4.12.2007 | 13:35
Málið vakti mikinn óhug hér á sínum tíma
Þegar litla sonardóttir okkar fæddist hér í Prag sl. október hafði ég ekki heyrt um þetta mál og það vakti athygli mína, varúðarreglur spítalans. Um leið og hún kom í heiminn var syni mínum rétt rautt sótthreinsandi efni og hann beðinn um að rita nafnið hennar á annað lærið. Einnig var hún með þetta venjulega plastarmband með nafni og fæðingardegi.
Síðan þetta mál kom til sögunnar hafa öryggisreglur spítalanna hér verið stórbættar enda sorglegt að eitthvað þessu líkt geti komið fyrir.
![]() |
Tékknesk stúlkubörn aftur til foreldra sinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 11:46
Síðan á að set´í þetta aðeins bara kíló pipar
Þessar laglínur eru búnar að klingja í höfðinu á mér í morgun á meðan ég flatti piparkökudeigið,, út á fjööööl!" Varð hugsað til áranna þegar krakkarnir og ég skemmtum okkur við piparkökuskreytingar. Þvílíkt sullumsull. Jólaög sungin fullum hálsi um Gunnu á nýju skónum og Jólasveininn sem kyssti mömmu.
Ég erfði þetta líka forláta rúllukefli frá mömmu minni sem auðvelt var að rúlla yfir deigið og útkoman: jólasveinar, jólatré, bjöllur, stjörnur og mánar. (hvað ætli hafi orðið um það kefli?) Allt var þetta síðan skreytt með gulum, rauðum, grænum og hvítum glassúr og allir kepptust við að láta listræna hæfileika sína framkallast sem best á kökunum. Oft var rifist um þegar sagt var: ,, þessa gerði ég" þá heyrðist: ,, nei ég gerði þessa"
Dýrmætar minningar og skemmtilegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 09:22
Heimþráin gerir vart við sig - er eitthvað svo blue
Ég get varla sagt að ég hafi fengið heimþrá öll þessi ár okkar hér fjarri heimalandinu en þar sem ég sat og fletti blaði landsmanna með morgunkaffinu helltist þetta bara yfir mig sí svona.
Ég saknaði þess allt í einu að komast ekki á Jólatónleika, ekki það að hér geti ég ekki hlýtt á fallega tónlist í hundrað turna borginni en það eru svo ótal margir tónleikar í gangi heima sem ég gæti hugsað mér að hlýða á og ég las einhvers staðar að það væru yfir 100 tóleikar í gangi núna á aðventunni.
Ég gæfi mikið fyrir að geta dólað mér í svona klukkutíma inn í góðri bókaverslun og gluggað í jólabækur, rölt niður Laugarveginn og fá mér kaffitár með dóttur minni. Já ætli það sé ekki það sem kemur þessari heimþrá af stað. Undanfarin ár hefur dóttir okkar búið í London en er nú komin aftur heim með fjölskyldu sína og í gær hringdi hún í mig og var að fara að baka smákökur með vinkonum sínum og mikil jólastemmning í gangi.
En það þíðir ekki að súta þetta, ég bara skelli mér núna í að skreyta húsið og panta mér miða á Hnotubrjótinn og málinu er reddað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2007 | 23:43
Jólakort, kertaljós og jólalög fyrsta sunnudag í aðventu
Það voru börn í Bretlandi um miðja 19. öld sem byrjuðu að búa til jólakort og senda vinum og ættingjum, ja eða svo segir sagan. Yfirleitt voru þetta ljóð sem börnin settu niður á pappír og myndskreyttu síðan.
Handgerð jólakort eru fáséð í dag því miður, en alltaf slæðist þó eitt og eitt í póstkassann okkar. Ég dáist að fólki sem gefur sér tíma til að handgera jólakortin sín en þetta gerði maður jú hér í den í barnaskólanum og lagði sig allan fram til að hafa þau sem fallegust, glasmyndir og glimmer var alveg toppurinn.
Jólakortavinir okkar eru margir og um hver jól ætla ég að skera aðeins niður en það hefur gengið frekar illa hingað til. Ef ég tek einn út bætist bara annar við svo fjöldinn breytist lítið frá ári til árs. Ég er ansi hrædd um að þetta sé þannig hjá flestum sem á annað borð senda jólakveðjur.
Jólakveðjur eiga líka að vera persónulegar og skrifaðar með vinarþeli og hlýju. Hverjum finnst gaman að fá kort sem er prentað Gleðileg Jól, farsælt komandi ár, Jón og Gunna. Ekki mér. Fólk sem sendir svona kveðjur á bara að sleppa því. Annað sem sumir hafa tekið upp á er að senda jólakveðjur á aðfangadag í tölvupósti. Halló!
Jæja nóg um það. Hér er jólapósturinn langt kominn og ég naut hverrar mínútu í dag að sitja við skriftir og hugsa til hvers og eins þegar penninn þaut yfir kortin. Virkileg jólastemmning í húsinu þar sem jólatónlist og flöktandi kerti gerðu þetta að hátíðarstund fyrir mig á meðan minn elskulegi horfði á enska boltann í sjónvarpinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 13:40
Tvær rannsóknir að mínu skapi
Nú geta karlar hætt að þusa yfir því að við konur förum öðru hvoru á trúnó. Ég hef alltaf sagt að þeir séu ekkert betri, þeir laumupokast einfaldlega bara miklu meira með þetta en við. Láta svo eins og þeir hafi verið að bjarga heiminum en eru bara að ,,kjafta" sín á milli.
Að við konur séum duglegri við húsverkin er engin ný bóla en gott að þetta er nú orðið skjalfest svo maður getur vitnað í án þess að hugsa sem svo: ,,æ grey kallinn hann er nú líka duglegur við þetta eða hitt" Það tók minn elskulega nokkur ár að finna rafmagnssnúruna í ryksugunni. Fann hana ekki fyrr en dóttir okkar benti honum snyrtilega á að hún væri ,,inni í" græjunni.
![]() |
Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 12:13
Mikið má þakka barnalánið
Tárin leituðu ósjálfrátt í augnkrókana þar sem ég sat við matarborðið á laugardaginn og horfði á fallegu fjölskylduna mína samankomna. Barnabörnin okkar tvö Elma Lind, sem var að koma í fyrsta skipti í heimsókn til afa og ömmu, Þórir Ingi alla leið frá Íslandi, börnin okkar tvö og tengdabörn. Amma Sóley frá Grenivík og Ingunn frænka. Mikið fannst mér við vera rík!
Þar sem þakkargjörðarhátíðin var senn á enda fór vel á því að þakka fyrir barnalánið og þá blessun sem fylgir velgengni í lífi og starfi. Afinn stóð sig að sjálfsögðu vel í eldhúsinu og kalkúninn rann ljúffenglega niður með tilheyrandi stuffing og gúmmelaði. Kærkomin stund með fjölskyldunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 11:37
Fékk víðáttubrjálæði á flugvellinum og amma alveg búin á því!
Það var tómlegt að koma heim í gærkvöldi eftir að hafa keyrt Ömmustrák á flugvöllinn. Engin hlátur eða grátur, engin sem æddi hér um húsið á litla bílnum sínum eða snerist eins og skopparakringla umhverfis hundinn. Ég var búin að gleyma hvað þessi aldur er rosalega skemmtilegur. Alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Mikið eigum við eftir að sakna þín litli stúfur.
Barnið fékk víðáttubrjálæði þegar við komum á flugvöllinn þar sem aðeins ein vél var að fara í loftið á þessum tíma og flugstöðin hálf tóm. Amma varð að hendast um alla flugstöðina á eftir þeim stutta þar sem hann hljóp frjáls ferða sinna og hélt þessa líka ræðu á sínu eigin tungumáli sem enginn skildi á meðan foreldrarnir bókuðu farangurinn inn. Það var erfitt að sjá á eftir þeim heim í þetta skiptið þar sem jólin nálgast óðum og þau ekki hér um hátíðarnar. En ferðin heim gekk vel og við sjáumst fljótlega aftur ekki seinna en í febrúar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 10:42
Okkur gleymist stundum að þakka.
,,Við lifum í landi þar sem að minnsta kosti mataráhyggjurnar eru ekta, þar sem flestir álíta að ekkert skifti máli nema þær" segir í Strompleik Laxness. Mikill sannleikur í þessum orðum því heimurinn hefur lítið breyst, því miður.
Þakkargjörðarhátíðin finnst mér vera fallegur siður. Að fylgjast með hvernig fjölskyldur reyna eftir fremsta megni að sameinast á einum stað þrátt fyrir að haf og lönd skilji að alla jafna. Við sem eigum nóg að bíta og brenna, heilbrigði og góða fjölskyldu meigum þakka fyrir það af heilum hug. Það eru ekki allir svo lánsamir því miður.
Um helgina ætlar hópur vina okkar frá Ameríku að sameinast á veitingastaðnum okkar og halda hátíðlega uppá daginn. Sumir eru svo heppnir að fá hluta af fjölskyldunni yfir hafið og þannig er það einmitt líka hér í okkar litlu fjölskyldu. Í kvöld koma þau fljúgandi yfir hafið dóttir okkar og fjölskylda og fyrir það erum við þakklát.
![]() |
Fátækum ekki boðið upp á kalkún í New York |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 09:30
Ömmustrákur er að koma fljúgjandi yfir hafið
Mikið hlakka ég til að knúsa litla kútinn minn í kvöld. Vona bara að hann muni eftir okkur hér, afa og ömmu í útlandinu. Litla rúmið hans er komið inn í herbergi. Hér fær enginn að búa um það rúm nema ég, það er eins og helgistund þegar ég er búin að slétta sængina og koma öllu fyrir eins og ég vil hafa það. Svona eru nú ömmur einu sinni, algjörlega ruglaðar!
Elsku kútur minn góða ferð yfir hafið. Hér verður hátíð í bæ næstu daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 22:24
Calendar Girl

![]() |
101s árs ellilífeyrisþegi afklæddi sig í þágu í góðgerðarmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 17:26
Yessss...ég hafði það af!
Hún lofthrædda ég hékk í ljósakrónunum í orðsins fyllstu hér í dag. Ástæðan, hreingerningaræði! Ég þakka fyrir að hafa ekki fjárfest í fleiri kristalskrónum hér í landi kristals og glers.
Bara að horfa á stiga þó ekki sé nema eldhúströppurnar fer maginn í hnút og ég sé mig í anda, brotna og lemstraða liggjandi eina og yfirgefna, því auðvitað stend ég alltaf í þessum stórræðum þegar minn elskulegi er fjarverandi. En fyrir þá sem ekki vita er lofthæðin hér yfir 3 metrar og það er fyrir mig eins og að horfa niður í hyldýpi.
Ég skammast mín hálfpartinn fyrir aumingjaskapinn þó allri fjölskyldunni sé vel kunnugt um þessa lofthræðslu mína. En í dag hafði ég þetta af! Ákvað að horfa bara upp aldrei niður og þarna dinglaði ég skjálfandi fram og aftur í nokkrar klukkustundir með hjartað í buxunum. Með kristalsúðann í annarri hendinni og klútinn í hinni hélt ég út darraðardansinn og er stolt af! Verð sjálfsagt að drepast úr harðsperrum á morgun þar sem allir vöðvar spenntust þannig að ég varð að setjast skjálfandi niður af og til. Veit ekki hvort það var af því ég var svona skíthrædd eða bara áreynsla.
En kristalskrónurnar mínar lýsa hér upp skammdegið, hreinar og gljáandi og endurspegla ljósbrotum á veggi í öllum regnbogans litum. Alveg eins og í Pollýönnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 11:09
Fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað öðruvísi...
..og eiga leið um Frönsku-Sviss Þýskalands verða að heimsækja Pflaums Posthotel í Pegnitz. Algjör ævintýraheimur fyrir þá sem hafa áhuga á innanhúsaarkitektúr, og ekki verða matgæðingar sviknir þar sem eldhúsið er frábært.
PPP hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar síðan 1707. Listamaðurinn og innanhúsaarkitektinn Andreas Pflaum rekur það í dag ásamt bróður sínum sem er listakokkur. Fyrir 30 árum var hótelið endurbætt og fjölskyldan keypti tvö hús við hliðina sem voru samtengd því gamla.
Dirk Obliers innanhúsaarkitekt aðstoðaði vin sinn Andreas Pflaum við að innrétta hótelið á sínum tíma og þar hafa þeir vinir farið á meistaralegt flug. Ekkert herbergi er eins hannað og hvert skúmaskot er nýtt til hins ýtrasta. Sumum gæti þótt nóg um t.d. er bókaherbergið þakið bókum frá gólfi til lofts og þvílíkt og annað eins bókasafn! Allt á rúi og stúi, mig langaði rosalega til að fara og laga aðeins til þarna inni. Mikið er um ranghala í húsinu og minnir dálítið á völundarhús þar sem lýsing og speglar villa manni sýn. Listaverkin eru eins og frosin ofan í gólfin, skúlptúrar og gínur klæddar furðufötum gera andrúmsloftið mjög óvenjulegt og jafnvel dálítið spúkí.
En sjón er sögu ríkari. Ekki láta þetta fara fram hjá ykkur ef þið eruð á leið um þetta svæði! Læt hér fylgja slóðina Info@ppp,com eða www.ppp.com
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 09:50
Ekkert þras eða málalengingar - frábær jólastemmning
Hér á heimilinu hefur alltaf verið dálítill höfuðverkur og pælingar þegar huga skal að jólagjöfum handa fjölskyldunni og við, ég og minn elskulegi ekki alltaf verið sammála um kaupin þannig að oft hefur það dregist langt fram í desember að komast að samkomulagi, eftir málaþras og stundum óþarfa pirring.
En að þessu sinni vorum við eins og einn hugur. Skelltum okkur yfir landamærin og redduðum 98% gjafalistans á mettíma án þess að þurfa að þrasa um einn einast hlut. Frábært, ætli þetta sé aldurinn? Allavega var eitthvað mjög sérstakt í gangi. En nú er spurningin, hvernig falla gjafirnar okkar í kramið hjá krökkunum? Það verður nefnilega ekki auðvelt að skila þessu aftur eftir jól
Úps!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 11:52
Tengdasonurinn á afmæli í dag

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 21:32
Þráinn Bertelsson með nýja bók
Í dag kom út ný bók eftir vin okkar Þráinn Bertelsson og ég og minn elskulegi óskum honum innilega til hamingju. Hér ríkir mikil eftirvænting að fá að líta þetta verk augum og verður örugglega slegist um hver fær fyrstur að lesa.
Ég hef haft það á tilfinningunni að þessi bók eigi eftir að slá í gegn, veit ekki af hverju en stundum fæ ég mjög sterk hugboð sem yfirleitt sannreynast. Þráinn minn til hamingju með ,,skrudduna" þína eins og þú orðaðir það sjálfu hér áðan í póstinum. Held að þetta sé aðeins meira en einhver skrudda heillakallinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)