Færsluflokkur: Lífstíll

Amberg var okkar bær og bjargaði okkar sálarheill fyrir átján árum

Ohhh ég veit nákvæmlega hvar þetta hótel er! Þessi litli bær í Bæjaraland var okkar lífsbjörg fyrir átján árum þegar við fórum einu sinni í viku yfir landamærin til að kaupa allar okkar nauðsynjavörur allt frá klósettpappír upp í mannsæmandi matvæli sem ekki fengust hér í þá daga.

Við bjuggum alltaf á sama hótelinu, Hotel Alstath og þar réði ríkjum fyrrverandi fegurðadrottning Amberg 1971, alveg satt, það var meira að segja mynd af henni á vegg í veitingasalnum. Blessunin leit nú ekki út eins og fegurðadrottning árið 1991 en hvað sem öðru leið þá var hún mjög elskuleg og tók alltaf á móti okkur eins og höfðingjum enda vorum við fastagestir í nokkur ár. 

Í þá daga var Amberg bara lítill sveitabær, ég vil segja að þetta hafi verið svefnbær, rétt við landamæri Tékklands sem hafði ósköp lítið uppá að bjóða en hefur blómstrað með árunum.  Ég sá strax að bærinn hafði mikla sögu að geyma og að hluta til er hann umkringdur háum múrveggjum og hliðum sem hafa staðið síðan á 15. öld.  Í dag kemur þú í sögubæ sem hefur byggst upp ótrúlega hratt og varðveitt gamlar mynjar, s.b. þetta einstaka hótel sem ég ætla svo sannarlega að heimsækja næst þegar ég á leið um.

Ég get sagt ykkur margar sögur frá Amberg en læt nægja í þetta sinn að segja að minn elskulegi elskaði að gista hjá fegurðardrottningunni og heimtaði alltaf að við gistum í tvær nætur.

Segi ef til vill fleiri sögur frá Amberg seinna.


mbl.is Minnsta hótel í heimi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barist við Kerfil, stórlaxa og snarvitlausa ferðalanga

Hér vex kerfill meðfram sveitaveginum og finnst mér hann bara til prýði svona snemma sumars þrátt fyrir að ég vildi nú ekki hafa hann hér inn á lóðinni.  Nú veit ég ekki hvort ég fer með rétt mál en nota Svíar ekki kerfil til að brugga eðal-líkjör? Alla vega hefur sænsk vinkona mín komið hingað og tínt þetta ,,illgresi" í júní og bruggað drykk sem okkur þykir bara nokkuð góður.  Held að hún noti blómin en ekki stöngulinn í seiðinn sem hún hefur síðan gefið okkur að smakka á vetrarmánuðum. Hún notar þetta eins og við notum kirsuberjalíkjör blandað saman við kampavín.  Nú verðið þið bara að leiðrétta mig ef ég fer hér með rangt mál en mér finnst endilega að þetta sé hinn illræmdi kerfill sem þeir nota.

Um leið langar mig að smjatta aðeins á fréttinni um stórlaxana sem laxveiðimenn moka upp þessa dagana. Ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina.  Glænýr lax út ískaldri bergvatnsá Íslands með nýjum kartöflum og íslensku smjöri. Jammí, jamm....

 Hér verðum við að notast við eldislaxinn sem mér finnst algjörlega óætur!

Skelli mér bara heim með næstu vél eða þannig.  Vonandi enginn snarvitlaus Breti með í för sem þolir ekki við inní vélinni og ræðst á hurðina og heimtar að fara út.....

Þannig er nú það gott fólk, vandlifað hér í henni veslu okkar.

   

       


mbl.is Ráðist til atlögu við kerfil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin safnar kröftunum saman.

Að heilsast og kveðjast það er lífsins saga og hefur mér gengið bara all bærilega undanfarin ár að kveðja án þess að vatna músum.  En í morgun gat ég ekki haldið aftur af tárunum þegar ég kvaddi litlu frændsystkinin mín.  Enn sit ég hér og á svo rosalega bágt inn í mér. Það er þungbúið bæði úti og inni. Sjálfvorkunnin alveg að drepa mig. 

Ég veit svo sem að það er annað og meira sem veldur þessu táraflóði en ætla ekki að fara út í þá sálma hér núna enda engin ástæða til að bera á borð fyrir ykkur eitthvað kerlingavæl. Nú tekur maður bara á honum stóra sínum og drífur sig í verkefni dagsins sem bíða hér ófrágengin.

Ég ætla líka að fara eftir stjörnuspá dagsins, sem ég yfirleitt tek nú ekki mark á en einhvern vegin á hún svo vel við daginn í dag.  Hún hljóðar svona:

Þegar maður sinnir stóru verkefni er orkan tvístruð.  En það er bara tímabundið ástand.  Þú þarft að staldra við og íhuga.  Þögnin safnar kröftunum saman.

Og það er einmitt það sem ég ætla að fara að gera núna, staldra við og íhuga og safna kröftum úr þögninni.

Bíð ykkur öllum góðan og bjartan dag í sál og sinni.


Míni fjölskylduhátíð með fótboltasparki og litlum krílum í göngugrind.

Það er nú ekki oft sem tækifæri gefst til að halda míní fjölskyldusamkomu hér að Stjörnusteini og hvað ég elska það að hafa fólkið mitt hér þegar færi gefst.  Bæjarrotturnar mínar komu aftur hingað í sveitasæluna í gær með börnin og slegið var upp veislu hér í garðinum.  Egill okkar og Bríet komu með Elmu Lind, Ingi og Thelma með dúllurnar sínar tvær Elínu Helgu og Kristínu Helgu en þau eru hér í heimsókn núna. 

Að fylgjast með þremur litlum dúllum, ein ný orðin eins árs, önnur tíu mánaða og síðan ömmustelpan mín átta mánaða var ekki óskemmtilegt og sjá hvað börnin stækka og þroskast ört á stuttum tíma.  Sú elsta hljóp hér um allt í göngugrindinni, sú í miðið rétt gat ýtt sér aftur á bak en mín stutta bara sat og lét fara vel um sig þó litlu tásurnar væru auðsjáanlega að reyna að spyrna í stéttina.

Óli lék við hvern sinn fingur enda tók Egill hann á fótboltaæfingu.  Fimm ára guttinn leit ekkert smá upp til stóra frænda sem einu sinni var markmaður í drengjalandsliðinu.  Þið hefðuð átt að sjá aðdáunarsvipinn þegar Egill sagði honum að Eiður Smári hefði byrjað að sparka bolta í garðinum okkar í Traðarlandinu þá jafn gamall Óla í dag. 

Elín Helga hélt sig aðeins fyrir utan þessa leiki en fékk auðvitað líka tilsögn frá stóra frænda enda hún orðin svo mikil dama, níu ára pæjan.

Grillið brást ekki hjá mínum elskulega og fóru allir saddir og þreyttir áleiðis til Prag þegar líða tók á daginn. 

Verð að bæta því hér við að þegar Kolbrún Eva var sett í göngugrindina í morgun liðu ekki nema fimm mínútur þar til mín var komin á fleygiferð hér um veröndina.  Maður má varla snúa sér við þá eru þau búin að læra eitthvað nýtt.  Bara krúttlegt.


Ég er komin með nýtt skilningarvit sem ég kalla ,,heilavigt"

Ég er alveg rosalega fastheldin í eðli mínu og þá sérstaklega þegar viðkemur húshaldi og umgjörð.  Hef aldrei verið mikið fyrir að breyta til.  Ef ég er sátt við fyrirkomulagið þá haggast hlutir ekki nema við stórhreingerningar. Íhaldsemi er líka minn löstur, ekki samt halda að ég hafi nokkurn tíma kosið íhaldið bjánarnir ykkar, fyrr frysi í neðra.  Nei ég held mikið í gamla muni þá sérstaklega húsgögn.  Eftir því sem árin líða og húsrýmið stækkar bæti ég bara við en held líka fast í allt gamalt og gott. Sem sagt blanda mikið saman gömlu og nýju.

En nú er ég komin í stórvandræði skal ég segja ykkur.  Þegar gesti ber að garði veg ég og met þyngd viðkomandi til þess að vera viss hvort ég eigi að bjóða henni/honum í stofuna eða innristofuna sem ég kalla nú Sherry-stofuna mína.  Hvernig haldið þið að gestum líði þegar þeir sjá þessi rannsakandi augu mæna þá út svo næstum sést í bert hold. Auðvitað tekur líka smá stund fyrir mig að skella viðkomandi á ,,heilavigtina" og á meðan bíður bara gestur eins og bjáni í forstofunni eftir því hvort húsmóðirin ætli að bjóða honum inn í herlegheitin eða vísa á dyr.

Nú skiljið þið ekkert hvað ég er að fara svo ég skal ekki kvelja ykkur lengur.  Sko ástæðan fyrir þessari undarlegu framkomu minni er að 30 ára gamla uppáhalds sófasettið mitt er að syngja sitt síðasta.  Þessi forláta gripur frá Belgíu er búinn að þjóna sínum tilgangi en það versta við þetta er að það lítur svo skrambi vel út.   Búin að skipta einu sinni um áklæði og setur en nú bara er þetta búið að vera.

Þess vegna verð ég að meta þyngd gesta vegna þess að ef viðkomandi er yfir 80 kg og hlammar sér niður í setgagnið þá bara getur hann ekki staðið upp af sjálfsdáðum.  Ég er nefnilega mörgum sinnum búin að þurfa að hífa gesti upp úr sófanum og stólum svo ég tek ekki lengur séns á því að bjóða fólki sæti í þessum þó þægilega húsgagni já því þú  sekkur notalega ofaní þetta en eftir smá stund finnst þér þú sitja á gólfinu með hné upp í höku.  Haldið að þetta sé huggulegt, ónei...... 

Guði sé lof fyrir sumarið því á meðan það endist eru stofurnar lítið sem ekkert notaðar svo ég get verið nokkuð róleg fram á haustið.  En þá tekur við mikil og löng leit að nýju húsgagni sem verður sko ekki auðveld því ég er búin að vera að leita að ,,hinum rétta tón"  í tvö ár!!

Hlakka til þegar ég þarf ekki lengur að nota ,,heilavigtina"

Farin út að vökva..........

 

 

 

  


Þannig komst ég að því að ég væri með gróðurofnæmi

Við vorum gestkomandi í innsveitum Frakklands, ég held að þetta hafi verið árið 1997 eða ´98. Ég sat með frænku Þóris, Limmu, og við dunduðum okkur við að setja villt blóm í vasa sem hún hafði tínt á landareigninni sem var gríðar stór mitt inn í skógarrjóðri og ekki hús í mílna fjarlægð nema gamalt nunnuklaustur sem enn var starfrækt. 

 Þetta var ævintýraheimur, íbúðarhúsið var hlaðið úr grágrýti og byggt í kring um 1700.  Hefur örugglega verið í eign hefðarfólks í þá daga.  Nú var búið að endurbyggja það að hluta og notað sem sumarhús af eiganda og fjölskyldu. 

Þórir og Nikki voru að undirbúa kvöldmatinn og nú skildi gæða sér á ekta franskri nautasteik og drekka eðalvín með. Við settumst til borðs undir stóru tré á veröndinni sem var búið að dúka fallega upp og á miðju borðinu var litskrúðugi blómvöndurinn sem við höfðum nostrað við með óteljandi villtum blómum. 

Ég komst aldrei til að smakka steikina eða bragða á víninu.  Ég hafði fundið fyrir einhverjum ónotum allan daginn, mér var þungt um andardrátt og þetta ágerðist með kvöldinu.  Ég hélt ég væri að fá einhverja flensu og bað þau að afsaka mig og skreið upp í rúm.  Alla nóttina dreymdi mig að ég væri að anda í gegn um rör!  Þórir sagði mér seinna að hann hefði aldrei heyrt annað eins, það sauð ofaní mér eins og físibelg.

