Færsluflokkur: Menning og listir
16.1.2009 | 19:53
Fundinn fjársjóður - Minning.
Fyrir nokkrum árum flutti móðir mín í þjónustuíbúð eftir að hafa búið í nær fimmtíu ár á sama stað. Það kom í hlut eldri bróður míns að losa háaloftið þar sem faðir okkar, þá látinn fyrir tíu árum, hafði eitt mörgum stundum án þess að nokkur vissi í raun hvað hann hafðist við. Þetta var svona hans prívat vistavera frá skarkala heimsins.
Þarna uppi kenndi margra grasa og þar á meðal gömul sendibréf skrifuð af föðurafa okkar og ömmu svo og systur pabba. Þessi bréf eru skrifuð á árunum 1925 - ´30.
Nú hefur Kjartan bróðir minn tekið sig til og endurritað nokkur af þessum bréfum og fékk ég þau send á mailinu um daginn. Ég verð að segja ykkur að þetta kom virkilega við viðkvæma strengi. Ég kynntist aldrei þessum afa mínum því hann dó þegar faðir minn var 12 ára. Eitthvað sat í mér frá bernsku að afi minn hefði dáið úr krabba en eitt bréfið sem skrifað er af bróður hans lýsir veikindunum eins og heilablóðfalli. Við fáum víst aldrei úr því skorið.
Föðurfólk mitt hefur verið mjög vel skrifandi og stílfæring er svo lifandi að maður sér hlutina ljóslifandi fyrir sér. Jafnvel 17 ára systir pabba míns sem þá lá á Franska spítalanum (1925) skrifar mjög greindarlega og þar kemur svo vel í ljós að hún hugsaði meir um fjölskylduna heldur en sín veikindi. Hún talar um að hún hafi keypt pund af garni í peysu og sokka handa systkinum sínum en það komi ekki fyrr en með haustinu. Eina sem hún kvartar yfir er heimþrá og vondur matur á spítalanum en allir séu svo góðir við sig. Þessi frænka mín dó ári seinna úr berklum þá aðeins sautján ára.
Skemmtilegasta bréfið fannst mér það sem afi minn skrifar 1930 til ömmu minnar þar sem hún dvelur í Reykjavík hjá Dísu dóttur sinni sem þá var komin með berkla.
Þá er hann einn í Vík með föður minn átta ára og talar um að strákurinn borði vel. Fái grjónagraut í middag og kvöldmat. Einnig fái hann annað gott með og fullt af nýmjólk. Hann sé farinn að vinna (sem sagt faðir minn) við að tálga hökk af girðingastaurum og fái 5 aura á stykkið. Hann kvarti ekki um fótkulda enda hafi afi þæft sokkana hans vel áður en verkið hófst. Finnst ykkur þetta ekki yndislegt?
Á öðrum stað talar afi minn um að enginn þurfi að svelta á heimilinu um jólin því nóg sé til af mat. Full tunna af kjöti, 9 rúllupylsur, 7 reykt læri, vel full tunna af Fýl og tunnu af blóðmör. Fyrir utan fisk og mjólkina sem sjálfsagt kom þá frá Suður Vik. Alsnægtaheimili sum sé.
Þegar þessi bréf eru skrifuð eru flest þeirra börn, afa og ömmu flutt til Reykjavíkur. Pabbi var orðinn einn eftir heima þegar faðir hans dó 1933 að ég held. Eftir það flutti amma á mölina með pabba. Tvær systur pabba dóu ungar önnur úr barnaveiki (held ég) hin út berklum. Sjö komust til manns.
Systkinum föður míns sem öll eru látin varð ekki margra barna auðið. Við vorum 9 frændsystkinin og erum nú aðeins fimm eftirlifandi. Systur pabba sem voru þrjár eignuðust aldrei börn en tóku okkur frændsystkinin að sér eins og þeirra eigin.
Þetta var stórhuga fólk, stolt með afbrigðum en með hjartað á réttum stað.
Takk fyrir Daddi minn að hreinrita þennan ómetanlega fjársjóð.
Blessuð sé minning afa míns og ömmu Kjartans Finnbogasonar og Ingibjargar Jóhannsdóttur.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.12.2008 | 18:50
Elsa Lund, Saxi, Skúli rafvirki, Magnús og fleiri góðir karakterar.....
......skutust hér i inn í sjónvarpsherbergið okkar í dag að ógleymdum Ladda sjálfum. Við hjónin skemmtum okkur vel með afmælisbarninu og öllum hans gestum. Örugglega verið frábært að sjá þetta ,,live" í Borgarleikhúsinu á sínum tíma.
Takk kærlega fyrir skemmtunina Laddi minn.
Við erum ein í húsinu gamla settið þar sem Soffía fór í heimsókn til bróður síns og mágkonu. Satt best að segja frekar tómlegt.
Það sem til stóð að gera hér á heimilinu í dag fór fyrir lítið og ætla ég bara að láta við svo búið.
Það má alveg taka einn letidag svona milli jóla og nýjárs, eða er það ekki?
Er ekki enn farin að hafa tíma til að líta í bækurnar sem enn eru hér plastaðar inn.
Glugga ef til vill í einhverja þeirra í kvöld.
14.12.2008 | 20:52
Jólagleði að Stjörnusteini.
Það var jólalegt hér á föstudagskvöldið þegar gestir okkar keyrðu í hlað. Jólasnjórinn kom eins og eftir pöntun og eins og einhver hafði á orði, þetta var eins og að stíga inn í fallegt jólaævintýri.
Á slaginu hálf átta runnu bílarnir hér að útidyrunum hver á eftir öðrum eins og lög gera ráð fyrir. Hvað ég kann að meta þessa diplómatísku stundvísi. Engin hætta á að steikin brenni í ofninum eða súpan sjóði upp úr.
Íslenska kreppan var afgreidd yfir fordrykknum og gaf sendiherrann okkar öllum smá yfirlit yfir allt okkar ófremdarástand. Snyrtilega afgreitt Sveinn Björnsson, takk fyrir það.
Minn elskulegi stóð sig eins og honum einum er lagið í eldhúsinu og framreiddi hvern eðalréttinn á fætur öðrum. Hangikjötstartar sem við renndum niður með Svarta dauða. Humarsúpu með mango, önd sem allir stóðu á öndinni yfir og í lokin ferskum ávöxtum með kampavínssósu.
Knús á þig kallinn minn. Held bara að þér fari fram með hverju árinu.
Möndlugjöfina fékk danski sendiherrann. Flunkunýja Skoda Oktaviu. Nei ekki í fullri stærð bjánarnir ykkar, bara svona mini bíl.
Þessi árlegu jólaboð okkar hafa nú alla tíð þótt dálítið spes enda nenni ég ekki að halda stíf og leiðinleg boð þar sem allir sitja með hátíðarsvip og halda uppi einhverskonar gervi samræðum.
Í ár vorum við frá sex þjóðlöndum og sumir gesta okkar hér í fyrsta skipti. Eftir aðalréttinn sló ég í glas og sagði að nú væri komið að því að tekið yrði lagið. Ég hef það fyrir sið að láta einn frá hverri þjóð syngja fyrir hópinn jólalag frá sínu heimalandi. Þetta vekur alltaf mikla kátínu og í ár voru lögin frá Baltik löndunum dálítið framandleg og fyndin.
Ég tók í ár Göngum við í kring um einiberja runn, það er að segja þau vers sem ég mundi eftir og lék allan pakkann fyrir hópinn. Skúraði, þvoði þvott og gekk kirkjugólf með miklum tilþrifum.
Fékk bjartsýnisverðlaunin í ár!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.12.2008 | 20:57
Ömmufærsla og smá dægurmál.
Spyrja afa! Hringja í afa! Í gærkvöldi hringdi síminn og á línunni var litli dóttursonur okkar, rétt rúmlega tveggja ára. Afi ég má fá tvö súkkli? Afi skildi nú ekki alveg málið fyrr en útskýrt var að sá stutti hafði notað tækifærið, þar sem mamma hans var ekki heima, og reynt að plata pabba sinn að gefa sér tvö súkkulaði úr dagatalinu. Pabbinn var auðvitað ekkert á því og þetta endaði með því að hann hringdi í afa sinn til að fá hann á sitt band. Það gekk auðvitað ekki heldur.
Guði sé lof og þökk fyrir Skype á þessum báðum heimilum. Við mundum slá þjóðhöfðingjann okkar út ef svo væri ekki.
Og nú fer skórinn í gluggann í kvöld og minn verður nú ekki lengi að fatta þann sið ef ég þekki hann rétt.
Annars er hér allt á fullu að undirbúa mikið matarboð á morgun svo ég rétt náði að rúlla Mbl. í morgun. Rakst þar á grein eftir Glúm Baldvinsson sem ég hafði nú ekki tíma til að lesa fyrr en núna rétt áðan. Þarna er talað skilmerkilega og tæpitungulaust. Góð grein sem fólk ætti að lesa.
Ég er enn að reyna að vera sykk frí frá öllu þessu argaþrasi heima og njóta þess bara að undirbúa jólin og hafa það kósí á aðventunni. Hér er allt orðið skreytt utan sem innanhúss og ekkert eftir nema kaupa jólatréð en það fer nú ekki upp fyrr en rétt fyrir jólin.
Ég er komin í jólaskap og hlakka til að taka á móti góðum gestum á morgun.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.12.2008 | 18:47
St. Mikulas, Svarti Pétur og púkar úr neðra.
Tékkar þjófstörtuðu St. Mikulas deginum í fyrradag en hann er haldinn hátíðlegur 6. desember ár hvert. Við hjónin gerðum okkur ferð í bæinn á föstudag og hugmyndin var að versla eitthvað nytsamlegt og ónytsamlegt. Ef ég hefði vitað um þessa þjófstörtun hefði ég nú valið annan dag til bæjarráps.
Hvar sem litið var sáum við karlinn klæddan í hvíta kuflinn sinn með biskupshúfuna og stafinn umkringdan fjölda af æpandi púkum og Svarta Pétri. Börnin höfðu auðsjáanlega mikið gaman að þessari uppákomu og létu blessa sig í bak og fyrir.
Á markaðnum kepptist fólk við að selja púkahorn sem glóðu eins og vítislogar. Annar hver maður, jafnt börn sem fullorðnir báru þessi horn svo Gamla torgið leit út eins og sjálft neðra.
Torgið er alveg einstaklega fallega skreytt þetta árið og ætla ég að fara aftur eitthvert kvöldið og njóta í rólegheitum þar sem ég á það eki á hættu að fá jólaglöggið yfir mig eða hreinlega verða troðin undir.
Nú ætla ég að fara upp og tendra Betlehemskertið en svo nefnist kerti annars sunnudag í aðventu.
Eigið notalegt kvöld.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.12.2008 | 19:45
Ég bara trúi þessu ekki! Ætti ég að láta útbúa stimpil?
Tuttugu og einn dagur til jóla og fyrsta jólakortið kom í póstkassann okkar í gær yfir hafið frá Íslandi! Ég fór alveg í hnút! Er virkilega kominn tími á jólakortavesen. Getur bara ekki verið, ég á eftir að gera svo ótal margt áður en ég sest við skriftir.
Það er nefnilega algjör serimonía hjá mér við skrif jólakorta. Verð að taka það fram að minn elskulegi kemur ekki nálægt þessu, hvorki kvittar undir hvað þá að líma á frímerkin. Sem sagt búinn að komast undan þessu veseni í yfir þrjátíu ár!
Sko það sem ég vildi sagt hafa. Allt þarf að vera orðið jólalegt innanhúss. Ég kveiki á ótal kertum, set ljúfa jólatónlist í græjurnar og bjarminn frá arineld leikur um stofuna. Síðan hefst ég handa við að skrifa öllum persónuleg kort og annál ársins með sem ég hef sett saman á tölvuna og skelli með, ekki bara á mínu móðurmáli heldur ensku líka.
Sko þetta er auðvitað BILUN!!!!
Það er nú líka önnur stór bilun í gangi hér það er hvað við höfum sankað að okkur mörgum ,,JÓLAKORTAVINUM " í gegn um tíðina. Ég sendi um 150 kort út um allan heim.
ÞETTA ER RUGL!!!!!!
Á hverju ári strika ég svo og svo marga út en alltaf skal sami fjöldi bætast við. ´
Í fyrra ákvað ég að hafa annálinn í styttra lagi því mér fannst bara þeir sem nenntu að fylgjast með okkur gætu gert það hér á blogginu. Það helltust yfir mig kvartanir eftir áramótin. Djöf...frekja í þessu fólki, halda það að maður hafi ekkert betra við tímann að gera en að setja saman skemmtisögur handa þeim í jólakortin! ´Mér var meir að segja tilkynnt það að ég hefði bara eyðilagt JÓLIN fyrir fjölskyldunni og hvernig haldið þið þá að mér hafi liðið, þessi samviskusama kona sem ég er? HRÆÐILEGA eitt orð.
Sko nú er ég að hugsa og ætla að hugsa vel og lengi áður en ég tek ákvörðun um annál eður ei svo og líka, hvort ég get ekki skorið þetta aðeins niður í ár. Má samt ekki hugsa of lengi vegna þess að tíminn flýgur þessa dagana.
Eitt sinn datt mér í huga að láta búa til stimpil sem ég gæti bara skellt inn í kortin með svohljóðandi: Gleðileg Jól, Ía. Þórir og börn.
Ef ég hefðii gert það hefðu símalínur logað og fólk sem annars aldrei hefur samband mundi eyða í það að hringja yfir hafið og senda mér tóninn.
Jæja ég ætla að leggjast undir fiðuna eins og ein vinkona mín orðar það og hugleiða málið.
Nenni ég þessu yfir höfuð og hver er tilgangurinn að senda einhverjum JÓLAKORTAVINI kveðju sem ég hef ekki séð í tugi ára? Bara fyrir prinsippið?
Farin að hugsa djúpt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
2.12.2008 | 10:28
Hugmyndin góð en......
...hefði ekki verið táknrænna að tendra blysið við styttu Jóns Sigurðssonar. Við erum jú sjálfstæð þjóð ennþá.......
Vona að kallinn hann Kristján hafi ekki brennt sig mikið á hendinni því ef svo er leggst viðgerðarkostnaður á skattgreiðendur.
Farið vel með ykkur í dag kæru landar og farið ykkur hægt og skynsamlega.
Neyðarkall frá Kristjáni IX | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2008 | 18:54
Það má svo sem reka suma jólasveina aftur til síns heima fyrir mér.
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN 1. DESEMBER!
Datt í hug að setja inn hér mynd af jólastrákunum mínum sem skemmta sér í gluggakistunni úti við innganginn svona til að dreyfa huga ykkar frá uppákomum dagsins.
Jólasveinarnir okkar eru svo sem ekki allir góðir en það er held ég af og frá að við færum að banna komu þeirra eins og þessi Jón Knúdsen í DK vill ólmur koma á framfæri í sínu landi.
Suma jólasveina sem nú ráða ríkjum á Íslandi má svo sem reka aftur til síns heima en það er víst hægara sagt en gert.
Held að særingar norna og fylgiliðs hafi ósköp lítið upp á sig. Mér fannst nú helst þegar ég horfði á fréttina að ,,norninni" væri alveg skítkalt þar sem hún æddi um og baðaði út svörtum vængjum.
En sitt sýnist hverjum. Góðar stundir gott fólk.
Vill banna jólasveina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2008 | 19:05
Spádómskertið tendrað og ljósadýrð um allan heim.
Í dag hefur svipuð stemmning verið á öllum torgum stórborga heims þar sem ljós hafa verið tendruð á risatrjám með viðeigandi athöfn. Prag er þar engin undantekning og hófust hátíðahöldin á Gamla torginu klukkan fimm í dag og standa örugglega enn.
Það er alltaf hátíðlegt að vera viðstödd opnum jólamarkaðar hér og það er ekki bara tréð sem fólk dáist að heldur ótal aðrar skreytingar sem gleðja augað.
Ekkert varð úr þessari bæjarför okkar því fótboltabullur Breta áttu hug og hjarta míns elskulega í allan dag. Ég var svo sem ekkert að þrasa yfir þessari ,,sófalegu" því ég hafði í nógu að snúast við að skreyta hér innan húss. Fer bara seinna í vikunni til að taka út herlegheitin.
Ekki það að ég hafi heldur haft mikið fyrir því að trítla niður á Austurvöll með ungviðið í gamla daga, ja e.t.v. tvisvar eða þrisvar gerðum við það þó Ekki alveg ga ga foreldrar.
Nú ætla ég upp og kveikja á Spádómskertinu en svo nefnist kerti fyrsta í aðventu njóta það sem eftir er kvöldsins i friði og ró.
Lofaði að setja inn myndir og nú koma þær smátt og smátt.
Ljósin kveikt á Óslóartrénu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.11.2008 | 21:11
Jólaljósin tendruð að Stjörnusteini.
Ljósadýrð loftið fyllir! Ég jólabarnið er komin í jólafíling. Mér finnst ekkert eins gaman og að skreyta húsið að utan og innan. Ég vildi að þið gætuð séð núna útiskreytingarnar hjá okkur. Þúsundir ljósa allt frá hliðinu og aftur fyrir veröndina ljóma nú eins og heill jólaheimur.
Í ár vildi ég hafa hvítt og blátt frá innkeyrslunni og að framanverður svo auðvitað kostaði það nýjar seríur. Ég bjóst nú helst við því að minn elskulegi mundi fitja aðeins upp á nefið en hann tók ekki minni þátt í þessum skreytingum og í hvert sinn sem hann kom úr bænum hafði hann keypt nokkrar nýjar ljósaseríur. Allar gömlu marglituðu seríurnar lýsa núna upp litla greniskóginn minn sem ég bjó til fyrsta árið okkar hér, fyrir aftan veröndina. Verð að taka myndir af þessu og skella inn við tækifæri.
Þökk sé Pavel okkar sem hefur staðið hér í þrjá daga frá morgni til kvölds við að gera þetta mögulegt, gera húsið og umhverfið að litlu jólalandi okkur til mikillar ánægju og ekki síður sveitungum okkar sem leggja leið sína hingað til að fá smá jólastemmningu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)