Færsluflokkur: Menning og listir
25.1.2008 | 12:01
Bóndadagur með öllu tilheyrandi
Til hamingju með daginn húsbændur, stórbændur, kotbændur og fjárbændur! Ekki byrjaði hann vel þarna hjá ykkur í stórbyl og allt pikkfast og blómabændur sem treysta á þennan dag sem uppgrip allra tíma. En ekki er öll von úti enn dagurinn svo sem rétt að byrja og húsmæður geta vonandi skutlast eftir einum túlípanavendi í vasa handa ykkur karlar mínir.
Minn elskulegi var svo rosalega hræddur um að ég myndi gleyma deginum svo hann mætti í gær með sinn blómvönd í fanginu brosandi út fyrir eyru, in case. Var að hugsa um að pirrrrrast en hætti við. OK þá þarf ég ekki að endasendast fyrir einn túlípanavönd á morgun.
Datt svona líka í hug að malla eitthvað hér heima en hætti við. Í fyrsta langi til hvers að vera að skíta út mitt fína eldhús. Öðru lagi þar sem ég stæði yfir pottunum og hrærði kæmi fljótlega yfirsmakkarinn yfir öxlina með góðar og gildar leiðbeiningar og þá myndi bara sleifin hendast upp í loft og dagurinn ónýtur, ég í fýlu og minn á kafi í eldamennskunni.
Nei ég ákvað að taka minn með mér út á meðal fólks og láta einhverja kokkdrusluna sjá um eldamennskuna. Sem sagt auðveld lausn, minn elskulegi kaupir sjálfur blómin og eitthvað veitingahús stórgræðir á okkur hjónum í kvöld.
24.1.2008 | 00:09
Í mat hjá Gordon F..Ramsay eftir móttöku í Senatinu
Veit ekkert eins leiðinlegt en að standa upp á endann í háhæluðum skóm, tvístígandi af óþreyju og vera nauðbeygð til þess að hlusta á ræður sem engan endi ætla að taka. En það var einmitt það sem ég gerði í kvöld þar sem við vorum stödd í boði Tékkneska Senatsins.
Á meðan ég hlustaði á forseta Tékkneska Senatsins, Swartzenberg Utanríkisráðherra, Sendiherra Páfa og ,,Prins Valdstein", (auðvitað ekki prinsinn sjálfan því hann var uppi á 17. öld) gat ég látið hugann reika aftur til miðalda því við vorum stödd í reiðhöll Valdsteinanna sem búið er að gera upp sem minjasafn og var þetta boð í tilefni opnunar safnsins. Engin orð um það meir. Sjón er sögu ríkari þið sem eigið leið hingað til Prag.
Þegar ræðuhöldum lauk og við búin að heilsa til hægri og vinstri gengum við út í kvöldið og ákváðum að fara á Royal Hilton og snæða hjá heimsfræga kokkinum Gordon F..... Ramsay. Það er nýbúið að opna hótelið og veitingastaðurinn kennir sig við þennan fræga meistara matargerðarlistar. Höfðinginn sjálfur er hér staddur í borginni og að sjálfsögðu spurðum við hvort hann væri á svæðinu en því miður var hann ný farinn. F...ræðuhöldin... annars hefðum við ef til vill fengið að heilsa upp á goðið. En við vorum ekki svikin af matnum. Hreint út sinfóníubragð af hverjum rétti. Algjör snilld!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 19:44
Veit aðeins um einn með vissu sem er í algjöru rusli núna
Ætla ekki að blanda mér mikið í þessa hringavitleysu þarna á eyrinni enda hef ég ekki kosningarétt og stjórnmál alls ekki ekki minn tebolli. Það sem hefur vakið athygli mína er að hörðustu íhaldsmenn eru ekki par hrifnir af þessum sandkassaleik. Ekki ætla ég heldur að dæma þessa ágætu menn sem verma ætla borgarstjórastólinn til skiptis, örugglega góðir menn og frambærilegir svona ef vel er gáð.
"Duglaus stjórn er mikil blessun fyrir þjóðina" stendur einhvers staðar. Ef til vill, hver veit?
En það veit ég að einn góður vinur minn er núna í algjöru rusli eftir Borgarstjóraskiptin og það er listamaðurinn og skúlptúristinn Helgi Gíslason sem setið hefur sveittur í mörg ár að gera "Hausa" í brons af flestum ef ekki öllum Borgarstjórum Reykjavíkurborgar.
Og nú bætist enn einn við í hópinn og jafnvel aðrir tveir á þessu kjörtímabili. Heilir sjö "Hausar" á átta árum. Ekki furða að aumingja Helgi minn sjái ekki fram úr þessum verkefnum. Hvar á svo að koma þessum "Hausum" fyrir, allir í röð, merktir bak og fyrir með nafni og dagsetningum á stalli í Ráðhúsinu. Ætli verði ekki að byggja við húsið í framtíðinni ef þessu heldur svona áfram.
Helgi minn ekki láta deigan síga þetta hlýtur að taka enda einn góðan veðurdag og ef ekki þá tekur þú bara alla hersinguna með þér hingað í sveitina, ég meina fyrrverandi borgarstjóra og þeir geta setið fyrir hér í Leifsbúð næstu árin. Ekki málið.
21.1.2008 | 10:53
Nú fer að renna úr penna Þráins
Vinur okkar,rithöfundurinn, myndlistamaðurinn og háðfuglinn Þráinn Bertelsson er kominn í íbúðina okkar og sestur við skriftir. Þrátt fyrir einlæga ósk okkar um að hann dveldi frekar í Listasetrinu þessar vikur var það ekki til umræðu. Vildi frekar vera innan um ,,alþýðufólk" enda vanari borgarþys en lognmollu sveitarinnar.
Vertu velkominn gamli vin. Nú lyftist brúnin á mínum elskulega. Hann er búinn að sakna líkamsræktar- og Shusi félagans þessi líka ósköp.
15.1.2008 | 12:37
Þrjú spælegg á disk og deginum reddað
Á náttborðinu mínu ofarlega í staflanum liggur opin bók á hvolfi. Á bókarkápunni er mynd af renglulegum unglingi í flauelisjakka með kolsvört sólgleraugu og hendur í vösum heimspekingslegur á svip. Þetta er minnisbók Sigurðar Pálssonar sem ég hef verið að glugga í svona af og til undanfarna daga.
Ég var aldrei sérlega hrifin af skáldinu Sigurði hér áður fyrr, ljóðin hans höfðuðu ekki beint til mín eða ef til vill kafaði ég ekki nógu djúpt til þess að skilja og satt best að segja langaði mig ekkert sérstaklega til að lesa þessa bók en verð að viðurkenna að ég hef haft mjög gaman af opna bókina öðru hverju.
Minningabrot frá þessum árum ´67 - ´72 sem maður var eiginlega búin að setja ofaní skúffu gleymskunnar. Byltingaárin, Bítlaárin, unglingsárin. Þessi brjálaði skemmtilegi tími allt þetta rifjast upp við lestur bókarinnar. Ef einhver hefur gleymt Janis Joplin, Jimi Hendrix eða Otis Redding endilega flettið bókinni og þetta rifjast allt upp aftur og meira til.
14.1.2008 | 13:35
Á grænu ljósi á leið á tónleika
Við, ég og minn elskulegi fórum á vit menningarinnar hér um síðustu helgi og skelltum okkur á tónleika sem haldnir voru í höll tónlistarinnar hér í borg. Þar sem við komum út úr bílnum okkar slógumst við í hóp fólks sem var að koma út frá Metro stöðinni og allir í halarófu auðsjáanlega á leið í Rudolfinum.
Hvernig sáum við að þetta væru tónleikagestir jú einfaldlega vegna þess að Tékkar fara í sitt fínasta púss þegar þeir mæta í Þjóðleikhúsið, Óperuna eða Rudolfinum. Karlar klæðast jafnvel smóking með hvíta hálsklúta og konur mæta iðulega í síðum kjólum og allir með sama hátíðarsvipinn. Það stendur hreinlega utan á þeim, nú er ég að fara á vit menningarinnar.
Ekki er ég nú að tala um þetta í niðrandi merkingu mér finnst þetta góður siður og klæði mig sjálf alltaf dálítið uppá þegar ég sæki þessi menningarhús.
Hér áður fyrr var stundum dálítið kúnstugt að sjá klæðnaðinn hjá Tékkunum. Dustað hafði verið rykið af gamla smókingnum eða svörtu jakkafötunum og kjólar teknir fram sem greinilega höfðu verið í tísku fyrir 20 árum. En allir svo innilega glaðir með sig og sína að maður fór ósjálfrátt að hugsa hvað maður væri búinn að hafa það gott á meðan þetta fólk var í 50 ára fangelsi.
Þar sem ég stóð innan um Tékka nútímans og beið eftir grænu ljósi hugsaði ég hvað fólkið hefði breyst hér á þessum 17 árum. Allir svo vel klæddir en með sama hátíðarsvipinn, ég er að fara í ´Rudolfinum.
10.1.2008 | 12:51
Jæja strákar!
Þetta er máltæki sem við hér notum aðeins á milli vina og nú bíð ég eftir því að heyra Helga vin minn Gíslason skúlptúrista með meiru koma hingað askvaðandi og skella þessu fram á sinn einstæða máta með tilheyrandi hlátrasköllum.
Helgi er hér staddur í hundrað turna borginni til þess að leita uppi steypukalla fyrir málmverkin sín og síðan auðvitað til að heimsækja okkur. Minn elskulegi er búinn að dandalast með hann hér um sveitir undanfarna daga svo ég hef ekkert séð minn kall. Það verður örugglega slegið á létta strengi hér á eftir. Meira seinna.
6.1.2008 | 14:36
Thriller Þráins Bertelssonar
Snilldarvel skrifaður ,,Thriller" Þráins Bertelssonar, Englar dauðans héldu mér negldri niður í stólinn langt fram eftir nóttu. Djúpur undirtónn úr heimi fíknar kemur vel fram svo og sem betur fer lúmsk kímni Þráins sem öðru hverju lyftir lesendanum upp úr sollinum.
Hlakka til að fylgjast með Víkingi Gunnarssyni á komandi árum. Innilega til hamingju Þráinn minn.
31.12.2007 | 09:47
Áramótin við Moldá
Að stíga á stokk, ekki einu sinni eldspítnastokk og strengja þess heit að gera eða ekki gera hitt eða þetta á nýju ári hefur aldrei hvarflað að mér. Básúna út um borg og bæ sitt áramótaheit og verða síðan að koma með skottið á milli lappanna og biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið við gefið loforð. Úps, nei askotakornið, held bara ekki.
En það eru örugglega margir sem eiga eftir að gera einhver áramótaheit nú um þessi áramót og ég segi bara good luck you guys!
Á miðnætti verður sjálfsagt sungið Hin Gömlu kynni gleymast ei, í stað Nú árið er liðið þar sem við höldum uppá nýja árið með góðum erlendum vinum okkar hér í Prag. Átján vinir okkar ætla að koma saman á Reykjavík og fagna með okkur nýju ári. Hér er það siður að hafa einsetinn veitingastaðinn okkar þetta eina kvöld ársins þannig að gestir hristast vel saman undir lifandi tónlist og kampavíni.
Pragbúar eru ansi skotglaðir og er mikil rakettusýning á vegum borgarinnar á miðri Moldá. Dálítið áhættusamt að vera þarna úti þar sem Tékkar eru ansi skotglaðir.
Við ég og minn elskulegi förum nú að tygja okkur til og renna í bæinn með fullan bíl af áramótaskrauti, höttum ýlum, stjörnuljósum og borðbombum til að gera veitingastaðinn okkar eins áramótalegan og hægt er. Held meira að segja að það sé fullbókað fyrir kvöldið. Góða skemmtun hvar sem þið eruð í heiminum og farið varlega.
Gæti hugsast að sumir færu bara út að skjóta upp einni rakettu með börnum sínum nú eða fá sér fá sér aðeins meira af nýjársborðinu svo eru þó kokkuð margir sem nota auglýsingatímann í það að fara á salernið. Þar færi nú rándýr auglýsing fyrir bý. Klár á því að það verður skoðanakönnun á nýju ári, hversu margir horfðu á herlegheitin. Og gaman verður að heyra svörin. ,, Nei ég skrapp nú bara sí svona á klóið" eða ,, nei amma hringdi einmitt í mig þá" eða eitthvað annað skemmtilegt.
Annars man ég eftir því í gamla daga þegar Bessi heitinn Bjarnason og Árni Tryggva héldu uppi mjög skemmtilegum auglýsingum fyrir Happdrætti Háskólans. Faðir minn, blessuð sé minning hans, mátti aldrei missa af þessu og beið alltaf spenntur eftir að sjá hvaða grín vinirnir kæmu með á nýju ári og skemmti sér alltaf jafn vel.
Ég var nú líka svo fræg að koma fram eitt árið í nýjársauglýsingu Happdrætti Háskólans með Randveri vini mínum Þorlákssyni. Nú kemur hann fram með ekki ófrægari manni en John Cleese, sko minn mann, góður!