Færsluflokkur: Lífstíll
9.4.2008 | 09:22
Í gær birtust hér tveir Strumpar
Ég gerist garð- Strumpur í gær vopnuð öllum þeim tiltæku tólum sem Strumpar nota við garðvinnu og hamaðist í níu tíma hér úti á landareigninni.
Ég set mér yfirleitt markmið þegar ég fer út í moldina, klára verður verkið og ekkert múður. Mér virðist ganga seint að læra að ég er ekki lengur 29 eitthvað en verð að viðurkenna að verkin taka aðeins lengri tíma en hér áður fyrr og í stað þess að segja hingað og ekki lengra þá bara djöflast ég áfram þó minn eðalskrokkur sé löngu búinn að gefast upp. Hér segi ég aldrei hálfnað verk þá hafið er heldur byrjað verk þá búið er.
Annar Strumpur leit inn í gær þegar ég tók Strumpaprófið svona mér til skemmtunar. Ég er víst Painter Smurf og bara ekkert ósátt við það.
Skapandi, skýr, alltaf að útvíkka sjóndeildarhringinn, listræn, get stundum verið skapill en líka mjög tilfinningarík. Held bara að þetta hafi verið nokkuð rétt enda tók ég prófið af mikilli samviskusemi.
Nú ætla ég að fara hér út í góða veðrið og sjá til hvaða Strump ég hitti í dag.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2008 | 22:08
Vatnsflaskan stundum eins og auglýsing
Mikið er ég þákklát fyrir þessa frétt. Hef aldrei þolað fólk sem gengur um með vatnsflöskuna eins og auglýsingu: Ég drekk vatn! Þessi kenning sem hefur verið ríkjandi í nokkur ár, að þamba vatn í tíma og ótíma hefur dálítið farið í mínar fínustu.
Hvernig hef ég lifað af öll þessi ár hér í útlandinu, drekk bara vatn þegar ég er þyrst? Ágústmánuður getur orðið ansi heitur hér í Prag og vökvatapið eykst þá stórlega. OK þá fær maður sér vatnssopa, NB af því maður er þyrstur, ekki af sýndarmennsku af því að það stendur einhvers staðar að þú eigir að þamba vatn til þess að hreinsa líkamann og forðast vökvatap og svo af því þetta Inn í dag. Annars hef ég tekið eftir því að vatnsflaskan er ekki eins áberandi og hún var fyrir nokkrum árum.
Auðvitað er vatn nauðsynlegt en líkaminn segir þér hvenær þú þarfnast vökva það er bara ekkert flóknara en það. Að sjálfsögðu ef þú hefur börn í þinni umsjá eða gamalmenni er nauðsynlegt að fylgjast með ef hitastigið fer yfir 35°
Svo er nú það í henni veslu.
![]() |
Óþarfi að drekka átta vatnsglös á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2008 | 08:43
Morgunþankar frá Stjörnusteini
Rumskaði við sólarupprás, það þíðir um fimmleitið. Tramp, tramp, datt í hug að ég væri komin inn í ævintýrið um geithafinn en þetta var þá bara minn elskulegi að vakna til nýs dags. Ekki beint léttstígur minn, svona hælatrampari.
Heyrist úr baðherberginu þetta líka hressilega: Nei, góðan daginn Þórir, rosalega lítur þú vel út í dag! Nei, það var engin óviðkomandi þarna á ferð, aðeins minn að bjóða sjálfum sér góðan dag, svona líka morgunhress og kátur.
Skrúfað frá sturtu, baksað á baðinu, ljós kveikt í fataherberginu, herðatré detta á gólfið, skúffum skellt aftur. Ilmur fyllir svefnherbergið af nýþvegnum húsbónda sem gefur koss á kinn um leið og sagt er: Er farinn. Ég: uml.....
Trampar niður stigann og syngur um leið: I love to get up in the morning!
Ég sný mér á hina hliðina og breiði upp yfir haus. Sofna. Fyrir mér er enn nótt.
Hvernig hægt er að vera svona morgunhress, það skil ég ekki enda ekki í A flokknum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2008 | 20:30
Er komin með súrefnisofnæmi
Nú er dagur kominn að kvöldi og allir búnir að ljúga beint upp í opið geðið á öllum og láta eins og bavíanar út um borg og bæ. Raks á þessa setningu hér áðan:
ÞEGAR BYRJAÐ ER AÐ LJÚGA ER VANDI AÐ FARA AÐ SEGJA SATT Á EFTIR.
Pælið aðeins í þessu.
Sá eini sem lét mig hlaupa í dag var Erró. Ég get svarið fyrir það að hundurinn vissi alveg hvaða dagur var. Hann plataði mig mörgum sinnum til að opna fyrir sér en vildi svo ekkert fara út. Bölvaður hrekkjalómurinn. Held meira að segja að hann hafi haft gaman að þessu alla vega var svipurinn þannig, brosandi út að eyrum. Sko minn hundur brosir, alveg satt.
Undanfarna tvo daga hef ég verið hér með rassinn upp í loft, þ.e.a.s. á fjórum fótum að þrífa hér í garðinum og sést andskotann ekki högg á vatni. Þegar ég drattaðist inn eftir sjö tíma þrælkunarvinnu var ég búin að fá svo mikið súrefni í reykingalungun að mér var óglatt.
Búin að finna það út að ég hef ofnæmi fyrir súrefni ef það er í of miklu mæli!
Ekki nóg með að það heldur gat ég varla talað og þá er nú eitthvað mikið að skal ég segja ykkur en ég hresstist öll eftir kvöldmat og meir að segja skellti Erró, 46 kg flykkinu, í baðkarið og gaf honum bubble bath með tilheyrandi nuddi. Já ég veit það, hundurinn er ofdekraður.
Svo fer maður bara að skella sér til kojs áður en ég dett hér með hausinn ofan á lyklaborðið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.3.2008 | 11:42
Búin að henda öllum farsímum héðan út af heimilinu.
Þetta ætlar ekki að verða minn dagur. Vaknaði við skammarpóst frá vinkonu minni, fékk svona vægt sjokk! Hvað er maður líka að álpast til að segja sínar meiningar. Maður á bara að humma og jamma yfir öllu. Að opna munninn er bara til þess að koma sér í óþægilega aðstöðu.
Þetta ætla ég víst seint að læra og þá verð ég bara að taka því með þögn og samþykki og reyna eftir fremsta megni að halda mig á mottunni og hafa munninn læstan. Hehehe that will be the day!
Síðan þegar ég var svona rétt að jafna mig á þessu álpaðist ég til að senda póst á kolranga addressu. Þá kom annað vægt sjokk, déskotans fljótfærni alltaf hér á þessum bæ.
Fór út í góða veðrið til að jafna mig. Kem inn til að fá mér kaffi og þá les ég þessa frétt. Þriðja sjokkið!
Hentist í ruslaskúffuna því þar voru held ég sex ,,ónýtir" farsímar og hvað veit maður nema þeir geti sent frá sér eitraða geisla þarna ofan í skúffu. Allir komnir núna eins langt frá húsinu og frekast er unnt, líka þeir þrír sem lágu hér upp á borði.
Þíðir ekkert að reyna að ná í mig í göngusímann, hann er horfinn út í hafsauga.
Eitt gott í þessu dæmi, ég má halda áfram að kveikja mér í sígó, alla vega ekki eins hættulegt.
Guð minn góður það er eitt húsið hér með asbest þaki!
Er farin út að rífa þakið niður NÚNA!
Svo bíð ég bara eftir næsta sjokki, þetta er örugglega aðeins byrjunin á deginum
![]() |
Farsímar hættulegri en reykingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.3.2008 | 16:33
Helgarpistill með mjúku ívafi
Síðustu sólargeislar dagsins eru að hverfa smám saman hér bak við trjátoppana og brátt litast himininn purpurarauðu í vestri. Enn nær þó sólin að skína á kristalana mína í eldhúsglugganum sem endurkasta öllum litum regnbogans yfir litla borðkrókinn þar sem ég sit og glamra á lyklaborðið.
Með breyttum tíma klukkunnar birtist vorið okkur aftur hér í morgun. Fuglarnir sungu fagnaðarsöng sinn af mikilli snilld. Dirrindí, dirrindí og hurðir voru opnaðar upp á gátt til að hleypa inn sunnangolunni.
Í gær laugardag héldum við, ég og minn elskulegi upp á sex ára búsetuafmæli okkar hér að Stjörnusteini. Við byrjuðum daginn á því að fá okkur langan göngutúr hér um nærliggjandi skógarlendi í fallegu veðri. Erró drattaðist þetta með okkur en hann er nú ekkert of viljugur að fara í langa göngutúra, hundspottið.
Eftir gönguferðina var slakað á fram að kvöldmat en hann var framreiddur af mínum eftirlætis kokki sem aldrei bregst bogalistin. Nautasteik a la Þórir með hvítlauksristuðum baby tómötum og glasseruðum lauk á kartöflubeðið. Ekki má nú gleyma toppnum yfir i-iðsem að sjálfsögðu var heimalöguð Béarnaise. Eðalrauðvín, kertaljós og huggulegheit hjá okkur í borðstofunni við undirleik ljúfra tóna.
Eftir matinn var sest inn í stofu og hlustað á Rat-pack live frá Sand hótelinu í Las Vegas. Þessi kyrrláta kvöldstund endaði síðan með óperuaríum flutta af Diddú og Kristni Sigmundssyni.
Hvað er hægt að hafa það betra.
Í dag heimsóttum við litlu prinsessuna okkar og lékum okkur aðeins að henni þar til hún var farin að kvarta yfir þessum látum í afa og ömmu og vildi fara að lúlla sér.
Stoppað var í garðyrkjustöð á leiðinni heim og keyptar tíu vafningsviðarplöntur sem við skelltum á milli okkar í bílnum svo við varla sáum hvort annað á leiðinni heim, enda er hver planta nær tveir metrar. Það gerði svo sem ekkert til þar sem við vorum svo niðursokkin í að hlusta á gamla slagara sem Ævar Kjartansson útvarpsmaður og vinur okkar skenkti okkur hér síðast þegar þau voru hér hann og Didda.
Þá vitið þið hvað ég ætla að gera á morgun þegar sólin er búin að hrekja næturkulið á braut.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.3.2008 | 11:04
Þetta verða karlarnir að lifa með
O ætli þeir komi nú til með að kvarta mikið, held ekki.
Verst þetta með tímatakmarkanir, ef svo er þá er sumum konum vandi á höndum. Berbrjósta synda frá eitt til fjögur. Klukkan á mínútunni allar uppúr og drífa sig í sundfötin eða fara bara heim. Þetta gæti valdið algjöru írafári þarna í Danaveldi er ég hrædd um.
En sinn er siður í landi hverju.
Danir synda berbrjósta
Þjóðverjar eru á sprellunum í gufu en verða að synda með sundhettu og kappklædd
Íslendingar eru á báðum áttum, og sundverðir reka fólk í sundföt ef það ætlar að striplast ofan í lauginni en þú mátt liggja flatur og berbrjósta á bakkanum.
![]() |
Heimilt að synda berbrjósta í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2008 | 13:56
Ætli þetta yrði ekki bannað á Íslandi en er samt snjöll hugmynd
Mitt í öllu krepputali, þá datt mér í hug að segja ykkur hvernig eitt stórfyrirtæki hér á landi kemur á móts við viðskiptavini sína og fær alla til að brosa um leið og þeir greiða fyrir sína vöru með ánægju.
Þetta stórfyrirtæki heitir Mountfield og selur allt frá garðhrífum upp í sundlaugar og stórvirk garðtæki. Um daginn þegar minn elskulegi var að versla þar eitthvað smotterí og kom að kassanum gekk allt sinn vanagang. Afgreiðsludaman stimplaði allt samviskusamlega inn og gaf síðan upp upphæðina. Um leið og hún sá að viðskiptavinurinn átti pening í buddunni og ætlaði ekki að svíkjast um að borga tilgreinda vöru brosti hún sínu blíðasta svo skein í hvítar tennur og bauð mínum elskulega að snúa stóru rúllettuhjóli sem var við enda á kassaborðinu.
Hjólið var þannig útbúið að á því stóðu tölur frá 1% og upp í 100% og einskonar lukkuhjól fyrir viðskiptavini. Minn sneri hjólinu af mikilli snilld og talan 17% kom upp. Viti menn, hann fékk þá 17% afslátt af vörunni sem hann var tilbúinn að greiða fyrir fullt verð.
Ég hélt nú í fyrstu þegar ég heyrði þessa sögu að hann væri að búa hana til bara svona til að lífga upp á hversdaginn en þetta var staðreynd.
Hann sagði mér að hann hefði að gamni fylgst með nokkrum viðskiptavinum og sumir hefðu farið upp í 20% en yfirleitt hafi nú hjólið stoppað í 10 prósentum. Hann var líka viss um að hjólið væri stillt á ákveðna prósentu og síðan væri e.t.v. þúsundasti hver viðskiptavinur sem fengi 50% eða jafnvel 100% bara til að fá umtalið. Því auðvitað berast svona fréttir fljótt og örugglega og allir vilja jú græða ekki satt.
Þetta kallar maður hugmyndaflug í lagi. Viðskiptavinir alsælir með kaupin og verslunin stórgræðir því auðvitað laðar þetta að viðskiptin.
En þetta væri nú örugglega stranglega bannað á Íslandi því landanum er forboðið að taka þátt í svona leikjum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.3.2008 | 14:32
Hvað er fólk líka að þvælast upp í svona tæki?
Ég hef aldrei skilið þá áráttu hjá fólki að vilja dinglast svona í lausu lofti til þess eins að dásama útsýnið. Alveg sama þó maður sé innilokaður í einhverju glerbúri. Allir með sælusvip og baðandi út öllum öngum yfir fegurð landslagsins. Gólandi á himnaföðurinn, þakkandi honum fyrir að skapa jörðina.
En það er nú ekki alveg að marka mig ég er svo lofthrædd að bara það að stíga upp á stól getur farið með mig á tauginni. Fyrir mér er fall af stól eins og fall fram af ystu nöf ofan í stórgrýtt gil og lífinu þar með lokið.
Einu sinni gerðist ég rosalega voguð og fór upp í svona hrillingstæki eftir mikið nauð frá krökkunum mínum, aðhlátur og stórar yfirlýsingar frá mínum elskulega hvað ég væri nú mikil gunga. Að sjálfsögðu stoppaði karfan efst uppi og ég fraus gjörsamlega. Þegar við vorum komin niður á jarðfast sagði minn elskulegi að þetta myndi hann aldrei gera mér aftur, hann sá konuna sína verða græna í framan og hélt að hún væri að syngja sitt síðasta þar sem honum fannst hún vera hætt að anda og dauðastjarfi kominn í líkamann.
Á meðan dóttir mín bjó í London í nær átta ár var oft imprað á því við mig hvort ég hefði ekki farið upp í The London Eye. Yfirleitt hunsaði ég spurninguna því bara það að bera þetta ferlíki augum í hvert skipti sem kom í borgina fékk hárin á mér til að rísa og kuldahrollur hélst í margar mínútur í mínum fína skrokki.
Mér finnst fólk hugdjarft sem getur klifið fjöll, gengið þrönga stíga á ystu nöf, eða farið sér til skemmtunar upp í turna bara til þess eins að dásama útsýnið. En ég elska að ferðast með flugvélum, enda er það allt annað mál.
Lofthræðsla er ekkert grín það er bara þannig.
![]() |
400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.3.2008 | 15:59
Páskadagur með fjölskyldunni og enska sparkinu
Alveg er það makalaust hvað fótbolti getur umturnað öllu í okkar fjölskyldu, ja öllum nema mér.
Páskadagur og litla fjölskyldan hér í Prag hittist á Four Season hótelinu í hádeginu til þess að eiga ánægjulega samverustund og borða góðan mat. Þessum sið höfum við haldið síðan við fluttum hingað og þykir öllum ómissandi á páskadag.
Að þessu sinni voru með okkur systur Bríetar tengdadóttur, Íris og Jón Helgi maður hennar og þeirra tvö börn og Ingunn. Mér var hugsað til þess þar sem ég leit yfir hópinn hvað við værum heppin að eiga svona yndislega fjölskyldu en saknaði sárlega dóttur minnar og hennar fjölskyldu sem nú eru að spóka sig á skíðum á Akureyri.
Sólin sendi hlýja vorgeisla inn í veitingasalinn þar sem við sátum og gæddum okkur á Nóa Sirius páskaeggjum með kaffinu og lásum málshættina fyrir hvort annað eftir að hafa verið búin að raða í okkur dýrindis krásum úr Michelin eldhúsi hótelsins. Svona líka hugguleg páskastemmning.
Allt í einu spyr einhver við borðið á svona ekta norðlensku: Hæ hvenær byrjar leikkurinn?
Annar svarar: Hann er að byrja núna.
Viti menn það var bara eins og rakettu væri stungið í afturendann á öllum, nema mér og allir ruku upp til handa og fóta. Sá stutti, fimm ára Grenvíkingurinn var held ég verstur: Drífa sig, drífa sig, leikurinn er að byrja pabbi!
Kyss, kyss, allir heim. The end!
Nú liggur minn hér uppi fyrir framan TV eftir að hafa keyrt á methraða heim og glápir úr sér augun og það eina sem hann hefur sagt við mig síðan við komum heim er: Rosalega held ég að þau séu fúl núna þarna í Prag 6. ( Þau búa þar krakkarnir) Liverpool tapaði. Sem sagt allir í fýlu á því heimili núna.
Mér gæti ekki verið meira sama hvor vann eða ekki. Svona tuðruspark á bara alls ekki upp á pallborðið hjá mér að ég tali nú ekki um þegar fullorðnir menn kássast upp á hvern annan og veltast um annan þveran í misjafnlega ástúðlegum faðmlögum er bara eitthvað sem ég skil ekki.
Ætla að fá mér annað Nóa Sirius egg, svona til að hressa mig.
![]() |
Man. Utd með 6 stiga forystu eftir 3:0 sigur á Liverpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)