Færsluflokkur: Menning og listir

Vinsælt myndefni fyrir ferðamenn!

Í fyrra var ég stödd heima upp á Hamingjulandinu og þar sem ég stóð út á svölum hjá systur minni til að fá mér frískt loft eða þið vitið... en hún býr í Þingholtunum í einu af þessum gömlu húsum sem búið er að gera upp og er eigendum til sóma, tók ég eftir því að nokkur hús, þá sérstaklega eitt var að hruni komið og gat ég ekki betur séð en fólk byggi þarna innan veggja.

Þar sem ég stóð þarna í kvöldsólinni komu hjón gangandi eftir götunni.  Ég heyrði á tal þeirra og voru þarna ferðamenn á kvöldgöngu.  Þau stöldruðu við af og til og horfðu á byggingarnar og bentu á sum húsin með aðdáun.  Allt í einu stoppar maðurinn og fer að stilla myndavél sem hann bar um hálsinn.  Hann stóð þarna lengi vel og myndaði þetta hreysi í bak og fyrir. Ég hugsaði, hvað manninum kæmi til með að velja þetta hús þar sem útskornir gluggarammar voru morknir af elli, bárujárnið ryðgað og gular gardínur hengu fyrir gluggum eins og lufsur en í gluggakistum mátti líta á mjólkurhyrnur innan um skrælnuð pottablóm. 

Ég spurði systur mína hvernig stæði á því að sum af þessum gömlu húsum væru í svona slæmu ásigkomulagi og svarið var:  Æ ég held að þessi hús séu leigð út og eigendunum er alveg skítsama hvort þau grotna niður eður ei.

Ég varð aftur vitni að því að hópur útlendinga notuðu þetta hús sem fyrirmynd gamalla húsa í borginni okkar.  Sorglegt!  Veit ekki alveg hvað fólki gengur til.  Mér hefur aldrei dottið í hug að mynda öngstræti stórborga til að sýna öðrum sorann.

Vonandi taka nú eigendur gamalla húsa sig saman í andlitinu og sýna sóma sinn í því að ganga betur um eignir sínar í henni Reykjavík svo og öðrum stöðum á landinu.     


mbl.is Draugahús fær andlitslyftingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir voru hreint út sagt frábærir!!!!!

Blásarakvintett ReykjavíkurUm fimmtíu manns sóttu okkur heim í gær og hlýddu á tónleika Blásarakvintetts Reykjavíkur.  Hér myndaðist svona hálfgerð stofustemmning þar sem ég hafði komið fyrir sófum og hægindastólum hingað og þangað á veröndinni og fólk lét fara vel um sig í síðsumarsólinni og naut þess að hlýða á þessa frábæru listamenn spila hér hvert verkið á fætur öðru. 

Listamönnunum var að sjálfsögðu vel fagnað í lokin og eftir tónleikana buðum við upp á léttar veitingar þar sem öllum gafst tækifæri á að ræða við strákana og fræðast um þeirra feril. 

 Pósthólfið mitt fylltist í dag af kveðjum og átti ég að færa þeim bestu þakkir fyrir frábæran flutning og ánægjulegan eftirmiðdag hér að Stjörnusteini og geri ég það hér með.  

Um kvöldið héldum við Þórir þeim og mökum þeirra auk sendiherrahjónunum okkar sem komu frá Vínarborg smá matarboð hér úti í Leifsbúð.  Mikil og góð stemmning ríkti hér og Listasetrið bauð þessa listamenn velkomna á sinn einstæða hátt með brakandi arineldi og flöktandi kertaljósum sem sendu skugga sína upp í rjáfur þessa sérstaka seturs.

Mig langar að þakka Einari Jóhannessyni fyrir skemmtilega daga hér undanfarnar vikur og góða viðkynningu, en hann hélt heim með félögum sínum í dag. 

Benni, Jo, Hafsteinn og Daði takk fyrir að koma og gleðja okkur og gesti okkar þennan fallega síðsumardag hér í sveitinni.  Ógleymanleg stund sem lengi verður í minni höfð.       


The Reykjavík Wind Quintet í hundrað turna borginni í kvöld.

Þjóðarstoltið var gjörsamlega að fara með mig í kvöld.  Strákarnir okkar úr Blásarakvintett Reykjavíkur þeir Bernharður Wilkinson á flautu, Daði Kolbeinsson á óbó, Einar Jóhannesson á klarinett, Joseph Ognibene á horn og Hafsteinn Guðmundsson á fagott gjörsamlega heilluðu áheyrendur hér í kvöld þar sem þeir héldu tónleika fyrir nær fullu húsi í Gallery Sargsyan í hundrað turna borginni Prag.

Einar Jóhannesson er búinn að dvelja hér hjá okkur í Listasetrinu undanfarnar vikur og var ákveðið að vinir hans úr Blásarakvintettnum kæmu hingað í lok dvalarinnar og héldu konsert í borginni.  Strákarnir hefðu nú átt að vera viku seinna á ferð þar sem við töldum september vænlegri til tónleikahalds.  En þeir fylltu nær húsið og fólk stóð upp í lokin og hylltu þessa frábæru listamenn okkar með húrrahrópum og lófataki. Margir sóttust eftir eiginhandaáritun og þeir voru stjörnurnar okkar sem lýstu hér upp síðsumarnóttina í öngstræti Prag í kvöld.

Efnisskráin fyrir ykkur tónlistaunnendur var Mozart, Ibert, Reicha, Páll. P. Pálsson, Bach og Farkas.

Á morgun ætla þeir að njóta lífsins í borginni með sínum eiginkonum en á laugardaginn koma þeir hingað að Stjörnusteini  þar sem þeir ætla að halda tónleika hér heima í garðinum okkar.

Þá býst ég við að þjóðarstoltið taki sig upp aftur og örugglega í miklu meira mæli þar sem þeir verða hér á næstum Íslenskri grund. 

Takk fyrir frábæra tónleika og ykkar návist kæru félagar! 

 

 

 


Flott framtak hjá Valdísi Óskarsdóttur

Innilega til hamingju Valdís mín með þetta framtak! Mér sýnist líka ,,kastið" ekki vera af verri endanum sem þú hefur valið til að vinna með þér.   Hlakka til að sjá myndina og óska þér alls hins besta í framtíðinni, hvar sem þú kemur til með að stinga niður fæti í heiminum. 

Kveðjur héðan úr sveitinni okkar í Tékklandi.


mbl.is Íslensk brúðkaupsveisla í Toronto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvirðing við listamenn.

Hvimleitt satt er það en þetta er óvirðing við listamenn og fólk á að sýna sóma sinn í því að mæta ekki ef það getur ekki hamið sig eða alla vega að ganga úr salnum.

 Finnst eins og fréttamaður sé að dæma Mr. Schiff fyrir hrokafulla framkomu.   Ég skil listamanninn fullkomlega og sjálfsagt hefur honum fundist komið nóg af því góða og beðið fólk fólk vinsamlegast um að hemja sig rétt á meðan hann spilaði.

Við sem sækjum tónleika vitum að yfirleitt þegar hlé er gert á milli verka byrjar hálfur salurinn að ræskja sig og hósta, leiðindar ávani!  Hitt er annað mál að ef þú ert með kvef og hósta og veist að hóstinn getur brotist fram hvenær sem er og þá sérstaklega þegar þú ert í tónleikasal í gömlum byggingum sem eru uppfullar af ryki  þá bara mætir þú ekki á tónleika, þú sleppir þeim! 

Ég hef oftsinnis orðið að sitja heima vegna þess að ég ber virðingu fyrir listamönnum og kæmi aldrei í hug að mæta á konsert eða óperur vitandi það að ég gæti fengið hóstakast í miðju verki.  Ég hef líka orðið fyrir því að verða að ganga úr salnum vegna þess að ég hélt að ég gæti hamið mig rétt á meðan flutning stæði. 

Annað sem kvefaðir áheyrendur gera líka sem er ekki síður ósmekklegt er að mæta með hálstöflur, í skrjáfandi umbúðum.  Hvers vegna ekki að taka töflurnar úr umbúðunum áður en gengið er í salinn.  Síðan eru það farsímarnir, á ég að halda áfram?

