24.2.2008 | 11:12
Með komu Góu vorar innra með mér.
Í tilefni konudagsins og vorkomunnar.
Má ég hugsa um þig, spurði hann.
Já, sagði hún.
Alltaf? spurði hann.
Ekki í dimmu, sagði hún, en þegar sólin skín. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Heimsljós. Fegurð himinsins.
Lítil fluga suðaði við eyra mér og vakti mig snemma í morgun. Vorið er komið hugsaði ég eða var mig að dreyma? Létt klapp á öxlina, minn elskulegi að kveðja áður en hann hélt til borgarinnar. Heyrði í svefnrofunum að hann væri búinn að laga kaffi og það væri tilbúið úti á veröndinni og hundurinn væri strokinn eina ferðina enn og hvort ekki væri í lagi að láta hann eiga sig þar til hann kæmi sér sjálfur til föðurhúsanna. Ég klappaði mínum til baka á handlegginn og umlaði eitthvað í þá áttina að það væri í lagi.
Um leið og útihurðinni var lokað glaðvaknaði ég og hristi svefndrungann úr kollinum. Hvað sagði maðurinn, kaffi á veröndinni? Ég skellti mér í slopp, niður stigann og viti menn vorið var komið, eða alla vega leit allt þannig út.
Spörfuglarnir sungu frygðarsöngva í trjánum, morgunsólin vermdi andlit mitt og kaffið kraumaði á vélinni í útieldhúsinu okkar. Mig hafði sem sagt ekki verið að dreyma. Fyrsti dagur í Góu, Konudagurinn og vorboðinn ljúfi farinn að syngja.
Nú sit ég hér og nýt þess að drekka fyrsta morgunsopann minn hér úti. Hundspottið er kominn heim og liggur hér við fætur mér örþreyttur eftir langa morgungöngu og ekkert því til fyrirstöðu að byrja á vorverkunum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:16 | Facebook
Athugasemdir
Hrikalega áttu gott að geta setið úti í morgunmatnum, það eru alveg 3 mánuðir í það hjá okkur, en samgleðst þér samt.
Kveðja Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.2.2008 kl. 11:49
Mikið áttu gott! Njóttu þess vel ..
og til hamingju með daginn, konudaginn þann íslenska sem er í dag.
Marta B Helgadóttir, 24.2.2008 kl. 12:03
Maður finnur fyrir smá öfund... en njóttu þín.
Til hamingju með daginn
Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.2.2008 kl. 13:13
OOO hvað ég öfunda þig. Morgunkaffi úti í garði og örþreyttur hundur að dást að þér. Er hjá þér í huga. Eigðu ljúfan dag
Ásdís Sigurðardóttir, 24.2.2008 kl. 15:57
Takk fyrir góðar kveðjur. Fékk dálítið samviskubit yfir að blaðra svona um vorið. Við getum alveg eins átt von á hreti í mars. Í dag fór hitinn yfir 16° og ég er búin að dunda mér hér úti í átta tíma. Geri aðrir betur á konudaginn.
Ía Jóhannsdóttir, 24.2.2008 kl. 17:02
Til hamingju með daginn og -vorið - . Þegar ég var lítil hlakkaði ég alltaf til Góunnar fannst svo gott þegar hún losaði mig undan þorraþrælnum, því Góan með meiri birtu og vorið í kjölfarið, snaraði snjónum burt með sólbráðinni og þó að það snjóaði aftur, það gerði ekkert til, því skyndilega er orðið bjart fram yfir köldmat. Og þá lifnar líka ástarlíf farfuglanna og þeir þyrpast hingað yfir lönd og sæ, til að verma hjarta okkar Frónbúa, með söng sínum og kveikja líf og ljós í vorinu. En hjá þér, hlýtur þetta að vera töfrum líkast, konudagurinn í dag, fyrsti dagur í Góu, vorið komið og þú situr úti í garði, með morgunkaffið, og hlustar á lifandi tónlist. Sjálfir fuglar himinsins syngjandi ástarsöngva til þín um vorið, og konur. Er hægt að hafa það betra á sjálfan konudaginn?., ég held ekki. - Ekki laust við að ég vilji gjarnan vera í þínum sporum núna. Njóttu vel.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 24.2.2008 kl. 23:00
Ég á jörð, fallegt hús og bíl á fallegum stað í Norður Thailandi. Ég fór beint á netið að leita að ódýrum farmiða "heim" því ég er ekki búin að vera á íslandi í meira en 20 ár..Þetta er þrælapúl að búa hérna. Vorið? Maður byrjar morguninn á að skrapa bílrúður til að kaupa með kaffinu...og kemur helfrosin til baka. Nágranni minn sem ég kvartaði yfir kuldanum sagði að þetta héti ekki kuldi, heldur frískt loft!! Ég er að rembast núna að lóka vel við hann aftur..
Óskar Arnórsson, 25.2.2008 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.