 Mér leið skár daginn eftir og við héldum áleiðis heim til Prag.  Eftir því sem norðar dró fór að bera minna á þessum andþrengslum og ég auðvitað farin að kenna reykingum um þessi ósköp. Ég ákvað samt að fara til læknis þar sem einkennin voru enn til staðar og þá var ég greind með gróðurofnæmi.

Í dag lifi ég með þessu og bý í sveit!  Ég verð að viðurkenna að þetta sumar er búið að vera ansi erfitt.  Verst er það að geta ekki sofið.  

Annars bara góð og ætla núna út í garð að klippa rósirnar mínar enda ekki með ofnæmi fyrir þeim. 

Smellið á nýju myndina þarna voru rósirnar mínar rétt að byrja að blómstra í byrjun júní  

 


mbl.is Aldrei fleiri frjókorn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og naut í flagi og með allt á hornum sér.

Mér gæti nú ekki staðið meir á sama hvort dansað hefði verið í Þýsklandi eða á Spáni í gærkvöldi eða bumbur slegnar þar sem áhugi minn og skilningur á þessari íþrótt er í lágmarki.  En til þess að vera kurteis óska ég Spánverjum auðvitað til hamingju.

Þegar maður á elskulegan eiginmann sem hefur mjög gaman af að horfa á þessa stráka sparka tuðru og veltast um í hvaða veðri sem er á vellinum þá kemst maður jú ekki hjá því að fylgjast með svona uppákomum með öðru eyranu.  

Ég kom heim í gærkvöldi rétt fyrir leikinn og þá var minn farinn að tvístíga hér og ég sá strax að mikil eftirvænting var í gangi.  Bara rétt eins og þegar nautið bíður þess að vera hleypt út úr stíunni og inn á leikvanginn.  Barátta upp á líf eða dauða þar til annar liggur í valnum. 

Þar sem við getum einungis náð í enskar stöðvar hér að Stjörnusteini ætlaði hann yfir í Leifsbúð en þar er/var hægt að ná þýskum og tékkneskum stöðvum.  Halldór ábúandi í Leifsbúð hafði brunað til Vínar til þess að vera viðstaðddur leikinn svona í nærmynd, sem sagt af stórum skjá við Stephans Dom eða eitthvað í þá áttina. Minn ætlaði þá bara að sitja þarna aleinn og skemmta sér, enda var hann búinn að keyra tvisvar sama daginn til Prag og nennti ekki að keyra 100 km fram og til baka í þriðja sinn. 

Korter fyrir leik heldur hann yfir í Leifsbúð og segir um leið:  Þú kemur nú og kíkir á mig, er það ekki?

- Ég humma eitthvað svona til að vera nú ekki alveg óþolandi eiginkona.

Eftir u.þ.b. hálftíma birtist minn í eldhúsdyrunum eins og naut í flagi

- Hva er strax kominn hálfleikur spyr ég

-Nei ég næ ekki neinni stöð!!!!  Það stóðu glæringar út frá honum ég get svo sem svarið það!

- Nú segi ég algjörlega áhugalaus

Hann fer upp í bókaherbergið og sest við tölvu og sjónvarp en kemur niður eftir stutta stund.

-Þetta er algjörlega ótækt, eina sem ég get fengið er í gegn um útvarp og á ensku.

-Humm, segi ég með sama áhugaleysinu.

Hann ríkur aftur út í Leifsbúð, vill auðsjáanlega ekki gefast upp í hálfleik.  Kemur aftur og nú voru glæringarnar eins og logandi eldhaf í kringum hann.

Til þess að taka aðeins þátt í þessari eymd spyr ég hvort sjónvarpið virki ekki enn?

-Nei, frussaði hann út úr sér, gerfihnattamóttakarinn hefur örugglega skemmst í fárviðrinu um daginn.

- Heyrðu þú þarft nú ekki að vera svona fúll við mig, ekki stjórna ég veðurguðunum.

Ekkert svar.  Fer aftur upp á loft og þegar ég heyri að slökt hefur verið á útvarpinu fer ég upp og ætla nú að reyna að vera elskuleg og meðvirk eiginkona og spyr:  Hvernig fór leikurinn?  Hverjir unnu?

-Spánn! Velti sér síðan yfir á hliðina í rúminu og var í fýlu.

Þar sem hann fór snemma til vinnu eða langt fyrir kristilegan fótaferðatíma veit ég ekki hvort hann er búinn að ná sér.  Gæti trúað því að nú væri hann staddur í verlsun sem selur móttakara fyrir allar stöðvar heims.  Soccer 

 

 

-

 

 

 

 


mbl.is Dansað á götum úti á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á morgun verður fjör hér að Stjörnusteini

Ég sit hér úti og horfi til himins.  Bleikir skýjahnoðrar bærast ljúflega með vindinum en þess á milli sést í vatnsbláan himininn.  Sólin er að setjast í vestri og ber við sjóndeildarhringinn eins og logandi eldhnöttur. Ótrúlega falleg sýn á þessu milda sumarkvöldi. 

 Það er Jónsmessan á morgun og þá glaðnar hér aldeilis yfir Stjörnusteini þar sem systir mín og mágur koma með tvö yngstu börnin sín. Ég segi tvö yngstu.  Anna Sigga mín á nú bara þau tvö en mágur minn á eldri börn frá fyrra hjónabandi sem teljast auðvitað líka til fjölskyldunnar. 

Hér er búið að ræsta út í dag, viðra rúmföt og setja hreint á rúmin.  Sundlaugin var gerð klár og nú hossast minn elskulegi á traktornum til að setja punktinn yfir I-ið og slær flatirnar eins og honum sé borgað fyrir það.  Það mætti halda að kóngurinn í Krít væri væntanlegur, þvílíkur er hamagangurinn hér á bæ.  En þau eru jú auðvitað spes hún Anna mín og hann Rikki og ekki verður leiðinlegt að fá að dúlla aðeins við litlu frændsystkinin næstu tvær vikurnar.

Ég færi ykkur öllum hlýjar kveðjur okkar inn í bjarta sumarnóttina.


Sumir geta ekki sofið fyrir fuglasöng..

 ..og þar á ég við minn elskulega.  Um leið og fuglarnir vakna er minn kominn á ról og kvartar óspart um þennan bölvaða hávaða frá fuglunum.  Annars er þetta nú meira sagt í gríni en alvöru.   

Af hverju er fólk að væla þetta. Það velur þetta sjálft ,að búa í miðborginni. Annars hélt ég nú að fólk sem byggi ,hvort sem það nú er við umferðagötu eða við skemmtistaði vendist því að sofa við hávaða. Ef þetta er svona bagalegt á það bara að flytja í rólegra hverfi.

Við gistum stundum í Lækjargötunni þegar við komum heim og ég verð að viðurkenna að það tók mig yfirleitt tvær til þrjár nætur að venjast hávaðanum frá götunni. Annað sem ég tók eftir var bölvað gargið í Mávunum sem sóttu í afganga næturinnar í húsaportum.  Það fannst mér miklu meira pirrandi en búmm,búmm,búmm frá diskótekunum.  Ætlar enginn að súa mávagreyin?  Þeir fylgja líka borgum og bæjum við sjó.  Einkennilegt að væla svona endalaust.

Hér í sveitinni okkar er svo mikil kyrrð á nóttunni að það mætti heyra saumnál detta og sumir gestir okkar hafa ekki getað sofið fyrstu næturnar vegna kyrrðarinnar enda það fólk vant að sofa við ys og þys stórborgar.

Eitt sinn komu hingað góðar vinkonur mínar og ég ákvað, vegna þess að við ætluðum aðeins út á lífið eitt kvöldið að gista í íbúð sem við eigum og staðsett er fyrir ofan veitingastaðinn okkar.  Sem sagt í hjarta borgarinnar.  

Ætli klukkan hafi ekki verið um eittleitið þegar við kvöddumst og ég hélt upp í íbúð.   Hávaðinn var svo mikill frá götulífinu að mér varð ekki svefnsamt um nóttina.  OK hvað átti ég til bragðs að taka, súa minn eigin veitingastað eða borgina?  Eftir að hafa velt mér fram og til baka í rúminu fór ég fram úr og tók mig til og endurskipulagði íbúðina.  Færði til sófa, stóla, borð og hillur og dundaði í þessu fram undir morgun. Hugsa að ég hafi nú ekki verið beint vinsæl af nágrönnum eftir þetta brambolt mitt og hefði sjálfsagt mátt búast við skömmum og svívyrðingum daginn eftir en ég var fljót að láta mig hverfa úr húsinu strax þegar birta tók.

Hef reyndar ekki lagt í að sofa aftur þarna niðurfrá.  Elska kyrrðina í sveitinni minni..  


mbl.is Hávaðinn óþolandi að sögn íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul ísvél og gullhringar á fingur

 Love Forever Fyrir nákvæmlega 34 árum vaknaði ungur maður við hlið kærustu sinnar sem enn svaf vært.  Hann fór varlega fram úr rúminu, klæddi sig hljóðlega, smellti koss á kinn sinnar elskulegu og hvarf út um útidyrnar.  Settist inn í gamlan gulan Volkswagen og keyrði sem leið lá úr Breiðholtinu og niður í bæ. 

Nú skildi fjárfesta í ísvél, ekki nýrri enda fjárhagurinn ekki bæsinn en kæmi sér vel á veitingastaðnum þar sem 17. júni var á næsta leiti og uppgripsdagur fyrir veitingamenn.

Upp í leiguíbúðinni í Dvergabakkanum vaknaði unnustan og brosti framan í heiminn.  Í dag var dagurinn þeirra.  15. júní 1974.  Þetta var mildur sumardagur, smá skýjað en það gerði ekkert til bara að hann færi nú ekki að rigna.  Unga konan klæddi sig og og gjóaði augunum á kjólinn sem hékk á herðatré á fataskápnum.  Fallegur síður kjóll, ekki hvítur heldur í mörgum fallegum pastellitum vegna þess að kona var ekki einsömul og það þótti ekki við hæfi að ganga í það heilaga þó aðeins þrír mánuðir væru liðnir á meðgönguna.  En áður en hún ætlaði að klæðast þessum kjól var haldið til hárgreiðsludömu í næsta nágrenni.  Í þá daga var ekki mikið um að farið væri í handsnyrtingu, ljósabekki eða förðun, nei bara það allra nauðsynlegasta var látið duga.

Um tvö leitið byrtist brúðguminn aftur heima með brúðarvöndinn sem hann hafði náð í á heimleiðinni. Var þá búinn að tengja ísvélina og íshræran komin á sinn stað svo nú færu seðlarnir að halast inn.  Brúðurin var komin í kjólinn og var að maskara á sér augun og setja punktinn yfir Iið. 

Man nú ekki alveg um hvað var rætt en örugglega var það ísvélin góða sem var enn hápunktur dagsins. Brúðguminn skveraði sig í sturtu og klæddi sig í smókinginn og um hálf þrjúleitið héldu brúðhjónin saman til kirkjunnar.  Man eftir að mér var oft litið til himins á leiðinni var svolítið hrædd um að hann færi að rigna og það mátti bara alls ekki.

Þegar við stigum út úr bílnum við litlu Árbæjarkirkjuna tóku á móti okkur fámenn fjölskylda og presturinn Sr. Halldór Gröndal.  Það hvessti skyndilega svo brúðurin var í vandræðum með að halda þunnum siffonkjólnum í skorðum.  En í miðri athöfn fór sólin að skína og geislarnir þrengdu sér inn um litla kirkjugluggana.   

Það er oft sagt að hjónabandið þróist eins og veðurfar brúðkaupsdagsins.  Sumir vilja halda því fram að þetta séu eintómar kerlingabækur en ef ég á að vera hreinskilin þá held ég að okkar hjónaband hafi mótast dálítið eins og veðrið þennan dag.  Það hefur verið ansi vindasamt á stundum en nú í dag skín bara sólin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband