Færsluflokkur: Lífstíll
20.4.2009 | 19:50
Sko það er alveg lágmark að þetta sé í sétteringu.
- Heyrðu er það ekki Hortensíur sem þú hefur sett í kerin hér í gluggakisturnar?
Þetta var minn elskulegi sem tók svona til máls þegar hann var rétt kominn inn úr dyrunum hér í eftirmiðdaginn. Hvað var minn núna að pæla hugsaði ég.
-Ha ja það fer nú bara eftir því hvað fæst og og stundum eftir því í hvaða stuði ég er í hvort ég vel Hortensíur eða eitthvað annað. Af hverju spyrðu?
- Ég keypti nokkur blóm á leiðinni heim sagði hann og það var ekki laust við að það væri dálítill ánægjuhreimur í röddinni. Þau eru þarna úti við bílskúrinn.
Ég var næstum farin að tuða yfir því að hann hefði nú átt að bíða þar til ég hefði getað farið með honum. Þetta væri örugglega ekki nógu góðar plöntur og þar fram eftir götunum en stillti mig alveg eins og ég gat. Andaði djúpt og taldi upp á hundrað. Hugsaði um leið, hvað var hann nú að vesenast í þessu. Þetta hefur alltaf verið mín deild og um leið og ég fór til að skoða innkaupin hugsaði ég : ,,Andskotinn, hann hefur örugglega keypt einhverja vitleysu"
En viti menn voru þetta ekki bara hinar gerðalegustu plöntur og engin smá bunki sem lá þarna og æpti á mig: ,,Setja mig niður, setja mig niður strax, ekki seinna en núna!!!!"
Ég fór í skítagallann og byrjaði strax að setja niður í ker þrátt fyrir hörð mótmæli frá mínum elskulega, hann ætlaði að gera þetta allt sjálfur þetta árið. Ég hélt nú ekki en lofaði honum að bera í mig mold og koma kerjunum fyrir í gluggakistum á Stjörnusteini, Fákaskjóli og Leifsbúð.
Ég fór að velta því fyrir mér hvaða lit minn hefði keypt þar sem engin plantan var byrjuð að blómstra og ég sá ekki neitt um lit blóma á pottunum svo ég spurði: Hvaða lit keyptirðu?
Ég hefði átt að sleppa þessari spurningu því það kom aðeins á minn en samt alltaf fljótur til svars:
- - Lit? Allt sami litur.
- Ertu viss, það stendur ekkert utan á pottunum.
- Já þetta var allt í sama rekkanum.
- Já það er nú ekkert að marka það sagði ég og var næstum farin að búa til mál. Þið vitið, það er ekki hægt að hafa ljósbleikt, rautt og ferskjuliti saman í keri. Það bara virkar ekki þannig.
Svo nú er það stóra spurningin. Hvaða litur verður á sumarblómunum í ár hér að Stjörnusteini. Sko við erum að tala um hátt í áttatíu plöntur sem eiga eftir að blómstra hér í allt sumar og það verður að vera alla vega í smá setteringu.
Annars er ég bara nokkuð hress. Fer í Hanastélsboð no. tvö í fyrramálið í boði Tékkneska ríkisins.
11.4.2009 | 11:13
Bloggvinkona frá Danaveldi bankaði uppá í gær.
Bloggedí blogg hér á laugardegi fyrir páska.
Þið heyrið nú að hér er kona bara mjög hress. Ætli þetta sé ekki svona ,,opsa deisí " dagur og það meir að segja númer tvö. Það sem ég var búin að bíða lengi eftir þessu en svo bara kom þetta allt í einu án þess að gera boð á undan sér. Frábært!
Ekki datt mér nú í hug að ég ætti eftir að hitta einhvern af þessum fáu bloggvinum mínum en viti menn var ekki bara bankað uppá hjá okkur í gær og var þar komin bloggvinkona mín Guðrún Þorleifsdóttir og hennar maður Brynjólfur en þau búa á eyjunni Als í Danaveldi. Óvænt ánægja og sátum við hér og spjölluðum í góða veðrinu allan eftirmiðdaginn.
Virkilega gaman að hitta þessa frábæru konu.
Já kæru vinir hér er komið þetta líka fína veður svo maður heyrir næstum þegar blómin blómgast á trjánum svo mikill flýtir er á vorkomunni.
Ætla nú ekkert að vera að svekkja ykkur þarna heima meir með fréttum af hitastigi en bara svo þið vitið það þá er hér 25° úps ég bara varð, sorry.
Farin út að vökva kryddjurtirnar mínar.
6.4.2009 | 11:03
Mánudagsmórall
Ég er með móral. Hér hrannast upp póstur í tölvunni, sniglapóstur úr póstkassanum, bókasendingar, blóm og svo mætti lengi telja en ég, þessi samviskusama kona sem ég er kemst ekki til að svara öllum og þakka fyrir mig.
Hrikalega fer þetta mikið í pirrurnar mínar. Þið vitið þessar fínustu.
Elskurnar mínar þið sem lesið þetta takið á móti stóru knúsi frá mér og þakklæti fyrir alla umhyggjuna undanfarið. Satt að segja hef ég nú minnstar áhyggjur af ykkur þarna heima það eru vinir mínir úti í hinum stóra heimisem ég er með móral yfir. Ég horfi á bunkann hér af kortum og hugsa mikið hrikalega eigum við mikið að vinum og kunningjum. Hvaðan í ósköpunum kemur allt þetta fólk.
Ég ætla að reyna að vera duglegri að svara.
Annars er ég nokkuð hress í dag. Og þar sem ég veit að sumir hafa áhyggjur ef þeir sjá ekki færslu hér daglega þá eigi ég lousy dag. Jú það getur svo sem verið en stundum hef ég bara ekkert að gefa og þá er best að hlaða batteríiin og koma fílefldur inn seinna, ekki satt.
Í morgun þegar ég vaknaði hélt ég að þessi dagur yrði einn af þessum lousy eins og ein vinkona mín orðaði það svo skemmtilega en síðan ákvað ég að svo skildi ekki verða og áður en minn elskulegi fór niðr´í Prag bað ég hann að kippa niður tveimur kössum með páskaskrauti og nú ætla ég að fara út og skreyta pínu lítið hér í kring.
Búin að klippa greinar og setja í vasa svo þær verða útsprungnar með fallegum gulum blómum á skírdag.
Nú ætla ég út og sjá til hvort ég get ekki hengt nokkur plastpáskaegg á eitt tré hér á veröndinni. Ef ég meika þetta í dag þá er ég bara góð skal ég segja ykkur.
1.4.2009 | 12:52
Fyrsta ,,hanastélið" mitt á spítalanum í boði Tékkneska ríkisins.
Í gær þar sem við Marta smarta sátum upp á spítala og biðum eftir að læknirinn kallaði mig inn, ó já m.a.o. hér er ég ekki að meina okkar Mörtu smörtu bloggvinkonu heldur mína Mörtu smörtu sem hefur þýtt allar læknaskýrslur fyrir mig og var svo sæt að koma með mér í gær í viðtalið hjá krabbameinslækninum svona til öryggis og þýða fyrir mig. Hún Marta mín er Tékknesk en gæti alveg verið Íslensk þar sem hún talar okkar tungumál betur heldur en sumir innfæddir.
Takk elsku Marta mín fyrir alla hjálpina og skemmtilegar umræður í gærmorgun.
Þar sem við sátum, gerðum að gamni okkar og flissuðu eins og smástelpur kom hjúkrunarkona að okkur og brosti alveg hringinn og sagði mikið er gaman að sjá hvað þið eruð hressar og getið skemmt ykkur, jæja eitthvað í þá áttina var það sem hún sagði. Við brostum báðar og mér var litið yfir ganginn þar sem fólk sat og beið eftir að komast inn í chemo eða komast í viðtal. Margir voru þarna í fylgd með sjúklingum en enginn sást brosa og hver sat í sínum heimi.
Ég hugsaði eftir á, alltaf þarft þú að láta eins og fífl frú Ingibjörg, hvenær ætlarðu eiginlega að vaxa upp úr þessu kona!
Í bitið í morgun var lagt af stað í fyrsta hanastélið á spítalanum.
Fyrir ykkur, asnarnir ykkar sem vita ekki hvað hanastél er þá þýðir það kokteill en því miður löngu hætt að nota þetta orð yfir samkvæmi eins og cocktail pary. Þetta hanastél sem ég var að fara í var í boði Tékkneska ríkisins ja eða næstum því.
Mér var nú ekki hlátur í huga í morgun þar sem við biðum eftir að vera kölluð inn á stofuna. Ég sat prúð og stillt og sötraði vatn til að dreifa huganum. Hafði ekkert að segja, ekkert að spyrja, ekkert að tala um. Bara ein biðin í viðbót.
Loksins kom að mér og ég gekk keik inn á stofuna. Þar blasti við mér fjögur rúm, fjórir svona hægindastólar og síðan voru nokkurn konar kollar, þó með baki við hvern rúmfótagafl. Það var þröngt setinn bekkurinn, hver með sinn koktail drippandi inn í æðakerfið úr álklæddri platflösku. Mér var sagt að setjast á einn kollinn. Þar sem ég sneri baki í glugga, rúm og næstum allt vistvænt inni í þessu herbergi var mér nauðugur einn kostur að horfa á gulmálaðan vegg og tvær hurðir sem ég vissi að ég hefði komið í gegn um.
Þarna fyrir framan hurðina var lífið. Hér inni, þetta var biðsalur dauðans. Og mér varð allri lokið. Ég fór að gráta. Ekki mín vegna heldur vegna allra hinna sem voru með mér þarna inni.
Þið sem hafið gengið í gegn um þetta skiljið hvað ég er að fara en þið hin, Guð gefi að þið þurfið aldrei að skilja þetta.
Þar sem ekki var búið að tengja mig við koktailinn minn bað ég um að fara fram og tala við minn elskulega sem tók mig í fangið og hughreysti. Alltaf til staðar minn! Eftir smá stund gáfum við hvort öðru five og ég þrammaði inn í þetta herbergi sem ég á nú eftir að heimsækja nokkuð oft næstu mánuði.
En nú kemur það skemmtilega við þetta allt saman. Haldið ekki að minn eðalskrokkur hafi bara ekki næstum neitað að fá þennan fína koktail í æð. Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem tókst að troða þessu á sinn stað.
Ja hérna Sjaldan hef ég nú flotinu neitað sagði kerlinginog það hefur bara aldrei komið fyrir mig áður að neita koktail hehehhe....... hvað þá svona að fá þetta beint í æð!
Sem sagt nú er ég komin heim þrælhress og útstungin. Svo nú á ég frí í viku frá spítala og kærleikssystrum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
23.3.2009 | 20:55
Er nú ekki hér valhoppandi af kæti eftir Karlsbrúnni
Fólk hefur verið að hnippa í mig síðustu daga og spyrja hvort ég ætli ekki að halda áfram að blogga. Jú auðvitað en það er bara ekkert fréttnæmt héðan úr héraði og mér ekki fundist ég hafa neitt merkilegt að segja.
Ekki nenni ég að tala um veðrið en bara svo þið vitið það þá er hér lægð, rigning og rok, hálfgert haustveður. Ánægð?
Það er nú ekki svo vel að maður sé mikið að dandalast í bænum en gerði góða tilraun á fimmtudaginn sem tókst vel framan af en auðvitað ofbauð ég aðeins mínum eðal skrokk svo ég fékk aðeins að kenna á því daginn eftir.
Ekki halda að ég hafi verið að taka einhver dansspor eða valhoppa eftir Karlsbrúnni af kæti yfir því að komast aðeins út fyrir lóðarmörkin, nei þetta var bara stuttur hittingur og síðan kvöldmáltíð en henni hefði ég átt að sleppa.
Ætla að prófa aftur næsta fimmtudag en taka það þá með skynsemi.
Svo bíð ég ykkur öllum góða nótt og dreymi ykkur vel.
Kem hress inn á morgun.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.3.2009 | 11:44
Finnst allt ganga löturhægt þessa dagana.
Við hjónin vorum á leið út úr húsi í gær þegar síminn hringdi. Minn greip tólið og á línunni var vinkona mín að hringja yfir hafið til að heyra aðeins í mér. Ég rétti út höndina eftir tólinu en þau héldu bara áfram að tala um mig eins og ég væri hvergi viðstödd og ekki bætti það úr skák þegar minn sagðist vera að FARA MEÐ MIG til Dr. House og síðan ætlaði hann með mig í búðina og versla í matinn.
Hann er sem sagt hættur að fara með mér hann fer með mig alveg eins og litlu börnin sem við förum með hingað og þangað. Hrikalega fer þetta eitthvað í pirrurnar mínar núna þessa stundina.
Auðvitað æsti ég mig aðeins upp en þau voru nú ekkert á því að slíta samtalinu heldur hlógu að þessum æsing í mér og vinkonan sagði við mig þegar ég loks fékk tólið í hendurnar hehehe... heyri að þú ert öll að koma til Ía mín.
Ég veit nú ekki hvort það er alveg rétt hjá henni. Mér finnst allt ganga löturhægt þessa dagana og ýmsir hlutir sem ég var búin að ákveða að ættu ekki að fara í pirrurnar mínar eru farnir að droppa upp öðru hverju. T.d. eins og í gær þegar ég heimsótti Dr. House og ætlaði að fá aðeins betri skýringar á sumu sem vefst enn fyrir mér þá fór ég eiginlega alveg jafn nær út frá honum. Veit ekki hvort það er tungumálið eða menntalitetið sem veldur því að mér finnst ég ekki fá nægilega góð svör. Mér finnst stundum svörin svo loðin og eiginlega eins og ég sé að spyrja um eitthvað sem mér komi alls ekki við eða ætti að vera búin að skilja fyrir löngu. Þetta fer ekki vel með mig, ég vil nefnilega hafa allt á hreinu, hef alla tíð vereið þannig.
En annars er þetta allt að koma held ég. Alla vega þegar ég hugsa til baka hvernig ég var fyrir viku þá er mikill munur og ég næstum hljóp upp stigann hér í morgun. Ég sagði næstum vinir mínir, nenni ekki að fá skammir hér.
Er farin að taka úr vél og hengja út. Brakandi þurrkur hér en mætti vera hlýrra.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
12.3.2009 | 13:46
Halla sér aftur á dollunni og hósta létt þá kemur það.
Mikið er nú gott að eiga fjölskyldu sem maður getur talað við tæpitungulaust. Veit ekki hvort það er vegna þess að við systkinin vorum alin upp við ótrúlegan pempíuskap og klósett og allt sem því fylgdi var yfirleitt ekki rætt, gerði það að verkum að í dag tölum við afskaplega frjálslega um okkar ferðir á dolluna og nú vara ég ykkur við, þið sem eruð viðkvæm fyrir svona lesningu, hættið bara að lesa núna.
Allir hafa einhvern tíma lent í því að fá hægðartregðu og vita að það getur farið hrikalega á sálina tala nú ekki um ef búið er að grufla í manni á skurðarborði. Þá hreinlega getur allt stoppað og maður verður bara uppfullur af skít og er það nú ekki ábætandi þegar maður hefur um allt annað að hugsa en að kúka reglulega. Þetta er bara hrikalegur bömmer.
Í þessu lenti ég núna eftir að ég kom heim. Fyrst reyndi ég að leiða þetta hjá mér og hugsa OK, þetta kemur allt bara vera róleg. Eftir viku var ég farin að hafa hrikalegar áhyggjur eins og gefur að skilja. Ég sat á dollunni og reyndi að rembast eins og rjúpan við staurinn til að koma þessu nú frá mér og niður í holræsið.
Sko það er ekkert auðvelt að rembast og vera með saumana enn og fá síðan allt í einu þá tilfinningu að allt sé að springa upp innan í manni. Tala nú ekki um verkina sem fylgja þessu og svo fer taugakerfið í algjöran hnút og þá skeður auðvitað ekkert. Allt pikkfast en þér er samt alveg hrikalega mál að kúka. Þú stendur upp með hljóðum og bölvar öllu í sand og ösku.
Jú elskurnar mínar, ég er búin að reyna að setja upp stíla, taka inn laxerolíu og núna er ég að háma í mig kolsvörtum þrumara, brauð sem ég annars mundi aldrei éta.
En ég byrjaði nú á því hér að tala um hvað gott væri að eiga góða fjölskyldu var það ekki. Í morgun hringdi mágkona mín hún Bökka og auðvitað hellti ég mig yfir hana með mín vandamál. Verð að segja það að við systkinin vorum heppin með að giftast inn í fjölskyldur sem eru ekki viðkvæmar fyrir svona klósetttilkynningum og góðu upplýsingarflæði um okkar ferðir og hefðir. Það hefur aldrei staðið í okkur að ræða það, innan velsæmismarka auðvitað.
Hún Bökka mín var sko ekki í vandræðum með að gefa góð ráð enda sjálf oft lent í þessu veseni. Ég átti að drekka sveskjusafa eða plómusafa. Kaupa eitthvað sull í heilsubúðinni (man ekkert hvað það var eða heitir) og síðan að hætta að hugsa um kúk og skít.
- Já sagði ég þú heldur að það sé bara hægt núna þegar ég er uppfull af viðbjóði.
- Já elskan mín, bara slaka á og alls ekki að rembast.
- Ha ekki rembast? Heyrðu ég er hér eins og hengd upp á þráð og þú segir mér bara að slaka á!
- Jáþað gerir ekkert gagn að rembast. Sko þú átt að halla þér aftur á dolluna ekki fram eins og allir gera og hósta létt niður í þarmanna nokkrum sinnum þá kemur þetta af sjálfu sér. Rennur bara svona ljúflega frá þér. Þetta kendi mér góður læknir fyrir nokkrum árum.
- Jahá og þetta á að virka heldur þú.
- Já ég skal lofa því, svínvirkar bara vera smá þolinmóð.
OK er farin á dolluna, halla mér aftur og hósta létt og alls ekki rembast.
10.3.2009 | 19:16
Ég er alveg óþolandi þessa dagana.
Í gær hringdi vinkona mín í mig frá Íslandi og spurði hvort Þórir væri ekki örugglega með mig í bómull.
-Jú elskan mín þetta er að verða alveg óþolandi svaraði ég,
-Nú hvað meinarðu, ´þú verður að leyfa honum að stjana aðeins við þig.
-Já en ég fæ andskotan ekkert að gera og það á bara engan vegin við mig eins og þú veist.
- Nei, en svona fyrstu vikurnar er nú í lagi, reyndu nú að vera róleg
- Já ég er afskaplega róleg eða þannig en það er nú alveg óþarfi að tilkynna mér í hvert skipti sem hann fer út úr húsi. Eins og í dag, hann er að háþrýstiþvo veröndina og ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver tilkynningarskilda hér áður fyrr ef hann fór út á stétt. Andskotinn ég þoli þetta ekki. - Ég er að fara út elskan, ég er kominn inn elskan, díssuss ég er ekki heyrnalaus, ég heyri alveg þegar hann gengur hér um.
- Ía mín hann gerir þetta bara af því honum þykir vænt um þig og vill að þú vitir hvar hann er.
- Já ég veit, ég er alveg óþolandi þessa dagana. Nú er ég aðeins að hressast og finnst ég samt vera algjör eymingi. Drattast þetta hér um húsið og geri varla handtak. Æ þú veist að þetta er ekki alveg mín deild vinkona.
- Já hvort ég veit. Þú verður bara að reyna að sitja á þér nætu vikur.
-Jamm ég skal reyna. Veit ég er afskaplega vanþakklát. Vona bara að Þórir minn viti að ég elska hann í ræmur, eða er ekki sagt svoleiðis í dag.
- Jú ræmur eða tætlur.
Ég á góðar vinkonur sem hafa verið duglegar að hringja í mig undanfarnar vikur.
Takk fyrir að vera til mínar elskulegu.
4.3.2009 | 16:43
Fyrsta áfanga lokið og allt gengur vel.
Ég er komin heim! Kvaddi mitt góða aðhlynningarfólk á spítalanum rétt fyrir hádegi og mér fylgdu góðar bataóskir og fyrirbænir á mörgum tungumálum alla leið að útidyrum.
Auðvitað var ég líka leyst út með bland í poka þ.e.a.s. góðan pilluforða fyrir næstu viku en þá fer ég í eftirskoðun eins og lög gera ráð fyrir.
Mikið var gott að koma heim. Húsið fullt af kærleik og blómum frá mínum elskulega. Ég held að hann ætli að hafa mig í bómull næstu daga. Hann snýst hér eins og Snúður um Snældu og ég nýt þess í botn að láta stjana við mig. Búin að lofa að fara hægt af stað.
Ég vil þakka ykkur öllum fyrir góðar kveðjur og hlýjar hugsanir sem komust vel til skila. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir styrk ykkar og trú.
3.3.2009 | 15:37
Ég bara rugletta.
Svei mér þá ég held að vorið sé alveg að koma. Þegar ég horfi hér út um gluggann á svítunni minni þá blasir við mér skógi vaxin hlíð og ég get næstum heyrt brumið sprengja sér leið út í milt vorloftið eða er ég bara á lyfjum.
Jú auðvitað er ég á lyfjum en ég er samt alveg viss, vorið er hér handan við hornið það vantar aðeins herslumuninn.
Var að pæla í því áðan hvernig ég færi að þegar ég kem heim og komast ekki í vorverkin. Ætli Þórir verði ekki að binda mig niður og setja mig í spennitreyju. Aumingja hann, það verður ekki auðvelt að díla við mig næstu vikurnar. En eins og þið heyrið er ég farin að undirbúa mig fyrir alla mögulega og ómögulega hluti svo ég geti tekið á þessu með skynsemi. Ég væri nefnilega alveg tilbúin að ana út í einhverja vitleysu svo eins gott að hafa minn elskulega með fulle femm við hliðina á svona vitleysing.
Jæja díla við það þegar að því kemur. Annars er ég bara góð og búin að hafa það þokkalegt í dag alla vega eftir að ég fann út hvaða verkjalyf virka best á minn eðalskrokk.
Kem e.t.v. inn aftur með kvöldinu. Þetta var bara svona smá færsla út í bláinn eða eins og Þórir Ingi sagði við mig í símann um daginn þegar ég skildi ekki orð af því sem hann var að bulla : Amma ég bara rugletta.
Ég er ekki að rugletta með vorið, ég sé það koma hér fyrir utan.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)