Færsluflokkur: Lífstíll

Eru þetta spælegg í páskagardínunum mínum?

Hér skipta veðurguðirnir um skoðun á fimm mínútna fresti.  Vita ekkert vort þeir eiga að láta himininn gráta eða brosa niður til okkar.  Ég er hálf fúl út í almanakið, páskarnir eru allt of snemma í ár. 

 Mínir páskar eiga að vera sólríkir dagar, sitja undir blómgandi kirsuberjatrjám í léttum sumarkjól með hádegisverðinn framreiddan á veröndinni sem skreytt er með páskaliljum og túlípönum sem boða okkur komu sumarsins. Öll tré skreytt með gulum og grænum eggjum sem flökta í vorgolunni eins og fiðrildi.

Ég lít hér út um gluggann og snjónum kyngir niður í svona jólaflyksum.  Sem betur fer festist hann ekki neitt að ráði þar sem hitastigið er rétt yfir frostmarkið! Við sem fyrir viku kepptumst við að þrífa hér utanhúss jafnvel alveg út að þjóðveg til þess að hafa sem þokkalegast hér um páskana.  Sú fyrirhöfn gaf ekkert af sér nema sára bakverki hjá okkur hjónum.

Þegar minn elskulegi snaraðist inn úr dyrunum seint í gærkvöldi varð honum á orði:  Hvaða hvíta stöff er þetta sem þú ert búin að þekja alla lóðina með?  Ég sat bara með kökkinn í hálsinum því ég hafði búist við einhverju á þessa leið:  Nei, elskan ertu búin að páskaskreyta, og baka líka!!!!

Þrátt fyrir að hér væri ekki mjög páskalegt úti ákvað ég þó að setja dálítinn páskasvip á heimilið.  Keypti nýjar eldhúsgardínur, voða páskalegar. 

Athugasemd frá mínum elskulega:  Heyrðu það eru spælegg í gardínunum. 

 Ég frussaði út úr mér: Nei, þetta eru svona gulir hringir, minnir ekkert á spælegg! (er enn að pæla í hvort hann hafi rétt fyrir sér, góni á þær í hver sinn sem ég kem inn í eldhús)

Minnir mig á þegar ég keypti nýjar gardínur eina páskana fyrir gluggann í holið í Traðarlandinu og pabbi kom í heimsókn og varð starsýnt á gardínurnar sem ég var rosalega hrifin af og sagði á milli hlátursroka:

 Nei bara Séra Ólafur Skúlason kominn fyrir glugga á heimilinu!!!  Gardínurnar minntu hann víst á möttul Ólafs. 

En sem sagt hér er kominn pínu ponsi páskafílingur innanhúss og nú bara þarf ég að leggjast á bæn um gott veður.  Held samt að himnafaðirinn fari nú ekki að ómaka sig yfir svo lítilsverðri bón svo ég ætla bara að fara núna og skvera mig í betri fötin og koma mér á tónleika.  Það hjálpar alltaf sálartetrinu. Duh 

 

 

 


Kemur til með að renna ljúft niður

Hugsið ykkur bara að lyfta glasi með guðaveigum frá Pernod-Richard.  Horfa á hvernig vínið freyðir í glasinu og kitlar bragðlauka.  Þessi unaðslega tilfinning sem fylgir því að súpa varlega og láta renna niður með tileyrandi værðarhljóðum.  Humm veit ekki, ég held ég haldi mér bara við Bohemia Sekt, það er líka mjög ljúft og kostar hér aðeins um 300.- ísl. peninga.

Annars datt mér í hug þegar ég las þessa grein um dýrt vín, að segja frá heimsókn okkar í  einn frægasta rauðvínskjallara Evrópu hér um daginn.  Hann er í eigu Austurríkismanns sem á og rekur Palais Coburg svítuhótelið í Vínarborg.  Sá náungi keypti lager af afar gömlum vínum fyrir nokkrum árum á uppboði og kom því fyrir í kjallara hótelsins.  Þar kostar ódýrasta rauðvínsflaskan 3.000.- evrur og sú dýrasta um 30.000.-  evrur.  

Kjallarinn er ekki stór en úrvalið er ótrúlegt og kjallaravörðurinn sem sýndi okkur dýrðina umgekkst þessar flöskur með þvílíkri virðingu, eins og hann væri í höllu drottningar þar sem gersemar glóðu, enda var þetta örugglega mjög merkilegt safn af góðum vínum sem bara vínspekúlantar kunna að meta.  

Þegar við spurðum hvort fólk virkilega keypti flösku af þessum guðaveigum með kvöldmatnum sagði hann svo vera en í hvert skipti sem það gerðist væri eins og verið væri að slíta hjartað úr eigandanum og hann ekki með sjálfum sér í marga daga á eftir.

Svona er nú lífið hjá sumum.  Drinking Red Wine 

 

  

     


mbl.is Kassi af kampavíni á 50 þúsund evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er með höfnunartilfinningu.

Halló er engin heima?  Það hlýtur að vera alveg bongó blíða á landinu núna án þess að ég viti það með vissu en alla vega bendir allt til þess.  Ég tók upp símann áðan og ákvað að spjalla aðeins við einhvern skemmtilegan heima á Íslandi en mér til mikillar skapraunar ansaði enginn sem ég hringdi í, hvort sem það voru vinkonur mínar eða einhver úr fjölskyldunni, það var hvergi ansað.  Crying 

Ég er með hræðilega höfnunartilfinningu og líður bara alls ekki vel  innra með mér.  Minn elskulegi farinn yfir til Þýskalands, í viðskiptaerindum.  Erró hálf domm og vill lítið með mig hafa, síðan dettur manni í hug að slá á þráðinn til vinkvenna eða fjölskyldu og þá fær maður bara svona langt og hvellt  dúúú aftur og aftur sama hvert ég hef hringt, það er enginn heima hjá sér í dag. 

Ætli það sé einhverskonar samsæri í gangi gegn mér þarna uppi á landinu? Devil  

Nei ég segi nú bara svona, rosalega er nú samt gott að geta hellt sér yfir ykkur hér á blogginu.Grin Vona að það sé einhver þarna úti sem skilur mig.  Crying 1  Kicking Dirt


Köld eru kvennaráð sagði minn elskulegi við mig í morgun

..með ásökunarsvip.  Þetta var svo sem alveg rétt hjá honum, það var ég sem tók þessa mikilvægu  ákvörðun þó eftir langan umhugsunartíma og er að reyna að sannfæra sjálfa mig um það að ég hafi gert rétt en skerandi vælið er alveg að fara með mig.  Alla nóttina heyrði ég í gegn um svefninn þetta ámátlega væl sem aldrei tók enda. 

 Ég er að reyna að láta þetta fara inn um annað og út um hitt en það er erfitt þegar horft er á mann ásakandi augum sem segja:  Veistu hvað þú ert búin að gera mér kona? Geturðu ímyndað þér hvað ég á bágt og síðan þarf ég að vera með þennan bölvaðan skerm sem þvælist fyrir mér svo ég get varla hreift  mig. Svo önnur tvö augu sem tilheyra mínum elskulega sem segja:  Hefðir þú látið taka mig úr sambandi?  Hefðir þú lagt þetta á mig líka?  Ertu hjartalaus kona?  Úps, það er sem sagt ófremdarástand hér núna á heimilinu og ég er í ónáð bæði hjá mínum elskulega og hundinum.

Og nú þarf ég að koma honum í bílinn, hundinum sem sagt, því hann er að fara í eftirskoðun til Dýra.  Ég er í algjöru rusli núna með samviskubit upp í kok.   

  

 


Ekki öll vitleysan eins

Wink..Og hér sit ég og bíð eftir því að klukkan nálgist ellefu því þá verð ég að keyra minn hund til Dýra.  Grey kallinn er að fara í svona snip,snap fix. Veit ekki hvor er skelkaðri Erró eða minn elskulegi.  

 Hundurinn búinn að vera matarlaus í 24 tíma og skilur ekkert í því hvað við erum vondir fósturforeldrar.  Grætur við nammiskápinn og mænir á mig sorgmæddum augum. Nú er búið að taka vatnskálin líka frá honum. Frown

 Aumingja kallinn, þá á ég við hundinn ekki minn elskulega, en sá kall gat ekki einu sinni fengið sig til þess að fá sér morgunte áður en hann lét sig hverfa til vinnu. Var bara alveg ómögulegur. Það var eins og að hann væri að fara í þessa aðgerð en ekki hundurinn. Hálf hvíslaði þegar hann gekk út ,, þú lætur mig svo vita þegar þetta er afstaðið"  Man nú ekki eftir svona tilfinningasemi þegar ég fór í mína ,,aðgerð" fyrir mörgum árum en það er auðvitað allt annað mál.  Wink

 


mbl.is Kynlíf leyft, ekki hundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er bara eintóm hamingja

Ég vil byrja á því að benda á bloggið hans Gísla Blöndal í gær. (Margmiðlunarefni)  ef þetta kemur ykkur ekki í gott skap þá er bara eitthvað mikið að!  Þetta á líka afskaplega vel við mína síðustu færslu þar sem ég bunaði út úr mér þönkum um ellina. 

Bloggið mitt var í byrjun ætlað til þess að leyfa fjölskyldu og vinum að fylgjast með okkar daglega amstri hér í sveitinni.  Dálítil dagbók fyrir mig og síðast en ekki síst til þess að ég gæti haldi betur utan um mitt móðurmál.

Með tímanum fór þetta að vinda aðeins upp á sig og áður en ég vissi af var ég farin að blanda mér inn í umræður sem ég hafið ekki hundsvit á.  Tounge  Enda búin að búa hér í nær átján ár og svo langt frá því að ég gæti tjáð mig um þjóðarsálina þarna heima.  

Eins og kemur fram hér í fréttinni getur bloggið hjálpað mörgum sem berjast við margs konar vandamál og er það bara gott mál að fólk geti skrifað sig frá hinum ýmsu málum. 

Maður verður stundum var við að fólk segir í hálfgerðri hneykslan:  Ertu að blogga?  Oft á tíðum finnst mér þetta hljóma dálítið sem öfund.  Hef líka tekið eftir því að fólk þorir ekki að setja komment inn á síðuna mína vegna þess að það er svo asskoti hrætt við almenningsálitið.  En svona er þetta bara og við erum misjöfn eins og við erum mörg.

Minni aftur á síðuna hans Gísla.  Gisliblondal.blog.is  frábært myndband og eintóm gleði inn í bjartan vordaginn.

 


mbl.is Blogg gegn þunglyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem hjólin snúast endalaust

Þessi færsla er hvorki ætluð hneikslunargjörnum eða fordómafullum lesendum svo ég ráðlegg ykkur sem tilheyrið þessum hópi að hætta bara að lesa NÚNA. 

Á laugardaginn kom litla dúlluprinsessan okkar hún Elma Lind með foreldrum sínum hingað í hádegisverð og við, afinn og amman fengum að ,,agúa" dálitla stund með þessum litla sólageisla okkar.  Þegar líða tók á daginn og minn elskulegi búinn að garga með enska boltanum svo og að undir tók í allri sveitinni var kominn tími til að snurfusa sig fyrir kvöldið.

Tekin voru fram betri fötin og sparslað upp í hrukkur og fellingar og passarnir settir ofan í tösku.  Nú spyr einhver:  Ha passarnir, voru þau að fara eitthvað langt?  Og þá spyr ég á móti:  Eruð þið enn að lesa, þið fordómafullu, ágætu lesendur?  Ég varaði ykkur við hér á undan.

Við settumst upp í bílinn okkar (Skoda) og keyrðum sem leið lá til borgarinnar því nú skildi láta lukkuhjólið snúast og við búin að ákveða að eyða þessum aurum sem við vorum löngu hætt að nota.  Sem sagt, við vorum á leið í Casino.

Kvöldskemmtun með 20 vinum okkar á Casino Monaco á Corinthia Tower Hotel og þar var hún ég sem stóð fyrir þessari skemmtun og öllum undirbúningi.Shocking

 Það var hress hópur sem mætti í kvöldverðinn sem ég var búin að panta á Tælenskum veitingastað á sama hóteli.  Eftir góðan mat og drykki hélt hópurinn yfir á Casino Monaco og deildi sér niður á spilaboðin eða spilakassana. Sumir létu sér nægja að setjast í þægilega leðursófa og láta fara vel um sig eftir matinn og spjalla. 

 Ég var ein af þeim sem lét fara vel um mig þó hér á undan mætti halda að ég væri forfallin spilafíkill þá er það nú aldeilis ekki þannig.  Mér þykir samt róandi að heyra suðið frá hjólinu og klingið frá kössunum og lágvært skvaldrið frá gestunum. Minn elskulegi hefur gaman af því að spila og við gerum þetta svona einu sinni á ári að fara með vinum okkar og eyða með þeim góðri stund.  Fyrir þá sem ekki vita og eða halda að hér renni fjárhæðir úr vösum og fólk komi blásnautt út þá getur þú spilað fyrir minnst 1.- evru og hámarkið er 30.000.- evrur.

Kvöldið leið og við skemmtum okkur ágætlega með frábærum vinum og hlökkum til að fara aftur að ári.  Það skal tekið fram hér að við gátum eytt þessum umfram aurum okkar sem við vorum löngu hætt að nota svo það var bara gott mál.  Þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim lengur. Grin

      

 


Heldrimannaíþróttin

Eins gott að passa sig þegar maður fer að slá í vor.  Golf er þvílík heldrimannaíþrótt að það nær engu tali. En skemmtileg samt. 

 Bannað að vera í Blue Jeans, (þykir einfaldlega hallærislegt)

 Bannað að vera í stuttbuxum, (gæti ruglað karlanna í púttinu, stuttpils OK)

 Bannað að vera í strigaskóm, (ekki nógu fínt, takkaskór úr leðri, takk fyrir)

 Bannað að spila nema maður hafi rétta forgjöf, ( truflar aðra atvinnukylfinga)

Bannað að ganga á vissum völlum, rándýrir bílar til leigu (snobbliðið)

Bannað að slá kúlunni í átt að fuglum, gæti hitt óvart og þá beint í steininn (bull)

Mig er samt farið að hlakka til að slá kúluna þrátt fyrir allar þessar reglur.  Ekkert er eins aflappandi og góður hringur á vellinum þ.e.a.s. ef maður nær að hitta boltann. Wink

 

 


mbl.is Í fangelsi fyrir „fugl“?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með brenndan rass og ,,hraustlegt" útlit það var málið

Að synda í sínum eigin svita og engjast undir brennandi hitalömpum, lítandi á teljarann,, fer þessi tortúr ekki að verða búinn" er ekki alveg minn tebolli í dag. Skal þó viðurkenna að ljósabekki notaði ég hér áður fyrr eins og margur annar án þess að hafa hugmynd um skaðsemi þessara undratækja. 

Þarna lá maður í 30 til 40 mínútur nb. er að tala um fyrir svona 30 árum, fullviss um það að þetta væri hollt fyrir líkamann og svo fékk maður svo ,,hraustlegt" útlit og sá ekki eftir krónu sem fór í þetta svitasund. Stóð upp með hvíta hringi í kringum augun  og brenndan rass og leit út eins og geimvera en alsæl, því daginn eftir fengi maður eitthvað á þessa leið:  Vá hvað þú lítur vel út, hvert ferð þú í ljós? 

Ég held líka að hreinlæti hafi ekki verið upp á marga fiska á þessum árum.  Jú, maður átti að þrífa lýsið eftir sig með pappírsþurrku það var allt og sumt.  Ég er viss um að sumir hunsuðu þetta svo maður bara lagðist í uppþornaðan svita  sem blandaðist síðan manns eigin, nema maður þrifi bekkinn áður svona in case. Fólk lá líka þarna á Evu og Adamsklæðum einum saman af því það máti ekki sjást rönd.  Hugsa sér annað eins.  Oj bara Sick

Sumar fjölskyldur sem voru í góðum efnum áttu sína eigin ljósabekki en þeir voru þannig að maður varð að snúa sér við á tíu mín. fresti, hehehhehe þvílík fyrirhöfn, að nenna þessu. Wink

Nei, sem betur fer er nú komin herferð gegn þessum ,,líkkistum"

 


mbl.is Einn ljósatími eykur hættu á krabbameini um 22%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurofsinn var ekkert lamb að leika sér við

Vindhviðurnar sem gengu hér yfir mið Evrópu á laugardag og sunnudag voru ansi skarpar og fimm eða sex Íslendingar sem ætluðu að mæta á Góu-gleðina í Vínarborg treystu sér ekki út í veðurofsann og þá er nú mikið sagt þegar landinn situr heima vitandi af góðum mat og frábærri skemmtun.

Í veðrinu sem gekk hér yfir um helgina létust fimm manns í  Austurríki, fimm í Ungverjalandi og tveir hér í Tékklandi.  Það er Guðs mildi að ekki urðu fleiri stórslys svo vitað sé. 

En það er skemmst frá því að segja að síðbúið Þorrablót Íslendinga í Austurríki og nágrannalöndunum fór einstaklega vel fram. Mættu þar um 60 manns í góðum gír og hámuðu í sig súrmetið og skemmtu sér langt fram eftir nóttu að góðum Íslenskum sið.  Stórsöngvararnir Einar Thorlacius og Ásgeir Ágústsson héldu uppi fjöldasöng og gamanyrðum við mikinn fögnuð landa sinna þess að milli sem þeir tóku lagið að sinni einstöku snilld. 

Þökkum ykkur Vínarbúar fyrir frábært kvöld í góðra vina hóp.

  


mbl.is Lá við flugslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband