Færsluflokkur: Lífstíll
26.1.2009 | 11:18
Öðruvísi mér áður brá
Hvað ef hér væri ekki nettenging aðeins sími sem væri hleraður og faxtæki sem virkaði eftir dúk og disk? Væri bara ekki lífið auðveldara? Alla vega væri umræðan á heimilinu ekkert í líkingu við það sem hún er í dag.
Ætli það séu nema þrjú ár síðan við fengum almennilega nettengingu. Áður komu íslenskar fréttir í stakato útfærslu sem engin nennti að fylgjast með. Okkar fréttasöð var CNN og Sky og við vorum sátt við það. Fréttir að heiman bárust með vor og haustskipunum ef svo má segja. Einstaka sinnum var síminn notaður en þá sérstaklega til að fylgjast með ættingjum heima. Og okkur fannst við ekkert vera utanveltu, fannst jafnvel þegar við komum heim að fólkið talaði um það sama og síðast þegar við litum við. Sem sagt allt í ró og spekt og himnalægi.
Í dag glymja hér þrjár íslenskar útvarpstöðvar í takt við hvor aðra þ.e. Rás eitt og tvö og Bylgjan allan liðlangan daginn. Tvær heimilistölvur eru rauðglóandi svo liggur við að þær brenni yfir einn daginn. Síminn hringir í tíma og ótíma. - Ertu að horfa á sjónvarpið? -Hvað finnst þér? Vááááá.......
Umræðuefnið á heimilinu, ja hvað haldið þið? Ekki það að ég taki ekki líka þátt í þessu, o svei því, jú ég geri það af fullum krafti, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Núna t.d. bíð ég í ofvæni eftir nýjustu fréttum að heiman. Horfi á klukkuna og bíð eftir ellefu fréttum. Andsk......... verð að fara að hætta þessu ég hvort eð er breyti engu um ástandið.
Sko vissi ég ekki, ýtti ,,alveg óvart" á plús takkann. Ekkert fréttnæmt, bíða til klukkan tólf!
Vildi óska þess að það væri komið vor. Ég er ekki janúar-febrúar manneskja. Vildi helst leggjast í hýði eins og björninn.
En nú er bara að þreyja Þorrann og líta á björtu hliðarnar.
22.1.2009 | 19:47
Loksins ásættanlegt nafn. Næstum búin að sætta mig við þetta þökk sé 5. - 7. bekk grunnskóla.
Þegar ég var heima í haust og barnabarnið var á leið út í leikskólann lét faðir hans einhverja dulu yfir höfuðið á blessuðum drengnum. Ég reyni alltaf að skipta mér sem minnst af en þarna gat ég ekki orða bundist og spurði:
-Hvað er þetta eiginlega?
-Þetta er Buff
-Buff hvað?
-Bara Buff
-Og á drengurinn að far út með þetta á höfðinu?
-Já af hverju ekki, það eru allir með svona í leikskólanum, þetta er inn.
Hugsaði já en barnið er tveggja ára veit ekkert hvað er inni eða úti. Þetta er sem sagt inn hjá foreldrum.
-Já er það sagði ég og hverju á þetta lufsuverk að skýla, það er við frostmark úti
-Hann er með aðra húfu í skólanum.
Amman þagði en hugsaði aumingja barnið hann lítur út fyrir að vera niðursetningur með þennan skræpótta skýluklút. Lítur út eins og förukerling.
Það skal tekið fram að á meðan ég dvaldi á heimilinu og fór út með drenginn á meðal fólks var buffið týnt og tröllum gefið.
Haldið þið ekki að minn elskulegi hafi keypt sér svona buff þarna uppi á LOST landinu en það hvarf líka með óskiljanlegum hætti sko áður en við komum heim.
Ég skil núna og veit að það var nafnið á þessu þarfa háls, eyrna og höfuðskjóli, sko auðvitað var ég frædd um gildi buffsins, sem fór svona hrikalega fyrir brjóstið á mér.
B U F F ! Lindu, Góu eða hakkað buff langaði mig nefnilega til að spyrja. Ónefni sem ég bara sætti mig ekki við og þ.a.l. þoldi ég ekki þennan höfuðbúnað. Einfalt mál.
Skjóla merkir jú fata en getur líka merkt skjól ef við horfum fram hjá öllum sólarmerkjum.
Er næstum búin að sætta mig við að börn gangi með þennan skýluklút um höfuð.
![]() |
Höfuðfatið heitir skjóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
12.1.2009 | 10:52
Bíllinn sem talar mannamál, eða þannig.........
Ekkert lát er á brunakuldanum hér í Tékklandi og telja veðurfræðingar að þetta kuldakast haldist eitthvað fram í næstu viku.
Í morgun sýndi hitamælirinn sem ég er nú farin að kalla frostmæli - 23° hér í sveitinni. Brrr...
Það tók minn elskulega langan tíma að koma bílnum í gang þar sem hann átti erindi inn í borgina eldsnemma í morgun og þegar það loks tókst blikkuðu öll viðvörunarljós í mælaborðinu og birtist stórum stöfum og gáfuleg rödd tilkynnti: End journey now!!! eða eitthvað álíka gáfulegt. Sko bíllinn hans talar mannamál og eins gott því annars hefði minn bara flanað út í einhverja vitleysu.
Hann lét farartækið ganga smá stund og eftir nokkrar mínútur fór að lækka rostinn í bílnum og viðvörunarljósin slokknuðu smátt og smátt og röddin kom aftur: You can start your journey now but drive carefully!!! Já, já alveg hreina satt.
Annars var helgin hér róleg og mest gert nákvæmlega ekki neitt. Í gær heimsóttum við þessa litlu dúllu sem bræðir öll hjörtu með sínu yndislega brosi.
Hvað ég geri í dag veit ég ekki enn er svona að pæla í því hér yfir þriðja kaffibollanum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.1.2009 | 14:52
Fimbulkuldi hér í Tékklandi. - Ekkert gasleysi eins og er.
Brrrrrr.... þegar ég vaknaði í morgun sýndi mælirinn - 20° hér fyrir utan eldhúsgluggann. Ég ósjálfrátt færði stólinn minn nær ofninum og pakkaði mér betur inn í hnausþykan morgunsloppinn.
Hér er fallegt út að líta. Frosthéla á trjám, stilla og vetrarsólin skín á heiðum himni en nær þó ekki að bræða klakabynjuna á jörðu niðri. Þetta er svona póstkortaveður og hver vill þá ekki vera hluti af myndinni?
Þess vegna ákvað ég að dúða mig í ,,skepnuna" mína (nú er sko gott að eiga góða ,,skepnu" heheheh) og fá mér göngutúr. Ég komst ekki lengra en rétt hér að skógarjaðrinum þá varð ég að snúa við þar sem nasirnar límdust óþyrmilega fast saman og mér fannst mitt pena nef vera að detta af.
Tók mig langan tíma að fá blóðið til að renna eðlilega þegar heim kom.
Þegar líða tók á daginn og frostið komið niður í -14° þá vildi ég nú láta reyna aftur á þennan aumingjaskap minn og skellti mér út í annað sinn. Hélt út í hálftíma eða svo.
Dísus hvað það getur orðið kalt hér!
Svo vegna þess að sumir hafa haft áhyggjur af gasleysi hér á landi þá eiga Tékka varaforða og hafa bjargað sér til þessa. Við hér að Stjörnusteini kyndum hýbýli okkar með olíu.
Nú er ég farin að hafa áhyggjur af mínum elskulega þar sem hann fór í göngutúr með hundinn. Vona að hann sé ekki orðinn að frostnum ísstólpa einhvers staðar hér í nágrenninu.
Spurning hvort ég eigi að fara út að leita eða bara kvekja upp í arninum.
Ætla að kveikja upp í arninum. Þeir voru rétt í þessu að koma inn úr dyrunum.
30.12.2008 | 21:30
Klúður á klúður ofan á næst síðasta degi ársins 2008
Þegar maður byrjar á því að klúðra einhverju í byrjun dags þá er bara eins og enginn endi sé á ósköpunum. Þannig er þetta búið að vera hér í dag. Eiginlega allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur hefur einhvern vegin klúðrast.
Fyrst Mogginn í morgun. Af hverju má ég ekki bara nota gamla systemið heldur en þetta nýja síðuflett. Óþolandi, sem sagt nennti ekki að lesa blaðið í morgun.
Síðan er ég aftur búin að skrá mitt rétta nafn svo ég geti nú verið með í umræðunni. Ég byrjaði að blogga undir fullu nafni en af því að ég hef verið kölluð Ía frá fæðingu og flestir þekkja mig undir því nafni þá er það mér miklu eðlilegra. Finnst alltaf þegar fólk gólar á mig INGIBJÖRG að ég hafi gert einhvern óskunda af mér. Svo ef einhver af vinum mínum hér vogar sér þá hreinlega brjálast ég, bara svo þið vitið það.
Hvernig haldið þið að það hafi verið öll skólaárin þegar kennarar kölluðu upp nafnið mitt og ég fékk alltaf hland fyrir hjartað. Guð, hvað gerði ég nú af mér? Humm.. ja ég gerði víst ýmislegt af mér í skóla svo ekki skrítið að lítla hjartað hafi tekið aukaslag.
Þegar ég fór að taka aðeins til í ísskápnum og henda afgöngum sem enginn vildi setti ég skál með pasta, sósu og kjúlla á borðið, hugsaði um leið: Ætti að henda þessu núna strax í ruslið. Mikið vildi ég að ég hlustaði einhvern tíma á minn innri mann, sko í alvöru. Ég veit yfirleitt fyrir þegar óhöppin gerast. Eftir tíu mínútur var skálin enn á borðinu og ég slengdi einhverju úldnu gænmeti í poka auðvitað beint í skálina og gumsið þeyttist út um allt eldhús.
Ég setti hangikjötið yfir, það er ekki hægt að klúðra suðu á hangikjöti svo það reddaðist. Hér borðum við alltaf flatkökur með hangikjöti með kampavíninu klukkan 12 á gamlárskvöld.
Þá tók ég til við að gera Grand ostaköku sem mér finnst líka ómissandi. Viti menn mig hafði misminnt ostamagnið svo þarna stóð ég aðeins með helming af rjómaosti svo ég bara reyndi að minnka allt draslið um helming. Veit ekkert hvernig hún verður á morgun, kemur í ljós.
Þá var það laxapaté með kavíar. ´Hafði keypt 300 gr af reyktum laxi en þegar ég var búin að roðfletta þá voru þetta ekki nema 175 gr. Dísús hvað ég var orðin pirruð og svo hafði ég auðvitað gleymt að kaupa kavíar. Ég drullaði einhverju saman, ætli þetta fari ekki beint í ruslið á morgun. Sjáum til.
Á meðan ég var að bardúsa þetta þá hafði ég það af að hella úr tveimur fullum kaffibollum og stóru glasi af kók út um allt eldhús á innan við klukkutíma, geri aðrir betur!
Það besta við allt þetta er að ég var eiginlega að laga þessa bévítans ostaköku og paté fyrir mig sjálfa, held að heimilisfólkinu finnist þetta ekkert spes.
Farin með Árna Þórarins í rúmið. Hann getur ekki klikkað, eða hvað?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.12.2008 | 19:41
Byrjað að hlaða í brennu hér að Stjörnusteini.
Á meðan við mæðgur áttum svona mömmu og dótturdag í bænum dunduðu strákarnir, Þórir aðal strákurinn, Þórir Ingi skriðdreki og Steini dengdasonur sér við að hlaða brennu hér við túnfótinn.
Það var orðið of dimmt þegar við komum heim til þess að ég gæti séð hvað sett hafði verið á brennuna en ég vona bara að vel hafi verið tekið til í útihúsunum.
Kemur í ljós um dagmál.
Það er bítandi kalt hér þrátt fyrir aðeins 5 stiga frost. Rakinn hér smýgur inn í beinin svo það virkar miklu kaldara en ella.
Við mæðgur settumst inn á veitingastað í borginni og áttum ljúfa stund, hefði satt best að segja getið setið þarna allan daginn með Soffu minni. Ekki oft sem gefst tími til að spjalla um daginn og veginn.
Góður dagur að kveldi kominn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.12.2008 | 21:16
Femenine færsla milli jóla og nýárs.
Tók alla bloggvini sem komenteruðu hér á fyrri færslu á orðinu og tók daginn fyrir mig. Hélt bara áfram að gera nákvæmlega ekki neitt. Ja nema fyrir mig sjálfa.
Konur þetta er nauðsyn öðru hvoru fyrir sálartetrið!
Byrjaði á því upp úr hádegi,( ég er ekki komin í gang fyrr en í fyrsta lagi kl. 11) að fara í stutta göngu með dóttur og dóttursyni inn í skóginn. Sýndi honum eplin sem enn hanga á sumum trjám eins og rauðar jólakúlur. Tíndi eitt og gaf honum svo hann héldi ekki að þetta væri plastdrasl. Fengum okkur göngustaf og röltum þar til kuldaboli var farin að bíta í kinnarnar.
Kom heim og ákvað að nú skildi ég gera hluti sem ég ætlaði að gera fyrir jól. Bara fyrir mig!
Kveikti á gufunni (þið sem eigið ekki gufu getið alveg eins látið renna í sjóðheitt bað)
Á meðan gufan var að hitna tók ég öll aukahár af líkamanum sem safnast hafa upp sl. mánuð, þið vitið fætur og sollis.
Má alls ekki gleyma að kveikja á kertum inn á baðherberginu, það er must!
Fór inn í gufuna og lét lýsið renna af mér í ca hálftíma eða þar til ég fann að litla hjartað þyldi ekki mikið meir.
Dúðaði mig inn í þykkan slopp og lagðist á rúmið. (á ekki svona hvíldarbekk, næsta jólagjöf).
Á meðan lýsið hélt áfram að streyma út úr líkamanum fór ég í afslöppunarástand. Það lærði ég þegar ég var ung og spræk í Leiklistarskólanum og held að það hafi verið hún Brynja mín heitin Ben sem kenndi okkur þessa taktík sem ég hef notað af og til allar götur síðan en bara allt of sjaldan.
Meðferðin er ósköp einföld en þú verður að hafa tíma og þolinmæði. Ég sjálf hef bætt aðeins við með árunum og nota núna mína aðferð. Þið sem nennið ekki að lesa lengra, bara hætta, ekkert mál.
Ég anda þrisvar djúpt að mér og slaka á eins róleg og ég get, hugleiði frá höfuðkúpu og alveg niður í tær. Ég tek hvert bein frá haus og niðuður hrygginn þar til ég enda á tábeini. Þar rennur þreytan úr beinunum út um tærnar. Síðan taka við vöðvar líkamans, og sama aðferð notuð, byrjað upp í höfði og síðan hugsað til hvers vöðva fyrir sig ( er aldrei klár á því hvort ég á að taka heilann sem vöðva eða líffæri) en skítt með það þarna rennur öll mín þreyta niður í tærnar og út í tómið. Síðan fer ég í líffærin, hjarta, lifur, lungu etc.
Nú er ég búin að hreinsa út allt stress og kvilla (ye right) og þá tek ég við að anda í gegn um iljarnar og fylli líkamann af hreinu súrefni. Líkaminn á núna að vera þvílíkt aflappaður að þú átt ekki að finna fyrir önduninni. Hún bara kemur upp um iljarnar.
Veit, já núna væru flestir sofnaðir, en ég sofna aldrei þennan hálftíma, já stelpur mínar þetta tekur ekki nema hálftíma. Síðan ligg ég þar til mér fer að leiðast og byrja á því að hreyfa tærnar og maður finnur strax hvort maður vill hreyfa afganginn af þessum aflappaða líkama. Hann segir ykkur það óumbeðinn, lofa því.
Eftir þetta tók við löng og góð sturta.
Ég er ein af þeim sem kaupi alltaf eitthvað dekur dót fyrir mig sjálfa fyrir jól en sjaldnast gefst tími til að nota þetta fyrr en milli jóla og nýárs. Þannig að í dag var allt draslið tekið fram. Boddy lotion, andlitsmaski, hrukkukrem á háls og eyru, yngingardropar og allt þar fram eftir götunum. Þessu smurði ég samvikusamlega á mig (veit svo sem að þetta virkar ekki shit) en þá mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði ekki gefið mér tíma til að ,,taka á mér lappirnar" svo ég skellti vatni í vaskafat og dýfði mínum nettu fótum niður í sjóðheitt vatnið. Síðan var skafið svona ca hálft kíló af skinni af bífunum og þær smurðar með olíu. Eldrautt naglalakk setti síðan punktinn yfir allt saman.
Þá voru það hendurnar. Allar neglur brotnar, mislangar svo þær voru líka teknar í gegn og nú eru þær loksins orðnar eins og á manneskju en asskoti stuttar greyin.
Þá var þetta bara komið og ég fór niður á sloppnum kveikti upp í arninum og setti bífurnar, þessar með rauða lakkinu upp í loft og naut þess að láta hitann frá eldinum ylja mér eftir allt erfiðið. Því þetta tekur sko á skal ég segja ykkur sértaklega þetta lappavesen.
Nú loksins get ég opnað eina af jólabókunum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.12.2008 | 16:06
Verslunarhefðir Tékka og síðast en ekki síst Let it snow!
Þessi bíður eftir snjónum sem væntanlega kemur ekki fyrr en í fyrsta lagi á annan í jólum ef veðurguðir verða svo vænir að halda spánni.
Það hefur nú oftsinnis snjóað hér á aðfangadag þó seint væri svo ekki er öll nótt úti enn.
Ég skrapp áðan í smá matvöruleiðangur, vantaði svona smotterí í poka en að sjálfsögðu kom ég heim með sex fulla poka af allskonar óþarfa. Ekki beint spennandi að fara í matarinnkaup svona á síðustu stundu. Í fyrsta lagi þá hefur starfsfólkið ekki við að fylla í hillurnar svo sumar eru hálf tómar. Nei það er engin andsk... kreppa hér ef þið haldið það.
Þegar ég kom að einum af þessum 48 afgreiðslukössum sem auðvitað sumir voru ekki í gangi valdi ég einn sem aðeins 10 manns voru á undan mér og hugsaði: OK svona 20 mín. bið. Ekkert mál.
Allt í einu voru bara fimm manns fyrir framan mig og sá ég strax hvað var í gangi. Þau fimm sem stóðu fyrir framan mig stóðu á snakki
Þarna var saman komin hin typiska tékkneska fjölskylda. Allir voða svona mikið saman að versla í jólamatinn. Alveg ótrúlegt hvað tékkar eru samheldin. Það má ekki koma hátíðisdagur eða frídagur þá hópast heilu familíurnar saman í matarinnkaup svo maður getur ekki þverfótað sig á milli hillna vegna þess að allir standa í hnapp og rökræða um verð og gæði.
Hreint út sagt óþolandi þá sérstaklega þegar maður er á hraðferð, en það er ég nú yfirleitt alltaf.
Ég mátti svo sem þakka fyrir þessa einkennilegu hefð i dag vegna þess að biðin varð mun styttri en ég hafði haldið.
Nú ætla ég að fara að laga heitt súkkulaði og gefa fólkinu mínu smá smakk af döðlubrauði með smjöri og eplaskífum.
Svo minni ég veðurfræðinga og alla veðurguði á þetta:
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2008 | 20:03
Að gera nákvæmleg ekki neitt en verða örmagna.
Ég skil alveg svona hugarástand í svefni, eða næstum því. Blessuð konan að hafa annað hvort verið tölvunörd með síþreytu eða svo einmanna og langþráð eftir parý að hún skellti smá færslu hálf sofandi.
Ok nenni nú ekki að velta mér yfir þessu lengur en langaði í framhaldi að segja ykkur hvað maður getur orðið hrikalega þreyttur að gera nákvæmlega ekki neitt!
Eftir frekar stuttan nætursvefn sl. nótt vaknaði ég og ákvað að gera ekki neitt til klukkan ellefu en þá yrði ég að keyra sjálfa mig niðrí bæ því ég átti litun og klippingu hjá eðalklippara borgarinnar honum Honsa. Sko það er eins gott að hafa tímann fyrir sér hér í jólatraffikinni en ég var komin tímalega og randaði smá í nærliggjandi götu, svona gluggaverslunarleiðangur.
Mætti stundvíslega. Varð að bíða í hálftíma áður en ég komst í stólinn. Allsherjar gjörningar gerðir á hárinu og eftir þrjá og hálfan tíma (án sígó) stóð ég upp eins og ný manneskja um hausinn en með hrikalega sárann afturenda. Keypti rándýrt shampoo og næringu frá Hollywood og fór út, vil ekki segja ykkur hvað það kostaði því ef ég yfirfæri þetta á ykkar auma gengi þá mynduð þið fá flog!
Nú átti ég klukkustund þar til ég átti að mæta í næsta dekur og maginn hrópaði á mat! Ég fór inn á næsta veitingastað og pantaði mér heitt súkkulaði og gulrótarköku. Þjónninn sem þekkti mig horfði á mig stórum augum þar sem ég hámaði í mig gúmmelaðið en brosti öðru hvoru voða sætt til mín eins og hann vildi segja: Jæja vinkona er ástandið svona eftir að þú seldir Reykjavík, gefur kallinn þér ekkert að éta?
Nú var ég komin í tímaþröng! Reikninginn í hvelli og bauð gleðilega hátíð og út!
Bíllinn var á sínum stað. Ég veit aldrei hvort það er búið að toga bílinn minn í burtu af því ég legg alltaf ólöglega og stöðumælir er ekki til í mínum orðaforða, ja nema núna í augnablikinu.
Umferðin var til að gera alla hálf vitlausa sem venjulega eru með fulle fem! Ég náði samt upp í Prag 6 áður en klukkan sló fimm og hljóp inn í Spaið sem er ekkert smá huggó, þið vitið svona Tai dót út um allt og ljúf mussik og svo tala allir á lágu nótunum. Dísús hvað ég á stundum erfitt með að tala á lágu nótunum.
En ég andaði djúpt og lagðist endilöng upp á bekkinn sem var notalega heitur. Þarna eru bekkirnir hitaðir á veturna. Sko ekkert slor. Kertaljós og austurlenskur ilmur kemur manni í annan heim.
Tveggja tíma andlitsbað og ég var orðin svo þreytt í öllum skrokknum að mér var helst í hug að panta mér heilnudd á eftir. Að liggja eins og kæst Skata í tvo tíma og láta dúlla við sig hljómar eins og himnaríkismeðferð en minn eðal skrokkur er bara orðinn svo vanur öllu amstrinu síðustu daga að þetta var hreinlega to much! Fyrirgefðu Þráinn minn smá sletta.
Ég afþakkaði alla föðrun á eftir og skakklappaðist út í bíl og setti í gang.
Elsku bíll taktu mig nú heim án allra skakkafalla. Please! Önnur afsökun til Þráins.
Og eftir nákvæmlega 45 mín á 160 km hraða var ég komin heim og er nú aðeins að ná mér niður eftir erfiði dagsins.
Ég vona að ég gangi ekki í svefni í nótt og bjóði til veislu en það væri svo sem alveg eftir mér.
![]() |
Bauð sofandi í kampavínsveislu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.12.2008 | 22:11
Jólastemmning við Laufabrauðsbakstur.
Hér getið þið séð lítinn hluta af laufabrauðinu sem litla fjölskyldan í Prag dundaði við seinnipart dags.
Engar erótískar kökur voru gerðar hér eins og einn af okkar vinum er þekktur fyrir enda sá maður einn af færustu listamönnum Íslands.
Uppskriftin að sjálfsögðu frá tengdamóður Egils okkar og koma kökurnar útflattar beint frá Grenivík.
Við kepptumst við að skera þær út eins vel og við gátum og sátum við fimm við útskurðinn, Egill, Bríet, ég og tvær systur Bríetar sem búa hér núna í Prag, Ingunn og Alma.
Litla Elma Lind fylgdist með og skemmti okkur með sínu yndislega babli og eftirhermum þess á milli sem hún skottaðist inn í stofu til að dansa með Siggu Beinteins og krökkunum í sjónvarpinu.
Minn elskulegi sá um steikinguna að vanda og Egill stóð við að pressa.
Ég hafði aldrei komið nálægt laufabrauðsgerð fyrr en ég kynntist tengdadóttur minni og nú er það hefð hér að koma saman fyrir jól og halda í þennan gamla norðlenska sið.
Það myndast alveg sérstök stemmning við svona dúllerí.
Takk fyrir góðan og jólalegan fjölskyldudag krakkar mínir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)