22.2.2008 | 20:23
Samfélagið brást 158 einstaklingum
Eftir kvöldmatinn settum við Syndir feðrana í DVD spilarann en þá heimildamynd höfðum við keypt í fríhöfninni á leiðinni heim. Það var átakanlegt að hlusta á sorgarsögu þessara manna vitandi það að um leið bjó maður sjálfur í hlýjum heimkynnum foreldra og hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast innan veggja þessa ,,heimilis" að Breiðuvík. Ég man að ef einhver hafði orð á því að þessi eða hinn hefði verið í Breiðuvík var sneitt fram hjá viðkomandi, þetta voru ,,vandræðabörn" og maður skildi forðast alla umgengni við svoleiðis líð.
Guð minn góður hvað þessir drengir máttu þola og enginn hreyfði legg né lið. Í dag eru 25% af þessum drengjum látnir. Sjálfsagt hafa nokkrir komist áfram í lífinu af eigin ramleik en síðan eru þeir sem hafa alla tíð barist við óttann við lífið. Sumir fallið mörgum sinnum í djúpa gryfju og aldrei komist upp en aðrir krafsað í bakkann og hafið betra líf, sem betur fer.
Ég ber mikla virðingu fyrir þessum mönnum sem fram komu í myndinni og Kastljósi á sínum tíma og þeir eiga alla mína samúð. Það þarf mikla áræðni til þess að koma fram fyrir alþjóð og opna sárar minningar eftir svo mörg ár.
Stakk mig dálítið þegar ég las um skýrslu nefndar sem fjallaði um starfsemi Breiðavíkurheimilisins.
Samfélagið hefur brugðist!
Draga má lærdóm af þessu máli!
Málið enn í rannsókn!
Málið gæti hugsanlega verið fyrnt!
NEFNDIN STARFAR ÁFRAM AÐ ÞESSUM MÁLUM!!!
Þetta segir okkur aðeins eitt, málið er dautt.
Grátlegt að heyra annað eins frá prófessor í félagsráðgjöf og hennar nefndarmeðlimum!
![]() |
Draga má lærdóm af Breiðavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2008 | 12:34
Mig vantar einhvern til að sparka duglega í rassinn á mér
Ég hefði betur pantað tíma á heilsuhæli áður en ég fór að heimsækja ykkur þarna uppi á Íslandi og farið beinustu leið af flugvellinum þegar ég kom heim og á hælið.
Dagur eitt (í gær) átti að vera á morgunverðarfundi og síðan í Lunch, nennti ekki að vakna um morguninn og nennti síðan ekki á fætur fyrr en upp úr hádegi. Hringdi þó og afboðaði komu mína með lélegri afsökun. Segi ekki einu sinni hver hún var!
Dagur tvö og ég er hálfnuð að taka upp úr töskunum, búin að fara tíu ferðir upp og niður stigann í þeim tilgangi að klára dæmið en finn mér alltaf eitthvað annað að dunda við. Skoða myndir sem teknar voru í ferðinni, klappa hundinum í stað þess að baða greyið, hann er grútskítugur núna, fara yfir blöð og bæklinga, setjast við tölvuna, opna og loka pósthólfinu af því ég nenni ekki að svara öllum þessum pósti.
Fer út og horfi yfir landareignina, anda djúpt, kominn tími fyrir vorhreingerningu úti, nenni ekki einu sinni að fara með ruslið eða athuga póstkassann. Sit með kaffibollann og glápi út í loftið og velti fyrir mér á hverju ég eigi nú að byrja. Húsið er á hvolfi, föt, skór, töskur, blöð, drasl allstaðar og hússtýran mín í fríi!!!! Enginn matur í ísskápnum en það er svo sem allt í lagi við erum á detox hér, eða það er það sem ég segi sjálfri mér því ég nenni ekki út að versla inn í matinn.
Og allt er þetta ykkur þarna heima að kenna. Maður er gjörsamlega búinn á sál og líkama eftir þessa þrekraun að sækja ykkur heim. Hálfur mánuður sem fer í það að éta sig til óbóta, ég tala nú ekki um að skemmta fólki frá morgni til kvölds.
Svefnvana vaknaði maður,( af því að það hafði verið svo gaman kvöldið áður) og var mættur í morgunkaffi, dreif sig síðan í hádegismat sem stóð til kl.2 eða 3, eftirmiðdagskaffi,( sem venjulega var hjá aldraði móður minni af því ég er svo góð dóttir), kokteill hér eða þar og síðan var skverað sig upp til að mæta með bólgna fætur og þrútið andlit í kvöldverð sem stóð langt fram á morgun. En svona án gríns þetta var rosalega skemmtileg ferð en þið öll sem stóðuð fyrir þessum uppákomum skuluð fá þetta allt í hausinn næst þegar þið komið að heimsækja okkur. Þá hef ég stjórn á hlutunum og það verður sko ekki nein elsku mamma.
OK þetta var bara eins og fínasta vítamínsprauta svo nú get ég haldið áfram að hlaupa hér á milli hæða og sjá hverju ég kem í verk fyrir kvöldið áður en minn elskulegi birtist í dyrunum. Læt hann kaupa eitthvað í kvöldmatinn á leiðinni heim. Hætt í detoxinu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2008 | 10:15
Einn góður með morgunsopanum
Vinurinn hringdi í æskuvininn og spurði frétta
Æskuvinurinn ,, Nú bara allt ágætt"
Vinurinn: ,, er ég að trufla þig"
Æskuvinurinn: ,, ha, nei, nei ég er bara að hugsa um heimilið"
Vinurinn: ,,Nú hvar er konan, erlendis"?
Æskuvinurinn: ,,Nei, hún er heima, bara svona að dúlla sér"
Vinurinn: ,,Nú OK, og þú að hugsa um heimilið?"
Æskuvinurinn: ,, Jamm, ligg hér bara uppí sófa og hugsa um heimilið"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2008 | 16:23
Eitthvað hljóta þessar endalausu vegaframkvæmdir að kosta.
Þetta er nú ekki nýtt af nálinni og nákvæmlega þessa hugmynd viðraði ég við samferðamenn mína þegar við vorum að keyra til Keflavíkur í fyrradag. Svörin sem ég fékk voru eitthvað á þá leið að kostnaður væri of mikill og fjöldi ferðamanna ekki nægur til að lestarkerfi borgaði sig.
Eins og þetta lítur út í dag er vegurinn stórhættulegur og þrisvar urðum við að fara út af aðalbrautinni vegna vegaskemmda, að ég held eða framkvæmdir liggja niðri tímabundið vegna þess að verktakinn fór á hausinn. Eitthvað í þá áttina voru svörin við heimskulegri spurningu minni. Eitthvað hljóta þessar endalausu vegagerðir að kosta. Jarðýta stóð utan vegar ein og yfirgefin og við fengum þær upplýsingar að tækið væri svo gamalt og úr sér gengið að það borgaði sig ekki að selja það og allt of kostnaðarsamt að fjarlægja gripinn. Ýtan er víst búin að vera þarna í langan tíma og verður örugglega á sama stað þegar ég kem heim næst.
![]() |
Vilja láta skoða möguleika á lestarsamgöngum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2008 | 11:08
Home sweet home
Við kvöddum föðurlandið í fyrradag í slydduveðri eftir tvær frábærar vikur með fjölskyldu og vinum. Á leiðinni yfir hafið fann ég það út að það er þrekvirki að fljúga með stútfullan maga af Íslenskum kræsingum og nokkrum kílóum þyngri.
Þrátt fyrir allt átið heima hafði ég það af að henda í körfu í flughöfninni hangikjöti, flatkökum, páskaeggjum og öðru góðgæti áður en ég yfirgaf landið og þar sem ég er ekkert sérlega hrifin af flugvélamat fyllti ég nestispoka með Jumbó samlokum svona,, in case" ef ég yrði svöng á leiðinni. Þetta er jú þriggja tíma flug og ekki gott að verða hungurmorða yfir Atlandshafinu. Samlokurnar komu sér reyndar vel þar sem sessunautar mínir, minn elskulegi og vinkona okkar sem var á heimleið til Vínar hjálpuðu mér aðeins við að hesthúsa þessu.
Við hjónin ,,hvíldum" okkur svo í einn sólarhring. Spásseruðum í kóngsins Köben og héldum áfram að borða, nú danskar kræsingar alveg þar til við stigum upp í vélina til Prag seint í gærkvöldi.
Það var svo gott að koma heim. Fyrsta sem minn elskulegi gerði var að fá sér brauð með dönskum ál og majó Síðan tók hann allt íslenska nammið, með mínu samþykki og faldi það einhvers staðar og ég ætla ekki einu sinni að reyna að leita að því.
Það voru tvær örþreyttar sálir sem lögðust á koddann og tvær vellíðunar stunur bárust út í nóttina.
Fyrsta sem mér datt í hug í morgun var: Hvar finn ég svona Detox stöð, nei bara jók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2008 | 14:35
Muu, mjá, meee og allur pakkinn í morgun
Í dag er afa og ömmu dagur og farið var með litla Þóri Inga í Húsdýragarðinn í morgun. Hænurnar tóku feikna vel á móti okkur svo og kisa litla. Barnið áttaði sig nú ekki alveg á öllu þessu svona í byrjun enda er maður aðeins 16 mánaða. En þegar við komum í fjósið í annað sinn var mikið fjör þar sem beljur bauluðu á básum og litli guttinn lifnaði allur við. Þá var ákveðið að fara annan hring og krakkinn var dreginn á milli fjárhúss og gripahúsa þar til hann var gjörsamlega uppgefinn.
Ekki létu nú afinn og amman þar við sitja því þeim langaði sjálfum svo mikið að skoða Skautahöll landsmanna og drógu krakkaræfilinn með sér yfir bílastæðið í fljúgandi hálku yfir að þessari miklu ,,höll" Jahérna, ekki fannst okkur nú þetta merkilegur staður. Svellið sjálft er svo sem allt í lagi en umgerðin er hroðaleg! Þvílíkur druslugangur! OK, þá er ég búin að sjá þetta og ekki orð um það meir.
Eftir skemmtilegan morgun lúllar minn hér úti í fríska loftinu og dreymir örugglega mee, muuu og öll hin dýrin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.2.2008 | 13:24
Splass, gluggi brotinn og enginn heyrir neitt

![]() |
Hættulegur strokufangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2008 | 16:19
Endurfundir hjá ,,Rósunum"
,, Nei, hæ gaman að sjá þig. Rosalega lítur þú vel út, hefur bara ekkert breyst!" þetta glumdi í eyrum mér þegar ég kom inn á veitingastað í gærkvöldi þar sem ,,Rósirnar" hittust aftur eftir næstum 20 ár. Guð, nú verð ég mér til skammar hugsaði ég þar sem ég hengdi kápuna mína upp og bjóst til að ganga í salinn þar sem þessi föngulegi leikfimishópur frá Djassballettskóla Báru stóð í hnapp og knúsuðu hvor aðra.
Ég er alveg rosalega ómannglögg og nú var enginn elskulegur til að hvísla að mér hver væri hvað. Sem betur fer gekk þetta stórslysalaust og ég gat komið saman andlitum og nöfnum án þess að klikka áberandi mikið.
Það voru ungar og hressar konur sem byrjuðu saman að hoppa undir leiðsögn Báru fyrir hartnær þrjátíu árum og héldu hópinn í mörg ár. Farið var reglulega í ferðir innanlands og haldnar árshátíðir.
Nú voru það nítján hressar kellur sem komu saman og rifjuðu upp skemmtilegar minningar. Eftir matinn voru teknar léttar æfingar svona til upprifjunar en hér skal ekki sagt frá hæfni eða úthaldi. Ákveðið var að taka upp reglulegar gönguferðir ,,aldraða" svo það er búið að endurvekja ,,Rósirnar" hennar Báru. Ég lofaði að mæta þegar ég ætti leið hér um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2008 | 14:55
Að deyja ekki ráðalaus
![]() |
Reykingahús úr snjó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2008 | 14:35
Var búin að gleyma hversu beljandinn getur orðið rosalegur.
Veðrið sem gekk yfir landið um síðustu helgi aftraði för okkar til Akureyrar á föstudaginn þar sem flug lá niðri. Í stað þess að mæta á frumsýningu á Flónni hjá LA sem við vorum búin að hlakka mikið til að sjá hættum við okkur út í brjálað veður um kvöldið og mættum holdvot og veðurbarin á frumsýningu Íslensku Óperunnar á föstudagskvöldið.
Klukkan átta á laugardagsmorgun vorum við, litla fjölskyldan að sunnan mætt á Reykjavíkurflugvelli í annað sinn og náðum að komast norður með fyrstu vél. Litla Elma Lind lét okkur svo sannarlega hafa fyrir sér enda stóð mikið til þar sem skíra átti prinsessuna þennan sama dag.
Athöfnin fór fram í Laufási og séra Jón Helgi bróðir séra Péturs heitins skírði barnið í Guðs nafni. Hátíðleg stund í litlu kirkjunni að Laufási og enginn vafi á að vinur okkar, séra Pétur var með okkur þarna og vel viðeigandi þegar sungið var í lokin sálmurinn hans, Í bljúgri bæn.
Eftir athöfnina var öllum kirkjugestum boðið í kvöldmat að gömlum og góðum sveitasið.
Egill minn og Bríet og þið öll hin á Grenivík og Laufási takk fyrir skemmtilegar samverustundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2008 | 01:01
Stórsigur Sigrúnar Pálmadóttur í kvöld! Bravo!
Sigrún Pálmadóttir brilleraði sem Violetta í uppfærslu Íslensku Óperunnar á La Traviata Verdis í kvöld. Ég hef sjaldan verið viðstödd önnur eins fagnaðalæti hérlendis enda frábærir listamenn sem tróðu upp á fjölum Óperunnar.
Frumsýningagestir fylltu húsið þrátt fyrir skaðræðisveður og mikil stemmning ríkti á sýningunni. Fagnaðarlætin í lok sýningarinnar þar sem fólk klappaði, stappaði, hrópaði og bravoaði ætlaði hreinlega að rífa þakið af gamla góða Bíóhúsinu okkar.
Sigrún Pálmadóttir var stjarna kvöldsins, engin spurning. Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tómas Tómasson voru líka frábærir í hlutverkum Alfredo og Giorgio. Skemmtileg uppfærsla hjá Jamie Hayes. Hamingjuóskir til allra sem stóðu að þessari sýningu og vonandi líður ekki á löngu þar til við getum boðið öllu þessum glæsilegu listamönnum upp á stærra og betra tónleikahús. Bravo!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2008 | 12:42
Fór næstum því á límingunni yfir 50 centum
Ég vissi betur en hélt samt í þetta litla hálmstá að reykingabarinn á Kastrup, þessi eini sem leyfði reykingar síðast þegar ég fór þar í gegn, hefði aumkvað sig yfir okkur strompana en mér varð ekki að ósk minni.
Það er nú svo einkennilegt að ég hef ekkert fyrir því að fljúga reyklaus, hugsa ekki einu sinni út í nikotin tyggjóið sem ég hef alltaf í handtöskunni en um leið og ég er lent kemur þessi hræðilega þörf fyrir smók. Þar sem ég og minn elskulegi vorum millilent í Köben og tveir tímar í næsta flug gúffaði ég upp í mig tyggjói og tuggði með áfergju.
Til þess að dreifa huganum fór ég í búðarráp. Í matvörudeildinni hendi ég í körfu nokkrum vel völdum hlutum og þar sem ég var ekki með neina danska aura þá spyr ég hvort ekki sé hægt að borga með Euro. Ekkert var sjálfsagðara, en þegar á að gefa til baka vill ekki betur til en svo að daman á enga skiptimynt og spyr hvort ég sé nokkuð með klink á mér. Ég segi svo ekki vera og frussa út úr mér,, geturðu ekki athugað í hinum kassanum hvort ekki sé til mynt þar." Nei, hún mátti ekki opna þann kassa hann var ekki hennar. ,, Jæja vinkona, og hvað ætlar þú þá að gera, gefa mér afslátt?"
Þegar hér var komið er minn elskulegi kominn í nokkra metra fjarlægð frá þessari brjáluðu kerlingu. Auðvitað endaði það með því að ég gafst upp, og fór í fússi frá kassanum 50 centum fátækari!
Minn elskulegi: Hvað er eiginlega að þér manneskja, þetta voru skitin 50 cent !
Ég: Já og hvað með það, rétt er rétt, ég bara læt ekki bjóða mér svona.
Minn: Heyrðu við förum nú ekki á hausinn út af þessu
Ég: Mér er bara alveg skítsama, þetta er alþjóða flugvöllur og lágmark að það sé skiptimynt í kassafjöndunum.
Minn: Jæja elskan, er sígarettuþörfin alveg að fara með þig?
Ég: Nei, ég er bara rosalega þyrst og með það strunsa ég að næsta bar. Viltu eitthvað að drekka? (Venjulega er nú það minn maður sem sækir drykki á barinn en ekki ég.)
Minn: Já vatn með gasi
Ég: Vatn! Jæja þú getur svo sem drukkið þitt vatn en ég hafði nú hugsað mér eitthvað aðeins sterkara.
Þar sem ég er sest með glasið mitt aðeins farin að róast innra með mér. Sjálfsagt var tyggjóið farið að hafa áhrif segi ég:
Heyrðu, heldurðu að við getum ekki bara flogið VIP næst?
Minn: Ha hvað meinarðu?
Ég : Jú sjáðu til, Margrét Þórhildur reykir enn svo það er örugglega hægt að fá inni í þessu reykherbergi hennar ef við fljúgum VIP.
Mér var ekki svarað. Kallað út í vél. Þriggja tíma flug heim og ég gat huggað mig við það að næsta kast kæmi ekki fyrr en í flughöfninni heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.2.2008 | 23:20
Erum á leiðinni heim að hitta eina af hamingjusömustu íbúum Evrópu
Nú fer að styttast í það að ég geti knúsað ykkur öll þarna í Hamingjulandinu ja alla vega ykkur sem ég kem til með að hitta næstu tvær vikurnar. Ég hlakka mest til að dekra litla skriðdrekann minn hann Þóri Inga allan tíman eins og almennilegar ömmur eiga að gera. Það verður knúsað og kjassað, leikið og hlegið, dansað og sungið, lesið og horft á Bubba byggir allt í einni bunu.
Við höldum héðan á morgun til Kaupmannahafnar og síðan þaðan heim í norðangarrann. Egill okkar og Bríet eru farin heim á undan því nú stendur mikið til. Það á skvetta vatni á Elmu Lind, litlu prinsessuna okkar og koma barninu í kristinna manna tölu. Verður það gert við hátíðlega athöfn í kirkjunni að Laufási á laugardaginn. Bara svo þið vitið það norðanmenn, þá verðum við á Grenivík um næstu helgi.
Vegna mikilla eftirspurnar um að fá að berja okkur augum og fá að njóta okkar einstöku skemmtilegheita tilkynnist það hér með, ykkur sem alltaf eruð á síðustu stundu að panta tíma hjá okkur, að öll kvöld eru fullbókuð en þó eru nokkur hádegi enn laus. Við gætum líka e.t.v. troðið örfáum aðdáendum okkar inn á milla mála. NB verð í Kringlunni á mánudaginn milli fimm og sex við rúllustigann til hægri og gef eiginhandaráritanir, ekki í úlpu en gæti verið í skepnunni, (það er pelsdruslan), fer svona eftir veðri og vindum.
Veit nú ekki hvort mikill tími gefst til skrifta vegna anna í skemmtanalífinu en ég reyni að henda inn einni og einni færslu ef þrek og tími gefst. Þetta er nefninlega algjör kleppsvinna að kíka á ykkur greyin mín. Fer venjulega beint á heilsuhæli þegar ég kem heim. Þið þarna sem skiljið ekkert, þá er heima Prag og heim er Hamingjulandið Ísland.
