Færsluflokkur: Lífstíll

Með komu Góu vorar innra með mér.

Í tilefni konudagsins og vorkomunnar. 

Má ég hugsa um þig, spurði hann.

Já, sagði hún.

Alltaf? spurði hann.

Ekki í dimmu, sagði hún, en þegar sólin skín.  Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini.   Heimsljós. Fegurð himinsins.

Lítil fluga suðaði við eyra mér og vakti mig snemma í morgun.  Vorið er komið hugsaði ég eða var mig að dreyma?  Létt klapp á öxlina, minn elskulegi að kveðja áður en hann hélt til borgarinnar.  Heyrði í svefnrofunum að hann væri búinn að laga kaffi og það væri tilbúið úti á veröndinni og hundurinn væri strokinn eina ferðina enn og hvort ekki væri í lagi að láta hann eiga sig þar til hann kæmi sér sjálfur til föðurhúsanna.  Ég klappaði mínum til baka á handlegginn og umlaði eitthvað í þá áttina að það væri í lagi.

Um leið og útihurðinni var lokað glaðvaknaði ég og hristi svefndrungann úr kollinum.  Hvað sagði maðurinn, kaffi á veröndinni?  Ég skellti mér í slopp, niður stigann og viti menn vorið var komið, eða alla vega leit allt þannig út.  

Spörfuglarnir sungu frygðarsöngva í trjánum, morgunsólin vermdi andlit mitt og kaffið kraumaði á vélinni í útieldhúsinu okkar.  Mig hafði sem sagt ekki verið að dreyma.  Fyrsti dagur í Góu, Konudagurinn og vorboðinn ljúfi farinn að syngja.

Nú sit ég hér og nýt þess að drekka fyrsta morgunsopann minn hér úti.  Hundspottið er kominn heim og liggur hér við fætur mér örþreyttur eftir langa morgungöngu og ekkert því til fyrirstöðu að byrja á vorverkunum. Whistling         

 

 


Mig vantar einhvern til að sparka duglega í rassinn á mér

Ég hefði betur pantað tíma á heilsuhæli áður en ég fór að heimsækja ykkur þarna uppi á Íslandi og farið beinustu leið af flugvellinum þegar ég kom heim og á hælið.

Dagur eitt (í gær) átti að vera á morgunverðarfundi og síðan í Lunch, nennti ekki að vakna um morguninn og nennti síðan ekki á fætur fyrr en upp úr hádegi.  Hringdi þó og afboðaði komu mína með lélegri afsökun.  Segi ekki einu sinni hver hún var! Blush

  Dagur tvö og ég er hálfnuð að taka upp úr töskunum, búin að fara tíu ferðir upp og niður stigann í þeim tilgangi að klára dæmið en finn mér alltaf eitthvað annað að dunda við.  Skoða myndir sem teknar voru í ferðinni, klappa hundinum í stað þess að baða greyið, hann er grútskítugur núna, fara yfir blöð og bæklinga, setjast við tölvuna, opna og loka pósthólfinu af því ég nenni ekki að svara öllum þessum pósti.

Fer út og horfi yfir landareignina, anda djúpt, kominn tími fyrir vorhreingerningu úti, nenni ekki einu sinni að fara með ruslið eða athuga póstkassann.  Sit með kaffibollann og glápi út í loftið og velti fyrir mér á hverju ég eigi nú að byrja.  Húsið er á hvolfi, föt, skór, töskur, blöð, drasl allstaðar og hússtýran mín í fríi!!!! Devil  Enginn matur í ísskápnum en það er svo sem allt í lagi við erum á detox hér, eða það er það sem ég segi sjálfri mér því ég nenni ekki út að versla inn í matinn.

Og allt er þetta ykkur þarna heima að kenna.  Maður er gjörsamlega búinn á sál og líkama eftir þessa þrekraun að sækja ykkur heim.  Hálfur mánuður sem fer í það að éta sig til óbóta, ég tala nú ekki um að skemmta fólki frá morgni til kvölds. 

  Svefnvana vaknaði maður,( af því að það hafði verið svo gaman kvöldið áður) og var mættur í morgunkaffi, dreif sig síðan í hádegismat sem stóð til kl.2 eða 3, eftirmiðdagskaffi,( sem venjulega var hjá aldraði móður minni af því ég er svo góð dóttir), kokteill hér eða þar og síðan var skverað sig upp til að mæta með bólgna fætur og þrútið andlit í kvöldverð sem stóð langt fram á morgun.  En svona án gríns þetta var rosalega skemmtileg ferð en þið öll sem stóðuð fyrir þessum uppákomum skuluð fá þetta allt í hausinn næst þegar þið komið að heimsækja okkur.  Þá hef ég stjórn á hlutunum og það verður sko ekki nein elsku mamma. Tounge

OK þetta var bara eins og fínasta vítamínsprauta svo nú get ég haldið áfram að hlaupa hér á milli hæða og sjá hverju ég kem í verk fyrir kvöldið áður en minn elskulegi birtist í dyrunum.  Læt hann kaupa eitthvað í kvöldmatinn á leiðinni heim.  Hætt í detoxinu Cool  


Muu, mjá, meee og allur pakkinn í morgun

Í dag er afa og ömmu dagur og farið var með litla Þóri Inga í Húsdýragarðinn í morgun.  Hænurnar tóku feikna vel á móti okkur svo og kisa litla.  Barnið áttaði sig nú ekki alveg á öllu þessu svona í byrjun enda er maður aðeins 16 mánaða.  En þegar við komum í fjósið í annað sinn var mikið fjör þar sem beljur bauluðu á básum og litli guttinn lifnaði allur við.  Þá var ákveðið að fara annan hring og krakkinn var dreginn á milli fjárhúss og gripahúsa þar til hann var gjörsamlega uppgefinn. 

Ekki létu nú afinn og amman þar við sitja því þeim langaði sjálfum svo mikið að skoða Skautahöll landsmanna og drógu krakkaræfilinn með sér yfir bílastæðið í fljúgandi hálku yfir að þessari miklu ,,höll"  Jahérna, ekki fannst okkur nú þetta merkilegur staður.  Svellið sjálft er svo sem allt í lagi en umgerðin er hroðaleg!  Þvílíkur druslugangur! OK, þá er ég búin að sjá þetta og ekki orð um það meir.

Eftir skemmtilegan morgun lúllar minn hér úti í fríska loftinu og dreymir örugglega mee, muuu og öll hin dýrin. 


Endurfundir hjá ,,Rósunum"

  ,, Nei, hæ gaman að sjá þig. Rosalega lítur þú vel út, hefur bara ekkert breyst!" þetta glumdi í eyrum mér þegar ég kom inn á veitingastað í gærkvöldi þar sem ,,Rósirnar" hittust aftur eftir næstum 20 ár.  Guð, nú verð ég mér til skammar hugsaði ég þar sem ég hengdi kápuna mína upp og bjóst til að ganga í salinn þar sem þessi föngulegi leikfimishópur frá Djassballettskóla Báru stóð í hnapp og knúsuðu hvor aðra.

Ég er alveg rosalega ómannglögg og nú var enginn elskulegur til að hvísla að mér hver væri hvað. Sem betur fer gekk þetta stórslysalaust og ég gat komið saman andlitum og nöfnum án þess að klikka áberandi mikið. 

Það voru ungar og hressar konur sem byrjuðu saman að hoppa undir leiðsögn Báru fyrir hartnær þrjátíu árum og héldu hópinn í mörg ár.  Farið var reglulega í ferðir innanlands og haldnar árshátíðir. 

Nú voru það nítján hressar kellur sem komu saman og rifjuðu upp skemmtilegar minningar.  Eftir matinn voru teknar léttar æfingar svona til upprifjunar en hér skal ekki sagt frá hæfni eða úthaldi.  Ákveðið var að taka upp reglulegar gönguferðir ,,aldraða" svo það er búið að endurvekja ,,Rósirnar" hennar Báru. Ég lofaði að mæta þegar ég ætti leið hér um.  


Var búin að gleyma hversu beljandinn getur orðið rosalegur.

Veðrið sem gekk yfir landið um síðustu helgi aftraði för okkar til Akureyrar á föstudaginn þar sem flug lá niðri.  Í stað þess að mæta á frumsýningu á Flónni hjá LA sem við vorum búin að hlakka mikið til að sjá hættum við okkur út í brjálað veður um kvöldið og mættum holdvot og veðurbarin á frumsýningu Íslensku Óperunnar á föstudagskvöldið. 

Klukkan átta á laugardagsmorgun vorum við, litla fjölskyldan að sunnan mætt á Reykjavíkurflugvelli í annað sinn og náðum að komast norður með fyrstu vél. Litla Elma Lind lét okkur svo sannarlega hafa fyrir sér enda stóð mikið til þar sem skíra átti prinsessuna þennan sama dag. 

