Færsluflokkur: Lífstíll

Hvað á að gera við strákaling?

Var að koma inn úr haustblíðunni hér og eins og alltaf þegar ég er úti fer hugurinn á flug.  Stundum eru þetta rosalega merkilegar uppgötvanir en að öllu jöfnu einskisnýtar pælingar. 

Hvað gerir maður við elskulegan eiginmann sem allt í einu tekur upp á því eftir 30 ár að fara með sinni heittelskuðu í búðir.  Á maður að hoppa hæð sína og hrópa upp yfir sig, batnandi mönnum er best að lifa eða fara í baklás og hugsa andskotinn hvar er nú frjálsræðið!

Eins og þið flest vitið þá er minn sem sagt nýorðinn svona 25% atvinnurekandi og þar sem okkur finnst nú ekki mikil vinna í því að halda uppi einni íssjoppu þó fræg sé, þá er nægur tími til annarra verka.  Häagen Dasz rekur sig eiginlega sjálft miða við Rest. Reykjavík sem við urðum að vaka og sofa yfir 24 hours.  Þess vegna segi ég að hann sé í svona 25% vinu miða við sem áður var.

Á laugardaginn datt honum í hug að spyrja mig hvort ég vildi ekki fara í smá búðarráp.  Ekki það að okkur vanhagi um eitt eða neitt heldur bara svona window -shopping.  Ég missti andlitið alveg niður að hnjám.  Var manninum mínum alvara eða var þetta bara svona morgundjók?  Eftir rúmlega 30 ár hef ég ekki einu sinni fengið hann með mér til þess að kaupa jólagjafir nema eftir margra daga tuð og rekistefnur.

Ég sagði sem satt væri að ég yrði hvort sem er að fara í matvörubúð svo hann mætti alveg koma með mér.  Það hringsnerist allt í hausnum á mér alla þessa 30 km í búðina.  Þarna sat hann sallarólegur með bros á vör og gerði að gamni sínu eins og fyrirmyndar húsband auðvitað á að vera en ég varð alltaf meir og meir undrandi.

Þegar við komum inn í Billa (matvöruverslun) þá skildu fljótt leiðir og hann birtist af og til með eitthvað smotterí í höndunum enn brosandi út að eyrum.

Nei elskan við eigum nóg af smjöri.  Ekki þennan ost.  Hvað ætlar þú að gera við allt þetta brauð?  Það er til nóg af hundanammi heima.  Svona gekk þetta lengi vel.  Ég rak hann umsvifalaust með vörurnar til baka eins og ég væri með óþægan krakka í eftirdrægi. Loksins gafst minn upp á þessari mimmandi kerlingu og sagði:  Heyrðu ég ætla að fá mér kaffi, við hittumst bara þar.  NB hann var enn brosandi!

 Ég veit ekki hvort þetta var vegna ástandsins heima á Íslandi og ég var farin að spara eins og allir aðrir eða ég gat bara ekki einbeitt mér að því að versla alla vega var ótrúlega lítið í körfunni þegar ég kom að kassanum og þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði ekki keypt neitt kjötmeti í matinn.

Þessari verslunarferð var nú ekki aldeilis lokið heldur dró minn mig með sér á milli húsgagnaverslana og ljósabúða sem hafði auðvitað ekkert upp á sig þar sem við vorum svo hjartanlega sammála um að það sem okkur líkaði væri á uppsprengdu verði.

Nú er það stóra spurningin, hvað á að gera við strákaling? 

Hef annars ekki stórar áhyggjur því nú tekur við stækkun á Häagen Dazs í Karlova og það tekur nokkrar vikur svo hann verður upptekinn við að ráðskast þar.  

Ein viknona mín hér sagi við mig um daginn ,,Rosalega ertu heppin að eiga svona mörg hús þú getur bara sent hann í eitt þeirra þegar þú færð nóg".  NB þessi vinkona mín er með einn svona retired heima hjá sér.

Æ ég veit ekki hvort ég hefði hjarta til þess, hann er jú svo mikil dúlla þessi elska.     

 


Allra augu beinast að okkur Íslendingum

Eftir atburði gærdagsins setur mann hljóðan.  Veislunni er lokið sem flestir ef ekki allir tóku þátt í.  Sumir sátu við háborðið og fengu að líta alla þessa háu herra eigin augum en aðrir létu sér nægja að sitja í hliðarsölum og fylgjast með ræðuhöldum úr hátölurum. 

Timburmennirnir leggjast misjafnlega í menn alveg eftir því hvað sopið var oft úr ausunni.

Núna verðum við að huga að ungu börnunum sem erfa eiga landið.  Forðast að tala um erfiðleika í þeirra návist og knúsa þau meir en við höfum gert hingað til.  Börnin skilja meir en við höldum og þau finna greinilega ef mamma og pabbi eru pirruð og þreytt.  Þetta vitum við öll og stundum er bara ekkert svo auðvelt að leyna ástandinu. 

Ég man eftir því að það var oftast keypt í ,,billegu búðinni" handa okkur systkinunum, skór, úlpur og fl. en sú búð var uppá háalofti og okkur fannst það bara eðlilegur hlutur. 

Mér blöskraði aðeins þegar ég frétti að ein verslun væri farin að hvetja fólk til að hamstra.  Þarna fór sú ágæta verkun aðeins yfir strikið. Ég vona bara að þeir sem keyptu hveitið eigi músheldnar geymslur.

Það fer ekkert á milli mála að allra augu beinast að okkar litlu þjóð og ástandinu heimafyrir.  Ég hef þá trú að við komust út úr þessu eins og öllu öðru með okkar seiglu og dugnaði. 

Við eigum frábært fólk á Íslandi sem gefst ekki upp þá móti blási. 

  

   


Prag tók á móti mér í litskrúði haustsins

Þegar ég renndi til Keflavíkur klukkan fimm í morgun með stírur í augum og geispa niður í maga voru tilfinningarnar heldur blendnar. Auðvitað hlakkaði ég til að fara heim en um leið fór um mig óhugur yfir að skilja ykkur öll eftir þarna í volæði og óstjórn. 

 Þar sem ég sat í vélinni og horfði niður á landið mitt, sem pínulítil snjóföl þakti eftir úrkomu næturinnar, langaði mig helst til að hrópa niður til ykkar allra: Verið sterk og standið saman gegn allri þessari spillingu sem verið hefur og óstjórn!  Það birtir til, verið viss!

En hvað veit ég vanmáttug konan sem bý ekki einu sinni þarna uppi.

Sveitin mín tók á móti mér í sínum fegurstu haustklæðum sem glóðu í síðdegissólinni.  Mikið var gott að koma heim.

Ég er komin í skotið mitt í eldhúsinu.  Minn elskulegi er ekki væntanlegur fyrr en eftir miðnætti þar sem hann varð að fara snemma í morgun til borgarinnar Zlín í embættiserindum.  

Ég verð sjálfsagt farin að gæla við koddann þegar hann birtist og komin inn í draumheima.

Lái mér hver sem er, ósofin kona með hroll í hjarta yfir öllu óstandinu á gamla landinu.   


Í ljósi alls sem er.

Er farin að sjá heiminn í allt öðru ljósi og sumt af því sem ég sé hrellir mig en það er líka annað sem kemur skemmtilega á óvart og gleður augað.

Ég sagði ykkur um daginn að ég lærði alltaf eitt nýyrði þegar ég væri hér á landinu og í gær heyrði ég alveg splunkunýtt orð sem kom mér til að skella upp úr.  Nú á maður að segja þegar maður ætlar  að gera nákvæmlega ekki neitt, í dag ætla ég bara að Haarda.Wink W00t

Og það er það sem ég ætla að gera í dag, bara Haarda með dóttur minni og fjölskyldu.

Njótið helgarinnar hvar sem þið eruð stödd í heiminum og elskið hvort annað. Heart

 

 


Nú legg ég vonandi öllum þessum fínu lonníettum.

Þá tifar klukkan og nú eru aðeins rétt þrír tímar þar til einhver sæt hjúkka gefur mér eina valíum svona rétt til þess að róa mínar fínu taugar eins og sérfræðingurinn komst að orði í gær. 

Síðan á ég að leggjast upp á borð, augnalokin verða spennt upp og dropar settir í augun síðan kemur hvisssss.. og allt búið.  Hvað er kerlingin að röfla hugsar nú einhver, jú það skal ég segja ykkur tók nefnilega þá stóru ákvörðun í gær að fara í Laser operation eða sjónlagsaðgerð eins og það heitir víst á okkar máli.

Þar sem ég var orðin svo rosalega pirruð á mínu gleraugnastandi þá ákvað ég bara að drífa í þessu ef hægt væri.  Minn elskulegi augnsérfræðingur sagði við mig í gær eftir ítarlega skoðun: 

 -Aha og ert þú búin að keyra svona án gleraugna lengi? 

 Já svaraði ég pílu skömmustuleg, því ég vissi auðvitað að ég hef verið stórhættuleg í umferðinni undanfarna mánuði.

 Hann benti mér á að horfa á spjaldið á veggnum.

- Jæja hvað sérðu þarna?

- Humm... hvítt spjald með einhverju svörtu

-OK en hér, segir hann og réttir mér blað í svona A4

- Á ég að sjá eitthvað hér spurði ég

- Svona sérðu núna segir hann og um leið smellir hann málmgleraugum á nefið á mér og segir síðan, horfðu nú á spjaldið á veggnum aftur.

Ég sá meira að segja neðstu línuna og gat lesið smáa letrið á blaðinu, vá......

- OK svona kemur þú til með að sjá án gleraugna eftir aðgerðina.

Ég er orðin spennt, ég er orðin ansi mikið spennt, svona eins og hengd upp á þráð þið vitið.

Veit ekkert hvenær þið heyrið í mér aftur. En ef ég er ekki komin inn eftir tvo daga þá getið þið hafið kertafleytingar.

 Sko þetta er stórmál, ég hef aldrei á æfi minni tekið inn valium!

 

 

 

 


,,Teggja" ára afmæli er stórhátíð.

Ég var löngu búin að gleyma þessu en rifjaðist allt upp fyrir mér hér í gær.  Barnaafmæli, allt frá eins árs aldri og langt fram á fermingaraldurinn eru stórviðburðir í lífi allra barna.  Allt umstangið fyrir afmælið er engin smá vinna ég tala nú ekki um þegar gestir eru það margir að hleypa þarf inn í hollum.

Þessi amma sem skrifar hér var fjarri öllum undirbúning því hún og afi fóru út fyrir borgarmörkin á laugardaginn og komu ekki í bæinn fyrr en rétt eftir hádegi í gær.  Amman fékk svona vott af samviskubiti yfir að hjálpa ekki dóttur sinni við undirbúninginn  en afinn bætti úr betur og pantaði brauðtertur í tilefni dagsins.

Þegar við mættum í Garðabæinn upp úr tvö var allt tilbúið hjá henni dóttur minni. Borðið hlaðið veitingum, skemmtilega skreytt, blöðrur inni og úti, hattar og servíettur í stíl og allt eins og ég hefði verið með puttana í þessu.  Eitthvað hefur stelpan lært af mömmu sinni. Wink

Þá vatt ég aðeins til baka og viti menn, ég mundi allt í einu eftir því að þetta hafði ég líka gert án allrar hjálpar í denn og man ekki eftir því að mér hafi þótt þetta neitt stórmál.  Svona er maður fljótur að gleyma og vex e.t.v. allt of mikið í augum í dag það sem manni fannst ekkert mál hér áður fyrr. 

Tveggja ára stórafmælið hér við Strandveginn stóð langt fram eftir kvöldi eins og hæfir stórveislum.

Ætla að fara að gá til veðurs.   


Gamla góða heimsendingarþjónustan. Sendlarnir á svötu hjólunum.

Ahhh... það er komin glæta, ég meina sólarglæta.  Var svona að spá í það hvort ég ætti að skella mér í bæjarleiðangur eða bara kúra hér innandyra þar sem veðrið er nú ekki alveg upp á það besta hér við sjávarsíðuna í Garðabænum.  Var búin að gleyma rokrassinum hér heima. 

Í gær sat ég með móður minni aldraðri en hún er nú ótrúlega hress eftir aldri.  Við röbbuðum um lífið og tilveruna svona almennt og ég fór að hugsa hvað í raun og veru við systkinin værum heppin hversu sjálfbjarga hún er komin hátt á níræðisaldur. Eina utanaðkomandi aðstoðin sem hún fær er þrif á íbúðinni hálfsmánaðarlega. 

 Það sem ég horfði á regnið lemja rúðurnar og vindinn gnauða fyrir utan hátt uppi á níundu hæð þá hugsaði ég með mér að ekki kæmist hún nú langt í þessu veðri.  Þarna gerði samviskubitið vart við sig því ég veit að ábyrgðin er öll á systkinum mínum þremur sem búa hér á landi.  Þau sjá um að keyra hana á milli, versla inn fyrir hana ef með þarf, ná í lyfin o. sv. frv. á meðan ég kem bara hingað sem gestur og stoppa yfirleitt stutt. Og öll vitum við að í hraða þess þjóðfélags sem við lifum í þá hafa allir nóg á sinni könnu.  Móðir mín er líka ein af þeim sem aldrei vanhagar neitt þegar spurt er en síðan kemur það í ljós daginn eftir að hún er dauðþreytt af því hún fór út í matvöruverslunina og bar pokana alla leiðina heim. 

Ég spurði gömlu konuna sem sat þarna keik á móti mér:  Heyrðu mamma er ekkert hér sem heitir heimsendingaþjónusta frá matvöruverslunum.

Gamla konan leit á mig og glotti út í annað:  Nei vinan það er nú ekki neitt svoleiðis hér. Ja ég get tekið leigubíl til og frá búðinni en sjálf verð ég nú að skakklappast þetta.  Bætti síðan við, annars eru nú krakkarnir voða dugleg að hjálpa mér.  Vildi auðheyranlega ekki vera að kvarta undan systkinum mínum við mig í þetta sinn.

Mér var hugsað til fyrri ára þegar mamma hringdi í Ólabúð og pantaði inn fyrir helgina og sendillinn kom með þetta á sendiferðahjólinu frá búðinni.  Yfirleitt voru þetta einn til tveir troðfullir pappakassar af matvöru. Man enn eftir lyktinni sem fylgdi kössunum.  Eitthvað hlýtur nú fólk að hafa borgað upp í sendingarkostnað en getur varla hafa verið nein ósköp. 

Ég vildi eiginlega ekki trúa þessu.  Meira að segja í landinu þar sem ég bý er heimsendingarþjónusta. Þegar dóttir mín var nýbúin að eiga frumburðinn og bjó i London notfærði hún sér heimsendingu frá Tesco.  Það þótti bara ósköp eðlilegt.

 Hvað með allt þetta gamla fólk og sjúklinga sem búa einir og komast illa ferða sinna. Það hljóta að vera einhverjir með þessa þjónustu.  Ég fór á netið og leitaði og komst að því að ein búð hér býður upp á heimsendingu, Nóatún en allt fer það í gegn um tölvu. Síðan er slatti af Pizza og hraðréttastöðum, Kjöt í heilum skrokkum, grænmeti aðeins stórar pakkningar.  Það var ekki það sem ég var að leita að.  Ég nennti ekki að fara inn á síðuna hjá Nóatúni vegna þess að ég fór að hugsa en hvað með allt þetta fólk sem kann ekkert á tölvur, ætli sé hægt að fá vörulista í búðinni og panta símleiðis?     

Nú nálgast veturinn óðum og færðin versnar.  Hvernig fer gamla fólkið að sem á enga aðstandendur sem létta undir.  Er það inni í heimaþjónustu að versla inn fyrir sjúklinga og aldraða? Afsakið en nú spyr ég bara eins og bjáni. 

Hugsið ykkur hvað margt gamalt fólk sem býr eitt væri þakklátt fyrir að geta hringt í hverfisbúðina og pantað inn nauðsynjavörur.  Ekkert vesen.  Ekkert svona þegar hringt er í börnin sín:  Æi, fyrirgefðu að ég skuli vera að kvabba þetta, ég veit þú hefur nóg annað að gera en ég bara treysti mér ekki út í veðrið. 

  Svo einfalt.  Lyfta tólinu, velja númerið, panta eftir lista og síðan:  Viltu svo væni minn senda þetta heim fyrir mig.  Þakka þér fyrir góurinn. 

Það hefur dregið fyrir sólu.  

 


Er haustið rétt handan við hornið?

Brrrrr... í gær blésu vindar sem er ekki algengt hér og í morgun var hitastigið 4° en er nú að skríða upp fyrir 12° og verður sjálfsagt orðið gott um hádegi.  Það er sem sagt farið að hausta hér og kominn tími til að huga að haustverkunum.  Taka slátur og sulta smá.  Ekki taka mig alvarlega núna þið þarna trúgjörnu vinir mínir, ekki séns að ég leggi á mig svoleiðis vesen.

Mín haustverk liggja nú aðallega í því að verja þessar hríslur mínar hér á landareigninni fyrir vetri konungi og ágangi dádýra og annarra ferfætlinga sem hafa þann ósið að naga nýgræðinginn niður að rótum ef ekki eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. En ég þarf nú varla að byrja að hugsa um það fyrr en í enda október byrjun nóvember.

September er mánuður breytinga hér í Prag. Maður finnur svo vel að sumarið er að hverfa fyrir haustinu.  Vinirnir fara að koma aftur eftir sumarfrí með sögur af fyrri heimkynnum sínum, börnum og barnabörnum.  Félagslífið fer að blómstra og konur sækja fundi reglulega, koma með nýjar hugmyndir og allt fer að verða svo virkilega heimilislegt.  Ekki það að ég sé mikil kvenfélagskona en ég held mig enn innan viss hóps kvenna sem mér þykja skemmtilegar og lífga upp á tilveruna.

Sandalatúhestarnir hverfa og pínu meiri menningarbragur litar borgina.  Listalífið breytist líka, leikhúsin, óperan og tónleikahöllin bjóða upp á vandaðra efni og betri flytjendur.  Það færist ró yfir borgina og maður getur gengið um göturnar án þess að rekast sífellt utan í fólk eða vera hræddur um að verða troðin undir. 

Sem sagt allt annað líf.

Eigið góðan sunnudag.

 

  

 

 

 


Þetta er í bígerð, lofa því.

Viltu koma í göngutúr var sagt við mig hér í ljóskiptunum í gær.  Nei, takk var svarið frá mér um leið og ég hugsaði, ég hefði nú ekkert nema gott af því að hreyfa mig örlítið.  En þar sem ég var búin að koma mér svo huggulega fyrir undir hitalampanum á veröndinni með bók var eitthvað sem hét göngutúr svo fjarri mér.

Þegar minn elskulegi með Erró á undan sér voru komnir í hvarf fyrir hornið sá ég strax eftir því að hafa ekki skellt mér með þeim og fór að pæla í því hvurslags leti þetta væri í mér og hvaða hreyfingu minn eðalskrokkur hefði fengið þann daginn.  Jú ég hafði gengið þessa 100 metra niður að póstkassa og lengri leiðina heim aftur, sem sagt bak við hesthúsin, ca 3mín. ganga.  Ég fylltist skelfingu, ég meina það, svo allt í einu mundi ég eftir mínum minnsta kosti 10 ferðum upp og niður stigann hér þar sem ég hafði staðið í þvottum allan daginn. 

 Úff, hvað ég róaðist niður, hringaði mig betur ofan í sófann, opnaði bókina með góða samvisku og hélt áfram að lesa.  

Er ekki lestur góðra bóka líka gott fyrir heilasellurnar, það held ég nú bara.

Annar ætla ég að fara að vinna í þessu, mjög fljótlega..... 


mbl.is Hreyfing bætir minnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfagnaðir margfaldir og ég missi af þessu öllu saman. Púhú...

Ég er að missa af hverjum stórviðburðinum þarna uppi á Hamingjulandinu! Svona er að búa erlendis og hafa svo ekki einu sinni rænu á því að kaupa sér miða heim heldur hanga hér hálfvolandi ofan í takkaborðið og vorkenna sjálfri mér þessi líka reiginar ósköp.  Nei ég er nú aðeins að ýkja en það hefði ekki verið verra að vera heima núna og mæta í fimmtugsafmælis-Brunch hjá mágkonu minni í hádeginu í dag. 

Til hamingju með daginn Bökka mín, heyrði að tónleikarnir hefðu verið dúndur flottir!!!!!

Á morgun á svo bróðursonur minn afmæli, ekki að ég hefði verið boðin í neitt unglingadúndur en hvað veit maður.  Síðan er mágur minn hann Helgi Gunn 65 ára á fimmtudaginn!  Þar með held ég að afmælisbörn mánaðarinn innan familíunnar séu upptalinn.  Þetta er enginn smá hellingur, átta stykki í sama mánuðinum!   

 Finnst ykkur ekki annars, þið sem þekkið ekki haus né sporð af þessu fólki, skemmtilegt að lesa þetta hehehe.... jú mér datt það svona í hug!!! hehehehhe.....

Annars stendur hér mikið til um helgina, segi ykkur frá því seinna.

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband