Færsluflokkur: Ferðalög
6.8.2008 | 10:59
Elsku mamma vertu nú ekki með þetta pjatt...
.....og skiptu við mig um skó! Þetta sagði dóttir mín við mig þar sem ég skakklappaðist um sjóðandi heit stræti Munchen-borgar. Ég leit niður á hennar skófatnað, svona útjaskaða innleggsskó, þið vitið með ól yfir ristina, ég hélt nú ekki sama hvaða fína merki þeir væru, heldur gengi ég berfætt en að láta sjá mig í svona tuðrum. Svo hafði ég líka fjárfest í þessum líka fínu rauðu bandaskóm, rándýrum áður en ég lagði upp í ferðina og þeir áttu að þjóna sínum tilgangi og hana nú.
Ég hafði auðvitað ekki gert mér grein fyrir því að kona sem er með svona aukabein fyrir ofan stórutærnar og hefur ekki þorað að fara í aðgerð vegna þess að hún er svo mikil kveif getur ekki gengið í svona bandaskóm alveg sama hversu mjúkir þeir eru. Ég hafði tekið með mér tvenna aðra sem báðir áttu að þjóna sínum tilgangi þar til ég gæti fjárfest í ítölskum dúlluskóm með fyrirkomulagi eins og ein vinkona mín kallar það. En hver fer að máta skó með gapandi sár á báðum stórutám?
Í 35°hita bólgna viðkvæmir fætur og eftir þrjá daga voru litlu sætu táslurnar mínar eiginlega að detta af, ég get svo sem svarið það. Ég hafði það af að ganga að sundlauginni og aftur heim í hús sem voru ca 20 metrar. Var líka orðin fræg í öllum Apotekum Toscana héraðs þar sem ég keypti daglega eitthvað nýtt við svona meini. Talkúm, gel, innlegg, plástra og eitt sem var eins og útblásin lítil blaðra sem ég smeygði upp á stórutá og blaðran hélt við beinið. Þá gat ég auðvitað ekki komist í neina skó vegna þess að þetta var svo asskoti fyrirferðarmikið.
Ekki batnaði ástandið þegar ákveðið var að fara í skoðunarferðir. Ég, pjattrófan dróst svona 10 metra aftur úr vegna þess að ég gat varla stigið niður og síðan heimsótti ég öll þau Apotek sem ég fann á leiðinni ef ég hugsanlega gæti fundið eitthvert kraftaverkameðal.
Ég þraukaði út ferðina og gekk á þrjóskunni einni saman, skapið var ekki alveg upp á það besta, dálítið pirruð stundum, þið skiljið, svona pínu leiðinleg. Ég er nefnilega með alveg rosalega hátt sársaukastig og þoli ansi mikið en auðvitað eru takmörk fyrir öllu. Þetta er auðvitað bilun að kvelja og pína sig heldur en að ganga í sandölum eins og hinir túrhestarnir.
Ég hefði getað kysst og knúsað útjöskuðu inniskóna mína sem blöstu við mér þegar ég opnaði útidyrnar að Stjörnusteini.
Hef ekki farið úr þeim síðan og ætla ekki í bráð fyrr en ég neyðist til að láta sjá mig innan um ókunnuga.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.8.2008 | 08:23
Eftirminnileg ferð til Toscana
Það var yndislegt að fara þessa ferð saman, litla fjölskyldan. Við gamla settið nutum hverrar mínútu með barnabörnunum þessa daga í fallegu umhverfi Toscana. Litli Juniorinn okkar frá Íslandi lærði ný orð á hverjum degi og litla Prag-prinsessan ný trikk enda á hermialdrinum.
Hvað getur verið meira gefandi en að fá að fylgjast með þessum sólargeislum okkar!
Eftir að hafa keyrt til Milano sameinuðumst við litla fjölskyldan í sveitasælu Toscana þar sem krakkarnir okkar höfðu leigt hús í viku. Egill og Bríet flugu síðan heim til Prag en við hin keyrðum inn í Ítölsku Alpana og dvöldum þar einn dag. Ótrúlega fallegt að sjá þetta svæði í sumarbúningi.
Við keyrðum eins og leið lá til Munchen þar sem við gistum eina nótt og héldum síðan heim til Prag.
Gott var að koma heim og heyra vælið í Erró þegar hann tók á móti okkur hér í kvöldsólinni.
Nú tekur hversdagurinn við með öllu því lífsins amstri sem alltaf er þó gaman að takast á við.
22.7.2008 | 11:24
Þetta er dagsatt eða þannig....
Um daginn benti minn elskulegi mér á ferðabíl, ef bíl skildi kalla, fyrir utan eina bílasöluna hér í borg og tilkynnti mér að hann hefði fjárfest í þessu til að koma allri fjölskyldunni í fyrirhugað ferðalag til Ítalíu. Þetta var örugglega um 10 metra langt glasandi rautt og svart stálhylki á hjólum og minn sagði að innanborðs væru fjögur herbergi með baði, setustofa, borðstofa og eldhús og þegar þú værir búinn að parkera gætir þú fengið 30fm verönd með útigrilli og alles með því að draga eina hliðina út svona eins og skúffu.
Mig hryllti við tilhugsunina eina saman, bara það að sjá lítil hjólhýsi hvað þá ferðabíla á vegunum hér gerir það að verkum að maginn á mér herpist saman og ég fæ klígjuna upp í háls. Sorry, þið sem eigið svona tæki, ekkert persónulegt.
En það er satt við erum að fara í FRÍ og engin smá tilhlökkun í gangi á þessu heimili. Öll litla fjölskyldan okkar saman til Ítalíu í viku. Soffa okkar með húsband og litla gaurinn hann Þóri Inga koma frá Íslandi og Egill, Bríet og Elma Lind fljúga héðan á laugardag.
Í upphafi datt okkur í hug að leigja átta manna bíl hér svo öll fjölskyldan gæti ferðast saman um vínhéruð Ítalíu en þegar málið var skoðað var þetta svo óhagstætt og líka það að við verðum að hafa tvo barnastóla í bílnum plús allt sem fylgir stórri fjölskyldu á ferðalagi. Við tókum þann kostinn að við Þórir keyrum á öðrum bílnum okkar en fengum síðan mann til að lóðsa hinn bílinn niðr´eftir. Keyptum flug fyrir bílstjórann aftur til Prag svo nú verðum við bara á okkar eigin bílum og nóg pláss fyrir alla. Þetta var helmingi ódýrari kostur en að leigja einhverja druslu.
Við Þórir ætlum að leggja í hann á morgun og dóla okkur eitthvað áleiðis. Hittum litlu fjölskylduna frá Íslandi á föstudagskvöld í Milan og síðan sameinast allir á laugardag einhvers staðar upp í hæðum Ítalíu ekki svo langt frá Florens. Þar hafa krakkarnir okkar leigt hús í viku og voru svo elskuleg að bjóða gamla settinu með. Við keyrum síðan með Soffu og Steina aftur áleiðis til hundrað turna borgarinnar þar sem þau ætla að vera hjá okkur hér í nokkra daga.
Þess vegna kæru vinir getur verið að þið heyrið ekkert í mér næstu vikur þar sem ég hef ekki hugmynd hvort ég kemst í netsamband eða nennu til að blogga. En við sjáum bara til.
Kem e.t.v. aftur inn í kvöld svona rétt til að fara bloggvinahringinn og senda knús á ykkur.
Stolið hjólhýsi fannst í sandgryfjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.7.2008 | 08:04
Þetta fer allt einhvern veginn, þó sumir efist í dag.
Getur þetta bara verið rétt sagði vinkona mín í algjöri hneykslan við mig hér um daginn?
-Hvað ertu að tala um spurði ég.
- Ég borgaði 130.- tékkapeninga fyrir eitt hvítvínsglas eða sem svarar 650.- ísl. kr. og sama fyrir einn bjór!
-já vinkona þetta er rétt verð, en ítrekaði við hana að hún hefði setið á fjölfarinni götukrá í miðbænum, þar sem verðið væri dálítið hærra en í úthverfum.
-ja hérna sagði hún, það er af sem áður var þegar krónan var ein á móti tveimur hér í Tékklandi.
Þessi sama vinkona mín hafi komið hingað frá Köben og tilkynnti mér um leið og hún kom hingað að hún hefði bara ekkert verslað í kóngsins Köbenhavn, allt hefði verið svo hrikalega dýrt.
Ég brosti aðeins út í annað og hugsaði: ja ekki held ég að þú gerir nein góð kaup hér heldur vinkona þar sem krónan er nú 5,4 á móti tékkapeningnum.
Við hér höfum fundið fyrir verðbólgunni eins og allir aðrir og á meðan 40% aukning er í verslun ferðamanna á Íslandi má segja að samsvarandi lækkun sé hér í Evrópu. Hótelin keppast við að koma með lág tilboð þar sem nýting er í lágmarki miða við árstíma og útsölur hafa aldrei verið eins góðar og nú en jafnvel það dugar ekki til.
En þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem verðbólgan hræðir fólk upp úr skónum og verðum við ekki að hafa þá trú að öldurnar fari að lægja svona smátt og smátt. En á meðan þá bara heimsækjum við ,,útlendingarnir" okkar góða gamla Ísland og lifum eins og kóngar í ríki okkar.
Er á meðan er.
Ferðamenn hafa aldrei eytt meiru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2008 | 14:51
Engin hafði úthald til að taka næturvaktina eða standa bakvakt.
Hvert flýgur tíminn? Við sitjum eftir með ljúfar minningar en vitum ekkert hvað varð um þessa daga, vikur eða mánuði. Ég er alveg klár á því að næst þegar ég lít upp verða bara komin jól svo hratt líða þessir sumarmánuðir.
Í morgun kvöddum við rithöfundinn okkar hann Halldór og eiginkonu hans Önnu en þau hjónin eru búin að vera ábúendur í Listasetrinu undanfarnar sex vikur. Takk fyrir kæru hjón að leyfa okkur að njóta nærveru ykkar þessar vikur og velkomin aftur hvenær sem er. Vonum að dvölin hafi verið ánægjuleg hér í litla setrinu okkar.
Nei það er ekki hægt að segja að hér að Stjörnusteini ríki einhver lognmolla. Við erum búin að eiga notalega daga hér líka með kærum vinum okkar, Elsu og Kristjáni sem komu hingað fyrir viku og gistu hér síðustu daga ferðarinnar en ég kvaddi þau hér fyrir rétt rúmum hálftíma þar sem leið þeirra lá heim til Íslands. Hér hefur verið mikið spjallað, hlegið og heimsmálin kryfjuð til mergjar undanfarna daga enda æskuvinir þar saman komin.
Við vinkonurnar komumst samt að þeirri niðurstöðu að eitthvað væri nú úthaldið farið að gefa sig þar sem hvorug okkar stóð næturvaktina fyrr en í gærkvöldi og aldrei neinn á bakvakt heldur þessa daga. Við köllum það að vera,, á vaktinni" þegar við gátum setið til morguns og blaðrað um allt og ekkert hér í gamla daga og að vera á ,,bakvakt" var það kallað þegar einhver vaknaði um miðja nótt til að fylgjast með gangi mála. Jamm eitthvað er nú farið að slá í okkur eða eigum við e.t.v. að kalla þetta þroska fullorðinsáranna. Humm... gæti hugsast.
Nú er sem sagt komin ró yfir Stjörnustein í bili. Það eina sem heyrist hér nú er dirrindí úr hreiðrum smáfuglanna og notalegt skrjáfið í laufum trjánna sem bærast hér í andvaranum.
Það er líka stundum gott að vera einn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.7.2008 | 10:31
Þögnin safnar kröftunum saman.
Að heilsast og kveðjast það er lífsins saga og hefur mér gengið bara all bærilega undanfarin ár að kveðja án þess að vatna músum. En í morgun gat ég ekki haldið aftur af tárunum þegar ég kvaddi litlu frændsystkinin mín. Enn sit ég hér og á svo rosalega bágt inn í mér. Það er þungbúið bæði úti og inni. Sjálfvorkunnin alveg að drepa mig.
Ég veit svo sem að það er annað og meira sem veldur þessu táraflóði en ætla ekki að fara út í þá sálma hér núna enda engin ástæða til að bera á borð fyrir ykkur eitthvað kerlingavæl. Nú tekur maður bara á honum stóra sínum og drífur sig í verkefni dagsins sem bíða hér ófrágengin.
Ég ætla líka að fara eftir stjörnuspá dagsins, sem ég yfirleitt tek nú ekki mark á en einhvern vegin á hún svo vel við daginn í dag. Hún hljóðar svona:
Þegar maður sinnir stóru verkefni er orkan tvístruð. En það er bara tímabundið ástand. Þú þarft að staldra við og íhuga. Þögnin safnar kröftunum saman.
Og það er einmitt það sem ég ætla að fara að gera núna, staldra við og íhuga og safna kröftum úr þögninni.
Bíð ykkur öllum góðan og bjartan dag í sál og sinni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.7.2008 | 08:49
Fjölskyldufréttir héðan frá Prag
Bæjarrotturnar, hún Anna systir mín og mágur eru búin að vera niðrí Prag með börnin síðan á mánudag og ætla held ég að vera þar fram á sunnudag eða mánudag. Við sveitalubbarnir höfum haft dálitlar áhyggjur af þeim þarna niðrí íbúðinni okkar í skarkala miðborgarinnar og yfir 30°hita. En hafið engar áhyggjur, við fylgjumst grannt með þeim og þeim virðist líka vel borgarlífið.
Þar sem Þórir komst í fyrsta sæti hjá Ólafi Friðrik (konungi) og Rikki, pabbinn sjálfur datt niður í annað hefur minn elskulegi reynt að halda sætinu eftir fremsta megni. Fyrsta daginn keypti hann derhúfu sem á stóð Óli í Prag 2008 og næsta dag digitalúr, sem sagt er bara að kaupa krakkann fyrir slikk en svínvirkar, heldur enn fyrsta sætinu.
Kolbrún Eva dúlla er bara hress í hitanum enda farin að fá Haagen Dazs ís á hverjum degi, sem sagt minn elskulegi farinn að kaupa sér vinsældir hjá henni líka..
Í dag ætlar Þórir að keyra þau til Dresden og er í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir þeim, þið sem þekkið þau skiljið það...... gæti tekið tíma hehehhe....
Þau verða síðan hér hjá okkur síðustu daga ferðarinnar og hlakka ég til að fá líf aftur í húsið.
Ég ætla að nota daginn í dag til að randa í búðir, vantar svo tilfinnanlega skó með fyrirkomulagi. Jenný veit hvað ég er að tala um.
Lít e.t.v. inn hér þegar kvölda tekur og sól sest.
Eigið góðan dag hvar sem þið eruð stödd í heiminum elskurnar...nú URLAST Hallgerður...
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2008 | 15:45
Hahahaha.....
Málið leyst! Fótsporin reyndust vera eftir HROSS!!
Ja hérna ekkert fútt í þessu lengur!
Allar Karenar geta nú aftur látið sjá sig utandyra og þurfa ekkert að óttast lengur.
Heimavarnaliðið getur farið heim að grilla.
Það ætla ég alla vega að fara að gera núna enda von á góðum gestum í kvöldmat.
Hálendisbjörn trúlega hross | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2008 | 10:17
Bjössi litli lætur ekki gabba sig
Nú æsast leikar. Á meðan Bjössi litli spókar sig um á Hveravöllum og nýtur fegurðar landsins fer heimavarnaliðið á stúfana og heldur til fjalla í von um að komast í fótspor Bangsa.
Komið hefur í ljós við rannsókn málsins að nafnið Karen þýðir ,,hin hreina" nefnd hefur verið sett í málið til að fá botn í hvernig nafnið tengist Hvítabirninum. Það eina sem nefndin hefur komið sér saman um er að hvítt tengist jú hreinu og tæru. Nefndin situr nú og fundar um málið.
Á meðan sprangar heimavarnaliðið um hálendið í von um að verða varir við einhver ummerki Bjössa.
Bjössi er fullkomlega meðvitaður um þá hættu sem stafar af þessum mörgu tvífætlingum og heldur sig til hlés.
Ferðamennirnir sem töldu sig hafa séð spor eftir Bjössa voru sýnd spor hesta, gæsa og þúfutittlinga en þeir standa enn við framburð sinn og segjast þekkja þessi spor frá heimalandi sínu.
Kemst heimavarnaliðið á sporið?
Er Bjössi særður eða veikur þarna uppi á reiginfjöllum eða er e.t.v. bara enginn Hvítabjörn þarna á ferð?
Verður leitinni hætt?
Allt getur gerst! Alltaf eykst spennan!
Leit að hálendisbirni heldur áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.6.2008 | 19:20
Þetta er orðið svo hrikalega spennó
Ætli draumur Sævars bónda á Hrauni sé að koma fram?
Heitir annar ferðamaðurinn Karen? Það nafn finnst örugglega í Pólskum mannanöfnum.
Maður getur bara ekki sofið dúr í nótt, spenningurinn magnast með hverri klukkustundinni.
Ætli sé búið að láta Dani vita? Ætli þeir sendi sama gæjann? Varla, var hann ekki svo huglaus að hann þorði ekki út úr bílnum þegar hann kom á vettvang.
Kalla bara út heimavarnaliðið strax! Ekkert hangs núna, Björninn gengur laus og Birnir eru stórhættulegir, já alla vega sumir hverjir.
Hvar leynist ófögnuðurinn? Spor finnast! Hver fangar Bjössa? Kemur Karen til hjálpar?
Úff þetta er hið dularfyllsta mál. Framhald í næsta þætti.
Þriðji björninn á Hveravöllum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)