8.1.2008 | 12:27
Að fara sínar eigin leiðir þarf ekki að vera svo slæmt
Mikið dáist ég að fólki sem rífur sig uppúr rúmi klukkan hálf sex til þess að mæta í leikfimi. Dóttir mín er ein af þessum ofurhetjum. Ég hef nú varla farið lengra en í póstkassann síðan um áramót enda orðin ansi grámygluleg ásýndar.
En það segir mér engin að æða í heilsurækt bara af því að það sé ,,inn" að mæta fílefldur fyrsta í nýári og sprikla og teygja með fjöldanum, þjást síðan af harðsperrum í margar vikur og bölsótast útí þjálfarann sem er gjörsamlega að drepa allan minn lífsþrótt.
Nú eru fjölmiðlar uppfullir af þessu heilsukjaftæði og auðvitað les maður allar þessar greinar og hugsar með sér ,,Ég ætti nú að fara að hreifa mig og vera með í heilsuátaki þjóðarinnar". Ég bara nenni því ekki núna og minn tími kemur bara með hækkandi sól eins og alltaf.
Svo pirrar það mig rosalega þegar ég les endalausar klausur um að éta þetta margar appelsínur og háma í mig eitthvert grasfæði en hlakkaði aðeins í mér þar sem ég las um daginn grein þar sem British Medical Journal upplýsti lesendur um að 8 lítrar af vatni á dag gerði engum gagn. Jamm, ég hef alltaf sagt að vatn væri til þess að þvo sér uppúr, algjör óþarfi að vera að þamba þetta í tíma og ótíma. Þoli ekki fólk sem gengur um götur með vatnsflöskuna eins og vörumerki heilsusamlegs lífernis. Fusssss!
En öllu gamni fylgir smá alvara og þar sem ég sit hér og þamba lútsterkt kaffi með mína sígó er ég svona hálft í hvoru að hugsa mér að fá mér göngutúr þó ekki sé lengra en í póstkassann. Það eru alveg svona 100 metrar. Góð byrjun á heilsuátaki ársins. Kannski ætti ég að taka vatnflöskuna með?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vinir og fjölskylda, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega. Er rétt að vakna NÚNA!
Ía Jóhannsdóttir, 10.1.2008 kl. 10:01
Ohhh hvað ég skil þig
Jóna Á. Gísladóttir, 12.1.2008 kl. 15:22
Er nú orðin vön því að æfa alla daga vikunnar í boltasparkinu.... en sem betur fer hef ég aldrei þurft að mæta á æfingar fyrir kl.9 á morganna! Hjúkk!!!
Ragga (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.