11.8.2008 | 20:39
Aquapalace, ævintýraheimur Pragbúa
Í morgun var ákveðið að fara með Juniorinn í sund og fyrir valinu varð auðvitað Aquapalace sem er 30 km héðan frá okkur. Þvílíkt ævintýri að koma í þennan vatnsskemmtigarð, jafnvel okkur fullorðna fólkinu fannst mikið til koma. Endalausar rennibrautir, ormar, heitir pottar og kaldir, fossar, sprænur, ár og laugar, strendur með öldugangi og sjóræningjaskip sem vatnið gusaðist úr héðan og þaðan. Jafnvel litlir hákarlar sem syntu í lokuðum kerjum, (skildi nú ekki alveg hugmyndina á bak við það) en sitt sýnist hverjum.
Auðvelt er að eyða heilum degi þarna þar sem þetta er að hluta til innanhúss og auðsjáanlega hugsað sem fjölskyldustaður. Eitthvað fyrir alla. Líkamsrækt, nudd, gufuböð, snyrting, hárgreiðsla og nokkrar verslanir fyrir þá kaupóðu. Veitingasalir og sundbarir.
Amman var eitthvað hálf slöpp þegar lagt var af stað en lét það nú ekki á sig fá þar sem hana langaði mikið til að fara með litla guttanum í sund. Yfir hádegisverðinum fór heilsan aðeins að versna því auðvitað er hún búin að ná sér í sumarkvef. Situr nú hér skjálfandi, kófsveitt og með Kleenex pakka við hendina. Hnerrar hér ofan í tölvuna og nefið eins og á versta tóbakskarli.
Ætlar samt í bæinn á morgun því það er síðasti dagurinn þeirra Soffu, Steina og Þóris Inga áður en þau halda heim og amman ætlar að nota daginn til að fara með sínum í búðir og versla pínu pons.
Svo nú er bara að pakka sér inn í dúnsængina og koma sér til kojs.
Verð fín á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.8.2008 | 11:53
Tónaflóðið heldur áfram að berast frá Leifsbúð
Nú eru það ómar frá klarinettinum hans Einars Jóhannessonar sem berast hér með vindinum yfir sveitina okkar en hann kom í gær hingað og ætlar að dvelja hér í Listasetrinu næstu fjórar vikurnar.
Ég hef alltaf haldið dálítið upp á þetta ljúfa hljóðfæri og ekki amalegt að fá að njóta þess að hlusta á snillinginn spila.
Minnir mig á fyrsta veturinn okkar hér í Prag 1991. Þá bjuggum við niðrí borg ekki svo langt frá Kastalanum. Einu sinni sem oftar var ég að ganga niður í bæ og var komin niður á Mala Strana en þar liggja öngstræti alveg niður að Moldá. Ég man að það var brunakuldi eins og hann getur orðið verstur hér og stilla. Allt í einu heyri ég undurljúfa óma klarinetts berast út um opinn glugga.
Ég stansaði og leit upp að húsinu sem var fremur óhrjálegt þriggja hæða steinhús. Grá kolaslikjan huldi gömul útflúr og steinmyndir en bak við opinn glugga bærðist hvít gardína í svölu morgunloftinu.
Það er í svona strætum hér í Prag sem tíminn stendur kyrr og það er svo auðvelt að finnast maður vera kominn inn í mynd fyrri alda. Ég man að ég stóð þarna gjörsamlega bergnumin og hlustaði lengi á tónana sem bárust frá opnum glugganum. Mér fannst ekkert vanta þarna nema krínólínið. Ég rankaði við mér þegar ég heyrði hófaskelli á götusteinunum og vagn kom skröltandi fyrir hornið. Ekillinn heilsaði og hvarf síðan inn í frostþokuna eins og í ævintýrunum.
Ég gleymi þessum sunnudagsmorgni aldrei og ef þið eigið einhvern tíma leið hér um farið þá og heimsækið þessi öngstræti Mala Strana snemma morguns á vetrarkvöldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.8.2008 | 10:59
Elsku mamma vertu nú ekki með þetta pjatt...
.....og skiptu við mig um skó! Þetta sagði dóttir mín við mig þar sem ég skakklappaðist um sjóðandi heit stræti Munchen-borgar. Ég leit niður á hennar skófatnað, svona útjaskaða innleggsskó, þið vitið með ól yfir ristina, ég hélt nú ekki sama hvaða fína merki þeir væru, heldur gengi ég berfætt en að láta sjá mig í svona tuðrum. Svo hafði ég líka fjárfest í þessum líka fínu rauðu bandaskóm, rándýrum áður en ég lagði upp í ferðina og þeir áttu að þjóna sínum tilgangi og hana nú.
Ég hafði auðvitað ekki gert mér grein fyrir því að kona sem er með svona aukabein fyrir ofan stórutærnar og hefur ekki þorað að fara í aðgerð vegna þess að hún er svo mikil kveif getur ekki gengið í svona bandaskóm alveg sama hversu mjúkir þeir eru. Ég hafði tekið með mér tvenna aðra sem báðir áttu að þjóna sínum tilgangi þar til ég gæti fjárfest í ítölskum dúlluskóm með fyrirkomulagi eins og ein vinkona mín kallar það. En hver fer að máta skó með gapandi sár á báðum stórutám?
Í 35°hita bólgna viðkvæmir fætur og eftir þrjá daga voru litlu sætu táslurnar mínar eiginlega að detta af, ég get svo sem svarið það. Ég hafði það af að ganga að sundlauginni og aftur heim í hús sem voru ca 20 metrar. Var líka orðin fræg í öllum Apotekum Toscana héraðs þar sem ég keypti daglega eitthvað nýtt við svona meini. Talkúm, gel, innlegg, plástra og eitt sem var eins og útblásin lítil blaðra sem ég smeygði upp á stórutá og blaðran hélt við beinið. Þá gat ég auðvitað ekki komist í neina skó vegna þess að þetta var svo asskoti fyrirferðarmikið.
Ekki batnaði ástandið þegar ákveðið var að fara í skoðunarferðir. Ég, pjattrófan dróst svona 10 metra aftur úr vegna þess að ég gat varla stigið niður og síðan heimsótti ég öll þau Apotek sem ég fann á leiðinni ef ég hugsanlega gæti fundið eitthvert kraftaverkameðal.
Ég þraukaði út ferðina og gekk á þrjóskunni einni saman, skapið var ekki alveg upp á það besta, dálítið pirruð stundum, þið skiljið, svona pínu leiðinleg. Ég er nefnilega með alveg rosalega hátt sársaukastig og þoli ansi mikið en auðvitað eru takmörk fyrir öllu. Þetta er auðvitað bilun að kvelja og pína sig heldur en að ganga í sandölum eins og hinir túrhestarnir.
Ég hefði getað kysst og knúsað útjöskuðu inniskóna mína sem blöstu við mér þegar ég opnaði útidyrnar að Stjörnusteini.
Hef ekki farið úr þeim síðan og ætla ekki í bráð fyrr en ég neyðist til að láta sjá mig innan um ókunnuga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.8.2008 | 08:23
Eftirminnileg ferð til Toscana
Það var yndislegt að fara þessa ferð saman, litla fjölskyldan. Við gamla settið nutum hverrar mínútu með barnabörnunum þessa daga í fallegu umhverfi Toscana. Litli Juniorinn okkar frá Íslandi lærði ný orð á hverjum degi og litla Prag-prinsessan ný trikk enda á hermialdrinum.
Hvað getur verið meira gefandi en að fá að fylgjast með þessum sólargeislum okkar!
Eftir að hafa keyrt til Milano sameinuðumst við litla fjölskyldan í sveitasælu Toscana þar sem krakkarnir okkar höfðu leigt hús í viku. Egill og Bríet flugu síðan heim til Prag en við hin keyrðum inn í Ítölsku Alpana og dvöldum þar einn dag. Ótrúlega fallegt að sjá þetta svæði í sumarbúningi.
Við keyrðum eins og leið lá til Munchen þar sem við gistum eina nótt og héldum síðan heim til Prag.
Gott var að koma heim og heyra vælið í Erró þegar hann tók á móti okkur hér í kvöldsólinni.
Nú tekur hversdagurinn við með öllu því lífsins amstri sem alltaf er þó gaman að takast á við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.7.2008 | 00:23
Það sem henti hér í dag.....
.....er eitthvað sem hendir okkur öll í daglegu amstri hversdagsins. Ég byrjaði á því að reyna að henda reiður á þvi sem ég ætlaði að gera í dag. Byrjaði á því að hendast upp og niður stigana, henda í þvottavél og þurrkara til skiptis. Hentist síðan niður til að henda í uppþvottavél, hentist í símann og hentist síðan í sturtu vegna þess að nú var komin tími til að gera sig klára til að hendast í hreinsunina og smá útréttingar fyrir morgundaginn.
Þegar ég var búin að sækja fötin í hreinsunina hentist ég að bílnum og henti fötunum í skottið og skellti aftur. Nú skildi hendast í Apotekið og Marks & Spencher vegna þess að ég er eins og litlu börnin sem hafa með sér saltstangir í bílinn þá verð ég að hafa með mér hafrakex á ferðalögum til að lifa af morgunmatinn.
Þarna var ég næstum búin að henda mér í vegg eins og Jenný, déskotinn sjálfur, afgreiðslan var fyrir neðan allar hellur og ég hellti mér yfir aumingja afgreiðslukonuna og húðskammaði hana fyrir sauðahátt og hótaði að hér skildi þetta fara fyrir nefnd í hinu hámenntaða Breska drottningaveldi.
Ég hentist síðan niður rúllustigann og út í bíl, henti pokaskjöttunum í aftursætið og keyrði í hendingskasti 50 km til Prag þar sem ég var orðin ansi sein á ferð og klukkan að verða sjö og ég var búin að lofa að henda kveðju á vini mína Stefán Baldursson og Þórunni þar sem þau voru að koma hingað til að heimsækja okkur og við auðvitað við að hendast burtu á morgun svo það var bara þessi litla kvöldstund sem við gátum setið saman og knúsað hvort annað.
Loksins þegar ég var komin niður á Reykjavík þá hætti þetta æðibunukast sem ég hafði angrað mig í allan dag og loks gat ég slakað á. Það var yndislegt að hitta Tótu og Stebba í kvöld. Gunnar Kvaran og Guðný komu síðar um kvöldið og við áttum skemmtilega samverustund fram yfir miðnætti.
Það er alsæl kona sem ætlar núna að henda sér á koddann og á morgun verður hent í töskur og brunað í alsælu á vit fornra rústa Ítalíu.
Góðar stundir góðu vinir hvar sem þið eruð í heiminum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.7.2008 | 11:24
Þetta er dagsatt eða þannig....
Um daginn benti minn elskulegi mér á ferðabíl, ef bíl skildi kalla, fyrir utan eina bílasöluna hér í borg og tilkynnti mér að hann hefði fjárfest í þessu til að koma allri fjölskyldunni í fyrirhugað ferðalag til Ítalíu. Þetta var örugglega um 10 metra langt glasandi rautt og svart stálhylki á hjólum og minn sagði að innanborðs væru fjögur herbergi með baði, setustofa, borðstofa og eldhús og þegar þú værir búinn að parkera gætir þú fengið 30fm verönd með útigrilli og alles með því að draga eina hliðina út svona eins og skúffu.
Mig hryllti við tilhugsunina eina saman, bara það að sjá lítil hjólhýsi hvað þá ferðabíla á vegunum hér gerir það að verkum að maginn á mér herpist saman og ég fæ klígjuna upp í háls. Sorry, þið sem eigið svona tæki, ekkert persónulegt.
En það er satt við erum að fara í FRÍ og engin smá tilhlökkun í gangi á þessu heimili. Öll litla fjölskyldan okkar saman til Ítalíu í viku. Soffa okkar með húsband og litla gaurinn hann Þóri Inga koma frá Íslandi og Egill, Bríet og Elma Lind fljúga héðan á laugardag.
Í upphafi datt okkur í hug að leigja átta manna bíl hér svo öll fjölskyldan gæti ferðast saman um vínhéruð Ítalíu en þegar málið var skoðað var þetta svo óhagstætt og líka það að við verðum að hafa tvo barnastóla í bílnum plús allt sem fylgir stórri fjölskyldu á ferðalagi. Við tókum þann kostinn að við Þórir keyrum á öðrum bílnum okkar en fengum síðan mann til að lóðsa hinn bílinn niðr´eftir. Keyptum flug fyrir bílstjórann aftur til Prag svo nú verðum við bara á okkar eigin bílum og nóg pláss fyrir alla. Þetta var helmingi ódýrari kostur en að leigja einhverja druslu.
Við Þórir ætlum að leggja í hann á morgun og dóla okkur eitthvað áleiðis. Hittum litlu fjölskylduna frá Íslandi á föstudagskvöld í Milan og síðan sameinast allir á laugardag einhvers staðar upp í hæðum Ítalíu ekki svo langt frá Florens. Þar hafa krakkarnir okkar leigt hús í viku og voru svo elskuleg að bjóða gamla settinu með. Við keyrum síðan með Soffu og Steina aftur áleiðis til hundrað turna borgarinnar þar sem þau ætla að vera hjá okkur hér í nokkra daga.
Þess vegna kæru vinir getur verið að þið heyrið ekkert í mér næstu vikur þar sem ég hef ekki hugmynd hvort ég kemst í netsamband eða nennu til að blogga. En við sjáum bara til.
Kem e.t.v. aftur inn í kvöld svona rétt til að fara bloggvinahringinn og senda knús á ykkur.
![]() |
Stolið hjólhýsi fannst í sandgryfjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.7.2008 | 00:38
Brahms í boði Guðnýjar konsertmeistara hér í borðstofunni okkar í kvöld
Enn bættist við flóru listamanna hér í Listasetrið okkar og í dag tókum við á móti Guðnýju Guðmundsdóttur konsertmeistara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Okkar er heiðurinn að fá þessa frábæru listamenn hingað til dvalar í skamman tíma.
Guðný tók upp fiðluna hér í kvöld og þar sem við sátum undir sextándu aldar gamalli hvelfingu inn í borðstofunni okkar fannst henni ekkert annað koma til greina en spila fyrir okkur verk eftir Brahms. Ég á seint eftir að gleyma þessari kvöldstund hér í borðstofunni minni við kertaljós og undurfagra tóna frá fiðlunni hennar Guðnýjar.
Á eftir settumst við út á verönd og borðuðum kvöldverð sem undrakokkurinn, minn elskulegi framreiddi af sinni einstöku snilld. Það gerði smá skúr svo við fórum inn og gæddum okkur á bláberjum með heitri kampavínssóu sem aldrei bregst á þessu heimili.
Mikið skrafar, mikið rætt um sameiginlega vini og kunningja og nú eru allir komnir til kojs nema hún ég sem sit hér og pikka þetta hér í dagbókina mína.
Á morgun er kominn nýr dagur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.7.2008 | 20:35
Amberg var okkar bær og bjargaði okkar sálarheill fyrir átján árum
Ohhh ég veit nákvæmlega hvar þetta hótel er! Þessi litli bær í Bæjaraland var okkar lífsbjörg fyrir átján árum þegar við fórum einu sinni í viku yfir landamærin til að kaupa allar okkar nauðsynjavörur allt frá klósettpappír upp í mannsæmandi matvæli sem ekki fengust hér í þá daga.
Við bjuggum alltaf á sama hótelinu, Hotel Alstath og þar réði ríkjum fyrrverandi fegurðadrottning Amberg 1971, alveg satt, það var meira að segja mynd af henni á vegg í veitingasalnum. Blessunin leit nú ekki út eins og fegurðadrottning árið 1991 en hvað sem öðru leið þá var hún mjög elskuleg og tók alltaf á móti okkur eins og höfðingjum enda vorum við fastagestir í nokkur ár.
Í þá daga var Amberg bara lítill sveitabær, ég vil segja að þetta hafi verið svefnbær, rétt við landamæri Tékklands sem hafði ósköp lítið uppá að bjóða en hefur blómstrað með árunum. Ég sá strax að bærinn hafði mikla sögu að geyma og að hluta til er hann umkringdur háum múrveggjum og hliðum sem hafa staðið síðan á 15. öld. Í dag kemur þú í sögubæ sem hefur byggst upp ótrúlega hratt og varðveitt gamlar mynjar, s.b. þetta einstaka hótel sem ég ætla svo sannarlega að heimsækja næst þegar ég á leið um.
Ég get sagt ykkur margar sögur frá Amberg en læt nægja í þetta sinn að segja að minn elskulegi elskaði að gista hjá fegurðardrottningunni og heimtaði alltaf að við gistum í tvær nætur.
Segi ef til vill fleiri sögur frá Amberg seinna.
![]() |
Minnsta hótel í heimi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.7.2008 | 15:16
Barist við Kerfil, stórlaxa og snarvitlausa ferðalanga
Hér vex kerfill meðfram sveitaveginum og finnst mér hann bara til prýði svona snemma sumars þrátt fyrir að ég vildi nú ekki hafa hann hér inn á lóðinni. Nú veit ég ekki hvort ég fer með rétt mál en nota Svíar ekki kerfil til að brugga eðal-líkjör? Alla vega hefur sænsk vinkona mín komið hingað og tínt þetta ,,illgresi" í júní og bruggað drykk sem okkur þykir bara nokkuð góður. Held að hún noti blómin en ekki stöngulinn í seiðinn sem hún hefur síðan gefið okkur að smakka á vetrarmánuðum. Hún notar þetta eins og við notum kirsuberjalíkjör blandað saman við kampavín. Nú verðið þið bara að leiðrétta mig ef ég fer hér með rangt mál en mér finnst endilega að þetta sé hinn illræmdi kerfill sem þeir nota.
Um leið langar mig að smjatta aðeins á fréttinni um stórlaxana sem laxveiðimenn moka upp þessa dagana. Ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina. Glænýr lax út ískaldri bergvatnsá Íslands með nýjum kartöflum og íslensku smjöri. Jammí, jamm....
Hér verðum við að notast við eldislaxinn sem mér finnst algjörlega óætur!
Skelli mér bara heim með næstu vél eða þannig. Vonandi enginn snarvitlaus Breti með í för sem þolir ekki við inní vélinni og ræðst á hurðina og heimtar að fara út.....
Þannig er nú það gott fólk, vandlifað hér í henni veslu okkar.
![]() |
Ráðist til atlögu við kerfil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.7.2008 | 08:04
Þetta fer allt einhvern veginn, þó sumir efist í dag.
Getur þetta bara verið rétt sagði vinkona mín í algjöri hneykslan við mig hér um daginn?
-Hvað ertu að tala um spurði ég.
- Ég borgaði 130.- tékkapeninga fyrir eitt hvítvínsglas eða sem svarar 650.- ísl. kr. og sama fyrir einn bjór!
-já vinkona þetta er rétt verð, en ítrekaði við hana að hún hefði setið á fjölfarinni götukrá í miðbænum, þar sem verðið væri dálítið hærra en í úthverfum.
-ja hérna sagði hún, það er af sem áður var þegar krónan var ein á móti tveimur hér í Tékklandi.
Þessi sama vinkona mín hafi komið hingað frá Köben og tilkynnti mér um leið og hún kom hingað að hún hefði bara ekkert verslað í kóngsins Köbenhavn, allt hefði verið svo hrikalega dýrt.
Ég brosti aðeins út í annað og hugsaði: ja ekki held ég að þú gerir nein góð kaup hér heldur vinkona þar sem krónan er nú 5,4 á móti tékkapeningnum.
Við hér höfum fundið fyrir verðbólgunni eins og allir aðrir og á meðan 40% aukning er í verslun ferðamanna á Íslandi má segja að samsvarandi lækkun sé hér í Evrópu. Hótelin keppast við að koma með lág tilboð þar sem nýting er í lágmarki miða við árstíma og útsölur hafa aldrei verið eins góðar og nú en jafnvel það dugar ekki til.
En þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem verðbólgan hræðir fólk upp úr skónum og verðum við ekki að hafa þá trú að öldurnar fari að lægja svona smátt og smátt. En á meðan þá bara heimsækjum við ,,útlendingarnir" okkar góða gamla Ísland og lifum eins og kóngar í ríki okkar.
Er á meðan er.
![]() |
Ferðamenn hafa aldrei eytt meiru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.7.2008 | 14:51
Engin hafði úthald til að taka næturvaktina eða standa bakvakt.
Hvert flýgur tíminn? Við sitjum eftir með ljúfar minningar en vitum ekkert hvað varð um þessa daga, vikur eða mánuði. Ég er alveg klár á því að næst þegar ég lít upp verða bara komin jól svo hratt líða þessir sumarmánuðir.
Í morgun kvöddum við rithöfundinn okkar hann Halldór og eiginkonu hans Önnu en þau hjónin eru búin að vera ábúendur í Listasetrinu undanfarnar sex vikur. Takk fyrir kæru hjón að leyfa okkur að njóta nærveru ykkar þessar vikur og velkomin aftur hvenær sem er. Vonum að dvölin hafi verið ánægjuleg hér í litla setrinu okkar.
Nei það er ekki hægt að segja að hér að Stjörnusteini ríki einhver lognmolla. Við erum búin að eiga notalega daga hér líka með kærum vinum okkar, Elsu og Kristjáni sem komu hingað fyrir viku og gistu hér síðustu daga ferðarinnar en ég kvaddi þau hér fyrir rétt rúmum hálftíma þar sem leið þeirra lá heim til Íslands. Hér hefur verið mikið spjallað, hlegið og heimsmálin kryfjuð til mergjar undanfarna daga enda æskuvinir þar saman komin.
Við vinkonurnar komumst samt að þeirri niðurstöðu að eitthvað væri nú úthaldið farið að gefa sig þar sem hvorug okkar stóð næturvaktina fyrr en í gærkvöldi og aldrei neinn á bakvakt heldur þessa daga. Við köllum það að vera,, á vaktinni" þegar við gátum setið til morguns og blaðrað um allt og ekkert hér í gamla daga og að vera á ,,bakvakt" var það kallað þegar einhver vaknaði um miðja nótt til að fylgjast með gangi mála. Jamm eitthvað er nú farið að slá í okkur eða eigum við e.t.v. að kalla þetta þroska fullorðinsáranna. Humm... gæti hugsast.
Nú er sem sagt komin ró yfir Stjörnustein í bili. Það eina sem heyrist hér nú er dirrindí úr hreiðrum smáfuglanna og notalegt skrjáfið í laufum trjánna sem bærast hér í andvaranum.
Það er líka stundum gott að vera einn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.7.2008 | 10:31
Þögnin safnar kröftunum saman.
Að heilsast og kveðjast það er lífsins saga og hefur mér gengið bara all bærilega undanfarin ár að kveðja án þess að vatna músum. En í morgun gat ég ekki haldið aftur af tárunum þegar ég kvaddi litlu frændsystkinin mín. Enn sit ég hér og á svo rosalega bágt inn í mér. Það er þungbúið bæði úti og inni. Sjálfvorkunnin alveg að drepa mig.
Ég veit svo sem að það er annað og meira sem veldur þessu táraflóði en ætla ekki að fara út í þá sálma hér núna enda engin ástæða til að bera á borð fyrir ykkur eitthvað kerlingavæl. Nú tekur maður bara á honum stóra sínum og drífur sig í verkefni dagsins sem bíða hér ófrágengin.
Ég ætla líka að fara eftir stjörnuspá dagsins, sem ég yfirleitt tek nú ekki mark á en einhvern vegin á hún svo vel við daginn í dag. Hún hljóðar svona:
Þegar maður sinnir stóru verkefni er orkan tvístruð. En það er bara tímabundið ástand. Þú þarft að staldra við og íhuga. Þögnin safnar kröftunum saman.
Og það er einmitt það sem ég ætla að fara að gera núna, staldra við og íhuga og safna kröftum úr þögninni.
Bíð ykkur öllum góðan og bjartan dag í sál og sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.7.2008 | 10:11
Tékkar eru sjálfstæð þjóð og hræðast ekki lengur
Um leið og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Tékklands, Karel Schwarzenberg og Condoleezza Rice skrifuðu undir samninginn um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Tékklandi blésu kaldir vindar um hundrað turna borgina Prag.
Þrátt fyrir lítil sem engin mótmæli hér í borginni höfðu sumir á orði að veðurguðirnir sýndu glögglega að þetta væri viðburður sem vert væri að taka eftir. Tékkar eru að því leiti líkir okkur Íslendingum að þeir trúa á veðurguðina og fara mikið eftir því hvernig vindar blása þegar stórviðburðir gerast. Eins og við eiga þeir líka óteljandi málshætti þar sem veður og vindar segja til um ókomna framtíð.
Tékkar eru þjóð sem bjó undir oki kommúnismanns í fimmtíu ár og létu yfir sig ganga kúgun og niðurrif og þau ár gleymast aldrei. Tékkar eru friðsöm þjóð og vinnusöm sem í dag eru á góðri leið með að verða eitt fremsta ríki V- Evrópu.
Uppbyggingin sem orðið hefur hér á undanförnum árum er ótrúleg og þeir eru stoltir af því að vera í dag sjálfstætt ríki sem stendur á eigin fótum. Þeir áunnu sér fljótlega, eftir flauelsbyltinguna hylli allra vestrænna þjóða og hræðast ekki lengur stóra bróður í austri.
![]() |
Saka Rússa um þrætugirni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það er nú ekki oft sem tækifæri gefst til að halda míní fjölskyldusamkomu hér að Stjörnusteini og hvað ég elska það að hafa fólkið mitt hér þegar færi gefst. Bæjarrotturnar mínar komu aftur hingað í sveitasæluna í gær með börnin og slegið var upp veislu hér í garðinum. Egill okkar og Bríet komu með Elmu Lind, Ingi og Thelma með dúllurnar sínar tvær Elínu Helgu og Kristínu Helgu en þau eru hér í heimsókn núna.
Að fylgjast með þremur litlum dúllum, ein ný orðin eins árs, önnur tíu mánaða og síðan ömmustelpan mín átta mánaða var ekki óskemmtilegt og sjá hvað börnin stækka og þroskast ört á stuttum tíma. Sú elsta hljóp hér um allt í göngugrindinni, sú í miðið rétt gat ýtt sér aftur á bak en mín stutta bara sat og lét fara vel um sig þó litlu tásurnar væru auðsjáanlega að reyna að spyrna í stéttina.
Óli lék við hvern sinn fingur enda tók Egill hann á fótboltaæfingu. Fimm ára guttinn leit ekkert smá upp til stóra frænda sem einu sinni var markmaður í drengjalandsliðinu. Þið hefðuð átt að sjá aðdáunarsvipinn þegar Egill sagði honum að Eiður Smári hefði byrjað að sparka bolta í garðinum okkar í Traðarlandinu þá jafn gamall Óla í dag.
Elín Helga hélt sig aðeins fyrir utan þessa leiki en fékk auðvitað líka tilsögn frá stóra frænda enda hún orðin svo mikil dama, níu ára pæjan.
Grillið brást ekki hjá mínum elskulega og fóru allir saddir og þreyttir áleiðis til Prag þegar líða tók á daginn.
Verð að bæta því hér við að þegar Kolbrún Eva var sett í göngugrindina í morgun liðu ekki nema fimm mínútur þar til mín var komin á fleygiferð hér um veröndina. Maður má varla snúa sér við þá eru þau búin að læra eitthvað nýtt. Bara krúttlegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.7.2008 | 23:00
Hamingjuríkið Ísland!!!!!
![]() |
Ramses farinn af flugvellinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)