Nei læt hér staðar numið. 

  Bara smá svona pirringsblogg héðan frá Stjörnusteini inn í kvöldsólarlagið. 

 

  


mbl.is Hóstaður út af sviðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagurinn byrjar vel og enginn ,,Erill" sjáanlegur enn

Frábær hugmynd Ingibjargar Sólrúnar að opna Utanríksráðuneytið fyrir almenning í dag á örugglega eftir að verða mörgum minnisstætt og nú þegar þetta er skrifað þá stendur yfir maraþonið í Reykjavíkurborg, ekki amalegt að byrja daginn á smá skokki. 

 Það eru örugglega margir sem halda daginn hátíðlegan í dag af ýmsum tilefnum.  Bara í okkar fjölskyldu eru tvö afmæli, fimm ára brúðkaupsafmæli dóttur okkar og tengdasonar og síðan á snillingurinn hann Egill bróðir minn, líka afmæli.  Til hamingju krakkar mínir með brúðkaupsafmælið, njótið dagsins vel.  Egill minn knús á þig, ekki amalegt að láta borgina halda veislu í tilefni dagsins og færðu svo ekki líka flugeldasýningu í lokin?   Frábært!!

Það er ekki laust við það að hugurinn sé á flugi yfir hafið á svona tillidögum og vottur af heimþrá í litla hjartanu.  Við hér óskum Borginni okkar svo og öllum íbúum hennar velfarnaðar og megi dagurinn verða ykkur til gleði.

  Engan fíflaskap, gangið vel um stræti og torg.  Farið svo öll snemma í hátinn, það er stór dagur á morgun!  

      


mbl.is Opið upp á gátt í utanríkisráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælistónleikar Bjarkar Jónsdóttur í kvöld

Mikið hefði verið gaman að geta verið heima núna og glaðst með mágkonu minni Björk Jónsdóttur, söngkonu en hún heldur tónleika í Iðnó í kvöld.  Segir í tilkynningu að þarna ætli hún að sýna á sér nýjar hliðar.  Spennandi þar sem hún er búin að vera með annan fótinn í kóngsins Köben í nokkur ár og er enn.

Elsku Bökka mín innilega til hamingju með þennan áfanga og afmælið 26. ágúst!

Toj, toj, toj !!!!!

 


Tónaflóðið heldur áfram að berast frá Leifsbúð

Nú eru það ómar frá klarinettinum hans Einars Jóhannessonar sem berast hér með vindinum yfir sveitina okkar en hann kom í gær hingað og ætlar að dvelja hér í Listasetrinu næstu fjórar vikurnar. 

Ég hef alltaf haldið dálítið upp á þetta ljúfa hljóðfæri og ekki amalegt að fá að njóta þess að hlusta á snillinginn spila.

Minnir mig á fyrsta veturinn okkar hér í Prag 1991.  Þá bjuggum við niðrí borg ekki svo langt frá Kastalanum.  Einu sinni sem oftar var ég að ganga niður í bæ og var komin niður á Mala Strana en þar liggja öngstræti alveg niður að Moldá.  Ég man að það var brunakuldi eins og hann getur orðið verstur hér og stilla.  Allt í einu heyri ég undurljúfa óma klarinetts berast út um opinn glugga. 

 Ég stansaði og leit upp að húsinu sem var fremur óhrjálegt þriggja hæða steinhús.  Grá kolaslikjan huldi gömul útflúr og steinmyndir en bak við opinn glugga bærðist hvít gardína í svölu morgunloftinu. 

 Það er í svona strætum hér í Prag sem tíminn stendur kyrr og það er svo auðvelt að finnast maður vera kominn inn í mynd fyrri alda. Ég man að ég stóð þarna gjörsamlega bergnumin og hlustaði lengi á tónana sem bárust frá opnum glugganum.  Mér fannst ekkert vanta þarna nema krínólínið.  Ég rankaði við mér þegar ég heyrði hófaskelli á götusteinunum og vagn kom skröltandi fyrir hornið.  Ekillinn heilsaði og hvarf síðan inn í frostþokuna eins og í ævintýrunum.

Ég gleymi þessum sunnudagsmorgni aldrei og ef þið eigið einhvern tíma leið hér um farið þá og heimsækið þessi öngstræti Mala Strana snemma morguns á vetrarkvöldi.      


Brahms í boði Guðnýjar konsertmeistara hér í borðstofunni okkar í kvöld

Enn bættist við flóru listamanna hér í Listasetrið okkar og í dag tókum við  á móti Guðnýju Guðmundsdóttur konsertmeistara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Okkar er heiðurinn að fá þessa frábæru listamenn hingað til dvalar í skamman tíma. 

 Guðný tók upp fiðluna hér í kvöld og þar sem við sátum undir sextándu aldar gamalli hvelfingu inn í borðstofunni okkar fannst henni ekkert annað koma til greina en spila fyrir okkur verk eftir Brahms.  Ég á seint eftir að gleyma þessari kvöldstund hér í borðstofunni minni við kertaljós og undurfagra tóna frá fiðlunni hennar Guðnýjar.

Á eftir settumst við út á verönd og borðuðum kvöldverð sem undrakokkurinn, minn elskulegi framreiddi af sinni einstöku snilld. Það gerði smá skúr svo við fórum inn og gæddum okkur á bláberjum með heitri kampavínssóu sem aldrei bregst á þessu heimili. 

Mikið skrafar, mikið rætt um sameiginlega vini og kunningja og nú eru allir komnir til kojs nema hún ég sem sit hér og pikka þetta hér í dagbókina mína.

Á morgun er kominn nýr dagur. 

 

  

 

 

 

 

 

   

 


Engin hafði úthald til að taka næturvaktina eða standa bakvakt.

Hvert flýgur tíminn?  Við sitjum eftir með ljúfar minningar en vitum ekkert hvað varð um þessa daga, vikur eða mánuði.  Ég er alveg klár á því að næst þegar ég lít upp verða bara komin jól svo hratt líða þessir sumarmánuðir.

Í morgun kvöddum við rithöfundinn okkar hann Halldór og eiginkonu hans Önnu en þau hjónin eru búin að vera ábúendur í Listasetrinu undanfarnar sex vikur. Takk fyrir kæru hjón að leyfa okkur að njóta nærveru ykkar þessar vikur og velkomin aftur hvenær sem er. Vonum að dvölin hafi verið ánægjuleg hér í litla setrinu okkar.

Nei það er ekki hægt að segja að hér að Stjörnusteini ríki einhver lognmolla.  Við erum búin að eiga notalega daga hér líka með kærum vinum okkar, Elsu og Kristjáni sem komu hingað fyrir viku og gistu hér síðustu daga ferðarinnar en ég kvaddi þau hér fyrir rétt rúmum hálftíma þar sem leið þeirra lá heim til Íslands.  Hér hefur verið mikið spjallað, hlegið og heimsmálin kryfjuð til mergjar undanfarna daga enda æskuvinir þar saman komin.  

Við vinkonurnar komumst samt að þeirri niðurstöðu að eitthvað væri nú úthaldið farið að gefa sig þar sem hvorug okkar stóð næturvaktina fyrr en í gærkvöldi og aldrei neinn á bakvakt heldur þessa daga.  Við köllum það að vera,, á vaktinni" þegar við gátum setið til morguns og blaðrað um allt og ekkert hér í gamla daga og að vera á ,,bakvakt" var það kallað þegar einhver vaknaði um miðja nótt til að fylgjast með gangi mála. Jamm eitthvað er nú farið að slá í okkur eða eigum við e.t.v. að kalla þetta þroska fullorðinsáranna.  Humm... gæti hugsast. 

Nú er sem sagt komin ró yfir Stjörnustein í bili.  Það eina sem heyrist hér nú er dirrindí úr hreiðrum smáfuglanna og notalegt skrjáfið í laufum trjánna sem bærast hér í andvaranum.  

Það er líka stundum gott að vera einn.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband