Færsluflokkur: Lífstíll
13.6.2008 | 10:27
Það liggur eitthvað í loftinu
Ef maður tryði því að dagurinn í dag væri bundinn álögum þá færi maður nú ekki langt frá húsi. Satt best að segja er ég svona hálft í hvoru að spá í að vera bara inni en það hefur ekkert með almanakið að gera heldur er ég bara hræðilega löt. Held það sé einhver lægð hér innra svo þá er ekki að búast við miklum afrekum á þessu heimili.
Enda hvernig á annað að vera þegar hitastigið fellur niður um 10 til 15° og austanvindar blása hressilega. Já ég veit þetta er auðvitað eintómur aumingjaskapur en hér sit ég og er búin að draga fram lopapeysu og er vafin inn í 66°norður teppi og er skítkalt. Horfi hér út þar sem þungbúin ský hrannast upp eins og óvættir. Þau gera aðför að mér ég meina það!
OK, best að hætta að bulla þetta og koma sér út út húsi, en ég fer ekki úr lopanum, það er sko alveg á hreinu! Svo kemur gollan líka til með að hjálpa til ef ég skildi nú hendast á hausinn, dregur alla vega úr fallinu og áverkum.
Ætli hundurinn viti að það sé föstudagurinn 13.? Hann hefur heldur ekki farið út fyrir dyr í dag!
![]() |
Óhappadegi fagnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2008 | 06:56
Ætti ég að þora?
Ég nenni nú ekki alltaf að fylgja mínum elskulega á hans ferðalögum en vegna eindregnar óskar, og yfirlýsingar hans um ágæti minnar nærveru og hvað ég er skemmtilegur ferðafélagi, ætla ég að láta það eftir honum í þetta sinn.
Langar bílferðir með mínum eru nú ekki það sem ég vildi kjósa sem dægrastyttingu. Hann er einn af þeim sem er kominn á leiðarenda löngu áður en ferðin er hafin. Svona aðeins á undan sjálfum sér. Þ.a.l. sér maður nú asskotakornið lítið af fegurð fjalla og dala, þar sem brunað er á hraðbrautinni og varla að maður fái pissupásu.
Viðkvæðið er oft: Er ekki bara allt í lagi að stoppa næst? 50 km í næstu resteríu og ég í spreng.
Ég alltaf svo samvinnuþýð eða þannig: Ha jú, jú ekkert mál.
Ferðinni er sem sagt heitið til Hamborgar þar sem minn ætlar að mæta á þriggja daga fund. Kemur síðan bara í ljós hvað ég dunda mér við á meðan. Hef nú ekki komið til Hamborgar í mörg ár svo þetta getur orðið spennandi reisa, kannski ætti ég að líta á portkonurnar í Herbertstrasse (heitir hún ekki það fræga gatan) og sjá hvort þær hreyta í mig ónotum eins og seinast þegar við fórum þar um, en þá var ég nú í fylgd með mínum svo ekki skrítið að þær hræktu að mér, fávísri konunni með myndalega manninum. Spurning um hvort ég þori að taka áhættuna.
Svo nú er að henda ofan í töskur og bara drífa sig á vit ævintýra næstu daga.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.6.2008 | 14:04
Króatarnir bara með læti gagnvart vinum mínum.
Æ, æj, æj, elsku vinirnir á nú að banna ykkur að ferðast með fullar töskur af ykkar uppáhaldi. Pylsum, súrsuðum gúrkum og öðru góðmeti. Ekki að undra þó hálf þjóðin fari í kerfi og afpanti ferðir til Króatíu. Annars má nú held ég aðeins taka á þessum matvælaflutning ykkar elskurnar.
Hvernig ætli sé annars að keyra alla leið til Króatíu í óloftkældum bíl, hvert sæti skipað. Pabbinn við stýrið, mamman í framsætinu með soðkökur og pylsur í fanginu sem skyggir á allt útsýni. Afi og amma í aftursætinu með lítinn gutta á milli sín. Á gólfinu er bjórkassi og pokar með tékkneskum mat sem yfirleitt er súrsaður eða reyktur, svo afi og amma geta hvergi sig hreyft og blóðið hætt að leka niður í fæturna.
Á þaki bílsins er hlass af farangri fjölskyldunnar vel pakkað inn í gamalt teppi og snærað niður. Ég gleymdi að geta þess að fullorðna fólkið er líka keðjureykjandi, svo strókurinn er ekki bara úr lélegri vél bílsins heldur líka út um opna bílgluggana.
Nú er ég aðeins að ýkja en maður sér stundum svona ferðalanga hér á vegum úti og verður alltaf jafn undrandi á elju þessa fólks.
![]() |
Pylsubann angrar Tékka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
31.5.2008 | 20:26
Heitt, heitt, heitt hér líka
Hér fór hitinn yfir 35° í skugga í dag og blakti ekki hár á höfði. Við móktum hér í skugga hjónakornin úti á veröndinni og minn elskulegi hafði á orði að það lægi við að hann næði í rafmagnsviftuna til að fá smá hreyfingu á þessa þungu mollu.
Um fjögurleitið fórum við síðan í grill til Egils og Bríetar og ekki var hitinn minni þar inni í miðri borg. Þegar við héldum heimleiðis um áttaleitið sáum við hvar óveðurskýin hrönnuðust upp fyrir framan okkur. Það er nú ekki oft sem maður fagnar rigningunni en þar sem fyrstu droparnir féllu á framrúðu bílsins var næstum því hrópað upp af fögnuði, vá hann er að fara að rigna, guði sé lof!
Við rétt náðum heim áður en þrumuveðrið skall á og nú dansa hér glæringar um himininn og drunur þrumanna eru ansi háværar. Kærkomið regnið steypist niður og á morgun verður aftur komið sumar og sól með 27° í skugga.
Ætla að fara að huga að hundinum hann er svo skíthræddur við þrumuveður, liggur sjálfsagt við fætur fóstra síns og vælir, grey ræfillinn.
![]() |
Sólríkasti mánuður í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um leið og ég heyri orðið hlerun fer um mig ískaldur gustur. Áður en við lögðum leið okkar hingað til Tékklands vorum við oft gestir í sendiráði Tékkóslóvakíu í Reykjavík. Það var altalað að hvert orð væri hlerað og hljóðnemar í hverju herbergi. Okkur var ráðlagt að tala varlega jafnvel á okkar eigin móðurmáli því heimilisfólkið skildi meir en það vildi láta uppi í okkar ylhýra tungumáli.
Þegar við fluttum síðan hingað 1991 var maður hvergi öruggur, spæjarar í hverju horni og síminn var hleraður og það var ekkert leyndarmál á þeim tímum. Ekki það að þetta böggaði okkur hið minnsta, okkur stóð svo nákvæmlega á sama hvort fylgst væri með okkur þar sem við höfðum ekkert að fela og síðan hefðu þeir orðið að hafa ansi færan túlk til að túlka okkar tungumál. Ef til vill var það gert, hvað veit ég? Hér var engin óhultur á þeim árum.
Símalínur voru fáar og ófullkomnar svo algengt var að fjórar til fimm fjölskyldur deildu einu símanúmeri. Maður varð að sæta lagi til að ná línu út. Um leið og maður tók upp tólið heyrði maður hvort einhver var á línunni og gat fylgst með fjörugum samræðum eða hávaðarifrildi ef maður var hnýsinn á annað borð.
Ég skal nú samt viðurkenna að við vorum afskaplega fegin þegar ástandið fór batnandi með árunum og síminn varð okkar prívatapparat.
![]() |
Dómarar ekki viljalaus verkfæri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.5.2008 | 09:36
Sumargleðin okkar endaði sem Eurovision partí
Þrátt fyrir eindreginn ásetning minn og loforð bæði hátt og í hljóði um að hér yrði ekki fylgst með Júró var ég kaffærð af gestum mínum á laugardagskvöldið. En hvernig átti annað að vera þar sem 12 Íslendingar voru saman komnir og margir algjörir Eurovision Fan, búnir að fylgjast með undankeppni og alles!
Á laugardaginn buðum við til Sumargleði hér að Stjörnusteini og um fimm leitið renndu hér í hlað kampakátir Íslenskir vinir okkar frá Vínarborg meira að segja með fánabera í forgöngu. Að sjálfsögðu var rætt um Júróið og eftir kvöldverðinn vissi ég ekki fyrr en að búið var að tengja tölvuna við græjurnar og sjónvarpið á eftir hæðinni líka komið á full swing svo undir tók í allri sveitinni. Ég var, þrátt fyrir allan minn góða ásetning komin í Júró partí og þar sem ég er svo rosalega gestrisin, eins og kemur fram í síðustu færslu, þá ákvað ég að horfa fram hjá þessum mistökum í mínu eigin húsi.
Að sjálfsögðu var ég farin að dilla mér í takt við gömlu íslensku lögin og tók jafnvel nokkur spor hér úti á veröndinni gestum mínum til samlætis. Áhugi minn var nú ekki meiri en það að ég varð að spyrja í lokin hver hefði unnið og hvort við hefðum lent ofar en í sextánda sæti.
Annars varð úr þessu dúndur partí fram eftir nóttu og allir í bana-júróstuði, jafnvel hún ég!
Takk fyrir komuna kæru vinir og landar! Sjáumst fljótlega aftur í sama stuðinu hér eða í Vín!
![]() |
Partí hjá Páli Óskari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2008 | 07:27
Óboðinn gest bar að garði
Margir kvarta yfir því að fólk sé alveg hætt að ,,droppa" inn heldur verði að bjóða heim formlega og það er ekkert öðruvísi hér í okkar sveit. Hljóðið í dyrabjöllunni getur jafnvel látið mig hrökkva í kút ef ég á ekki von á neinum.
Um daginn vorum við að dunda hér við útiverkin, gefa hænsnunum og moka flórinn, nei bara segi svona, og eins og á öllum sveitaheimilum var farið í kaffi upp úr hádegi. Við vorum rétt komin inn og bæði gráskítug upp fyrir haus þá er dinglað á bjöllunni. Ég kipptist að sjálfsögðu við svo skvettist úr kaffibollanum og um leið og minn elskulegi tekur upp tólið sé ég mann á skjánum sem ég kannast ekkert við. Minn bara ýtir á hnappinn og opnar hliðið fyrir þessum ókunnuga manni.
Ég spyr: Hver er þetta? Ég lít út eins og niðursetningur!
Hann: Æ, ég var víst búinn að bjóða honum að koma hingað við tækifæri, þetta er Svisslendingur....
Síðan heyrði ég ekki meir því ég romsaði út úr mér: Núna, við erum hér á kafi í garðinum, ég er bara ekkert tilbúin til að taka á móti gestum og síðan mimmaði ég einhver heil ósköp um hvað fólk væri að þvælast hingað óboðið og blablablabla..
Það tekur sem betur fer smá tíma fyrir gangandi að koma hingað upp að húsi frá hliðinu svo ég gat aðeins róað mig niður og var búin að setja upp sparibrosið þegar maðurinn birtist í dyrunum.
Ég góndi á manninn þar sem hann stóð í hvítri skyrtu með bindi og alles en það sem vakti athygli mína var ferðataskan sem hann dró á eftir sér. Í fyrstu datt mér í hug að maðurinn væri einhverskonar Votti. Hvernig í andskotanum datt mínum í hug að bjóða svona fólki hingað en þar sem ég er nú einu sinni Íslendingur og við þekkt fyrir okkar einskæru gestrisni þá brosti ég bara enn breiðar og bauð manninn velkominn.
Um leið hvæsti ég að mínum á milli tannanna á íslensku: Er maðurinn að flytja hingað?
Komumaður stóð enn fyrir utan dyrnar svo ég bauð honum að ganga í bæinn, þá allt í einu beygir hann sig niður, opnar töskuna og nú var ég alveg klár á því að guðsorðið kæmi fljúgandi upp úr töskunni. Nei ekki aldeilis, þarna dró hann upp vínflösku sem hann vildi færa okkur.
Hjúkket hvað mér létti. Ég spyr síðan hvort ég megi ekki bjóða honum einhverja hressingu, vatn, kaffi eða te? Hann svona hváir, bjóst örugglega við einhverju sterkara, en ég hafði nú ekki hug á því að setjast að sumbli með þessum gaur. Þar sem ég fæ ekkert svar spyr ég aftur og enn fæ ég bara svona uml. Ég næstum segi upphátt: Heyrðu góði gerðu þetta upp við þig, vatn, kaffi eða te! það er það sem í boði er! Andskotinn er þetta!
Gestur: Just....hummm.... What are you having?
Ég fremur snögg upp á lagið: Water! Um leið segi ég á íslensku er maðurinn fífl?
Síðan er sest út á verönd og drukkið vatn og ég lét mig hafa það að sitja smá stund svona fyrir kurteisisakir. Lét mig síðan hverfa og hugsaði að minn elskulegi gæti bara setið með þessum hálfvita ég hefði nóg annað að gera við minn tíma.
Eftir svona þrjú korter sé ég hvar minn kemur keyrandi með gest í framsætinu og stoppar þar sem ég stend og segir: Ætla að skila honum niðrá lestarstöð. Mannauminginn hafði sem sagt komið með lest hingað! Það tekur fjórar klukkustundir frá Prag! Og ég held að það fari tvær á dag hér um. Ég spyr minn hvort hann viti hvenær næsta lest fari en hann svarar: Hef ekki hugmynd, ég get bara ekki hugsað mér að sitja lengur yfir honum. Svo bætti hann við: Ég sagðist verða að fara að hjálpa þér við verkin, gæti ekki látið þig púla svona eina allan daginn. Hheheheh mér var dálítið skemmt!
Gestur stígur út úr bílnum og segir brosandi: Thank you soooo very much. It was nice meeting you. I will drop by again one day.
Ég: Please do any time! En hugsaði: En þá verð ég ekki heima vinur.
Hvað hefur orðið um alla þessa rómuðu gestrisni? Ég hálf skammast mín núna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.5.2008 | 10:12
Mér finnst rigningin góð, trallallallalla ó já!
Kærkomnir dropar, dropp, dropp heyrðist hér fyrir utan á laugardag og í kjölfarið fór að rigna hressilega. Ég hugsaði: Umm gott fyrir gróðurinn, en innst inni var ég að hugsa um heimilið innan dyra sem setið hefur á hakanum undanfarnar vikur vegna blíðviðris.
Þegar sólin skín er ég alla daga útivið og dunda hér í garðinum frá morgni til kvölds. Á meðan þvottur hrúgast upp í þvottahúsinu, fataherbergið lítur út eins og táningar búi í húsinu, blöð og bækur út um allt og ísskápurinn tómur vegna þess að ég nenni ekki að eyða tíma mínum á markaðinum, þá dundar mín sér úti við skipulagningu og viðhald. Næ að henda í uppþvottavélina á kvöldin, en það er nú bara svona sýndarmennska skal ég segja ykkur, geri það af algjörri neyð svo ég eigi hreinan bolla fyrir morgunsopann.
Í gær fór ég hamförum í þvottahúsinu, er næstum búin að þvo allan bunkann. Dró minn elskulega með mér í svona ,,Greipt og Gripið" þar sem þú kaupir allt í stórum pakkningum. Minn spurði mig þegar við komum að kassanum: Ertu að opna búð elskan? Það hnussaði aðeins í minni og sagði að hann ætti bara að þakka fyrir þessi innkaup, nú væri hann laus allra mála þangað til í desember.
Og hann rignir enn svo ég get haldið áfram með góðri samvisku að dunda hér innan um húsmunina þangað til hann styttir upp sem ég vona að verði á morgun vegna þess að mér leiðast nefnilega svo asskoti mikið húsverk!
Annað líka, þú getur staðið upp fyrir haus í tiltekt en það sér engin mun nema þú sjálf! Smá pirrandi stundum!
16.5.2008 | 06:51
Árrisul kona með fundargögn í framsætinu
Þegar kona vaknar hér fyrir allar aldir og sest upp í bílinn sinn rétt rúmlega átta þá er bleiki brugðið en það gerðist hér í gærmorgun. Venjuleg fótaferð er nú ekki fyrr en um áttaleitið hjá þessari konu og tekur nokkrar kaffikrúsir að koma henni í réttan gír. Síðan þarf að fletta málgagninu og dagurinn er eiginlega ekki byrjaður fyrr en upp úr tíu.
Ástæðan fyrir því að kona var svo árrisul var vegna þess að hún hafði tekið að sér að stjórna fundi sem byrjaði klukkan tíu og það tekur tímann sinn að keyra inn í borgina á þessum árstíma.
Lítill tími hafið verið fyrir undirbúining fundarins svo það var mjög heppilegt að umferð gekk hægt og kona gat farið yfir fundargögnin sem lágu í framsætinu við hlið hennar þegar teppa myndaðist á hraðbrautinni. Með gleraugun á nefinu kíkti hún í gögnin af og til og komst að því að það yrði nú ekkert stórmál að stjórna þessum morgunverðarfundi.
Auðvitað gekk allt eins og í sögu og kona naut þess að setjast niður á eftir með góðum vinkonum og snarla hádegisverð í sumarblíðunni þar sem rætt var um heimsins gagn og nauðsynjar.
Að kveldi skal dag lofa.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2008 | 20:38
Hvítasunnuhelgin með góðum vinum.
Þá er Hvítasunnan liðin og þó nokkuð langt í næsta almenna frídag þarna uppi á Hamingjulandinu. Ætli það sé ekki 17. júní sem ber núna upp á þriðjudag að mig mynnir Nú geta allir farið að telja dagana. Hæ, hó jibbí......
Helgin var mjög skemmtileg hér hjá okkur. Á laugardag komu hingað til Prag góðvinir okkar Sigurjóna og Halldór Ásgrímsson. Það var orðið ansi langt síðan við hittumst síðast svo þetta voru kærkomnir endurfundir.
Í gær komu þau í sveitina okkar og borðuðu með okkur síðbúinn hádegisverð. Spjallað var hér í vorsólinni um menn og málefni þar til sólin fór að síga bak við húsþökin.
Að sjálfsögðu var vel tekið á móti maraþonhlauparanum okkar þegar hann kom úr hlaupinu með tilheyrandi húrrahrópum og kampavíni. Hann hljóp á rúmum fjórum tímum og sagði Auður að hann hefði varla blásið úr nös þegar hann kom í markið. Flottur kall!
Í dag var bara venjulegur mánudagur og ég dundaði hér í lóðinni fram undir kvöld.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)