Kveðja inn í nóttina héðan að heiman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.2.2008 | 11:39
Já sumir eru vitgrannir aðrir einfaldlega heimskir
Já fólk er misjafnlega vel upplýst. Sat með fyrrverandi kennslukonu frá henni stóru Ameríku um daginn og hún fór að spyrja mig um landið okkar og þjóð. Vissi greinilega mjög lítið, taldi það væri hulið ís og hrauni og þ.a.l. að það væri næstum óbyggilegt.
Spurningar á við: Er hægt að fljúga þangað? Hvernig komist þið að milli staða? Notið þið hestvagna? Eru moldargólf í húsunum ykkar? Og í framhaldi þessarar spurningar: Eru nokkur Mall? (típískur Ameríkani) Fleiri spurningar allar jafn fáráðlegar fylgdu í kjölfarið. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að taka þessu. Var konan að grínast eða var hún bara svona illa upplýst?
Vinkona mín önnur sem sat þarna með okkur og hefur heimsótt landið okkar hló í hálfkæring og reyndi eftir megni að gefa svör. Ég get svarið það, þarna sat ég, heimskonan á móti henni (ekki í úlpu og ekki í Channel dragt) og gapti eins og hálfviti á þetta furðuverk sem á móti mér sat og var algjörlega kjaftstopp (það skeður ekki oft) þar til ég eiginlega sprakk í loft upp og næstum hvæsti á kennarann:
Heyrðu vinkona, nú skal ég segja þér eitt. Við búum í torfbæjum, með ekkert rafmagn. Við notum langelda til að halda á okkur hita og við lepjum dauðan úr skel. (man nú ekki hvernig ég bögglaði þessu síðasta út úr mér á enskunni) Hesturinn flytur okkur á milli staða og við erum með sleða og hunda á veturna. Sumir búa í snjóhúsum með lyftu. Þegar við fluttum hingað fyrir sautján árum kynntumst við fyrst menningarþjóðfélagi. Happy ?!!!!!!!!
Eftir þessa ræðu stóð ég upp og færði mig yfir á hinn enda borðsins og hélt mér þar í hæfilegri fjarlægð frá þessari kerlingu það sem eftir var borðhaldsins. Ég er ekki enn búin að ná mér eftir þessa furðulegu uppákomu.
NB. Þessi saga er dagsönn!
![]() |
Breskir unglingar halda að Churchill sé sögupersóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2008 | 17:52
Furðuheiti manna og dýra
Ég þoli ekki nafnið mitt. Þessu var klínt á mig þriggja mánaða gamalli og það eina sem ég gat gert til að mótmæla var að grenja hástöfum og af einskæru tillitsemi við mína nánustu hef ég ekki viljað gera stórt mál vegna þessa klúðurs sem gerðist fyrir miðja síðustu öld.
Dýranöfn geta líka verið afskaplega villandi. Þegar við bjuggum í Fossvoginum fyrir allmörgum árum flutti fólk í götuna fyrir ofan okkur og mér vitandi áttu þau tvo unglingsstráka og eina litla dömu. Á hverju kvöldi heyrði ég í frúnni þar sem hún stóð úti á svölum og kallaði hástöfum ,, Ragnar Magnús komdu að borða!"
Eftir nokkra mánuði hittumst við, ég og þessi tiltekna frú svo ég fer að spyrja hana hvað börnin séu gömul og hvað þau heiti. Fékk ég að vita að drengirnir hétu Jón og Páll, man það nú ekki svo glöggt núna en dóttirin héti Þórhildur.
,, Aha og eigið þið svo þriðja strákinn?"
,,Ha nei bara þessi þrjú"
Ég hugsaði, ekki er hún að góla á kallinn sinn á hverju kvöldi svo ég spurði:
,,Nú en hver er Ragnar Magnús?"
,, Æ það er kötturinn okkar"
Eftir að ég heyrði um þetta furðuheiti kattarfjandans þá hætti ég að furða mig á öllum afbrigðilegum nöfnum hvort sem það voru dýra eða mannanöfn.
![]() |
Piu og Sven hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)