Færsluflokkur: Vefurinn
3.4.2008 | 07:31
Nú bunar gullvökvinn í tonnatali úr slöngunni hingað inn
Ekki skrítið að olíumálið hafi skotist hér upp á eldhúsborðið, allt að verða vitlaust á Íslandi, bílar blásandi um allar götur svo stoppa varð umræður á Alþingi hvað þá meir.
Eftir mikla útreikninga og málaþras á milli hjóna hér í gærkvöldi komumst við að þeirri niðurstöðu að við erum að borga nákvæmlega sömu upphæð fyrir olíulítrann hér í Tékklandi og þið þarna heima. Verðum samt að taka með í reikninginn gengisbreytingar síðustu daga.
Hér er samt allt með kyrrum kjörum, engin mótmæli á almannafæri, umferðin gengur sinn vana gang og við bara fyllum bílana með þessum gullvökva og borgum steinþegjandi og hljóðalaust.
Nákvæmlega í þessum orðum rituðum er verið að dæla í tonnatali gullvökva hér inn í húsið þar sem við kyndum húsin hér með olíu og hitalagnir í öllum gólfum. Ekkert smá sjokk þegar ég fæ reikninginn í hendurnar.
En hvað skal gera, ég þoli ekki köld hýbýli og vera með hor í nös alla daga.
Spurning er hvort ekki sé vænlegra að setja hér sólarorku?
![]() |
Olíuverð hækkar á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.4.2008 | 08:43
Morgunþankar frá Stjörnusteini
Rumskaði við sólarupprás, það þíðir um fimmleitið. Tramp, tramp, datt í hug að ég væri komin inn í ævintýrið um geithafinn en þetta var þá bara minn elskulegi að vakna til nýs dags. Ekki beint léttstígur minn, svona hælatrampari.
Heyrist úr baðherberginu þetta líka hressilega: Nei, góðan daginn Þórir, rosalega lítur þú vel út í dag! Nei, það var engin óviðkomandi þarna á ferð, aðeins minn að bjóða sjálfum sér góðan dag, svona líka morgunhress og kátur.
Skrúfað frá sturtu, baksað á baðinu, ljós kveikt í fataherberginu, herðatré detta á gólfið, skúffum skellt aftur. Ilmur fyllir svefnherbergið af nýþvegnum húsbónda sem gefur koss á kinn um leið og sagt er: Er farinn. Ég: uml.....
Trampar niður stigann og syngur um leið: I love to get up in the morning!
Ég sný mér á hina hliðina og breiði upp yfir haus. Sofna. Fyrir mér er enn nótt.
Hvernig hægt er að vera svona morgunhress, það skil ég ekki enda ekki í A flokknum.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2008 | 08:09
Fyrsti apríl eða .........
Nú flykkist fólk að alþingi til að fylgjast með þessum gjörning bílstjóranna
Er búin að taka þá ákvörðun að láta engan, segi og skrifa engan fá þá ánægju að láta mig hlaupa fyrsta apríl. Ætla að hafa það í huga í allan dag að hér gangi allir um ljúgandi og ekki sagt eitt stakt satt orð þar til klukkan slær tólf á miðnætti. Þó rigni eldi og brennistein þá ætla ég að halda ró minni og taka ekki til fótanna.
Rosalega er ég fegin að það er ekki einn einasti þröskuldur í mínu húsi, maður átti alltaf að hlaupa yfir þrjá svo gabbið skilaði sér fullkomlega. Hehehhe þar gabbaði nútíminn þann gamla Hear me talk!
![]() |
Sturta möl fyrir framan Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.3.2008 | 22:12
Draumsýn eða hvað?
Við vorum á leið heim í kvöld og ég impraði á þessu við minn elskulega þar sem við keyrðum eftir hraðbrautinni heim á leið.
Ég: Hvað finnst þér um að leggja Metro í Reykjavík
Hann: Ertu eitthvað verri, það búa bara rúmlega eitthundrað þúsund manns þarna
Ég: Og so, af hverju ekki? Þetta gæti leyst samgönguvanda og auðveldað fólki að komast frá A til Ö. Sjáðu bara hvað þetta er þægilegt hér, þú hoppar upp í lest og ert kominn innan fárra mínútna á ákvörðunarstað. Hvað er svona neikvætt við þetta.
Hann: Hugarfluga ekkert annað, þetta verður ekki að veruleika á Íslandi meðan við tórum í þessum heimi.
Sem sagt þarna var einn á neikvæðu nótunum. Útilokaði bara sí svona að þetta yrði að veruleika, ja alla vega fengjum við ekki að líta þessi samgöngutæki augum á Íslandi, við værum einfaldlega of fámenn þjóð og kostnaður óyfirstíganlegur.
Ég sit hér og læt mig dreyma. Vonandi, einhvern tíma, bara ef........
![]() |
Borgarráð skoðar hagkvæmni lesta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.3.2008 | 15:14
Annar í páskum, dagur barnanna. Páskasagan endar hér
Hody, hody, doprovody syngja börnin hér núna og ganga hús úr húsi. Að launum fá þau nammi í körfurnar sínar sem stelpurnar bera en strákarnir reyna að koma á mann höggi með skreyttum reyrstöfunum.
Vísan er eitthvað á þessa leið: Hátíð, hátíð vinir mínir. Gefið okkur rauð egg en ef þið eigið ekki máluð egg þá gefið okkur hvít. Þetta syngja þau hátt og snjallt fyrir alla sem heyra vilja.
Þessi páskasiður hefur lítið breyst í aldanna rás nema að því leiti að hér áður fyrr eltust ungir menn við þær stelpur sem þeir voru skotnir í og oft endaði eltingarleikurinn upp á hlöðulofti með tilheyrandi hlátrasköllum og hamagangi en sumir ungir menn urðu að súpa súrt seyði og gefast upp, þar sem heimasætan lokaði sig inn í föðurhúsum og vildi ekkert með gaurinn hafa.
Minnir óneitanlega dálítið á Öskudaginn okkar.
Þar með endar Páskasagan, á degi barnanna hér í Tékklandi. Ég vona að einhverjir hafi haft gaman að.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2008 | 17:00
Páskasagan heldur áfram...Píslargöngustígurinn
Fátt er skrifað í gömlum ritum um laugardag fyrir páska jú nema það að fólk fór í heimsóknir til ættingja og vina og skiptist á gjöfum. Börnum voru gefin listilega skreytt egg en fullorðna fólkið gaf hvort öðru heimalagaðar pylsur eða annað matarkyns en allt fór þetta eftir efnum og ástæðum heimilanna.
Á páskadagsmorgun klæddist fólk sínu fínasta pússi og sótti kirkju að kristilegum sið.
Nokkru eftir að við fluttum hingað í sveitina og fórum að skoða hér gönguleiðir um nágrennið villtumst við einu sinni af leið og héldum eftir þröngum stíg sem lá frá Sternberg kastalanum sem er í þriggja km fjarlægð frá okkar landareign. Kastali þessi var byggður snemma á 13. öld og hefur fylgt Sternbergunum alla tíð síðan.
Þennan sólríka vordag ákváðum við að fylgja þessum stíg og sjá til hvert hann lægi. Slóðinn liggur frá kastalanum og bugðast niður í frekar djúpt gil. Beggja vegna stígsins vaxa ævaforn grenitré og aðrar skógarjurtir en inn á milli vex blágresi sem gefur umhverfinu ævintýralegan ljóma. Kyrrðin sem ríkir þarna er með ólíkindum, það bærist varla hár á höfði og eina hljóðið sem berst til eyrna er værðarlegt gljáfrið frá bergvatnsánni sem rennur letilega í botni þessa undrareits.
Það sem vakti athygli okkar þegar við fyrst gengum þessa leið, voru mjög gamlir róðukrossar sem höfðu verið settir við stíginn með vissu millibili. Myndirnar sem eru á krossunum eru teikningar eftir börn og þar getur þú fylgt píslarsögunni frá byrjun til enda. Því miður er ekkert ártal á þessum myndum en þær eru örugglega mjög gamlar og hafa varðveist ótrúlega vel þarna undir gleri.
Þegar við fórum síðar að forvitnast um þennan stíg fengum við að vita að hann er nefndur Píslargöngustígur. Sagan segir að hér fyrr á öldum hafi biskupar og prestar gengið í broddi fylkingar þessa leið á páskadagsmorgun til þess að minnast píslargöngu Krists.
Stígurinn er um 10 km langur og liggur héðan til næsta þorps. Þegar Hraðbrautin var lögð var stígurinn vaðveittur eins vel og hægt var og liggur nú undir veginn svo enn í dag er hægt að ganga þessa leið án hindrana. Að sjálfsögðu hefur stígurinn breikkað í tímana rás enda mikið um ferðamenn þarna þó sérstaklega að sumarlagi.
Það liggur mikil og djúp helgi yfir þessu svæði og stundum hefur mér fundist einhver vera með mér á göngunni sem vill fylgja mér áleiðis. Á vissu svæði ríkir svo mikil kyrrð að jafnvel fuglarnir hætta að syngja. Það er eins og allt umhverfið vilji umvefja mann og gefa manni kraft.
Ekki amalegt að hafa svona kraftmikinn stað hér rétt við túnfótinn.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.3.2008 | 20:10
Páskasagan héðan frá Stjörnusteini, Föstudagurinn langi
Ég lofaði ykkur framhaldi af páskasögunni.
Eftir allt stússið á Skírdag var börnunum smalað saman niður að næstu á eða læk og nú skildi baða liðið. Mig hryllir við þeirri hugsun, bara það að sumar árnar hér eru jafn mórauðar eins og Moldá en bergvatnsár finnast ekki nema á hálendinu svo blessuðum börnunum var dýft ofan í vatn sama hvernig það leit út. Líka það að núna er hér 3° hiti svo þetta hefur ekki verið tekið út með þegjandi sældinni hjá mörgum á þessum árstíma. En bað skildi það vera á Föstudaginn langa og ekkert múður. Allir fengu síðan hrein föt og sjálfasagt margir kvef í þokkabót.
Fullorðna fólkið fastaði þennan dag en börnin fengu heita mjólk, sem skýrir allt sem þarf, auðvitað heita mjólk eftir vosbúðina og ,,Macanec" en það eru brauðin sem ég sagði frá í síðustu færslu. Ef mikil fátækt var á heimilinu fengu börnin hveitikökur með hunangi sem kallaðar voru ,, Jidásky" en það þýðir Júdas.
Svona var nú Föstudagurinn langi hér áður fyrr og þá er ég að taka um fyrir 1990. Þegar ég var á leið heim í dag, keyrandi hraðbrautina frá Supermarkaðnum þá hugsaði ég ,já hér hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umferðin silaðist áfram á svona 140 km á kl.st. og allir á leið út úr borginni sjálfsagt á leið í sumarhúsin. (Allir Tékkar eiga sitt sumarhús) ja annars ertu þú úti, það er bara þannig.
Nú rennir fjölskyldan inn á McDonalds á leiðinni og fær sér einn Big Mac. Þegar komið er í sveitina er tekið upp franskt rauðvín og svissneskir ostar og þýskar pylsur. Ef veður leyfir er grillað um kvöldmatarleitið á Webergræju. Börnin eru böðuð í heitum pottum eða baðkerum með nuddgræjum. Enginn borðar lengur Jidásky eða baðar sig í ísköldum ám.
Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Píslagöngustígnum hér í sveitinni okkar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2008 | 23:37
Kveðja frá okkur héðan í Tékklandi
Veit að sumir eru með áhyggjur af okkur þar sem þetta er þjóðvegurinn heim til okkar að Stjörnusteini. Við erum hér heima og allt í lagi með okkur. Vorum bæði á ferðinni klukkustundu fyrir óhappið á hraðbrautinni.
Bestu páskakveðjur til ykkar allra. Ía, Þórir og fjölskylda.
![]() |
115 bíla árekstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 21.3.2008 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2008 | 11:41
Hody, hody, doprovody! - Hátíð, hátíð, vinir mínir!
Skírdagur er ekki haldinn hér hátíðlegur. Hér áður fyrr notuðu Tékkneskar húsmæður daginn til að undirbúa páskana með því að baka páskabrauð sem svipar aðeins til okkar gamla rúsínubrauðs. Brauðið var bakað í svotilgerðu kanínuformi og síðan skreytt með möndluflögum. Snurfusa heimilið svo allt sé tandurhreint á sjálfan páskadaginn.
Gamlar konur sátu með barnabörnunum og fléttuðu reyrstafi sem síðan voru skreyttir með alla vega litum borðum. Segi seinna frá því til hvers þeir eru notaðir.
Aðrir sátu heima og máluðu egg með fjölskyldu og vinum. Þessi egg eru augnayndi og hér á þessu heimili er til stór karfa með þessum eggjum sem varðveitt eru frá ári til árs og skreyta hér greinar í stofunni.
Nútímakonan þeysist í stórmarkaðinn og fyllir körfuna af allskonar góðgæti handa krökkunum á páskadag, brauðið góða er keypt tilbúið, sveittir og geðyllir eiginmenn drattast með ólund á eftir húsmóðurinni sem auðvitað er með vælandi krakkagrislingana í eftirdragi. Enginn brosir, allir búnir að taka fýlupillu með morgunmatnum.
Ömmurnar sitja heima og núa höndum saman vegna þess að nú er reyrstafurinn keyptur úti á næsta götuhorni svo það er ekkert fyrir þær að gera nema láta sér leiðast.
Enginn nennir að mála egg nema þeir sem hafa það að atvinnu og stórgræða á túrhestum og öðrum sem álpast til að fjárfesta í þessum gersemum.
Svona er nú það og ég ætla að fara að dæmi nútímakonunnar og fá mér andlitsbað hjá dúllunni minni henni Marketu.
Á morgun kemur síðan framhald af páskasögunni héðan frá Stjörnusteini.
18.3.2008 | 10:48
Að sjálfsögðu, hvað annað? En samt...
Getum við verið annað en stolt af þessum löndum okkar sem dvelja þarna í Afganistan? Við höfum alltaf verið kjörkuð þjóð en mín skoðun er samt sú að Ísland eigi að draga sig til baka frá Afganistan og senda fólkið heim sama hversu ,,kraft og kjarkmikil" við erum.
![]() |
„Getum verið stolt af Íslendingunum“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)