Færsluflokkur: Ferðalög

Ekki fleiri draugasögur!

Munið þið eftir leikritinu Innrásin frá Marz.

Þeir eru að koma, þeir eru að koma! Þannig hljómaði setningin í útvarpinu og fólk þyrptist út á götur skelfingu lostið, svo trúverðug var framsetning leikarans.

Æ elskurnar mínar í gær sást skært ljós á himni sem síðan sprakk í milljón eindir og fólk fékk fyrir hjartað af æsing.  Þetta reyndist síðan aðeins vera stjörnubrot sem villst hafði yfir litla Ísland.

Nú birtist svartur hringur.  Hvað táknar þetta?  Hverjir eru að fylgjast svona með okkur dag eftir dag?  Haldið ró ykkar kæru landar þetta reyndist aðeins vera sérsveitarmenn að æfa sig fyrir innrásina á........ ja hverja haldið þið? 

Ég veit ekkert af hverju en þegar ég las fréttina var ég allt í einu stödd í torfbæ, nb. kom aldrei svo ég muni inn í torfbæ þar sem fólk bjó.  Ég sat þar og hlustaði á gamlan mann segja draugasögu.  Ég horfði út um ljórann en sá ekkert nema svart myrkrið.  Mér leið ekki vel á meðan á þessu stóð en þegar bráði af mér hugsaði ég, æi nei ekki fleiri drauga eða draugasögur það eru allir búnir að fá nóg! 

Bara datt þetta í hug svona af því það er nú alveg að koma Halló-vín!

Njótið kvöldsins og dreymi ykkur vel.


mbl.is Dularfullur hringur yfir Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur okkur alls ekki á óvart.

Í mörg ár erum við búin að vara fólk við að skipta peningum í þessum svo kölluðu ExChange búllum hér í Prag.  Þessir skiptibankar ef kalla má svo. hafa aldrei verið neitt betri en ruslaralýðurinn á götunni sem bauðst til að skipta erlendri mynt í tékkapeninga en létu oft á tíðum saklausa túrista fá Pólsk slotsy í staðin, algjörlega verðlaus.

Stundum sá maður þessa þjófa fyrir utan skiptibúllurnar reyna að lokka fólk að og er ég næstum 100& viss um að þessi lýður var á vegum eiganda skiptibúllanna.

Sem betur fer hlustuðu Íslendingar, í flestum tilfellum á okkur, þegar við vöruðum þá við en auðvitað voru sumir sem nenntu ekki að leita að hraðbanka og fannst auðveldara að randa inn í næstu okursjoppu. 

Oftar en einu sinni lamdi ræðismaðurinn í borðið hjá skiptibúllunni út á horni hjá okkur og krafðist þess að rétt gengi væri gefið upp.  Einu sinni hótaði hann þeim lögreglu og mig minnir að þá hafi gengið verið leiðrétt á staðnum en bara fyrir þann kúnnann, hinir sem á eftir komu voru teknir áfram í nefið. 

Þessi frétt er gleðifrétt fyrir okkur sem búum hér því borgin hefur haft á sér óorð vegna margskonar spillingar og þetta var ein af þeim. 

Fyrr á árinu tók Borgarstjórinn í Prag 1 sig til og dulbjóst sem ferðamaður og ferðaðist með leigubílum borgarinnar til að sannreyna alla þá spillingu sem þar viðhófst.  Hann hafði með sér blaðamann og fréttin var það kræsileg að leigubílar fóru að hegða sér eftir lögum og reglum.

NB takið bara leigubíla sem merktir eru AAA og eru auðþekkjanlegir af sínum heiðgula lit þið sem eruð að koma hingað á næstunni.  Þeir eru OK. 

Vil ég bara óska lögreglunni í Prag 1 til hamingju með rassíuna og haldið bara áfram stákar því af nógu er að taka.


mbl.is Skiptibanki í Prag flæktur í glæpastarfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myrkir dagar hér uppi á ,,Hamingjulandinu"

Eftir myrkan mánudag kom þungbúinn þriðjudagur.  Sat best að segja er ekkert sérlega skemmtilegt að heimsækja ,,Hamingjulandið" á þessum erfiðu tímum.  Maður ósjálfrátt fer inn í sömu hringiðuna og allir aðrir.  Ef það hefði ekki verið fyrir skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu minni og vinum hefði ég verið farin heim fyrir löngu.

En nú fer að líða að því að ég haldi heim og ég veit ekki hvers ég á eftir að sakna héðan fyrir utan litlu fjölskyldunnar minnar.

.  Jú verðlaginu sem aldrei hefur verið jafn hagstætt fyrir okkur ,,útlendingana"  Ef til vill á ég líka  eftir að sakna þess að láta vindinn og regnið lemja mig í bak og fyrir.  Veit samt ekki alveg hvort sú verður raunin, ætli ég verði ekki fegin að geta setið úti á veröndinni minni í haustsólinni, held það bara.

Það er margt sem hefur drifið hér á daga mína og e.t.v. segi ég ykkur nokkrar skemmtilegar sögur eftir að ég er sest í hornið mitt í eldhúsinu mínu að Stjörnusteini með mína kaffikrús.

Er að fara heim á fimmtudaginn og hlakka til að knúsa minn elskulega en hann fór heim í síðustu viku vegna anna heima fyrir.

Farið vel með ykkur.

 


Er alveg komin að því að þverbrjóta öll góð fyrirheit.

Áður en ég hélt hingað heim var ég búin að ákveða að ekkert, segi og skrifa ekkert skildi koma mér úr jafnvægi og ég ætlaði heldur ekki að láta eitt eða neitt fara í pirrurnar á mér.  Ætlaði að líta fram hjá öllu neikvæðu og vera allan tímann á jákvæðu nótunum sama á hverju gengi.

Þetta gekk eftir svona í byrjun, ja eingöngu vegna þess að ég vogaði mér ekki út fyrir dyr þar sem þessi veðurbeljandi var ekki einu sinni hundi bjóðandi. En ekki er nú hægt að sitja inni allan daginn svo út úr húsi varð ég að fara enda veðrið orðið þokkalegt fyrir svona kuldaskræfu eins og mig.

Ég var ekki fyrr komin út undir bert loft að pirringurinn fór að gera vart við sig. Ég alveg beit saman tönnum og andaði djúpt, taldi upp á tíu eða tuttugu en pirringurinn er enn til staðar. Ég gæti haldið áfram í alla nótt að segja ykkur hvað það er margt sem fer í mínar fínustu hér en af því að ég hafði þennan góðan ásetning áður en ég hélt hingað ætla ég að reyna að halda mig á mottunni, ja alla vega þar til ég spring en ef þessu heldur svona áfram næstu daga er ekki langt í stóru bombuna. 

Bara að anda djúpt og þegja er bara andskotakornið ekkert auðvelt skal ég segja ykkur.

Síðan er alveg óþolandi að hlusta á fólk sem er kvartandi í tíma og ótíma og aldrei ánægt.

Og er ég núna að berjast við að vera ekki í þeim hópi.

Svo ég haldi nú ekki áfram hér og blaðri öllu því sem liggur svo þungt á mér eins og mara er ég farin til kojs að sofa í hausinn á mér.Halo

 

 

 


Það er eitthvað mikið að því miður.

Perlurnar okkar sem við eigum hér á ísaköldu landi eru óteljandi og við sýnum stolt þessi undur útlendingum sem sækja okkur heim.  Geysir er ein af þessum perlum og þangað lá leið okkar hjóna um seinustu helgi. 

Geysir hefur nú aldrei heillað mig sérstaklega mikið.  Mér er nokk sama hvort sá ,,gamli" gýs eða hvort Strokkur hellir úr sér smá slettum. Gufustrókar úr jörðu hafa aldrei vakið neina sérstaka hrifningu hjá mér enda er ég fædd og uppalin á þessu landi og fyrir okkur er bara ósköp eðlilegt að gufu leggi upp úr jarðskorpunni hingað og þangað um landið. En útlendingum finnst þetta spes og þá er ekkert sjálfsagðara en að sýna öllum sem hingað koma frussandi hveri eða borholur sem hvæsa upp á Hellisheiði og víðar.

En það er eitthvað mikið að á þessum helstu ferðamannastöðum okkar.  Hirðuleysi umsjónamanna um öryggi og hreinlæti er þvílíkt ábótavant að það er til áborinnar skammar. Angry

Við hjónin komum seinast að Geysi fyrir tveimur árum í fylgd með helstu ráðamönnum þjóðarinnar og þjóðhöfðingja erlends ríkis.  Þá virtist allt vera í stakasta lagi og var tekið á móti okkur að Hótel Geysi með miklum höfðingsskap. Við vorum að koma ofan af jökli og fengum þarna léttar veitingar áður en haldið var til Reykjavíkur.

Það ríkti þess vegna dálítil eftirvænting hjá okkur þar sem nú átti að gista eina nótt að Hótel Geysi og skemmta okkur í góðra vina hópi íslenskra vina.

Veðrið var nú ekki upp á það besta en við harðákveðin í því að láta það ekki skemma fyrir okkur.  Við renndum í hlað rétt um hádegi og tók ég strax eftir því að fallega tréverkið var farið að láta á sjá.  Þegar inn kom spurðum við um gestamóttökuna og vinaleg stúlka frá Pest, Ungverjalandi vísaði okkur út og fylgdi okkur að bakhúsi sem mér fannst nú líkjast meir hjalli en húsi.  Þar var gestamóttakan.

 Grútskítugt teppi var það fyrsta sem ég tók eftir og mér fannst ég vera komin svo langt frá raunveruleikanum að það hálfa var nóg og er enn að pæla í því hvort þetta hafi í raun og veru verið eins slæmt og raun bar vitni. 

Konan í móttökunni var elskuleg og rétti okkur lykla og sagði að við værum í húsi númer 12.  Við hváðum, hvað meinarðu erum við ekki á hótelinu?  - Jú gistingin er hér fyrir neðan.

OK, við fundum hús númer 12 og það var þokkalegt, hreint á rúmum og svona eins og maður vill hafa þriggja stjörnu gistingu. 

Vinirnir fóru nú að tínast að og sumir fengu hús sem engan vegin var bjóðandi gestum.  Hitinn virkaði ekki í einu húsanna og í öðru fékk einn vinur okkar lokið af klósettkassanum í fangið þegar hann skrúfaði frá vatninu í vaskinn. Heita vatnið lét eitthvað á sér standa því það tók hálftíma að láta renna áður en hlandvolgt vatnið kom úr heitavatnskrananum og þannig var það í öllum húsunum og á salernum inni í Hótelbyggingunni var ekkert rennandi heitt vatn. Tvær af þessum glerfínu þvottaskálum voru stíflaðar og vatnið flæddi nær yfir barmana og salernin voru í hræðilegu ástandi. Sick

Halló við vorum á hverasvæði en ekkert rennandi heitt vatn!!!!!!!!

Um kvöldmatarleitið söfnuðumst við saman á ,,Hótelinu" því nú átti að halda inn í skógarrjóður þarna örskammt frá og snæða útigrillað gúmmelaði.  Það var búið að segja okkur að klæða okkur vel en það sem beið okkar var ótrúlegt.

Við vorum selflutt þarna uppeftir og ég var í fyrsta bílnum og það sem við okkur blasti var hringlaga hjallur, svona alveg eins og þeir voru gerðir verstir í gamla daga með þriggja til fimm sentímetra bili á milli fjalanna og sum staðar voru bara engir veggir.  Mér var að orði, nei þið hljótið að vera að grínast. 

Þegar inn kom blasti við grill í miðju svona í stærra lagi.  Allt í kring voru bekkir og borð sem voru rennandi blaut vegna þess að veðrið var brjálað.  Engin gashitun var þarna og ekki heldur nein lýsing fyrir utan kerti á borðum sem auðvitað logaði ekki á vegna vinda og vatns.

 Ég var sem betur fer þokkalega klædd og einn vinur minn var svo næs að lána mér flísteppi yfir axlirnar svo ég gat vafið dúnúlpu dóttur minnar um fæturna.  Sumar af konunum voru miklu verr klæddar en ég því engin hafði gert sér fulla grein fyrir aðstæðum.

Ég sá aldrei matinn sem settur var fyrir framan mig en borðaði hann bara blindandi og hann var ekkert slæmur, hef ekki hugmynd um hvað fram var borið.  

Við reyndum öll að gera gott úr þessu og sungum okkur til hita og sumir supu stíft á söngvatninu til að mýkja raddböndin. Þegar flestir voru búnir að borða tók minn af skarið og sagði að nú ætti að keyra konurnar upp á hótel enda var komið aftaka veður og við að verða gegnsósa eftir regn og sót frá grillinu sem þeir kynntu óspart til að halda á okkur hita. Whistling

  Ég hef aldrei elskað minn mann jafn mikið og þegar hann sagði: Allar konur í bílana.

Ákveðið var að hittast á barnum á hótelinu og flestir fengu sér kaffi og ,,með því" til að koma blóðinu af stað.  Það versta við að þegar inn í hús var komið var þar líka skítakuldi.  Kyndingin í ólagi var okkur sagt.  Engin sá um að þjóna okkur, gömul útbrunnin kerti voru hist og her en engin hafði haft rænu á að setja ný í stjaka eða ker.

Sumir drukku eigin veigar þar sem engin skipti sér af því hvort við versluðum við barinn og alveg skítsama hvort við værum eða færum. Aldrei sáum við Íslending við afgreiðslu.Tounge

Hádegismaturinn var borðaður í flýti áður en lagt var af stað enda ekki hægt annað þar sem fingur voru hálf frosnir við hnífapörin þar sem hitinn var greinilega ekki kominn í lag.

Stúlkan úr gestamóttökunni kom til okkar og spurði hvernig hefði verið í gærkvöldi.  Ég sagði bara: Ég gæti nú sagt þér það hefði ég séð eitthvað en satt best að segja fannst mér ég hafa misst sjónina þessa tvo tíma.  - Já við hefðum nú átt að flytja dinnerinn inn í hús en þetta er rosalega flott á sumrin.

  Ég nennti ekki að svara henni en hugsaði bara jæja vinkona ekki skal ég þræta við þig um það, sjálfsagt voða kósí á sumarkvöldi en mér fannst við bara vera þarna eins og fé af fjalli sem rekið hafði verið inn í réttina.  Sorry!

Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og þeir sem hafa haft það af að lesa sig alla leið hingað niður fá verðlaun næst þegar við hittumst.

Eftirminnileg og skemmtileg ferð með vinum mínum þrátt fyrir allt volkið.

Komin með blöðrubólgu og hor í nös.Grin

 

 

 

 

   


Þetta er flugsjórinn ykkar sem talar.

Ég hef aldrei verið flughrædd en annað mál gegnir með bílhræðslu mína sem er oft gert grín að.  Einhverra hluta vegna hefur þetta ágerst með aldrinum og núna áður en við héldum hingað heim upp á Hamingjulandið örlaði fyrir má kvíða fyrir fluginu.  Ef til vill var það vegna þess að ég var svo mikið á fylgjast með veðurfregnum og las meira að segja pistlana hans Einar veðurfræðings í þaula. 

Og ekki bætti úr skák að hann sagði að angi af Ike væri á leið til landsins og ætti að fara yfir landið í gærkvöldi og nótt á sama tíma og við áttum að lenda heima.  Stormur í aðsigi!  Þessi litli fiðringur í maganum magnaðist og var að hnút!

Við höfum alltaf verið mjög fastheldin og höfum valið að fljúga með sömu flugfélögunum en í gær breyttum við út af vananum og flugum frá Prag til Köben með Sterling í stað SAS eða Cz. Airlines.  Þetta voru nú óþarfa áhyggjur.  Bara allt í lagi að fljúga með þeim, dálítið þröngt en fyrir eins tíma flug er óþarfi að kvarta. 

Eftir nokkra tíma bið í Köben var haldið heim með Icelandair.  

Á meðan þeir voru að lóðsa vélina út á brautina kom þessi ljúfa rödd í hátalarann og sagði:

Góðir farþegar þetta er flugstjórinn ykkar sem talar.  Ég heiti Linda Gunnarsdóttir.

Úps, mér var litið á minn elskulega hvernig ætli honum líki að hafa konu við stjórnvöldin?  Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem við höfum lent í því að fljúga með konu í  kokkpittinu sem bar alla ábyrgð á ferðinni yfir hafið.

Minn var bara voða rólegur og lét ekki á neinu bera. Sætt af honum.

Ferðin heim var bara þægileg og af og til kom þessi mjúka rödd sem útskýrði hvar við værum stödd og hvernig veðurhorfur væru heima.  Sem gömul flugfreyja bjóst ég nú við smá dýfum og hristing þegar við nálguðumst landið en allt voru það óþarfa áhyggjur.  Vélin varla haggaðist og Linda lenti vélinni eins og engill.  Bara svona renndi sér niður á fósturjörðina með mjúkri lendingu, afskaplega kvenlega.

Það var ekki fyrr en slökkt hafði verið á hreyflunum að vélin fór að hristast enda brjálað veður þarna á rampinum.

Takk fyrir ferðina Linda og áhöfn FI 213.

Déskoti var veðrið brjálað í nótt.

    

 

 

 


Þá er Hamingjulandið í sjónmáli.

Hér fyrir framan mig liggur nettur bunki af A-4, nei þetta eru ekki hlutabréf, ekki séns að ég taki þannig áhættu í lífinu.  Á maður ekki bara að segja sem betur fer!  Þetta eru skal ég segja ykkur flugmiðar til Köben - Keflavík á morgun heitir úr prentaranum, alveg satt, nú á að heimsækja Hamingjulandið og knúsa fjölskyldumeðlimi og vini. 

Við erum sem sagt á leiðinn heim í teggja ára afmælið hans Þóris Inga.  Mikil tilhlökkun hér á bæ og getum ekki beðið eftir að dekra drenginn upp úr skónum, því eins og ég hef sagt ykkur áður þá hafa afi og amma í útlöndum sértakt leyfi til þess.

Við ætlum líka að fara um helgina að Geysi með góðum vinum og gista þar eina nótt.  Annað er nú ekki mikið planað í þetta sinn en ég er nú alveg klár á því að þessar tvær vikur sem ég verð heima koma til með að verða ansi busy.  

Búin að pakka næstum öllu og kominn ferðahugur í mína. Bara svo þið vitið það bloggvinkonur mínar í DK þá verð ég galvösk á Strikinu milli klukkan tvö og fjögur á morgun, ef þið verðið þarna á ferðinni. 

 Þannig að ef þið rekist á konu með Illum poka á þönum með svona brjálæðislegan búðarglampa í augum þá er það hún ég.

Annars kem ég inn þegar ég finn mér tíma og læt vita af mér.

Er farin að lakka á mér neglurnar, ekki séns að ég fari í flug með ólakkaðar neglur.


Við erum enn hér og ekkert getur haggað því.

Já þetta hafði ég á tilfinningunni hér í gær, það lá eitthvað í loftinu og ekki var það þetta frábæra Indian summer sem við höfum hér núna, nei það var sko eitthvað miklu hrikalegra enda hamaðist ég í allan gærdag að ganga frá öllu hér utan húss sem innan.

Ég spúlaði hundinn, þvoði þvott, straujaði, affrysti frystinn, tók ísskápinn hátt og lágt (báða), þvoði úr eldhússkápum, tók alla fataskápa og sorteraði föt eftir sjetteringu, setti hreint á rúmin, tók alla glugga og gardínur, kom bókaskápnum og skrifborðinu í mannsæmandi horf og endaði síðan á að baka fjórar Hnallþórur.

Get alveg svarið það, endaði seint í gærkvöldi á því að klippa tré og vökva blómin.  Maður nefnilega skilur ekki við heimili sitt eins og svínastíu þegar maður skreppur af bæ, ég tala nú ekki um þegar maður veit nú ekki einu sinni hvort maður á afturkvæmt.

Síðan kom mér varla dúr á auga í alla nótt (satt), var með andvara á mér enda ekki alveg viss um hvort ég hefði sett í uppþvottavélina áður en ég lagðist við hliðina á mínum elskulega. 

Horfði á eina bíómynd milli tvö og hálf fimm.  Rafmagnið var enn á.  Hundur og maður hrutu en ég var bara svona á nálum, öll með hugann við heimilið og alla þá hluti sem ég átti eftir að framkvæma á næstu mánuðum og jafnvel árum. 

Datt útaf um hálf fimm leitið og vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir átta og viti menn hér var ég enn, minn farinn í vinnuna, hundurinn lá á sínum stað sallarólegur og sólin skein í heiði. Rafmagnið í lagi og nú sit ég hér með kaffið mitt og ekkert getur haggað því, ja nema jú heimsendir!

OK, farin að gera eitthvað að viti, hvað var fyrst á listanum í gær, þvo þvottinn eða var það ísskápurinn sem átti að fá yfirhalningu, nei spúla hundinn alveg rétt.

Lifið lífinu lifandi kæru félagar og vinir hvar sem þið eruð í heiminum.

Er farin út í sólina að hugsa. 

 

 

  


mbl.is Vekja athygli á heimsendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litil hjartaknúsarinn fór í úlilli í dag.....

..... og það er allt svo kyrrt og hljótt.  Eftir situr amman og reynir að koma einhverju í verk en það gengur frekar erfiðlega.  Fyrst þarf maður að ná sér aðeins niður og koma hugarástandinu í réttar skorður síðan er að takast á við þetta daglega sem hefur setið á hakanum undanfarnar vikur.

En allt kemur þetta með kalda vatninu það er víst alveg öruggt mál.

Í gær áttum við góðan dag saman öll fjölskyldan.  Borðuðum síðbúinn hádegisverð á Reykjavík og síðan héldum við Soffía mín saman í smá búðarleiðangur þar sem amman missti sig aðeins í innkaupum á litla skriðdrekann, en ömmur sem búa í útlöndum hafa leyfi til að missa sig öðru hvoru og það er bannað að segja: Mamma ertu rugluð veistu hvað þetta kostar.  Þá hvæsir amman aðeins á dóttur sína og segir:  Þér kemur ekkert við hvað ég geri, þetta er mitt mál og ekki orð um það meir.  Dóttirin hristir rauða kollinn sinn og muldrar:  Þú er bara ekki í lagi og svo er málið dautt.

Ég sé nú fram á að ég muni hafa í nógu að stússast næstu vikur svo hér verður svo sem engin lognmolla frekar en fyrri daginn.  Á morgun koma góðir vinir okkar, Inga og Jói og gista hér hjá okkur nokkrar nætur.  Það verður bara gott að fá fólk í húsið þá finnur maður ekki eins fyrir þessum hræðilega tómleika sem umlykur okkur hér í dag.

Hafið það náðugt elskurnar þar til ég kem inn næst.

 


Ég er soddan hænumamma

Ef það eru ekki tafir hjá verktökum þá eru það tafir sveitafélags.  Eftir hverju er verið að bíða, einu stórslysinu í viðbót?  Ég á mjög bágt með að skilja þetta og mig óar við því  í hvert sinn sem ég veit af mínum nánustu út á þjóðvegum landsins og ekki bara þarna heima heldur líka hér erlendis þó vegirnir hér séu betur merktir ef um vegavinnu eða umferðaróhöpp er að ræða þá gera slysin ekki boð á undan sér því er nú ver og miður.

Um daginn þegar við vorum að keyra frá Munchen til Prag í samfloti með dóttur okkar, tengdasyni og barnabarni dróust þau dálítið aftur úr.  Við vorum búin að vera í símasambandi alla ferðina en þarna sem við hjónin vorum komin langleiðina að ,,landamærunum" höfðum við ekki náð sambandi við þau í nærri heila klukkustund og mér var farið að líða frekar illa, maginn kominn í hnút og heilmið drama í gangi hjá minni.

Ég endurtók í sífellu það er örugglega eitthvað að, þau ansa hvorugum símanum, við verðum að snúa við.  Ég var næstum búin að sannfæra minn elskulega um að ég hefði rétt fyrir mér svo hann ákveður að stoppa á næstu resteriu.  Ég held áfram að hringja og fæ ekkert svar.  Síminn hringir út og vinaleg rödd segir að báðir símar séu utan þjónustusvæðis.  Það gat alls ekki staðist vegna þess að símarnir okkar voru inni allan tímann.  

Þegar þarna er komið er ég orðin verulega histerisk og segi:  Nú keyrum við bara á næstu lögreglustöð og fáum að vita hvort slys hafi orðið á leiðinni.

- Bíðum aðeins segir minn elskulegi en er orðinn ansi þungbúin enda með konuna í rusli í framsætinu.

Einhverra hluta vegna hafði hann parkerað bílnum þannig að hann sá út á hraðbrautina og allt í einu segir hann...-  Þarna eru þau!

Ég píri augun og segi þú getur ekki séð svona vel frá þér

- Jú ég sá númerið, þetta eru þau.

Við brennum af stað og náum í skottið á þeim eftir örfá augnablik, og ég gef merki um að þau eigi að hringja í okkur um leið og við rennum fram úr þeim.  Ég hugsa að augnatillitið sem dóttir mín og fjölskylda fékk þarna hafi ekki verið neitt sérlega fallegt.

Hún hringir og segir -  Varstu að reyna að ná í okkur, æ símarnir voru báðir á silent!

Ég húðskammaði hana fyrir tillitleysið þegar við komum heim og hún lofaði að þetta kæmi aldrei aftur fyrir en ég sá að hún brosti út í annað yfir móðursjúkri móður sinni.

Æ það er bara aldrei of varlega farið í umferðinni og vonandi laga þeir þennan vegarspotta við fyrsta tækifæri.

   

 


mbl.is Sveitarfélög tefja vegabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband