Færsluflokkur: Ferðalög

Enn eitt slysið við Vogaafleggjara

Hvað er eiginlega í gangi þarna, er verið að bíða eftir dauðaslysi?  Hver er ábyrgur fyrir þessum vegaframkvæmdum?  Er ekki löngu kominn tími til að setja alla vega viðeigandi aðvörunarskilti og fullkomin aðvörunarljós fyrst enginn ætlar að sjá sóma sinn í því að laga þennan spotta?

Skil ekki svona framkvæmdaleysi og sofandahátt. 


mbl.is Umferðaræðar opnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleg pína í Draumalandinu

Ég barðist við að vekja sjálfa mig og koma mér út úr draumheimum í morgun.  Mörgum sinnum rumskaði ég og reyndi að rífa mig upp úr fletinu en féll aftur og aftur inn í þennan draumaheim sem var að fara með mig á tauginni.  

Þegar ég loksins gat komið mér til hálfrar meðvitundar hentist ég fram úr rúminu og skjögraði fram algjörlega búin að sál og líkama.  Umlaði góðan daginn til míns elskulega sem auðvitað var löngu vaknaður og sat í makindum við tölvuna í bókaherberginu.  Nuddaði hausinn rækilega og hélt niður stigann enn með bankandi hjartslátt og brauðfætur sem varla nenntu að bera mig uppi.

Kaffi, kaffi, kaffi var það eina sem komst að í mínum litla kolli því það var eina sem gat vakið mig almennilega til meðvitundar um að þetta hafði verið draumur. Álíka draumarugl hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og er alltaf jafn taugatrekkjandi og ég verð ekki búin að ná mér fyrr en undir kvöld skal ég segja ykkur.  Sit hér, algjör taugahrúga með sveitta lófa og andateppu.  Ég er ekki að djóka.

Nú eru margir farnir að hugsa:  Hvað, á ekki að segja manni drauminn?  Svo ætli sé ekki best að skrifa sig út úr þessu.  Þið sem nennið ekki að lesa lengur, hættið bara núna.

Ég er stödd upp í Þjóðleikhúsi og það er frumsýning í kvöld.  Stór og mikil sýning með fjöldann allan af  leikurum, gömlum sem ungum.  Ég sit með handritið uppi í búningsherbergi og er að bögglast við að læra textann.  Hugsa, andskotinn ég hef ekki mætt á eina einustu æfingu.  Ég mundi að ég hafði mætt á fyrsta samlestur en síðan kom sumarfrí og ég bara fylgdist ekki nógu vel með æfingartöflunni svo ég hafði aldrei mætt.  NB þarna var ég með þokkalega stórt hlutverk og margar innkomur.

Ég var komin í búninginn og var hann allur hinn skrautlegasti enda var þetta sýning með söngvum og dansi.  Ég vissi að hraðinn yrði mikill og ég hafði verulegar áhyggjur af því að ég hefði ekki græna glóru hvenær ég ætti að koma inn, kunni hvorki dansspor eða staðsetningar hvað þá stikkorðin.  Þá kemur til mín minn gamli vinur Gunnar Eyjólfs og segir:  Þetta verður allt í lagi Ía mín, þú bara improviserar, engar áhyggjur haltu þig bara í námunda við mig svo ferð þú bara útí væng og færð  þetta hjá hvíslaranum.  

Ég róaðist aðeins en hélt samt dauðahaldi í handritið og fletti og fletti til að reyna alla vega að læra stikkorðin.  Síðan kom næsta áfall:  Hvað skildi leikstjórinn segja (Sveinn Einars)  hann hafði aldrei séð mig á einni einustu æfingu og ég fengi örugglega reisupassann, engin spurning.  Hélt samt í litla hálmstráið, að hann hefði aldrei saknað mín á æfingum svo þetta gæti reddast.

Vaknaði áður en sýning hófst, sem betur fer annars væri ég ekki hér til að segja þessa sögu. Wink 

 Er enn í rusli.  Ætla í langan göngutúr til að koma mér inn í  raunveruleikann. 

Epidaurus 

 

 

 

 

     


Draumsýn eða hvað?

Við vorum á leið heim í kvöld og ég impraði á þessu við minn elskulega þar sem við keyrðum eftir hraðbrautinni heim á leið.

Ég: Hvað finnst þér um að leggja Metro í Reykjavík

Hann:  Ertu eitthvað verri, það búa bara rúmlega eitthundrað þúsund manns þarna

Ég: Og so, af hverju ekki?  Þetta gæti leyst samgönguvanda og auðveldað fólki að komast frá A til Ö.  Sjáðu bara hvað þetta er þægilegt hér, þú hoppar upp í lest og ert kominn innan fárra mínútna á ákvörðunarstað.  Hvað er svona neikvætt við þetta.

Hann:  Hugarfluga ekkert annað, þetta verður ekki að veruleika á Íslandi meðan við tórum í þessum heimi.

Sem sagt þarna var einn á neikvæðu nótunum.  Útilokaði bara sí svona að þetta yrði að veruleika, ja alla vega fengjum við ekki að líta þessi samgöngutæki augum á Íslandi, við værum einfaldlega of fámenn þjóð og kostnaður óyfirstíganlegur. 

Ég sit hér og læt mig dreyma.  Vonandi, einhvern tíma, bara ef........ 

 


mbl.is Borgarráð skoðar hagkvæmni lesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það blæs ekki byrlega fyrir ferðamenn um páskana.

Þeir Íslendingar sem ætla að leggja land undir fót nú um páskana og heimsækja Evrópulöndin verða aldeilis að taka á honum stóra sínum. Það er ekki einungis blessuð krónan ykkar sem hefur lækkað heldur  líka hitastigið. Hér gengur á með hryðjum og blæs kröftuglega og hitinn um 3 gráður.  Skítakuldi.

Við máttum jú svo sem búast við páskahreti hér og marsmánuður getur oft verið ansi dyntóttur og spáin er ekki góð fyrir næstu daga svo þið sem leggið land undir fót verið viðbúin skítakulda.

Ekki beint góðar fréttir.  Money 2 

 

 


mbl.is Gríðarlegt flökt á krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er með höfnunartilfinningu.

Halló er engin heima?  Það hlýtur að vera alveg bongó blíða á landinu núna án þess að ég viti það með vissu en alla vega bendir allt til þess.  Ég tók upp símann áðan og ákvað að spjalla aðeins við einhvern skemmtilegan heima á Íslandi en mér til mikillar skapraunar ansaði enginn sem ég hringdi í, hvort sem það voru vinkonur mínar eða einhver úr fjölskyldunni, það var hvergi ansað.  Crying 

Ég er með hræðilega höfnunartilfinningu og líður bara alls ekki vel  innra með mér.  Minn elskulegi farinn yfir til Þýskalands, í viðskiptaerindum.  Erró hálf domm og vill lítið með mig hafa, síðan dettur manni í hug að slá á þráðinn til vinkvenna eða fjölskyldu og þá fær maður bara svona langt og hvellt  dúúú aftur og aftur sama hvert ég hef hringt, það er enginn heima hjá sér í dag. 

Ætli það sé einhverskonar samsæri í gangi gegn mér þarna uppi á landinu? Devil  

Nei ég segi nú bara svona, rosalega er nú samt gott að geta hellt sér yfir ykkur hér á blogginu.Grin Vona að það sé einhver þarna úti sem skilur mig.  Crying 1  Kicking Dirt


Bráðfyndinn bæjarstjóri

Jæja vinur, nú skalt þú bara halda í líftóruna.  Mér er alveg sama hvernig þú gerir það en þú vogar þér ekki að hrökkva upp af.  Það er nefnilega ekkert pláss í kirkjugarðinum. 

 Við getum svo sem holað þér hér utan garðs en erum skíthrædd við að þú takir þá upp á því að ganga aftur og hrella bæjarbúa og það viljum við ekki, svo þú skalt bara verskú tóra þar til við gefum þér grænt ljós lagsmaður.   

Hvernig og hvar hefur hann hugsað sér að framliðnir taki út refsinguna, á himni eða jörð? LoL


mbl.is Gjörið svo vel að deyja ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurofsinn var ekkert lamb að leika sér við

Vindhviðurnar sem gengu hér yfir mið Evrópu á laugardag og sunnudag voru ansi skarpar og fimm eða sex Íslendingar sem ætluðu að mæta á Góu-gleðina í Vínarborg treystu sér ekki út í veðurofsann og þá er nú mikið sagt þegar landinn situr heima vitandi af góðum mat og frábærri skemmtun.

Í veðrinu sem gekk hér yfir um helgina létust fimm manns í  Austurríki, fimm í Ungverjalandi og tveir hér í Tékklandi.  Það er Guðs mildi að ekki urðu fleiri stórslys svo vitað sé. 

En það er skemmst frá því að segja að síðbúið Þorrablót Íslendinga í Austurríki og nágrannalöndunum fór einstaklega vel fram. Mættu þar um 60 manns í góðum gír og hámuðu í sig súrmetið og skemmtu sér langt fram eftir nóttu að góðum Íslenskum sið.  Stórsöngvararnir Einar Thorlacius og Ásgeir Ágústsson héldu uppi fjöldasöng og gamanyrðum við mikinn fögnuð landa sinna þess að milli sem þeir tóku lagið að sinni einstöku snilld. 

Þökkum ykkur Vínarbúar fyrir frábært kvöld í góðra vina hóp.

  


mbl.is Lá við flugslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góugleði í Vínarborg um helgina

Nú er bara að henda ofan í tösku og drífa sig við sólarupprás til Vínarborgar.  Síðbúið Þorrablót verður haldið á laugardaginn með öllu stöffinu sem því tilheyrir.  Við, ég og minn elskulegi tökum með okkur síld og annað góðgæti úr sjónum fyrir þá sem ekki vilja éta brosandi kjamma, súrmeti og hlandfisk. 

Hér stóð það borð saman sem fult er með nógleik allra krása eins og í Máríusögu, - að einni krás undanskilinni: ætum mat.  H.K.L.

Íslendingar búsettir í Austurríki og nágrannalöndum fjölmenna á hátíðina enda Íslendingar sem búa í Vínarborg, fólk sem kann að skemmta sér og öðrum með söng og skemmtilegheitum, ekkert vesen.  Við erum farin að hlakka til að hitta alla aftur og rifja upp gömul kynni. 

Eftir aðeins tveggja og hálfs tíma keyrslu héðan frá okkur erum við sest inn í stofu hjá Sendiherrahjónunum en þar gistum við alltaf þegar við skreppum yfir.  Þau eru algjörir höfðingjar heim að sækja og vonandi tekur Sveinn fyrir okkur nokkur lög á flygilinn áður en við skellum okkur í glauminn.  

Ég ætla að skilja tölvudrusluna eftir heima í umsjá Erró og hússtýrunnar svo það verður þögn á mínu bloggi fram á þriðjudag.  Hafið það öll huggulegt yfir helgina og njótið samvistar við þá sem ykkur er kærast.    


Home sweet home

Við kvöddum föðurlandið í fyrradag í slydduveðri eftir tvær frábærar vikur með fjölskyldu og vinum.  Á leiðinni yfir hafið fann ég það út að það er þrekvirki að fljúga með stútfullan maga af Íslenskum kræsingum og nokkrum kílóum þyngri. 

 Þrátt fyrir allt átið heima hafði ég það af að henda í körfu í flughöfninni hangikjöti, flatkökum, páskaeggjum og öðru góðgæti áður en ég yfirgaf landið og þar sem ég er ekkert sérlega hrifin af flugvélamat fyllti ég nestispoka með Jumbó samlokum svona,, in case" ef ég yrði svöng á leiðinni.  Þetta er jú þriggja tíma flug og ekki gott að verða hungurmorða yfir Atlandshafinu. Wink Samlokurnar komu sér reyndar vel þar sem sessunautar mínir, minn elskulegi og vinkona okkar sem  var á heimleið til Vínar hjálpuðu mér aðeins við að hesthúsa þessu.

Við hjónin ,,hvíldum" okkur svo í einn sólarhring.  Spásseruðum í kóngsins Köben og héldum áfram að borða, nú danskar kræsingar alveg þar til við stigum upp í vélina til Prag seint í gærkvöldi.

Það var svo gott að koma heim. Fyrsta sem minn elskulegi gerði var að fá sér brauð með dönskum ál og majó Sick  Síðan tók hann allt íslenska nammið, með mínu samþykki og faldi það einhvers staðar og ég ætla ekki einu sinni að reyna að leita að því. 

Það voru tvær örþreyttar sálir sem lögðust á koddann og tvær vellíðunar stunur bárust út í nóttina.

Fyrsta sem mér datt í hug í morgun var:  Hvar finn ég svona Detox stöð, nei bara jók. Tounge   

 


Fór næstum því á límingunni yfir 50 centum

Ég vissi betur en hélt samt í þetta litla hálmstá að reykingabarinn á Kastrup, þessi eini sem leyfði reykingar síðast þegar ég fór þar í gegn, hefði aumkvað sig yfir okkur strompana en mér varð ekki að ósk minni. 

Það er nú svo einkennilegt að ég hef ekkert fyrir því að fljúga reyklaus, hugsa ekki einu sinni út í nikotin tyggjóið sem ég hef alltaf í handtöskunni en um leið og ég er lent kemur þessi hræðilega þörf fyrir smók.  Þar sem ég og minn elskulegi vorum millilent í Köben og tveir tímar í næsta flug gúffaði ég upp í mig tyggjói og tuggði með áfergju. 

 Til þess að dreifa huganum fór ég í búðarráp.  Í matvörudeildinni hendi ég í körfu nokkrum vel völdum hlutum og þar sem ég var ekki með neina danska aura þá spyr ég hvort ekki sé hægt að borga með Euro.  Ekkert var sjálfsagðara, en þegar á að gefa til baka vill ekki betur til en svo að daman á enga skiptimynt og spyr hvort ég sé nokkuð með klink á mér.  Ég segi svo ekki vera og frussa út úr mér,, geturðu ekki athugað í hinum kassanum hvort ekki sé til mynt þar."  Nei, hún mátti ekki opna þann kassa hann var ekki hennar. ,, Jæja vinkona, og hvað ætlar þú þá að gera, gefa mér afslátt?"

  Þegar hér var komið er minn elskulegi kominn í nokkra metra fjarlægð frá þessari brjáluðu kerlingu.  Auðvitað endaði það með því að ég gafst upp, og fór í fússi frá kassanum 50 centum fátækari!

Minn elskulegi:  Hvað er eiginlega að þér manneskja, þetta voru skitin 50 cent !

Ég:  Já og hvað með það, rétt er rétt, ég bara læt ekki bjóða mér svona.

Minn:  Heyrðu við förum nú ekki á hausinn út af þessu

Ég:  Mér er bara alveg skítsama, þetta er alþjóða flugvöllur og lágmark að það sé skiptimynt í kassafjöndunum.

Minn:  Jæja elskan, er sígarettuþörfin alveg að fara með þig?

Ég:  Nei, ég er bara rosalega þyrst og með það strunsa ég að næsta bar.  Viltu eitthvað að drekka?  (Venjulega er nú það minn maður sem sækir drykki á barinn en ekki ég.)

Minn: Já vatn með gasi

Ég: Vatn!  Jæja þú getur svo sem drukkið þitt vatn en ég hafði nú hugsað mér eitthvað aðeins sterkara.

Þar sem ég er sest með glasið mitt aðeins farin að róast innra með mér.  Sjálfsagt var tyggjóið farið að hafa áhrif segi ég: 

Heyrðu, heldurðu að við getum ekki bara flogið VIP næst? 

Minn: Ha hvað meinarðu?

Ég : Jú sjáðu til, Margrét Þórhildur reykir enn svo það er örugglega hægt að fá inni í þessu reykherbergi hennar ef við fljúgum VIP.

Mér var ekki svarað.  Kallað út í vél.  Þriggja tíma flug heim og ég gat huggað mig við það að næsta kast kæmi ekki fyrr en í flughöfninni heima. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband