Færsluflokkur: Ferðalög

Erum á leiðinni heim að hitta eina af hamingjusömustu íbúum Evrópu

Nú fer að styttast í það að ég geti knúsað ykkur öll þarna í Hamingjulandinu ja alla vega ykkur sem ég kem til með að hitta næstu tvær vikurnar.  Ég hlakka mest til að dekra litla skriðdrekann minn hann Þóri Inga allan tíman eins og almennilegar ömmur eiga að gera. Það verður knúsað og kjassað, leikið og hlegið, dansað og sungið, lesið og horft á Bubba byggir allt í einni bunu. 

Við höldum héðan á morgun til Kaupmannahafnar og síðan þaðan heim í norðangarrann.  Egill okkar og Bríet eru farin heim á undan því nú stendur mikið til. Það á skvetta vatni á Elmu Lind, litlu prinsessuna okkar og koma barninu í kristinna manna tölu.  Verður það gert við hátíðlega athöfn í kirkjunni að Laufási á laugardaginn. Bara svo þið vitið það norðanmenn, þá verðum við á Grenivík um næstu helgi. 

Vegna mikilla eftirspurnar um að fá að berja okkur augum og fá að njóta okkar einstöku skemmtilegheita tilkynnist það hér með, ykkur sem alltaf eruð á síðustu stundu að panta tíma hjá okkur, að öll kvöld eru fullbókuð en þó eru nokkur hádegi enn laus. Við gætum líka e.t.v. troðið örfáum aðdáendum okkar inn á milla mála.  Wizard  NB verð í Kringlunni á mánudaginn milli fimm og sex við rúllustigann til hægri og gef eiginhandaráritanir, ekki í úlpu en gæti verið í skepnunni, (það er pelsdruslan), fer svona eftir veðri og vindum. Tounge  

Veit nú ekki hvort mikill tími gefst til skrifta vegna anna í skemmtanalífinu en ég reyni að henda inn einni og einni færslu ef þrek og tími gefst.  Þetta er nefninlega algjör kleppsvinna að kíka á ykkur greyin mín.  Fer venjulega beint á heilsuhæli þegar ég kem heim.  Þið þarna sem skiljið ekkert, þá er heima Prag og heim er Hamingjulandið Ísland. Wink

Kveðja inn í nóttina héðan að heiman.  

 


Búin að panta með fyrstu ferð

Jahá, svo nú er bara að panta far og drífa sig með nektarfluginu.  Allir karlar á sprellunum og konur, væntanlega þýskar, með skúfana undir handarkrikunum.  Allir í stuði og þambandi bjór eða þýsk vín sem síðan klístrast við evu og adamsklæðin þegar hellist úr glösum í þyngdarleysinu jóðlandi á tyrólsku. 

 Áhöfnin eins of fífl innan um hin fíflin kappklædd og uppástrokin með flugþjónabros á vörum biðja farþega vinsamlegast um að spenna sætisbeltin fyrir lendingu, sem koma til með að límast óþyrmilega fast við klístraða líkama.  Það fylgir nú ekki fréttinni hvort farþegar mæti naktir á áfangastað eða þeim verði gefinn kostur á að koma sér í larfana áður en stigið er frá borði.

 Ekki spurning ég panta ferð hvert á land sem er, ekki seinna en núna!ToungeLoL


mbl.is Óvenjuleg ferðamennska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ég sem var farin að hlakka svo til..

svo bara gleymir kallfauskurinn því að hann var búinn að lofa að taka mig með næst.  Tekur bara einhverja Ditu pítu í staðin. Sick  Ætli það hafi verið þetta von sem gerði útslagið ég er auðvitað bara dóttir, ekkert svona von kjaftæði.  Svo hefði ég alveg getað sparslað upp í hrukkurnar og gert mig svona málmkennda eins og hún lítur út fyrir að vera á myndinni. Síðan hefði ég líka sparað honum flugfargjaldið því ég hefði bara keyrt mig sjálfa á svæðið. 

Ég er bara grútspæld var meira að segja búin að fá leyfi hjá mínum elskulega  enda löngu ákveðið að hann tæki Ingibjörgu Sólrúnu með sér svo fær maður bara þetta svona beint í andlitið.

Þetta mál er sko í athugun skal ég segja ykkur.Whistling


mbl.is Dita von Teese gestur Lugner á óperudansleiknum í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hangandi í vírgirðingu með rósarunna í rassinum.

Minn elskulegi fór með mig og hundinn í skógargöngu í dag. Ég ætlaði nú varla að nenna þessu þar sem ansi er frostkalt en sól skein í heiði svo ég lét mig hafa það að drattast með. Ákveðið var að taka lengri leiðina og allt gekk þetta vel í byrjun þar sem við gengum eftir frostfríum slóða eða næstum því. Þegar við vorum komin um helming leiðarinnar fór að halla niðrí móti og framundan ein íshella. 

 Minn elskulegi, sem alltaf gengur svona tíu metrum á undan mér stoppar og segir,, Heyrðu elskan, ætli sé ekki best að ég leiði þig núna"  og að sjálfsögðu bjóst ég við að mér væri rétt hlý hönd og sterk en þess í stað heldur hann bara áfram sínu stiki og ég heyri hann muldra,,ætli sé ekki best að ganga hér meðfram slóðinni, haltu þér bara í vírgirðinguna"  Andskotans tillitsemi er þetta hugsa ég með mér þar sem ég fer fetið niður snarbratta brekkuna.  Minn elskulegi kominn í hvarf með hundinn á hælunum og ég þarna alein eins og belja á svelli, hangandi í vírgirðingunni sem gaf eftir í hverju togi, flækjandi fótunum um rætur og festandi buxurnar í villtum rósarrunnum.  

Eftir mikið strit og alla vöðva spennta komst ég loks niður á jafnsléttu.  Birtist þá ekki á móti mér hann Erró minn (hundurinn) sem auðsjáanlega hafði farið að undrast um mig.  Ég hugsaði OK, ef ég hefði dottið og ekki komist upp aftur hefði alla vega hundurinn leitað að mér.  Það var ekki sérlega hlýtt augnaráð sem mætti mínum elskulega þar sem ég skakklappaðist heim á leið með verki í fótum og hjartað í buxunum.  Enginn göngutúr í bráð, alla vega ekki fyrr en fer að hlána.    


Fagurt er rökkrið

Nú þegar húmar að kvöldi fara álfar og annað huldufólk að huga að búflutningum og gott ef ekki heyrist hér úti fyrir klingja í sleðabjöllum og reiðtygjum þessa góða fólks. Lítil von er nú á því að hér verði stjörnubjört nótt og tunglskin og ekki séns að norðurljósin dansi hér um háloftin í miðri Evrópu. 

Mikið hvað þjóðtrúin fylgir manni hvert á land sem er.  Hér að Stjörnusteini höfum við engan álfahólinn eða álagastein á landareigninni en klettarnir hér í grennd tala sínu máli og engin spurning að þar fyrirfinnst undurfrítt fólk í glitklæðum með kórónur á höfði og veldissprota í hönd.

Mér hefur alltaf fundist Þrettándinn dulúðlegur og held alltaf dálítið uppá hann fremur öðrum dögum dagatalsins. Ef til vill af því að þá finnst mér nýja árið endanlega gengið í garð. Ég reyni að brenna út öllum kertum frá jólum og áramótum sem fyrirfinnast í húsinu og læt ljósin loga þar til nýr dagur rís og geri enga undantekningu á því í kvöld og ekki veitir nú af að lýsa blessuðu fólkinu veginn til nýrra heimkynna þar sem myrkrið kemur til með að verða ansi svart í nótt þar sem hvorki verður tungl- eða stjörnubjört Þrettándanótt.     

 

     


Litla jólatréð sem lenti í hrakkningum

Ég er litla jólatréð sem á ættir mínar að rekja til Riga alla daga síðan á 16. öld.  Síðan lágu leiðir ,,fortrjáa" minna til Dresden á 19.öld en það var ekki fyrr en á 19. öldinni að við komum til Íslands með Dönum. Ég hef borið mín börr hér í Tékklandi þar til fyrir stuttu að menn komu með axir og tól og hjuggu mig niður og hentu mér upp á pallbíl og brunuðu með mig til borgarinnar.

Það fór ekkert sérlega vel um mig þarna á leiðinni innan um önnur tré sem örlögin höfðu líka leikið grátt en við því var ekkert að gera við gátum öll hlakkað til að lenda inná góðum heimilum og verða skreytt með ljósum og glingri og notið þess að láta börn sem og fullorðna dáðst af okkur.  Ég var líka viss um að ég yrði flottast af þeim öllum því minn stofn var beinn og greinarnar lögulegar eins og hefðartré sæmir.

Eftir að hafa dúsað þarna á pallbílnum í nokkra klukkustundir var prísundin loks á enda og mér var komið fyrir á einum jólamarkaðinum.  Ekki leið á löngu þar til lítil hnáta með rauða húfu kom auga á mig innan um alla vini mína og sagði: , Mamma þarna er tréð okkar"  Móðirin kom og skoðaði mig í bak og fyrir og síðan heyrði ég að,, jú, þetta gæti gengið, ekki of stórt og yrði fallegt í króknum í stofunni"

Þar með var ég tekið og troðið í gegn um einhverja forláta vél sem vafði mig plastneti, ekki beint þægilegt en ég lét mig hafa það því nú var stundin alveg að renna upp, ég yrði flottasta og dýrasta tréð um hátíðina.

 Fjölskyldan bar mig að bílnum en þar sem ég var í stærra lagi var ómögulegt að koma mér fyrir í Skodanum svo mér var komið fyrir uppá toppi bílsins og beislað kirfilega niður eða svo hélt þessi yndælis fjölskylda.  Við vorum rétt komin út á hraðbrautina og bíllinn brunaði á þó nokkrum hraða fór að hrikta í böndunum og ég fann hvernig losnaði um þau smátt og smátt þar til festingarnar gáfu sig og ég flaug af bílnum og lenti harkalega á malbikinu.  Bíllinn með fjölskyldunni brunaði frá mér því auðvitað tóku þau ekkert eftir þessu þar sem þetta gerðist á einu augnabliki.

Þarna lá ég síðan og gat enga björg mér veitt.  Bílar þutu hjá og var mesta mildi að ekki hlaust stórslys af þar sem ég lá á miðri akreininni. Allt í einu stoppaði ökumaður og vippaði mér upp í bílinn sinn og þar með var mér bjargað frá því að enda ævi mína útí vegkanti hér í Tékklandi.  Ég eignaðist sem sagt nýja fjölskyldu sem fer örugglega vel með mig og gerir mig að fallegasta jólatrénu í þorpinu en mér er nú oft hugsað til litlu stúlkunnar með rauðu húfuna sem valdi mig í byrjun, en vona bara að hún hafi fundið eitt af fjölskyldu minni sem gleður hana um jólin. 

 


Fékk víðáttubrjálæði á flugvellinum og amma alveg búin á því!

Það var tómlegt að koma heim í gærkvöldi eftir að hafa keyrt Ömmustrák á flugvöllinn. Engin hlátur eða grátur, engin sem æddi hér um húsið á litla bílnum sínum eða snerist eins og skopparakringla umhverfis hundinn.  Ég var búin að gleyma hvað þessi aldur er rosalega skemmtilegur.  Alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Mikið eigum við eftir að sakna þín litli stúfur. 

Barnið fékk víðáttubrjálæði þegar við komum á flugvöllinn þar sem aðeins ein vél var að fara í loftið á þessum tíma og flugstöðin hálf tóm.  Amma varð að hendast um alla flugstöðina á eftir þeim stutta þar sem hann hljóp frjáls ferða sinna og hélt þessa líka ræðu á sínu eigin tungumáli sem enginn skildi á meðan foreldrarnir bókuðu farangurinn inn.  Það var erfitt að sjá á eftir þeim heim í þetta skiptið þar sem jólin nálgast óðum og þau ekki hér um hátíðarnar. En ferðin heim gekk vel og við sjáumst fljótlega aftur ekki seinna en í febrúar.

 


Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað öðruvísi...

..og eiga leið um Frönsku-Sviss Þýskalands verða að heimsækja Pflaums Posthotel í Pegnitz. Algjör ævintýraheimur fyrir þá sem hafa áhuga á innanhúsaarkitektúr,  og ekki verða matgæðingar sviknir þar sem eldhúsið er frábært. 

PPP hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan 1707.  Listamaðurinn og innanhúsaarkitektinn Andreas Pflaum rekur það í dag ásamt bróður sínum sem er listakokkur. Fyrir 30 árum var hótelið endurbætt og fjölskyldan keypti tvö hús við hliðina sem voru samtengd því gamla. 

 Dirk Obliers innanhúsaarkitekt aðstoðaði vin sinn Andreas Pflaum við að innrétta hótelið á sínum tíma og þar hafa þeir vinir farið á meistaralegt flug.  Ekkert herbergi er eins hannað og hvert skúmaskot er nýtt til hins ýtrasta.  Sumum gæti þótt nóg um t.d. er bókaherbergið þakið bókum frá gólfi til lofts og þvílíkt og annað eins bókasafn!  Allt á rúi og stúi, mig langaði rosalega til að fara og laga aðeins til þarna inni.Whistling  Mikið er um ranghala í húsinu og minnir dálítið á völundarhús þar sem lýsing og speglar villa manni sýn.  Listaverkin eru eins og frosin ofan í gólfin, skúlptúrar og gínur klæddar furðufötum gera andrúmsloftið mjög óvenjulegt og jafnvel dálítið spúkí.

En sjón er sögu ríkari.  Ekki láta þetta fara fram hjá ykkur ef þið eruð á leið um þetta svæði!  Læt hér fylgja slóðina Info@ppp,com eða www.ppp.com

  


Stórglæsilegt - hitti beint ÍMARK

Andri Már Ingólfsson markaðsmaður ársins!  Til hamingju Andri!  Kom okkur svo sem ekki að óvörum þar sem við erum búin að fylgjast með þinni fábæru framtaksemi í gegnum árin.  Þú ert svo sannarlega búinn að vinna fyrir þessum heiðurstitli og við, ég og minn elskulegi óskum þér áframhaldandi velgengni.  Hlökkum til að sjá ykkur Heimsferðafólk hér í Prag á næstu dögum.

Á að bæta þjónustuleysið sem flugstöðin er fræg fyrir?

Nú verður gaman að sjá hvort þeir bæti þjónustu við farþega, þá á ég aðallega við farþega sem þurfa nauðsynlega á hjólastól að halda.  Ég hef í tvígang á þessu ári lent í veseni með hjólastólafarþega bæði við brottför og komu til landsins.  Þar sem þeir virða ekki alþjóðalög og er nokk sama hvort farþegi sem ekki er fær um að ferðast án hjálpar kemst út í vélina.

Dóttir mín lenti líka í því að koma heim með ungabarn þar sem tíu aðrar mæður biðu í einn og hálfan tíma með grátandi börn um miðja nótt eftir barnakerrunum úr vélinni. Engin svör fengust og ekkert nema ónotin!!

Vinkona mín kom frá Spáni fyrir nokkrum viku með eiginmann sinn sem hafði fengið hjartaáfall og var með brotinn ökla í ofanálag.  Enginn hjólastóll, enginn þjónusta!!!!!!!!!

Í öllum þessum tilvikum var búið að panta hjólastóla.  Þjónustuleysið og dónaskapurinn er þvílíkur við farþega að það er landi og þjóð til háborinnar skammar!  Og svo hækka þeir aðstöðugjöld um 56% !  Hlakka til næst þegar ég kem heim og þarf á hjálp eða aðstoð að halda. 


mbl.is Mótmæla hækkun aðstöðugjalda í Leifsstöð um 56%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband