Færsluflokkur: Menning og listir

,,Jólaballinu" fer nú senn að ljúka

Var aðkoma inn úr frostkaldri nóttinni eftir að hafa verið með mínum elskulega í næst síðasta jólapartýi ársins 2007.  Trallallalla mikið er ég fegin að þessum jólagleðskap fer að ljúka og við getum bara sest niður og ,,chillað" hér heima í kotinu okkar.  Annars var þetta frábær veisla hjá Hollenskum vinum okkar þar sem samankomnir voru allra þjóða listamenn, frægir sem og minna frægir. 

Því miður misstum við af því að hlusta á nokkrar af mínum kunningjakonum, sem komu saman í kvöld og gengu um miðborgina og sungu jólalög. Þær komu við á Restaurant Reykjavík og sungu fyrir gesti og gangandi en við sendum þjónana okkar út á götu sem færðu þeim heitt jólaglögg frá okkur sem var víst vel þegið þar sem frostkuldinn var farinn að herja á beinin.


Celine Dion versus Bette Midler

Æ,æ ég var búin að ákveða að sjá hana næst þegar ég færi til Las Vegas ,,leikfangaborg fullorðna fólksins" Síðast þegar við vorum þar í heimsókn hjá vinum okkar var ,,black night" kvöldið sem við hefðum getað farið á tónleikana.  En fyrst hún er að fara í heimsreisu þá er ekki útilokað að hún troði upp hér í borg.  En Bette Midler er nú líka frábær listamaður og örugglega þess virði að sjá hana troða upp. Joyful
mbl.is Celine Dion hætt að skemmta í Las Vegas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laufabrauðið ,,næstum" eins og hjá Leifi Breiðfjörð!

Við erum algjörir snillingar í þessari fjölskyldu og listavelgerðar laufabrauðskökur eru nú á borðum á þremur heimilum hér í Prag. Hrein listaverk.  Tounge 

Jafnvel vinur okkar Leifur Breiðfjörð, sem er algjör snillingur í útskurði á laufabrauði hefði gefið okkur alla vega 5 í einkunn.  Annars fer nú enginn í sporin hans Leifs því hann sker aðeins út erótískar kökur.  Alveg satt, þær eru geymdar frá ári til árs uppá skáp heima hjá honum og sýndar við hátíðleg tækifæri.

Ég hafði nú aldrei komið nálægt laufabrauðsbakstri fyrr en Bríet tengdadóttir kom í fjölskylduna og með henni þessi skemmtilegi norðlenski siður.  Síðan er þetta hefð hér að baka saman og skera út kökur fyrir hver jól.  Að þessu sinni vorum við heima hjá systur Bríetar, Ingunni sem tók á móti okkur á sínu litla jólalega heimili.Við skárum út ég, Egill, Bríet og Ingunn en minn elskulegi stóð í ströngu við að mynda okkur í bak og fyrir  Grin  Ekki alveg hans deild, svona dútl.  En hann steikti síðan allar kökurnar af sinni einstöku snilld og Egill pressaði síðan af fullum krafti.

Litla prinsessan hún Elma Lind var með tímasetninguna á hreinu og svaf eins og Halo og vaknaði ekki fyrr en allt var yfirstaðið svo þá gátum við gefið henni allan okkar tíma, bráðgáfuð þessi stelpa. 

Frábær fjölskyldudagur! 


Heimþráin gerir vart við sig - er eitthvað svo blue

Ég get varla sagt að ég hafi fengið heimþrá öll þessi ár okkar hér fjarri heimalandinu en þar sem ég sat og fletti blaði landsmanna með morgunkaffinu helltist þetta bara yfir mig sí svona. Woundering

Ég saknaði þess allt í einu að komast ekki á Jólatónleika, ekki það að hér geti ég ekki hlýtt á fallega tónlist í hundrað turna borginni en það eru svo ótal margir tónleikar í gangi heima sem ég gæti hugsað mér að hlýða á og ég las einhvers staðar að það væru yfir 100 tóleikar í gangi núna á aðventunni. 

Ég gæfi mikið fyrir að geta dólað mér í svona klukkutíma inn í góðri bókaverslun og gluggað í jólabækur, rölt niður Laugarveginn og fá mér kaffitár með dóttur minni.  Já ætli það sé ekki það sem kemur þessari heimþrá af stað.  Undanfarin ár hefur dóttir okkar búið í London en er nú komin aftur heim með fjölskyldu sína og í gær hringdi hún í mig og var að fara að baka smákökur með vinkonum sínum og mikil jólastemmning í gangi. 

En það þíðir ekki að súta þetta, ég bara skelli mér núna í að skreyta húsið og panta mér miða á Hnotubrjótinn og málinu er reddað.Whistling   


Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað öðruvísi...

..og eiga leið um Frönsku-Sviss Þýskalands verða að heimsækja Pflaums Posthotel í Pegnitz. Algjör ævintýraheimur fyrir þá sem hafa áhuga á innanhúsaarkitektúr,  og ekki verða matgæðingar sviknir þar sem eldhúsið er frábært. 

PPP hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan 1707.  Listamaðurinn og innanhúsaarkitektinn Andreas Pflaum rekur það í dag ásamt bróður sínum sem er listakokkur. Fyrir 30 árum var hótelið endurbætt og fjölskyldan keypti tvö hús við hliðina sem voru samtengd því gamla. 

 Dirk Obliers innanhúsaarkitekt aðstoðaði vin sinn Andreas Pflaum við að innrétta hótelið á sínum tíma og þar hafa þeir vinir farið á meistaralegt flug.  Ekkert herbergi er eins hannað og hvert skúmaskot er nýtt til hins ýtrasta.  Sumum gæti þótt nóg um t.d. er bókaherbergið þakið bókum frá gólfi til lofts og þvílíkt og annað eins bókasafn!  Allt á rúi og stúi, mig langaði rosalega til að fara og laga aðeins til þarna inni.Whistling  Mikið er um ranghala í húsinu og minnir dálítið á völundarhús þar sem lýsing og speglar villa manni sýn.  Listaverkin eru eins og frosin ofan í gólfin, skúlptúrar og gínur klæddar furðufötum gera andrúmsloftið mjög óvenjulegt og jafnvel dálítið spúkí.

En sjón er sögu ríkari.  Ekki láta þetta fara fram hjá ykkur ef þið eruð á leið um þetta svæði!  Læt hér fylgja slóðina Info@ppp,com eða www.ppp.com

  


Þráinn Bertelsson með nýja bók

Í dag kom út ný bók eftir vin okkar Þráinn Bertelsson og ég og minn elskulegi óskum honum innilega til hamingju.  Hér ríkir mikil eftirvænting að fá að líta þetta verk augum og verður örugglega slegist um hver fær fyrstur að lesa.

 Ég hef haft það á tilfinningunni að þessi bók eigi eftir að slá í gegn, veit ekki af hverju en stundum fæ ég mjög sterk hugboð sem yfirleitt sannreynast.  Þráinn minn til hamingju með ,,skrudduna" þína eins og þú orðaðir það sjálfu hér áðan í póstinum. Held að þetta sé aðeins meira en einhver skrudda heillakallinn. 


Listasetrinu lokað fyrir veturinn

Það er ansi tómlegt hér núna að Stjörnusteini þar sem við erum búin að loka Listasetrinu Leifsbúð yfir vetrarmánuðina.  Engin sem skreppur yfir í kaffi til að spjalla um daginn og veginn.  Svo hljótt, svo hljótt! Aðeins hvíslið í vindinum og einstaka tíst í spörfuglum sem sækja nú hingað í leit að hnetum og öðru fóðri sem ég er óspar nú þegar kólna fer í lofti.

Jæja, þetta kemur allt með farfuglunum með vorinu.  Þá vonandi fyllist Listasetrið aftur lífi og fjöri.  Mig langar til að þakka öllum þeim sem dvöldu hér í sumar fyrir skemmtilegar samverustundir og frábæra viðkynningu. Verið öll velkomin aftur hingað í Leifsbúð.


Síðasti kaffibollinn. Rut Ingólfsdóttir kveður að sinni.

Í morgun fengum við Rut okkur kveðjubolla hér að Stjörnusteini en hún hefur verið gestur okkar undanfarnar sex vikur í Listasetrinu.  Mikið flýgur tíminn!  Okkur finnst hún hafa komið hingað í gær!  Það var mikill heiður og ánægja að fá þessa frábæru listakonu hingað og þökkum við kærlega fyrir ófáar og skemmtilegar samverustundir á undanförnum vikum.  Góða ferð heim Rut mín og takk fyrir að fá að kynnast þér.  Gangi þér vel með öll verkefnin sem framundan eru.


Takk fyrir Dýrin í Hálsaskógi

Svo óheppilega vildi til í dag að litli Juniorinn fékk heljarins grjótönd á litla fótinn sinn svo úr blæddi og amma heldur að nöglin fari af stóru tánni.  Það var mikill grátur og eftir að búið var að setja plástur á meiddið var enn grátið sáran.

Hvernig huggar maður lítinn dreng sem meiðir sig í fyrsta skipti?  Mamman, sem vissi að ég hafði fengið Dýrin í Hálsaskógi á DVD frá Heiðu og Jóni mínus datt í hug að setja diskinn í tækið og sjá til hvort það virkaði á lítinn eins árs peyja. Og viti menn, þetta svínvirkaði.  Gráturinn þagnaði og þessi eins árs gamli ömmustrákur horfði andaktugur á skjáinn. 

 Sko, þarna er upprennandi leikari á ferð skal ég segja ykkur.  Í heilar tuttugu mínútur sat hann alveg stjarfur og horfði á Mikka ref og alla mýslurnar leika listir sínar.  En þegar Lilli byrjaði að syngja Vögguvísuna missti hann áhugann og fór úr fangi mömmu sinnar og meiddið var gleymt og búið.

Heiða mín og Jón mínus takk fyrir að gefa mér diskinn með Dýrunum í Hálsaskógi, þetta kemur örugglega til með að virka seinna í framtíðinni.

 

 

   


Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari

Um helgina kom Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari hingað til dvalar að Listasetrinu okkar og þar með bættist við enn ein perlan í safn  Leifsbúðar.  Það er okkur mikill heiður að fá listamann á borð við Rut hingað sem gest okkar í nokkrar vikur.

 Vertu velkomin Rut hingað í sveitina okkar.  Við vonum að dvölin verði ánægjuleg og gefandi þar sem haustið er alveg handan við hornið með allri sinni litadýrð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband