9.3.2008 | 01:04
Fengu hláturskast
Írskir vinir okkar, sem við sátum með í kvöld skemmtu sér vel þegar ég sagði þeim frá fréttinni um söngbannið á þeirra fræga lagi ,,Danny Boy" á St. Patricks Day á Manhattan. Þau gjörsamlega veltust um af hlátri og höfðu aldrei heyrt annað eins bull. Að þetta fræga lag væri sungið við jarðafarir er þvílík firra að það nær engu tali.
En svona geta menn droppað upp með skemmtilegar hugmyndir til þess eins að koma sér á framfæri. Gott hjá þessum knæpueiganda, það verður örugglega brjálað að gera hjá honum á St. Patricks Day, ekki spurning.
![]() |
Danny Boy bannaður á degi heilags Patreks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.3.2008 | 09:40
Heldrimannaíþróttin
Eins gott að passa sig þegar maður fer að slá í vor. Golf er þvílík heldrimannaíþrótt að það nær engu tali. En skemmtileg samt.
Bannað að vera í Blue Jeans, (þykir einfaldlega hallærislegt)
Bannað að vera í stuttbuxum, (gæti ruglað karlanna í púttinu, stuttpils OK)
Bannað að vera í strigaskóm, (ekki nógu fínt, takkaskór úr leðri, takk fyrir)
Bannað að spila nema maður hafi rétta forgjöf, ( truflar aðra atvinnukylfinga)
Bannað að ganga á vissum völlum, rándýrir bílar til leigu (snobbliðið)
Bannað að slá kúlunni í átt að fuglum, gæti hitt óvart og þá beint í steininn (bull)
Mig er samt farið að hlakka til að slá kúluna þrátt fyrir allar þessar reglur. Ekkert er eins aflappandi og góður hringur á vellinum þ.e.a.s. ef maður nær að hitta boltann.
![]() |
Í fangelsi fyrir fugl? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.3.2008 | 08:54
Sorgleg staðreynd
Hvað er það sem kallar á okkur að flytja aftur heim, jú fjölskyldan, vinirnir og sterk þjóðerniskennd sem bindur okkur við landið okkar. Ég býst við því að flestir mundu vilja flytja heim ef þess væri einhver kostur en því miður er það bara ekki svo auðvelt þá sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk sem er rétt að byrja að koma undir sig fótunum.
Dóttir okkar sem bjó með sinni fjölskyldu erlendis í nær átta ár flutti heim í fyrra. Þau voru ein af þeim heppnu, áttu sína eigin íbúð og fengu góða vinnu bæði tvö. Það var sem sagt ekkert basl framundan og þau hlökkuðu mikið til að vera nálægt fjölskyldu og vinum.
Ef þú spyrð þau í dag hvernig þeim líki heyrir þú smá hálfkæring á milli orðanna. Jú, margt er gott annað er ekki svo gott. Bæði í 100% krefjandi vinnu og barnið í leikskóla, aðeins eins og hálfs árs gamall. Nánast engin tími fyrir venjulegt fjölskyldulíf vegna þess að þau eru útkeyrð þegar heim er komið. Það er engin amma eða afi til að létta undir og gefa þeim smá frí inn á milli. Hvernig verður þetta þegar drengurinn stækkar og fer að krefjast meiri tíma.
Ég yrði ekkert hissa ef þau tækju þá ákvörðun að flytja aftur erlendis, í alvöru tala. Þetta er sorgleg staðreynd og þau eru ekki ein í þessari stöðu. Fjöldinn allur af velmenntuðu fólki getur ekki hugsað sér að fara heim til þess eins að þræla sér út og láta börnin sín sitja á hakanum.
![]() |
Ekkert vit í að flytja til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.3.2008 | 14:48
7 - 9 - 13 og síðan allt búið
Já þetta datt mér í hug, það er algjör vitleysa að vera að drolla þetta. Veit nú samt ekki hvort minn elskulegi samþykkir þetta svona einn tveir og þrír en næst þegar ,,messað" verður hér þá er það ekki spurning ég verð á klukkunni og 7 - 9 - 13, allt bú!
Asskotans vitleysa er þetta og þó?
![]() |
Kynmök taki sjö til þrettán mínútur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.3.2008 | 12:21
Bráðfyndinn bæjarstjóri
Jæja vinur, nú skalt þú bara halda í líftóruna. Mér er alveg sama hvernig þú gerir það en þú vogar þér ekki að hrökkva upp af. Það er nefnilega ekkert pláss í kirkjugarðinum.
Við getum svo sem holað þér hér utan garðs en erum skíthrædd við að þú takir þá upp á því að ganga aftur og hrella bæjarbúa og það viljum við ekki, svo þú skalt bara verskú tóra þar til við gefum þér grænt ljós lagsmaður.
Hvernig og hvar hefur hann hugsað sér að framliðnir taki út refsinguna, á himni eða jörð?
![]() |
Gjörið svo vel að deyja ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2008 | 09:21
Með brenndan rass og ,,hraustlegt" útlit það var málið
Að synda í sínum eigin svita og engjast undir brennandi hitalömpum, lítandi á teljarann,, fer þessi tortúr ekki að verða búinn" er ekki alveg minn tebolli í dag. Skal þó viðurkenna að ljósabekki notaði ég hér áður fyrr eins og margur annar án þess að hafa hugmynd um skaðsemi þessara undratækja.
Þarna lá maður í 30 til 40 mínútur nb. er að tala um fyrir svona 30 árum, fullviss um það að þetta væri hollt fyrir líkamann og svo fékk maður svo ,,hraustlegt" útlit og sá ekki eftir krónu sem fór í þetta svitasund. Stóð upp með hvíta hringi í kringum augun og brenndan rass og leit út eins og geimvera en alsæl, því daginn eftir fengi maður eitthvað á þessa leið: Vá hvað þú lítur vel út, hvert ferð þú í ljós?
Ég held líka að hreinlæti hafi ekki verið upp á marga fiska á þessum árum. Jú, maður átti að þrífa lýsið eftir sig með pappírsþurrku það var allt og sumt. Ég er viss um að sumir hunsuðu þetta svo maður bara lagðist í uppþornaðan svita sem blandaðist síðan manns eigin, nema maður þrifi bekkinn áður svona in case. Fólk lá líka þarna á Evu og Adamsklæðum einum saman af því það máti ekki sjást rönd. Hugsa sér annað eins. Oj bara
Sumar fjölskyldur sem voru í góðum efnum áttu sína eigin ljósabekki en þeir voru þannig að maður varð að snúa sér við á tíu mín. fresti, hehehhehe þvílík fyrirhöfn, að nenna þessu.
Nei, sem betur fer er nú komin herferð gegn þessum ,,líkkistum"
![]() |
Einn ljósatími eykur hættu á krabbameini um 22% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.3.2008 | 15:07
Þetta verður hrikalega langur föstudagur
Man ekki betur en þetta hafi alla tíð verið svona á okkar landi. Ef útivistaveður var ekki skaplegt varð maður bara að hanga inni allan daginn og bíða...... Passían í útvarpinu og allir með helgislepjusvip á andlitinu.
Okkur krökkunum var bannað að spila á spil og stranglega bannað að hlusta á ,,okkar" tónlist en viti menn, við máttum fara á skíði ef veður og færð leifði. Það þótti nefninlega alveg sjálfsagt að skemmta sér á skíðum og þar mátti hlægja og skrækja af hjartans list. En um leið og maður var kominn inn í hús var byrjað að sussa á mann og maður minntur á hvaða dagur væri.
Var þá bara þessi hátíðleiki innanhúss? Ojú ætli það bara ekki. Við, á mínu bernskuheimili vorum ekkert kristnari en hver önnur fjölskylda en einhverra hluta vegna var þessi siður í hávegum hafður og það var alltaf fiskur í matinn, það bara tilheyrði. Ojæja, við vorum þó ekki látin fasta.
![]() |
Bingó bannað á ákveðnum tímum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2008 | 15:44
Veðurofsinn var ekkert lamb að leika sér við
Vindhviðurnar sem gengu hér yfir mið Evrópu á laugardag og sunnudag voru ansi skarpar og fimm eða sex Íslendingar sem ætluðu að mæta á Góu-gleðina í Vínarborg treystu sér ekki út í veðurofsann og þá er nú mikið sagt þegar landinn situr heima vitandi af góðum mat og frábærri skemmtun.
Í veðrinu sem gekk hér yfir um helgina létust fimm manns í Austurríki, fimm í Ungverjalandi og tveir hér í Tékklandi. Það er Guðs mildi að ekki urðu fleiri stórslys svo vitað sé.
En það er skemmst frá því að segja að síðbúið Þorrablót Íslendinga í Austurríki og nágrannalöndunum fór einstaklega vel fram. Mættu þar um 60 manns í góðum gír og hámuðu í sig súrmetið og skemmtu sér langt fram eftir nóttu að góðum Íslenskum sið. Stórsöngvararnir Einar Thorlacius og Ásgeir Ágústsson héldu uppi fjöldasöng og gamanyrðum við mikinn fögnuð landa sinna þess að milli sem þeir tóku lagið að sinni einstöku snilld.
Þökkum ykkur Vínarbúar fyrir frábært kvöld í góðra vina hóp.
![]() |
Lá við flugslysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2008 | 21:46
Góugleði í Vínarborg um helgina
Nú er bara að henda ofan í tösku og drífa sig við sólarupprás til Vínarborgar. Síðbúið Þorrablót verður haldið á laugardaginn með öllu stöffinu sem því tilheyrir. Við, ég og minn elskulegi tökum með okkur síld og annað góðgæti úr sjónum fyrir þá sem ekki vilja éta brosandi kjamma, súrmeti og hlandfisk.
Hér stóð það borð saman sem fult er með nógleik allra krása eins og í Máríusögu, - að einni krás undanskilinni: ætum mat. H.K.L.
Íslendingar búsettir í Austurríki og nágrannalöndum fjölmenna á hátíðina enda Íslendingar sem búa í Vínarborg, fólk sem kann að skemmta sér og öðrum með söng og skemmtilegheitum, ekkert vesen. Við erum farin að hlakka til að hitta alla aftur og rifja upp gömul kynni.
Eftir aðeins tveggja og hálfs tíma keyrslu héðan frá okkur erum við sest inn í stofu hjá Sendiherrahjónunum en þar gistum við alltaf þegar við skreppum yfir. Þau eru algjörir höfðingjar heim að sækja og vonandi tekur Sveinn fyrir okkur nokkur lög á flygilinn áður en við skellum okkur í glauminn.
Ég ætla að skilja tölvudrusluna eftir heima í umsjá Erró og hússtýrunnar svo það verður þögn á mínu bloggi fram á þriðjudag. Hafið það öll huggulegt yfir helgina og njótið samvistar við þá sem ykkur er kærast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2008 | 14:04
Listasetrið Leifsbúð í Tékklandi
Fundur var haldinn hjá Leifsbúðarnefnd þegar við rákum inn nefið síðast. Nefndin léttir okkur mikið alla vinnu í sambandi við val listamanna og úthlutun á setrinu. Veit eiginleg ekki hvernig við færum að án þessa góða hóps.
Hér í sumar og fram í nóvember er von á frábærum listamönnum sem dvelja hér hjá okkur í nokkrar vikur í senn. Það er aðeins einn mánuður óbókaður fram í nóvember og er það mars-apríl. Hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því ,er viss um að einhver droppar inn þessar vikur.
Það er mikill heiður að fá alla þessa góðu listamenn hingað og ómæld ánægja að geta veitt þessa þjónustu til handa löndum okkar. Í sumar koma hingað ritöfundar, tónlistamenn og myndlistamenn svo það verður litskrúðugur hópur sem dundar sér hér í sveitinni okkar næstu mánuði.
Sigga, Leifur, Þorkell, Barbara, Kjartan, Sirrý, Þráinn g Sólveig þakka ykkur vinir mínir fyrir ykkar miklu aðstoð og vinnu. Fáum aldrei fullþakkað ykkar ómetanlegu hjálp. Stórt knús á ykkur öll!
Leyfi ykkur að fylgjast með þegar fram líða stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2008 | 08:59
Kveðja inn í daginn til systur minnar
Áður en ég helli mér út í hversdagsleikann á þessum fallega vormorgni sendi ég systur minn Önnu Siggu bestu afmæliskveðjur. Njóttu dagsins mín kæra með fjölskyldu og vinum. Væri alveg til í að kíkja í Miðstrætið í kaffi en það bíður betri tíma enda örugglega nóg um gestagang hjá þér í dag.
Knús á þig, krakkana og Rikka og varið vel með ykkur elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2008 | 18:54
Fyrsta, önnur og þriðja position
Lögreglan í Timisoara dansar nú á hverju götuhorni eftir glymjandi Tschaikowsky úr Ipodinum. Pligée og allar positionir teknar eftir kúnstarinnar reglum enda allir búnir að fara á ballettnámskeið.
Einn vörður laganna tekur sig til og skellir sér í táskóna og dansar Svanavatnið af mikilli innlifun svo umferðahnútar myndast við hringtorg borgarinnar. Kollegi hans sér að þetta er að fara út í algjöra vitleysu og þeysist út á eyjuna við torgið til að bjarga málunum. Sér hann ekkert annað í stöðunni en að taka nokkur þeysistökk úr Hnotubrjótnum.
Ökumenn eru nú farnir að ókyrrast, sumir komnir út úr bílunum en aðrir þeyta hornin. Enginn kemst lönd né leið fyrir dansandi lögregluliði og hvað er þá hægt að gera í stöðunni annað en njóta sýningarinnar og klappa síðan léttfetum lof í lófa að sýningu lokinni. Allir hvort sem er orðnir of seinir á sitt stefnumót og þetta eru jú verðir laganna sem þarna eru að troða upp og ekki skammast maður út í þá eða hvað?
![]() |
Lögreglumenn læra ballett |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.2.2008 | 17:08
Seyðfirðingurinn síungi er sextugur í dag og tekur væntanlega á móti bikar Þorparanna
Nú er ekki seinna vænna en en skvera sig í betri buxurnar og mæta í sextugsafmæli ársins! Gísli vinur minn og bloggari Blöndal er sextugur í dag og ef það hefur farið fram hjá ykkur þá er hátíð á Organ núna klukkan fimm. Ef ég þekki minn sæta strák er hann núna mættur á svæðið og búinn að stilla upp trommusettinu með stórhljómsveitum landsins. Hann lofaði gestum að hann myndi berja kjuðunum í húðirnar í kvöld.
Væntanlega verður honum afhentur bikar Þorparanna, með mikilli viðhöfn að hætti þeirra ágætu vina okkar sem kalla sig þessu skemmtilega nafni en þeir voru allir saman í JC fyrir ,,miljón" árum eða svo. Bikar þessi er afhentur á stórafmælum og hefur gengið mann frá manni síðan fyrsti Þorparinn hélt upp á sitt fertugsafmæli og er sagan skráð á þennan merkisgrip. Skemmtileg hugmynd hjá strákunum á þeim tíma.
Asskoti að missa af þessu öllu en ég skála hér með fyrir þér Gísli minn og njóttu kvöldsins í faðmi fjölskyldu og vina. Knús og kossar á þig héðan frá Stjörnusteini.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2008 | 11:12
Með komu Góu vorar innra með mér.
Í tilefni konudagsins og vorkomunnar.
Má ég hugsa um þig, spurði hann.
Já, sagði hún.
Alltaf? spurði hann.
Ekki í dimmu, sagði hún, en þegar sólin skín. Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Heimsljós. Fegurð himinsins.
Lítil fluga suðaði við eyra mér og vakti mig snemma í morgun. Vorið er komið hugsaði ég eða var mig að dreyma? Létt klapp á öxlina, minn elskulegi að kveðja áður en hann hélt til borgarinnar. Heyrði í svefnrofunum að hann væri búinn að laga kaffi og það væri tilbúið úti á veröndinni og hundurinn væri strokinn eina ferðina enn og hvort ekki væri í lagi að láta hann eiga sig þar til hann kæmi sér sjálfur til föðurhúsanna. Ég klappaði mínum til baka á handlegginn og umlaði eitthvað í þá áttina að það væri í lagi.
Um leið og útihurðinni var lokað glaðvaknaði ég og hristi svefndrungann úr kollinum. Hvað sagði maðurinn, kaffi á veröndinni? Ég skellti mér í slopp, niður stigann og viti menn vorið var komið, eða alla vega leit allt þannig út.
Spörfuglarnir sungu frygðarsöngva í trjánum, morgunsólin vermdi andlit mitt og kaffið kraumaði á vélinni í útieldhúsinu okkar. Mig hafði sem sagt ekki verið að dreyma. Fyrsti dagur í Góu, Konudagurinn og vorboðinn ljúfi farinn að syngja.
Nú sit ég hér og nýt þess að drekka fyrsta morgunsopann minn hér úti. Hundspottið er kominn heim og liggur hér við fætur mér örþreyttur eftir langa morgungöngu og ekkert því til fyrirstöðu að byrja á vorverkunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.2.2008 | 22:57
Sápustríðið herjar á fleiri stöðum
Sá þessa undarlegu frétt ef frétt skildi kalla í morgun og af því að hún hangir enn inni (skil ekki hvað er málið) þá langar mig til að upplýsa ykkur um það að nú er að skella á sápustríð um gjörvalla Evrópu. Allir sem vettlingi geta valdið hella sér í stórþvotta með Ariel Ultra, Ariel Mountain og Ariel Color. Sápulöðrið flæðir hér hvarvetna úr hýbýlum manna svo fólk á fótum sínum fjör að launa og kerlingar standa kófsveittar yfir þvottavélum og suðupottum og sést ekki til sólar fyrir mjallahvítum þvotti sem blaktir hér í vorgolunni eins og gunnfáni við hvert heimili.
Jú, jú hér fóru þeir líka hamförum, Proctor & Gamble og bjuggu til fjöll af þessu undra þvottaefni í öllum helstu stórmörkuðum Tékklands. Hvað er svona merkilegt við það? Stórfrétt í Mbl. tekið beint úr Aftenposten. Sápustyrjöld yfirvofandi! Halló það vita allir sem hafa haft einhver kynni af Norðmönnum að þeir elska sitt OMO og fara nú varla að skipta um tegund eins fastheldnir og þeir eru.
Ég skildi þessa herferð hér ósköp vel vegna þess að í dag flæðir inn í landið allskyns hreinlætisvörur sem Tékkar hafa litla sem enga þekkingu á svo fyrir mér var þetta ósköp eðlileg sjálfsbjargarviðleitni af hálfu P & G.
Þegar við komum hingað 1991 var aðeins hægt að fá eina tegund þvottaefnis, man nú ekki hvað það hét en flestir keyptu bara þessa gömlu grænsápu svo og það sem við kölluðum Sólskinsápu þegar ég var að alast upp. Mörg heimili suðu sína eigin sápu og hér var enginn sóðaskapur á heimilum. Tékkar eru mjög þrifin þjóð og hvergi voru eins hreinar gardínur fyrir gluggum og hér. Allir áttu eins gardínur og allar voru þær mjallahvítar. Sápa var munaðarvara og ef þú komst inn á almenningssalerni þá var sápan í neti sem var kirfilega fest við vegginn, stundum með hengilás.
Einu sinni spurði ég konu hér hvert ég gæti farið með fötin mín í hreinsun. Hún hafði aldrei heyrt um fatahreinsun svo ég spurði ,, Nú hvað gerir þú þá við t.d. jakkaföt mannsins þíns?" ,,Ég þvæ þau í höndunum heillin" svaraði hún og brosti svo skein í skemmdar tennurnar. Svona var nú þetta 1991 en hvort Arial eða Persil kemur til með að koma á einhverri sápustyrjöld hér það stórefa ég.
Datt þetta bara svona í hug þegar ég sá þessa bjánalegu frétt um yfirvofandi sápustríð í Noregi
![]() |
Nýtt sápustríð yfirvofandi í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)