Hugarvíl yfir snjómokstri í dag.

Á meðan ég kepptist við hér í dag að moka snjóinn frá innganginum, já hér er snjór, þá fór hugurinn á harðakan um líðandi stundir og þá sérstaklega heim til Hamingjulandsins sem ekki lengur er neitt Hamingjuland og einhverja hluta vegna fannst mér frostið bíta harðar á beinin en ella þegar ég fór að hugsa heim.

Nú fer fólk að finna alvarlega fyrir kreppunni þá sérstaklega þeir sem missa vinnuna um næstu mánaðamót og þeir sem nú þegar hafa fengið skellinn. Hvað verður um allt þetta fólk, verða landflutningar með vorinu eða bjargar það sér fyrir horn með aðstoð ættingja sem betur eru settir.

Hverju hafa mótmælin áorkað.  Sumir vilja halda því fram að þau hafi hjálpað mikið til og margir hrökklast úr starfi sem að öðrum kosti hefðu setið fastast.  Var ekki þetta fólk löngu búið að taka ákvörðun um að hætta.  Getur ekki verið að samviskan og eða sómatilfinningin hafi gert vart við sig hjá þessu ágæta fólki?  Hvað vitum við svo sem.

Uppþot og óspektir eiga ekki upp á pallborðið hjá mér og harma ég það að sumt fólk haldi uppi hanskanum fyrir nokkra ólátabelgi sem þora ekki einu sinni að sýna sitt rétta andlit.  Svona uppákomur gera ekkert gagn, frekar ógagn.  Þögul mótmæli eins og á Ísafirði og víða úti á landsbyggðinni eru held ég miklu áhrifameiri.

Nú er líka spurningin hvort okkar hæstvirtu ráðherrar og aðrir stjórnarmenn hrökkvi upp af blundinum og hristi af sér doðann en því miður virðast ekki miklar líkur á því.  Hver höndin upp á móti annarri, Sjálfstæðisflokkurinn að klofna, taugastríð á milli ISG og Geir og nú biða allir eftir landsfundi þar á sko að taka á málunum.  Hvaða endemis bull og vitleysa er þetta! Og ekki er stjórnarandstaðan hótinu betri með sínar upphrópanir. 

Svo var það Gasa svæðið sem allt í einu varð orðið miðdepill allra frétta.  ISG líttu þér nær, hér er þörfin!  Ekki það að ég vorkenni ekki saklausu fólki sem fellur í hundruða tali en við höfum við vanda að glíma þarna heima og  ætti það að vera í forgangi.

Svo er spurningin sem engin virðist geta svarað sama hvert leitað er.

 Úthrópanir sem hafa verið í marga mánuði.  Burt með ríkisstjórnina, burt með seðlabankastjórnina en hvað vill fólkið í staðinn?  Stjórnarandstöðuna, nýja flokka, nýja menn.  En hvaða menn?  Ég hef ekki heyrt neinn koma með frambærilegar tillögur. Það er ekki nóg að hrópa og kalla út um alla borg en hafa svo ekkert nýtt og frambærilegt í pokahorninu.

Svo að lokum hvað með útrásarliðið er það gleymt?  Fáir krefjast þess lengur að réttvísinni sé fullnægt.  J.Á. hættur að sitja í nefndum, og hvað með það, hann fjarstýrir þessu bara á annan máta.  Sumir af þessum pótintátum skrifa afsökunargreinar til að friða samviskuna.  Hvenær ætli einhver taki í rassinn á þessu liði?   

Þetta var nú það helsta sem ég var að pæla í við snjómoksturinn í dag.

Uppbyggjandi eða hvað!!!!!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huld S. Ringsted

Það er nú ansi mikið til í þessum pælingum þínum við snjómoksturinn Ía mín, svo satt að engin hefur komið með lausnir en allir jafnviljugir að setja út á. Mér finnst talandinn hjá öllum pólitíkusum hvort sem þeir eru í stjórn eða andstöðu vera svo illmengaður af kosningaáróðri að það er ekki að verða fyndið og á meðan flýgur landinn í lausu lofti og veit ekkert hvað verður Þetta er skelfilegt ástand og þetta lýðræði okkar ekki lengur orðið lýðræði, við höfum greinilega ekkert um hlutina að segja.

Knús

Huld S. Ringsted, 5.1.2009 kl. 20:52

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Það er sorglegt að horfa upp á þetta úr fjarðlægð Huld mín.

Ía Jóhannsdóttir, 5.1.2009 kl. 20:57

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Glöggt er gestsaugað og fjarlægðin gerir .........hlutina stundum samhengislausa  Ekki það að mér finnst hlutirnir stundum óralangt frá því sem ég myndi vilja sjá.

Ég er ein af þeim sem talað hef fyrir utanþingsstjórn, þ.e. að þing verði rofið og að skipuð verði stjórn skipuð "fagfólki" í einhvern tíma.  Þannig yrðu flokkunum gefin tími til að taka til í eigin ranni og jafnvel ný framboð gætu litið dagsins ljós.....svo má kjósa

Í dag gæti ég ekki kosið einn einasta flokk og treysti ekki þeim mannskap sem þar skipa forystulið.

Annars er ég bara að berjast við annarskonar leiðindi þessa dagana....skítapest, sem virðist hafa tekið sér bólfestu í kroppnum á mér.

Bestu kveðjur í snjómoksturinn

Sigrún Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 21:31

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Humm já nógu langur til að gera mig reiða.  Þögnin sem þið búið við held ég sé  verst.

Ía Jóhannsdóttir, 5.1.2009 kl. 21:34

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Utanþingstjórn væri auðvitað heila málið Sigrún.  Fer ekki út fyrir dyr á morgun hér er spáð 20° frosti. Brrrr....

Ía Jóhannsdóttir, 5.1.2009 kl. 21:41

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Svipað og mínar pælingar, þarf samt ekki að standa í snjómokstriEigðu góðan dag, inni í hlýjunni

Jónína Dúadóttir, 6.1.2009 kl. 06:35

7 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Ég held að þetta eigi eftir að versna mikið  þarna "heima" en hvert á fólk að flýja, ástandið er alsstaðar að versna, t,d, í sambandi við atvinnu á hinum norðurlöndunum. Hafðu það gott innandyra Ía mín

Kristín Gunnarsdóttir, 6.1.2009 kl. 08:12

8 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Þetta hefur verið mikill mokstur Ía mín!

Tek undir það sem þú skrifar.

Kær kveðja frá Als þar sem snjórinn liggur enn og frostið er -2°

Guðrún Þorleifs, 6.1.2009 kl. 08:15

9 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Ía mín þú segir allt það sem ég segja vildi er svo sammála þér.

Vona að þú fáir gott ár

Anna Ragna Alexandersdóttir, 6.1.2009 kl. 21:43

10 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Já elsku Ia mín tek undir allt sem þú segir. Ég er mjög kvíðin ég veit ekki hvernig þetta fer hjá okkur á fróni.

Kristín Katla Árnadóttir, 6.1.2009 kl. 21:49

11 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Takk fyrir öll innleggin og Anna Ragna takk fyri að kíkja hér við.

Ía Jóhannsdóttir, 6.1.2009 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband