Færsluflokkur: Vefurinn
4.5.2008 | 08:26
Auður Vésteinsdóttir, velkomin í Listasetrið Leifsbúð
Nú er aftur að færast líf í Listasetrið okkar og fyrsti gestur okkar mættur á svæðið. Auður Vésteinsdóttir myndlistamaður mun dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verkum sínum. Við bjóðum hana og hennar eiginmann Svein Baldursson velkomin og vonum að þau njóti dvalarinnar hér.
Það var vinalegt að horfa yfir að Leifsbúð í gærkvöldi, uppljómaða, vitandi af svo góðu fólki þarna að vinnu. Erró minn var fljótur að koma sér í kynni við nýja ábúendur og í morgun skellti hann sér í morgungöngu með þeim hjónum í góða veðrinu.
Læt hér fylgja vefsíðuna okkar: www.leifsbud.cz
1.5.2008 | 09:16
1. maí fyrir þrjátíu árum.
1. maí fyrir nákvæmlega þrjátíu árum stóð lítill þriggja ára gutti fyrir utan veitingastað foreldra sinna við Hlemm og vakti mikla athygli vegfarenda þar sem hann stóð klæddur í hvíta kokkasvuntu sem bundin var undir handakrikana og náði alla leið niður að strigaskónum. Í hendinni bar hann stóra sleif sem hann hélt uppi sem veldissprota. Birtist mynd af þessum litla ljóshærða baráttumanni í einhverju dagblaðanna daginn eftir þar sem hann stóð þetta líka vígalegur tilbúinn í slaginn.
Fólk var að safnast saman með kröfuspjöldin og verkalýðsfána því nú átti að halda fylktu liði niður Laugaveginn. Þar sem litli guttinn stóð í sinni sértöku múnderingu og fylgdist með þegar fólk fólk fór að raða sér upp eftir öllum kúnstarinnar reglum tók hann allt í einu eftir því að nú hafði bæst í hópinn Lúðrasveit sem hann kallaði alltaf hornablástur. Sá stutti kætist allur og þar sem hann hafði nýlega farið í skrúðgöngu með foreldrum sínum á sumardaginn fyrsta og mundi vel eftir fánum og blöðrum sem fylgdu svona skrúðgöngum., hélt hann auðvitað að nú ætti að endurtaka leikinn.
Hann segir við föður sinn sem stendur þarna með honum: Pabbi koma í skrúðgöngu.
Nei, við förum ekki í þessa skrúðgöngu.
En pabbi það er hornablástur, ég vil fara í skrúðgöngu.
Nei, við förum ekki í svona skrúðgöngu, þetta eru bara kommúnistar.
Sama hvernig sá stutti suðaði, pabba var ekki haggað. Sjálfsagt hafa fallið nokkur tár enda hvernig átti lítill þriggja og hálfs árs gutti að skilja að pabbi vildi ekki fara með honum í skrúðgöngu. Hann varð að láta sér nægja að fylgjast með þegar fylkingin hélt af stað niður Laugaveginn með gjallandi hornablæstri.
Orðið kommúnisti bættist við orðaforða barnsins og var það versta sem hann gat sagt ef honum mislíkaði og þar sem bannað var að blóta á heimilinu var þetta orð notað í staðin.
Svona var nú uppeldið á þeim bænum. Ekki þori ég að segja til um hvar hann stendur nú í pólitíkinni en ég hallast að því að hann sé hægrisinnaður í dag.
![]() |
Kröfuganga frá Hlemmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.4.2008 | 20:26
Ætla að koma með sumarið með mér
Á morgun verður haldið fljúgandi yfir haf og lönd beint í faðm Hamingjulandsins. Einhvern veginn náðum við að klúðra farseðlunum þannig að minn elskulegi fer héðan klukkan fimm í fyrramálið en ég ekki fyrr en fimm um eftirmiðdaginn. Aumingja kallinn minn verður að bíða í fimm tíma í Köben en ég vorkenni honum svo sem ekkert, Köben er alveg þess virði að eyða nokkrum klukkutímum á randi um stræti og torg.
Amman er auðvitað búin að fylla tösku af nýjum fötum á prinsinn sinn, stórum Bubba byggir og Tomma tog. Hvað ég hlakka til að knúsa hann og dekra upp úr skónum þessa fáu daga sem við verðum saman. Skrúðganga á Sumardaginn fyrsta með hornablæstri, ís og blöðru.
Ég vona bara að barnið þekki ömmu sína og afa þegar þau koma með öll lætin og brussuganginn. Hendi sér bara ekki undir rúm af skelfingu við þessa brjálæðinga frá útlöndum. Verðum að reyna að hafa hemil á okkur svona fyrstu klukkustundina og ekki kremja hann í klessu. Barnið er jú bara eins og hálfs.
Við ætlum að reyna að koma með pínu lítið af sumrinu með okkur í farteskinu, en lofum engu þar um. Ekki veit ég hvort mikill tími gefst til að blogga þessa daga en ég ætla nú samt að taka með mér tölvudrusluna svona in case.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2008 | 14:46
Gaman að vera Íslendingur hér í dag.
Þegar við fluttum hingað fyrir átján árum og opnuðum fyrsta einkarekna veitingahúsið í Tékklandi fundum við vel fyrir því hversu velviljaðir Tékkar voru í garð okkar Íslendinga. Þeir hræddust ekki þessa litlu þjóð úr norðri sem engan hafði herinn og orðið útrás þekktist varla í íslensku máli.
Öðru máli gegndi um stórabróður í vestri þar voru þeir ekki öruggir með sig. Enda kom það í ljós 1993 þegar landið skiptist í Slóvakíu og Tékkland þá fengu útlendingar aðeins að finna fyrir því að þeir voru hér gestir og höfðu komið hingað með sitt ,,know how" en nú gætu Tékkar tekið sjálfir við.
Margir hrökkluðust úr góðu starfi og sneru aftur til síns heima. Tékkar tóku við yfirmannastöðum í stóru fyrirtækjunum en uppgötvuðu fljótlega að þeir voru alls ekki tilbúnir til að takast á við mörg af þeim verkefnum sem útlendingar höfðu leyst af hendi eftir ,,flauelisbyltinguna".
Hér var mikil ringulreið á markaðinum og við fengum svo sem líka að finna fyrir því að við vorum bara hér til að kenna en síðan gætum við farið heim og lokað á eftir okkur. Við héldum okkar ásetningi og börðumst eins vel og við frekar gátum við að halda okkar fyrirtæki og láta engan hrekja okkur í burtu.
Árið 1994 viðurkendu Tékkar að hafa verið of fljótir á sér og tóku útlendinga í sátt, ja alla vega að hluta til. Enn var samt hart barist á sumum vígstöðvum.
Greinin sem birtist í Prague Post 16. apríl þar sem m.a. er viðtal við minn eiginmann, hefur vakið mikla athygli, þá sérstaklega hjá útlendingum sem búa hér. Litla landið okkar er komið á kortið svo um mundar og við erum ekki lengur þessi fátæka þjóð sem engum ögraði.
Það er gaman að vera Íslendingur hér í dag. Við erum mjög stolt af þessum íslensku fyrirtækjum sem hér hafa fjárfest og megi þeim vegna vel hér í framtíðinni.
![]() |
Fjallað um útrásina í Tékklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.4.2008 | 07:33
Æ, nú bætist þetta við vorverkin í borginni.
Nýbúið að gefa út þá yfirlýsingu að allt ætti að vera orðið spik og spa fyrir 17. júní. Yfirlýsing sem mér fannst nú dálítið hlægileg. Er það ekki sómi hverrar borgarstjórnar hvar sem er í heiminum að sjá um að borgin okkar sé hrein og snyrtileg. Þarf að auglýsa það í öllum fjölmiðlum. Er ekki líka sjálfsagður hlutur að borgarbúar gangi sómasamlega um sína borg og beri virðingu fyrir mannvirkjum og öllu umhverfi sínu.
Hvað er svona merkilegt við það að götuhreinsun fari fram, eða veggjakrot hreinsað af húsum, þarf að mynda það í bak og fyrir og útlista það í fréttamiðlum og væla yfir því hvað kemur undan sjónum. Veit ekki betur en allir verði að taka til hendinni við vorverkin hvar sem er í veröldinni.
Ætli borgarstjórinn ykkar verði bara ekki að selja annan lystigarð núna til að ná upp í hreinsunarkostnað. Það er nú líka eitt axarskaftið í viðbót.
Nú ætla ég að láta taka mynd af mér þar sem ég og minn elskulegi erum á kafi í vorverkunum og við bíðum ekkert eftir sóparanum frá borginni, við hreinsum okkar götu sjálf.
![]() |
Krotað á strætó í skjóli nætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2008 | 20:03
Þegar sorgin knýr dyra
Síminn hringir, það er æskuvinkona mín. Skipst á ómerkilegum spurningum. Svo kemur skellurinn. Þú situr og hlustar. Þú spyrð spurninga, færð svör. Þú talar eðlilega, að þér finnst. Tíminn líður og þú ert meðvituð um allt sem sagt er og þú reagerar eðlilega, tekur þátt, samhryggist en skilur samt ekki neitt.
Þú kveður með því að segja: Ég hef samband við þig fljótlega.
Þú klikkar á rauða takkann. End.
Þú situr lengi. Ég verð að fara að koma mér upp og segja Þóri þessar hörmunga fréttir. Loksins stendur þú upp og þá er eins og fæturnir gefi sig. En þú verður að komast upp stigann. Hann verður líka að heyra þetta. Þú kemst upp í svefnherbergi þar sem hann liggur og les í bók, þú dettur næstum niður á rúmið.
Ég hef sorgarfréttir að segja þér.
Hjartað bankar eins og það vilji út úr líkamanum, maginn er í hnút, þetta er of mikið.
Hringt heim í okkar bestu vini. Fréttin berst frá Prag heim til vina okkar. Hjartað grætur.
Síðan kemur spurningin. Hvers vegna? Þú sem hafði svo mikið misst en varst alltaf þessi sterka flotta kona. Af hverju þennan dag? Allir héldu að þú hefðir eftir þessi sex ár komist yfir sorgina. Enginn hafði hugmynd um hvernig þér leið vinkona. Þú fallegust, gjöfula kona sem gafst allt en þáðir aldrei neitt í staðin.
Hvar vorum við vinirnir? Er þetta líka okkur að kenna og af hverju núna eftir nákvæmlega sex ár. Blessuð sé minning hans. En það voru veikindi, þetta er allt annað, þetta er ekki réttlátt.
Núna kemur reiðin hjá okkur öllum. Þú lést okkur halda að þú værir hamingjusöm. Þú varst búin að finna góðan förunaut sem þú ferðaðist með út um heim. Þú varst sátt eða það héldum við. Þú áttir börnin þín og fjölskyldu sem elskuðu þig meir en þú nokkurn tíma gerðir þér ljóst.
Hvers vegna? Við fáum aldrei svör við þessari spurningu en það er svo erfitt að skilja og það er svo erfitt að sætta sig við.
Ég bið góðan Guð að blessa þig og ef til vill miskunnar hann sig yfir okkur öll og sameinar ykkur hjónin á betri stað. Guð blessi fjölskylduna og ástvini þína á þessari erfiðu stund.
Ég kveiki á kerti þér til handa.
13.4.2008 | 08:45
Í ,,útlegðinni" en hér á ég heima
Í gær voru mér tileinkaðar nokkrar línur úr ljóði Jóns Helgasonar hér á blogginu. Þessi fallega kveðja kom frá Hallgerði Pétursdóttur bloggvinkonu minni. Þetta yljaði og gladdi mig mikið.
Það er ekki á hverjum degi sem kveðjur berast hingað sem gefa manni tilefni til að setjast niður og hugsa, hvað er ég að gera hér, hver er tilgangurinn, er það þetta sem ég vil, hverju er ég að missa af, eða er ég að missa af einhverju, síðan falla eitt og eitt tár bara svona alveg óvart.
Sogið er pínu upp í nefið og þessi leiðinlega kerling ,,heimþráin" er hrakin burt með löngu andvarpi sem berst út í nóttina og fáir eða engin heyrir.
Maður vaknar að morgni, sólin skín og fuglarnir kvaka sitt dirrindí, nýr dagur með nýjum verkefnum en enn yljar kveðjan hennar Hallgerðar mér um hjartarætur.
Lífið er yndislegt og hér á ég heima.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.4.2008 | 19:19
Skúra, skrúbba og bóna ekki til í dæminu.
Halló, það er bara dálítill munur á heimilisstörfum og léttu skokki. Mér leiðast heimilisstörf hvaða nafni sem þau kallast, geri það bara að nauðsyn og gömlum vana. Held sem sagt heimilinu í horfinu eins og það er kallað. Mér leiðast húsverkin, ryksuga, þvo þvotta, þurka af og að ég tali nú ekki um að þrífa glugga. Þetta getur hreint út sagt verið mannskemmandi.
Að skokka er heldur ekki minn tebolli þá vil ég heldur rölta um í rólegheitum og fílósófera með sjálfri mér, alein með mínum spekúlasjónum. Njóta náttúrunnar, það er það sem bætir geðheilsuna og hlusta á góða tónlist.
Heimilisstörf eru bara til að auka streitu hjá venjulegu fólki en e.t.v. er verið að tala þarna um einhvern sérstakan þjóðflokk sem ég kannast alls ekki við.
![]() |
Heimilisstörfin bæta geðheilsuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.4.2008 | 09:45
Enn eitt slysið við Vogaafleggjara
Hvað er eiginlega í gangi þarna, er verið að bíða eftir dauðaslysi? Hver er ábyrgur fyrir þessum vegaframkvæmdum? Er ekki löngu kominn tími til að setja alla vega viðeigandi aðvörunarskilti og fullkomin aðvörunarljós fyrst enginn ætlar að sjá sóma sinn í því að laga þennan spotta?
Skil ekki svona framkvæmdaleysi og sofandahátt.
![]() |
Umferðaræðar opnaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2008 | 10:10
Aðalræðismaðurinn var heiðraður fyrir vel unnin störf.
Þórir Gunnarsson, minn elskulegi var ,,tekinn á teppið" af Heimsforseta FICAC ( World Federation of Consuls) hér á laugardagskvöld þar sem honum var veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf í 15 ár sem Aðalræðismaður Íslands hér í Tékklandi.
Það virðist með þessu ekki farið fram hjá þeim í Alþjóðastjórninni hversu gott og mikið starf hann hefur unnið hér fyrir land og þjóð. Mikið er ég stolt af honum! Hann átti þessa viðurkenningu svo sannarlega skilið. Til hamingju minn elskulegi. Alltaf flottastur!