Færsluflokkur: Menning og listir

Haustljóð skáldsins færði okkur kyrrð og ró hér í kvöld.

Skáldið, Jóhann Hjálmarsson hallaði sér makindalega aftur í hnausþykkan leðurstólinn með gleraugun á nefinu og las upp úr síðustu bók sinni sem gefin var út 2003. Kertin á borðinu flögruðu í takt við ljóðlínurnar. Við erum stödd í Listasetrinu okkar Leifsbúð.

Nóttin var dimm en inni var bjart og hlýtt.  Við sem nutum þessa upplesturs vorum aðeins þrjú, ég, Þórir og eiginkona skáldsins Ragnheiður. Við hölluðum okkur aftur með rauðvín í glösum og hlustuðum á skáldið fara með ljóðin sín.  Fyrst þau gömlu en síðan ný sem hann hefur samið hér undanfarnar vikur.  Ljóðin hans Jóhanns eru svo myndræn að ég var komin hálfa leið í gönguferð hér um nágrennið á stundum. 

Ekkert þykir mér betra en að hlusta á skáldin fara með sinn eigin kveðskap eða ritverk sama hversu góðir flytjendur eru þá jafnast ekkert á við það að hlusta á meistarana sjálfa.  Merking orðanna verður aldrei sú sama jafnvel þó okkar færustu listamenn fari með ljóð eða lesi úr ritverkum.

Verð að geta þess að Erró okkar sem telst til einstakra hunda, listelskur og næmur settist niður með okkur og góndi upp í skáldið og hlustaði dolfallinn.  Hef alltaf sagt að þessi hundur ber nafn með réttu.

Kvöld sem þetta gleymist seint.  Ég finn það svo vel núna hvað ljóðið gefur okkur mikið ef við hlustum.

Hlakka til að fá í hendurnar næstu ljóðabók sem samin var hér í Bohemiu. 

 

 

 

 


Hvað með þessa ,,jólasveina" sem komu okkur á kaldan klakann?

Öll umræða snýst um hvort ríkisstjórnin og Seðlabankastjórn eigi að sitja eða standa upp. Tillagan feld í þingi í gær.  Borgarfundur í Háskólabíó þar sem kona nokkur hafði það af að láta alla leppalúðana standa upp, flott hjá henni en hvað gerðist, þeir settust jú aftur og sitja sem fastast.  

Væri ekki nær eins og Ólína Þorvarðar bendir á á bloggi sínu að láta jólasveinana sem komu okkur á kaldan klakann sitja fyrir svörum fólksins í landinu.  Þeir halda áfram að kaupa sín eigin gjaldþrota fyrirtæki og bankarnir láta það viðgangast. Aðeins útvaldir fá að bjóða í þessi fyrirtæki.  Ekki það að ég hefði áhuga á þessum leikföngum þeirra en það gæti verið fólk þarna úti sem hugsanlega vildi og gæti keypt þrotabúin.  En þessu er öllu haldið kyrfilega inn í hellinum hjá Grýlu og Leppalúða.  

 Luxushótel í frönsku ölpunum, einkaþota og snekkja virðast vera skráðar á eiginkonu og þetta fína lið heldur áfram veislunni eins og ekkert sé. 

 Allir jólasveinarnir fara sér hægt á fjöllum og forðast byggð því þar er mannfólkið og það er reitt, sárt og úrræðalaust sumt hvert.   

Hvar eru jólasveinarnir?  Eru þetta e.t.v. þeir hér á myndinni á leið í næstu veislu? 


mbl.is Frostköld jólastemning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þarf að berja niður okkar baráttuþrótt?

Ég kveikti á útvarpinu til að fylgjast með mótmælunum í dag. 

 Vinur minn Hörður Torfa startaði og síðan tók við ræða Kartínar Oddsdóttur, og þvílík framsögn og kraftur!  Þarna fór kona að mínu skapi, með allt á hreinu og meðvituð um að hún var að tala til þjóðarinnar. Dampurinn féll því miður niður við ræður næstu ræðumanna, betur að Katrín hefði verið síðust á mælendaskrá.  En við lærum af mistökum. 

Ég var full af baráttuþrótti eftir að hafa hlustað á Rás 2, þökk sé allri okkar tækni og lækkaði ósjálfrátt, búin að fullvissa mig um að nú hefðu landar mínir gert góða hluti án þess að til einhverja átaka kæmi.  

Ég heyrði reyndar í Gerði þar sem hún sagði í miðri ræðu:  Hvað er að gerast?  Þá var verið að klæða Jón Sigurðsson forseta í bleikan kvennaklæðnað!!!!!!!!   

Gjörningar kalla þeir það!!!!   Jæja ég hef aldrei þolað gjörninga vegna þess að ég einfaldlega skil þá ekki. 

Var þetta nauðsynlegt?

Síðan, nokkrum mínútum seinna hækkaði ég í tölvunni. 

Óeirðir við Lögreglustöðina!!!!!!!!!!!!    Halló, var þetta líka á planinu? 

Þarf alltaf að skemma fyrir fólki sem vilja friðsamleg mótmæli með svona skrílslátum.  OK maðurinn var látinn laus, en þetta finnst mér lágkúra að hálfu mótmælenda.  Við náum engum árangri með svona hegðun. 

Stöndum frekar í þögn og mótmælum með kertum svo klukkutímum saman, það ber miklu meiri árangur.  Skiptist á, sínum einhug.  Ég skal gera mittbesta hér í fjarlægð.  

Við eigum eftir að sjá hvað verður í janúar og febrúar þegar fólkið okkar verður ekki lengur á vinnumarkaðnum. Allir góðir vættir veri með okkur þá.

Svo bíð ég bara góðrar nætur til ykkar allra þarna úti. 

 


mbl.is Fanganum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halló - vín / Halloween

Á morgun er minn dagur!  Og þá fer nornin hún ég á stúfana með öllu sínu hyski og málar bæinn rauðan.  Það er hægt að mála bæinn rauðan á marga vegu, þetta er líka spurning um hversu djörf/djarfur maður er í eðli sínu.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega djörf.

Er ekki alveg búin að plana daginn en samt að ég held, að hálfu leiti, og það verður minn dagur ekki spurning.  Minn elskulegi fær að slæpast með og e.t.v. einhverjir fleiri, sjáum bara til.

Þegar ég var krakki bakaði mamma ótal Hnallþórur á þessum degi og bjó til ekta súkkulaði úr Konsum blokksúkkulaði með þeyttum rjóma. 

 Ekki nokkur maður hafði þá heyrt um eitthvað sem hét Halló - vín enda bjuggum við á eyju sem stundum var ekki einu sinni merkt inn á kortið.  En það var alltaf hátíð þennan dag og húsið fullt af ömmum, frænkum, og nokkrum vinkonum úr hverfinu sem mamma valdi fyrir mína hönd, því ekki mátti maður bjóða hinum og þessum inn á heimilið. 

Nú eruð þið e.t.v. farin að skilja hvað ég er að þvæla um hér.  Nornin ég á afmæli 31. október.  Hvað ég er gömul?  Segi ykkur það ekki!

Ég slóst í hóp þeirra sem ríða sópum þegar ég flutti hingað út og kynntist þessum degi norna og seiðkalla.  Heheheh það var mér ótrúlega auðvelt!  Fædd í hlutverkið.

Við bjuggum í hverfi í átta ár þar sem margir útlendingar höfðu samastað.  Svona ,,Saterlight" hverfi eins og það var kallað í þá daga.  Mér fannst alltaf allt hverfið halda upp á daginn með mér og tók þátt í hrekkjavökunni af alvöru.  Fyllti skálar með nammi og skreytti allt með ljósum og draugaglingri.  Krakkarnir elskuðu að heimsækja nornina í Sadová.  Þegar árin liðu var fullorðna fólkið farið að koma með krökkunum því það vissi að innst í stofunni stóðu glös með kampavíni.  

Það var þá. Hrikalega skemmtilegir tímar.

Á morgun verður ekki hringt hér á bjöllu, ekkert ,,trikker treat"  Tékkanir eru ekki alveg búnir að læra þennan sið þrátt fyrir alla innrásina frá Ameríku og Bretlandi undanfarinn ár.  Þeir skreyta og selja Halloween skraut hér og þar, en börnin eru ekki alveg farin að læra að koma og berja að dyrum.  Ja alla vega ekki hér í sveitinni okkar.  

Nornin að Stjörnusteini ætlar sem sagt að halda daginn hátíðlegan á morgun.  Hvort ég ríð sköftum veit ég ekki, fer allt eftir veðri og vindum en skal lofa ykkur að ég skal elda seið og fara með nokkrar vel valdar línur úr nornarseið Macbeth.

Happy Halloween!

 

 

 

 

 

 


mbl.is Fólk hamstrar vín fyrir hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð

Í gærkvöldi komu síðustu ábúendurnir að Listasetrinu þetta árið.  Jóhann Hjálmarsson skáld og kona hans Ragnheiður en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Hjartanlega velkomin kæru hjón.

 Það var eins og sveitin biði þau líka velkomin þar sem litaskrúð haustsins var með eindæmum fallegt í dag.  Hér blakti ekki hár á höfði og hitinn fór yfir 19° um miðjan daginn.  

Vonum að dvölin  hér verði ykkur ánægjuleg, sveitin okkar og setrið veiti ykkur innblástur og skjól.


Dallas leiðin - Þetta var bara draumur!

Þetta sagði Dr. Gunni í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun:  Alveg eins og í Dallas forðum þegar fólk horfði á marga þætti og síðan kom fram að JR var bara að dreyma.  Eins gæti  þetta gerst hér, bara vakna í fyrramálið og Steingrímur Hermannsson væri enn forsætisráðherra og allt í gúddí.

Á þessu heimili er það síðasta sem maður gerir áður en lagst er á eyrað er að hlusta á fréttir að heiman og það fyrsta sem gert er er að opna fyrir fréttir að heiman.  Síðan taka við allar þær TV stöðvar sem við höfum hér og núna áðan var ég að horfa á Sky fréttastöðina og hlustaði með öðru eyranu en hugsaði um leið: Nú er hvít jörð heima.  Það var nú það sem vakti áhuga minn.  Segi ekki meir.

Í gær datt minn elskulegi inn á bloggið hans Jónasar Kristjánssonar og við skellihlógum hér yfir skondnum færslum.  Mikið var gott að hlæja og í dag bendir Jónas einmitt á að sumir bloggarar geti bjargað sálarheill margra þ.á.m. nefnir hann Dr. Gunna. 

Ég er alveg harðákveðin í því að framvegis  verða þessi blogg lesin áður en ég les um að allt sé að fara til helvítis.  Þá get ég e.t.v. séð fréttirnar í öðru ljósi og hugarástandið ekki í eins miklu svartnætti og hefur verið. 

Þetta ætla ég að gera fyrir mína sálarheill.

Hugsið málið.

Farin að tína við í arininn fyrir kvöldið til að gera smá kósi fyrir okkur hjónin.


Það er eitthvað mikið að því miður.

Perlurnar okkar sem við eigum hér á ísaköldu landi eru óteljandi og við sýnum stolt þessi undur útlendingum sem sækja okkur heim.  Geysir er ein af þessum perlum og þangað lá leið okkar hjóna um seinustu helgi. 

Geysir hefur nú aldrei heillað mig sérstaklega mikið.  Mér er nokk sama hvort sá ,,gamli" gýs eða hvort Strokkur hellir úr sér smá slettum. Gufustrókar úr jörðu hafa aldrei vakið neina sérstaka hrifningu hjá mér enda er ég fædd og uppalin á þessu landi og fyrir okkur er bara ósköp eðlilegt að gufu leggi upp úr jarðskorpunni hingað og þangað um landið. En útlendingum finnst þetta spes og þá er ekkert sjálfsagðara en að sýna öllum sem hingað koma frussandi hveri eða borholur sem hvæsa upp á Hellisheiði og víðar.

En það er eitthvað mikið að á þessum helstu ferðamannastöðum okkar.  Hirðuleysi umsjónamanna um öryggi og hreinlæti er þvílíkt ábótavant að það er til áborinnar skammar. Angry

Við hjónin komum seinast að Geysi fyrir tveimur árum í fylgd með helstu ráðamönnum þjóðarinnar og þjóðhöfðingja erlends ríkis.  Þá virtist allt vera í stakasta lagi og var tekið á móti okkur að Hótel Geysi með miklum höfðingsskap. Við vorum að koma ofan af jökli og fengum þarna léttar veitingar áður en haldið var til Reykjavíkur.

Það ríkti þess vegna dálítil eftirvænting hjá okkur þar sem nú átti að gista eina nótt að Hótel Geysi og skemmta okkur í góðra vina hópi íslenskra vina.

Veðrið var nú ekki upp á það besta en við harðákveðin í því að láta það ekki skemma fyrir okkur.  Við renndum í hlað rétt um hádegi og tók ég strax eftir því að fallega tréverkið var farið að láta á sjá.  Þegar inn kom spurðum við um gestamóttökuna og vinaleg stúlka frá Pest, Ungverjalandi vísaði okkur út og fylgdi okkur að bakhúsi sem mér fannst nú líkjast meir hjalli en húsi.  Þar var gestamóttakan.

 Grútskítugt teppi var það fyrsta sem ég tók eftir og mér fannst ég vera komin svo langt frá raunveruleikanum að það hálfa var nóg og er enn að pæla í því hvort þetta hafi í raun og veru verið eins slæmt og raun bar vitni. 

Konan í móttökunni var elskuleg og rétti okkur lykla og sagði að við værum í húsi númer 12.  Við hváðum, hvað meinarðu erum við ekki á hótelinu?  - Jú gistingin er hér fyrir neðan.

OK, við fundum hús númer 12 og það var þokkalegt, hreint á rúmum og svona eins og maður vill hafa þriggja stjörnu gistingu. 

Vinirnir fóru nú að tínast að og sumir fengu hús sem engan vegin var bjóðandi gestum.  Hitinn virkaði ekki í einu húsanna og í öðru fékk einn vinur okkar lokið af klósettkassanum í fangið þegar hann skrúfaði frá vatninu í vaskinn. Heita vatnið lét eitthvað á sér standa því það tók hálftíma að láta renna áður en hlandvolgt vatnið kom úr heitavatnskrananum og þannig var það í öllum húsunum og á salernum inni í Hótelbyggingunni var ekkert rennandi heitt vatn. Tvær af þessum glerfínu þvottaskálum voru stíflaðar og vatnið flæddi nær yfir barmana og salernin voru í hræðilegu ástandi. Sick

Halló við vorum á hverasvæði en ekkert rennandi heitt vatn!!!!!!!!

Um kvöldmatarleitið söfnuðumst við saman á ,,Hótelinu" því nú átti að halda inn í skógarrjóður þarna örskammt frá og snæða útigrillað gúmmelaði.  Það var búið að segja okkur að klæða okkur vel en það sem beið okkar var ótrúlegt.

Við vorum selflutt þarna uppeftir og ég var í fyrsta bílnum og það sem við okkur blasti var hringlaga hjallur, svona alveg eins og þeir voru gerðir verstir í gamla daga með þriggja til fimm sentímetra bili á milli fjalanna og sum staðar voru bara engir veggir.  Mér var að orði, nei þið hljótið að vera að grínast. 

Þegar inn kom blasti við grill í miðju svona í stærra lagi.  Allt í kring voru bekkir og borð sem voru rennandi blaut vegna þess að veðrið var brjálað.  Engin gashitun var þarna og ekki heldur nein lýsing fyrir utan kerti á borðum sem auðvitað logaði ekki á vegna vinda og vatns.

 Ég var sem betur fer þokkalega klædd og einn vinur minn var svo næs að lána mér flísteppi yfir axlirnar svo ég gat vafið dúnúlpu dóttur minnar um fæturna.  Sumar af konunum voru miklu verr klæddar en ég því engin hafði gert sér fulla grein fyrir aðstæðum.

Ég sá aldrei matinn sem settur var fyrir framan mig en borðaði hann bara blindandi og hann var ekkert slæmur, hef ekki hugmynd um hvað fram var borið.  

Við reyndum öll að gera gott úr þessu og sungum okkur til hita og sumir supu stíft á söngvatninu til að mýkja raddböndin. Þegar flestir voru búnir að borða tók minn af skarið og sagði að nú ætti að keyra konurnar upp á hótel enda var komið aftaka veður og við að verða gegnsósa eftir regn og sót frá grillinu sem þeir kynntu óspart til að halda á okkur hita. Whistling

  Ég hef aldrei elskað minn mann jafn mikið og þegar hann sagði: Allar konur í bílana.

Ákveðið var að hittast á barnum á hótelinu og flestir fengu sér kaffi og ,,með því" til að koma blóðinu af stað.  Það versta við að þegar inn í hús var komið var þar líka skítakuldi.  Kyndingin í ólagi var okkur sagt.  Engin sá um að þjóna okkur, gömul útbrunnin kerti voru hist og her en engin hafði haft rænu á að setja ný í stjaka eða ker.

Sumir drukku eigin veigar þar sem engin skipti sér af því hvort við versluðum við barinn og alveg skítsama hvort við værum eða færum. Aldrei sáum við Íslending við afgreiðslu.Tounge

Hádegismaturinn var borðaður í flýti áður en lagt var af stað enda ekki hægt annað þar sem fingur voru hálf frosnir við hnífapörin þar sem hitinn var greinilega ekki kominn í lag.

Stúlkan úr gestamóttökunni kom til okkar og spurði hvernig hefði verið í gærkvöldi.  Ég sagði bara: Ég gæti nú sagt þér það hefði ég séð eitthvað en satt best að segja fannst mér ég hafa misst sjónina þessa tvo tíma.  - Já við hefðum nú átt að flytja dinnerinn inn í hús en þetta er rosalega flott á sumrin.

  Ég nennti ekki að svara henni en hugsaði bara jæja vinkona ekki skal ég þræta við þig um það, sjálfsagt voða kósí á sumarkvöldi en mér fannst við bara vera þarna eins og fé af fjalli sem rekið hafði verið inn í réttina.  Sorry!

Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og þeir sem hafa haft það af að lesa sig alla leið hingað niður fá verðlaun næst þegar við hittumst.

Eftirminnileg og skemmtileg ferð með vinum mínum þrátt fyrir allt volkið.

Komin með blöðrubólgu og hor í nös.Grin

 

 

 

 

   


Cavalleria Rusticana og Pagliacci.

Ef einhver á núna heiður skilið þá er það Stefán Baldursson Óperustjóri sem sýndi enn og aftur að hægt er að galdra fram meistaraverk í litlu Óperunni okkar og fá okkar færustu söngvara til að koma fram og gleðja okkur í skammdeginu.

Prúðbúnir frumsýningargestir fögnuðu listamönnunum vel í lokin og satt best að segja hélt ég á tímabili að gólf fjalirnar í Gamla Bíó myndu gefa sig.  Held að þetta sé eitthvað sem óperugestir hafa fundið út, að í stað þess að klappa þar til lófarnir eru orðnir eldrauðir og aumir þá stappa gestir af öllu afli í gólfið svo dynur í gömlu fjölunum. 

Það var ánægjulegt að fá tækifæri á að hlusta á Kristján Jóhannsson syngja Canio en það hefur hann sungið margoft út í hinum stóra heimi.  Ekki fannst mér verra að fá að heyra í henni Sólrúnu Bragadóttur í hlutverki Neddu því  ég hef ekki heyrt Sólu syngja í mörg, mörg ár. Langar að geta þess að Elín Ósk Óskarsdóttir var mjög flott í hlutverki Santuzza. 

Þar sem ég er aðeins leikmanneskja þá ætla ég ekki að fara að skrifa kritik hér en vil samt láta koma hér fram að allir einsöngvararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekki gat ég heyrt annað en við ættum þarna fólk á heimsmælikvarða. Kórinn var mjög góður líka en pínu staður að mínu mati en sviði býður nú ekki upp á mikinn hreyfanleika.

Til hamingju með kvöldið litla Ópera!

Takk fyrir mig og mína.

 

 

 

    

 

 


Er haustið rétt handan við hornið?

Brrrrr... í gær blésu vindar sem er ekki algengt hér og í morgun var hitastigið 4° en er nú að skríða upp fyrir 12° og verður sjálfsagt orðið gott um hádegi.  Það er sem sagt farið að hausta hér og kominn tími til að huga að haustverkunum.  Taka slátur og sulta smá.  Ekki taka mig alvarlega núna þið þarna trúgjörnu vinir mínir, ekki séns að ég leggi á mig svoleiðis vesen.

Mín haustverk liggja nú aðallega í því að verja þessar hríslur mínar hér á landareigninni fyrir vetri konungi og ágangi dádýra og annarra ferfætlinga sem hafa þann ósið að naga nýgræðinginn niður að rótum ef ekki eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. En ég þarf nú varla að byrja að hugsa um það fyrr en í enda október byrjun nóvember.

September er mánuður breytinga hér í Prag. Maður finnur svo vel að sumarið er að hverfa fyrir haustinu.  Vinirnir fara að koma aftur eftir sumarfrí með sögur af fyrri heimkynnum sínum, börnum og barnabörnum.  Félagslífið fer að blómstra og konur sækja fundi reglulega, koma með nýjar hugmyndir og allt fer að verða svo virkilega heimilislegt.  Ekki það að ég sé mikil kvenfélagskona en ég held mig enn innan viss hóps kvenna sem mér þykja skemmtilegar og lífga upp á tilveruna.

Sandalatúhestarnir hverfa og pínu meiri menningarbragur litar borgina.  Listalífið breytist líka, leikhúsin, óperan og tónleikahöllin bjóða upp á vandaðra efni og betri flytjendur.  Það færist ró yfir borgina og maður getur gengið um göturnar án þess að rekast sífellt utan í fólk eða vera hræddur um að verða troðin undir. 

Sem sagt allt annað líf.

Eigið góðan sunnudag.

 

  

 

 

 


Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð, Tékklandi

Listasetrið Leifsbúð   Listamaðurinn Örn Þorsteinsson

Í fyrradag lifnaði aftur yfir Listasetrinu okkar þegar þau hjónin Örn Þorsteinsson, listamaður og María kona hans runnu hér í hlað í ljósaskiptunum, en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Mig var farið að lengja eftir því að sjá ljós í gluggum setursins á kvöldin þar sem vika er nú liðin síðan síðasti ábúandi fór héðan frá okkur.

Við bjóðum þau hjón velkomin hingað og vonum að dvölin verði þeim til gagns og gamans.

 

Stjörnusteinn sept.2008 007

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband