4.1.2008 | 12:51
Tapað en ekki fundið!
Þar sem ég stóð á haus ofaní plastpoka í gær í leit að hring og armbandi sem ég tapaði á nýársnótt vissi ég ekki um hinn heilaga Antoníus sem er víst hinn vænsti dýrlingur og hjálpar auðkýfingum svo og almúganum að finna horfin auðæfi. Ég hef nú aldrei verið mjög trúuð á áheit svo ég held að ég hefði nú ekki farið að taka upp á því að biðja þann heilaga um að ómaka sig fyrir svona lítilræði enda hefur sá góði maður örugglega nóg á sinni könnu og ef satt skal segja var þessi leit ekkert geðsleg
Ég var svo óheppin þar sem við vorum að gleðjast með vinum okkar um áramótin á Rest. Reykjavík að tapa bæði forláta hring og armbandi. Þetta er auðvitað með ólíkindum tvennt á sama klukkutímanum. Minn elskulegi bað um að allt rusl væri sett í stóra plastpoka eftir lokun og kom með þetta heim til þess fara í gegnum. Ég hafði skreytt óheyrilega mikið fyrir þessi áramót svo þið getið rétt ímyndað ykkur hverskonar óþverri kom úr pokaskjattanum. Frekar óþrifalegt verk og ég var alveg viss að þetta bæri engan árangur sem líka kom á daginn.
Svo voru þetta jú bara dauðir hlutir, vona bara að einhver hafi notið góðs af og skarti nú þessu einhverstaðar í heiminum. En ef Antoníus er þarna einhvers staðar úti þá væri nú ekki verra að finna þetta á náttborðinu í morgunsárið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2008 | 10:44
Lélegar afsakanir

![]() |
Löggan send á reiða farþega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2008 | 12:51
Þegar vindur gnauðaði úti og kuldinn herjaði á merg og bein..
..sat ég inni við arineld og las Harðskafa, dálítið kuldalegt heiti á bók og átti vel við aðstæður hér úti fyrir. Bókin var svo sem ekki slæm og ekki góð. Arnaldur hefur oft sent frá sér betri bækur, verð ég nú að segja. Dálítið fannst mér hún langdregin á köflum svo og að ég gat mér fljótlega til um endinn og fannst mér það miður. Sakamálasögur eiga að koma manni að óvörum annars er ekkert fútt í þeim.
Nú er ég að byrja á bókinni hans Þráins, Englar dauðans. Finnst hún lofa góðu en segi ekkert fyrr en ég hef lokið við bókina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2008 | 13:02
Á nýju ári 2008
Gleðilegt nýtt ár! Búin að keyra áramótaskaupið hehemm, varð dálítið ,,Lost" yfir því. Ef til vill ekki nógu vel inn í þjóðarsálinni svo ekki skal dæma hart. Tóm smákökubox, ekkert nema heilsufæði í ísskápnum og fullt af góðum fyrirheitum fylgja okkur nú inn í nýtt og farsælt ár.
Nenni ekki að fylgjast með völvuspámennsku læt bara mína einkaspá reyna að rætast eins vel og hægt er. Hér eru jólakortin enn að berast í póstkassann frá vinum og ættingjum. Betra sent en aldrei og takk fyrir að muna eftir okkur útlögunum.
Lagaði aðeins myndina af mér svo fólk getur nú séð aðeins betur framan í þá ,,gömlu" Segi nú bara eins og Halla vinkona orðaði það í jólakveðjunni: ,,Einu sinni vorum við bæði ungar og fallegar en nú erum við bara fallegar" Gott að húmorinn í lagi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2007 | 10:57
Áramótakveðja héðan frá Stjörnusteini
..GAMLÁRSKVÖLD er sú stund sem minnir okkur best á vanmátt sjálfsins í tímanum. Þannig kemst Búi Árland að orði í Atómstöðinni. Dulítið sem vert er að hugleiða á tímamótum.
Öll skiljum við eftir eitthvað af okkar sjálfi í formi minninga þegar gamla árið kveður og vonandi horfa flestir björtum augum til komandi árs 2008. Að lifa fyrir líðandi stund og getað þakkað fyrir hvern dag, hvort sem okkur finnst hann hafa verið okkur gjöfull eða erfiður er mikil kúnst en ætti að takast ef við leggjum okkur fram. Grasið er heldur ekki alltaf grænna hinum megin girðingar.
Við hér að Stjörnusteini óskum ykkur öllum farsældar á nýju ári hvar sem þið eruð stödd í heiminum. Þökkum vináttu ykkar á lífsleiðinni og sendum ykkur ljós á nýju ári 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2007 | 09:47
Áramótin við Moldá
Að stíga á stokk, ekki einu sinni eldspítnastokk og strengja þess heit að gera eða ekki gera hitt eða þetta á nýju ári hefur aldrei hvarflað að mér. Básúna út um borg og bæ sitt áramótaheit og verða síðan að koma með skottið á milli lappanna og biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið við gefið loforð. Úps, nei askotakornið, held bara ekki.
En það eru örugglega margir sem eiga eftir að gera einhver áramótaheit nú um þessi áramót og ég segi bara good luck you guys!
Á miðnætti verður sjálfsagt sungið Hin Gömlu kynni gleymast ei, í stað Nú árið er liðið þar sem við höldum uppá nýja árið með góðum erlendum vinum okkar hér í Prag. Átján vinir okkar ætla að koma saman á Reykjavík og fagna með okkur nýju ári. Hér er það siður að hafa einsetinn veitingastaðinn okkar þetta eina kvöld ársins þannig að gestir hristast vel saman undir lifandi tónlist og kampavíni.
Pragbúar eru ansi skotglaðir og er mikil rakettusýning á vegum borgarinnar á miðri Moldá. Dálítið áhættusamt að vera þarna úti þar sem Tékkar eru ansi skotglaðir.
Við ég og minn elskulegi förum nú að tygja okkur til og renna í bæinn með fullan bíl af áramótaskrauti, höttum ýlum, stjörnuljósum og borðbombum til að gera veitingastaðinn okkar eins áramótalegan og hægt er. Held meira að segja að það sé fullbókað fyrir kvöldið. Góða skemmtun hvar sem þið eruð í heiminum og farið varlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2007 | 10:17
Nú reynir á athyglina..
..sagði minn elskulegi þar sem ég var að rúlla upp laugardagsmogganum. ,,Ha, hvað meinarðu?" Ekkert svar en var að vappa svona fram og til baka yfir öxlina á mér. Ég staldraði við mjög svo feminiska grein um hátíðarförðun kvenna. Ekki veitir nú af að kynna sér nýungar í sparsli og hyljurum þegar maður er kominn á minn aldur. Hehemm.
Með greininni fylgdu tvær myndir, önnur heljarinnar stór af konu á mínum aldri svo og annarri barnungri. Eitthvað fannst mér kunnuglegt við eldri skvísuna og varð svona ,tvíbaka", já eða ,,þríbaka" hjá mér. En þar sem greinin vakti næstum óskipta athygli mína var ég svo sem ekkert að pæla í myndunum. Þá kemur minn elskulegi yfir öxlina á mér, (þoli ekki þegar lesið er yfir öxlina) og segir ,,kannastu ekki við þessa konu" ,,Ha, hvaða konu" segi ég og rúlla blaðsíðunni upp. ,,Nei, ég þekki þessa konu ekki" hann: ,, er ekki allt í lagi með þig, skoðaðu myndina betur, sérðu ekki munnsvipinn" ég: ,, nei, á ég að gera það?" Ég er reyndar alveg rosalega ómannglögg en þessa konu átti ég víst að þekkja vel. Minn elskulegi gefst upp og segir: ,, rúllaðu niður og sjáðu hver er modelið "
Ég fékk vægt sjokk, haldið ekki að þessi flotta skvísa hafi verið besta vinkona mín alla tíð síðan við vorum í níu ára bekk. Hálfsíðumynd af þessari fallegu vinkonu minni og ég þekkti hana ekki! Mér varð að orði þegar ég var búin að átta mig á þessu:,, Andskoti ég held ég verði að fara á stúfana og kaupa mér hyljara og reyna að sparsla aðeins upp í hrukkufjandana. Þetta er alveg ótrúlega flott eða heyrðu heldur þú að það sé búið að redúsera myndina, þeir eru nú rosalega góðir í því þessir ljósmyndarar?"
Svar frá mínum elskulega:,, enga öfund, hún er svaka flott á myndinni"
Nei í alvöru Ásta mín þú er rosalega flott og hefur alltaf verið. Fæ vonandi leiðbeiningar hjá þér næst þegar ég kem í heimsókn
Ekki veitir af!!!!!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2007 | 11:51
Naglasúpan endalausa.
,,Ertu svöng?" spyr minn elskulegi í gærkvöldi og ég svara ,,nei, plís ekki meiri mat!" En fyrr en varir er komin kalkúnsamloka á disk með bacon og majó og auðvitað er þessu skóflað í sig með góðri lyst enda getur minn búið til veislumat eins og kerlingin sem notaði naglann í ævintýrinu góða.
Við höfum svo sem farið í skógargöngu með hundinn til að létta aðeins á okkur en þegar heim er komið er bara farið í það að laga heitt súkkulaði með Marshmallow! Hreint út sagt ógeðslegt! En mikið rosalega er það samt gott!
Sem betur fer held ég að allir afgangar séu á þrotum. Hangikjötið var notað kalt með uppstúf og grænum Ora, rjúpurnar fóru í tartalettur og svo síðast en ekki síst kalkúninn góði. Í gær tók ég mig til og henti öllu úr báðum ísskápunum sem ekki var nógu gott í hundskjaft. En ég tímdi ekki að farga restinni af kalkúninum sem auðvitað kom sér vel í gærkvöldi.
Var að hugsa um að henda öllu sælgæti sem fyrirfinnst hér í húsinu í poka og gefa hússtýrunni á morgun. Þá loksins verð ég ánægð, ekkert gúmmelaði lengur til!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2007 | 14:52
Bíbí og konfekt við arineld
Síðastliðna nótt kláraði ég bókina hennar Vigdísar Grímsdóttur um æviferil Bíbíar Ólafsdóttur. Það tók dálítið á að lesa um viðburðaríka ævi þessarar konu og Vigdís kemur frásögn hennar til skila á einlægan og áhrifaríkan hátt.
Ekki veit ég hvort það voru áhrif við lestur bókarinnar eða bara hrein græðgi sem gerði það að verkum að ég úðaði í mig konfekti á meðan ég gleypti í mig síðu eftir síðu. Ég er ekki mikið fyrir sælgæti en ég bara gat ekki hætt að stinga upp í mig mola eftir mola. Ef til vill var ég að bæla frá mér óæskilegum hugsunum sem leituð á mig öðru hvoru eða einhver var þarna úti sem langaði svo mikið í súkkulaði. Hef ekki hugmynd en þetta var óneitanlega dálítið einkennileg hegðun af minni hálfu.
Vigdís hafðu þökk fyrir að koma þessu á blað, hefur örugglega ekki verið átakalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gæti hugsast að sumir færu bara út að skjóta upp einni rakettu með börnum sínum nú eða fá sér fá sér aðeins meira af nýjársborðinu svo eru þó kokkuð margir sem nota auglýsingatímann í það að fara á salernið. Þar færi nú rándýr auglýsing fyrir bý. Klár á því að það verður skoðanakönnun á nýju ári, hversu margir horfðu á herlegheitin. Og gaman verður að heyra svörin. ,, Nei ég skrapp nú bara sí svona á klóið" eða ,, nei amma hringdi einmitt í mig þá" eða eitthvað annað skemmtilegt.
Annars man ég eftir því í gamla daga þegar Bessi heitinn Bjarnason og Árni Tryggva héldu uppi mjög skemmtilegum auglýsingum fyrir Happdrætti Háskólans. Faðir minn, blessuð sé minning hans, mátti aldrei missa af þessu og beið alltaf spenntur eftir að sjá hvaða grín vinirnir kæmu með á nýju ári og skemmti sér alltaf jafn vel.
Ég var nú líka svo fræg að koma fram eitt árið í nýjársauglýsingu Happdrætti Háskólans með Randveri vini mínum Þorlákssyni. Nú kemur hann fram með ekki ófrægari manni en John Cleese, sko minn mann, góður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2007 | 23:31
Ó helga nótt.
Nú hefur færst ró yfir heimilið og stjörnubjartur himinn hvelfist yfir okkur með allri sinni dýrð hér að Stjörnusteini. Við erum búin að eiga yndisleg jól með litlu fjölskyldunni okkar bæði í gær og í dag og nú sit ég hér ein við kertaljós og nýt kyrrðarinnar. Litla sálartetrið mitt er fullt af þakklæti fyrir þá blessun sem fylgir barnaláni en mikið hef ég saknað Soffíu minnar, litla skriðdrekans,Þóri Inga og Steina þessi jól. En það er ekki hægt að heimta allt hér í henni veslu, svo maður verður bara að vera þakklátur fyrir það sem Guð gefur manni hverju sinni. Og það koma jól eftir þessi jól.
Þegar þið vaknið í fyrramálið, gleymið ekki að gefa smáfuglunum. Það leynist alltaf einn og einn á meðal þeirra sem fylgja ykkur á lífsleiðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2007 | 22:58
Mamma þú verður að snúa messunni við!
Allt frá því ég var barn var sest niður klukkan sex, fjölskyldan og móðuramma mín og hlustað á messuna í útvarpinu og þessum sið hef ég haldið. Ég varð mér út um kassettu hjá Ríkisútvarpinu með jólamessunni eftir að ég fór að halda jól hér og hún var spiluð alla vega í fimm ef ekki sex ár. Það var dálítið fyndið með þessa spólu það varð að snúa henni við í tækinu þegar messan var hálfnuð og stundum gall í krökkunum: ,, mamma þú verður að snúa messunni við"
Ég man í gamla daga þegar amma mín sussaði á okkur systkinin. Við skildum sitja prúð og hljóð og hlusta á ritninguna og syngja alla sálmana á meðan mamma mín var yfirleitt að sýsla eitthvað í eldhúsinu en alltaf kom hún inn í stofu til að syngja með okkur Heims um ból, helg eru jól.
En talandi um messuna okkar hér í Prag þá nefndi ég þetta einhvern tíma við vinkonu mín og sagði að við værum eiginlega alveg búin að fá nóg af því að snúa alltaf jólamessunni svo hún sendi mér, fyrir nokkuð mörgum árum, jólamessuna á CD. Þvílíkur munur, nú þurfti ekki að snúa við messunni og falleg ritning og sálmar komu óhindruð úr geislaspilaranum.
En ef satt skal segja þá held ég að öll fjölskyldan sé farin að kunna jólaerindi Dómkirkjuprests upp á sína tíu fingur svo nú er kominn tími til að endurnýja messuna á þessu heimili. Mér datt í hug á aðfangadag að seinka jólunum hér um eina klukkustund og hlusta á messuna í beinni á netinu en æ ég vissi að það myndi ekki falla í góðan jarðveg hjá heimilisfólkinu svo og að það er ekki alveg að gera sig þetta net stundum, og hlusta á messuna í ,,stakadó" úps, held bara að það geri sig ekki.
Svo nú ætla ég að gera mér ferð upp í útvarp og fá nýja jólamessu fyrir næsta ár, veit ekki hvort þetta liggur léttilega fyrir almenning, alla vega var það ekki þannig í gamla daga þegar ég fékk kassettuna góðu. Þá varð ég að fara bakdyra megin og grenja þetta út. En þar sem ég þekkti vel til hjá þeirri stofnun var þetta ekki mikið mál fyrir mig en ég man að fólk sem bjó þá líka erlendis skildi ekki hvernig þetta var hægt. Ég held samt í dag að þetta sé ekki mikið mál, ætla alla vega að kíkja á gamla liðið þarna hjá RUV. og e.t.v. man einhver eftir mér. Svo er nú hann ,,litli" bróðir minn þarna og hann reddar þessu örugglega snarlega ef ég þekki hann rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2007 | 11:36
Jólakveðja frá Stjörnusteini
Megi jólin færa ykkur frið og fögnuð hvar sem þið eruð stödd í heiminum kæru vinir og fjölskylda. Njótið samverustunda í faðmi fjölskyldu og vina og hafið það reglulega huggulegt um hátíðina. Kveikjum á friðarkertum og minnumst þeirra sem ekki eru lengur á meðal okkar og biðjum fyrir öllum nær og fjær.
Jólaknús til ykkar allra frá okkur hér að Stjörnusteini.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 13:47
Jólaklukkur hljóma í byrjun lesturs jólakveðja hjá Ríkisútvarpinu
Það var ekki laust við að lítið tár eða tvö læddust í augnkrókana áðan þegar lestur jólakveðja hófst nú fyrir stuttu í Ríkisútvarpinu. Síðan ég man eftir mér hafa jólakveðjur landsmanna verið órjúfanlegur hluti Þorláksmessu ef frá eru talin þau ár sem við náðum ekki útvarpstengingu hér í Tékklandi.
Á okkar heimili á Íslandi var Þorláksmessa ávallt mjög skemmtileg. Minn elskulegi var yfirleitt á kaf í vinnu þar sem við rákum veitingastað í miðborginni en ég naut þess að vera heima með börnunum og klára undirbúning jólanna. Um kvöldið þegar búið var að loka Matstofunni fengum við hjónin okkur göngutúr niður Laugarveginn og alltaf var stoppað hjá gull- og úrsmiðunum Jóni og Óskari og fengið sér koníakslögg. Haldið var síðan áfram alla leið niður í miðbæ með smá stoppum hingað og þangað þar sem kunningjum og vinum var óskað Gleðilegra Jóla. Eftir bæjarrölt var haldið í Hraunbæinn og kíkt aðeins inn hjá góðvinum okkar. Þegar heim kom var síðan jólatréð skreytt. Yfirleitt var það nú minn elskulegi sem stóð í því en ég var góð þar sem ég sat í stól og stjórnaði verkinu með harðri hendi. Stundum laumaðist ég aftur inn í stofu þegar minn elskulegi var sofnaður og ,,lagaði" aðeins skreytinguna eftir mínu höfði.
Já það hefur mikið breyst hér síðan við héldum okkar fyrstu jól hér í borg og ein Þorláksmessa er mér ofarlega í huga núna þegar ég skrúfa til baka. Ekki man ég nú hvaða ár það var en það er örugglega langt síðan.
Allavega var Soffa okkar ekki hér þá með okkur þau jólin því annars hefði ég ekki verið svona alein á Þorláksmessu. Ætli sonurinn og minn elskulegi hafi ekki verið á kafi í vinnu því ég man bara eftir því að ég var að ganga hér ein um götur Prag í frostkaldri nóttinni og tárin streymdu niður andlitið, mikið fannst mér ég þá vera einmanna. Mikið saknaði ég þá þess að vera ekki heima á rölti niður Laugarveginn.
Já stundum var erfitt að vera hér í ókunnu landi en mikið má ég vera þakklát fyrir að þessi tilfinning kemur örsjaldan yfir mig og í dag hef ég næstum alla fjölskylduna hér hjá mér. Alla nema Soffu mína og hennar fjölskyldu. Mikið sakna ég þeirra núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 11:18
Skata, hangikjöt, rauðkál og jólakveðjur útvarpsins á Þorláksmessu
Hér hefur aldrei fengist leyfi til að elda skötu á heimilinu á Þorláksmessu enda borða ég ekki ónýtan mat! En minn elskulegi verður að fá þetta ómeti svo Skatan er komin hingað fljúgandi yfir hafið og staffið okkar og gestir verða bara að láta sig hafa það að þola ammoníaklyktina eina ferðina enn.
Þeir íslendingar sem borða Skötu og eru hér í borginni yfir hátíðarnar koma alltaf saman á Rest. Reykjavík og gæða sér á þessum þjóðlega rétti með tilheyrandi ummi og jammli. Við hin sem ekki borðum Skötu fáum okkur sjálfsagt í ár af jólahlaðborðinu okkar. Ef satt skal segja er ekki ýkja mikið um gesti á Reykjavík á Þorláksmessu þeir hrökklast í burtu um leið og lyktin fer að berast inn í salinn og út á götuna
Það er kominn mikill hátíðarblær hér yfir heimilinu. Rauðkálið soðið, grunnurinn af rjúpusósunni mallar í potti og hangikjötið komið yfir og húsið ylmar af Þorláksmessulykt, alveg eins og það á að vera. Nú bíð ég bara eftir að jóakveðjurnar byrji í útvarpinu, Guði sé lof fyrir netið, og á meðan ég hlusta á þær sný ég mér að því að laga eftirréttinn.
Núna á eftir rennum við í bæinn og hittum vini og kunningja í hundrað turna borginni okkar og röltum út á Stare Mesto en þar er jólamarkaður og meiri háttar jólalegt. Man ekki eftir að hafa séð eins smekklegar jólaskreytingar ein og í ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)