Athöfnin fór fram í Laufási og séra Jón Helgi bróðir séra Péturs heitins skírði barnið í Guðs nafni.  Hátíðleg stund í litlu kirkjunni að Laufási og enginn vafi á að vinur okkar, séra Pétur var með okkur þarna og vel viðeigandi þegar sungið var í lokin sálmurinn hans, Í bljúgri bæn.

Eftir athöfnina var öllum kirkjugestum boðið í kvöldmat að gömlum og góðum sveitasið. 

Egill minn og Bríet og þið öll hin á Grenivík og Laufási takk fyrir skemmtilegar samverustundir.    


Fór næstum því á límingunni yfir 50 centum

Ég vissi betur en hélt samt í þetta litla hálmstá að reykingabarinn á Kastrup, þessi eini sem leyfði reykingar síðast þegar ég fór þar í gegn, hefði aumkvað sig yfir okkur strompana en mér varð ekki að ósk minni. 

Það er nú svo einkennilegt að ég hef ekkert fyrir því að fljúga reyklaus, hugsa ekki einu sinni út í nikotin tyggjóið sem ég hef alltaf í handtöskunni en um leið og ég er lent kemur þessi hræðilega þörf fyrir smók.  Þar sem ég og minn elskulegi vorum millilent í Köben og tveir tímar í næsta flug gúffaði ég upp í mig tyggjói og tuggði með áfergju. 

 Til þess að dreifa huganum fór ég í búðarráp.  Í matvörudeildinni hendi ég í körfu nokkrum vel völdum hlutum og þar sem ég var ekki með neina danska aura þá spyr ég hvort ekki sé hægt að borga með Euro.  Ekkert var sjálfsagðara, en þegar á að gefa til baka vill ekki betur til en svo að daman á enga skiptimynt og spyr hvort ég sé nokkuð með klink á mér.  Ég segi svo ekki vera og frussa út úr mér,, geturðu ekki athugað í hinum kassanum hvort ekki sé til mynt þar."  Nei, hún mátti ekki opna þann kassa hann var ekki hennar. ,, Jæja vinkona, og hvað ætlar þú þá að gera, gefa mér afslátt?"

  Þegar hér var komið er minn elskulegi kominn í nokkra metra fjarlægð frá þessari brjáluðu kerlingu.  Auðvitað endaði það með því að ég gafst upp, og fór í fússi frá kassanum 50 centum fátækari!

Minn elskulegi:  Hvað er eiginlega að þér manneskja, þetta voru skitin 50 cent !

Ég:  Já og hvað með það, rétt er rétt, ég bara læt ekki bjóða mér svona.

Minn:  Heyrðu við förum nú ekki á hausinn út af þessu

Ég:  Mér er bara alveg skítsama, þetta er alþjóða flugvöllur og lágmark að það sé skiptimynt í kassafjöndunum.

Minn:  Jæja elskan, er sígarettuþörfin alveg að fara með þig?

Ég:  Nei, ég er bara rosalega þyrst og með það strunsa ég að næsta bar.  Viltu eitthvað að drekka?  (Venjulega er nú það minn maður sem sækir drykki á barinn en ekki ég.)

Minn: Já vatn með gasi

Ég: Vatn!  Jæja þú getur svo sem drukkið þitt vatn en ég hafði nú hugsað mér eitthvað aðeins sterkara.

Þar sem ég er sest með glasið mitt aðeins farin að róast innra með mér.  Sjálfsagt var tyggjóið farið að hafa áhrif segi ég: 

Heyrðu, heldurðu að við getum ekki bara flogið VIP næst? 

Minn: Ha hvað meinarðu?

Ég : Jú sjáðu til, Margrét Þórhildur reykir enn svo það er örugglega hægt að fá inni í þessu reykherbergi hennar ef við fljúgum VIP.

Mér var ekki svarað.  Kallað út í vél.  Þriggja tíma flug heim og ég gat huggað mig við það að næsta kast kæmi ekki fyrr en í flughöfninni heima. 


Að þreyja Þorra

Nú þegar fimbulkuldi herjar á landsmenn og allir kvarta yfir kulda, snjóþunga, bílum sem festast, bílum sem fara ekki í gang, hallærislegum kuldaúlpum sem sumir klæðast til að verjast frosthörku vetrarins (hef ekkert á móti úlpum) sit ég hér og pæli í Þorranum. 

 Þennan mánuð sem fólk hér áður fyrr (og við þurfum ekki að fara svo langt aftur í tímann) varð að þreyja í köldum húsakynnum.  Matarlítil heimili sem ekkert áttu eftir nema nokkra súra bita ofaní tunnu eða skreið undir húshjalli.  Lapti nær dauðan úr skel og kúrði saman í fleti undir súð með hor í nös nær dauða en lífi og beið þess aðeins að sólin færi að bræða héluna á rúðunni svo birt gæti til í mannssálinni.

Í dag sitjum við hér í alsnægt en erum síkvartandi.  Þolum ekki þetta eða hitt, erum pirruð ef allt gengur ekki eins og smurt.  Dálítið mótlæti og allt bara hrynur í kringum okkur. Svo það fari ekki neitt á milli mála er ég að tala um smámuni, veraldlega hluti og annað sem í raun skiptir engu máli.  Við tökumst alltaf á við stóru vandamálin og björgum þeim yfirleitt sjálf vegna þess að við erum ótrúlega gautseig í eðli okkar. 

Í dag situr þessi alsnægta þjóð og hámar í sig sama trosið og forfeður okkar létu ofan í sig og man ekki einu sinni eftir því að þakka Guðunum fyrir hvað þá heldur Sr. Halldóri Gröndal en hann endurvakti þennan gamla góða sið hér fyrir þrjátíu árum eða svo þegar hann réði ríkjum í gamla góða Naustinu sem nú er búið að eyðileggja (svo er fólk að tala um húsfriðun) 

 Ég persónulega læt ekki ,,ónýtan" mat inn fyrir mínar varir en ég hef svo sem ekkert á móti þessum góða sið.  Mér finnst brosandi kjammar og bleikir hrútspungar ekkert sérstaklega girnilegir á diski að ég tali nú ekki um hákarlinn, þann hlandfisk. En sitt sýnist hverjum og verði þeim bara að góðu sem fóðra sig á þessu gumsi. 

Nú þegar leið okkar hjóna liggur fljótlega til lands ís og elda hlökkum við svo sannarlega til að takast á við veðurguðina.  Einnig ætlum við að blóta Þorra með góðum vinum.  Því er komið hér með á framfæri, þið sem ætlið að bjóða okkur í mat, eitt svona trogpartý er alveg nóg en okkur þykir soðningin mjög góð með íslensku sméri. 

Lifið heil og góða helgi.

   

 

    


Ég er algjör auli

Í gær var dekurdagur hjá minni. Svona ég, um mig, frá mér, til mín.   Ó þvílík sæla sem í vændum var! Tveggja tíma dúllerí með ilmjurtum.  Herðanudd, andlitsbað og allt sem tilheyrir svona dekri.  Marketa mín er alveg einstaklega mjúkhent og natin svo það er tilhlökkunarefni í hvert sinn sem ég á tíma hjá henni.

Mín var mætt stundvíslega á bekkinn og ætlaði svo sannarlega að njóta þess í botn að láta stjana við sig.  Þar sem mín lá eins og slytti á bekknum undir hlýju teppi, fésið þakið yndislegri froðu fór að síga á mína höfgi.  Og undir ljúfum tónum og sjávarnið hvarf hún ég fljótlega inn í draumalandið.Whistling

 Hef satt að segja ekki hugmynd um hvað ég svaf lengi en hrökk upp með andfælum við hroturnar í sjálfri mér. Aumingja Marketa mín.  Þarna var hún búin að smyrja, nudda og dekra við kerlinguna sem hraut síðan bara beint upp í andlitið á henni. Þvílíkt vanþakklæti! 

 Skelfilegt, líka það að þarna hafði ég legið hrjótandi eins og gamall selur innan um ilmandi orkideur, lágværa tóna, notalega lýsingu og bara misst af öllu fíneríinu. Ég er ekkert smá fúl útí sjálfa mig núna. Næst tek ég með mér eyrnatappa, og stoppunálar til þess að stinga í minn fína rass til þess halda mér vakandi. Ekki séns að ég missi af öðrum dekurdegi.      


Þegar fólk er farið að stela eyrnapinnum þá er nú fokið í flest skjól

Þjófnaður í hvaða formi sem er er ekkert grín og bara gott mál þegar þrjótarnir finnast og taka út sína refsingu.

Um daginn var ég stödd í snyrtivöruverslun og var eiginlega bara í svona samanburðarkönnun.  Þar sem ég á fljótlega leið um fríhöfnina hér sem er talin ein ódýrasta í Evrópu vildi fá einhverja hugmynd um framboð og verð þar sem tími er kominn til að endurnýja byrgðir í baðskápnum.

Þar sem ég er nýkomin inn í verslunina og stend við einn rekkann kemur ung afgreiðslustúlka að mér og spyr ósköp kurteysislega hvort hún geti aðstoðað.  Ég svara eins og er að ég væri hér aðeins til að skoða. Ég færi mig að næsta rekka og tek fram krukku í forláta umbúðum og velti henni aðeins í hendinni og les um öll þau undur sem þetta gæti nú gert fyrir gamla og þreytta húð.  Kemur þá önnur ljóska að mér og spyr sömu spurningar og sú hin fyrri og ég svara aftur og brosi blítt til hennar.  Bara að skoða.  

Þegar þetta endurtekur sig í þriðja sinn fer ég aðeins að pirrast.  Hvað er þetta halda þær að ég ætli að stela úr hillunum?  Ég sé að mér er fylgt með fránum augum og nú eru þær komnar fjórar að vappa í kringum mig auk öryggisvarðar í fullum skrúða.  Þá kemur einhver púki í mig svo ég fer að gefa mér betri tíma, skoða fleiri tegundir og tek fleiri hluti úr hillum en ég ætlaði mér.  Sný mér síðan að þeirri sem næst mér stendur og spyr hvort ég geti fengið prufu af þessu kremi.  Nei, engar prufur voru til en ég gæti fengið að prófa úr krukku sem var fyrir gesti og gangandi.  Og um leið potar hún fingri ofaní krukkuna og kemur með smá sýnishorn á putta og otar honum að mér.  Ég hörfa aðeins undan og segi ,,fyrirgefðu en ég er nú ekkert á því að þú farir að klína þessu framan í mig og er ekki snyrtilegra að nota eitthvað áhald í þetta í staðin fyrir að nota puttana.  Svar:,,jú við erum bara búnar að gefast upp á því að nota eyrnapinna því þeim er bara öllum stolið" 

Þarna kom skýringin á eftirliti afgreiðslufólksins.  Hér er meira að segja stolið eyrnapinnum!  Til þess að bæta aðeins fyrir leiðindin sem ég sýndi þessu ágæta starfsfólki keypti ég eina krukku af dýrasta kreminu í versluninni og þakkaði síðan pent og gekk út með brosi og töluvert léttari buddu. 


mbl.is Ákváðu að stela dekkjum af bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði verið stungið inn á vitleysingahæli ef náðst hefði til mín.

Búálfar og annað hyski er búið að ver að hrella okkur hér undanfarið eða svo held ég.  Fyrst var það vatnsleysið og svo núna um daginn þar sem ég stóð undir notalegri sturtunni og var rétt búin að löðra sjampói í hárið heyrðist búmmm!  Vatnið smá fjaraði út og ég eins og fallegur dúnhnoðri stóð þarna bölvandi sveitasælunni í sand og ösku.

Ég skellti mér í þykkasta baðsloppinn sem ég fann og hentist niður stigann en þar er rafmagnstaflan fyrir húsið. Allt virtist vera í stakasta lagi.  Þar sem við erum með eigin brunn og dælan gengur fyrir rafmagni var augljóst að aðaleintakið hafði klikkað og það er langt frá húsinu, næstum alveg við þjóðveginn.  

Án þess að hugsa skellti ég mér í skó og út fór ég í hvíta þykka baðsloppnum með sápulöðrið í hárinu hugsaði ekki einu sinni út í það að setja handklæði um hausinn.  Þarna hentist ég yfir gaddfreðna lóðina eins og hvítur ísbjörn með hárvöndul sem líktist Marge í Homer Simpson.Blush

 Með skjálfandi höndum tókst mér að opna lúguna og smella örygginu upp. Um leið er mér litið út á þjóðveginn þar sem bíll hægir ferðina og tvö starandi augu horfa á þetta furðuverk í morgunkulinu.  Ég snerist á hæl og hljóp eins og vitleysingur heim að húsi og þakkaði almættinu fyrir stóra járnhliðið okkar sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. 

Nú er ég sem sagt orðin fræg að endemum hér í hverfinu.  Whistling

 

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband