Færsluflokkur: Bloggar

Gleðigjafarnir mínir, ömmubörnin.

Dagur að kvöldi kominn og næturhúmið að síga hægt yfir sveitina okkar.  Svölurnar hnita hér í hringi eins og þeirra er siður þegar sólin sest.  Ég held að ekkert sé eins tignalegt og svölur á flugi.  Þær svífa hér yfir í u.þ.b. 15 mínútur áður en þær hverfa undir þakskeggin.  Síðan koma þær í ljós með fyrstu sólargeislunum í morgunsárið og fara sinn vanalega rúnt hér yfir húsin. 

 Einkennilegt háttalag hjá þessum fallegu fuglum.  Eins fallegur fugl og svalan er þá held ég að enginn fugl búi til jafn ósjáleg hreiður.  Í fjarlægð virka þau eins og kúpur sem búnar eru til úr allskonar úrgangi. Þetta festa þær einhvern veginn upp í  þaksperrum og rjáfrum húsanna.  Dálítill sóðaskapur af þessu sem við fjarlægjum alltaf þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrunum en þær koma alltaf aftur á vorin og setjast hér að yfir sumartímann.

Sólargeislinn okkar hún Elma Lind kom í heimsókn í dag til ömmu og afa við borðuðum saman hér litla Prag-fjölskyldan í sólinni seinni partinn. Afi grillaði kjúlla með kus kus blandað grænmeti og mango.  Barnið fékk auðvitað ekkert af þessu góðgæti þar sem hún er rétt nýfarin að fá smá grautarslettu.  Ohhh, get ekki beðið eftir því að mega stinga upp í hana einum og einum bita.

  Afbrýðisama hundspottið minn þurfti auðvitað að láta aðeins í sér heyra svo barninu varð hverft við og áttum við í mesta basli við að hugga prinsessuna sem sætti sig alls ekki við þetta óargadýr.  En þetta vonandi venst með tímanum.

Eftir að þau voru farin heyrði ég aðeins í litla prinsinum mínum honum Þóri Inga á Íslandi.  Hann blaðraði þessi ósköp við ömmu sína og eftir að amman var búin að marg ítreka að hún væri amma en ekki mamma þá allt í einu kom hátt, skýrt og greinilega:  Ammmma.  Ohh hvað maður er að verða stór strákur.

Þetta var svona krúttdagur í dag hér í blíðskaparveðri.   

      


Hún kom dansandi inn í heiminn.

Okkur var færður lítill sólageisli fyrir 31 ári eða nánar tiltekið 9. maí 1977 klukkan 8:30.  Þessi litli geisli lét engan bíða eftir sér og skaust út í tilveruna á tilsettum tíma okkur foreldrunum til mikillar hamingju og gleði. 

Það má eiginlega segja að hún hafi komið dansandi inn í heiminn og allar götur síðan hefur ekki verið nein lognmolla í kring um þá stelpu.  Nú er ég að tala um afmælisbarn dagsins, dóttur okkar Soffíu Rut sem heldur upp á daginn í dag heima með sinni litlu fjölskyldu og vinum.

Elsku Soffa mín knús og kossar til þín héðan frá okkur pabba í tilefni dagsins. Vildum gjarna vera þarna með þér í dag en sendi þér í staðin margar hlýjar hugsanir. 

 Þakka þér fyrir að vera til elskan.  Heimurinn væri ansi litlaus án þín.  Ég knúsa þig hér í huganum.  Elskum þig sæta stelpa. Happy Birthday  Kisses


Fyrir ykkur sem hafið stundum pælt í þessum stærðum

Have you ever wondered why A,B,C,D,DD,E,F,G and H are the letters used to define bra sizes?

If you have w.w, but couldn´t figure out what the letters stood for, it is about time you became informed!

A  -  ALMOST BOOBS.......

B  -  BARELY THERE

C  -  CAN´T COMPLAIN

D  -  DANG!

DD - DOUBLE DANG!

E  -  ENORMOUS

F  - FAKE

G  -  GET A REDUCTION

H  -  HELP ME, I´VE FALLEN AND CAN´T GET UP!

 Na-na-na-na 

 

 


Lítill pistill um umferðamenninguna í Hamingjulandinu

Það er víst ekki bara heima í Hamingjulandinu sem eitthvað er ábótavant í umferðinni. Þegar við heimsóttum landið okkar um daginn vorum við dálítið að pæla í umferðamenningunni og komumst að því að við erum mjög sjálfstæð þjóð sem setjum okkur eigin reglur og látum ekki skipa okkur fyrir að fara eftir lögum ef við komumst hjá því. 

Takið eftir, nú segi ég við því við vorum sjálfsagt engin undantekning frá reglunni þegar við bjuggum heima. En það er nú þannig að um leið og við stígum fæti inn í bíl á fósturjörðinni byrjum við á því að fylgjast mjög grannt með hraðamælinum.  Viljum nú ekki láta taka okkur í landhelgi svona fyrsta daginn.

Það sem við tókum strax eftir er að landar okkar vita ekki að það eru stefnuljós á bílnum og svona stöng sem þú ýtir varlega upp eða niður eftir því sem við á.  Ef til vill veit fólk þetta, er bara að spara rafmagnið, hvað veit ég.  Eða því finnst þetta algjör aðskotahlutur sem þjóni engum tilgangi svo best bara að hunsa þessa litlu stöng við stýrið hvort sem skipt er um akrein, innáakstur eða beygt sé inn í aðrar götur.

Innáakstur er stórvandamál, maður verður að sæta lagi til að komast inn á aðalbrautir.  Enginn gefur séns, allir eru svo sjálfstæðir í sínum bíl að þeir hafa ekki hugmynd um að fleiri séu á ferli og vilji komast leiðar sinnar.  Sem sagt allir ,,Palli einn í heiminum"

Rosalega mega landar mínir vera fegnir að umferðaljósin eru sægstyllt eða eru allir litblindir?  Gulur litur er örugglega ekki til í heilabúi margra.  Grænt er grænt, gult er grænt og rautt er appelsínugult.  Og drífa sig svo yfir gatnamótin og gefa hressilega í með ískri í dekkjum. Flott maður!

Framúrakstur á hægri akrein er bara hrein snilld!  Koma svo, kitla pinnann, sjá hvað kerran drífur. W00t

Svo fannst okkur alveg með einsdæmum allir jeppaeigendurnir á 15 milljóna tækjunum sem tíma örugglega ekki að láta fjarstýringu á farsímann í bílnum, allir með Prada síma við eyrað og keyrandi eins og kóngar í ríki sínu.  Flott skal það vera maður!

Á meðan dvöl okkar stóð vorum við vitni að tveimur bílveltum á Reykjavíkursvæðinu, sem betur fer urðu engin stórslys. 

Þar sem ég var að koma keyrandi frá Keflavík einn morguninn um ellefu leitið beygði sendiferðabíll fyrir mig inn á veginn við afleggjarann frá Keflavík. Ég hugsaði með mér jæja greyið hann er sjálfsagt að flýta sér.  Mér lá ekkert á og keyrði á löglegum hraða á eftir kauða.  Allt í einu hægir bíllinn á sér og tekur að rása á veginum.  Ég hugsa með mér, ætli það sé eitthvað að og hægi á mér um leið.  Sé ég þá hvað bílstjórinn hallar sér yfir í framsætið og sé ég ekki betur en hann taki upp síma.  Þarna keyrum við á 50 km hraða en löglegur hraði var þarna 90km. 

 Bannað var að keyra fram úr svo ég held mig í mátulegri fjarlægð á eftir bílnum.  Eftir nokkra stund hallar bílstjórinn sér aftur til hægri og nú sé ég að hann heldur á flösku í hendinni.  Bíllinn rásar og auðséð að maðurinn er að bögglast við að skrúfa tappann af, síðan leggur hann flöskuna frá sér og tekur upp eitthvað sem líktist brauði eða hvað veit ég.  Þarna var hann bara að borða hádegissnarlið sitt hinn rólegasti og algjörlega einn í heiminum.

Ef ég hefði verið stressaður bílstjóri hefði ég verið búin að blikka ljósum, blása í lúðra eða hvað veit ég en ég var orðin dálítið forvitin um framvindu mála svo ég bara lullaði þarna á eftir.  Þegar við komum síðan að vegaframkvæmdunum við Vatnsleysu/Voga og ,,aumingjaskiltið"  sem varla sést sýnir 50 km hraðatakmörkun, haldið ekki að kauði gefi í og snarar örugglega hraðamælinum upp í 90 ja alla vega sá ég hann ekki aftur.  Sem sagt matartíminn var búinn og nú bara að drífa sig í vinnuna.  

Er þetta hægt, ég bara spyr?  

Annars er bara hér allt í góðu og fínt veður.    Road Rage 

 

 


mbl.is Sektaðir fyrir að keyra of hægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottir strákar á fráum fákum

Frábært framtak hjá þessum heiðursmönnum.  Tek ofan fyrir þeim.  Vonandi verður þarna fjölmenni til að styðja þá í þessum hugvitsömu aðgerðum.
mbl.is Hilmir Snær og Benedikt ríða í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvottavélin farin að færa sig upp á skaftið

Ég er búin að horfa fram hjá því í mörg ár að þvottavélin mín étur reglulega sokka míns elskulega.  Hef bara ekki sagt múkk og leyft henni að fara sínu fram en nú er kvikindið farin að færa sig upp á skaftið og orðin virkilega gráðug.  Hún er sem sé farin að kjamsa á blúndunærunum mínum og það á nú ekki alveg við hana vindu, skítt með sokkaplöggin en rándýrt hýjalín, þá er mælirinn fullur.

Ég er búin að ragna og bölsóttast yfir henni en ekkert gengur, hún lætur einfaldlega ekki segjast og heldur áfram uppteknum hætti svona við og við.  Ég get svarið þetta eins og ég sit hérna.  Djöfuls græðgi í kvikindinu.

Eitt sinn eignaðist ég svona líka fínan poka sem mér var sagt að setja alla sokka, nærur og hannað fínerí í og binda rækilega fyrir áður en ég setti það í gin vélarinnar.  Þetta gerði ég einu sinni eða tvisvar.  Ég hafði enga þolinmæði í svona dútl við þvottinn og pokaskjattinn týndist einn góðan veðurdag. 

Er að fara að taka út úr kvikindinu.  Taldi í hana áður en ég setti hana í gang, nei joke. Launderer 

 


Auður Vésteinsdóttir, velkomin í Listasetrið Leifsbúð

Nú er aftur að færast líf í Listasetrið okkar og fyrsti gestur okkar mættur á svæðið.  Auður Vésteinsdóttir myndlistamaður mun dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verkum sínum. Við bjóðum hana og hennar eiginmann Svein Baldursson velkomin og vonum að þau njóti dvalarinnar hér.  

Það var vinalegt að horfa yfir að Leifsbúð í gærkvöldi, uppljómaða, vitandi af svo góðu fólki þarna að vinnu.  Erró minn var fljótur að koma sér í kynni við nýja ábúendur og í morgun skellti hann sér í morgungöngu með þeim hjónum í góða veðrinu. 

       Læt hér fylgja vefsíðuna okkar: www.leifsbud.cz Painter 


Þær taka ,,fýlupillur" líka í Kóngsins Köbenhavn

Komin heim frá Hamingjulandinu heil á húfi en auðvitað töskulaus. Ég mátti svo sem alveg búast við því þar sem ég hafði aðeins 25 mín í millilendingu í Köben.  Held að heilinn í mér sé aðeins farinn að klikka, ég hef lent í þessu áður að bóka mig á flug með svona stuttum millilendingartíma og lofað sjálfi mér að gera það aldrei aftur en einhvern vegin dettur þetta bara í gleymskunnar dá og ég lendi aftur og aftur í þessari hringyðu sem líkist geðveiki.

Þegar ég kom til Keflavíkur um hádegisbil var fátt um manninn í innbókun og ég þakkaði fyrir það pent í huganum.  Þar sem ég stend fremst við borðið kemur voða sæt stúlka til mín og segir:  ég skal hjálpa þér að bóka þig inn hérna megin.  Ja hérna hugsa ég eitthvað hefur nú þjónustan batnað.

Stúlkan dregur mig að maskínu sem stendur þarna aðeins afsíðis og sé ég þá að þetta er  sjálfbókunarvél. Ég brosi mínu blíðasta og segi:  Ég held að þetta gangi ekki ég verð að millilenda og bóka töskuna alla leið til Prag.  Ekkert mál segir hún, ég ætla bara að kenna þér á þetta og rífur um leið af mér bókunarblaðið  og pikkar inn númer og aftur númer, segir svo voða sætt sjáðu, svo bara ýtir þú á áfram. 

 Á meðan er ég á kafi ofan í tösku að leita að gleraugunum því ég sé ekki glóru án þeirra, þ.a.l. missti ég af þessari kennslustund í innbókun.  Ég nennti ekki að fara að útskýra fyrir henni að ég  hefði bara engan áhuga á svona apparati, sem sagt þarna var ég rosalega meðvirk Hallgerður. Hehehehhe.... Auðvitað varð ég síðan að fara að afgreiðsluborðinu og bóka inn töskurnar, þetta var sem sé algjör tvíverknaður. 

Þar tók á móti mér önnur yndælis stúlka og ég krossaði fingur, góðu verndarar, enga yfirvikt!  Taskan bókuð og ég bið um Priority-miða á töskuna vegna þess hve stutt sé á milli véla.  Ekkert slíkt fékkst en hún vafði Saga miða um handfangið og sagði að það virkaði rosa vel. Huhumm ég vissi betur.  

Þegar ég kem inn í vélina sé ég að ,,apparatið" hafði gefið mér sæti næstum aftast í vélinni og lítil von um að geta látið færa sig því vélin var fullbókuð.  Flugið yfir hafið gekk vel þrátt fyrir að ég gat engan vegin hreyft mig þar sem 170 kg. karlmaður sat mér við hlið og þrýsti sínum holdlega líkama fast að mér alla leiðina. Þegar við nálgumst Kóngsins Köben kalla ég í eina freyjuna og spyr hvort möguleiki sé á að ég geti fengið að færa mig fram í þar sem ég hafi svo lítinn tíma á milli véla , þetta var ekkert mál og ég gat loks andað eðlilega síðustu tíu mínúturnar.

Ég er lent og þá byrjar martröðin fyrir alvöru.  Hlaup frá terminal B yfir í C til að bóka mig í Transit.  Þar er ætlunin að farþegar taki miða og bíði rólegir þangað til kemur að þeim.  Ég hafði bara engan tíma í þetta svo ég arka að næsta deski og bið unga konu um að bjarga mér á nóinu þar sem vélin væri að fara eftir 15 mín.  Sú hafði tekið nokkrar ,,fýlupillur" um morguninn og var ekkert nema ólundin.  Ég taldi upp á 100 andaði djúpt, talaði dönsku með ísl. hreim en það hefði ég einfaldlega ekki átt að gera því þá fyrst fór stúlkan í baklás.  Loksins, loksins og ég aftur til baka alla leið á terminal A.  Hljóp eins og geðsjúklingur með svitastrokið andlit og rétt náði að smeygja mér inn um hliðið áður en því var skellt aftur.  Hjúkket ég náði!

Óveður geisaði í Prag í lendingu og vélin tók dýfur og hentist til hægri og vinstri vegna mikilla sviptivinda. Haglið dundi á vélarskrokknum og síðan steypiregn í kjölfarið.  Veðurguðirnir tóku ekki sérlega vel á móti mér í gærkvöldi og síðan til þess að kóróna allt kom ekki taskan.

Það var úrvinda kona sem féll í faðm síns elskulega.  Gat vart komið upp orði. Eina hugsunin var rúm og sofa og sofa. 

 

 

 


Kveð ykkur öll með söknuði

Síðasti dagur minn hér í Hamingjulandinu að þessu sinni g á morgun flýg ég heim.  Þessi tími er búinn að vera hreint út sagt frábær og ég hef notið hverrar mínútu með fjölskyldunni og vinum.  Mikið er ég rík og mikið má ég þakka fyrir. OK, ekki hella sér út í dramatíkina núna þetta er búið að vera svo frábær tími.

Í dag fórum við til Egils bróður í Brunch.  Eins og alltaf frábært að heimsækja þau þar sem hljóðfærin eru í hverju horni og börnin gera mann hálf vitlausan með glamri á píanó og önnur tiltæk slagverk.  Lútsterkt kaffi bætir upp hausverkinn svo og þeirra elskulega nærvera.

Eftir kossa og knús röltum við Soffa mín með Þóri Inga niður á Skúlagötu. Á Hlemmi varfólk að safnast saman í kröfugönguna og ég svona hálft í hvoru bjóst við að heyra Maístjörnuna en þess í stað bárust jazzaðir tónar um svæðið svo mín fór bara að dilla sér þar sem hún gekk með kerruna á undan sér.  Hummm... eitthvað hefur nú fylkingatónlistasmekkurinn breyst með árunum.

Við sátum síðan hjá mömmu og drukkum MEIRA KAFFI og spjölluðum við þá gömlu og ég lofaði að hún fengi að koma til okkar með haustinu.  Hún var strax farin að pakka niður í huganum þegar við kvöddum. Elsku mamma mín.

Amman bauð síðan litlu fjölskyldunni í kvöldmat í Grillið á Sögu.  Frábær matur, þjónusta og ekki spillti útsýnið yfir borgina okkar í kvöldsólinni. 

 Að sjálfsögðu var Þórir Ingi stjarna kvöldsins og það fyrsta sem hann gerði þegar þjónninn kom að borðinu með matseðlana var að skipa honum að setjast niður.  Sesssdu!!  var sagt hátt skírt og greinilega og aumingja þjónninn vissi ekki hvort hann æt´ð hlýða skipuninni, þessi litli gutti var jú gestur og gestir hafa alltaf rétt fyrir sér.

Frábært kvöld sem endaði með því að Daddi bróðir og Bökka komu aðeins við í Garðabænum svo við gætum aðeins knúsað hvort annað áður en ég héldi í faðm litlu útrásarfjölskyldunnar í Prag.

Mikið var gaman að koma heim.  Ég elska ykkur öll með tölu.

 


1. maí fyrir þrjátíu árum.

1. maí fyrir nákvæmlega þrjátíu árum stóð lítill þriggja ára gutti  fyrir utan veitingastað foreldra sinna við Hlemm og vakti mikla athygli vegfarenda þar sem hann stóð klæddur í hvíta kokkasvuntu sem bundin var undir handakrikana og náði alla leið niður að strigaskónum.  Í hendinni bar hann stóra sleif sem hann hélt uppi sem veldissprota. Birtist mynd af þessum litla ljóshærða baráttumanni í einhverju dagblaðanna daginn eftir þar sem hann stóð þetta líka vígalegur tilbúinn í slaginn.

Fólk var að safnast saman með kröfuspjöldin og verkalýðsfána því nú átti að halda fylktu liði niður Laugaveginn. Þar sem litli guttinn stóð í sinni sértöku múnderingu og fylgdist með þegar fólk fólk fór að raða sér upp eftir öllum kúnstarinnar reglum tók hann allt í einu eftir því að nú hafði bæst í hópinn Lúðrasveit sem hann kallaði alltaf hornablástur.  Sá stutti kætist allur og þar sem hann hafði nýlega farið í skrúðgöngu með foreldrum sínum á sumardaginn fyrsta og mundi vel eftir fánum og blöðrum sem fylgdu svona skrúðgöngum., hélt hann auðvitað að nú ætti að endurtaka leikinn.

Hann segir við föður sinn sem stendur þarna með honum:  Pabbi koma í skrúðgöngu.

 Marching Band Nei, við förum ekki í þessa skrúðgöngu.

En pabbi það er hornablástur, ég vil fara í skrúðgöngu.

Nei, við förum ekki í svona skrúðgöngu, þetta eru bara kommúnistar.

Sama hvernig sá stutti suðaði, pabba var ekki haggað.  Sjálfsagt hafa fallið nokkur tár enda hvernig átti lítill þriggja og hálfs árs gutti að skilja að pabbi vildi ekki fara með honum í skrúðgöngu.   Hann varð að láta sér nægja að fylgjast með þegar fylkingin hélt af stað niður Laugaveginn með gjallandi hornablæstri.

Orðið kommúnisti bættist við orðaforða barnsins og var það versta sem hann gat sagt ef honum mislíkaði og þar sem bannað var að blóta á heimilinu var þetta orð notað í staðin.

Svona var nú uppeldið á þeim bænum.  Ekki þori ég að segja til um hvar hann stendur nú í pólitíkinni en ég hallast að því að hann sé hægrisinnaður í dag. 


mbl.is Kröfuganga frá Hlemmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband