Færsluflokkur: Menning og listir
23.6.2008 | 09:09
Brynja Benediktsdóttir
Ég rifja upp í huga mér hvað fyrir bar
og leita þín í svipmynd þess, sem eitt sinn var.
Mig setti hljóða í gærkvöldi þegar við fréttum af andláti Brynju Benediktsdóttur. Það var ekki fyrr en við vorum búin að hringja heim og fá þetta staðfest að ég skildi allt í einu að þarna var farin minn góði lærimeistari og vinur. Svo ótímabært og svo snöggt.
Ekki nema nokkrir mánuðir síðan við hittumst heima og töluðum um að nú væri kominn tími til að hittast hér heima hjá okkur í Prag. Stundum er lífið svo óréttlátt og grimmt.
Elsku Erlingur minn, sendum þér og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi ljós fylgja ykkur og lýsa á þessum erfiðu tímum.
Andlát: Brynja Benediktsdóttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2008 | 09:44
Enginn veit sína æfi fyrr en öll er
Skemmtileg grein eftir Orra í Mbl. í dag. Við tönglumst oft á því að aldur sé afstæður, þá sérstaklega fólk á mínum aldri. Og það er jú orð að sönnu alla vega þegar heilsan er góð og við í góðu jafnvægi.
Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég svipaðar hugleiðingar og hvort við sem nú erum komin yfir miðjan aldur kæmum til með að sætta okkur við soðninguna á elliheimilum. Eða hlusta á Hvíta Máva með Helenu okkar Eyjólfs. Nei ætli það, ég held að mín kynslóð komi til með að rísa upp á afturfæturna og heimti sitt sushi og hvítvín í hádeginu.
Reyndar þarf nú ekki mína kynslóð til að kvarta þar sem tengdafaðir minn dvelur á Eir en móðir mín er nú svo heppin að búa í sinni íbúð á Skúlagötu 20 en getur fengið mat út í næsta húsi. Þau kvarta bæði yfir bragðlausum mat og það sé ekkert fútt á þessum heimilum, en þau eru af þeirri kynslóð sem láta þetta bara gott heita kvarta ekki mikið nema bara svona sín á milli.
Ætli mín kynslóð verði líka þannig með árunum, ætli við komum til með að taka öllu þegjandi og hljóðalaust, nei ég held og vona ekki.
En því miður er það oft að ellilífeyrisþegar verða að sætta sig við örlög sín, hvort sem þeim líkar betur eða ver þá sérstaklega þegar heilsan brestur.
Þegar móðuramma mín sem þjónaði ríkisstjórninni okkar í 20 ár eða frá árunum 1948 - 1968 lét af störfum átti hún enga í búð enda alltaf búið á vegum ríkisins sem húsfrú. Bjarni Benediktsson heitinn útvegaði henni þá herbergi á Hrafnistu sem hún þáði með þökkum. Eftir það fór aðeins að halla undan fæti hjá henni og hún sem alltaf var svo kát og hress fór að fá heilablóðföll hvað ofan í annað. Eftir eitt kastið sagði hún við móður mína að hún vildi alls ekki láta planta sér inn á sjúkradeildina á Hrafnistu. Eitthvað hafði hún á móti þeirri deild en því miður fór svo að þegar hún fékk þriðja blóðfallið var ekki aftur snúið og hún var lögð inn á deildina og var þar rúmliggjandi í 10 ár.
Enginn viss hvort hún skynjaði hvar hún var en ég held samt að svo hafi verið. Grátköstin og svipurinn sagði meir en nokkur orð. Stundum átti hún góða daga og það var eiginlega bara þegar karlmenn heimsóttu hana, þá lék hún við hvern sinn fingur, hló og augun ljómuðu. Blessuð sé minning ömmu minnar góðu.
Þannig er nú það, við vitum ekki hvar við komum til með að enda eða hvort heilsa og lífskraftur fylgi okkur fram á grafarbakkann. Það besta sem við getum gert er að reyna að lifa í núinu og njóta lífsins á meðan við getum. Elska hvort annað og bera umhyggju fyrir náunganum.
Ég ætla samt að rokka og róla og borða góðan mat og njóta góðra veiga í ellinni. Hvar það verður veit ég ekki en það verður fjör þar sem ég verð. Lofa því.
Allir velkomnir á draumastaðinn minn. Læt ykkur vita þegar nær dregur hvar hann verður.
Húðflúr, sushi og bikinivax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.6.2008 | 11:08
Alltaf verður eitthvað einhverntíma fyrst
Í gærkvöldi má segja að brotið hafi verið blað í sögunni þar sem í fyrsta skipti var haldin sameiginleg þjóðhátíð átta landa hér í Prag. Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Ísland, Eistland, Lettland og Litháen tóku sig saman og ákváðu að nú skildi halda sameiginlega sumarhátíð og var dagurinn 18. júní ákveðinn með það í huga að hægt væri að halda samkomuna undir berum himni.
Þessi hugmynd kom upp einhvern tíma þegar tveir sendiherrar voru að tala um hversu ótækt það væri að halda stórar móttökur á þjóðhátíðardag þjóðanna. Allar þjóðir eru með nokkurn vegin sama boðslista svo þessi hugmynd var alls ekki galin. Margar þjóðir hafa hætt við þessar stóru móttökur þar á meðal við Íslendingar vegna hins gífurlega kostnaðar sem slík boð hafa í för með sér.
Að sjálfsögðu þarf að undirbúa svona samkvæmi með löngum fyrirvara en þegar átta lönd sameinast verður verkið léttara.
Boðið í gær var haldið í garðinum við Kampa Museum og við áætlum að milli sex og sjö hundruð manns hafi glaðst með okkur þarna í gærkvöldi. Það var söguleg stund að sjá alla Sendiherra ríkjanna og General Consul Íslands standa þarna í handabandamóttökunni. Þau stóðu undir fánum landanna og voru stórglæsileg.
Sendiherra Svía setti hátíðina og síðan hélt prodokolmeistari Tékkneska utanríkisráðuneytisins stutta tölu þar sem hann lýsti ánægju sinni með þetta framtak okkar. Annars voru allar ræður afþakkaðar. Okkar eina og sanna Diddú söng síðan nokkur lög á íslensku, sænsku og norsku þar sem við vorum svo heppin að hún var hér á söngferðalagi. Takk fyrir það Diddú mín og Steinunn.
Veislugestir nutu sumarblíðunnar og mikil og góð stemmning myndast þegar líða tók á kvöldið.
Við sem stóðum að þessari hátíð vorum sammála um að slíkar sameiginlegar móttökur kæmu til með að vera. Ekki nokkur spurning og þætti okkur ekki ólíklegt að fleiri þjóðir tækju upp þennan sið í náinni framtíð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2008 | 23:47
Diddú söng sig inn í hjörtu allra hér í kvöld
Hvað er hægt að hugsa sér betri Íslandskynningu en að fá okkar ástsælu sópran söngkonu til að halda uppi tónleikum á þjóðhátíðardaginn okkar! Diddú var perla okkar hér í kvöld og ljósmyndarar kepptust um að mynda hana í bak og fyrir eftir stórkostlega tónleika hér í Rudolfinum.
Divan okkar var númer eitt og ekki spillti undirleikari hennar hún Steinunn Birna Ragnarsdóttir. Þær stöllur komu fram hér í kvöld á sameiginlegum tónleikum Tyrkja og Íslendinga. Öllum fyrirmönnum þjóðarinnar var boðið og salurinn var þétt setinn bæði uppi og niðri.
Tyrkir byrjuðu konsertinn og komu þar fram ágætlega frambærilegir tónlistamenn, flautuleikari sem ég kunni nú ekki alveg að meta enda var tónlistin afskaplega Tyrknesk en síðan kom mjög svo frambærilegur píanisti sem skilaði vel Mozart.
Eftir hlé kom að okkur Íslendingum og stigum við hjón saman á svið og buðum gesti velkomna og sögðum lítileiga frá því að nú væri haldinn þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Síðan kynntum við þær stöllur Diddú og Steinunni og óskuðum fólki góðrar skemmtunar.
Steinunn Birna byrjaði á því að spila verk eftir Dvorsák og síðan sigldi okkar eina og sanna sópransöngkona inn á sviðið. Diddú byrjaði á því að syngja nokkur nokkur Íslensk lög og í lokin tók hún með hljómsveitinni aríu úr LaTraviata
Við áttum kvöldið! Eftir tónleikana buðum við um 80 manns til smá samsætis í forsetasalnum þar sem fólki gafst kostur á að hitta listamennina. Það fór ekkert á milli mála við stóðum með pálmann í höndunum í kvöld!
Takk elsku Diddú mín og þakka þér fyrir að tileinka mér eitt lagið á tónleikunum. Við erum báðar svo elskar Halldóri okkar Laxness enda varstu bara smá písl þegar við hittumst fyrst í Brekkukotinu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.6.2008 | 07:33
Gleðilega hátíð góðir landsmenn nær og fjær
Hæ hó Jibbí jey! Hér brosir sólin og allir eru í þjóðhátíðarskapi. Ja eða svo held ég hef nú ekki séð neinn nema hundinn hér í morgun. Minn elskulegi löngu farinn að undirbúa daginn niðrí Prag.
Hátíðahöldin byrja hér ekki fyrr en í kvöld en þá heldur okkar eina og sanna Diddú konsert hér í Rudolfinum tónleikahöllinni. Á morgun verður síðan haldið rækilega upp á daginn en ég segi ykkur frá því seinna.
Sendum ykkur öllum, fjölskyldu, vinum og öðrum landsmönnum hvar sem þið eruð stödd í heiminum okkar bestu kveðjur í tilefni dagsins. Vonanadi skín sólin líka á ykkur í dag og allir í góðum þjóðhátíðarfíling til bæja og sveita.
3.6.2008 | 16:26
Enn bætist hér við Flóruna í Listasetrinu okkar
Næstu sex vikurnar mun Halldór Guðmundsson, rithöfundur dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð og hlökkum við hjónin til að kynnast þessum víðfræga fræðimanni og rithöfundi í eigin persónu.
Mér datt í hug áðan þegar himnarnir opnuðust og helltu hér yfir okkur þrumum og eldingum hvort einhver sterk öfl fylgdu þeim hjónum hingað, lætin voru þvílík! Það er ekki óalgengt að fylgjur gesta okkar geri vart við sig hér rétt áður en þeir banka uppá. Nei, verið ekki að taka mig svona alvarlega, ég er hálft í hvoru að grínast.
En nú hefur stytt upp og sólin er aftur farin að þurrka jarðveginn. Innkeyrslan hjá okkur varð eitt stórfljót og leist mér satt að segja ekki alveg á blikuna minnug flóðanna sem urðu hér í fyrrasumar.
Hér með bjóðum við Halldór og hans konu hjartanlega velkomin hingað að Listasetrinu. Njótið vel kæru gestir.
Best að fara að klippa nokkrar rósir hér úti og setja í vasa, gera smá huggó út í Leifsbúð, já og kampavín í kælinn ekki má gleyma því.
27.5.2008 | 16:56
Sýning Auðar Vésteinsdóttur vel tekið hér að Listasetrinu
Vel mætt var á sýningu Auðar Vésteinsdóttur, veflistakonu hér sl. sunnudag. Auður er búin að dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð undanfarnar fimm vikur og lauk dvöl sinni hér með fallegri sýningu á 20 - 25 verkum sem hún hefur unnið að þennan tíma.
Má geta þess að þegar Auður byrjaði að vinna hér voru verk hennar frekar dökk og drungaleg en eitthvað hefur litasinfónían hér í sveitinni haft áhrif því verkin fóru að taka á sig allt aðra mynd þegar líða tók á dvölina. Fólk var sammála því að mikil litagleði og hamingja ríkti í verkunum og var auðvelt að sjá hvað náttúran og birtan hér hefur haft áhrif.
Því miður erum við ekki búin að koma okkur upp vefstól hér svo verkin voru mestmegnis klippimyndir. Það kemur e.t.v. að því að við fjárfestum í vefstól hér fyrir þá listamenn sem kjósa að nota það apparat.
Ég vil nota tækifærið hér og þakka Auði og hennar manni, Sveini fyrir skemmtileg kynni og vonum að þau hafi notið dvalarinnar hér þessar vikur. Góða ferð heim kæru vinir og sjáumst fljótlega aftur.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.5.2008 | 08:13
Var engin beinagrind gerð?
Þetta hljómar mjög undarlega og dettur mér helst í hug auglýsingabrella. Auðvitað getur komið upp ágreiningur en að hætta samstarfi á síðustu stundu finnst mér dálítið skondið. The Show must go on!
Ég hef lítið sem ekkert vit á gjörningum hvað þá kynlífsráðgjöf en sem leikmanni kemur mér þetta dálítið spánskt fyrir sjónir. Töluðu þessar konur ekkert saman áður en þær ákváðu að troða upp á Listahátíð? Var engin beinagrind gerð að uppákomunni? Eða hrundi hún við fyrstu kynni?
Ánægjulegt samt að heyra að listamaðurinn og kynlífsráðgjafinn gátu troðið upp hver fyrir sig fyrir fullu húsi.
Atriði Dr. Ruth og Marinu féll um sjálft sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2008 | 09:44
Til lykke med dagen Norge!
Í dag er þjóðhátíðadagur Norðmanna og af því tilefni langar mig til að óska öllum Norsku vinum mínum til hamingju með daginn.
Það verður örugglega sungið og trallað um allan Noreg í dag. Fyrir fjörutíu árum fagnaði ég með vinum mínum í Örsta þar sem ég dvaldi á Lýðháskóla og gleymi seint hátíðahöldunum í þessum litla bæ sem í dag er ekkert mjög lítill.
Trallallallalla............ Til lykke med dagen Norge!
16.5.2008 | 08:15
Forréttur framreiddur í G-mjólkurfernum er víst líka ,,inn
Gott að heyra að rabarbarinn hefur haldið innreið sína í veislusali enda góður til síns brúks. Það er oft gaman að fylgjast með nýjungum og matreiðslumenn geta verið skemmtilega uppátektarsamir en oft er spurning hvort þetta fellur í kramið hjá gestunum.
Um daginn heyrði ég um nýopnaðan veitingastað á Íslandi sem býður upp á ýmsa rétti sem almenningur hefur e.t.v. lítinn skilning á en er tilbúinn að prófa.
Tengdasonur okkar heimsótti þennan stað um daginn og í för með honum voru nokkrir ungir viðskiptamenn. Þeim lék forvitni á að smakka á nokkrum réttum sem hljómuðu fremur framandlega.
Dúfa með steiktu poppkorni var valin í aðalrétt og í forrétt rækjur einhverri sósu sem ég man nú ekki hver var en þessi forréttur var framreiddur í G-mjólkurfernum!!!!!!!!
Fylgdi sögunni að maturinn hefði ekki smakkast vel og mikið skilið eftir á diskum. Forrétturinn var svo ólystilegur í fernunum að sumum varð bumbult.
Ekki beint góð auglýsing fyrir nýjan stað, því miður.
Rabarbaraæði um allan heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)