Færsluflokkur: Menning og listir

Óvænt og skemmtileg heimsókn.

Ég bjóst alls ekki við að geta hýst vini mína Ragnheiði Steindórsdóttur leikkonu og Jón mínus hér í Leifsbúð en þar sem næsti listamaður mætir ekki á svæðið fyrr en um helgina var ekkert því til fyrirstöðu að þau fengju smjörþefinn af Listasetrinu. 

Mikið er búið að skrafa hér undanfarna daga og rifja upp margar góðar minningar fyrri ára.  Héðan fara þau heiðurshjón í íbúðina okkar niðrí Prag og dvelja þar næstu þrjár vikur.  Þar sem þau ætla að nota tímann til að kynnast Prag betur og ferðast um nágrannalöndin, veit ég að þau koma til með að njóta dvalarinnar hér í hundrað turna borginni alveg í botn. 


Seiðmagnaðir tónleikar Sverris Guðjónssonar í Listasetrinu.

Það var gaman að fylgjast með viðbrögðum gesta okkar hér á laugardaginn þegar Sverrir leiddi alla niður að uppsprettubrunninum í Leifsbúð og hóf að kyrja þar undir bjölluhljóm, trumbuslögum og flöktandi kertaljósum.  Einum gesta okkar var svo mikið um að hún lét sig hverfa, aðrir stóðu með gæsahúð og þögulir eins og grjótið í kringum okkur.  Frábær stemmning að flestra mati. 

Sverrir og Elín Edda eru búin að vera hér í Listasetrinu Leifsbúð í fimm vikur og var þetta kveðjuhóf haldið þeim til heiðurs þar sem þau fóru til Berlínar í gær á leið heim til Íslands.  Elín Edda sýndi nokkur af verkum sínum sem hún hefur verið að vinna að hér.  Síðan kom að Sverri að halda litla tónleika.  Hann byrjaði að syngja upp á svölunum en færði sig síðar niður til áheyranda og leiddi þá með tilþrifum niður að brunninum.  Tilþrifamikil uppákoma, sumir komu ekki upp orði fyrr en löngu eftir að tónleikunum lauk og sitt sýndist hverjum.

Það var ótrúlega skemmtilegt að hafa þau hjón hér þessar vikur og við nutum góðra samverustunda.  Leifsbúð og við hér að Stjörnusteini hlökkum til að fá ykkur aftur fljótlega.  En nú fer Erró í megrun.  Ekkert ofdekur lengur.  Aumingja hundurinn, hann saknar ykkar rosalega.

Takk fyrir skemmtilegan tíma frábæru hjón og vinir!

  


Menningarnótt haldin í fámennum en góðum hópi hér heima.

Elín Edda breiddi hér úr verkum sínum á veröndinni undir tónlist úr Þorlákstíðum á menningarnótt. Þar sem farið var að kvölda var þetta áhrifamikið undir samspili flöktandi kertaljósa og hugnæmri tónlist. 

Elín Edda er búin að vinna að þessum verkum hér í Leifsbúð undanfarnar vikur og verður gaman að sjá þessa uppfærslu heima þar sem þetta er einhverskonar óður til trúariðkunar í gegnum aldirnar.  Klukkur, krossar og kuflar eru þar mest áberandi.

Sverrir Guðjónsson heldur síðan konsert og stuttan fyrirlestur á laugardaginn í Listasetrinu og verður sagt frá því síðar.

 

 

 


James Ragan rifjaði upp kynni sín við Íslendinga og ræddi um handritaskrif kvikmyndarinnar Deer Hunter.

Það var ótrúlegt að hlusta á Ameríska ljóðskáldið James Ragan flytja úr verkum sínum í dag þar sem við sátum í stofu vina okkar við opna glugga og Petrin-hæðin drakk í sig hvert orð af vörum skáldsins.  Það var eins og tíminn stæði kyrr, jafnvel fuglarnir hættu að syngja og laufin bærðust ekki í andvaranum.   Klaustrið, kirkjurnar og gömlu húsþökin sem blöstu við okkur frá stofugluggunum gerðu þetta enn meira magnþrungið.

James Ragan er að góðu kunnur mörgum Íslendingum, þá sérstaklega þeim sem eru í kvikmyndabransanum.  Hann er af Slóvenskum ættum en fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum.  Við kynntumst James fyrir mörgum árum og var einstaklega ánægjulegt að hitta hann í dag þar sem við höfum ekki sést í langan tíma.  Hann hefur skrifað mörg kvikmyndahandrit en er aðallega þekktur í sínu heimalandi sem ljóskáld. Hér í Prag er hann gestur  Havels, fyrrverandi  Forseta Tékklands og dvelur hér nokkra mánuði ár hvert. 

Ég ætla að nota tækifærið hér og skila kveðju til Sveinbjarnar Baldurssonar kvikmyndatökumanns og Jónu konu hans frá James og fjölskyldu.  Við biðjum auðvitað líka að heilsa ykkur.

 

 


Listamennirnir Sverrir Guðjónsson kontratenór og kona hans Elín Edda komin í Leifsbúð

Sverrir og Elín Edda gerðust hér staðarhaldarar þegar þau komu í Leifsbúð í síðustu viku. Þar sem við vorum að spóka okkur á Íslandi gátum við því miður ekki tekið á móti þeim með pomp og prakt. 

 Sverrir er búinn að taka undir sig vínkjallarann hjá brunninum og ,,galar þar seið" og hreinsar andrúmsloftið að hans sögn.  Elín Edda vinnur á jarðhæðinni og segir að þar sé ótrúlega góður kraftur og vinnan gangi vel. 

Það bætist sem sagt hver silkihúfan ofan á aðra hér að Listasetrinu og mikill heiður fyrir okkur að fá þau hjónin hingað sem gesti. Það verður örugglega mikið fjör hér næstu fimm vikurnar og kem ég til með að leyfa ykkur að fylgjast með öðru hverju.  


Eldhress og spræk 90 ára.

Ég heyrði frásögu í gær, þar sem við vorum stödd í 90 ára afmæli góðvinkonu okkar Geraldine Mucha, þar sem einn gestanna hafði verið staddur í öðru afmæli fyrir skömmu og afmælisbarnið afsakaði það við gesti að hann skildi draga alla í þetta 90 ára afmæli.  Hann hefði aldrei beðið um að verða svona gamall og þ.a.l. væri þessi veisla ekkert honum að kenna.

Geraldine Mucha sem var tengdadóttir Alfons Mucha, sem gerði Söru Bernhard fræga á einni nóttu var eldhress í gær og lék við hvern sinn fingur þar sem Breski Sendiherrann hélt henni heiðursboð í tilefni 90 ára afmælis hennar. 

 Í móttökunni voru, auk fjölskyldu hennar aðeins nokkrir vinir héðan úr Prag.  Gamla konan er frábær tónlistamaður og hefur samið fjölda tónverka. Þarna voru flutt eftir hana tvö verk fyrir píanó og flautu sem hún hafði samið á þessu ári. Hún var nú ekkert á því að hætta leik þegar hæst stóð heldur vildi fá okkur og nokkra fleiri útvalda gesti heim til sín á eftir.  Þar sem við vissum að hún var að fara til Skotlands snemma í morgun afþökkuðum við boðið en lofuðum að heimsækja hana þegar hún kæmi aftur til Prag í haust.    


Skemmtilegur tími að baki

Í morgun kvöddum við Þórð Hall og Þorbjörgu eftir skemmtilegar samverustundir hér að Stjörnusteini.  Það var mikill heiður fyrir okkur að fá þau listamannahjónin  hingað í Leifsbúð og ég vona að þau hafi notið dvalarinnar hér þessar vikur og við bjóðum þau velkomin aftur hvenær sem er.  

Hér er einn sem á eftir að sakna þeirra mikið og það er hann Erró okkar sem gerði sig heimakominn hjá þeim úti í Listasetrinu.  Hann naut þess að horfa á þau vinna og fylgjast með hvernig listaverkin mótuðust smátt og smátt.   Nú bíður hann spenntur eftir að kynnast næstu gestum Leifsbúðar sem koma að viku liðinni en það eru heiðurshjónin Sverrir Guðjónsson og Elín Edda Árnadóttir kona hans.


Klippimyndasýning - þema Moldá

Í gær buðum við Þórði Hall og Þorbjörgu með okkur á opnun myndlistarsýningar á verkum Leny Aardsee sem er hollensk  kunningjakona okkar og hefur verið búsett hér í nokkur ár.  Þemað var Moldá eins og hún sér hana frá sínum sjónarhóli.  Dálítið einhæf sýning að mínu áliti sem samanstóð af klippimyndum og plastþynnum. Mér fannst að þessar myndir væru tilvaldar til að skreyta veggi hótelherbergja....  Uss maður má víst ekki segja svona.

Annars var gaman að hitta þarna vini og kunningja og hressa aðeins upp á sálartetrið.  Á eftir fengum við okkur kvöldmat saman og áttum gott og skemmtilegt kvöld.    


Íslenskur leikmynda og búningahönnuður á Narodni Divadlo

Það er ekki að spyrja að okkur Íslendingum, við komum víða við og hér um helgina var frumsýnt leikrit í Þjóðleikhúsinu hér í Prag þar sem Rebekka A. Ingimundardóttir sá um leikmynd og búninga.  Leikritið er byggt á tveimur sögum eftir Firacek og Fransek og fjallar um flóð sem ollu miklum usla hér 1894 og 1996.   

Rebekka var við nám hér frá 1990 til ´92 og kynntist ég henni hér við mjög einkennilegar aðstæður þar sem við vorum báðar hálf villuráfandi um borgina 1991. Þegar við hittumst í fyrsta skipti höfðum við mælt okkur mót við lestarstöðina hjá Mustek.  Ég vissi ekki hvernig við ættum að þekkja hvor aðra þarna innan um mannfjöldann en þar sem ég stóð þarna og skimaði eftir einhverri stelpu sem ætti að vera Íslensk, gekk þessi fjörlega stelpa að mér og sagði ert þú Ía.  Ég sagði svo vera og þá bara skellti hún beint framan í mig ,,hefurðu fundið mjólk í dag?"  Á þessum árum var mjög erfitt að finna nýmjólk, og dósamjólk var eina mjólkin sem fáanleg var í þeim fáu verslunum sem opnar voru eftir dúk og disk.

  Ég komst líka fljótlega að því að þessi hressa stelpa var grænmetisæta og ég gat eiginlega ekki skilið hvernig hún gat haldið í sér lífinu hér þar sem grænmeti var hér af skornum skammti.  Tékkum fannst allt grænmeti vera dýrafóður og borðuðu ekki þetta gras sem við kölluðum grænmeti. Ég man eftir því að ég fór með hana á veitingastaðinn okkar sem var uppí Prag 6 og bað minn elskulega að útbúa eitthvað ætilegt úr því grænmeti, sem við þá vorum nýbyrjuð á að flytja inn og fyrsti og eini veitingastaðurinn í borginni sem gat boðið upp á öðruvísi matseld. 

Eftir þessi fyrstu kynni okkar urðum við perluvinkonur og höfum haldið sambandi alla tíð síðan. Því miður gátum við ekki verið við frumsýninguna hér á föstudaginn en ætlum að bæta úr því fljótlega.

 Til hamingju Rebekka mín með sýninguna og við hlökkum til að fá þig hingað aftur, sem verður væntanlega fljótlega.   


Óvænt, en skemmtileg heimsókn.

 Listamennirnir Jón Reykdal og kona hans Jóhanna komu hingað í gær til að ,,tefja Þórð frá vinnu" eins og Jón orðaði það.  Við buðum þeim að gista hér hjá okkur þessa þrjá daga sem þau ætla að stoppa hér í sveitinni.  Það var að sjálfsögðu tekið upp Bohemia Champagne og skrafað langt fram eftir nóttu.

Yfir morgunkaffinu útí Leifsbúð settist ég niður með þeim og fór yfir áhugaverða staði hér í nágrenninu sem skemmtilegt væri að skoða.  Leifur Breiðfjörð og Helgi Gísla voru búnir að bulla þvílíkt við Jón áður en hann fór að heiman þannig að hann hélt að hér væri alltaf rigning og ekkert sérlega áhugavert að koma hingað.  Ég þarf að taka þá í gegn þegar ég hitti þá næst. Bíðið bara strákar!  Ótuktirnar ykkar!       


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband