Færsluflokkur: Lífstíll

Fallegur vetrarmorgun að Stjörnusteini.

Hrímið á trjánum glitrar hér í vetrarsólinni þennan fallega morgun. 

 Ég fór út snemma með hnetur og epli handa smáfuglunum mínum sem sækja hingað í fóður þegar kólna tekur og erfitt er að finna sér fæðu í skóginum. 

Dagurinn í dag er líka merkilegur fyrir það að tengdadóttir okkar hún Bríet á afmæli.  Innilega til hamingju með daginn Bríet mín.  Kíki við hjá þér á eftir. Wizard

Það var enn smá keimur eftir smákökubaksturinn í gær hér í húsinu þegar ég kom niður til að fá mér morgunsopann minn. Ég bakaði engin vandræði þetta árið, ja alla vega ekki enn. Whistling

 Þá fara jólin að nálgast og ,,jólaboðavikan" framundan.  Hér keppast margir um að bjóða heim vinum í smá gleðskap og við tökum því nú orðið eins og hluta af undirbúning jólanna.  Veit sem sagt að ég geri ekki mikið meir en að mæta og halda sjálf boð þessa viku.

Eigið góðan dag og munið eftir smáfuglunum.   

 


Ég bara trúi þessu ekki! Ætti ég að láta útbúa stimpil?

Tuttugu og einn dagur til jóla og fyrsta jólakortið kom í póstkassann okkar í gær yfir hafið frá Íslandi!   Ég fór alveg í hnút!  Er virkilega kominn tími á jólakortavesen.  Getur bara ekki verið, ég á eftir að gera svo ótal margt áður en ég sest við skriftir.

Það er nefnilega algjör serimonía hjá mér við skrif jólakorta. Verð að taka það fram að minn elskulegi kemur ekki nálægt þessu, hvorki kvittar undir hvað þá að líma á frímerkin. Sem sagt búinn að komast undan þessu veseni í yfir þrjátíu ár! 

 Sko það sem ég vildi sagt hafa.  Allt þarf að vera orðið jólalegt innanhúss.  Ég kveiki á ótal kertum, set ljúfa jólatónlist í græjurnar og bjarminn frá arineld leikur um stofuna.  Síðan hefst ég handa við að skrifa öllum persónuleg kort og  annál ársins með sem ég hef sett saman á tölvuna og skelli með, ekki bara á mínu móðurmáli heldur ensku líka.  

Sko þetta er auðvitað BILUN!!!!

Það er nú líka önnur stór bilun í gangi hér það er hvað við höfum sankað að okkur mörgum ,,JÓLAKORTAVINUM " í gegn um tíðina.  Ég sendi um 150 kort út um allan heim.  

ÞETTA ER RUGL!!!!!!

Á hverju ári strika ég svo og svo marga út en alltaf skal sami fjöldi bætast við. ´

Í fyrra ákvað ég að hafa annálinn í styttra lagi því mér fannst bara þeir sem nenntu að fylgjast með okkur gætu gert það hér á blogginu.  Það helltust yfir mig kvartanir eftir áramótin.  Djöf...frekja í þessu fólki, halda það að maður hafi ekkert betra við tímann að gera en að setja saman skemmtisögur handa þeim í jólakortin!   Tounge´Mér var meir að segja tilkynnt það að ég hefði bara eyðilagt JÓLIN fyrir fjölskyldunni og hvernig haldið þið þá að mér hafi liðið, þessi samviskusama kona sem ég er?   HRÆÐILEGA  eitt orð.Tounge

Sko nú er ég að hugsa og ætla að hugsa vel og lengi áður en ég tek ákvörðun um annál eður ei svo og líka, hvort ég get ekki skorið þetta aðeins niður í ár.  Má samt ekki hugsa of lengi vegna þess að tíminn flýgur þessa dagana.

Eitt sinn datt mér í huga að láta búa til stimpil sem ég gæti bara skellt inn í kortin með svohljóðandi:         Gleðileg Jól, Ía. Þórir og börn.

Ef ég hefðii gert það hefðu símalínur logað og fólk sem annars aldrei hefur samband mundi eyða í það að hringja yfir hafið og senda mér tóninn.Halo

Jæja ég ætla að leggjast undir fiðuna eins og ein vinkona mín orðar það og hugleiða málið.

Nenni ég þessu yfir höfuð og hver er tilgangurinn að senda einhverjum JÓLAKORTAVINI kveðju sem ég hef ekki séð í tugi ára?   Bara fyrir prinsippið?  

Farin að hugsa djúpt.Woundering

  

 


Vala Matt og aðrir snillingar ættu bara að sjá þetta núna!

Ég hef örugglega sagt ykkur frá því að ég er alveg hrikalega lofthrædd og fer ekki upp í aðra tröppu í stiga nema nauðbeygð.  En oft er þörf en nú var nauðsyn!  Ég ákvað það í síðustu viku að eldhússkáparnir gætu ekki haldi jól nema ég tæki þá í gegn og það eins og hvítan stormsveip.

Nú eiga einhverjar vinkonur mínar eftir að brosa rækilega út í annað þar sem ég sagði alltaf hér í den að jólin hjá mér yrðu ekki haldin i skápunum þess vegna væri ónauðsynlegt að taka til nema í algjöri neyð.

Til að gera langa sögu stutta um mig dinglandi með Ajax og önnur eiturefni í heila vikur upp og niður stiga þá kláraði ég mitt eldhús í gær!  Sko það er skrambi stórt, svona ca 30 fm.  Já ég er ekkert að djóka og skáparnir eftir því.  En nú lítur það út eins og hvítur stormsveipur og mér var næstum á að hringja í Völu Matt og bjóða henni hingað til að sýna henni hvernig á að fara að hlutunum.  Já þið trúgjörnu megið alveg trúa þessu bulli en Vala Matt eða aðrir innlitsplebbar kæmu ekki inn í mitt hús, ja nema þá sem gestir í sherry-stofuna heheheh....   Varð að bæta þessu við fyrir viðkvæma, sko smile merkin virka ekki hér á minni tölvu. 

Á meðan ég bardúsaði þarna á neðri hæðinni stóð minn elskulegi í stórframkvæmdum á efri hæðinni.  Þið munið hann er bara í 25% vinnu heheh... Ýmislegt hefur ekki verið klárað hér í húsinu frá því við fluttum sbr. Saunan hefur aldrei komist í gagnið en nú bætti minn um betur og er búinn að klæða og þylja og nú bara bíðum við eftir rafvirkjanum til að tengja ofninn.  Þó ég segi sjálf frá og viti að hann les þetta, þá verð ég að hæla honum fyrir þetta afrek.  Hann hefur e.t.v. alla tíð verið á rangri hillu, hefði átt að leggja fyrir sig smíðar?  Nei en í alvöru þetta er þrusuflott svo flott að ég er að hugsa um að setja rauða jólaseríu þarna inn og svo bara höldum við litlu jólin þarna í herlegheitunum, ja ef rafvirkinn lætur sjá sig fyrir jól.

Í dag fór ég  til Hönnu minnar (snyrtir) og lét dúlla við mig í tvo tíma.  Ætlaði að fara í búðir á eftir en hér virtist jólatraffikin vera komin á skrið svo ég brunaði bara beint heim og hef ekki gert handtak síðan. Enda kona komin á minn aldur (hvaða bull er nú þetta, aldur hvað?) á skilið að taka það rólega eftir svona vesen.

Á morgun ætla ég að dúlla í jólaskrautinu.   

 

 


Jólaljósin tendruð að Stjörnusteini.

Ljósadýrð loftið fyllir!  Ég jólabarnið er komin í jólafíling.  Mér finnst ekkert eins gaman og að skreyta húsið að utan og innan.  Ég vildi að þið gætuð séð núna útiskreytingarnar hjá okkur.  Þúsundir ljósa allt frá hliðinu og aftur fyrir veröndina ljóma nú eins og heill jólaheimur.  

Í ár vildi ég hafa hvítt og blátt frá innkeyrslunni og að framanverður svo auðvitað kostaði það nýjar seríur.  Ég bjóst nú helst við því að minn elskulegi mundi fitja aðeins upp á nefið en hann tók ekki minni þátt í þessum skreytingum og í hvert sinn sem hann kom úr bænum hafði hann keypt nokkrar nýjar ljósaseríur. Allar gömlu marglituðu seríurnar lýsa núna upp litla greniskóginn minn sem ég bjó til fyrsta árið okkar hér, fyrir aftan veröndina.  Verð að taka myndir af þessu og skella inn við tækifæri. 

Þökk sé Pavel okkar sem hefur staðið hér í þrjá daga frá morgni til kvölds við að gera þetta mögulegt, gera húsið og umhverfið að litlu jólalandi okkur til mikillar ánægju og ekki síður sveitungum okkar sem leggja leið sína hingað til að fá smá jólastemmningu.

   


Ætla að vera stykk frí núna, hætta að velta mér upp úr því sem ég fæ engu um breitt.

Eftir að hafa úðað í mig breskum fisk frá Marck & Spencer í gærkvöldi sat ég hér við kertaljós og hugleiddi hvað væri mikilvægast í lífinu.  Svarið kom um leið, auðvitað fjölskyldan engin spurning.

Undanfarið hef ég eitt allt of löngum tíma í það að rýna í heimsmálin og ástandið heima á Íslandi.  Dagurinn byrjar með því að rúlla málgagni landsmanna frá A-Ö, lesa greinar og blogg þrátt fyrir þann góða ásetning minn að hætta að velta mér svona mikið upp úr þessu. Að sjálfsögðu verðum við að fylgjast með og viljum vita hvað er að gerast í okkar málum, þ.e. okkar landsmanna en við leysum ekki málin hér í eldhúsinu mínu það er á tæru. 

Og stundum getur þetta farið út í öfgar og ært óstöðugan.

Þess vegna ætla ég að vera stykk frí í smá tíma og reyna að skrifa ekkert um pólitík, enda hef ég hvorki vit né gaman af því og líka að hætta að komentrera um ,,tíkina" hjá öðrum þ.e.a.s. ef ég kemst hjá því.  Í stað þess að hlusta á alla þætti útvarps og sjónvarps ætla ég að setja góða tónlist i spilarann eða lesa góða bók.

Nú þegar líður að aðventu þá ætla ég að nota tímann í það að gera heimilið okkar sem jólalegast svo við getum notið aðventunnar í ró og næði.

Svo ef þið fáið bara hjartainnlit frá mér kæru vinir þá er það vegna þess að mér þykir svo undur vænt um ykkur öll.   


Alveg sérstaklega hjartahlýtt og brjóstgott fólk sem tók á móti mér.

Það er ekkert sjálfgefið fyrir konu að taka upp símann og panta tíma hjá Hjartavernd eða Krabbameinsfélaginu, þá er ég að tala um þessar reglubundnu heimsóknir sem allir ættu að fara í en flestir fresta og sumir næstum fram í rauðan dauðann. Ég er þar engin undantekning og skammast mín fyrir að segja ykkur hvenær ég hundskaðist síðast svo ég læt það liggja á milli hluta.

En fyrst ég var nú á leið heim þá pantaði ég mér tíma hjá báðum þessum stofnunum um daginn og fékk tíma um leið, sem sagt engin biðtími þar eins og hjá flestum læknum. 

Það skal tekið fram að ég er alveg þrusu hress bæði á sál og líkama.  Þarna voru á ferð fyrirbyggjandi aðgerðir af minni hálfu.

Ég byrjaði á því að heimsækja Hjartavernd með tóman maga að sjálfsögðu.  Yndælis kona tók á móti mér og mældi og viktaði og tók línurit.  Eftir að ég hafði fengið að vita að ég hefði hlunkast saman um næstum tvo sentímetra fór ég í blóðprufu hjá lækni, konu, sem var ekkert nema elskulegheitin og af því að hún var svona geðug þá hugsaði ég með mér að best væri nú að létta aðeins á litla hjartanu og segja hvað hefði verið að angra mig í næstum tvö ár. 

Saga mín var skráð í tölvuna og hún segir að þetta geri hún svo hjartalæknirinn sem tæki á móti mér eftir nokkra daga hefði nú þetta allt fyrir framan sig.

Ég þakkaði voða vel fyrir mig og gekk út í rokið og fékk mér sígó.

Næsta dag heimsótti ég góða fólkið hjá Krabbameinsleitarstöðinni.  - Karlar þurfa ekkert endilega að lesa þetta........ Jésús það var svo rosalega langt síðan ég hafði sest í stólinn góða eða það fannst mér alla vega.  Eftir mjúku strokuna og þið vitið...... þá vippaði ég mér niður og hjúkkunni varð á orði , ja þú ert ekki þung á þér.  Held þetta hafi ekkert haft með þyngdina að gera, ég var bara svo rosalega fegin að komast af stólnum. 

Þá tók við tortúrtækið þið vitið stelpur sem kremur litlu sætu dúllurnar okkar út og suður.  Hey það er komin ný vél, ekki næstum eins sárt og síðast. Ég mátti síðan hringja daginn eftir af því ég bý erlendis, sem sagt þarna fór kona með forréttindi, sem ég og gerði og fékk að vita að mínar eðaltúttur voru eins hreinar og hjá hálfstálpuðum ungling. 

Mikið var nú gott að heyra það og ég fékk mér sígó, enda tilefnið frábært.

Tveimur dögum seinna lá leið mín aftur upp á Hjartavernd en þar tók á móti mér kornungur ljóshærður og myndalegur hjartalæknir.  Mín fyrsta hugsun var:  Guð minn góður hann er svo ungur!  Ég´bjóst fastlega við því að mér yrði skipað úr fötunum að ofan og upp á bekk eins og gert var hér áður fyrr og maður þuklaður með köldum lúkum en nei þessi ungi piltur bauð mér kurteysislega sæti og opnaði fælinn minn.  Þá upphófust samræður um fjölskyldu mína og hans þar sem konan hans var sveitungi tengdadóttur minnar.  Þetta stóð yfir í nokkrar mínútur.  Mjög fróðlegt samtal og skemmtilegt.

Síðan setti hann prentarann í gang og út gubbuðust nokkur A-4 blöð. Þar sem ég hafði verið mjög hreinskilin og sagt með réttu að ég væri stórreykingarmanneskja komu niðurstöður mér mjög á óvart.  Ekkert virtist vera athugavert við neitt.  Kólesterólið sem alltaf hefur verið við hættumörk var nú bara eðlilegt og það eins sem hann gerði athugasemd við var að ég auðsjáanlega hreyfði mig allt of lítið, yrði að bæta úr því.  

Ég komst aldrei svo langt að segja honum að ég púlaði hér í garðvinnu átta mánuði á ári og það teldist nú örugglega til hreyfingar.  Jæja skítt með það.  Allt var þetta í stakasta lagi.  Ég impraði líka á því sem ég hafði sagt hinum lækninum um það sem ég hefði áhyggjur af en áður en hann gat svarað mér var ég búin að svara mínum eigin spurningum sjálf, skilgreina allt á góðri Íslensku, orsakir og afleiðingar og hann jánkaði mér bara og sagði að ég hefði sjálfsagt rétt fyrir mér.  Ekkert svona hum eða ha, þú ættir nú að láta athuga þetta eða hitt ef þetta kemur fyrir aftur.  Sem sagt bara kerlingavæll í mér og histería.

Ég er líka bara ansi sátt við þá niðurstöðu.

Þá kom fyrirlestur um reykingar og spurningar um hvort mig langaði til að hætta sem ég jánkaði alveg hreinskilningslega.  Þá opnuðust flóðgáttir og þessi ungi maður tók mig algjörlega á sálfræðinni, talaði um áhættuhópinn sem ég væri í, barnabörnin sem eru augasteinar mínir.  Eftir nokkrar mínútur var ég svo heilaþvegin að ég gekk út með tárin í augunum og lyfseðil upp á fleiri tugi þúsunda sem eiga að hjálpa mér að hætta þessum ósóma.

Sko tárin voru ekki vegna þessara þúsundkalla heldur var ég alveg rosalega snortin. 

Ég var ekkert send í ómskoðun eins og alltaf hér áður fyrr vegna þess að önnur slagæðin í hálsinum á mér er alltaf í feluleik.  Hann kom aldrei við mig nema þegar hann heilsaði og kvaddi. Ef ég hefði ekki lyfin hér fyrir framan mig væri mér næst að halda að þetta hefði verið draumur. 

Ég er í undirbúningsvinnu núna fram yfir áramót og þá á að taka á því.  

Er farin að fá mér eina sígó.   

  

 

 


Áætlanir fóru út um þúfur og ég er smá pirruð.

Ég þoli ekki þegar hlutirnir ganga ekki eftir mínu höfði.

Í dag hafði ég ákveðið að eyða ekki tíma mínum eða orku í fréttalestur.  Orkan átti að fara í það að hrista fram úr erminni nokkur húsverk sem setið hafa á hakanum í langan tíma.

Allt byrjaði þetta eftir áætlun og ég var búin að færa sumarfötin upp og vetrarfötin niður.  Fullur poki af skóm og öðru sem hússtýran mín átti að taka með sér heim beið í anddyrinu.  Ég fékk mér kaffi um ellefu leitið og var bara þvílíkt ánægð með framvindu mála.  Næst skildi taka bókaherbergið rækilega í gegn og klára það fyrir kvöldið. 

  Ég byrjaði á skrifborðinu og tölvuborðinu.  Stór svartur ruslapoki fór að fyllast óðfluga. Eftir skrifborðstiltekt réðst ég af fítonskrafti á bókaskápinn.  Ákvað að byrja neðst en þar eru lokaðir skápar sem svo rosalega auðvelt er að henda inn í þegar maður nennir ekki að fara með ruslið í tunnuna og svo það góða við svona lokaðar hirslur er að það sér engin hvað felst bak við lokaðar dyr.  Ég var búin að tæma fyrsta skápinn, allt komið út á gólf, búin að sortera það sem ég ætlaði að geyma annað komið í svarta pokann. Vegna þess að ég er svo köttuþrifin (stundum) ákvað ég að nú yrði þvegið allt hátt og lágt með Ajax og alles.

Þar sem ég lá á fjórum fótum og teygði mig inn í skápinn (neðri skáparnir eru ansi djúpir og ég handleggjastutt) vopnuð blautri tusku gerðist eitthvað mjög sársaukafullt í bakinu, hægra megin.  Ég fraus smá stund með svona ,,Ópið" á andlitinu en þar sem sársaukastig mitt er ansi hátt ætlaði ég nú ekki að láta smá sting koma mér í óstuð svo ég hélt áfram að puða þetta inn í skápnum. 

Ég gafst upp eftir smá stund.  Nú liggja bækur, bæklingar, möppur og fl. eins og hráviðri út um allt gólf þarna uppi og ég sit hér og vorkenni mér alveg heilan helling. 

Ætla samt að klára þetta á morgun. Engan aumingjaskap kona!  Búin að fara í nuddpottinn og síðan er bara að maka Voltaren kremi á báttið og éta tvær pillur og ekkert röfl.

Verð orðin góð á morgun, ekki málið.


Halló - vín / Halloween

Á morgun er minn dagur!  Og þá fer nornin hún ég á stúfana með öllu sínu hyski og málar bæinn rauðan.  Það er hægt að mála bæinn rauðan á marga vegu, þetta er líka spurning um hversu djörf/djarfur maður er í eðli sínu.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega djörf.

Er ekki alveg búin að plana daginn en samt að ég held, að hálfu leiti, og það verður minn dagur ekki spurning.  Minn elskulegi fær að slæpast með og e.t.v. einhverjir fleiri, sjáum bara til.

Þegar ég var krakki bakaði mamma ótal Hnallþórur á þessum degi og bjó til ekta súkkulaði úr Konsum blokksúkkulaði með þeyttum rjóma. 

 Ekki nokkur maður hafði þá heyrt um eitthvað sem hét Halló - vín enda bjuggum við á eyju sem stundum var ekki einu sinni merkt inn á kortið.  En það var alltaf hátíð þennan dag og húsið fullt af ömmum, frænkum, og nokkrum vinkonum úr hverfinu sem mamma valdi fyrir mína hönd, því ekki mátti maður bjóða hinum og þessum inn á heimilið. 

Nú eruð þið e.t.v. farin að skilja hvað ég er að þvæla um hér.  Nornin ég á afmæli 31. október.  Hvað ég er gömul?  Segi ykkur það ekki!

Ég slóst í hóp þeirra sem ríða sópum þegar ég flutti hingað út og kynntist þessum degi norna og seiðkalla.  Heheheh það var mér ótrúlega auðvelt!  Fædd í hlutverkið.

Við bjuggum í hverfi í átta ár þar sem margir útlendingar höfðu samastað.  Svona ,,Saterlight" hverfi eins og það var kallað í þá daga.  Mér fannst alltaf allt hverfið halda upp á daginn með mér og tók þátt í hrekkjavökunni af alvöru.  Fyllti skálar með nammi og skreytti allt með ljósum og draugaglingri.  Krakkarnir elskuðu að heimsækja nornina í Sadová.  Þegar árin liðu var fullorðna fólkið farið að koma með krökkunum því það vissi að innst í stofunni stóðu glös með kampavíni.  

Það var þá. Hrikalega skemmtilegir tímar.

Á morgun verður ekki hringt hér á bjöllu, ekkert ,,trikker treat"  Tékkanir eru ekki alveg búnir að læra þennan sið þrátt fyrir alla innrásina frá Ameríku og Bretlandi undanfarinn ár.  Þeir skreyta og selja Halloween skraut hér og þar, en börnin eru ekki alveg farin að læra að koma og berja að dyrum.  Ja alla vega ekki hér í sveitinni okkar.  

Nornin að Stjörnusteini ætlar sem sagt að halda daginn hátíðlegan á morgun.  Hvort ég ríð sköftum veit ég ekki, fer allt eftir veðri og vindum en skal lofa ykkur að ég skal elda seið og fara með nokkrar vel valdar línur úr nornarseið Macbeth.

Happy Halloween!

 

 

 

 

 

 


mbl.is Fólk hamstrar vín fyrir hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið skiljið þetta ekki, þið búið ekki hér!!!!!

Undanfarnar vikur er ég búin að láta menn og málefni fara óstjórnlega í taugarnar á mér svo ég hef örugglega verið óþolandi hér á heimilinu.  Ég þessi ópólitíska kona sem aldrei skipti sér af pólitík, kaus sama flokkinn á meðan hann var við lýði er farin að bölsótast yfir fréttum og ekki fréttum.

Það sem verra er ég trúi engum lengur, treysti engum og sé grýlu í hverju horni og mitt viðkvæði er allan daginn ,,já en....já ef.....en hvað ef...."  hvernig haldið þið að það sé að búa með svona konu, nei ég veit það, það er bara ekki hægt.  Ég er nú samt svo heppinn að eiga þolinmóðan og ljúfan ektamaka sem tekur þessu öllu með jafnaðargeði og segir bara:  Vertu nú ekki að velta þér upp úr þessu elskan.  Siðan reynir hann að útskýra fyrir mér málið á góðri íslensku og þá byrjar allt að hringsnúast í mínum eðal kolli og ég skil bara ekki bops! 

Það sem fer mest í pirrurnar mínar er þegar fólk hringir í okkur að heiman og heldur yfir okkur ræðu um ástandið og hvað ætti að gera eða hvað hefði átt að gera, allir þvílíkir spekingar, með allt sitt á tæru, endar síðan ræðuna á því að segja: 

 En þið skiljið þetta bara ekki, þið búið ekki hér!!!!

Halló, við erum nettengd, við lesum blöðin, við hlustum á ísl. útvarpið og horfum á umræðuþætti.  Við búum ekki í svörtustu Afríku.  Við fylgjumst alveg með öllu því sem er að gerast þarna heima og reyndar í heiminum öllum. 

Við eigum fjölskyldu á Íslandi, við hugsum til þeirra dag og nótt og biðjum fyrir þeim öllum.

Það eina sem skilur okkur frá löndum okkar er að við eigum ekki eignir á Íslandi, enga peninga eða bréf í banka eða sjóðum þ.a.l. liggjum við ekki í sömu súpunni og þorri þjóðarinnar.  Ef til vill er það þess vegna sem fólk segir að við getum ekki skilið þetta til fulls, hvað veit ég.

Fólk gleymir því stundum að við áttum heima þarna uppi á eyjunni í fjörutíu ár.  Börnin okkar eru fædd og uppalin þarna.  Við munum alveg tímana tvenna.  Gengisfellingar, gjaldþrot, og basl.  Stundum gátum við lifað eins og kóngar og við gerðum það.  Spreðuðum í utanlandsferðir, byggðum sumarbústað, vorum á kortaflippi.  Bara eins og hver annar Íslendingur og ekki skal ég neita því að þá var gaman að lifa.  En það kom að skuldadögunum og þá var bara ekki eins gaman en aldrei létum við nokkurn mann vita af því að við værum skítblönk.  Við byrjuðum bara upp á nýtt og fundum okkur verkefni sem okkur hentaði.

Er ekki talað stundum um sjö mögur og sjö feit ár, eins og mig minni það.

Jæja þá er ég búin að hella úr skálum reiði minnar og er það vel!!!! Mér líður miklu betur og af því að ég er komin aftur niður á jörðina ætla ég að láta ykkur vita að við ætlum að taka þessu öllu með ró og spekt. Engar fánabrennur hér bara kveikt á kertum okkur öllum til handa.

Farin að hjúfra mig upp að mínum elskulega. 


Ég ætla aldrei, aldrei aftur í bláu og gulu búðina!

Ég lét mig hafa það í dag að keyra í samtals þrjá klukkutíma og þrjátíu mínútur til þess eins að koma heim froðufellandi og aðframkomin á sál og líkama.  Ég varð sem sagt að fara í þessa mannskemmandi verslun hans Ingmars af því það var eini staðurinn hér í Prag sem ég vissi að ég fengi rauðan lakkrís. 

Segi og skrifa rauðan lakkrís af því ég ætla að baka köku fyrir afmælisbarnið hana Elmu Lind á laugardaginn og ég vildi hafa rauðan lakkrís fyrir hár. Svo helvítis IKEA varð það að vera.

Þegar ég loksins fann bílastæði eftir að hafa keyrt í klukkutíma og tíu mínútur skellti ég harkalega á eftir mér hurðinni og skundaði að aðaldyrunum.  Datt nú í hug að svindla mér inn bakdyramegin, eða þeim megin sem maður kemur út en get stundum verið svo ógeðslega heiðarleg svo inn fór ég og eftir hringsól komst ég loksins niðrá neðri hæðina og fyrst ég var nú búin að randa þetta þá skellti ég mér í kertadeildina og stakk fjórum hlussu kertum í poka, þið vitið þessa gulu sem maður dregur síðan á eftir sér eftir gólfinu af því böndin eru ekki hönnuð fyrir lágvaxna!

Ég sá einhvern útgang og hugsaði mér að þarna gæti ég stytt mér leið að kassafjandanum.  Ég villtist!!!!  Var komin aftur á byrjunarreit!!!!!  Píluandskotinn í gólfinu sneri öfugt!!!!!  Ég sneri við og komst við illan leik að kassanum og valdi auðvitað kolrangan kassa þar sem aðeins ein hræða stóð við og að mér virtist vera komin að því að borga.  Nei takk, viti menn þarna var einhver snillingurinn að láta endurreikna vörur sem hann hafði keypt í gær!!!!  Ég skimaði að hinum kössunum en þar voru raðir svo ég ákvað að hinkra aðeins.  Eftir korter tók ég kertin, henti þeim aftur í gula skjattann og strunsaði að næsta kassa þar sem ég mátti dúsa í allt að korter í viðbót.

Loksins komst ég að matarversluninni þar sem lakkrísinn átti að finnast.  Eitthvað hafði gerst þarna síðan ég var þarna síðast en það eru jú ansi margir mánuðir síðan.  Búið var að umsnúa öllu og vöruúrval sama og ekkert.  Ég fann loks lakkrísinn niður við gólfið og skellti um leið tveimur pokum af kjöttbullar í poka fyrst ég var nú komin þarna á annað borð.  Borgaði og út, út, út!!!!!  

Ég var komin með suð fyrir eyrun og dúndrandi hausverk en sá rauði var kominn í skottið og ég gat haldið heim.  Þetta var búið að taka mig þrjá klukkutíma síðan ég lagði af stað að heiman.  NB ég bý hinum megin fyrir utan borgina sem sagt í suður en andskotans bláa og gula búðin er vestur af borginni. 

Það bjargaði öllu að ég kom við hjá syni okkar og tengdadóttur og dúllunni henni Elmu Lind.  Gat aðeins andað áður en ég hélt heimleiðis.

Sú ferð tók nær tvo klukkutíma vegna þess að það er verið að gera við Autobanann heim til okkar og þarna sat ég í stau í nærri heila klukkustund með snarvitlausa ökuníðinga allt í kringum mig. 

Þar sem ég hafði talað við minn elskulega um það leiti sem ég lagði af stað frá Agli var minn farinn að ókyrrast heldur betur og var næstum farinn að kalla út hjálparsveit skáta til að leita að konu sem sat föst einhvers staðar out of no where. 

 Guði sé lof fyrir göngusímann, hann alla vega virkaði.

Þetta skal verða mín síðasta ferð í þessa hryllingsbúð hans Ingmars, ja nema ef ég verð nauðsynlega að kaupa rauðan lakkrís fyrir barnabarnið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband