Færsluflokkur: Bloggar
28.4.2008 | 11:08
Ég er að læra nýtt tungumál sem heitir ,,Þóríska".
Dagarnir hér þjóta frá okkur og hvernig á annað að vera þegar maður er með hugann við lítinn gutta sem stoppar aldrei og lætur afa og ömmu snúast eins og skoparakringlur allan daginn.
Við höfum líka orðið að hafa okkur öll við að læra nýtt tungumál blandað táknmáli sbr. ,,brrritssi"/bíll, ssssiiii með vísifingur á vör/ drekka. Nokkur orð eru mjög skiljanleg t.d. ,,sessssdu" sem er notað mikið í svona skipunartón, með hrikalegri áherslu. Síðan er eitt orð sem allir ættu að skilja og það er orðið ,,agalega" en hefur allt aðra meiningu í munni barnsins. E.t.v. verð ég búin að fá botn í þetta áður en ég fer heim.
Er þetta ekki bara yndislegt!
En nú eru mamma og pabbi komin heim frá útlöndum og afi og amma komin í ,,frí" í nokkra daga.
Hér á fjórða degi sumars sendi ég ykkur öllum, vinir mínir og fjölskylda, okkar bestur kveðjur inn í gott og sólríkt sumar !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.4.2008 | 10:50
Hamingjulandi í sjónmáli, blásið í lúðra vinir mínir.
Þá er ég búin að henda restinni ofan í tösku. Alveg sama hvort maður er að fara helgarreisu eða til lengri tíma, alltaf treður maður í töskurnar einhverju sem síðan er aldrei notað á ferðalaginu, liggur þarna bara engum til gagns og síðan tekið upp þegar heim er komið lyktandi og krumpað. Þarf að fá leiðsögn í ferðalaganiðurpökkun. Er einhver þarna úti sem kann þetta, ég meina þá 100%.
Búin að ganga um allt húsið og athuga hvort straujárnið, kaffikannan eða önnur rafmagnstæki eru ekki örugglega aftengd. Vinnumennirnir búnir að fá fyrirlestur um hvað eigi að klára hér áður en ég sný aftur heim og fyrirmæli um að hugsa sómasamlega um hundinn.
Þá held ég að tími sé til kominn að leggja í hann.
Þið mætið svo öll í Keflavík í kvöld og takið á móti mér með blómum og þið vogið ykkur ekki að gleyma að breiða út rauða dregilinn. Síðan þætti mér óskaplega vænt um að blásið yrði í lúðra, svona eins og gert er í ,,hvíta" húsinu á nesinu.
Ég skal svo syngja fyrir ykkur í staðin Ó fögur er vor fósturjörð.
Love U2 guys!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.4.2008 | 20:26
Ætla að koma með sumarið með mér
Á morgun verður haldið fljúgandi yfir haf og lönd beint í faðm Hamingjulandsins. Einhvern veginn náðum við að klúðra farseðlunum þannig að minn elskulegi fer héðan klukkan fimm í fyrramálið en ég ekki fyrr en fimm um eftirmiðdaginn. Aumingja kallinn minn verður að bíða í fimm tíma í Köben en ég vorkenni honum svo sem ekkert, Köben er alveg þess virði að eyða nokkrum klukkutímum á randi um stræti og torg.
Amman er auðvitað búin að fylla tösku af nýjum fötum á prinsinn sinn, stórum Bubba byggir og Tomma tog. Hvað ég hlakka til að knúsa hann og dekra upp úr skónum þessa fáu daga sem við verðum saman. Skrúðganga á Sumardaginn fyrsta með hornablæstri, ís og blöðru.
Ég vona bara að barnið þekki ömmu sína og afa þegar þau koma með öll lætin og brussuganginn. Hendi sér bara ekki undir rúm af skelfingu við þessa brjálæðinga frá útlöndum. Verðum að reyna að hafa hemil á okkur svona fyrstu klukkustundina og ekki kremja hann í klessu. Barnið er jú bara eins og hálfs.
Við ætlum að reyna að koma með pínu lítið af sumrinu með okkur í farteskinu, en lofum engu þar um. Ekki veit ég hvort mikill tími gefst til að blogga þessa daga en ég ætla nú samt að taka með mér tölvudrusluna svona in case.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2008 | 14:46
Gaman að vera Íslendingur hér í dag.
Þegar við fluttum hingað fyrir átján árum og opnuðum fyrsta einkarekna veitingahúsið í Tékklandi fundum við vel fyrir því hversu velviljaðir Tékkar voru í garð okkar Íslendinga. Þeir hræddust ekki þessa litlu þjóð úr norðri sem engan hafði herinn og orðið útrás þekktist varla í íslensku máli.
Öðru máli gegndi um stórabróður í vestri þar voru þeir ekki öruggir með sig. Enda kom það í ljós 1993 þegar landið skiptist í Slóvakíu og Tékkland þá fengu útlendingar aðeins að finna fyrir því að þeir voru hér gestir og höfðu komið hingað með sitt ,,know how" en nú gætu Tékkar tekið sjálfir við.
Margir hrökkluðust úr góðu starfi og sneru aftur til síns heima. Tékkar tóku við yfirmannastöðum í stóru fyrirtækjunum en uppgötvuðu fljótlega að þeir voru alls ekki tilbúnir til að takast á við mörg af þeim verkefnum sem útlendingar höfðu leyst af hendi eftir ,,flauelisbyltinguna".
Hér var mikil ringulreið á markaðinum og við fengum svo sem líka að finna fyrir því að við vorum bara hér til að kenna en síðan gætum við farið heim og lokað á eftir okkur. Við héldum okkar ásetningi og börðumst eins vel og við frekar gátum við að halda okkar fyrirtæki og láta engan hrekja okkur í burtu.
Árið 1994 viðurkendu Tékkar að hafa verið of fljótir á sér og tóku útlendinga í sátt, ja alla vega að hluta til. Enn var samt hart barist á sumum vígstöðvum.
Greinin sem birtist í Prague Post 16. apríl þar sem m.a. er viðtal við minn eiginmann, hefur vakið mikla athygli, þá sérstaklega hjá útlendingum sem búa hér. Litla landið okkar er komið á kortið svo um mundar og við erum ekki lengur þessi fátæka þjóð sem engum ögraði.
Það er gaman að vera Íslendingur hér í dag. Við erum mjög stolt af þessum íslensku fyrirtækjum sem hér hafa fjárfest og megi þeim vegna vel hér í framtíðinni.
![]() |
Fjallað um útrásina í Tékklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.4.2008 | 12:53
Hér var líka slegið upp veislu og kampavínið flæddi.
Ég hélt líka grillparý og kampavínið freyddi og dansað var fram á nótt þegar ég frétti að Erró minn hafði eignast fimm hvolpa með tík hér í nágrenninu í óþökk allra.
Gamall maður barði hér að dyrum dag einn fyrir mörgum árum og tilkynnti okkur það með sínu einstaka látbragði, sem okkur hjónum leist nú ekki mikið á þar sem sá gamli skók sér á mjög svo grófan hátt fyrir framan okkur og benti á hundinn. Lyfti síðan upp hendi með útréttum fimm fingrum og með hinni gaf hann þetta skemmtilega merki með einum. Aumingja karlinn talaði ekki þýsku hvað þá ensku og við ekki sleip í tékkneskunni svo þetta var eina leiðin til að gera sig skiljanlegan. Á meðan hann útlistaði þessu fyrir okkur hló hann svo mikið svo skein í tannlausa gómana að tárin runnu niður hrukkótt andlitið í stríðum straumi.
Eftir nokkra mæðu skildum við þó að hann átti ekki tíkina heldur nágranni hans. Við gerðum okkur ferð til að bera afkvæmin augum og tókum hundspottið með okkur í þennan göngutúr. Þegar við nálguðumst húsið og frúin kom út í garð ansi súr á svip, hélt örugglega að við ætluðum að krefjast peninga fyrir hvolpana, því auðvitað er hægt að græða á svona eðaldýri eins og Erró, kom tíkarspottið í ljós, úfin og ekki einu sinni sæt.
Á meðan við röbbuðum við frúnna stóð minn prins eins og myndastytta og horfði í öfuga átt. Hann vildi með þessu segja okkur að hingað hefði hann aldrei lagt leið sína og kannaðist ekkert við þessi afkvæmi sín. Það skildi engin voga sér að kenna honum um þessar ófarir tíkarinnar.
Það fer ekkert á milli mála að einn af hvolpunum varð eftir hér í hverfinu. Minn verður stjörnuvitlaus ef hann mætir honum á förnum vegi.
Þarna þurfti víst örugglega ekki að stíga neinn dans. Náttúran sá til þess.
![]() |
Ástfangnir gíraffar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.4.2008 | 07:33
Æ, nú bætist þetta við vorverkin í borginni.
Nýbúið að gefa út þá yfirlýsingu að allt ætti að vera orðið spik og spa fyrir 17. júní. Yfirlýsing sem mér fannst nú dálítið hlægileg. Er það ekki sómi hverrar borgarstjórnar hvar sem er í heiminum að sjá um að borgin okkar sé hrein og snyrtileg. Þarf að auglýsa það í öllum fjölmiðlum. Er ekki líka sjálfsagður hlutur að borgarbúar gangi sómasamlega um sína borg og beri virðingu fyrir mannvirkjum og öllu umhverfi sínu.
Hvað er svona merkilegt við það að götuhreinsun fari fram, eða veggjakrot hreinsað af húsum, þarf að mynda það í bak og fyrir og útlista það í fréttamiðlum og væla yfir því hvað kemur undan sjónum. Veit ekki betur en allir verði að taka til hendinni við vorverkin hvar sem er í veröldinni.
Ætli borgarstjórinn ykkar verði bara ekki að selja annan lystigarð núna til að ná upp í hreinsunarkostnað. Það er nú líka eitt axarskaftið í viðbót.
Nú ætla ég að láta taka mynd af mér þar sem ég og minn elskulegi erum á kafi í vorverkunum og við bíðum ekkert eftir sóparanum frá borginni, við hreinsum okkar götu sjálf.
![]() |
Krotað á strætó í skjóli nætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2008 | 22:13
Sokkabuxurnar mínar sem komu öllum í uppnám!
Þetta er ekki einu sinni fyndið en hér sit ég alveg miður mín rétt nýkomin heim úr boði hjá góðum vinum mínum. Hvað haldið þið að hafi verið mest áberandi í þessu boði, jú sokkabuxurnar sem ég hafði hysjað upp um mig til þess að líta sómasamlega út. Þetta er ekki jók, þetta er ,,fakta"!!! Ef ég tæki minn klæðaburð hátíðlega þá væri ég bara núna í algjöru rusli.
Skrúfum til baka. Klukkan er þrjú, Tími til kominn að taka sig til, því við erum boðin í boð til vina okkar þar sem á að halda svona "welcome" patry fyrir vini okkar frá Las Vegas. Og dressið sem ég hafði ætlað að klæðast og vera flottust, fittaði bara ekki inn í veðráttuna. Sem sé hér er skítakuldi!!! Ég dreg fram svart dress frá dönskum fatahönnuði. (elska Bitte Kai Ran) þá kemur að sokkum. Finn nýja sokka sem keyptir voru í Vínarborg, takið eftir sko Vínarborg, bíð ykkur ekki upp á neitt annað og hysja upp um mig þessar forláta sokkabuxur. Lít í spegil, djöfullinn , þetta eru rosalega spes sokkabuxur og fittuðu við átfittið eins og flís við rass. Svona með sérsöku design og þrusu flottar stelpur.
Halló var ég ekki búin að segja að þessi færsla er eiginlega ekki fyrir ykkur strákar mínir.
Ég mæti fyrst í boðið þar sem ég ætlaði að hjálpa vinkonu minni aðeins við undirbúning. Hún rekur strax augun í sokkabuxurnar og segir: Whow were did you get those?
Gestir fara að tínast inn í boðið og sú sem situr mér næst segir whow, hafið þið séð sokkabuxurnar hennar Íu. Þetta var orðið ansi pínlegt, mér fannst ég vera eins og sýningargripur eða svartur sauður í hvítri hjörð.
Minn elskulegi mætir loks í boðið þar sem hann var seinn fyrir og þá gellur í einum af hans pókerfélaga: Thorir konan þín er flottust hér í kvöld. Ég vissi ekki hvort ég ætti að taka þessu sem komplimenti eða.... voru þetta bölvaðar sokkabuxurnar.
Komin heim og þegar ég smeygði mér úr múnderingunni þá blasti við mér þetta líka flotta lykkjufall sem hafði betur fer ekki verið sjáanlegt í boðinu, en það sem ég var fegin, núna get ég hent þessum sýningagrip í ruslið og aldrei, aldrei skal ég fjárfesta í öðru eins endemis pjátri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2008 | 08:27
Óboðnir gestir í anda Hitchcock komu í morgunkaffi.
Fersk morgungolan kom inn um opnar dyr eldhússins, ég sat með kaffibollan og rúllaði Mbl. í tölvunni. Fuglarnir höfðu óþarflega hátt og leituðu hér upp að húsinu með miklum vængjaþyt. Ég undraðist þessi læti í fuglunum. Það var engin smá hamagangur þarna úti.
Allt í einu var eins og ég dytti inn í kvikmynd Hitchcock, The Birds. Þrír óboðnir gestir flugu inn í eldhúsið og stefndu beint að mér þar sem ég sat. Ósjálfrátt bar ég hendur fyrir mig og var allt í einu komin í hlutverk Melanie sem Tippi Hedren lék á sínum tíma svo eftirminnilega.
Þetta var allt annað en þægileg uppákoma en sem betur fer voru þetta aðeins litlu sætu spörfuglarnir með gulu og grænu bringurnar en ekki svörtu ógeðslegu krákurnar úr The Birds.
Jæja vinir mínir hvernig á ég nú að koma ykkur út hugsaði ég og leist ekkert á það að fá þá inn um allt hús. Tveir þeirra tylltu sér upp á eldhússkáp en sá þriðji rataði sjálfur út fljótlega. Þarna sátu þeir makindalega og sungu sitt dirrindí þó nokkra stund og ég var farin að hugsa um að bjóða þeim í kaffi, þetta var að verða voða heimilislegt. En þeim hefur sjálfsagt verið farið að lengja eftir vini sínum því eftir smá stund flugu þeir sína leið út í bjartan vordaginn.
Já það er oft gestkvæmt hér að Stjörnusteini.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2008 | 20:03
Þegar sorgin knýr dyra
Síminn hringir, það er æskuvinkona mín. Skipst á ómerkilegum spurningum. Svo kemur skellurinn. Þú situr og hlustar. Þú spyrð spurninga, færð svör. Þú talar eðlilega, að þér finnst. Tíminn líður og þú ert meðvituð um allt sem sagt er og þú reagerar eðlilega, tekur þátt, samhryggist en skilur samt ekki neitt.
Þú kveður með því að segja: Ég hef samband við þig fljótlega.
Þú klikkar á rauða takkann. End.
Þú situr lengi. Ég verð að fara að koma mér upp og segja Þóri þessar hörmunga fréttir. Loksins stendur þú upp og þá er eins og fæturnir gefi sig. En þú verður að komast upp stigann. Hann verður líka að heyra þetta. Þú kemst upp í svefnherbergi þar sem hann liggur og les í bók, þú dettur næstum niður á rúmið.
Ég hef sorgarfréttir að segja þér.
Hjartað bankar eins og það vilji út úr líkamanum, maginn er í hnút, þetta er of mikið.
Hringt heim í okkar bestu vini. Fréttin berst frá Prag heim til vina okkar. Hjartað grætur.
Síðan kemur spurningin. Hvers vegna? Þú sem hafði svo mikið misst en varst alltaf þessi sterka flotta kona. Af hverju þennan dag? Allir héldu að þú hefðir eftir þessi sex ár komist yfir sorgina. Enginn hafði hugmynd um hvernig þér leið vinkona. Þú fallegust, gjöfula kona sem gafst allt en þáðir aldrei neitt í staðin.
Hvar vorum við vinirnir? Er þetta líka okkur að kenna og af hverju núna eftir nákvæmlega sex ár. Blessuð sé minning hans. En það voru veikindi, þetta er allt annað, þetta er ekki réttlátt.
Núna kemur reiðin hjá okkur öllum. Þú lést okkur halda að þú værir hamingjusöm. Þú varst búin að finna góðan förunaut sem þú ferðaðist með út um heim. Þú varst sátt eða það héldum við. Þú áttir börnin þín og fjölskyldu sem elskuðu þig meir en þú nokkurn tíma gerðir þér ljóst.
Hvers vegna? Við fáum aldrei svör við þessari spurningu en það er svo erfitt að skilja og það er svo erfitt að sætta sig við.
Ég bið góðan Guð að blessa þig og ef til vill miskunnar hann sig yfir okkur öll og sameinar ykkur hjónin á betri stað. Guð blessi fjölskylduna og ástvini þína á þessari erfiðu stund.
Ég kveiki á kerti þér til handa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.4.2008 | 21:08
Mín vigt er regluleg ótugt.
Veit ekki hvort ég á að gleðjast eða gráta. En vigtin á þessu heimili hefur aldrei verið til friðs. Annað hvort er það upp eða niður. Hvers vegna í ósköpunum getur hún ekki bara staðið í stað eins og hún á að gera.
Kolrugluð og leiðinleg mænir hún á mig á hverjum degi og glottir út í annað, svona ögrandi glerhlussa sem segir: Ætlarðu að þora í dag? Yfirleitt hunsa ég ófétið og gef henni stundum svona létt spark í von um að hún fari nú að taka sig saman í andlitinu og gera mér til hæfis einn daginn.
Oft hugsað um að senda hana á heilsuhæli en það er annar fjölskyldumeðlimur sem notar hana líka og hann er svo asskoti sáttur við ófétið að ég yrði ekkert mjög vinsæl ef ég tæki til minna ráða, svo ég ætla bara að leyfa henni að standa þarna þangað til annað betra tæki kemur á markaðinn þá fær sko mín að fjúka.
![]() |
Kílóið endurskilgreint |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)