Hvar er flugvöllurinn? Þetta er ekki alveg að gera sig fyrir lofthrædda.

Hér áður fyrr þegar við fórum norður heiða var bara keyrt eins og leið lá beint af augum og aldrei farið út af þjóðveginum.  Að taka aukakrók var ekkert rosalega vinsælt þ.a.l. hafði ég aldrei komið á Siglufjörð eða aðra útkjálka landsins.  En nú var breytt út af venju og við erum búin að þræða flest smáþorp og bæi norðurlands. 

Eftir frábæra daga fyrir norðan með litlu fjölskyldunni frá Prag og Garðabæ þar sem við spókuðum okkur í höfuðstað Norðlendinga, fórum í böðin á Mývatni og nutum sjáfarloftsins á Grenivík í sól og sumaryl tókum við bátinn út í Hrísey og tókum eina Taxann á svæðinu sem keyrði okkur um eyna og sagði um leið sögur af lífinu í eynni.  Sumar á Íslandi 2009 140  Þetta er sem sagt eini leigubíllinn þeirra Hríseyjarmanna.  Flott farartæki en frekar hast á misjöfnum vegum.

Eftir að hafa skoðað Hrísey héldum við suður á bóginn með stuttum stoppum á hinum ýmsu stöðum.  Ég hef oftsinnis sagt ykkur frá minni hrikalegu lofthræðslu en vegna þess að ég hafði aldrei komið á Siglufjörð vildi ég endilega keyra sem lá leið út á þetta margrómaða síldarpleis. 

Við vorum komin svona hálfa leið að Strákagöngum þegar var ég næstum farin út úr bílnum á ferð. Ég er ekki að djóka.  Ég hélt mér dauðahaldi í hurðina og hallaði mér yfir að mínum elskulega þar sem ég var alveg klár á því að ef ég hallaði mér að honum héldist bíllinn frekar á veginum en hentist ekki fyrir björg.  Í hvert skipti sem minn elskulegi opnaði munninn til að lýsa fyrir mér, sem sat með klemmd augu, fegurð lands og sjávar bað ég han um að halda KJ, horfa á veginn og hugsa bara um það að koma okkur niður úr þessu þverhnípi þegjandi og hljóðalaust.  Ég hefði engan áhuga á að vita hvernig umhorfs væri upp á þessum fjallvegi. ,,Keyrð þú bara og ekki tala við mig, ekki eitt orð!"

Göngin sem maður keyrir þarna á milli eru heldur ekki fyrir fólk með innilokunarkennd.  Ég er sem betur fer laus við að hafa hana líka en mér leið eins og ég færi inn í ginið á Miðgarðsorminum og kæmi inn í kolsvart holið sem engan endi ætlaði að taka.  EMMIN sem segja þér að þar geti þú farið inn í afkima ef þú mætir öðrum bíl eru eitthvað sem ég hef aldrei séð áður en auðvitað bráðnauðsynleg.  Ég saup hveljur í hvert skipti sem við sáum ljós framundan.  Náum við að næsta EMMI. 

 Ég var mjög fegin þegar við komumst út úr þessu svartholi og út í sumarsólina og þarna lá inn fægi síldarfjörður í öllu sínu veldi og ég sagði: ,, Hvar er flugvöllurinn?"

Minn leit á mig dálítið sposkur á svip og sagði: ,, Hva ætlar þú að fljúga suður?"  Ég get svarið það að það hvarflaði að mér, ég gat ekki hugsað mér að keyra þetta aftur og þá með hyldýpið á mína hönd allan tímann.

Við keyrðum inn í bæinn og ég sló á þráðinn til vinkonu minnar sem á hús þarna upp á brekkunni.  Hún var auðvitað ekki á svæðinu en svona á milli þess sem hún lóðsaði mig að húsinu og ég gekk um í garðinum hennar og kíkti á glugga með hennar leyfi datt út úr mér svona alveg óvart:,, Heyrðu Birna hvar er flugvöllurinn?"  Hún vissi alveg af minni lofthræðslu og sagði:  ,,Elskan mín, það er ekki lengur flogið til Siglufjarðar" og bætti svo við: ,, veistu vegurinn var sko helmingi verri hér í gamla daga, annars skil ég vel að það fari um fólk sem keyrir þetta svona í fyrsta skipti" 

Ég varð sem sagt að keyra þetta aftur til baka og ekki spyrja mig hvernig útsýnið er því ég fór þetta með lokuð augu.

Nenni ekki að segja ykkur fleiri sögur í dag, er farin út í góða veðrið.

Njótið sumarblíðunnar á meðan hún endist.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hí, hí, svona fór líka fyrir mér þegar ég fór í mína fyrstu ferð til Siglufjarðar, man að ég tók af mér beltið í göngunum ef ég þyrfti að hlaupa út í hasti   þetta var skárra í annað skiptið og reglulega gaman að koma þarna í góðu veðri.  Njóttu frísins mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.7.2009 kl. 12:18

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 23.7.2009 kl. 08:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband