Færsluflokkur: Bloggar

Hangandi í vírgirðingu með rósarunna í rassinum.

Minn elskulegi fór með mig og hundinn í skógargöngu í dag. Ég ætlaði nú varla að nenna þessu þar sem ansi er frostkalt en sól skein í heiði svo ég lét mig hafa það að drattast með. Ákveðið var að taka lengri leiðina og allt gekk þetta vel í byrjun þar sem við gengum eftir frostfríum slóða eða næstum því. Þegar við vorum komin um helming leiðarinnar fór að halla niðrí móti og framundan ein íshella. 

 Minn elskulegi, sem alltaf gengur svona tíu metrum á undan mér stoppar og segir,, Heyrðu elskan, ætli sé ekki best að ég leiði þig núna"  og að sjálfsögðu bjóst ég við að mér væri rétt hlý hönd og sterk en þess í stað heldur hann bara áfram sínu stiki og ég heyri hann muldra,,ætli sé ekki best að ganga hér meðfram slóðinni, haltu þér bara í vírgirðinguna"  Andskotans tillitsemi er þetta hugsa ég með mér þar sem ég fer fetið niður snarbratta brekkuna.  Minn elskulegi kominn í hvarf með hundinn á hælunum og ég þarna alein eins og belja á svelli, hangandi í vírgirðingunni sem gaf eftir í hverju togi, flækjandi fótunum um rætur og festandi buxurnar í villtum rósarrunnum.  

Eftir mikið strit og alla vöðva spennta komst ég loks niður á jafnsléttu.  Birtist þá ekki á móti mér hann Erró minn (hundurinn) sem auðsjáanlega hafði farið að undrast um mig.  Ég hugsaði OK, ef ég hefði dottið og ekki komist upp aftur hefði alla vega hundurinn leitað að mér.  Það var ekki sérlega hlýtt augnaráð sem mætti mínum elskulega þar sem ég skakklappaðist heim á leið með verki í fótum og hjartað í buxunum.  Enginn göngutúr í bráð, alla vega ekki fyrr en fer að hlána.    


Hillary varð orðavant

Þar sem við sátum með Bandarískum vinum okkar (Demókrötum) í gærkvöldi og talið barst að forsetaframbjóðendum heyrðum við þessa sögu um skyrturnar og bónorðið en önnur spurning barst víst líka úr salnum.  Hvort líkar þér betur við demanta eða perlur?  Þá varð víst Hillary orðavant.  Ekki tekið út með sældinni að vera frambjóðandi. 

 En mikið askoti er hún nú góð þessi kella.  Ég dáist að henni að nenna þessu.  Svo er önnur spurning, hver kemur með að stjórna USA ef hún nær kosningu?  Er hún leikbrúða eða hörkukerling?  Jafnvel hörðustu fylgismenn hennar spyrja nú þessara spurninga, ég efast nú ekki um að hún hafi bein í nefinu og láti ekki neinar karlrembur yfir sig ganga.  


mbl.is „Viltu giftast mér Hillary?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja strákar!

Þetta er máltæki sem við hér notum aðeins á milli vina og nú bíð ég eftir því að heyra Helga vin minn Gíslason skúlptúrista með meiru koma hingað askvaðandi og skella þessu fram á sinn einstæða máta með tilheyrandi hlátrasköllum. 

 Helgi er hér staddur í hundrað turna borginni til þess að leita uppi steypukalla fyrir málmverkin sín og síðan auðvitað til að heimsækja okkur.  Minn elskulegi er búinn að dandalast með hann hér um sveitir undanfarna daga svo ég hef ekkert séð minn kall. Það verður örugglega slegið á létta strengi hér á eftir.Grin  Meira seinna.Wink 


Erum ekki komin með ,,útibú" á Íslandi

Þar sem borðapöntunum hefur rignt yfir okkur og vegna fjölda fyrirspurna frá vinum og vandamönnum um hvort við, ég og minn elskulegi værum búin að opna,, útibú" í höfuðborginni við sundin blá, viljum við til leiðrétta allan misskilning láta ykkur vita að svo er ekki. 

 Restaurant Reykjavík - Praha er enn á sínum stað eftir sautján ár og litlar líkur á því að útibú verði opnað á næstunni.  LoL  Útvarpsauglýsingin frá Restaurant Reykjavík er væntanlega frá Café Reykjavík í Vesturgötunni. Dálítil önnur ella.   En þið eruð öll velkomin hvenær sem er hingað til Prag en því miður erum við ekki með Þorramat á boðstólum en við munum taka á móti ykkur með bros á vör.


Að fara sínar eigin leiðir þarf ekki að vera svo slæmt

Mikið dáist ég að fólki sem rífur sig uppúr rúmi klukkan hálf sex til þess að mæta í leikfimi.  Dóttir mín er ein af þessum ofurhetjum.  Ég hef nú varla farið lengra en í póstkassann síðan um áramót enda orðin ansi grámygluleg ásýndar.Sleeping

 En það segir mér engin að æða í heilsurækt bara af því að það sé ,,inn" að mæta fílefldur fyrsta í nýári og sprikla og teygja með fjöldanum, þjást síðan af harðsperrum í margar vikur og bölsótast útí þjálfarann sem er gjörsamlega að drepa allan minn lífsþrótt.

Nú eru fjölmiðlar uppfullir af þessu heilsukjaftæði og auðvitað les maður allar þessar greinar og hugsar með sér ,,Ég ætti nú að fara að hreifa mig og vera með í heilsuátaki þjóðarinnar".  Ég bara nenni því ekki núna og minn tími kemur bara með hækkandi sól eins og alltaf.

Svo pirrar það mig rosalega þegar ég les endalausar klausur um að éta þetta margar appelsínur og háma í mig eitthvert grasfæði en hlakkaði aðeins í mér þar sem ég las um daginn grein þar sem British Medical Journal upplýsti lesendur um að 8 lítrar af vatni á dag gerði engum gagn.  Jamm, ég hef alltaf sagt að vatn væri til þess að þvo sér uppúr, algjör óþarfi að vera að þamba þetta í tíma og ótíma. Þoli ekki fólk sem gengur um götur með vatnsflöskuna eins og vörumerki heilsusamlegs lífernis.  Fusssss! 

En öllu gamni fylgir smá alvara og þar sem ég sit hér og þamba lútsterkt kaffi með mína sígó er ég svona hálft í hvoru að hugsa mér að fá mér göngutúr þó ekki sé lengra en í póstkassann.  Það eru alveg svona 100 metrar. Wink Góð byrjun á heilsuátaki ársins.  Kannski ætti ég að taka vatnflöskuna með?  Woundering

 

 


Fagurt er rökkrið

Nú þegar húmar að kvöldi fara álfar og annað huldufólk að huga að búflutningum og gott ef ekki heyrist hér úti fyrir klingja í sleðabjöllum og reiðtygjum þessa góða fólks. Lítil von er nú á því að hér verði stjörnubjört nótt og tunglskin og ekki séns að norðurljósin dansi hér um háloftin í miðri Evrópu. 

Mikið hvað þjóðtrúin fylgir manni hvert á land sem er.  Hér að Stjörnusteini höfum við engan álfahólinn eða álagastein á landareigninni en klettarnir hér í grennd tala sínu máli og engin spurning að þar fyrirfinnst undurfrítt fólk í glitklæðum með kórónur á höfði og veldissprota í hönd.

Mér hefur alltaf fundist Þrettándinn dulúðlegur og held alltaf dálítið uppá hann fremur öðrum dögum dagatalsins. Ef til vill af því að þá finnst mér nýja árið endanlega gengið í garð. Ég reyni að brenna út öllum kertum frá jólum og áramótum sem fyrirfinnast í húsinu og læt ljósin loga þar til nýr dagur rís og geri enga undantekningu á því í kvöld og ekki veitir nú af að lýsa blessuðu fólkinu veginn til nýrra heimkynna þar sem myrkrið kemur til með að verða ansi svart í nótt þar sem hvorki verður tungl- eða stjörnubjört Þrettándanótt.     

 

     


Thriller Þráins Bertelssonar

Snilldarvel skrifaður ,,Thriller" Þráins Bertelssonar, Englar dauðans héldu mér negldri niður í stólinn langt fram eftir nóttu.  Djúpur undirtónn úr heimi fíknar kemur vel fram svo og sem betur fer lúmsk kímni Þráins sem öðru hverju lyftir lesendanum upp úr sollinum. 

Hlakka til að fylgjast með Víkingi Gunnarssyni á komandi árum.  Innilega til hamingju Þráinn minn.


Tapað en ekki fundið!

Þar sem ég stóð á haus ofaní plastpoka í gær í leit að hring og armbandi sem ég tapaði á nýársnótt vissi ég ekki um hinn heilaga Antoníus sem er víst hinn vænsti dýrlingur og hjálpar auðkýfingum svo og almúganum að finna horfin auðæfi. Wink  Ég hef nú aldrei verið mjög trúuð á áheit svo ég held að ég hefði nú ekki farið að taka upp á því að biðja þann heilaga um að ómaka sig fyrir svona lítilræði enda hefur sá góði maður örugglega nóg á sinni könnu og ef satt skal segja var þessi leit ekkert geðsleg Tounge

Ég var svo óheppin þar sem við vorum að gleðjast með vinum okkar um áramótin á Rest. Reykjavík að tapa bæði forláta hring og armbandi.  Þetta er auðvitað með ólíkindum tvennt á sama klukkutímanum.  Minn elskulegi bað um að allt rusl væri sett í stóra plastpoka eftir lokun og kom með þetta heim til þess fara í gegnum. Ég hafði skreytt óheyrilega mikið fyrir þessi áramót svo þið getið rétt ímyndað ykkur hverskonar óþverri kom úr pokaskjattanum. Frekar óþrifalegt verk og ég var alveg viss að þetta bæri engan árangur sem líka kom á daginn.  

Svo voru þetta jú bara dauðir hlutir, vona bara að einhver hafi notið góðs af og skarti nú þessu einhverstaðar í heiminum.  En ef Antoníus er þarna einhvers staðar úti þá væri nú ekki verra að finna þetta á náttborðinu í morgunsárið. Halo  


Lélegar afsakanir

,,Oft er fólk að reyna að verða sér úti um eitthvað sem það á ekki rétt á"  Já, þetta er auðvitað allt rubbaralýður sem flýgur með Flugleiðum og við eigum ekkert betra skilið en að láta dónaskap, óliðlegheit og þjónustuleysi yfir okkur ganga. Whistling Takið ykkur nú saman í andlitinu þarna hjá fyrirtækinu.  Tala af reynslu. 
mbl.is Löggan send á reiða farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar vindur gnauðaði úti og kuldinn herjaði á merg og bein..

..sat ég inni við arineld og las Harðskafa, dálítið kuldalegt heiti á bók og átti vel við aðstæður hér úti fyrir.  Bókin var svo sem ekki slæm og ekki góð.  Arnaldur hefur oft sent frá sér betri bækur, verð ég nú að segja.  Dálítið fannst mér hún langdregin á köflum svo og að ég gat mér fljótlega til um endinn og fannst mér það miður. Sakamálasögur eiga að koma manni að óvörum annars er ekkert fútt í þeim. 

Nú er ég að byrja á bókinni hans Þráins, Englar dauðans.  Finnst hún lofa góðu en segi ekkert fyrr en ég hef lokið við bókina. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband