Færsluflokkur: Menning og listir

Árrisul kona með fundargögn í framsætinu

Þegar kona vaknar hér fyrir allar aldir og sest upp í bílinn sinn rétt rúmlega átta þá er bleiki brugðið en það gerðist hér í gærmorgun.  Venjuleg fótaferð er nú ekki fyrr en um áttaleitið hjá þessari konu og tekur nokkrar kaffikrúsir að koma henni í réttan gír. Síðan þarf að fletta málgagninu og dagurinn er eiginlega ekki byrjaður fyrr en upp úr tíu.

Ástæðan fyrir því að kona var svo árrisul var vegna þess að hún hafði tekið að sér að stjórna fundi sem byrjaði klukkan tíu og það tekur tímann sinn að keyra inn í borgina á þessum árstíma. 

Lítill tími hafið verið fyrir undirbúining fundarins svo það var mjög heppilegt að umferð gekk hægt og kona gat farið yfir fundargögnin sem lágu í framsætinu við hlið hennar þegar teppa myndaðist á hraðbrautinni.  Með gleraugun á nefinu kíkti hún í gögnin af og til og komst að því að það yrði nú ekkert stórmál að stjórna þessum morgunverðarfundi. 

Auðvitað gekk allt eins og í sögu og kona naut þess að setjast niður á eftir með góðum vinkonum og snarla hádegisverð í sumarblíðunni þar sem rætt var um heimsins gagn og nauðsynjar.

Að kveldi skal dag lofa.

    


Tékkneskt fyrirbæri

Hér hef ég séð bílstjóra sitja undir ungabörnum og hundum keyrandi um á hraðbrautinni.  Svo þetta hefði alveg getað gerst hér í Tékklandi. 

Tékkar hefðu líka fest bjórinn kyrfilega, hann er þeirra lífselexír.  Börnin hefðu þess vegna verið sett í framsætið og ekkert sérstaklega hugsað um að festa þau í belti.

Er alltaf að vona að yfirvöld fari að taka á þessum beltismálum hér en ég held þeir nenni ekki að standa í því að stoppa bíla einungis vegna kæruleysi bílstjóra. 

Annað mál væri ef það væru settar háar sektir hér þá væri löggæslan eins og mýflugur um allt, því auðvitað færi helmingurinn eða meira í þeirra eigin vasa.


mbl.is Setti belti á bjórkassann en ekki barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæðradagsblómið

Þú varst líknin, móðir mín,

og mildin þín

studdi mig fyrsta fetið.

Í dag er mæðradagurinn og mér finnst þessi fallegu orð eiga vel við í tilefni dagsins. 

Margar voru þær mæðurnar hér áður fyrr sem börðust fyrir sjálfstæði og ólu önn fyrir börnum sínum einar og óstuddar.  Ein af þeim konum var Katrín Pálsdóttir móðuramma míns elskulega.  Hún ól önn fyrir stórum barnahóp með því að skúra fyrir þá háttsettu menn Alþingis eftir að hún flutti á mölina þá nýorðin ekkja. 

 Katrín var ein af þeim konum sem stofnuðu Mæðrafélag Íslands.  Mikil kjarnorkukona.

Mæðradagurinn hefur alla tíð verið dálítið ofarlega í minningunni.  Sólbjartur og fallegur þar sem maður skottaðist á milli húsa í hvítum sportsokkum og seldi Mæðradagsblómið.

 Brosandi var tekið á móti manni alls staðar þar sem barið var að dyrum og allir keyptu blómið, alveg sama hvað lítil peningaráð voru á heimilinu.  Tíndir voru smáaurar úr gamalli, snjáðri  buddu og aldrei man ég eftir því að nokkur maður skellti á nefnið á manni.  Ef einhver hafði verið á undan að selja þá var annað hvort blómið hengt í stórrisan fyrir hurðinni eða brosandi andlit sagði : Nei takk góða mín, ég er búin að kaupa.

Ojá svona var það hér í denn.   Mother's Day Vase 

      


Lítill pistill um umferðamenninguna í Hamingjulandinu

Það er víst ekki bara heima í Hamingjulandinu sem eitthvað er ábótavant í umferðinni. Þegar við heimsóttum landið okkar um daginn vorum við dálítið að pæla í umferðamenningunni og komumst að því að við erum mjög sjálfstæð þjóð sem setjum okkur eigin reglur og látum ekki skipa okkur fyrir að fara eftir lögum ef við komumst hjá því. 

Takið eftir, nú segi ég við því við vorum sjálfsagt engin undantekning frá reglunni þegar við bjuggum heima. En það er nú þannig að um leið og við stígum fæti inn í bíl á fósturjörðinni byrjum við á því að fylgjast mjög grannt með hraðamælinum.  Viljum nú ekki láta taka okkur í landhelgi svona fyrsta daginn.

Það sem við tókum strax eftir er að landar okkar vita ekki að það eru stefnuljós á bílnum og svona stöng sem þú ýtir varlega upp eða niður eftir því sem við á.  Ef til vill veit fólk þetta, er bara að spara rafmagnið, hvað veit ég.  Eða því finnst þetta algjör aðskotahlutur sem þjóni engum tilgangi svo best bara að hunsa þessa litlu stöng við stýrið hvort sem skipt er um akrein, innáakstur eða beygt sé inn í aðrar götur.

Innáakstur er stórvandamál, maður verður að sæta lagi til að komast inn á aðalbrautir.  Enginn gefur séns, allir eru svo sjálfstæðir í sínum bíl að þeir hafa ekki hugmynd um að fleiri séu á ferli og vilji komast leiðar sinnar.  Sem sagt allir ,,Palli einn í heiminum"

Rosalega mega landar mínir vera fegnir að umferðaljósin eru sægstyllt eða eru allir litblindir?  Gulur litur er örugglega ekki til í heilabúi margra.  Grænt er grænt, gult er grænt og rautt er appelsínugult.  Og drífa sig svo yfir gatnamótin og gefa hressilega í með ískri í dekkjum. Flott maður!

Framúrakstur á hægri akrein er bara hrein snilld!  Koma svo, kitla pinnann, sjá hvað kerran drífur. W00t

Svo fannst okkur alveg með einsdæmum allir jeppaeigendurnir á 15 milljóna tækjunum sem tíma örugglega ekki að láta fjarstýringu á farsímann í bílnum, allir með Prada síma við eyrað og keyrandi eins og kóngar í ríki sínu.  Flott skal það vera maður!

Á meðan dvöl okkar stóð vorum við vitni að tveimur bílveltum á Reykjavíkursvæðinu, sem betur fer urðu engin stórslys. 

Þar sem ég var að koma keyrandi frá Keflavík einn morguninn um ellefu leitið beygði sendiferðabíll fyrir mig inn á veginn við afleggjarann frá Keflavík. Ég hugsaði með mér jæja greyið hann er sjálfsagt að flýta sér.  Mér lá ekkert á og keyrði á löglegum hraða á eftir kauða.  Allt í einu hægir bíllinn á sér og tekur að rása á veginum.  Ég hugsa með mér, ætli það sé eitthvað að og hægi á mér um leið.  Sé ég þá hvað bílstjórinn hallar sér yfir í framsætið og sé ég ekki betur en hann taki upp síma.  Þarna keyrum við á 50 km hraða en löglegur hraði var þarna 90km. 

 Bannað var að keyra fram úr svo ég held mig í mátulegri fjarlægð á eftir bílnum.  Eftir nokkra stund hallar bílstjórinn sér aftur til hægri og nú sé ég að hann heldur á flösku í hendinni.  Bíllinn rásar og auðséð að maðurinn er að bögglast við að skrúfa tappann af, síðan leggur hann flöskuna frá sér og tekur upp eitthvað sem líktist brauði eða hvað veit ég.  Þarna var hann bara að borða hádegissnarlið sitt hinn rólegasti og algjörlega einn í heiminum.

Ef ég hefði verið stressaður bílstjóri hefði ég verið búin að blikka ljósum, blása í lúðra eða hvað veit ég en ég var orðin dálítið forvitin um framvindu mála svo ég bara lullaði þarna á eftir.  Þegar við komum síðan að vegaframkvæmdunum við Vatnsleysu/Voga og ,,aumingjaskiltið"  sem varla sést sýnir 50 km hraðatakmörkun, haldið ekki að kauði gefi í og snarar örugglega hraðamælinum upp í 90 ja alla vega sá ég hann ekki aftur.  Sem sagt matartíminn var búinn og nú bara að drífa sig í vinnuna.  

Er þetta hægt, ég bara spyr?  

Annars er bara hér allt í góðu og fínt veður.    Road Rage 

 

 


mbl.is Sektaðir fyrir að keyra of hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auður Vésteinsdóttir, velkomin í Listasetrið Leifsbúð

Nú er aftur að færast líf í Listasetrið okkar og fyrsti gestur okkar mættur á svæðið.  Auður Vésteinsdóttir myndlistamaður mun dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verkum sínum. Við bjóðum hana og hennar eiginmann Svein Baldursson velkomin og vonum að þau njóti dvalarinnar hér.  

Það var vinalegt að horfa yfir að Leifsbúð í gærkvöldi, uppljómaða, vitandi af svo góðu fólki þarna að vinnu.  Erró minn var fljótur að koma sér í kynni við nýja ábúendur og í morgun skellti hann sér í morgungöngu með þeim hjónum í góða veðrinu. 

       Læt hér fylgja vefsíðuna okkar: www.leifsbud.cz Painter 


Ekki beint fallegur svanasöngur

 Arrow Head Lásu þeir ekki nóturnar áður en ákveðið var að taka verkið til flutnings?  En gott að vita þetta svona í tíma ef ég yrði nú boðin á tónleika með verkum Dror Feiler.  Þá bara sit ég heima, ekki spurning. Wink

Nútíma verk geta verið undurljúf og jafnvel stundum fyndin, maður þarf bara að vera með athyglina á fullu til að meðtaka sumt.  Jóni Leifs var nú ekki beint vel tekið hér áður fyrr, man að einstaka fólk talaði um pottaglamur og fólk kom út af tónleikum með hellur fyrir eyrum.  

  Ef marka má fréttina, þá hefst verkið á því að skotið er úr hríðskotabyssu, ja hérna er það nú tónlist hehehe er það nú ekki aðeins of mikið af því góða.  Ekki skrítið að tónlistafólkið hafi kvartað undan höfuðkvölum.   


mbl.is Heilsuspillandi tónverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleg pína í Draumalandinu

Ég barðist við að vekja sjálfa mig og koma mér út úr draumheimum í morgun.  Mörgum sinnum rumskaði ég og reyndi að rífa mig upp úr fletinu en féll aftur og aftur inn í þennan draumaheim sem var að fara með mig á tauginni.  

Þegar ég loksins gat komið mér til hálfrar meðvitundar hentist ég fram úr rúminu og skjögraði fram algjörlega búin að sál og líkama.  Umlaði góðan daginn til míns elskulega sem auðvitað var löngu vaknaður og sat í makindum við tölvuna í bókaherberginu.  Nuddaði hausinn rækilega og hélt niður stigann enn með bankandi hjartslátt og brauðfætur sem varla nenntu að bera mig uppi.

Kaffi, kaffi, kaffi var það eina sem komst að í mínum litla kolli því það var eina sem gat vakið mig almennilega til meðvitundar um að þetta hafði verið draumur. Álíka draumarugl hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og er alltaf jafn taugatrekkjandi og ég verð ekki búin að ná mér fyrr en undir kvöld skal ég segja ykkur.  Sit hér, algjör taugahrúga með sveitta lófa og andateppu.  Ég er ekki að djóka.

Nú eru margir farnir að hugsa:  Hvað, á ekki að segja manni drauminn?  Svo ætli sé ekki best að skrifa sig út úr þessu.  Þið sem nennið ekki að lesa lengur, hættið bara núna.

Ég er stödd upp í Þjóðleikhúsi og það er frumsýning í kvöld.  Stór og mikil sýning með fjöldann allan af  leikurum, gömlum sem ungum.  Ég sit með handritið uppi í búningsherbergi og er að bögglast við að læra textann.  Hugsa, andskotinn ég hef ekki mætt á eina einustu æfingu.  Ég mundi að ég hafði mætt á fyrsta samlestur en síðan kom sumarfrí og ég bara fylgdist ekki nógu vel með æfingartöflunni svo ég hafði aldrei mætt.  NB þarna var ég með þokkalega stórt hlutverk og margar innkomur.

Ég var komin í búninginn og var hann allur hinn skrautlegasti enda var þetta sýning með söngvum og dansi.  Ég vissi að hraðinn yrði mikill og ég hafði verulegar áhyggjur af því að ég hefði ekki græna glóru hvenær ég ætti að koma inn, kunni hvorki dansspor eða staðsetningar hvað þá stikkorðin.  Þá kemur til mín minn gamli vinur Gunnar Eyjólfs og segir:  Þetta verður allt í lagi Ía mín, þú bara improviserar, engar áhyggjur haltu þig bara í námunda við mig svo ferð þú bara útí væng og færð  þetta hjá hvíslaranum.  

Ég róaðist aðeins en hélt samt dauðahaldi í handritið og fletti og fletti til að reyna alla vega að læra stikkorðin.  Síðan kom næsta áfall:  Hvað skildi leikstjórinn segja (Sveinn Einars)  hann hafði aldrei séð mig á einni einustu æfingu og ég fengi örugglega reisupassann, engin spurning.  Hélt samt í litla hálmstráið, að hann hefði aldrei saknað mín á æfingum svo þetta gæti reddast.

Vaknaði áður en sýning hófst, sem betur fer annars væri ég ekki hér til að segja þessa sögu. Wink 

 Er enn í rusli.  Ætla í langan göngutúr til að koma mér inn í  raunveruleikann. 

Epidaurus 

 

 

 

 

     


Annar í páskum, dagur barnanna. Páskasagan endar hér

Hody, hody, doprovody syngja börnin hér núna og ganga hús úr húsi.  Að launum fá þau nammi í körfurnar sínar sem stelpurnar bera en strákarnir reyna að koma á mann höggi með skreyttum reyrstöfunum. 

Vísan er eitthvað á þessa leið:  Hátíð, hátíð vinir mínir.  Gefið okkur rauð egg en ef þið eigið ekki máluð egg þá gefið okkur hvít.  Þetta syngja þau hátt og snjallt fyrir alla sem heyra vilja. 

Þessi páskasiður hefur lítið breyst í aldanna rás nema að því leiti að hér áður fyrr eltust ungir menn við þær stelpur sem þeir voru skotnir í og oft endaði eltingarleikurinn upp á hlöðulofti með tilheyrandi hlátrasköllum og hamagangi en sumir ungir menn urðu að súpa súrt seyði og gefast upp, þar sem heimasætan lokaði sig inn í föðurhúsum og vildi ekkert með gaurinn hafa.

Minnir óneitanlega dálítið á Öskudaginn okkar.

Þar með endar Páskasagan, á degi barnanna hér í Tékklandi.  Ég vona að einhverjir hafi haft gaman að.


Þessi upprúllaði guli úrelti pappír í páskaeggjunum er ekki lengur findinn

Eftir að hafa opnað tvö míní páskaegg í dag fór ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er verið að setja þessa hundleiðinlegu, úreltu málshætti inn í eggin.  En allir lesa þetta og alltaf með jafn mikilli tilhlökkun en síðan kemur skeifa í munnvikin.  Æ, sama og í fyrra eða æ, sama og þú.

Það er hefð hjá okkur í fjölskyldunni að lesa málshættina sem við fáum en þetta er orðið svo hundleiðinlegt.  Engum stekkur bros, allir sitja og bíða eftir að komi að sér og stundum þarf maður ekki annað en að lesa fyrsta orðið.  Að sjálfsögðu kann maður flesta málshætti utanbókar.  Svo er ekki kominn tími til að lyfta þessari hrútleiðinlegu lesningu upp í skemmtilegheit

Hvar eru allir vitringarnir, íslenskufræðimennirnir, séníin sem lifa þarna uppi heima á landinu góða.  Hefur engum dottið í hug eða fundið betri málshætti en það sem hefur gengið hér mann fram af manni já alla vega síðan ég man eftir!  Einstaka egg eru með málshætti sem eru afbökun úr erlendu máli og höfða alls ekki til okkar og eru jafnvel hreint út sagt óskiljanlegir.

Einn frábær bloggari afbakaði íslenskan málshátt hér á blogginu ekki alls fyrir löngu og ég skellihló.  Þarna var eitthvað alveg nýtt en með sömu meiningu. Bara á léttari nótunum. 

Þið ágætu rithöfundar og aðrir góðir pennar.  Hefur engum dottið í hug að fara til Nóa Sirius og uppfæra gulu miðana?  Hérna er kærkomið tækifæri fyrir ykkur að stórgræða, en súkkulaðifyrirtækin  gætu e.t.v. verið treg í fyrstu því það þarf að prenta nýja gula miða en þegar uppi er staðið þá koma allir til með að hagnast á þessu, ja nema neitendur en það er bara allt annað mál. Það glepja allir við nýungum ekki satt.

Bara hugsið ykkur, auglýsing hjá Nóa Sirius eða annarri súkkulaðifabrikku. 

 Nýjir málshættir að hætti nútímafólks!  Halló koma svo.......

 NÝJA OG FINDNA MÁLSHÆTTI FYRIR NÆSTU PÁSKA! Too Funny 

 


Páskasagan heldur áfram...Píslargöngustígurinn

Fátt er skrifað í gömlum ritum um laugardag fyrir páska jú nema það að fólk fór í heimsóknir til ættingja og vina og skiptist á gjöfum.  Börnum voru gefin listilega skreytt egg en fullorðna fólkið gaf hvort öðru heimalagaðar pylsur eða annað matarkyns en allt fór þetta eftir efnum og ástæðum heimilanna.

Á páskadagsmorgun klæddist fólk sínu fínasta pússi og sótti kirkju að kristilegum sið.

Nokkru eftir að við fluttum hingað í sveitina og fórum að skoða hér gönguleiðir um nágrennið villtumst við einu sinni af leið og héldum eftir þröngum stíg sem lá frá Sternberg kastalanum sem er í þriggja km fjarlægð frá okkar landareign. Kastali þessi var byggður snemma á 13. öld og hefur fylgt Sternbergunum alla tíð síðan.

 Þennan sólríka vordag ákváðum við að fylgja þessum stíg og sjá til hvert hann lægi. Slóðinn liggur frá kastalanum og bugðast niður í frekar djúpt gil.  Beggja vegna stígsins vaxa ævaforn grenitré og aðrar skógarjurtir en inn á milli vex blágresi sem gefur umhverfinu ævintýralegan ljóma. Kyrrðin sem ríkir þarna er með ólíkindum, það bærist varla hár á höfði og eina hljóðið sem berst til eyrna er værðarlegt gljáfrið frá bergvatnsánni sem rennur letilega í botni þessa undrareits.

Það sem vakti athygli okkar þegar við fyrst gengum þessa leið, voru mjög gamlir róðukrossar sem höfðu verið settir við stíginn með vissu millibili.  Myndirnar sem eru á krossunum eru teikningar eftir börn og þar getur þú fylgt píslarsögunni frá byrjun til enda.  Því miður er ekkert ártal á þessum myndum en þær eru örugglega mjög gamlar og hafa varðveist ótrúlega vel þarna undir gleri.

Þegar við fórum síðar að forvitnast um þennan stíg fengum við að vita að hann er nefndur Píslargöngustígur.  Sagan segir að hér fyrr á öldum hafi biskupar og prestar gengið í broddi fylkingar þessa leið á páskadagsmorgun til þess að minnast píslargöngu Krists.

  Stígurinn er um 10 km langur og liggur héðan til næsta þorps. Þegar Hraðbrautin var lögð var stígurinn vaðveittur eins vel og hægt var og liggur nú undir veginn svo enn í dag er hægt að ganga þessa leið án hindrana.  Að sjálfsögðu hefur stígurinn breikkað í tímana rás enda mikið um ferðamenn þarna þó sérstaklega að sumarlagi.

Það liggur mikil og djúp helgi yfir þessu svæði og stundum hefur mér fundist einhver vera með mér á göngunni sem vill fylgja mér áleiðis.  Á vissu svæði ríkir svo mikil kyrrð að jafnvel fuglarnir hætta að syngja. Það er eins og allt umhverfið vilji umvefja mann og gefa manni kraft. 

Ekki amalegt að hafa svona kraftmikinn stað hér rétt við túnfótinn.

 

 

    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband