Óboðinn gest bar að garði

Margir kvarta yfir því að fólk sé alveg hætt að ,,droppa" inn heldur verði að bjóða heim formlega og það er ekkert öðruvísi hér í okkar sveit. Hljóðið í dyrabjöllunni getur jafnvel látið mig hrökkva í kút ef ég á ekki von á neinum.  

Um daginn vorum við að dunda hér við útiverkin, gefa hænsnunum og moka flórinn, nei bara segi svona, og eins og á öllum sveitaheimilum var farið í kaffi upp úr hádegi.  Við vorum rétt komin inn og bæði gráskítug upp fyrir haus þá er dinglað á bjöllunni.  Ég kipptist að sjálfsögðu við svo skvettist úr kaffibollanum og um leið og minn elskulegi tekur upp tólið sé ég mann á skjánum sem ég kannast ekkert við.  Minn bara ýtir á hnappinn og opnar hliðið fyrir þessum ókunnuga manni. 

Ég spyr:  Hver er þetta?  Ég lít út eins og niðursetningur!

Hann:  Æ, ég var víst búinn að bjóða honum að koma hingað við tækifæri, þetta er Svisslendingur....

Síðan heyrði ég ekki meir því ég romsaði út úr mér:  Núna, við erum hér á kafi í garðinum, ég er bara ekkert tilbúin til að taka á móti gestum og síðan mimmaði ég einhver heil ósköp um hvað fólk væri að þvælast hingað óboðið og blablablabla..

Það tekur sem betur fer smá tíma fyrir gangandi að koma hingað upp að húsi frá hliðinu svo ég gat aðeins róað mig niður og var búin að setja upp sparibrosið þegar maðurinn birtist í dyrunum. 

Ég góndi á manninn þar sem hann stóð í hvítri skyrtu með bindi og alles en það sem vakti athygli mína var ferðataskan sem hann dró á eftir sér.  Í fyrstu datt mér í hug að maðurinn væri einhverskonar Votti. Hvernig í andskotanum datt mínum í hug að bjóða svona fólki hingað en þar sem ég er nú einu sinni Íslendingur og við þekkt fyrir okkar einskæru gestrisni þá brosti ég bara enn breiðar og bauð manninn velkominn. 

Um leið hvæsti ég að mínum á milli tannanna á íslensku:  Er maðurinn að flytja hingað?

Komumaður stóð enn fyrir utan dyrnar svo ég bauð honum að ganga í bæinn, þá allt í einu beygir hann sig niður, opnar töskuna og nú var ég alveg klár á því að guðsorðið kæmi fljúgandi upp úr töskunni.  Nei ekki aldeilis, þarna dró hann upp vínflösku sem hann vildi færa okkur.

Hjúkket hvað mér létti. Ég spyr síðan hvort ég megi ekki bjóða honum einhverja hressingu, vatn, kaffi eða te?  Hann svona hváir, bjóst örugglega við einhverju sterkara, en ég hafði nú ekki hug á því að setjast að sumbli með þessum gaur.  Þar sem ég fæ ekkert svar spyr ég aftur og enn fæ ég bara svona uml.  Ég næstum segi upphátt:  Heyrðu góði gerðu þetta upp við þig, vatn, kaffi eða te!  það er það sem í boði er!  Andskotinn er þetta!

Gestur:  Just....hummm.... What are you having?

Ég fremur snögg upp á lagið:  Water!  Um leið segi ég á íslensku er maðurinn fífl?

Síðan er sest út á verönd og drukkið vatn og ég lét mig hafa það að sitja smá stund svona fyrir kurteisisakir.  Lét mig síðan hverfa og hugsaði að minn elskulegi gæti bara setið með þessum hálfvita ég hefði nóg annað að gera við minn tíma.

Eftir svona þrjú korter sé ég hvar minn kemur keyrandi með gest í framsætinu og stoppar þar sem ég stend og segir:  Ætla að skila honum niðrá lestarstöð.  Mannauminginn hafði sem sagt komið með lest hingað!  Það tekur fjórar klukkustundir frá Prag! Og ég held að það fari tvær á dag hér um. Ég spyr minn hvort hann viti hvenær næsta lest fari en hann svarar:  Hef ekki hugmynd, ég get bara ekki hugsað mér að sitja lengur yfir honum.  Svo bætti hann við:  Ég sagðist verða að fara að hjálpa þér við verkin, gæti ekki látið þig púla svona eina allan daginn.  Hheheheh mér var dálítið skemmt! 

Gestur stígur út úr bílnum og segir brosandi:  Thank you soooo very much.  It was nice meeting you.  I will drop by again one day.

Ég:  Please do any time!  En hugsaði:  En þá verð ég ekki heima vinur.

Hvað hefur orðið um alla þessa rómuðu gestrisni?  Ég hálf skammast mín núna.

  

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Veistu að ég er orðin svona, verð pirruð ef fólk droppar í heimsókn.  Já Ía þú mátt alveg skammast þín og ég líka.  Hvað er að verða um okkur nútímafólk?  Erum við búin að gleyma að maður er manns gaman?

Hm..

Jesús og þetta með vatnið.  Hefði geta verið ég.  Þarf maður ekki að fara endurskoða eða er þetta bara krúttlegt? 

Þú er amk. dálítil dúlla, að drepast úr móral.  Hahahaha

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.5.2008 kl. 07:59

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Humm maður er manns gaman.  Já ég get hlegið að þessu núna en satt best að segja var mér ekki hlátur i huga þarna þegar á þessu stóð.

Farin út að mjólka kýrnar

Ía Jóhannsdóttir, 22.5.2008 kl. 09:53

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ía mín hvar eru mannasiðirnir sem þú varst alin upp í?
En hvað var líka ektamaki þinn að bjóða þér upp á þessar aðstæður, þekkir hann ekki sína kvinnu, hún vill vera fín og sæt er hún móttekur gesti, svoleiðis erum við bara. en ég meina það vatn, fékk hann ekki þurrt brauð með?.
                                Kveðja Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.5.2008 kl. 11:33

4 identicon

Ég sé þig alveg í anda elsku mamma mín hehhehe

Knús

Soffía

Soffía (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 12:57

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mér fannst þetta sprenghlægileg færsla

Sigrún Jónsdóttir, 22.5.2008 kl. 14:21

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Milla já hvar eru mannasiðirnir? Hehemmm.

Soffa mín: Já ég var smá pirró elskan

Sigrún mín: Jamm get hlegið núna

Ía Jóhannsdóttir, 22.5.2008 kl. 15:13

7 Smámynd: Þröstur Unnar

........og mér sem einmitt hafði dottið í hug að "droppa við" einhvern daginn.

Hvað þarf maður eginlega að hafa með sér, svo maður sé velkommen?

Þröstur Unnar, 22.5.2008 kl. 20:41

8 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ég verð nú að segja að ég skil þig mjög vel.  - En er þetta ekki týpiskt Íslenskt. bjóða öllum að kíkja við ef þeir eiga leið hjá, svo líður tíminn og maður man ekki einusinni eftir að hafa hitt viðkomandi,  hvað þá hvenær, -  þá dúkkar hann upp. -

Ég lenti nefnileg í svona uppákomu, - l 20 árum síðar birtist  "viðkomandi" manneskja tvöföld á tröppunum, og þá stóð mjög illa á hjá mér,  en ég gat reddað bed and breakfast gistingu. - Svo "Landar" góðir hættið að hvetja útlendinga til að kíkja við ef þeir eiga leið hjá landinu okkar, Útlendingar taka það nefnilega bókstaflega alvarlega, þó að við Íslendingar mundum aldrei gera það. 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 22.5.2008 kl. 22:51

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Þröstur minn það er nú ekki sama hver ber að dyrum og vertu velkominn any time og það meina ég frá hjartarótum.

Lilja:  Maðurinn ætlaði nú ekki að gista hér, eða það held ég ekki hann var bara svona dálítill furðufugl. Æ nú er ég farin að skammast mín ennþá meir eftir komentin frá ykkur elskurnar mínar.

Ía Jóhannsdóttir, 23.5.2008 kl. 07:25

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

..Þú ert algjör snilld Ía! hehe..ég er kanski farin að fatta af hverju konan mín fyrrverandi skildi við mig...ég kann t.d. augráðið sem ég fékk stundum frá henni:

"Bíddu bara þangað til við erum orðin ein!"

... mínir "gestir" komu nefnilega óboðnir og ég VAR kurteis og hún líka, fyrrverandi fangar, geðsjúklingar og fíklar sem ég hafði verið að vinna með..þetta fór eitthvað í taugarnar á henni..svo töluðu þeir um morð og bankarán eins og veðrið meðan frúin var að hella í kaffibollana hjá okkur...

...ég þoldi þessar heimsóknir reyndar ekki heldur.. enn ég vildi bara vera kurteis við gamla skjólstæðinga...

Óskar Arnórsson, 24.5.2008 kl. 07:14

11 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Skemmtileg færsla

Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.5.2008 kl. 11:17

12 identicon

Einu sinni kom ég heim til þín og fékk mjög góðar móttökur. Það var sumarið 1998 og ég var félagi í Skagfirsku söngsveitinni. Okkur var öllum vísað út í garð og mér fannst afar skiljanlegt að þið vilduð ekki hafa bláókunnugt fólk valsandi um húsið, fannst reyndar alveg merkilegt að þið skylduð bjóða okkur öllum heim, við vorum jú um hundrað manns. En þið hljótið að hafa flutt síðan fyrst þið eruð komin í fjögurra tíma lestarfjarlægð frá Prag.

Bidda (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 19:13

13 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Bidda takk fyrir innlitið. Ég man eftir komu ykkar hingað og nei við búum enn á sama stað, lestin stoppar á svo mörgum stöðum. Það tekur aðens 40 mín að keyra hingað.  Kveðjur til Skagfirsku söngsveitarinnar. 

Ía Jóhannsdóttir, 31.5.2008 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband