Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.10.2008 | 10:10
Ljósið í myrkrinu.
Í gær ætlaði ég að taka fréttafrían dag. Sem sagt ekki lesa eða hlusta á fréttir. Ég var svo harðákveðin í þessu enda alveg búin að fá nóg af sorgarfréttum undanfarna daga. Jafnvel bloggið veitti enga ánægju og þar af leiðandi datt niður öll löngun til að skrifa.
Ég ákvað að nú skildi bara snúa sér að einhverju uppbyggilegu, þvo þvott og taka til í skápum heheheh... án gríns, mér datt í hug að það alla vega, væri eitthvað sem gæti dreift huganum og jafnvel gæti ég sett í kassa og gefið frá mér. Gera eitthvað góðverk. Það getur verið mjög uppbyggjandi fyrir sálina.
Ég var rétt komin í gírinn þegar gesti bar að garði frá Íslandi og þar með féll ég aftur inn í hringiðu daglegs lífs Íslendingsins. Yfir kaffibollum voru hörmungarnar heima fyrir ræddar fram og til baka. Satt best að segja var allt farið að hringsnúast í höfðinu á mér. Hverjum var hvað að kenna, hver var góði maðurinn og hver var vondi maðurinn? Hverjum var treystandi, hvern ætti að reka og hver fengi að sitja í stólnum sínum áfram. Það eina sem ég vissi með vissu var að þessu yrði ekki bjargað hér heima í stofunni minni þótt ég fegin vildi að svo væri hægt.
Við hér erum sem betur fer ekki enn ekki farin að finna fyrir ástandinu og erum þakklát fyrir hvern dag sem líður.
Þetta hér á undan koma alveg óvart. Mig langar ekki einu sinni að reyna að leika Pollýönnuleikinn.
Ljósið í myrkrinu, friðarljósið hennar Yoko Ono á nú eftir að lýsa heima og er þá ekki reynandi að horfa til þess og vona það besta okkur öllum til handa. Frið í sálu og ekki hvað síst heimsfriði.
Eigið góðan dag.
Yoko og Lennon á landinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2008 | 10:55
Allra augu beinast að okkur Íslendingum
Eftir atburði gærdagsins setur mann hljóðan. Veislunni er lokið sem flestir ef ekki allir tóku þátt í. Sumir sátu við háborðið og fengu að líta alla þessa háu herra eigin augum en aðrir létu sér nægja að sitja í hliðarsölum og fylgjast með ræðuhöldum úr hátölurum.
Timburmennirnir leggjast misjafnlega í menn alveg eftir því hvað sopið var oft úr ausunni.
Núna verðum við að huga að ungu börnunum sem erfa eiga landið. Forðast að tala um erfiðleika í þeirra návist og knúsa þau meir en við höfum gert hingað til. Börnin skilja meir en við höldum og þau finna greinilega ef mamma og pabbi eru pirruð og þreytt. Þetta vitum við öll og stundum er bara ekkert svo auðvelt að leyna ástandinu.
Ég man eftir því að það var oftast keypt í ,,billegu búðinni" handa okkur systkinunum, skór, úlpur og fl. en sú búð var uppá háalofti og okkur fannst það bara eðlilegur hlutur.
Mér blöskraði aðeins þegar ég frétti að ein verslun væri farin að hvetja fólk til að hamstra. Þarna fór sú ágæta verkun aðeins yfir strikið. Ég vona bara að þeir sem keyptu hveitið eigi músheldnar geymslur.
Það fer ekkert á milli mála að allra augu beinast að okkar litlu þjóð og ástandinu heimafyrir. Ég hef þá trú að við komust út úr þessu eins og öllu öðru með okkar seiglu og dugnaði.
Við eigum frábært fólk á Íslandi sem gefst ekki upp þá móti blási.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.10.2008 | 12:24
Það var þá! Er sagan að fara að endurtaka sig?
Við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld munum vel eftir skömmtunarseðlunum. Þar sem maður stóð í biðröð niðr´í gamla Gúttó og hékk í pilsfaldi mömmu eða ömmu bíðandi eftir að röðin kæmi að manni.
Við munum líka eftir lyktinni fyrir jólin þar sem eplakassinn var vandlega falinn inn í kompu því ekki mátti snerta þessa munaðarvöru fyrr en á Aðfangadag. Sumir voru heppnir og fengu appelsínur líka en þá varð maður að hafa ,,góð sambönd" eins og það var kallað. Stundum slæddist skinkudós með og súkkulaði. Þá voru jólin fullkomin.
Vonandi koma þessir tímar aldrei aftur en þegar fólki er ráðlagt að fara að hamstra þá er útlitið ekki gott.
Ég tók eftir því þegar ég var heima um daginn að verslunarmenn voru svona hálfpartinn að afsaka vöruúrval og fékk ég oft að heyra eitthvað á þessa leið: Nei, því miður við erum að bíða eftir næstu sendingu, kemur í næstu viku. Ég hafði það svolítið á tilfinningunni að varan væri komin til landsins, það væru bara ekki til peningar til að leysa hana út.
Í einni af okkar betri verslunum í Reykjavík var mér sýnd flík sem ég vissi að hefði verið seld þarna síðasta vetur og stúlkan sýndi mér hana sem nýkomna haustvöru. Ég gerðist svo djörf að segja upphátt: Þetta er síðan í fyrra. Aumingja konan fór öll hjá sér og til að bjarga sér fyrir horn greip hún nýjan bækling sem hún sýndi mér af miklum áhuga og allt var þetta væntanlegt innan skamms.
Ég er ansi hrædd um að útsölur byrji snemma í ár.
Eins einkennilega og það hljómar er eins og ég sé komin langt, langt frá ykkur núna. Ég skynjaði það strax í gærkvöldi að ástandið heima skipti mig ekki svo miklu máli lengur og ég fékk hrikalegt samviskubit. Á meðan ég dvaldi á landinu tók ég fullan þátt í daglegu lífi landa minna og skammaðist og argaði ekkert minna en aðrir. Í morgun fletti ég blaði landsmanna og það eina sem kom upp í kolli mínum. Djöfull er þetta ömurlegt! Síðan hætti ég að hugsa um þetta ófremdarástand. Það var eins og það snerti mig ekki lengur.
Ein góð bloggvinkona mín sem býr í DK skrifaði um þetta sama tilfinningaleysi hjá sér í morgun. Held að okkur hafi liðið álíka illa. Erum við svona vondar manneskjur eða er þetta eðlileg reaksjón. Veit ekki!!
Þetta hrellir mig satt best að segja en mér þykir ósköp mikið vænt um ykkur öll og vil ykkur ekkert nema alls hins besta.
Er farin að skoða hug minn.
Verslunarmenn vænta vöruskorts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.9.2008 | 00:10
Er alveg komin að því að þverbrjóta öll góð fyrirheit.
Áður en ég hélt hingað heim var ég búin að ákveða að ekkert, segi og skrifa ekkert skildi koma mér úr jafnvægi og ég ætlaði heldur ekki að láta eitt eða neitt fara í pirrurnar á mér. Ætlaði að líta fram hjá öllu neikvæðu og vera allan tímann á jákvæðu nótunum sama á hverju gengi.
Þetta gekk eftir svona í byrjun, ja eingöngu vegna þess að ég vogaði mér ekki út fyrir dyr þar sem þessi veðurbeljandi var ekki einu sinni hundi bjóðandi. En ekki er nú hægt að sitja inni allan daginn svo út úr húsi varð ég að fara enda veðrið orðið þokkalegt fyrir svona kuldaskræfu eins og mig.
Ég var ekki fyrr komin út undir bert loft að pirringurinn fór að gera vart við sig. Ég alveg beit saman tönnum og andaði djúpt, taldi upp á tíu eða tuttugu en pirringurinn er enn til staðar. Ég gæti haldið áfram í alla nótt að segja ykkur hvað það er margt sem fer í mínar fínustu hér en af því að ég hafði þennan góðan ásetning áður en ég hélt hingað ætla ég að reyna að halda mig á mottunni, ja alla vega þar til ég spring en ef þessu heldur svona áfram næstu daga er ekki langt í stóru bombuna.
Bara að anda djúpt og þegja er bara andskotakornið ekkert auðvelt skal ég segja ykkur.
Síðan er alveg óþolandi að hlusta á fólk sem er kvartandi í tíma og ótíma og aldrei ánægt.
Og er ég núna að berjast við að vera ekki í þeim hópi.
Svo ég haldi nú ekki áfram hér og blaðri öllu því sem liggur svo þungt á mér eins og mara er ég farin til kojs að sofa í hausinn á mér.
22.9.2008 | 23:40
Það er eitthvað mikið að því miður.
Perlurnar okkar sem við eigum hér á ísaköldu landi eru óteljandi og við sýnum stolt þessi undur útlendingum sem sækja okkur heim. Geysir er ein af þessum perlum og þangað lá leið okkar hjóna um seinustu helgi.
Geysir hefur nú aldrei heillað mig sérstaklega mikið. Mér er nokk sama hvort sá ,,gamli" gýs eða hvort Strokkur hellir úr sér smá slettum. Gufustrókar úr jörðu hafa aldrei vakið neina sérstaka hrifningu hjá mér enda er ég fædd og uppalin á þessu landi og fyrir okkur er bara ósköp eðlilegt að gufu leggi upp úr jarðskorpunni hingað og þangað um landið. En útlendingum finnst þetta spes og þá er ekkert sjálfsagðara en að sýna öllum sem hingað koma frussandi hveri eða borholur sem hvæsa upp á Hellisheiði og víðar.
En það er eitthvað mikið að á þessum helstu ferðamannastöðum okkar. Hirðuleysi umsjónamanna um öryggi og hreinlæti er þvílíkt ábótavant að það er til áborinnar skammar.
Við hjónin komum seinast að Geysi fyrir tveimur árum í fylgd með helstu ráðamönnum þjóðarinnar og þjóðhöfðingja erlends ríkis. Þá virtist allt vera í stakasta lagi og var tekið á móti okkur að Hótel Geysi með miklum höfðingsskap. Við vorum að koma ofan af jökli og fengum þarna léttar veitingar áður en haldið var til Reykjavíkur.
Það ríkti þess vegna dálítil eftirvænting hjá okkur þar sem nú átti að gista eina nótt að Hótel Geysi og skemmta okkur í góðra vina hópi íslenskra vina.
Veðrið var nú ekki upp á það besta en við harðákveðin í því að láta það ekki skemma fyrir okkur. Við renndum í hlað rétt um hádegi og tók ég strax eftir því að fallega tréverkið var farið að láta á sjá. Þegar inn kom spurðum við um gestamóttökuna og vinaleg stúlka frá Pest, Ungverjalandi vísaði okkur út og fylgdi okkur að bakhúsi sem mér fannst nú líkjast meir hjalli en húsi. Þar var gestamóttakan.
Grútskítugt teppi var það fyrsta sem ég tók eftir og mér fannst ég vera komin svo langt frá raunveruleikanum að það hálfa var nóg og er enn að pæla í því hvort þetta hafi í raun og veru verið eins slæmt og raun bar vitni.Konan í móttökunni var elskuleg og rétti okkur lykla og sagði að við værum í húsi númer 12. Við hváðum, hvað meinarðu erum við ekki á hótelinu? - Jú gistingin er hér fyrir neðan.
OK, við fundum hús númer 12 og það var þokkalegt, hreint á rúmum og svona eins og maður vill hafa þriggja stjörnu gistingu.
Vinirnir fóru nú að tínast að og sumir fengu hús sem engan vegin var bjóðandi gestum. Hitinn virkaði ekki í einu húsanna og í öðru fékk einn vinur okkar lokið af klósettkassanum í fangið þegar hann skrúfaði frá vatninu í vaskinn. Heita vatnið lét eitthvað á sér standa því það tók hálftíma að láta renna áður en hlandvolgt vatnið kom úr heitavatnskrananum og þannig var það í öllum húsunum og á salernum inni í Hótelbyggingunni var ekkert rennandi heitt vatn. Tvær af þessum glerfínu þvottaskálum voru stíflaðar og vatnið flæddi nær yfir barmana og salernin voru í hræðilegu ástandi.
Halló við vorum á hverasvæði en ekkert rennandi heitt vatn!!!!!!!!
Um kvöldmatarleitið söfnuðumst við saman á ,,Hótelinu" því nú átti að halda inn í skógarrjóður þarna örskammt frá og snæða útigrillað gúmmelaði. Það var búið að segja okkur að klæða okkur vel en það sem beið okkar var ótrúlegt.
Við vorum selflutt þarna uppeftir og ég var í fyrsta bílnum og það sem við okkur blasti var hringlaga hjallur, svona alveg eins og þeir voru gerðir verstir í gamla daga með þriggja til fimm sentímetra bili á milli fjalanna og sum staðar voru bara engir veggir. Mér var að orði, nei þið hljótið að vera að grínast.
Þegar inn kom blasti við grill í miðju svona í stærra lagi. Allt í kring voru bekkir og borð sem voru rennandi blaut vegna þess að veðrið var brjálað. Engin gashitun var þarna og ekki heldur nein lýsing fyrir utan kerti á borðum sem auðvitað logaði ekki á vegna vinda og vatns.
Ég var sem betur fer þokkalega klædd og einn vinur minn var svo næs að lána mér flísteppi yfir axlirnar svo ég gat vafið dúnúlpu dóttur minnar um fæturna. Sumar af konunum voru miklu verr klæddar en ég því engin hafði gert sér fulla grein fyrir aðstæðum.
Ég sá aldrei matinn sem settur var fyrir framan mig en borðaði hann bara blindandi og hann var ekkert slæmur, hef ekki hugmynd um hvað fram var borið.
Við reyndum öll að gera gott úr þessu og sungum okkur til hita og sumir supu stíft á söngvatninu til að mýkja raddböndin. Þegar flestir voru búnir að borða tók minn af skarið og sagði að nú ætti að keyra konurnar upp á hótel enda var komið aftaka veður og við að verða gegnsósa eftir regn og sót frá grillinu sem þeir kynntu óspart til að halda á okkur hita.
Ég hef aldrei elskað minn mann jafn mikið og þegar hann sagði: Allar konur í bílana.
Ákveðið var að hittast á barnum á hótelinu og flestir fengu sér kaffi og ,,með því" til að koma blóðinu af stað. Það versta við að þegar inn í hús var komið var þar líka skítakuldi. Kyndingin í ólagi var okkur sagt. Engin sá um að þjóna okkur, gömul útbrunnin kerti voru hist og her en engin hafði haft rænu á að setja ný í stjaka eða ker.
Sumir drukku eigin veigar þar sem engin skipti sér af því hvort við versluðum við barinn og alveg skítsama hvort við værum eða færum. Aldrei sáum við Íslending við afgreiðslu.
Hádegismaturinn var borðaður í flýti áður en lagt var af stað enda ekki hægt annað þar sem fingur voru hálf frosnir við hnífapörin þar sem hitinn var greinilega ekki kominn í lag.
Stúlkan úr gestamóttökunni kom til okkar og spurði hvernig hefði verið í gærkvöldi. Ég sagði bara: Ég gæti nú sagt þér það hefði ég séð eitthvað en satt best að segja fannst mér ég hafa misst sjónina þessa tvo tíma. - Já við hefðum nú átt að flytja dinnerinn inn í hús en þetta er rosalega flott á sumrin.
Ég nennti ekki að svara henni en hugsaði bara jæja vinkona ekki skal ég þræta við þig um það, sjálfsagt voða kósí á sumarkvöldi en mér fannst við bara vera þarna eins og fé af fjalli sem rekið hafði verið inn í réttina. Sorry!
Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og þeir sem hafa haft það af að lesa sig alla leið hingað niður fá verðlaun næst þegar við hittumst.
Eftirminnileg og skemmtileg ferð með vinum mínum þrátt fyrir allt volkið.
Komin með blöðrubólgu og hor í nös.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2008 kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.9.2008 | 12:08
Gamla góða heimsendingarþjónustan. Sendlarnir á svötu hjólunum.
Ahhh... það er komin glæta, ég meina sólarglæta. Var svona að spá í það hvort ég ætti að skella mér í bæjarleiðangur eða bara kúra hér innandyra þar sem veðrið er nú ekki alveg upp á það besta hér við sjávarsíðuna í Garðabænum. Var búin að gleyma rokrassinum hér heima.
Í gær sat ég með móður minni aldraðri en hún er nú ótrúlega hress eftir aldri. Við röbbuðum um lífið og tilveruna svona almennt og ég fór að hugsa hvað í raun og veru við systkinin værum heppin hversu sjálfbjarga hún er komin hátt á níræðisaldur. Eina utanaðkomandi aðstoðin sem hún fær er þrif á íbúðinni hálfsmánaðarlega.
Það sem ég horfði á regnið lemja rúðurnar og vindinn gnauða fyrir utan hátt uppi á níundu hæð þá hugsaði ég með mér að ekki kæmist hún nú langt í þessu veðri. Þarna gerði samviskubitið vart við sig því ég veit að ábyrgðin er öll á systkinum mínum þremur sem búa hér á landi. Þau sjá um að keyra hana á milli, versla inn fyrir hana ef með þarf, ná í lyfin o. sv. frv. á meðan ég kem bara hingað sem gestur og stoppa yfirleitt stutt. Og öll vitum við að í hraða þess þjóðfélags sem við lifum í þá hafa allir nóg á sinni könnu. Móðir mín er líka ein af þeim sem aldrei vanhagar neitt þegar spurt er en síðan kemur það í ljós daginn eftir að hún er dauðþreytt af því hún fór út í matvöruverslunina og bar pokana alla leiðina heim.
Ég spurði gömlu konuna sem sat þarna keik á móti mér: Heyrðu mamma er ekkert hér sem heitir heimsendingaþjónusta frá matvöruverslunum.
Gamla konan leit á mig og glotti út í annað: Nei vinan það er nú ekki neitt svoleiðis hér. Ja ég get tekið leigubíl til og frá búðinni en sjálf verð ég nú að skakklappast þetta. Bætti síðan við, annars eru nú krakkarnir voða dugleg að hjálpa mér. Vildi auðheyranlega ekki vera að kvarta undan systkinum mínum við mig í þetta sinn.
Mér var hugsað til fyrri ára þegar mamma hringdi í Ólabúð og pantaði inn fyrir helgina og sendillinn kom með þetta á sendiferðahjólinu frá búðinni. Yfirleitt voru þetta einn til tveir troðfullir pappakassar af matvöru. Man enn eftir lyktinni sem fylgdi kössunum. Eitthvað hlýtur nú fólk að hafa borgað upp í sendingarkostnað en getur varla hafa verið nein ósköp.
Ég vildi eiginlega ekki trúa þessu. Meira að segja í landinu þar sem ég bý er heimsendingarþjónusta. Þegar dóttir mín var nýbúin að eiga frumburðinn og bjó i London notfærði hún sér heimsendingu frá Tesco. Það þótti bara ósköp eðlilegt.
Hvað með allt þetta gamla fólk og sjúklinga sem búa einir og komast illa ferða sinna. Það hljóta að vera einhverjir með þessa þjónustu. Ég fór á netið og leitaði og komst að því að ein búð hér býður upp á heimsendingu, Nóatún en allt fer það í gegn um tölvu. Síðan er slatti af Pizza og hraðréttastöðum, Kjöt í heilum skrokkum, grænmeti aðeins stórar pakkningar. Það var ekki það sem ég var að leita að. Ég nennti ekki að fara inn á síðuna hjá Nóatúni vegna þess að ég fór að hugsa en hvað með allt þetta fólk sem kann ekkert á tölvur, ætli sé hægt að fá vörulista í búðinni og panta símleiðis?
Nú nálgast veturinn óðum og færðin versnar. Hvernig fer gamla fólkið að sem á enga aðstandendur sem létta undir. Er það inni í heimaþjónustu að versla inn fyrir sjúklinga og aldraða? Afsakið en nú spyr ég bara eins og bjáni.
Hugsið ykkur hvað margt gamalt fólk sem býr eitt væri þakklátt fyrir að geta hringt í hverfisbúðina og pantað inn nauðsynjavörur. Ekkert vesen. Ekkert svona þegar hringt er í börnin sín: Æi, fyrirgefðu að ég skuli vera að kvabba þetta, ég veit þú hefur nóg annað að gera en ég bara treysti mér ekki út í veðrið.
Svo einfalt. Lyfta tólinu, velja númerið, panta eftir lista og síðan: Viltu svo væni minn senda þetta heim fyrir mig. Þakka þér fyrir góurinn.
Það hefur dregið fyrir sólu.
14.9.2008 | 08:32
Er haustið rétt handan við hornið?
Brrrrr... í gær blésu vindar sem er ekki algengt hér og í morgun var hitastigið 4° en er nú að skríða upp fyrir 12° og verður sjálfsagt orðið gott um hádegi. Það er sem sagt farið að hausta hér og kominn tími til að huga að haustverkunum. Taka slátur og sulta smá. Ekki taka mig alvarlega núna þið þarna trúgjörnu vinir mínir, ekki séns að ég leggi á mig svoleiðis vesen.
Mín haustverk liggja nú aðallega í því að verja þessar hríslur mínar hér á landareigninni fyrir vetri konungi og ágangi dádýra og annarra ferfætlinga sem hafa þann ósið að naga nýgræðinginn niður að rótum ef ekki eru gerðar viðeigandi ráðstafanir. En ég þarf nú varla að byrja að hugsa um það fyrr en í enda október byrjun nóvember.
September er mánuður breytinga hér í Prag. Maður finnur svo vel að sumarið er að hverfa fyrir haustinu. Vinirnir fara að koma aftur eftir sumarfrí með sögur af fyrri heimkynnum sínum, börnum og barnabörnum. Félagslífið fer að blómstra og konur sækja fundi reglulega, koma með nýjar hugmyndir og allt fer að verða svo virkilega heimilislegt. Ekki það að ég sé mikil kvenfélagskona en ég held mig enn innan viss hóps kvenna sem mér þykja skemmtilegar og lífga upp á tilveruna.
Sandalatúhestarnir hverfa og pínu meiri menningarbragur litar borgina. Listalífið breytist líka, leikhúsin, óperan og tónleikahöllin bjóða upp á vandaðra efni og betri flytjendur. Það færist ró yfir borgina og maður getur gengið um göturnar án þess að rekast sífellt utan í fólk eða vera hræddur um að verða troðin undir.
Sem sagt allt annað líf.
Eigið góðan sunnudag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Einhvern vegin þannig komst Anna Frank að orði í dagbókinni sinni. Þessi setning hefur oft komið upp í huga mér þegar ég hugsa til okkar meðbræðra og systra.
Náungakærleikur, traust og vinátta sem varir úr í það óendanlega er ómetanlegt og oftsinnis höfum við hjónin rætt um hversu heppin við í raun og veru erum. Sterk fjölskyldubönd eru í okkar fjölskyldu og áratuga vinátta við æskuvini hefur aldrei rofnað. Að sjálfsögðu hafa komið upp misklíð en aldrei þannig að ekki væri hægt að rétt fram sáttarhönd, sem betur fer.
Öll erum við misjöfn að eðlisfari, ég er t.d. fljóthuga og á það til að láta úr úr mér það sem oft mætti kyrrt liggja en yfirleitt hverfur reiðin eins og dögg fyrir sólu. Langrækin er ég ekki og get auðveldlega rétt fram sáttarhönd og beðist afsökunar.
Þórir minn er með þeim eiginleikum fæddur að hann getur alltaf fundið góðu hliðarnar á fólki. Aldrei hef ég heyrt hann tala illa um nokkurn mann og hans orðatiltæki er frægt á meðal vina: Hvað þarf að vera að velta sér upp úr þessu? Hef oft sagt að aumingjabetri maður er vandfundinn. En ef honum þykir við einhvern, og það þarf ansi mikið til, þá er viðkomandi einfaldlega out.
Um daginn sátum við hér í rökkurbyrjun og ræddum um náungakærleikann og hversu langt væri hægt að ganga til að umbera sumt fólk. Við fórum í framhaldi að velta fyrir okkur hvers vegna sumir væru alltaf óánægðir, gætu aldrei horft á björtu hliðarnar, gengju með hangandi hausa alla daga. Væri þetta áunnið eða meðfætt?
Svo eru það kerlingarnar Öfundin og Hræsnin. Hugsið ykkur þá sem aldrei geta samglaðst öðrum.
- Nei vá varstu að fá nýjan stól, en æðislegur, til hamingju. Öfundin segir aldrei svona nokkuð, nei hún hugsar: Nú það er aldeilis veldi, bara nýr stóll og þá hlær Hræsnin henni til samlætis.
Síðan er það fólkið sem leggur það í vana sinn að tala illa um náungann hvar sem það getur komið því við. Helst líka að sverta mannorðið eins og hægt er. Sem betur fer kemst nú þetta fólk ekki langt á lyginni, það er nefnilega fljótt að fréttast hvaðan sögurnar koma og á endanum hættir fólk að hlusta og umgangast Gróu á Leiti.
Sumir leggja það í vana sinn að yfirfæra alla sína galla á vini eða vandamenn, jafnvel ókunnuga ef út í það er farið. Góð vinkona mín fræddi mig um það fyrir alllöngu að þetta væri því miður ein tegund sálsýkinnar. Fólk réði einfaldlega ekkert við þetta og gerði þetta ómeðvitandi. Sárt til þess að hugsa.
Þetta og margt annað ræddum við hér í rökkurbyrjun fyrir nokkrum dögum. Nú megið þið ekki halda að ég telji okkur vera einhverja englabassa og að sjálfsögðu hef ég tekið þátt í ýmsum óskemmtilegum umræðum um dagana en ómerkilegheit, lygi, meiðandi umtal á ég óskaplega erfitt með að þola.
Ekki vil ég trúa að fólk sé fætt með þessum eiginleikum. Innibyrgð reiði, sársauki og lífsleiði hlýtur að vera orsökin og ég sárlega vorkenni öllum þeim sem verða að bera þessa byrgði og lifa í sálarkreppu allt sitt líf.
Með aldrinum verðum við mýkri og hættum sem betur fer flest okkar að gera okkur óþarfa rellu út af smámunum. Við lærum sem betur fer líka að leiða hjá okkur hluti sem áður hefðu getað ært óstöðugan.
Og ég tek undir orðin hennar Önnu Frank:
Þrátt fyrir allt þá trúi ég því að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.9.2008 | 08:27
Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð, Tékklandi
Listamaðurinn Örn Þorsteinsson
Í fyrradag lifnaði aftur yfir Listasetrinu okkar þegar þau hjónin Örn Þorsteinsson, listamaður og María kona hans runnu hér í hlað í ljósaskiptunum, en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Mig var farið að lengja eftir því að sjá ljós í gluggum setursins á kvöldin þar sem vika er nú liðin síðan síðasti ábúandi fór héðan frá okkur.
Við bjóðum þau hjón velkomin hingað og vonum að dvölin verði þeim til gagns og gamans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.9.2008 | 21:58
Má ég þá heldur biðja um Jóhannes Arason, Jón Múla og Ragnheiði Ástu
Sátum hér undir stjörnubjörtum himni og borðuðum kvöldmatinn. Ósköp notalegt, bara við tvö. Þá dettur mínum elskulega í hug að tengja tölvuna við græjurnar og hlusta á fréttirnar frá RÚV. Við erum með hátalara tengda hér út á veröndina svo sex fréttir bárust hér frá ljósvakanum eins og ekkert væri sjálfsagðra.
Á meðan við gæddum okkur á grillsteikinni og nutum þess að sötra á rauðvíni frá Toscana hlustuðum við á fréttafólk flytja okkur fréttir að heiman. Voða svona heimilislegt.
Helst í fréttum: Þjóðin skuldar þetta marga milljarða, bankarnir þetta mikið o.sv.frv. Ég stein hélt kjafti á meðan á þessari upptalningu stóð. Síðan kom, kona lamin í höfuðið til óbóta, liggur á gjörgæslu. Þarf ég að halda áfram, held ekki.
En það sem vakti athygli mína var fréttaflutningurinn. Það var eins og allir fréttaþulir væru í kappræðu, að lýsa sinni eigin skoðun fyrir okkur almenningi. Ekki tók nú betra við þegar eitthvað sem heitir Spegillinn, að ég held, kom á eftir fréttum. Þar fóru menn hamförum í lestrinum mér fannst ég vera stödd í sal þar sem ræðumaður vildi láta í sér heyra og nú skuluð þið aumingjarnir hlusta á hvað ég er að segja ykkur. Þetta var næstum óþolandi að hlusta á. Einungis þegar þeir höfðu viðtöl urðu þeir manneskjulegir, annars var eins og þeir væru að flytja framboðsræðu eða tala á málþingi.
Ég hélt nú að fréttamenn ættu að vera ópólitískir í sínum fréttaflutningi og flytja okkur fréttir á passívan hátt, en hamagangurinn og lætin í kvöldfréttum RÚV í kvöld var alveg með ólíkindum.
Þegar leið á fréttirnar gat ég ekki orða bundist og sagði við minn elskulega: Veistu, það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi, heyrir´ðu flutninginn þau eru öll svo hátt stemmd að það er virkilega pirrandi að hlusta á þetta. Hann játti því og fór og lækkaði í tækinu.
Við ræddum síðan um okkar góðu hæglátu, vitru fréttamenn sem höfðu rödd sem seytlaði inn í landsmenn í áraraðir. Jón Múla Árnason, Jóhannes Arason og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur.
Þau voru aldrei með nein læti, lásu fréttirnar á hlutlausan hátt og allir hlustuðu á þau með andakt.
Ef til vill erum við bara orðin gömul og aftur á kúnni en andskotinn þetta er ekki fréttaflutningur þetta líkist meir áróðri að mínu mati.
Það skal tekið fram hér að ég hef ekki hlustað á íslenskar fréttir í útvarpi í nokkur ár.
Ég gat bara ekki orða bundist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)