Færsluflokkur: Lífstíll
9.5.2008 | 18:34
Gleðigjafarnir mínir, ömmubörnin.
Dagur að kvöldi kominn og næturhúmið að síga hægt yfir sveitina okkar. Svölurnar hnita hér í hringi eins og þeirra er siður þegar sólin sest. Ég held að ekkert sé eins tignalegt og svölur á flugi. Þær svífa hér yfir í u.þ.b. 15 mínútur áður en þær hverfa undir þakskeggin. Síðan koma þær í ljós með fyrstu sólargeislunum í morgunsárið og fara sinn vanalega rúnt hér yfir húsin.
Einkennilegt háttalag hjá þessum fallegu fuglum. Eins fallegur fugl og svalan er þá held ég að enginn fugl búi til jafn ósjáleg hreiður. Í fjarlægð virka þau eins og kúpur sem búnar eru til úr allskonar úrgangi. Þetta festa þær einhvern veginn upp í þaksperrum og rjáfrum húsanna. Dálítill sóðaskapur af þessu sem við fjarlægjum alltaf þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrunum en þær koma alltaf aftur á vorin og setjast hér að yfir sumartímann.
Sólargeislinn okkar hún Elma Lind kom í heimsókn í dag til ömmu og afa við borðuðum saman hér litla Prag-fjölskyldan í sólinni seinni partinn. Afi grillaði kjúlla með kus kus blandað grænmeti og mango. Barnið fékk auðvitað ekkert af þessu góðgæti þar sem hún er rétt nýfarin að fá smá grautarslettu. Ohhh, get ekki beðið eftir því að mega stinga upp í hana einum og einum bita.
Afbrýðisama hundspottið minn þurfti auðvitað að láta aðeins í sér heyra svo barninu varð hverft við og áttum við í mesta basli við að hugga prinsessuna sem sætti sig alls ekki við þetta óargadýr. En þetta vonandi venst með tímanum.
Eftir að þau voru farin heyrði ég aðeins í litla prinsinum mínum honum Þóri Inga á Íslandi. Hann blaðraði þessi ósköp við ömmu sína og eftir að amman var búin að marg ítreka að hún væri amma en ekki mamma þá allt í einu kom hátt, skýrt og greinilega: Ammmma. Ohh hvað maður er að verða stór strákur.
Þetta var svona krúttdagur í dag hér í blíðskaparveðri.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2008 | 12:38
Þvottavélin farin að færa sig upp á skaftið
Ég er búin að horfa fram hjá því í mörg ár að þvottavélin mín étur reglulega sokka míns elskulega. Hef bara ekki sagt múkk og leyft henni að fara sínu fram en nú er kvikindið farin að færa sig upp á skaftið og orðin virkilega gráðug. Hún er sem sé farin að kjamsa á blúndunærunum mínum og það á nú ekki alveg við hana vindu, skítt með sokkaplöggin en rándýrt hýjalín, þá er mælirinn fullur.
Ég er búin að ragna og bölsóttast yfir henni en ekkert gengur, hún lætur einfaldlega ekki segjast og heldur áfram uppteknum hætti svona við og við. Ég get svarið þetta eins og ég sit hérna. Djöfuls græðgi í kvikindinu.
Eitt sinn eignaðist ég svona líka fínan poka sem mér var sagt að setja alla sokka, nærur og hannað fínerí í og binda rækilega fyrir áður en ég setti það í gin vélarinnar. Þetta gerði ég einu sinni eða tvisvar. Ég hafði enga þolinmæði í svona dútl við þvottinn og pokaskjattinn týndist einn góðan veðurdag.
Er að fara að taka út úr kvikindinu. Taldi í hana áður en ég setti hana í gang, nei joke.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.5.2008 | 00:52
Kveð ykkur öll með söknuði
Síðasti dagur minn hér í Hamingjulandinu að þessu sinni g á morgun flýg ég heim. Þessi tími er búinn að vera hreint út sagt frábær og ég hef notið hverrar mínútu með fjölskyldunni og vinum. Mikið er ég rík og mikið má ég þakka fyrir. OK, ekki hella sér út í dramatíkina núna þetta er búið að vera svo frábær tími.
Í dag fórum við til Egils bróður í Brunch. Eins og alltaf frábært að heimsækja þau þar sem hljóðfærin eru í hverju horni og börnin gera mann hálf vitlausan með glamri á píanó og önnur tiltæk slagverk. Lútsterkt kaffi bætir upp hausverkinn svo og þeirra elskulega nærvera.
Eftir kossa og knús röltum við Soffa mín með Þóri Inga niður á Skúlagötu. Á Hlemmi varfólk að safnast saman í kröfugönguna og ég svona hálft í hvoru bjóst við að heyra Maístjörnuna en þess í stað bárust jazzaðir tónar um svæðið svo mín fór bara að dilla sér þar sem hún gekk með kerruna á undan sér. Hummm... eitthvað hefur nú fylkingatónlistasmekkurinn breyst með árunum.
Við sátum síðan hjá mömmu og drukkum MEIRA KAFFI og spjölluðum við þá gömlu og ég lofaði að hún fengi að koma til okkar með haustinu. Hún var strax farin að pakka niður í huganum þegar við kvöddum. Elsku mamma mín.
Amman bauð síðan litlu fjölskyldunni í kvöldmat í Grillið á Sögu. Frábær matur, þjónusta og ekki spillti útsýnið yfir borgina okkar í kvöldsólinni.
Að sjálfsögðu var Þórir Ingi stjarna kvöldsins og það fyrsta sem hann gerði þegar þjónninn kom að borðinu með matseðlana var að skipa honum að setjast niður. Sesssdu!! var sagt hátt skírt og greinilega og aumingja þjónninn vissi ekki hvort hann æt´ð hlýða skipuninni, þessi litli gutti var jú gestur og gestir hafa alltaf rétt fyrir sér.
Frábært kvöld sem endaði með því að Daddi bróðir og Bökka komu aðeins við í Garðabænum svo við gætum aðeins knúsað hvort annað áður en ég héldi í faðm litlu útrásarfjölskyldunnar í Prag.
Mikið var gaman að koma heim. Ég elska ykkur öll með tölu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2008 | 11:08
Ég er að læra nýtt tungumál sem heitir ,,Þóríska".
Dagarnir hér þjóta frá okkur og hvernig á annað að vera þegar maður er með hugann við lítinn gutta sem stoppar aldrei og lætur afa og ömmu snúast eins og skoparakringlur allan daginn.
Við höfum líka orðið að hafa okkur öll við að læra nýtt tungumál blandað táknmáli sbr. ,,brrritssi"/bíll, ssssiiii með vísifingur á vör/ drekka. Nokkur orð eru mjög skiljanleg t.d. ,,sessssdu" sem er notað mikið í svona skipunartón, með hrikalegri áherslu. Síðan er eitt orð sem allir ættu að skilja og það er orðið ,,agalega" en hefur allt aðra meiningu í munni barnsins. E.t.v. verð ég búin að fá botn í þetta áður en ég fer heim.
Er þetta ekki bara yndislegt!
En nú eru mamma og pabbi komin heim frá útlöndum og afi og amma komin í ,,frí" í nokkra daga.
Hér á fjórða degi sumars sendi ég ykkur öllum, vinir mínir og fjölskylda, okkar bestur kveðjur inn í gott og sólríkt sumar !
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.4.2008 | 10:50
Hamingjulandi í sjónmáli, blásið í lúðra vinir mínir.
Þá er ég búin að henda restinni ofan í tösku. Alveg sama hvort maður er að fara helgarreisu eða til lengri tíma, alltaf treður maður í töskurnar einhverju sem síðan er aldrei notað á ferðalaginu, liggur þarna bara engum til gagns og síðan tekið upp þegar heim er komið lyktandi og krumpað. Þarf að fá leiðsögn í ferðalaganiðurpökkun. Er einhver þarna úti sem kann þetta, ég meina þá 100%.
Búin að ganga um allt húsið og athuga hvort straujárnið, kaffikannan eða önnur rafmagnstæki eru ekki örugglega aftengd. Vinnumennirnir búnir að fá fyrirlestur um hvað eigi að klára hér áður en ég sný aftur heim og fyrirmæli um að hugsa sómasamlega um hundinn.
Þá held ég að tími sé til kominn að leggja í hann.
Þið mætið svo öll í Keflavík í kvöld og takið á móti mér með blómum og þið vogið ykkur ekki að gleyma að breiða út rauða dregilinn. Síðan þætti mér óskaplega vænt um að blásið yrði í lúðra, svona eins og gert er í ,,hvíta" húsinu á nesinu.
Ég skal svo syngja fyrir ykkur í staðin Ó fögur er vor fósturjörð.
Love U2 guys!
16.4.2008 | 22:13
Sokkabuxurnar mínar sem komu öllum í uppnám!
Þetta er ekki einu sinni fyndið en hér sit ég alveg miður mín rétt nýkomin heim úr boði hjá góðum vinum mínum. Hvað haldið þið að hafi verið mest áberandi í þessu boði, jú sokkabuxurnar sem ég hafði hysjað upp um mig til þess að líta sómasamlega út. Þetta er ekki jók, þetta er ,,fakta"!!! Ef ég tæki minn klæðaburð hátíðlega þá væri ég bara núna í algjöru rusli.
Skrúfum til baka. Klukkan er þrjú, Tími til kominn að taka sig til, því við erum boðin í boð til vina okkar þar sem á að halda svona "welcome" patry fyrir vini okkar frá Las Vegas. Og dressið sem ég hafði ætlað að klæðast og vera flottust, fittaði bara ekki inn í veðráttuna. Sem sé hér er skítakuldi!!! Ég dreg fram svart dress frá dönskum fatahönnuði. (elska Bitte Kai Ran) þá kemur að sokkum. Finn nýja sokka sem keyptir voru í Vínarborg, takið eftir sko Vínarborg, bíð ykkur ekki upp á neitt annað og hysja upp um mig þessar forláta sokkabuxur. Lít í spegil, djöfullinn , þetta eru rosalega spes sokkabuxur og fittuðu við átfittið eins og flís við rass. Svona með sérsöku design og þrusu flottar stelpur.
Halló var ég ekki búin að segja að þessi færsla er eiginlega ekki fyrir ykkur strákar mínir.
Ég mæti fyrst í boðið þar sem ég ætlaði að hjálpa vinkonu minni aðeins við undirbúning. Hún rekur strax augun í sokkabuxurnar og segir: Whow were did you get those?
Gestir fara að tínast inn í boðið og sú sem situr mér næst segir whow, hafið þið séð sokkabuxurnar hennar Íu. Þetta var orðið ansi pínlegt, mér fannst ég vera eins og sýningargripur eða svartur sauður í hvítri hjörð.
Minn elskulegi mætir loks í boðið þar sem hann var seinn fyrir og þá gellur í einum af hans pókerfélaga: Thorir konan þín er flottust hér í kvöld. Ég vissi ekki hvort ég ætti að taka þessu sem komplimenti eða.... voru þetta bölvaðar sokkabuxurnar.
Komin heim og þegar ég smeygði mér úr múnderingunni þá blasti við mér þetta líka flotta lykkjufall sem hafði betur fer ekki verið sjáanlegt í boðinu, en það sem ég var fegin, núna get ég hent þessum sýningagrip í ruslið og aldrei, aldrei skal ég fjárfesta í öðru eins endemis pjátri.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2008 | 08:27
Óboðnir gestir í anda Hitchcock komu í morgunkaffi.
Fersk morgungolan kom inn um opnar dyr eldhússins, ég sat með kaffibollan og rúllaði Mbl. í tölvunni. Fuglarnir höfðu óþarflega hátt og leituðu hér upp að húsinu með miklum vængjaþyt. Ég undraðist þessi læti í fuglunum. Það var engin smá hamagangur þarna úti.
Allt í einu var eins og ég dytti inn í kvikmynd Hitchcock, The Birds. Þrír óboðnir gestir flugu inn í eldhúsið og stefndu beint að mér þar sem ég sat. Ósjálfrátt bar ég hendur fyrir mig og var allt í einu komin í hlutverk Melanie sem Tippi Hedren lék á sínum tíma svo eftirminnilega.
Þetta var allt annað en þægileg uppákoma en sem betur fer voru þetta aðeins litlu sætu spörfuglarnir með gulu og grænu bringurnar en ekki svörtu ógeðslegu krákurnar úr The Birds.
Jæja vinir mínir hvernig á ég nú að koma ykkur út hugsaði ég og leist ekkert á það að fá þá inn um allt hús. Tveir þeirra tylltu sér upp á eldhússkáp en sá þriðji rataði sjálfur út fljótlega. Þarna sátu þeir makindalega og sungu sitt dirrindí þó nokkra stund og ég var farin að hugsa um að bjóða þeim í kaffi, þetta var að verða voða heimilislegt. En þeim hefur sjálfsagt verið farið að lengja eftir vini sínum því eftir smá stund flugu þeir sína leið út í bjartan vordaginn.
Já það er oft gestkvæmt hér að Stjörnusteini.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2008 | 21:08
Mín vigt er regluleg ótugt.
Veit ekki hvort ég á að gleðjast eða gráta. En vigtin á þessu heimili hefur aldrei verið til friðs. Annað hvort er það upp eða niður. Hvers vegna í ósköpunum getur hún ekki bara staðið í stað eins og hún á að gera.
Kolrugluð og leiðinleg mænir hún á mig á hverjum degi og glottir út í annað, svona ögrandi glerhlussa sem segir: Ætlarðu að þora í dag? Yfirleitt hunsa ég ófétið og gef henni stundum svona létt spark í von um að hún fari nú að taka sig saman í andlitinu og gera mér til hæfis einn daginn.
Oft hugsað um að senda hana á heilsuhæli en það er annar fjölskyldumeðlimur sem notar hana líka og hann er svo asskoti sáttur við ófétið að ég yrði ekkert mjög vinsæl ef ég tæki til minna ráða, svo ég ætla bara að leyfa henni að standa þarna þangað til annað betra tæki kemur á markaðinn þá fær sko mín að fjúka.
![]() |
Kílóið endurskilgreint |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.4.2008 | 19:19
Skúra, skrúbba og bóna ekki til í dæminu.
Halló, það er bara dálítill munur á heimilisstörfum og léttu skokki. Mér leiðast heimilisstörf hvaða nafni sem þau kallast, geri það bara að nauðsyn og gömlum vana. Held sem sagt heimilinu í horfinu eins og það er kallað. Mér leiðast húsverkin, ryksuga, þvo þvotta, þurka af og að ég tali nú ekki um að þrífa glugga. Þetta getur hreint út sagt verið mannskemmandi.
Að skokka er heldur ekki minn tebolli þá vil ég heldur rölta um í rólegheitum og fílósófera með sjálfri mér, alein með mínum spekúlasjónum. Njóta náttúrunnar, það er það sem bætir geðheilsuna og hlusta á góða tónlist.
Heimilisstörf eru bara til að auka streitu hjá venjulegu fólki en e.t.v. er verið að tala þarna um einhvern sérstakan þjóðflokk sem ég kannast alls ekki við.
![]() |
Heimilisstörfin bæta geðheilsuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.4.2008 | 19:57
Tíu dropar af lútsterkri leðju.
Ég smakkaði þennan kattarskítsvökva hér í vetur og fannst bara ekkert sérstakt við þetta. Lútsterk leðja rétt niðri í mokkabolla, svona eins og þegar maður er að tala um tíu dropa í orðsins fyllstu merkingu. Og verðið var himinhátt, held bara álíka og í London.
Tek það fram að ég keypti ekki þennan bolla sjálf heldur fékk að dreypa á hjá öðrum sem sá ekki baun eftir aurunum í þessa fáu dropa.
![]() |
Þefkattaskítskaffið hressir en kostar sitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)