Færsluflokkur: Menning og listir

Páskasagan héðan frá Stjörnusteini, Föstudagurinn langi

Ég lofaði ykkur framhaldi af páskasögunni.

Eftir allt stússið á Skírdag var börnunum smalað saman niður að næstu á eða læk og nú skildi baða liðið.  Mig hryllir við þeirri hugsun, bara það að sumar árnar hér eru jafn mórauðar eins og Moldá en  bergvatnsár finnast ekki nema á hálendinu svo blessuðum börnunum var dýft ofan í vatn sama hvernig það leit út.  Líka það að núna er hér 3° hiti svo þetta hefur ekki verið tekið út með þegjandi sældinni hjá mörgum á þessum árstíma.  En bað skildi það vera á Föstudaginn langa og ekkert múður.  Allir fengu síðan hrein föt og sjálfasagt margir kvef í þokkabót.

Fullorðna fólkið fastaði þennan dag en börnin fengu heita mjólk, sem skýrir allt sem þarf, auðvitað heita mjólk eftir vosbúðina og ,,Macanec" en það eru brauðin sem ég sagði frá í síðustu færslu.  Ef mikil fátækt var á heimilinu fengu börnin hveitikökur með hunangi sem kallaðar voru ,, Jidásky" en það þýðir Júdas.

Svona var nú Föstudagurinn langi hér áður fyrr og þá er ég að taka um fyrir 1990.  Þegar ég var á leið heim í dag, keyrandi hraðbrautina frá Supermarkaðnum þá hugsaði ég ,já hér hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umferðin silaðist áfram á svona 140 km á kl.st. og allir á leið út úr borginni sjálfsagt á leið í sumarhúsin.  (Allir Tékkar eiga sitt sumarhús) ja annars ertu þú úti, það er bara þannig.

Nú rennir fjölskyldan inn á McDonalds á leiðinni og fær sér einn Big Mac.  Þegar komið er í sveitina er tekið upp franskt rauðvín og svissneskir ostar og þýskar pylsur.  Ef veður leyfir er grillað um kvöldmatarleitið á Webergræju.  Börnin eru böðuð í heitum pottum eða baðkerum með nuddgræjum. Enginn borðar lengur Jidásky eða baðar sig í ísköldum ám. 

Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Píslagöngustígnum hér í sveitinni okkar.    

        


Pákuleikarinn og Páfuglar Tékknesku sinfóníunnar.

Hver nema ég gæti fengið hláturskast  í miðri sinfóníu Brahms, nánar tiltekið þegar Tékkneska sinfónían spilaði Allegro non troppo kaflann fyrir troðfullum áheyrandasal.  Þarna sat ég eins og fífl og hristist af hlátri innra með mér, OK ég gat sem betur fer hamið það að hljóðið bærist út úr búknum, en augnatillitið sem minn elskulegi sendi mér sagði allt sem þurfti:

Reyndu nú að hemja þig manneskja, það er bara ekki farandi með þig innan um fólk.  Þetta er kultúrkvöld, ekki trúðaskemmtun! 

 Við vorum sem sagt stödd á tónleikum í boði sendiherra Lettlands þar sem m.a. var frumflutt verk eftir Lettneska tónskáldið Péteris Vasks. Tónleikarnir byrjuðu á undurfögru verki eftir Haydn og síðan kom verk Mr. Vasks sem var bara virkilega gott miða við að ég er ekkert sérlega hrifin af nútímatónlist. 

Í hléi var síðan dreypt á kampavíni eins og tilheyrir á svona stundum og ég veit ekki hvort það var vínið eða Brahms sem fengu mig til þess að hætta að fylgjast með tónlistinni.  Sumum sem leiðist á tónleikum fara að telja hljóðfæraleikarana en ég dundaði mér þarna við að grandskoða múnderinguna á kvennaliði hljómsveitarinnar.

Eitthvert þema var þarna örugglega í gangi því allar höfðu saumað hárautt siffon hingað og þangað á svarta síða kjólana og litu út eins og páfuglar með fiðlur.  Hræðilegt að sjá þetta drusluverk bylgjast með hreyfingum hvers og eins.  E.t.v. hefur þetta verið gert í tilefni páskanna en þvílíkt mislukkað dæmi.

Þetta var nú samt ekki það sem vakti kátínu hjá mér heldur var það yndislegi pákuleikarinn sem trónaði þarna aftast.  Ungur og örugglega mjög efnilegur maður en gat bara ekki hamið tilfinningar sínar. 

 Þarna stóð hann í öllu sínu veldi og lifði sig þvílíkt inn í verkið að hann var farinn að stjórna öllum í hljómsveitinni með höfuðhneigingum til hljóðfæraleikaranna þegar þeir áttu að koma inn.  Andlitið gekk í bylgjum og einstaka sinnum sýndist mér hann tralla með.  Þegar hann fékk svo tækifæri á að koma inn sjálfur og sýna getu sína þá var það gert með þvílíkum tilþrifum að maður bjóst við að kjuðarnir myndu skoppa úr höndunum og lenda bein í hausinn á stjórnandanum.  Aumingja drengurinn var svo gjörsamlega ómeðvitaður um þessa tilburði sína og naut sín svo fullkomlega þarna að það hálfa var nú nóg.

Þetta voru sem sagt hálfgerðir trúðaleikar sem við fórum á í gærkvöldi.   Mime 

 

 

      


Alltof velviljaðir viðskiptavinir.

Hér á borðstofuskápnum trónir eitt það stærsta páskaegg sem ég hef augum litið og æpir á mig:  Éttu mig, éttu mig!!!!  Velviljaðir viðskiptavinir færðu okkur hjónum þetta ferlíki í gær svona til að þakka okkur fyrir að vera til. 

Að sjálfsögðu er ég afskaplega þakklát fyrir hugulsemina en.... var þetta nú nauðsynlegt? Fjörutíu sentímetra súkkulaði egg með hangandi þremur smærri eggjum utaná, plús það er svona 20 sm. míni-egg falið inn í því stærra síðan allskonar gúmmelaði skreytingar hingað og þangað með kveðju

,,Happy Easter" 

 Var ekki bara hægt að færa okkur nokkrar túlípanadruslur?  Nei nú er ég virkilega vanþakklát.  Hvernig get ég látið, kona á mínum aldri?  En samt verður mér bara flökurt við tilhugsunina eina saman að þurfa að torga öllu þessu súkkulaði. Sick 

Nú ætla ég að koma mér út úr húsi áður en ég ræðst á þetta skrímsli og reyna að hugsa hvernig ég get komið þessu í lóg.  E.t.v. finn ég hér einhvern páskabasar sem ég get gefið þetta til styrktar góðu málefni, eða krakka hér í hverfinu sem vilja torga þessu með ánægju. 

 En málið er bara það að minn elskulegi er súkkulaðifíkill og þ.a.l. fæ ég skömm í hattinn ef ég svo mikið sem hugsa um að fjarlægja þetta úr húsinu.Blush  og þá er ég í vondum málum, trallallallallaWhistling

 Easter Basket 


Fengu hláturskast

Írskir vinir okkar, sem við sátum með í kvöld skemmtu sér vel þegar ég sagði þeim frá fréttinni um söngbannið á þeirra fræga lagi ,,Danny Boy" á St. Patricks Day á Manhattan.  Þau gjörsamlega veltust um af hlátri og höfðu aldrei heyrt annað eins bull.  Að þetta fræga lag væri sungið við jarðafarir er þvílík firra að það nær engu tali. 

 En svona geta menn droppað upp með skemmtilegar hugmyndir til þess eins að koma sér á framfæri.  Gott hjá þessum knæpueiganda, það verður örugglega brjálað að gera hjá honum á St. Patricks Day, ekki spurning. 

 


mbl.is „Danny Boy“ bannaður á degi heilags Patreks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góugleði í Vínarborg um helgina

Nú er bara að henda ofan í tösku og drífa sig við sólarupprás til Vínarborgar.  Síðbúið Þorrablót verður haldið á laugardaginn með öllu stöffinu sem því tilheyrir.  Við, ég og minn elskulegi tökum með okkur síld og annað góðgæti úr sjónum fyrir þá sem ekki vilja éta brosandi kjamma, súrmeti og hlandfisk. 

Hér stóð það borð saman sem fult er með nógleik allra krása eins og í Máríusögu, - að einni krás undanskilinni: ætum mat.  H.K.L.

Íslendingar búsettir í Austurríki og nágrannalöndum fjölmenna á hátíðina enda Íslendingar sem búa í Vínarborg, fólk sem kann að skemmta sér og öðrum með söng og skemmtilegheitum, ekkert vesen.  Við erum farin að hlakka til að hitta alla aftur og rifja upp gömul kynni. 

Eftir aðeins tveggja og hálfs tíma keyrslu héðan frá okkur erum við sest inn í stofu hjá Sendiherrahjónunum en þar gistum við alltaf þegar við skreppum yfir.  Þau eru algjörir höfðingjar heim að sækja og vonandi tekur Sveinn fyrir okkur nokkur lög á flygilinn áður en við skellum okkur í glauminn.  

Ég ætla að skilja tölvudrusluna eftir heima í umsjá Erró og hússtýrunnar svo það verður þögn á mínu bloggi fram á þriðjudag.  Hafið það öll huggulegt yfir helgina og njótið samvistar við þá sem ykkur er kærast.    


Listasetrið Leifsbúð í Tékklandi

Fundur var haldinn hjá Leifsbúðarnefnd þegar við rákum inn nefið síðast.  Nefndin léttir okkur mikið alla vinnu í sambandi við val listamanna og úthlutun á setrinu. Veit eiginleg ekki hvernig við færum að án þessa góða hóps. 

Hér í sumar og fram í nóvember er von á frábærum listamönnum sem dvelja hér hjá okkur í nokkrar vikur í senn. Það er aðeins einn mánuður óbókaður fram í nóvember og er það mars-apríl.  Hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því ,er viss um að einhver droppar inn þessar vikur. 

Það er mikill heiður að fá alla þessa góðu listamenn hingað og ómæld ánægja að geta veitt þessa þjónustu til handa löndum okkar.  Í sumar koma hingað ritöfundar, tónlistamenn og myndlistamenn svo það verður litskrúðugur hópur sem dundar sér hér í sveitinni okkar næstu mánuði.

Sigga, Leifur, Þorkell, Barbara, Kjartan, Sirrý, Þráinn g Sólveig þakka ykkur vinir mínir fyrir ykkar miklu aðstoð og vinnu. Fáum aldrei fullþakkað ykkar ómetanlegu hjálp.  Stórt knús á ykkur öll! 

Leyfi ykkur að fylgjast með þegar fram líða stundir.      


Fyrsta, önnur og þriðja position

Lögreglan í Timisoara dansar nú á hverju götuhorni eftir glymjandi Tschaikowsky úr Ipodinum.  Pligée og allar positionir teknar eftir kúnstarinnar reglum enda allir búnir að fara á ballettnámskeið. 

 Einn vörður laganna tekur sig til og skellir sér í táskóna og dansar Svanavatnið af mikilli innlifun svo umferðahnútar myndast við hringtorg borgarinnar.  Kollegi hans sér að þetta er að fara út í algjöra vitleysu og þeysist út á eyjuna við torgið  til að bjarga málunum.  Sér hann ekkert annað í stöðunni en að taka nokkur þeysistökk úr Hnotubrjótnum.

 Ökumenn eru nú farnir að ókyrrast, sumir komnir út úr bílunum en aðrir þeyta hornin.  Enginn kemst lönd né leið fyrir dansandi lögregluliði og hvað er þá hægt að gera í stöðunni annað en njóta sýningarinnar og klappa síðan léttfetum lof í lófa að sýningu lokinni. Allir hvort sem er orðnir of seinir á sitt stefnumót og þetta eru jú verðir laganna sem þarna eru að troða upp og ekki skammast maður út í þá eða hvað?           


mbl.is Lögreglumenn læra ballett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsigur Sigrúnar Pálmadóttur í kvöld! Bravo!

Sigrún Pálmadóttir brilleraði sem Violetta í uppfærslu Íslensku Óperunnar á La Traviata Verdis í kvöld.  Ég hef sjaldan verið viðstödd önnur eins fagnaðalæti hérlendis enda frábærir listamenn sem tróðu upp á fjölum Óperunnar. 

Frumsýningagestir fylltu húsið þrátt fyrir skaðræðisveður og mikil stemmning ríkti á sýningunni.  Fagnaðarlætin í lok sýningarinnar þar sem fólk klappaði, stappaði, hrópaði og bravoaði ætlaði hreinlega að rífa þakið af gamla góða Bíóhúsinu okkar.   

Sigrún Pálmadóttir var stjarna kvöldsins, engin spurning.  Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tómas Tómasson voru líka frábærir í hlutverkum Alfredo og Giorgio.  Skemmtileg uppfærsla hjá Jamie Hayes. Hamingjuóskir til allra sem stóðu að þessari sýningu og vonandi líður ekki á löngu þar til við getum boðið öllu þessum glæsilegu listamönnum upp á stærra og betra tónleikahús.  Bravo!! 


Já sumir eru vitgrannir aðrir einfaldlega heimskir

Já fólk er misjafnlega vel upplýst.  Sat með fyrrverandi kennslukonu frá henni stóru Ameríku um daginn og hún fór að spyrja mig um landið okkar og þjóð.  Vissi greinilega mjög lítið, taldi það væri hulið ís og hrauni og þ.a.l. að það væri næstum óbyggilegt.

Spurningar á við:  Er hægt að fljúga þangað?  Hvernig komist þið að milli staða?  Notið þið hestvagna?  Eru moldargólf í húsunum ykkar?  Og í framhaldi þessarar spurningar: Eru nokkur Mall?  (típískur Ameríkani)  Fleiri spurningar allar jafn fáráðlegar fylgdu í kjölfarið.  Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að taka þessu.  Var konan að grínast eða var hún bara svona illa upplýst?

Vinkona mín önnur sem sat þarna með okkur og hefur heimsótt landið okkar hló í hálfkæring og reyndi eftir megni að gefa svör.  Ég get svarið það, þarna sat ég, heimskonan á móti henni  (ekki í úlpu og ekki í Channel dragt) og gapti eins og hálfviti á þetta furðuverk sem á móti mér sat og var algjörlega kjaftstopp (það skeður ekki oft) þar til ég eiginlega sprakk í loft upp og næstum hvæsti á kennarann: 

Heyrðu vinkona, nú skal ég segja þér eitt.  Við búum í torfbæjum, með ekkert rafmagn.  Við notum langelda til að halda á okkur hita og við lepjum dauðan úr skel.  (man nú ekki hvernig ég bögglaði þessu síðasta út úr mér á enskunni)  Hesturinn flytur okkur á milli staða og við erum með sleða og hunda á veturna.  Sumir búa í snjóhúsum með lyftu. Þegar við fluttum hingað fyrir sautján árum kynntumst við fyrst menningarþjóðfélagi.  Happy ?!!!!!!!!

Eftir þessa ræðu stóð ég upp og færði mig yfir á hinn enda borðsins og hélt mér þar í hæfilegri fjarlægð frá þessari kerlingu það sem eftir var borðhaldsins. Ég er ekki enn búin að ná mér eftir þessa furðulegu uppákomu. 

NB. Þessi saga er dagsönn! 

 

 

 


mbl.is Breskir unglingar halda að Churchill sé sögupersóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnudagsmorgun með Bylgjunni og ,,Spaugstofunni

Á meðan ég drakk morgunkaffið og neri stírurnar hlustaði ég á viðtal Valdísar við yfirbloggarann Jenný.  Gaman að kynnast konunni bak við skemmtilega bloggið á Mbl.  aðeins betur þar sem var stiklað á stóru um hennar lífshlaup. 

Eftir þetta skemmtilega viðtal renndi ég Spaugstofunni í gegn sem ég hef ekki gert lengi.

HALLMUNDUR MINN!!!  Á þetta að heita fjölskylduvænt skemmtiefni í skammdeginu!   Nú ættu þessir ágætu listamenn að biðja borgarstjóra formlega afsökunar og pakka síðan saman!  Í hæsta máta ósmekklegt og ekki par fyndið! Nú er nóg komið!      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband