Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.9.2008 | 13:15
Baráttukveðjur yfir hafið og smá broslegt í lokin
Það er ekki seinna vænna að senda ljósunum okkar baráttukveðjur með einlægum óskum um að það rætist úr þeirra málum ekki seinna en STRAX!
Ég man hvað ég var þakklát fyrir heimsóknir minna ljósa eftir að ég kom heim af fæðingarheimilinu. Veit eiginlega ekki hvernig ég hefði farið að ef þeirra hefði ekki notið við.
Þessar ljósur mínar voru starfandi þá í Fossvoginum á árunum 1974 og 1977.
Og alltaf sömu elskulegheitin þegar þær kvöddu mig með þessum orðum: Og hringdu bara í mig ef þú hefur einhverjar spurningar. Þetta var ómetanlegt. Þó ég muni nú ekki lengur nöfnin á þessum ágætis konum þá langar mig til að þakka þeim af alhug fyrir alla þá nærgætni og umönnun sem þær sýndu mér.
En að aðeins léttara hjali.
Við, ég og minn elskulegi sátum hér í eldhúsinu um daginn og biðum eftir soðningunni.
-Minn: Heyrðu, þú ert bara léleg!
Ég leit upp stórum augum því annað eins hafði ég aldrei heyrt úr hans munni í minn garð.
- Hvað meinar´ðu, vissi ekki alveg hvort ég ætti að reiðast og ganga út en hætti við því mig dauðlangaði að heyra af hverju ég væri svona LÉLEG.
- Jú elskan hér stendur að kona ein í Frakklandi gangi með þríbura og hún er 59 ára sem sagt jafnaldra þín sagði hann og glotti út í annað.
Ég var ekki alveg klár á því hvort ég ætti að láta fúkyrði fjúka. Hvort hann hefði viljað skipta um hlutverk, fæða börnin okkar og líka það að börnin væru jú ekki eingetin, það þyrfti tvo til og ég man nú ekki lengur hvað annað mér datt í hug að láta út úr mér en það flugu eldingar um höfuð mér smá stund.
En þegar hann sprakk úr hlátri gat ég ekki annað en brosað út í annað og sagði: Veistu þú ert ekki í lagi stundum. Þetta hefði getað endað illa skal ég segja þér og ég vara þig við að vera með einhvern karlrembuskap þegar ég er ekki í stuði til að taka því.
Mér datt að láta þetta samtal okkar hjóna flakka þegar ég heyrði að einhver vitringur á einhverri útvarpsrásinni hefði gloprað út úr sér að konur ættu bara að halda krökkunum í sér þar til verkfallið leystist.
Suma karlmenn ætti bara að stoppa upp!
Fjölmenni á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2008 | 16:18
Til hamingju með nýja embættið!
Þau í Mosfellsprestakalli og Kjalarnesprófastsdæmi verða ekki svikin að fá Séra Ragnheiði Jónsdóttur sem sóknarprest.
Ragnheiður er öndvegis kona með hjartað á réttum stað.
Innilega til hamingju Raggý mín! Blessun fylgi þér í starfi sem leik.
Kveðjur héðan frá Stjörnusteini til þín, Sigurgeirs og fjölskyldunnar.
Valin sóknarprestur í Mosfellsprestakalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2008 | 10:32
Vinsælt myndefni fyrir ferðamenn!
Í fyrra var ég stödd heima upp á Hamingjulandinu og þar sem ég stóð út á svölum hjá systur minni til að fá mér frískt loft eða þið vitið... en hún býr í Þingholtunum í einu af þessum gömlu húsum sem búið er að gera upp og er eigendum til sóma, tók ég eftir því að nokkur hús, þá sérstaklega eitt var að hruni komið og gat ég ekki betur séð en fólk byggi þarna innan veggja.
Þar sem ég stóð þarna í kvöldsólinni komu hjón gangandi eftir götunni. Ég heyrði á tal þeirra og voru þarna ferðamenn á kvöldgöngu. Þau stöldruðu við af og til og horfðu á byggingarnar og bentu á sum húsin með aðdáun. Allt í einu stoppar maðurinn og fer að stilla myndavél sem hann bar um hálsinn. Hann stóð þarna lengi vel og myndaði þetta hreysi í bak og fyrir. Ég hugsaði, hvað manninum kæmi til með að velja þetta hús þar sem útskornir gluggarammar voru morknir af elli, bárujárnið ryðgað og gular gardínur hengu fyrir gluggum eins og lufsur en í gluggakistum mátti líta á mjólkurhyrnur innan um skrælnuð pottablóm.
Ég spurði systur mína hvernig stæði á því að sum af þessum gömlu húsum væru í svona slæmu ásigkomulagi og svarið var: Æ ég held að þessi hús séu leigð út og eigendunum er alveg skítsama hvort þau grotna niður eður ei.
Ég varð aftur vitni að því að hópur útlendinga notuðu þetta hús sem fyrirmynd gamalla húsa í borginni okkar. Sorglegt! Veit ekki alveg hvað fólki gengur til. Mér hefur aldrei dottið í hug að mynda öngstræti stórborga til að sýna öðrum sorann.
Vonandi taka nú eigendur gamalla húsa sig saman í andlitinu og sýna sóma sinn í því að ganga betur um eignir sínar í henni Reykjavík svo og öðrum stöðum á landinu.
Draugahús fær andlitslyftingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2008 | 15:18
Tvöföld hátíðahöld hér í dag.
Hér var fylgst með leiknum í hádeginu og auðvitað fögnuðum við silfrinu sem strákarnir koma með heim í farteskinu. Tökum á móti þeim heima með pomp og pragt og höldum þeim góða veislu!
Eftir að hafa fagnað silfrinu fórum við, ég og minn elskulegi niður í Prag til að fagna fæðingardegi hans. Hann á afmæli minn gamli og af því tilefni bauð hann litlu fjölskyldunni út í hádegismat á Mandarin sem er einn af okkar uppáhaldstöðum.
Elma Lind skemmti okkur öllum með sínu yndislega babli á meðan við röðuðum í okkur kræsingum með Tai og Indversku ívafi. Kvaddi síðan afa og ömmu með gjöfum (þrátt fyrir að ég ætti ekkert afmæli) sniðug, sló tvær flugur í einu höggi svo hún þarf ekkert að pæla í gjöf í handa mér í október. Eitthvað hefur henni fundist afinn og amman vera þreytuleg því hún færði okkur dekurnudd á Mandarin - Spa. Ekki veitir af að reyna að flikka aðeins upp á þau gömlu hehehhe.
Ætli við tökum það bara ekki rólega það sem eftir er dags og komum okkur vel fyrir í sófanum fyrir framan TV- ið enda búinn að vera góður dagur í dag.
Til hamingju Ísland! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2008 | 11:30
Dagurinn byrjar vel og enginn ,,Erill" sjáanlegur enn
Frábær hugmynd Ingibjargar Sólrúnar að opna Utanríksráðuneytið fyrir almenning í dag á örugglega eftir að verða mörgum minnisstætt og nú þegar þetta er skrifað þá stendur yfir maraþonið í Reykjavíkurborg, ekki amalegt að byrja daginn á smá skokki.
Það eru örugglega margir sem halda daginn hátíðlegan í dag af ýmsum tilefnum. Bara í okkar fjölskyldu eru tvö afmæli, fimm ára brúðkaupsafmæli dóttur okkar og tengdasonar og síðan á snillingurinn hann Egill bróðir minn, líka afmæli. Til hamingju krakkar mínir með brúðkaupsafmælið, njótið dagsins vel. Egill minn knús á þig, ekki amalegt að láta borgina halda veislu í tilefni dagsins og færðu svo ekki líka flugeldasýningu í lokin? Frábært!!
Það er ekki laust við það að hugurinn sé á flugi yfir hafið á svona tillidögum og vottur af heimþrá í litla hjartanu. Við hér óskum Borginni okkar svo og öllum íbúum hennar velfarnaðar og megi dagurinn verða ykkur til gleði.
Engan fíflaskap, gangið vel um stræti og torg. Farið svo öll snemma í hátinn, það er stór dagur á morgun!
Opið upp á gátt í utanríkisráðuneytinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.8.2008 | 16:06
Fyrir ykkur sem náðuð ekki Rás 2 - Eurovisionsports.tv/olympics
Snilld hjá strákunum! Ég sem horfi ekki á handbolta datt niður í síðustu mínúturnar af leiknum. Það var bara ekki hægt annað. Var nú svo sem búin að gjóa augunum á skjáinn öðru hvoru og fylgdist með mörkunum úr fjarðlægð enda voru hrópin og köllin sem bárust úr barka míns elskulega þannig að hálf sveitin fylgdist örugglega með.
Annars varð uppi hér fótur og fit þegar minn elskulegi kom heim og ætlaði að stilla á Rás 2 og auglýst var um bilun en viðgerð stæði yfir. Hann gjörsamlega spólaði hér um húsið þar sem ekki var sýnt frá leiknum á enskum eða þýskum stöðum, ja alla vega ekki þeim sem við getum náð.
Eftir bölsót og hótanir um að hringja í útvarpstjóra, ráðherra eða bara eitthvað hringdi sonur okkar og tilkynnti honum að hann gæti séð þetta á Eurovisionsports. tv/olympics og hér með er þessu komið á framfæri til ykkar sem búið hér í nágrannalöndunum ef útvarpið klikkar aftur á sunndaginn.
Þessi tenging bjargaði mínum frá því að fá taugaáfall eða eitthvað ennþá verra og nú get ég verið róleg á sunnudaginn ef Rás 2 klikkar aftur sem á auðvitað ekki að gerast þegar svona stórviðburðir eru í aðsigi.
Flott hjá þér Þorgerður Katrín að halda út og hvetja strákana og ekki verra að boða til þjóðhátíðar. Svona á að gera það, með stæl og ekkert öðruvísi!
Ráðherra boðar þjóðhátíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2008 | 00:23
Það sem henti hér í dag.....
.....er eitthvað sem hendir okkur öll í daglegu amstri hversdagsins. Ég byrjaði á því að reyna að henda reiður á þvi sem ég ætlaði að gera í dag. Byrjaði á því að hendast upp og niður stigana, henda í þvottavél og þurrkara til skiptis. Hentist síðan niður til að henda í uppþvottavél, hentist í símann og hentist síðan í sturtu vegna þess að nú var komin tími til að gera sig klára til að hendast í hreinsunina og smá útréttingar fyrir morgundaginn.
Þegar ég var búin að sækja fötin í hreinsunina hentist ég að bílnum og henti fötunum í skottið og skellti aftur. Nú skildi hendast í Apotekið og Marks & Spencher vegna þess að ég er eins og litlu börnin sem hafa með sér saltstangir í bílinn þá verð ég að hafa með mér hafrakex á ferðalögum til að lifa af morgunmatinn.
Þarna var ég næstum búin að henda mér í vegg eins og Jenný, déskotinn sjálfur, afgreiðslan var fyrir neðan allar hellur og ég hellti mér yfir aumingja afgreiðslukonuna og húðskammaði hana fyrir sauðahátt og hótaði að hér skildi þetta fara fyrir nefnd í hinu hámenntaða Breska drottningaveldi.
Ég hentist síðan niður rúllustigann og út í bíl, henti pokaskjöttunum í aftursætið og keyrði í hendingskasti 50 km til Prag þar sem ég var orðin ansi sein á ferð og klukkan að verða sjö og ég var búin að lofa að henda kveðju á vini mína Stefán Baldursson og Þórunni þar sem þau voru að koma hingað til að heimsækja okkur og við auðvitað við að hendast burtu á morgun svo það var bara þessi litla kvöldstund sem við gátum setið saman og knúsað hvort annað.
Loksins þegar ég var komin niður á Reykjavík þá hætti þetta æðibunukast sem ég hafði angrað mig í allan dag og loks gat ég slakað á. Það var yndislegt að hitta Tótu og Stebba í kvöld. Gunnar Kvaran og Guðný komu síðar um kvöldið og við áttum skemmtilega samverustund fram yfir miðnætti.
Það er alsæl kona sem ætlar núna að henda sér á koddann og á morgun verður hent í töskur og brunað í alsælu á vit fornra rústa Ítalíu.
Góðar stundir góðu vinir hvar sem þið eruð í heiminum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.7.2008 | 08:04
Þetta fer allt einhvern veginn, þó sumir efist í dag.
Getur þetta bara verið rétt sagði vinkona mín í algjöri hneykslan við mig hér um daginn?
-Hvað ertu að tala um spurði ég.
- Ég borgaði 130.- tékkapeninga fyrir eitt hvítvínsglas eða sem svarar 650.- ísl. kr. og sama fyrir einn bjór!
-já vinkona þetta er rétt verð, en ítrekaði við hana að hún hefði setið á fjölfarinni götukrá í miðbænum, þar sem verðið væri dálítið hærra en í úthverfum.
-ja hérna sagði hún, það er af sem áður var þegar krónan var ein á móti tveimur hér í Tékklandi.
Þessi sama vinkona mín hafi komið hingað frá Köben og tilkynnti mér um leið og hún kom hingað að hún hefði bara ekkert verslað í kóngsins Köbenhavn, allt hefði verið svo hrikalega dýrt.
Ég brosti aðeins út í annað og hugsaði: ja ekki held ég að þú gerir nein góð kaup hér heldur vinkona þar sem krónan er nú 5,4 á móti tékkapeningnum.
Við hér höfum fundið fyrir verðbólgunni eins og allir aðrir og á meðan 40% aukning er í verslun ferðamanna á Íslandi má segja að samsvarandi lækkun sé hér í Evrópu. Hótelin keppast við að koma með lág tilboð þar sem nýting er í lágmarki miða við árstíma og útsölur hafa aldrei verið eins góðar og nú en jafnvel það dugar ekki til.
En þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem verðbólgan hræðir fólk upp úr skónum og verðum við ekki að hafa þá trú að öldurnar fari að lægja svona smátt og smátt. En á meðan þá bara heimsækjum við ,,útlendingarnir" okkar góða gamla Ísland og lifum eins og kóngar í ríki okkar.
Er á meðan er.
Ferðamenn hafa aldrei eytt meiru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.7.2008 | 10:11
Tékkar eru sjálfstæð þjóð og hræðast ekki lengur
Um leið og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Tékklands, Karel Schwarzenberg og Condoleezza Rice skrifuðu undir samninginn um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Tékklandi blésu kaldir vindar um hundrað turna borgina Prag.
Þrátt fyrir lítil sem engin mótmæli hér í borginni höfðu sumir á orði að veðurguðirnir sýndu glögglega að þetta væri viðburður sem vert væri að taka eftir. Tékkar eru að því leiti líkir okkur Íslendingum að þeir trúa á veðurguðina og fara mikið eftir því hvernig vindar blása þegar stórviðburðir gerast. Eins og við eiga þeir líka óteljandi málshætti þar sem veður og vindar segja til um ókomna framtíð.
Tékkar eru þjóð sem bjó undir oki kommúnismanns í fimmtíu ár og létu yfir sig ganga kúgun og niðurrif og þau ár gleymast aldrei. Tékkar eru friðsöm þjóð og vinnusöm sem í dag eru á góðri leið með að verða eitt fremsta ríki V- Evrópu.
Uppbyggingin sem orðið hefur hér á undanförnum árum er ótrúleg og þeir eru stoltir af því að vera í dag sjálfstætt ríki sem stendur á eigin fótum. Þeir áunnu sér fljótlega, eftir flauelsbyltinguna hylli allra vestrænna þjóða og hræðast ekki lengur stóra bróður í austri.
Saka Rússa um þrætugirni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.7.2008 | 22:31
Hvers vegna kom ekki þessi yfirlýsing fyrr frá útlendingastofnun?
Útlendingastofnun kemur með greinagóða lýsingu en hvers vegna ekki fyrr!? Næstum þremur dögum of seint? Nú eru allir kjaftstopp, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Síðan kemur þetta klassíska og trúgjarnir segja: Nú var þetta svona og málið dautt.
Sátum hér í kvöld með vinum okkar og fl. fólki. Ég konsúlínan tilkynnti að ég hefði skrifað undir listann sem gekk í morgun um að bjarga Paul Ramses frá gálganum.
Fékk ræðu frá mínum elskulega um það að ég ætti ekki að skipta mér að svona málum.
Eldur varð laus! Ræði það ekki á opinberum vetvangi en ég fékk stuðning frá Halldóri ritmeistara þar sem hann hafði líka skrifað undir samskonar lista. Hjúkket hvað ég var fegin að fá stuðning frá ekki ómerkari persónu.
Umræður urðu fjörugar. Ég og Halldór stóðum föst við okkar skoðanir. Flestir ráðamenn þjóðarinnar voru komnir niður fyrir okkar sjónlínu. Síðan var málið tekið út af dagsskrá.
Nú sit ég hér og veit ekkert í minn haus vegna þess að þessi blessuð útlendingastofnun sá sér ekki fært að senda greinagóða skilgreiningu fyrr en í eftirmiðdaginn! Og við almúginn erum bara búin að básúna út okkar sjónarmið og mæta á mótmælafund til einskis vegna þess að auðvitað hefur þessi stofnun það vald að berja niður óbreittan almúgann og segja að rétt sé rangt.
Var verið að funda í allan dag með yfirmönnum þjóðarinnar? Nei ég held ekki, það eru allir komnir í sumarfrí.
. Málið auðheyranlega dautt.
En við öll höfum rétt á þvi að hafa í frammi okkar skoðanir og málfrelsi er sem betur fer enn viðurkennt í okkar einkennilega þjóðfélagi.
Sorgleg endalok eða....
Útlendingastofnun: Ramses var ekki handtekinn á heimili sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)