrir mér. Ég hef verið að spyrja sjálfa mig hvort ég ætti að setja þessa þanka mína hér niður eða skrifa það heldur í bók minninganna en sú skrudda er ekki til sýnis hverjum sem er.
Margt af því sem mig langar til að deila með ykkur á fullan rétt á því að koma fram í dagsljósið sumt gæti jafnvel opnað augu fólks en gæti líka reynst öðrum hart að kyngja. Það hefur ekki vantað hvatningu en ég er eitthvað svo rög að taka stóra skrefið. Hella mér útí djúpu laugina.
Nú brosa margir út í annað því hvað hef ég ekki oft hent mér út í þá djúpu og svamlað alltaf upp að bakkanum. Hvers vegna ekki einu sinni enn?
Og hvað er það sem mig langar svo mikið að deila hér með ykkur?
Nei hefur ekkert að gera með kosningarnar, flokka eða pólitík almennt. Gæti ekki staðið meir á sama um allan þann endemis hálfvitagang sem þarna er í gangi uppi á mínu fagra föðurlandi. Stundum óska ég þess að þjóðin kjósi bara yfir sig ,,jólasveininn". Pælið í því hvað er í gangi þarna hjá þingheimi öllum. Ég skil engan útundan mér finnst sami rassinn undir þeim öllum, só sorrí!
Ekki heldur hefur það neitt með ástand gamalla húsa að gera eða hústökufólk sem kemur sér fyrir í ónýtum hjöllum stórkaupstaðarins. Hvað þá það skipti mig máli hvort verðir laganna heima æpi Gas,gas,gas og aftur gas. Allt í einu komnir á bólakaf inn í einhvern æsispennandi amerískan thriller með kylfur á lofti og stríðsglampa í augum.
Ef hústökufólk hefur gaman að því að koma upp þessum hjöllum, þrífa til og hreinsa út kakkalakka (síðan hvenær hafa kakkalakkar þrifist á Íslandi?) þar sem eigendur hafa ekki séð sóma sinn í því að rífa þessi hreysi niður þá bara mega þeir taka þessi hús mín vegna til handagagns. Tala nú ekki um ef þarna var búið að koma upp ,,verslun" sem,,seldi" ókeypis varning og sneisafullur pottur stóð á hlóðum allan daginn fyrir þurfalinga. Biðið við er þetta bara ekki hið besta mál?
En hvers vegna í ósköpunum varð að eyrnamerkja húsið með graffeti? Æ greyin mín þarna klikkið þið alveg. Það þarf nebblega að vera smá dipló til að fólk fíli ykkur. Nei ég segi bara svona.
Dísus hvað ég næ þessu ekki.
Heheheh nei það var sko alls ekki þetta sem ég vildi deila með ykkur það kemur seinna.
Veit ekki, ef til vill, ef til vill ekki.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fyrstu ábúendur Listasetursins okkar á vordögum eru nú komin hingað í Leifsbúð. Fræðimaðurinn, Íslenskufræðingurinn og kennarinn Baldur Sigurðsson og kona hans Eva ætla að dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verefnum sem ég kann nú ekki enn skil á en vonandi skýrist með tímanum.
Mikið finnst mér alltaf gott þegar líf færist yfir litla setrið okkar og ég get horft yfir frá Stjörnusteini að Leifsbúð og séð ljós kvikna á kvöldin eins líka þegar ég horfi yfir á morgnanna og fylgist með þegar ábúendur setjast með morgunkaffið sitt á litlu veröndina áður en byrjað er á dagsverkum.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri að koma upp þessu litla setri og getað deilt því með frábæru Íslensku listafólki nokkra mánuði á ári. Setrið er lokað yfir háveturinn eða frá enda nóvember fram í mars.
Við förum að eins og farfuglarnir. Opnum um leið og þeir þyrpast hingað úr suðri og syngja inn vorið með sínu dirrindí.
Fyrir þá sem áhuga hafa á að skoða fleiri myndir af Leifsbúð þá er hér linkurinn
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.3.2009 | 09:43
Er að pæla í því að banna pólitískar umræður á heimilinu, þær geta verið mannskemmandi.
Einhver bið verður víst á vorkomunni hér í Prag. Mér datt í hug að ef ég færi nú að blogga aðeins um vorið og kvarta þá ýtti það e.t.v. undir komu hlýrra vinda að sunnan.
Eins og Lóan er vorboði Íslendinga þá miða ég vorkumu hér við komu Svalanna að sunnan en það bólar ekkert á þeim eins og er. Hér er enn grátt yfir að líta og hitastigið rétt um sjö gráður. Æ mig er farið að langa svo til að sjá framan í gula fíflið þó ekki væri nema part úr degi.
Nú kætast margir landar mínir yfir þessari færslu þar sem ég þvæli um uppáhaldsumræðuefni margra, veðrið.
Í gær fengum við góða gesti hingað að Stjörnusteini, vini okkar sendiherrahjónin frá Vín. Eins og alltaf var sest og rabbað um dægurmálin hér og heima og það sem helst er í brennidepli þessa dagana. Stjörnmál, heimskreppu, útrásarvíkingana, kosningar og framboðslista á ég að telja upp fleira ,,skemmtilegt" áður en ég æli. Svona umræður til lengdar geta verið mannskemmandi!
Næst þegar gesti ber að garði ætla ég að banna svona umræður eða eins og gerðist hér um jólin heima hjá okkur í einu boðinu. Það voru gefnar fimmtán mínútur til að ræða heimsmálin og síðan átti fólk að taka upp léttara hjal. Það voru allir virkilega sátti við það fyrirkomulag.
Við vorum fjarri góðu gamni um síðustu helgi en þá héldu Íslendingar síðbúið Þorrablót í Vínarborg. Þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem við höfum ekki mætt á þessa skemmtun en gaman var að heyra að hún fór bara vel fram þrátt fyrir fjarveru okkar hjóna. Við stóðum nefnilega í þeirri trú að við værum ómissandi en svo virðist bara ekki vera og við verðum bara að bíta í það súra epli og sætta okkur við það. O jæja það voru víst einhverjir sem söknuðu okkar oggo pínu pons.
Annars leggst helgin bara vel í okkur og gæti jafnvel alveg hugsast að við fengjum smá sólarglennu þegar líða fer á daginn.
Njótið helgarinnar við leiki og störf hvar sem þið eruð í heiminum.
7.3.2009 | 17:16
Ef svuntan hennar ömmu minnar gæti talað.
Þar sem ég horfði á svuntuna mína hanga hér eiginlega upp á punt fór ég að hugsa um notagildi hennar hér áður fyrr og það hvort öll börn í dag vissu yfir höfuð hvaða tilgangi hún þjónaði.
Ömmur mínar notuð svuntur upp á hvern einasta dag sjálfsagt vegna þess að þær vildu hlífa dagkjólnum og ef til vill áttu þær aðeins tvo til skiptanna og svuntuna mátti þvo aftur og aftur en kjóllinn þoldi ekki sömu meðferð.
Sumar svuntur voru bara afskaplega plain og púkó en þær svuntur sem föðursystir mín saumaði voru listaverk með pífum og dúlleríi og vinsælar til gjafa innan fjölskyldunnar.
Svuntan var ekki aðeins til þess gerð að hlífa kjólnum heldur var hún notuð til ýmissa þarfa og ófá tárin sem þurrkuð voru af tárvotum kinnum barna og smá snýtt í leiðinni.
Svuntan var líka notuð sem pottaleppar þegar þurfti að taka heit form út úr ofninum.
Börnin földu sig oft undir svuntunni þegar ókunnuga bar að garði. Hún veitti líka oft skjól fyrir veðri og vindum þegar hlaupið var á milli húsa.
Svuntan kom sér oft vel þegar bera þurfti inn egg úr hænsnastíunni eða eldivið og mó undan húsvegg. Þá kom hún sér oft vel þegar illa logaði í kabyssunni og þá var hún notuð sem blævængur til að lifna við í glóðunum.
Kartöflur og rabbabari var líka oft borinn heim í svuntunni úr garðskikanum bak við hús.
Svuntan kom sér líka vel þegar óvænta gesti bar að garði og var ótrúlegt hvað hún var fljót að þurrka af ryk af húsgögnunum í betri stofunni svo allt varð skínandi hreint á svipstundu.
Húsmóðirin notaði hana líka sem veifu þegar gestir kvöddu, snaraði henni þá af sér og veifaði þar til ekki lengur sást til mannaferða.
Ég held að það eigi eftir að líða langur tími þar til eitthvað verður fundið upp sem jafnast á við margþætt notagildi gömlu góðu svuntunnar.
Amma mín notaði svuntuna sína til þess að setja sjóðandi heita jólakökuna í eldhúsgluggann til að kæla hana en í dag setja barnabörnin jólakökuna í gluggann til afþýðingar úr frystinum.
Það yrðu allir hálf brjálaðir í dag ef þeir ættu að rannsaka og kæmust að því hversu margar bakteríur fyndust í svuntunni hennar ömmu
Aldrei varð mér meint af því að komast í tæri við svuntuna hennar ömmu minnar það eina sem ég fékk var ást og hlýja.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)