Færsluflokkur: Ferðalög

Algjörlega á röngum forsendum

Skondinn misskilningur kom upp hjá okkur hjónum um daginn þegar við heimsóttum hafnarborgina Hamborg.  Snemma morguns héldum við á vit ævintýra og byrjuðum á því að fara í skoðunarferð.   Leiðsögumaður bablaði á þýsku í hátalara sem lítið sem ekkert heyrðist úr nema skruðningar en ef eitthvað komst til skila þá var það á óskiljanlegri mállýsku, svo það litla sem við heyrðum fór eiginlega inn um annað og út um hitt.

Þegar bíllinn kom niður að höfninni ákváðum við að fara úr bílnum og ganga úr okkur allt gjammið sem eiginlega var farið að fara í okkar fínu taugar, anda að okkur fersku sjávarloftinu og láta goluna leika við vanga. 

Þar sem minn elskulegi hafði komið oftsinnis til Hamborgar á sínum uppvaxtarárum með fraktskipum barst talið að öllum þessum flota sem lá í höfninni.  Fjöldinn allur af túristafleyjum sigldu fram og til baka í misjafnlegu ásigkomulagi.  Ég gjóa augunum að mínum og sé eitthvað sem glampar svo ég spyr:  Eigum við að fara í siglingu með einhverjum bátnum um höfnina? 

 Hann svarar: Jú við gætum svo sem alveg gert það. 

Síðan koma smá vangaveltur um hvaða bátur yrði fyrir valinu.  Mér leist best á gamlan fljótabát sem ég í fáfræði minni hélt að væri orginal af Missisippy og við kaupum miða og stökkvum um borð rétt áður en landgangurinn var leystur frá.  Við komum okkur fyrir sólarmegin, (ég er svo lítill sjómaður að ég veit aldrei hvað er stjórnborði eða bakborði) og báturinn veltir letilega frá bryggju.

Voða kósí  allt saman.  Eftir svona hálftíma siglingu er mér farið að leiðast þófið.  Andskotinn við sáum varla neitt annað en gámaskip og aftur gámaskip og krana sem tjónuðu þarna eins og risahrammar yfir hræðilegum skrokkum skipanna.  Allt í einu rek ég augun í gám  og æpi upp:  Nei sjáðu SAMSKIP!!!!  Vá.....  einn einmanna gámur innan um öll hin stórveldin og hvað þetta gladdi mig, ég sá allt í einu eitthvað sem ég kannaðist við.  Fyrir mér var ferðinni bjargað, og ég hélt enn í sakleysi mínu að minn væri alsæll þarna innan um gáma og tröllaskip.

Loksins, loksins komum við í land og ég var fyrst frá borði, sver það.  Spyr síðan alveg bláeyg og ljóshærð:  Jæja hvernig fannst þér?

Svarað svona með algjöru áhugaleysi:  Veit ekki, fannst þér gaman?

Ég: Nei það veit hamingjan, næst getur þú farið einn.

Hann: Nú ég hélt að þig langaði svo mikið til að fara í svona siglingu?

Ég:  Ha ertu ekki að grínast, ég var að gera þetta fyrir þig!

Síðan tókumst við í hendur og leiddumst hlægjandi eftir bryggjunni. 

Stundum getur misskilningur orðið til þess að tengja okkur betur saman, og er það vel.  Love Boat 

 


Stundum er maður bara alveg ofan úr afdölum.

Ekki má maður skreppa bæjarleið eina viku þá er eins og gróðurinn taki kipp á meðan svo nú eru allar trjáa, rósa og runnaklippur komnar í hleðslu þannig að ég geti eytt helginni í að snyrta og fegra hér úti. Ekki voru það nú einungis garðplönturnar sem tóku kipp heldur sá ég í morgun að mitt undurfagra hár hafði tekið miklum stakkaskiptum og ég leit út eins og reytt hæna.  Sjálfsagt hefur blessað sjávarloftið haft þessi áhrif svo nú þarf að gera eitthvað róttækt í þeim málum líka.

Annars var ferðin okkar bara hin huggulegasta.  Tekið var á móti okkur sem höfðingjum af General Mills ( Häagen-Dazs) og okkur komið fyrir á Hotel East sem er eitt það mest trend hótel sem við höfum gist á, staðsett í St. Pauli svo auðvitað var kíkt á Reeperbahn eitt kvöldið.  Óskaplega ömurlegt að fylgjast með næturlífinu þar og rusli sem þakti alla götuna hvar sem litið var.  Minn elskulegi fékk létt sjokk og kallar hann nú ekki allt ömmu sína en hann fræddi mig á því að mikla breytingar hefðu orðið þarna í áranna rás og allar til hins verra.  

Ég ætla aðeins að víkja að hótelinu sem við bjuggum á.  Við fengum svokallaði mini suite og vorum að sjálfsögðu voða lukkuleg með það þar sem minn þolir illa þrengsli í hótelherbergjum.  Rúmið var auðvitað king size og var staðsett út á miðju gólfi eins og einhver hefði ekki haft kraft til þess að koma því upp að vegg. 

 Í enda herbergisins var tvöfalt baðkar með nuddi að sjálfsögðu þar fyrir framan var komið fyrir löngu borði og tók það mig dálítinn tíma að fatta að þarna var vaskurinn staðsettur en hann leit út eins og risa kuðungur úr stáli. Ekkert skilrúm bara svona plantað þarna á miðju gólfi.  Ég get svarið fyrir það að mér fannst ég alltaf vera að afgreiða á bar þegar ég stóð þarna og burstaði tennurnar. Datt meir að segja einu sinnu út úr mér:  Hvað má bjóða þér að drekka!

Að sjálfsögðu var allt stýrt með fjarstýringu svo það lá við að ég hringdi í Helga í Lumex til að fá upplýsingar um hvernig ég gæti dregið teppið af rúminu. En það fór ljómandi vel um okkur þessa daga og við skemmtum okkur konunglega enda hvernig var annað hægt þegar gestgjafarnir eru slíkir höfðingjar. 

Næst ætla ég samt að vera búin að afla mér þekkingar á svona smávægilegum hlutum eins og fjarstýrðum gardínum og frussandi vatni í kuðungavaski sem sullaðist út um allt borð þegar maður kom nálægt en ekki vera eins og einhver álfur úr afdölum.  It's All Good 

   

   


Ætti ég að þora?

Ég nenni nú ekki alltaf að fylgja mínum elskulega á hans ferðalögum en vegna eindregnar óskar, og yfirlýsingar hans um ágæti minnar nærveru og hvað ég er skemmtilegur ferðafélagi, ætla ég að láta það eftir honum í þetta sinn. 

Langar bílferðir með mínum eru nú ekki það sem ég vildi kjósa sem dægrastyttingu.  Hann er einn af þeim sem er kominn á leiðarenda löngu áður en ferðin er hafin.  Svona aðeins á undan sjálfum sér.  Þ.a.l. sér maður nú asskotakornið lítið af fegurð fjalla og dala, þar sem brunað er á hraðbrautinni og varla að maður fái pissupásu. 

 Viðkvæðið er oft:  Er ekki bara allt í lagi að stoppa næst?  50 km í næstu resteríu og ég í spreng. 

Ég alltaf svo samvinnuþýð eða þannig:  Ha jú, jú ekkert mál. 

Ferðinni er sem sagt heitið til Hamborgar þar sem minn ætlar að mæta á þriggja daga fund.  Kemur síðan bara í ljós hvað ég dunda mér við á meðan.  Hef nú ekki komið til Hamborgar í mörg ár svo þetta getur orðið spennandi reisa, kannski ætti ég að líta á portkonurnar í Herbertstrasse (heitir hún ekki það fræga gatan) og sjá hvort þær hreyta í mig ónotum eins og seinast þegar við fórum þar um, en þá var ég nú í fylgd með mínum svo ekki skrítið að þær hræktu að mér, fávísri konunni með myndalega manninum. Wink  Spurning um hvort ég þori að taka áhættuna.

Svo nú er að henda ofan í töskur og bara drífa sig á vit ævintýra næstu daga. It's Friday 

 

 

  


Króatarnir bara með læti gagnvart vinum mínum.

Æ, æj, æj,  elsku vinirnir á nú að banna ykkur að ferðast með fullar töskur af ykkar uppáhaldi.  Pylsum, súrsuðum gúrkum og öðru góðmeti.  Ekki að undra þó hálf þjóðin fari í kerfi og afpanti ferðir til Króatíu. Annars má nú held ég aðeins taka á þessum matvælaflutning ykkar elskurnar.

Hvernig ætli sé annars að keyra alla leið til Króatíu í óloftkældum bíl, hvert sæti skipað.  Pabbinn við stýrið, mamman í framsætinu með soðkökur og pylsur í fanginu sem skyggir á allt útsýni.  Afi og amma í aftursætinu með lítinn gutta á milli sín. Á gólfinu er bjórkassi og pokar með tékkneskum mat sem yfirleitt er súrsaður eða reyktur, svo afi og amma geta hvergi sig hreyft og blóðið hætt að leka niður í fæturna.

  Á þaki bílsins er hlass af farangri fjölskyldunnar vel pakkað inn í gamalt teppi og snærað niður.  Ég gleymdi að geta þess að fullorðna fólkið er líka keðjureykjandi, svo strókurinn er ekki bara úr lélegri vél bílsins heldur líka út um opna bílgluggana. 

Nú er ég aðeins að ýkja en maður sér stundum svona ferðalanga hér á vegum úti og verður alltaf jafn undrandi á elju þessa fólks.      


mbl.is Pylsubann angrar Tékka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið væri gaman hér í henni velsu ef enginn væri bardaginn

Jæja þar kom að því að frekar leiðinlegar umræður spruttu upp á blogginu mínu í gær.  Ég var eiginlega alls ekki viðbúin þessu og hafði dálítið gaman að í fyrstu, en fór að leiðast þófið þegar líða tók á daginn.  En þegar maður tekur sterkt til orða sem ég og gerði, þá má auðvitað búast við því að ekki séu allir sammála og myndast getur misskilningur.  Þannig er það bara í henni veslu. 

En gott fólk nú er runninn upp nýr dagur með nýjum verkefnum og við skulum bjóða hann velkominn með öllu því sem honum tilheyrir.

Í gærdag skruppum við aðeins til litlu fjölskyldunnar í Prag til að knúsa þau aðeins áður en þau halda til Íslands.  Við ætlum líka að leggja land undir fót á morgun en þau í næstu viku.  Litla fjölskyldan frá Laufási/Grenivík var líka að fara heim í dag svo allir voru í svona knússtuði. 

Eigið góðan og bjartan dag og elskið hvort annað.   Kisses 

 

 


Óboðinn gest bar að garði

Margir kvarta yfir því að fólk sé alveg hætt að ,,droppa" inn heldur verði að bjóða heim formlega og það er ekkert öðruvísi hér í okkar sveit. Hljóðið í dyrabjöllunni getur jafnvel látið mig hrökkva í kút ef ég á ekki von á neinum.  

Um daginn vorum við að dunda hér við útiverkin, gefa hænsnunum og moka flórinn, nei bara segi svona, og eins og á öllum sveitaheimilum var farið í kaffi upp úr hádegi.  Við vorum rétt komin inn og bæði gráskítug upp fyrir haus þá er dinglað á bjöllunni.  Ég kipptist að sjálfsögðu við svo skvettist úr kaffibollanum og um leið og minn elskulegi tekur upp tólið sé ég mann á skjánum sem ég kannast ekkert við.  Minn bara ýtir á hnappinn og opnar hliðið fyrir þessum ókunnuga manni. 

Ég spyr:  Hver er þetta?  Ég lít út eins og niðursetningur!

Hann:  Æ, ég var víst búinn að bjóða honum að koma hingað við tækifæri, þetta er Svisslendingur....

Síðan heyrði ég ekki meir því ég romsaði út úr mér:  Núna, við erum hér á kafi í garðinum, ég er bara ekkert tilbúin til að taka á móti gestum og síðan mimmaði ég einhver heil ósköp um hvað fólk væri að þvælast hingað óboðið og blablablabla..

Það tekur sem betur fer smá tíma fyrir gangandi að koma hingað upp að húsi frá hliðinu svo ég gat aðeins róað mig niður og var búin að setja upp sparibrosið þegar maðurinn birtist í dyrunum. 

Ég góndi á manninn þar sem hann stóð í hvítri skyrtu með bindi og alles en það sem vakti athygli mína var ferðataskan sem hann dró á eftir sér.  Í fyrstu datt mér í hug að maðurinn væri einhverskonar Votti. Hvernig í andskotanum datt mínum í hug að bjóða svona fólki hingað en þar sem ég er nú einu sinni Íslendingur og við þekkt fyrir okkar einskæru gestrisni þá brosti ég bara enn breiðar og bauð manninn velkominn. 

Um leið hvæsti ég að mínum á milli tannanna á íslensku:  Er maðurinn að flytja hingað?

Komumaður stóð enn fyrir utan dyrnar svo ég bauð honum að ganga í bæinn, þá allt í einu beygir hann sig niður, opnar töskuna og nú var ég alveg klár á því að guðsorðið kæmi fljúgandi upp úr töskunni.  Nei ekki aldeilis, þarna dró hann upp vínflösku sem hann vildi færa okkur.

Hjúkket hvað mér létti. Ég spyr síðan hvort ég megi ekki bjóða honum einhverja hressingu, vatn, kaffi eða te?  Hann svona hváir, bjóst örugglega við einhverju sterkara, en ég hafði nú ekki hug á því að setjast að sumbli með þessum gaur.  Þar sem ég fæ ekkert svar spyr ég aftur og enn fæ ég bara svona uml.  Ég næstum segi upphátt:  Heyrðu góði gerðu þetta upp við þig, vatn, kaffi eða te!  það er það sem í boði er!  Andskotinn er þetta!

Gestur:  Just....hummm.... What are you having?

Ég fremur snögg upp á lagið:  Water!  Um leið segi ég á íslensku er maðurinn fífl?

Síðan er sest út á verönd og drukkið vatn og ég lét mig hafa það að sitja smá stund svona fyrir kurteisisakir.  Lét mig síðan hverfa og hugsaði að minn elskulegi gæti bara setið með þessum hálfvita ég hefði nóg annað að gera við minn tíma.

Eftir svona þrjú korter sé ég hvar minn kemur keyrandi með gest í framsætinu og stoppar þar sem ég stend og segir:  Ætla að skila honum niðrá lestarstöð.  Mannauminginn hafði sem sagt komið með lest hingað!  Það tekur fjórar klukkustundir frá Prag! Og ég held að það fari tvær á dag hér um. Ég spyr minn hvort hann viti hvenær næsta lest fari en hann svarar:  Hef ekki hugmynd, ég get bara ekki hugsað mér að sitja lengur yfir honum.  Svo bætti hann við:  Ég sagðist verða að fara að hjálpa þér við verkin, gæti ekki látið þig púla svona eina allan daginn.  Hheheheh mér var dálítið skemmt! 

Gestur stígur út úr bílnum og segir brosandi:  Thank you soooo very much.  It was nice meeting you.  I will drop by again one day.

Ég:  Please do any time!  En hugsaði:  En þá verð ég ekki heima vinur.

Hvað hefur orðið um alla þessa rómuðu gestrisni?  Ég hálf skammast mín núna.

  

         


Vinurinn sem flaug alltaf með Fokker

Hér áður fyrr þegar við flugum á milli Köben og Prag var eingöngu notast við Fokkar vélar.  Stundum gat þetta verið ansi östugt ferðalag þá sérstaklega þegar miklir sviptivindar voru í lofti.  Það var ekki ósjaldan að maður þakkaði sínum verndara fyrir að vélin lenti á sínum þremur á flugbrautinni.

Einn góðvinur okkar, Breti, sem bjó hér í Prag þá ferðaðist mikið á milli landa og þá yfirleitt í Fokker.  Sá kallaði nú ekki allt ömmu sína og gat verið ansi orðljótur og klæminn í ofanálag.  Eitt sinn vorum við að tala um þessar ferðir hans og þá segir hann: Já ég bara get ekki vanist því að fljúga með þessum vélum, bara nafnið kemur mér í annarlegt ástand.  Hugsið ykkur hélt hann áfram að verða alltaf að ferðast með fucking Fokker. Embarrassed 


mbl.is Flugfélag Íslands leigir Fokker 50 vél til Air Baltic
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þær taka ,,fýlupillur" líka í Kóngsins Köbenhavn

Komin heim frá Hamingjulandinu heil á húfi en auðvitað töskulaus. Ég mátti svo sem alveg búast við því þar sem ég hafði aðeins 25 mín í millilendingu í Köben.  Held að heilinn í mér sé aðeins farinn að klikka, ég hef lent í þessu áður að bóka mig á flug með svona stuttum millilendingartíma og lofað sjálfi mér að gera það aldrei aftur en einhvern vegin dettur þetta bara í gleymskunnar dá og ég lendi aftur og aftur í þessari hringyðu sem líkist geðveiki.

Þegar ég kom til Keflavíkur um hádegisbil var fátt um manninn í innbókun og ég þakkaði fyrir það pent í huganum.  Þar sem ég stend fremst við borðið kemur voða sæt stúlka til mín og segir:  ég skal hjálpa þér að bóka þig inn hérna megin.  Ja hérna hugsa ég eitthvað hefur nú þjónustan batnað.

Stúlkan dregur mig að maskínu sem stendur þarna aðeins afsíðis og sé ég þá að þetta er  sjálfbókunarvél. Ég brosi mínu blíðasta og segi:  Ég held að þetta gangi ekki ég verð að millilenda og bóka töskuna alla leið til Prag.  Ekkert mál segir hún, ég ætla bara að kenna þér á þetta og rífur um leið af mér bókunarblaðið  og pikkar inn númer og aftur númer, segir svo voða sætt sjáðu, svo bara ýtir þú á áfram. 

 Á meðan er ég á kafi ofan í tösku að leita að gleraugunum því ég sé ekki glóru án þeirra, þ.a.l. missti ég af þessari kennslustund í innbókun.  Ég nennti ekki að fara að útskýra fyrir henni að ég  hefði bara engan áhuga á svona apparati, sem sagt þarna var ég rosalega meðvirk Hallgerður. Hehehehhe.... Auðvitað varð ég síðan að fara að afgreiðsluborðinu og bóka inn töskurnar, þetta var sem sé algjör tvíverknaður. 

Þar tók á móti mér önnur yndælis stúlka og ég krossaði fingur, góðu verndarar, enga yfirvikt!  Taskan bókuð og ég bið um Priority-miða á töskuna vegna þess hve stutt sé á milli véla.  Ekkert slíkt fékkst en hún vafði Saga miða um handfangið og sagði að það virkaði rosa vel. Huhumm ég vissi betur.  

Þegar ég kem inn í vélina sé ég að ,,apparatið" hafði gefið mér sæti næstum aftast í vélinni og lítil von um að geta látið færa sig því vélin var fullbókuð.  Flugið yfir hafið gekk vel þrátt fyrir að ég gat engan vegin hreyft mig þar sem 170 kg. karlmaður sat mér við hlið og þrýsti sínum holdlega líkama fast að mér alla leiðina. Þegar við nálgumst Kóngsins Köben kalla ég í eina freyjuna og spyr hvort möguleiki sé á að ég geti fengið að færa mig fram í þar sem ég hafi svo lítinn tíma á milli véla , þetta var ekkert mál og ég gat loks andað eðlilega síðustu tíu mínúturnar.

Ég er lent og þá byrjar martröðin fyrir alvöru.  Hlaup frá terminal B yfir í C til að bóka mig í Transit.  Þar er ætlunin að farþegar taki miða og bíði rólegir þangað til kemur að þeim.  Ég hafði bara engan tíma í þetta svo ég arka að næsta deski og bið unga konu um að bjarga mér á nóinu þar sem vélin væri að fara eftir 15 mín.  Sú hafði tekið nokkrar ,,fýlupillur" um morguninn og var ekkert nema ólundin.  Ég taldi upp á 100 andaði djúpt, talaði dönsku með ísl. hreim en það hefði ég einfaldlega ekki átt að gera því þá fyrst fór stúlkan í baklás.  Loksins, loksins og ég aftur til baka alla leið á terminal A.  Hljóp eins og geðsjúklingur með svitastrokið andlit og rétt náði að smeygja mér inn um hliðið áður en því var skellt aftur.  Hjúkket ég náði!

Óveður geisaði í Prag í lendingu og vélin tók dýfur og hentist til hægri og vinstri vegna mikilla sviptivinda. Haglið dundi á vélarskrokknum og síðan steypiregn í kjölfarið.  Veðurguðirnir tóku ekki sérlega vel á móti mér í gærkvöldi og síðan til þess að kóróna allt kom ekki taskan.

Það var úrvinda kona sem féll í faðm síns elskulega.  Gat vart komið upp orði. Eina hugsunin var rúm og sofa og sofa. 

 

 

 


Hamingjulandi í sjónmáli, blásið í lúðra vinir mínir.

Þá er ég búin að henda restinni ofan í tösku.  Alveg sama hvort maður er að fara helgarreisu eða til lengri tíma, alltaf treður maður í töskurnar  einhverju sem síðan er aldrei notað á ferðalaginu, liggur þarna bara engum til gagns og síðan tekið upp þegar heim er komið lyktandi og krumpað.  Þarf að fá leiðsögn í ferðalaganiðurpökkun.  Er einhver þarna úti sem kann þetta, ég meina þá 100%.

  Búin að ganga um allt húsið og athuga hvort straujárnið, kaffikannan eða önnur rafmagnstæki eru ekki örugglega aftengd. Vinnumennirnir búnir að fá fyrirlestur um hvað eigi að klára hér áður en ég sný aftur heim og fyrirmæli um að hugsa sómasamlega um hundinn. 

Þá held ég að tími sé til kominn að leggja í hann.  

Þið mætið svo öll í Keflavík í kvöld og takið á móti mér með blómum og þið vogið ykkur ekki að gleyma að breiða út rauða dregilinn.  Síðan þætti mér óskaplega vænt um að blásið yrði í lúðra, svona eins og gert er í ,,hvíta" húsinu á nesinu. 

 Ég skal svo syngja fyrir ykkur í staðin Ó fögur er vor fósturjörð. 

Love U2 guys!  


Ætla að koma með sumarið með mér

Á morgun verður haldið fljúgandi yfir haf og lönd beint í faðm Hamingjulandsins. Einhvern veginn náðum við að klúðra farseðlunum þannig að minn elskulegi fer héðan klukkan fimm í fyrramálið en ég ekki fyrr en fimm um eftirmiðdaginn. Aumingja kallinn minn verður að bíða í fimm tíma í Köben en ég vorkenni honum svo sem ekkert, Köben er alveg þess virði að eyða nokkrum klukkutímum á randi um stræti og torg.

Amman er auðvitað búin að fylla tösku af nýjum fötum á prinsinn sinn, stórum Bubba byggir og Tomma tog.  Hvað ég hlakka til að knúsa hann og dekra upp úr skónum þessa fáu daga sem við verðum saman.  Skrúðganga á Sumardaginn fyrsta með hornablæstri, ís og blöðru. 

 Ég vona bara að barnið þekki ömmu sína og afa þegar þau koma með öll lætin og brussuganginn. Hendi sér bara ekki undir rúm af skelfingu við þessa brjálæðinga frá útlöndum.  Verðum að reyna að hafa hemil á okkur svona fyrstu klukkustundina og ekki kremja hann í klessu.  Barnið er jú bara eins og hálfs.

Við ætlum að reyna að koma með pínu lítið af sumrinu með okkur í farteskinu, en lofum engu þar um.  Ekki veit ég hvort mikill tími gefst til að blogga þessa daga en ég ætla nú samt að taka með mér tölvudrusluna svona in case. 

     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband